Ferlinefnd fatlaðs fólks - Fundur nr. 30

Ferlinefnd fatlaðs fólks

Ár 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, var haldinn 30. fundur ferlinefndar fatlaðs fólks. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11.35. Fundinn sátu: Magnús Már Guðmundsson, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Lilja Sveinsdóttir, Ingólfur Már Magnússon, Ragnheiður Gunnarsdóttir, Ragnhildur G. Guðmundsdóttir og Grétar Pétur Geirsson. Fundinn sátu einnig eftirtaldir starfsmenn: Anna Kristinsdóttir, Ólafur Ólafsson og Tómas Ingi Adolfsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt er fram svar umhverfis- og skipulagssvið, dags. 25. janúar 2017, við fyrirspurn frá fulltrúa Öryrkjabandalags Íslands, dags. 9. nóvember 2016, um hljóðmerkjabúnað við gönguljós í Reykjavík.

Hinrik Friðbertsson og Nils Schwarzkopp taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lögð er fram tillaga frá umhverfis- og skipulagssviði, dags. 23. febrúar 2017, um uppsetningu P-merktra bílastæða við leikskólann Seljakot.

Samþykkt.

3. Fram fer umræða um erindi vegna bílastæða fyrir fólk með hreyfihömlun við Breiðholtslaug.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

Ferlinefnd felur mannréttindaskrifstofu að skrifa Framkvæmdasýslu ríkisins bréf og óska eftir að bílastæði á lóð ríkisins milli Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Breiðholtslaugar verði P-merkt næst inngangi við sundlaugina. Borginni og ferlinefnd hafa reglulega borist óskir um að bílastæði næst Breiðholtslaug verði P-merkt en þar sem bílastæðin eru á lóð í eigu ríkisins hefur Reykjavíkurborg eðli málsins samkvæmt ekki umráðarétt yfir stæðunum. Ferlinefnd vekur athygli á að P-merkt bílastæði stæði nýtast fjölbreyttum hópi borgarbúa og annarra sundlaugargesta. Auk þess telur ferlinefnd ástæða til að vekja athygli Framkvæmdasýslu ríkisins á að farið hefur verið í nokkuð umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu í tengslum við opnun líkamsræktarstöðvar við hlið sundlaugarinnar. Ferlinefnd samþykkti jafnframt nýlega fjárveitingu vegna framkvæmda við að útbúa skiptiklefa fyrir fatlað fólk í sundlauginni. Ferlinefnd óskar eftir því að bréf þetta verði sömuleiðis sent skólastjórnendum FB og skólanefnd skólans.

4. Fram fer umræða um bætt aðgengi að sundlaugum í Reykjavík.

Samþykkt að óska eftir því að fá forstöðumenn sundlauga í Reykjavík inn á fund nefndarinnar til að ræða forgangsröðun í aðgengismálum sundlauga.

5. Fram fer umræða um samráðshóp skóla- og frístundasviðs, skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar og umhverfis- og skipulagssviðs. Lagt til að formanni ferlinefndar verði falið að óska eftir fundi með samráðshópnum til að koma á framfæri sjónarmiðum ferlinefndar um upplýsingar vegna aðgengisþarfa nemenda svo nefndin hafi yfirsýn um stöðu mála og að Mannréttindaskrifstofu verði jafnframt falið að ítreka fyrri samþykkt ferlinefndinar, dags, 4. maí 2016, til skóla- og frístundasviðs um sama efni.

Samþykkt.

6. Lögð fram tillaga mannréttindaráðs, dags. 14. febrúar 2017, um aðgengisviðurkenningu Reykjavíkurborgar.

7. Fram fer umræða um tilnefningar í valnefnd vegna aðgengisviðurkenningar Reykjavíkurborgar. Lagt til að Lilja Sveinsdóttir og Snædís Rán Hjartardóttir taki sæti í valnefnd vegna veitingar aðgengisviðurkenningar Reykjavíkurborgar.

Samþykkt.

Fundi slitið kl. 12.46

Magnús Már Guðmundsson

Ingólfur Már Magnússon Lilja Sveinsdóttir

Ragnheiður Gunnarsdóttir Grétar Pétur Geirsson

Bryndís Snæbjörnsdóttir Ragnhildur G. Guðmundsdóttir