Endurskoðunarnefnd - Fundur nr. 5

Endurskoðunarnefnd

Endurskoðunarnefnd

Ár 2012, miðvikudaginn 21. mars, var haldinn 5. fundur endurskoðunarnefndar. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12-14 og hófst kl. 10:10 Viðstödd voru: Ólafur B Kristinsson, Sigrún Guðmundsdóttir og Sturla Jónsson.
Fundarritari var Hallur Símonarson.

Þetta gerðist:

1. Kynning áhættustýringarhóps borgarráðs á verkefnum sínum og störfum frá því hann var settur á laggir 8.7.2010 sbr. samþykkt borgarráðs og greinargerð. Ásgeir Westergren, Helgi Bogason, Gísli Hlíðberg Guðmundsson og Birgir Björn Sigurjónsson voru skipaðir í áhættustýringarhóp og mættu þeir ásamt Helgu Benediktsdóttur, deildarstjóra fjárstýringar, á fundinn undir þessum lið og lögðu fram erindisbréf áhættustýringarhóps og minnisblöð.
a. Spurt var með hvaða hætti erindi hafa borist til hópsins: Erindi til áhættustýringarhóps hafa borist frá borgarráði sem og fyrirtækjum í samstæðunni. Formaður borgarráðs (ábyrgðarmaður hópsins) hefur hitt hópinn nokkrum sinnum og þá hefur átt sér stað munnleg upplýsingagjöf. Til þessa hefur hópurinn ekki keypt þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga. Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið mikla umfjöllun í vinnu áhættustýringarhóps.
b. Spurt var um aðdraganda að stofnun áhættustýringarhóps: Seinni hluta árs 2009 óskaði borgarstjóri eftir því að fjármálastjóri fari á fund Orkuveitu Reykjavíkur og kanni fjárhagsstöðu OR vegna ítrekaðra fyrirspurna í borgarráði. Borgarstjóri óskaði eftir því við stjórnendur OR að fjármálastjóri fengi beinan aðgang að bókum fyrirtækisins til þess að framkvæma greininguna. Fyrsta áhættugreining Fjármálaskrifstofu var lögð fyrir borgarráð 15. mars 2010. Í ársbyrjun 2010 fer fjármálastjóri til Kaupmannahafnar til þess að ræða við lánardrottna um endurskoðun á vaxtaálagi á lán Orkuveitunnar. Í kjölfarið eiga sér stað margvísleg samskipti sem leiða til þess að fjármálastjóri gerir það að tillögu sinni við borgarstjóra að settur verði á laggirnar áhættustýringarhópur með skýra stöðu í stjórnkerfinu sem fái formlega þau verkefni sem lýst er í tillögunni. Það var samþykkt í borgarráði 8.7.2010.
c. Spurt var hvort hópurinn hefði unnið að gerð heildaráhættumats fyrir borgarsjóð. Áhættumatsvinna áhættustýringarhóps hefur beinst að afmörkuðum verkefnum sem hópurinn hefur fengið og svo mótun tillagna um áhættustefnu. Áhættumatsvinna Fjármálaskrifstofu hefur beinst að þeim verkefnum sem falla undir fjármálastjórn borgarinnar, þ.m.t. áhættumat vegna fjárhagsáætlunar s.s. tekjuáætlana, og viðkvæmra útgjaldaliða til næsta árs og næstu fimm ára og vegna fjárstýringar og gerð reglna þar um.
d. Helstu viðfangsefni áhættustýringarhóps nú eru:
i. Verið er að rýna drög Fjármálaskrifstofu að meginreglum fjármálastjórnunar og ganga frá tillögum að áhættustefnu sem kynntar verða á fundi fjármálahóps borgarstjóra 20. mars nk.
ii. Unnið er að gerð fjárstýringarreglna.
iii. Nýlega barst hópnum beiðni frá borgarstjóra um að leggja mat á áhættu A hluta borgarsjóðs vegna OR með því að gera sviðsmyndagreiningu þar sem horft verði sérstaklega á vísbendingar um vaxandi verðbólgu, lækkandi gengi og versnandi aðgengi að erlendum gjaldeyri.
iv. Nýlega var beðið um rýningu á mögulegri áhættu vegna fjármögnunar stofnframkvæmda vegna Hörpunnar á fjárhag borgarinnar en nú er sá vandi mestu leystur. Eftir stendur þó áhættan af rekstri.
e. Umræður voru um hvar hópurinn teldi aðrar helstu áhættur lægju í rekstri borgarinnar og var í því sambandi nefnt að mikilvægt verkefni fælist í því að skilgreina bakábyrgðarhluta eigendanna
f. Gögn sem óskað var eftir að áhættustýringarhópur afhendi endurskoðunarnefnd. Öll formleg og óformleg minnisblöð, fundargerðir áhættustýringarhóps frá stofnun og erindi sem borist hafa hópnum. Jafnframt er óskað eftir að fá fyrirliggjandi drög að áhættustefnu og reglum um fjárstýringu.

2. Kynning á uppbyggingu rekstrarhandbókar. Skoðuð voru helstu skjöl og verklagsreglur sem eru komin i gæðahandbók Fjármálaskrifstofunnar. Jónas Skúlason og Guðleif Edda Þórðardóttir gerðu grein fyrir málinu og undir þessum lið sat jafnframt Ólafur Gestsson frá PWC. Nefndin óskaði eftir því að drög að innra eftirlitsbók fjármálaskrifstofu verði afhent nefndinni.

3. Ákveðið að funda með endurskoðunarnefnd Orkuveitu Reykjavíkur.

4. Rætt um fyrirhugaða skoðun á sölu REI á Enex Kína og Envent Holding.

Fundi slitið kl. 12:24

Ólafur B. Kristinsson
Sigrún Guðmundsdóttir Sturla Jónsson