Ferlinefnd fatlaðs fólks - Fundur nr. 13

Ferlinefnd fatlaðs fólks

Ár 2015, fimmtudaginn 23. júlí var haldinn 13. fundur ferlinefndar fatlaðs fólks. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:30. Fundinn sátu: Kristín Soffía Jónsdóttir, Arnar Helgi Lárusson, Lilja Sveinsdóttir, Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, Ragnheiður Gunnarsdóttir og Bryndís Snæbjörnsdóttir. Fundinn sátu einnig eftirtaldir starfsmenn: Anna Kristinsdóttir, Magnús Haraldsson og Tómas Ingi Adolfsson sem einnig var fundarritari. 

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á erindi til Mannvirkjastofnunar.

Ingi B. Poulsen tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi tillögu:

Ferlinefnd óskar eftir því að umboðsmaður borgarbúa hefji frumkvæðisrannsókn á útgáfu byggingaleyfa með hliðsjón af aðgengismálum.

Samþykkt.

2. Fram fer kynning á úttekt, dags. 20.7.2015, frá Aðgengi ehf., á aðgengi í Laugardalslaug. 

Harpa Cilia Ingólfsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi tillögu:

Ferlinefnd leggur til að Reykjavíkurborg standi fyrir námskeiðum um þjónustu við fólk með fötlun tvisvar á ári fyrir starfsfólk í þjónustustörfum á vegum Reykjavíkurborgar. Mannréttindaskrifstofu er falið að útfæra slík námskeið fyrir ferlinefnd.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

Lagt er til að fulltrúi umhverfis- og skipulagssviðs vinni áfram með skýrsluna og að kostnaðarmetin aðgerðaáætlun sé lögð fram fyrir fund ferlinefndar.

3. Fram fer kynning á aðgengismálum í Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða í Efstaleiti.

Harpa Cilia Ingólfsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Frestað.

4. Fram fer umræða um aðgengismál í Sæmundarskóla.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

Ferlinefnd leggur til við skóla- og frístundasvið að frístundastarfið í Sæmundarskóla fari fram í skólanum sjálfum en ekki í færanlegum kennslustofum. Það er stefna Reykjavíkurborgar að frístund eigi að fara fram í skólahúsnæðinu sjálfu og verður skóla- og frístundasvið að leysa málefni fatlaðra nemenda í frístundastarfi í skólahúsnæðinu sjálfu. Ekki verður farið í kostnaðarsamar aðgerðir til þess að tryggja aðgengi í færanlegum kennslustofum.

5. Lagt er fram minnisblað, ódags., frá fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs um aðgengi í deildinni Hlíðarenda á leikskólanum Sunnuási.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

Ferlinefnd telur ómögulegt að gera ásættanlegar breytingar á deildinni Hlíðarenda og leggur til að innra starf leikskólans taki mið af þörfum nemenda með því að nýta aðgengilegt húsnæði fyrir þá sem þurfa.

6. Fram fer umræða um nýtt anddyri í Háaleitisskóla.

Breytt útfærsla samþykkt.

7. Fram fer umræða um nýtt ræðupúlt í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi bókun:

Því er beint til hússtjórnar Ráðhúss að nýtt ræðupúlt sé búið palli með stillanlegum lyftubúnaði þannig að hægt sé að stilla hæð á ræðumanni en að púltið sé fast. Óskað er eftir því að endanleg útfærsla verði borin undir ferlinefnd.

8. Fram fer umræða um umsókn ferlinefndar til Velferðarráðuneytisins vegna aðgengisúttekta.

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi tillögu:

Ferlinefnd felur mannréttindaskrifstofu að sækja um auglýstan styrk Velferðarráðuneytisins vegna aðgengisúttekta.

Samþykkt.

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir víkur af fundi kl. 13:10

9. Lögð er fram fyrirspurn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina, dags. 2.7.2015, varðandi aðstöðu fyrir fatlað fólk í sundlaugum Reykjavíkurborgar. 

Ferlinefnd leggur fram svohljóðandi svar við bókun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina:

Unnar hafa verið tvær úttektir á vegum ferlinefndar á þessu ári sem varða sundlaugar borgarinnar. Ferlinefnd mun láta vinna úttektir á þeim átta sundlaugum sem eftir standa á þessu ári. Í framhaldi verður unnin kostnaðar- og aðgerðaáætlun til að bæta aðgengi fatlaðs fólks í sundlaugum Reykjavíkurborgar.

Fundi slitið kl. 13:28

Kristín Soffía Jónsdóttir

Arnar Helgi Lárusson Bryndís Snæbjörnsdóttir

Lilja Sveinsdóttir Ragnheiður Gunnarsdóttir

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir