Endurskoðunarnefnd - Fundur nr. 206

Endurskoðunarnefnd

ENDURSKOÐUNARNEFND

Ár 2021, fimmtudaginn 7. janúar var haldinn 206. fundur endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 14:05. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði, með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Lárus Finnbogason, Einar S. Hálfdánarson og Sigrún Guðmundsdóttir.

Fundarritari var Hallur Símonarson.

Þetta gerðist:

1.    Fram fer umræða um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar í máli nr. 1/2020 dags. október 2020. IE20100011

Ágúst Kristinsson, Ingibjörg Garðarsdóttir, Jóna Árný Þórðardóttir fulltrúar í reikningsskila- og upplýsinganefnd taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði ásamt Eiríki Benónýssyni, ritara nefndarinnar.

-    Kl. 15:15 er fundinum frestað til klukkan 8:30, föstudaginn 8. janúar 2021.

-    Kl. 8:33, er fundi fram haldið í fjarfundabúnaði. Eftirtaldir fulltrúar taka sæti á fundinum: Lárus Finnbogason, Sigrún Guðmundsdóttir og Einar S Hálfdánarson Jóhannsdóttir. 

Lárus Finnbogason og Sigrún Guðmundsdóttir leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúum í reikningsskila- og upplýsinganefnd er þakkað fyrir að mæta til fundar endurskoðunarnefndar til að fylgja eftir áliti sínu nr. 1/2020 er fjallar um reikningsskil A hluta og B hluta fyrirtækja Reykjavíkurborgar. Við bendum á að við gerð reikningsskila samstæðu Reykjavíkurborgar hefur verið byggt á því að ekki sé um hefðbundin samstæðureikningsskil að ræða. Hefur þessi skilningur m.a. verið byggður á auglýsingu nr. 790/2001 um reikningsskil sveitarfélaga. Í auglýsingunni eru samantekin reikningsskil sveitarfélaga skilgreind, en ætla má að það hefði verið óþarft ef almenn ákvæði um samstæðureikningsskil ættu við um reikningsskil samstæðu sveitarfélaga. Reikningsskila- og upplýsinganefnd gerði í febrúar á síðasta ári tillögur til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um breytingar á ákvæðum í fjármálakafla sveitarstjórnarlaganna en hluti af þeim tillögum var að í stað samstæðureikningsskila í 61. gr. kæmi samantekin reikningsskil. Er ljóst af þessu að gerður er greinarmunur á samanteknum reikningsskilum fyrir sveitarfélög og hefðbundnum samstæðureikningsskilum. 

Einar S Hálfdánarson leggur fram svohljóðandi bókun

Í áliti reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga nr. 1/2020 er ekkert sem talist getur „misvísandi“. Ég tel samt að gefnu tilefni nauðsynlegt að árétta það helsta sem fram kom á fundinum þar eð þeirri skoðun hefur ítrekað verið haldið á lofti af aðilum sem hafa tjáð sig við endurskoðunarnefndina að Reykjavíkurborg sé ekki skylt að leggja fram samstæðureikning fyrir borgina, heldur einungis samantekinn ársreikning. Slík afstaða er í algerri andstöðu við sveitastjórnarlög, sbr. 61. grein þeirra laga. Fulltrúar í reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga staðfestu eftirfarandi á fundinum í samræmi við álit sitt: Gera ber hefðbundinn samstæðureikning fyrir borgina. Ekki er heimilt að leggja einfaldlega saman ársreikninga A og B hluta og leggja fram þannig samantekinn ársreikning. Sé ársreikningur B hluta gerður skv. IFRS stöðlum ber að aðlaga hann að reglum ársreikningalaga við gerð samstæðureiknings borgarinnar. Við gerð samstæðureikningsins ber að samræma og nota matsaðferðir sem notaðar eru í A hluta. Ef aðrar matsaðferðir eru notaðar í B hluta ber að víkja þeim til hliðar við gerð samstæðureikningsins. Gæta ber innbyrðis samræmis milli A og B hluta við framsetningu sams konar starfsemi eða rekstrar. Skylt er að taka fram að ársreikninga einstakra B hluta fyrirtækja má setja fram í samræmi við IFRS staðla. 

Fundi slitið kl. 8:50

Fundargerðin var staðfest í tölvupósti 

í samræmi við ákvæði um fjarfundabúnað

Lárus Finnbogason

Einar S Hálfdánarson    Sigrún Guðmundsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Endurskoðunarnefnd 07.01.2021 - prentvæn útgáfa