Forsætisnefnd - Fundur 341

Forsætisnefnd

Ár 2024, föstudaginn 19. apríl, var haldinn 341. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:03. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sabine Leskopf. Eftirtalinn áheyrnarfulltrúi tók sæti á fundinum: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Líf Magneudóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal og Bjarni Þóroddsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 23. apríl 2024.
    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:
    a) Umræða um stöðu löggæslumála í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)
    b) Umræða um leikskóla- og daggæslumál í Reykjavík (að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins)
    c) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um áætlun um útfærslu fyrir byggingarfélag Reykjavíkur
    d) Umræða um tjarnir í Reykjavík og umhirðu þeirra (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)
    e) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukin gatnaþrif í Reykjavíkurborg
    f) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu trúnaðar yfir skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur

    -    Kl. 10:10 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga forseta:

    Lagt er til að fyrirkomulag borgarstjórnarfunda þegar ársreikningur Reykjavíkurborgar verður afgreiddur í ár verði með sama sniði og árið 2023. Við fyrri umræðu um ársreikning sem fram fer á fundi borgarstjórnar 7. maí nk. taka einungis oddvitar til máls. Ræðutími þeirra verður rýmkaður í 30 mínútur en að öðru leyti gilda hefðbundnar reglur um fundarsköp. Á dagskrá verður fyrri umræða um ársreikning auk fundargerða. Við seinni umræðu um ársreikning sem fram fer á fundi borgarstjórnar 14. maí er gert ráð fyrir öllum borgarfulltrúum á mælendaskrá og hefðbundnar reglur um fundarsköp gilda. Á dagskrá verður seinni umræða um ársreikning auk fundargerða.

    Samþykkt. MSS24010053

  2. Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 16. apríl 2024, varðandi drög að samningi við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins vegna Reykjavík City Card, ásamt fylgiskjölum.
    Vísað til borgarráðs. MSS23090053

    Fylgigögn

  3. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um athugun á kostum þess að stofna til vonaborgarsamstarfs við borg eða svæði í Palestínu, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 9. janúar 2024. Einnig lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 17. apríl 2024.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar gegn atkvæði fulltrúa Vinstri grænna. MSS24010094

    Fulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Málið og ákvörðunin um að Reykjavíkurborg vingist við borg í Palestínu er pólitísk. Aðstæður hverju sinni kalla á pólitísk viðbrögð og krafan núna um samstöðu og mannúð í Palestínu er rík og aðkallandi. Umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu um tillögu Vinstri grænna er snubbótt og meingölluð. Hún slær því föstu að málið sé flókið og illframkvæmanlegt en horfir fram hjá þeirri staðreynd að víða er hefð fyrir vinaborgasambandi milli palestínskra samfélaga og borga og bæja víða um heim og þá sérstaklega í Noregi. Hæg yrðu því heimatökin að fá leiðbeiningar og ráð frá norskum félögum okkar. Það er vægast sagt kaldhæðnislegt að nota þá truflun sem yfirstandandi átök á svæðinu hafi í för með sér sem rök gegn hugmyndinni á meðan augljóst má telja að þau eru einmitt kveikjan að tillögunni. Það er líka átakanlega dapurt að meirihlutaflokkarnir skýli sér á bak við bjúrókratíska umsögn í stað þess að hafa hugrekki til að taka skýra afstöðu gegn stríði og þjóðarmorði í Palestínu og standa pólitískt með Palestínufólki.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ný alþjóðastefna Reykjavíkur til ársins 2030 var samþykkt í borgarstjórn 20. apríl 2021. Þar kemur fram varðandi samstarf Reykjavíkur á alþjóðlegum vettvangi þá þurfi að leggja fram skýr viðmið um virði við val á verkefnum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Þá sé jafnframt lögð áhersla á marghliða samstarf borga enda felur það í sér meiri ávinning fyrir Reykjavík en annað alþjóðlegt samstarf. Einnig er lögð sú stefna að fjölga ekki vinaborgum borgarinnar en leggja frekar áherslu á verkefnatengda nálgun. Hvorki Gaza né aðrar borgir í Palestínu hafa sýnt áhuga á samstarfi við Reykjavík. Jafnframt er óljóst hvernig slík samningagerð færi fram þar sem allir helstu innviðir samfélagsins á Gaza eru í molum í kjölfar yfirstandandi átaka á svæðinu. Einnig er vert að draga fram að enginn lýðræðislegur vettvangur er á Gaza sem augljós samstarfsaðili, en í mörgum tilfellum hefur ekki verið mögulegt að halda eðlilegar lýðræðislegar kosningar í mörg ár. Framkvæmd að koma á vinaborgarsamstarfi við Gazaborg gæti orðið afar flókið í framkvæmd. Tillagan er því felld.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalista styður tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna um kosti þess að stofna til vinaborgasamstarfs við borg eða svæði í Palestínu. Mikilvægt er að sýna samstöðu með Palestínu.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að fundadagatali borgarstjórnar og forsætisnefndar frá júlí 2024 til og með júní 2025. MSS23010287

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á starfsemi Meet in Reykjavík.

    Kamma Thordarson, Sigurjóna Sverrisdóttir og Oddný Arnarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
    Andrea Jóhanna Helgadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24020034

    -    Kl. 11:34 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Andrea Jóhanna Helgadóttir tekur þar sæti og aftengist fjarfundarbunaði.

  6. Kynning á samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa er frestað. MSS23010278

Fundi slitið kl. 12:02

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 19.4.2024 - Prentvæn útgáfa