Endurskoðunarnefnd
ENDURSKOÐUNARNEFND
Ár 2021, mánudaginn 23. ágúst var haldinn 223. fundur endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 13:06. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði, með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Lárus Finnbogason, Einar S Hálfdánarson, Sigrún Guðmundsdóttir. Sunna Jóhannsdóttir boðaði forföll.
Fundarritari var Hallur Símonarson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram til kynningar drög að árshlutareikningi Reykjavíkurborgar. fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. júní 2021 IE21080015
Halldóra Káradóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir og Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir hjá fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar taka sæti á fundinum með fjarbúnaði ásamt Sturlu Jónssyni hjá Grant Thornton.
Lögð fram drög að umsögn endurskoðunarnefndar um Árshlutareikning A-hluta og samantekinn árshlutareikning Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar – júní 2021 dags. í dag.
Samþykkt
2. Lögð fram til kynningar drög að árshlutareikningi Félagsbústaða hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 30. júní 2021 IE21080015
Sigrún Árnadóttir og Kristinn Karel Jóhannsson hjá Félagsbústöðum taka sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Sturlu Jónssyni hjá Grant Thornton.
Lögð fram svohljóðandi bókun endurskoðunarnefndar:
Endurskoðunarnefnd fékk kynningu á árshlutareikningi Félagsbústaða og könnunarskýrslu Grant Thornton vegna fyrstu 6 mánaða ársins 2021. Endurskoðunarnefnd telur að árshlutareikningurinn sé tilbúinn til framlagningar í stjórn Félagsbústaða.
3. Lögð fram að nýju beiðni forstöðumanns reikningshalds Orkuveitu Reykjavíkur sef. um umsögn um skipan endurskoðunarnefnda dótturfélaga OR. IE21080012
Lögð fram svohljóðandi bókun endurskoðunarnefndar:
Samkvæmt ársreikningalögum ber stjórn ábyrgð á skipun endurskoðunarnefndar og skal hún skipuð eigi síðar en mánuði eftir aðalfund. Verkefni endurskoðunarnefndar eru m.a. að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila og eftirlit með endurskoðun ársreiknings. Verkefni nefndarinnar eru einnig að setja fram tillögu til stjórnar um val endurskoðenda sem og að meta óhæði þeirra. Í lögunum kemur fram að kjósa skuli sömu endurskoðendur fyrir dótturfélög og móðurfélag sé þess nokkur kostur. Þá er nánar fjallað um verkefni endurskoðunarnefnda í reglugerð ESB nr. 537/2014, um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum en reglugerðin hefur lagagildi hér á landi. Samkvæmt grein 3a í tilskipun ESB 2014/56, sem bíður lögfestingar á Íslandi, kemur jafnframt fram að ekki sé gerð krafa um að endurskoðunarnefnd sé skipuð í dótturfélögum, þrátt fyrir að þau teljist einingar tengdar almannahagsmunum, ef skipuð hefur verið endurskoðunarnefnd í móðurfélagi sem uppfyllir ákvæði reglugerðar ESB nr. 537/2014 og starfar á samstæðustigi. Vinna við reikningsskil innan samstæðu OR er unnin með samræmdum hætti og endurskoðun er unnin af sama endurskoðunarfyrirtæki. Endurskoðunarnefnd OR telur að verulegt óhagræði fælist í því að skipan endurskoðunarnefndar dótturfélaga OR væri með öðrum hætti en hjá móðurfélaginu. Nefndin leggur því til að um sömu endurskoðunarnefnd verði að ræða fyrir þau félög innan samstæðu OR sem skipa ber endurskoðunarnefnd.
4. Lögð fram að nýju beiðni skrifstofu borgarstjórnar um umsögn endurskoðunarnefndar um fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. – R17080091 / IE20040003
Einar S Hálfdánarson víkur af fundi við afgreiðslu á þessum lið
Lögð fram svohljóðandi bókun endurskoðunarnefndar:
Nefndinni var ekki kunnugt um fyrirspurn Flokks fólksins frá 16. apríl 2020 fyrr en nú nýlega og er beðist velvirðingar á því að hún hafi ekki verið afgreidd fyrr. Nefndarmenn töldu hvorki þörf á sérstökum viðbrögðum vegna tilvitnaðra orða Einars S Hálfdánarsonar né frekari umfjöllun um rannsóknarskýrslu innri endurskoðunar en fram kom í umsögn nefndarinnar. Skýrsla Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar fékk að mati nefndarinnar fullnægjandi afgreiðslu í borgarráði og eins og kunnugt er voru gerðar umtalsverðar skipulagsbreytingar í framhaldi af þeim athugasemdum sem fram komu í skýrslunni. Af hálfu nefndarinnar var um að ræða fullnaðarafgreiðslu rannsóknarskýrslunnar með þeirri umsögn sem send var borgarráði hinn 19. desember 2018.
Fundi slitið kl. 15:08
Fundargerðin var staðfest í tölvupósti
í samræmi við ákvæði um fjarfundabúnað
Lárus Finnbogason
Sigrún Guðmundsdóttir Einar S Hálfdánarson
PDF útgáfa fundargerðar
endurskodunarnefnd_2308_0.pdf