Forsætisnefnd - Fundur 340

Forsætisnefnd

Ár 2024, föstudaginn 5. apríl, var haldinn 340. fundur forsætisnefndar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10:06. Viðstödd voru Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf og Stefán Pálsson. Eftirtaldir áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum: Alexandra Briem, Einar Sveinbjörn Guðmundsson og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Magnea Gná Jóhannsdóttir. Eftirtaldir starfsmenn og embættismenn sátu fundinn: Helga Björk Laxdal, Bjarni Þóroddsson og Ólöf Magnúsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram drög að dagskrá fundar borgarstjórnar 9. apríl 2024.

    Forsætisnefnd óskar eftir að eftirtalin mál verði tekin á dagskrá sem sérstakir dagskrárliðir með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar:

    a) Umræða um ferðaþjónustu í höfuðborginni og áhrif hennar á mannlíf, umhverfi og fjárhag (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar)

    b) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um tilraunaverkefni með fimm ára bekki í grunnskóla

    c) Tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að borgin sjái um skiptistöðina Mjódd

    d) Umræða um tækifæri sem felast í innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum Reykjavíkurborgar (að beiðni borgarfulltrúa Vinstri grænna)

    e) Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði varðandi hagræðingu og framtíðarskipulag sviðsins

    f) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu trúnaðar yfir skýrslu um Orkuveitu Reykjavíkur

    g) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að falla frá arðgreiðslukröfu á Orkuveitu Reykjavíkur

    h) Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aukin gatnaþrif í Reykjavík

    i) Kosning í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð

    j) Kosning í skóla- og frístundaráð MSS24010053

  2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. apríl 2024, varðandi veikindaleyfi Trausta Breiðfjörð Magnússonar borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. MSS22090101

     

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. apríl 2024, varðandi launsnarbeiðni Ástu Þórdísar Skjalddal Guðjónsdóttur varaborgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Vísað til borgarstjórnar MSS24010240

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 20. mars 2024, sbr. samþykkt stafræns ráðs frá 13. mars 2024 á ályktun varðandi fyrirspurnir. ÞON24030014

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Réttur kjörinna fulltrúa til þess að kalla eftir upplýsingum úr stjórnkerfi borgarinnar er mikilvægur og óumdeildur, enda órjúfanlegur þáttur af lýðræðislegu hlutverki þeirra. Þó verður ekki orða bundist með það að fjöldi og umfang fyrirspurna sem beinst hafa sérstaklega að sviði þjónustu- og nýsköpunar hefur skapað mikið álag og kallað á mikla vinnu við svörun sem hefur haft veruleg áhrif á eðlilega starfsemi. Þetta gildir sérstaklega þegar um miklar endurtekningar er að ræða. Eins hefur orðalag fyrirspurna og eftir atvikum dylgjur um fagmennsku eða heiðarleika starfsfólks haft mælanleg áhrif bæði á starfsanda á sviðinu og möguleika borgarinnar að ráða starfsfólk. Þegar fyrirspurnum er misbeitt með þessum hætti veikir það þær sem aðhaldsverkfæri og þegar fjöldi þeirra er eins mikill og raun ber vitni, án þess að svo virðist sem svör séu lesin eða tekið mark á þeim og sömu eða svipaðar fyrirspurnir sendar inn ítrekað, rýrir það vægi þeirra. Forsætisnefnd bendir fagráðum og nefndum borgarinnar á þann möguleika að biðja um greiningu á fjölda fyrirspurna, endurtekningar og kostnaði sem fylgir vinnslu þeirra.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins undrast þessa ályktunartillögu. Einhverjar þessara fyrirspurna voru lagðar fram fyrir nokkrum vikum en dregist hefur að svara þeim. Það er því miður svo að stafrænt ráð sinnir ekki þeirri eftirlitsskyldu sem ráðinu ber þegar um er að ræða ráðstöfun á svo háum fjárhæðum sem veitt er til þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Stafrænt ráð virkar í raun sem eins konar „gamaldags stimpil skrifstofa“ sem stimplar áfram allar þær fjárheimildarbeiðnir sem sviðið sækir um hverju sinni gagnrýnislaust. Stafrænt ráð hefur sem dæmi engan verkefnalista í sínum fórum þar sem skráð eru öll verkefni þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem hafa verið samþykkt frá stofnun sviðsins – ásamt því hversu miklum fjármunum var veitt í hvert verkefni fyrir sig, hver staða hvers verkefnis er og svo heildarkostnaður. Þess vegna veit ráðið í raun ekkert hversu miklum fjármunum sviðið hefur eytt í þau verkefni sem samþykkt hafa verið frá stofnun sviðsins. Kvartanir þjónustu- og nýsköpunarsviðs vegna fyrirspurna frá Flokki fólksins eru í raun lýsandi dæmi um raunverulega stöðu gagnalandslags Reykjavíkurborgar í dag. Flestum þessara upplýsinga ætti að vera tiltölulega auðvelt að svara – ef búið hefði verið að koma gagnamálum borgarinnar í viðunandi horf eins og lofað var fyrir mörgum árum í kynningum sviðsins.

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á niðurstöðu könnunar Gallup á trausti til borgarstjórnar.

    Matthías Þorvaldsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. MSS24030071

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn eina ferðina skrapar borgarstjórn botninn þegar traust til stofnana er mælt enda niðurstaðan í samræmi við óánægju borgarbúa með þá þjónustuskerðingu sem þeir hafa orðið fyrir á ýmsum sviðum s.s. í leikskólamálum, sorphirðumálum og samgöngumálum svo fátt eitt sé nefnt.

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar og Viðreisnar ásamt áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn er hástökkvari í þjóðarpúlsi Gallup og hækkar mest allra stofnana.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kannanir hafa sýnt að traust til borgarstjórnar er nánast ekki neitt. Hér er vissulega verið að tala um meirihlutann í borgarstjórn sem hefur öll völd og fellir eða vísar frá tillögum sem koma frá minnihlutanum – og jafnvel kvarta yfir málum frá minnihlutanum, s.s. fyrirspurnum. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ítrekað notið minnst trausts þeirra stofnana sem mældar eru í þjóðarpúlsinum – fréttir af samskiptum, samráðsleysi og óheilindum hafa skemmt mikið. Braggamálið og fleiri mál af svipuðum toga skemmdu fyrir meirihlutanum á síðasta kjörtímabili en í því máli var farið á svig við lög. Borgarbúar eru orðnir langþreyttir á slæmum samgöngum í borginni og ótryggum almenningssamgöngum. Svikin vegna leikskólamála ásamt viðvarandi manneklu í leikskólum og frístundaheimilum borgarinnar hefur valdið barnafjölskyldum miklum erfiðleikum. Það er því ekki skrítið að traustið sé ekki meira en raun ber vitni.

    -    Kl. 11:26 víkur Sabine Leskopf af fundinum.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 11:39

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnea Gná Jóhannsdóttir

Marta Guðjónsdóttir Stefán Pálsson

PDF útgáfa fundargerðar
Forsætisnefnd 5.4.2024 - Prentvæn útgáfa