Endurskoðunarnefnd
Endurskoðunarnefnd
Árið 2012, þriðjudagur 17. október, var haldinn 24. fundur endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08.30. Viðstödd voru: Ólafur B Kristinsson, Sigrún Guðmundsdóttir og Sturla Jónsson. Fundarritari var Anna Margrét Jóhannesdóttir.
Þetta gerðist:
1. Samþykkt síðustu fundargerðar.
2. Rætt um verkefnastöðu nefndarinnar.
3. Undirbúningur að sameiginlegu útboði fyrir ytri endurskoðun samstæðu o.fl.
a. Rætt var um undirbúning að sameiginlegu útboði fyrir ytri endurskoðun samstæðu Reykjavíkurborgar í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 12. júlí sl. Á fundinn kom endurskoðunarnefnd OR; Sigríður Ármannsdóttir, Gylfi Magnússon og Ingvar Garðarsson. Einnig mættu á fundinn frá Reykjavíkurborg borgarritari, fjármálastjóri og deildarstjóri innkaupadeildar. Tveir fulltrúar frá innkaupadeild OR mættu einnig á fundinn.
b. Formaður endurskoðunarnefndar gerði grein fyrir aðdraganda að tillögu nefndarinnar um útboð á endurskoðun samstæðunnar. Samningur við ytri endurskoðendur A-hluta Reykjavíkurborgar rennur út í árslok 2013 en samningur við ytri endurskoðendur OR rann út í árslok 2011. Útboðið þarf að taka mið af því. Umræður um innkaupaaðferðir og skilyrði við útboðið voru dregnar saman í sérstaka minnispunkta, merkta trúnaðarmál. Ákveðið var að endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar og OR ásamt innkaupadeildum Reykjavíkurborgar og OR myndu hittast þriðjudaginn 13. nóvember kl. 15.30 og fara yfir framgang þessa verkefnis.
c. Endurskoðunarnefndirnar ræddu um störf sín og áherslur í starfi nefndanna.
4. Uppgjörsferlið. Kynnt voru verkefni sem Innri endurskoðun hefur sinnt á undanförnum árum er varða þætti í uppgjörsferlinu. Nefndin hyggst fara yfir uppgjörsferilinn í tengslum við 9 mánaða uppgjör. Á næsta fundi verður fundað með ytri endurskoðendum og þá farið yfir álit þeirra á gæðum uppgjörsferils Reykjavíkurborgar.
5. Ytri endurskoðendur Reykjavíkurborgar hafa verið boðaðir á næsta fund nefndarinnar 31. október til þessa að kynna endurskoðunaráætlun sína.
6. Ákveðið var að einn nefndarmanna myndi undirbúa umræður um útskiptingu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja. Dregnar skulu fram í minnisblað umræður Evrópusambandsins um reglulega útskiptingu, starfstíma endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja og þau viðmið sem sett eru af hálfu Evrópusambandsins. Einnig var rætt um að áhugavert væri að kynna sér lög um fjármálafyrirtæki og rökstuðning viðmiða um fimm ára útskiptingu endurskoðenda-og endurskoðunarfyrirtækja.
7. Starfandi innri endurskoðandi upplýsti nefndina um að starfandi sé úttektarnefnd borgarstjóra er hafi víðtæk viðfangsefni til skoðunar, sbr. gögn sem afhent voru um hlutverk nefndarinnar. Önnur mál.
d. Rætt um aðkomu endurskoðunarnefndar að því að samþykkja aukaverkefni sem falla ekki undir gildandi samning við ytri endurskoðendur A-hluta borgarinnar. Fram kom að í ráðningarbréfi ytri endurskoðenda fyrir vinnu við ársuppgjör 2012 þyrfti að koma fram að með tilkomu endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar væri eðlilegt að ytri endurskoðendur leggi fram rök fyrir aukaverkefnum og fái samþykki nefndarinnar áður en til þeirra er stofnað. Hér væri um breytingu að ræða frá 5. grein samningsins um endurskoðunarþjónustu fyrir Reykjavíkurborg.
e. Á næsta fundi verður kynnt starfsáætlun Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.
Fundi slitið kl. 12.00
Ólafur B. Kristinsson
Sigrún Guðmundsdóttir Sturla Jónsson