Forsætisnefnd
FORSÆTISNEFND
Ár 2016, föstudaginn 26. febrúar, var haldinn fundur í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Tjarnarbúð, Ráðhúsi Reykjavíkur, og hófst kl. 11.05. Viðstödd voru Sóley Tómasdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman og Halldór Auðar Svansson. Einnig sátu fundinn Magnús Már Guðmundsson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Helga Björk Laxdal og Linda Sif Sigurðardóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 1. mars nk.
Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
a) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um heildstæða stefnu í aðgengismálum
b) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um samtal við ríki vegna mansals
c) Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata um heildstæða matarstefnu
d) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stækkun athafnasvæðis Víkings
e) Umræða um húsnæðisvandann í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks)
f) Umræða um málefni Grafarvogs (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina)
g) Kosning í borgarráð
h) Kosning í velferðarráð
i) Kosning í menningar- og ferðamálaráð
j) Kosning í mannréttindaráð
k) Kosning í hverfisráð Miðborgar
l) Kosning í hverfisráð Vesturbæjar
m) Lausnarbeiðni Gretu Bjargar Egilsdóttur
2. Lagt fram tölvubréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. febrúar 2016. þar sem óskað er eftir umsögn forsætisnefndar um meðfylgjandi frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarsstjórn).
Svohljóðandi umsögn forsætisnefndar, dags. í dag, samþykkt:
Frumvarpið kveður á um breytingu á 11. gr. sveitarstjórnarlaga, um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Í greinargerð með frumvarpinu er því haldið fram að engin ástæða sé til að löggjafinn þvingi borgaryfirvöld til fjölgunar borgarfulltrúa. Þó er augljóst að lagaákvæði í sveitarstjórnarlögum um lágmarksfjölda og hámarksfjölda fulltrúa eftir íbúafjölda sveitarfélags er einmitt almennt séð ætlað að þvinga sveitarfélög að þessu leyti og setja viðmið um fjölda kjörinna fulltrúa eftir íbúafjölda sem fulltrúarnir geta ekki breytt sjálfir. Með nýjum og endurskoðuðum sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 var bætt við nýju viðmiði fyrir sveitarfélög þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri, og varð lágmarkið þar 23 fulltrúar, en í eldri lögum gilti sama viðmið fyrir öll sveitarfélög með 50.000 eða fleiri íbúum og var lágmarkið í þeim 15 fulltrúar. Í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki gert ráð fyrir breytingu á þessum viðmiðum að öðru leyti en að horfið er aftur til þessa eldra fyrirkomulags. Ekki eru færð sérstök rök fyrir nauðsyn þessarar breytingar önnur en þau að Reykjavíkurborg hafi aldrei séð ástæðu til að fjölga borgarfulltrúum úr 15, utan einu sinni en það hafi skjótt verið tekið til baka. Forsætisnefnd vekur athygli á því að borgarbúum hefur fjölgað úr um 11 þúsund í rúmlega 120 þúsund frá árinu 1908 en fjöldi borgarfulltrúa hefur haldist óbreyttur síðan þá. Auk þess hefur verkefnum sveitarstjórna fjölgað mjög. Þau hafa tekið að sér rekstur grunnskóla, þjónustu við fatlað fólk, frístundaþjónustu og margt fleira. Krafan um að borgarfulltrúar þjónusti borgarbúa og hafi yfirsýn yfir öll verkefni sveitarfélagsins er rík og nauðsynlegt er að aðstæður séu með þeim hætti að borgarfulltrúar geti rækt hlutverk sitt sem skyldi. Forsætisnefnd hefur unnið að mögulegum breytingum á störfum borgarstjórnar og starfsskyldum