Forsætisnefnd
FORSÆTISNEFND
Ár 2014, föstudaginn 20. júní, var haldinn fundur í forsætisnefnd. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.03. Viðstödd voru Sóley Tómasdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson. Einnig sátu fundinn Skúli Helgason, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Halldór Halldórsson og Helga Björk Laxdal sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga forsætisnefndar, dags. í dag, að breytingum á vinnuaðstöðu borgarfulltrúa að Tjarnargötu 12.
Samþykkt.
Halldór Halldórsson, áheyrnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Forsætisnefnd hefur ákveðið að hvert og eitt framboð hafi sameiginlega skrifstofu fyrir sína kjörnu fulltrúa. Um leið og tekið er undir mikilvægi þess að fara sem hagkvæmustu leið varðandi skrifstofuhúsnæði fyrir kjörna fulltrúa leggur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins áherslu á þá afstöðu að borgarfulltrúar þurfa góða aðstöðu starfs síns vegna. Oft þurfa kjörnir fulltrúar að fjalla um trúnaðarmál sem og geyma trúnaðargögn. Þess vegna er afstaða okkar sú að eðlilegt sé að kjörnir fulltrúar hafi hver og einn sína skrifstofu.
Forsætisnefnd ásamt Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, áheyrnarfulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina og Skúla Helgasyni, áheyrnarfulltrúa Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Forsætisnefnd telur þetta hagkvæmustu leiðina til að skapa öllum kjörnum fulltrúum viðunandi starfsaðstöðu og ítrekar mikilvægi þessa að ekki verði farið út í óþarfa fjárútlát vegna þessa.
2. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 20. júní 2014, þar sem fram kemur að forsætisnefnd er falið að undirbúa dagskrá til heiðurs 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi hinn 19. júní 2015.
Frestað.
3. Fram fer umræða um samþykkt borgarstjórnar, dags. 16. júní sl,. um stofnun stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.
Samþykkt að fela skrifstofu borgarstjórnar að hefja vinnu við gerð samþykkta fyrir ráðið.
4. Samþykkt að boða til fundar í forsætisnefnd í lok ágúst til að yfirfara og leggja fram tillögur um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar m.a. vegna boðunar borgarstjórnarfunda.
Fundi slitið kl. 13.45.
Sóley Tómasdóttir
Elsa Hrafnhildur Yeoman Halldór Auðar Svansson