borgarfulltrúa vegna fyrirhugaðra breytinga á fjölda borgarfulltrúa vorið 2018 og hefur sú vinna meðal annars leitt í ljós að fjölgun borgarfulltrúa þarf ekki að hafa aukin fjárútlát í för með sér. Enda segir um 11. gr. í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 138/2011 að „Reynslan sýnir að í Reykjavík eru fleiri einstaklingar í reynd virkir sem borgarfulltrúar en þeir 15 sem kosnir eru. Almennt hafa varamenn einnig mjög ríka aðkomu að stjórn borgarinnar og skipa iðulega fundi við umræðu um málefni sem þeir þekkja vel eða hefur verið falið að kynna sér. Gera má ráð fyrir að virkir borgarfulltrúar séu í reynd nær 30 en 15.“ Fyrir utan virka þátttöku varaborgarfulltrúa á vettvangi borgarstjórnar er fjöldi kjörinna fulltrúa á vegum flokkanna í fagráðum borgarinnar. Því má segja að með fjölgun borgarfulltrúa sé einfaldlega verið að horfast í augu við þá staðreynd að auknum íbúafjölda og verkefnum hefur nú þegar fylgt aukinn fjöldi launaðra fulltrúa, kjörnum af borgarstjórn en ekki íbúum, þrátt fyrir að formlegur fjöldi kjörinna fulltrúa hafi ekki aukist í tæpa öld. Að uppfæra viðmið í sveitarstjórnarlögum um lágmarksfjölda og hámarksfjölda fulltrúa í takt við íbúafjölgun hlýtur að teljast eðlileg leið til að koma á slíkri fjölgun, fyrst slíkar kvaðir eru fyrir hendi á annað borð. Rétt eins og gildir um önnur slík viðmið í lögum er þeim ætlað að stýra því hvernig tekjustofnar sveitarfélaga eru nýttir og kveða þar á um ákveðnar lögbundnar skyldur. Ef ekki eru til staðar lágmarksviðmið um fjölda kjörinna fulltrúa eða þau í einhverjum tilfellum mjög lág í hlutfalli við íbúafjölda (en hið síðara átti við um Reykjavíkurborg þegar sama lágmark gilti um öll sveitarfélög með 50.000 eða fleiri íbúum) er hætt við lýðræðishalla þar sem skattstofninn er ekki nýttur í þágu fulltrúalýðræðis sem skyldi. Reynsla Reykjavíkurborgar hefur einmitt verið sú að íbúafjöldi hefur aukist verulega undanfarna áratugi og skattstofn hennar vaxið með, en fjöldi þeirra fulltrúa sem íbúar hennar fá að kjósa sér ekki aukist samhliða því. Í þeirri staðreynd einni felast rök fyrir því að eðlilegt sé að löggjöfin sé uppfærð til samræmis við íbúaþróun að þessu leyti.
Áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Halldór Halldórsson, leggur fram svohljóðandi bókun:
Undirritaður tekur ekki undir umsögn forsætisnefndar um frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn), 296. mál, enda styður hann að frumvarpið verði að lögum.
3. Fram fer umræða um sumarbústað borgarstjórnar á Úlfljótsvatni.
4. Fram fer kynning á yfirlitum fagráða um mætingar aðalmanna í nefndir og ráð.
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. febrúar 2016, ásamt fylgiskjölum, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. febrúar 2016:
Lagt er til að fjárheimildir fagsviða og annarra rekstrareininga A-hluta fyrir árið 2016 verði hækkaðar um samtals kr. 735.321.476.- vegna nýgerðra kjarasamninga við Skólastjórafélag Íslands, Félag hjúkrunarfræðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, BHM starfsmatsfélög, BHM félög utan starfsmats og vegna kjaranefndar og borgarfulltrúa.
Vísað til borgarstjórnar.
- kl.11.36 víkur Halldór Halldórsson af fundi.
6. Lagt fram tölvubréf embættis borgarlögmanns, dags. 15. febrúar 2016, þar sem óskað er eftir afnot af sal borgarstjórnar fimmtudaginn 17. mars nk. vegna lögfræðingamóts sveitarfélaga.
Samþykkt.
Fundi slitið. kl.11.50
Sóley Tómasdóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman Halldór Auðar Svansson