Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 28. janúar, var haldinn sameiginlegur fundur Borgarstjórnar Reykjavíkur og Reykjavíkurráðs ungmenna. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:35. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Alexandra Briem, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna: Anton Ingi Lárusson, Ísgerður Esja Nóadóttir, Magnea Þórey Guðlaugsdóttir, Marta Maier, Sóley Mjöll Ásgeirsdóttir, Sverrir Logi Róbertsson, Ragnheiður Andrésdóttir og Ragnheiður Ósk Kjartansdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Antons Inga Lárussonar fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að breyta reglum um frístundakort þannig að þær gildi til 20 ára aldurs miðað við fæðingarár. Breytingin skal taka gildi árið 2026.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar menningar- og íþróttaráðs. MSS25010157Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Sóleyjar Mjallar Ásgeirsdóttur fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að gera úttekt á túlkun grunnskóla í borginni á matsviðmiðum aðalnámskrár við lok 10. bekkjar. Skal úttektin fara fram skólaárið 2026-2027.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.- Kl. 16:30 víkur Skúli Helgason af fundinum og Hjálmar Sveinsson tekur sæti. MSS25010158
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Ungmennaráð Kjalarness leggur til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að gera úttekt á túlkun grunnskóla í borginni á matsviðmiðum aðalnámskrár við lok 10. bekkjar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi tillaga mjög skiljanleg í ljósi þess að sú einkunnagjöf sem nú er notuð byggir að miklu leyti á mati og túlkun kennara á mörgum ólíkum hæfnisviðmiðum. Það eru líka eðlilegar áhyggjur að ójafnvægi í einkunnagjöf geti haft áhrif á möguleika nemenda til framhaldsnáms og geti hugsanlega ýtt undir ójöfnuð. Frá því haustið 2022 hafa hefðbundin samræmd könnunarpróf ekki verið lögð fyrir grunnskólanemendur á Íslandi. Eins og bent hefur verið á hérna þá hefur það skapað ákveðinn losarabrag og nokkra óreiðu í skólasamfélaginu. Það var slæmt að leggja niður samræmdu prófin án þess að annað samræmt mat tæki við. Að því sögðu þá er Flokkur fólksins ekki samþykkur því að það eigi að taka upp samræmdu prófin eins og þau voru áður. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnur að innleiðingu nýs samræmds námsmatskerfis sem kallast matsferill, áætlað er að slíkt námsmat í íslensku og stærðfræði verði innleitt í öllum grunnskólum á næsta skólaári. Fulltrúi Flokks fólksins bindur vonir við þetta nýja námsmat og að það verði til bóta fyrir allt skólasamfélagið í landinu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Mörtu Maier fulltrúa ungmennaráðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera fjármálalæsi að skyldufagi í öllum 8.-10. bekkjum í grunnskólum í Reykjavík eigi síðar en frá og með hausti 2026.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS25010159Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins er hlynntur því að fjármálalæsi verði gert að skyldufagi í grunnskólum. Fjármálalæsi er mjög mikilvægt því það veitir fólki þekkingu og hæfni til að taka upplýstar og skynsamar ákvarðanir um eigin fjármál. Fjármálalæsi hjálpar fólki að skipuleggja tekjur og útgjöld, fylgjast með fjárhagsstöðu og forðast skuldir. Minni skuldasöfnun er gríðarlega mikilvæg og þekking á fjármálum kennir fólki að taka ábyrgðarfullar lánveitingar, forðast skuldir og skilja kostnað eins og vexti og dráttarvexti. Því fyrr sem fólk lærir um fjármál því betra. Fjármálalæsi er mikilvægur undirbúningur fyrir framtíðina. Í dag er fjármálalæsi hluti af námskrám í samfélagsgreinum og stærðfræði. Fulltrúa Flokks fólksins þykir æskilegt að fjármálalæsi verði gert að skyldufagi í 10. bekk grunnskóla og þá ein kennslustund á viku. Á þeim aldri eru nemendur líklega hvað móttækilegastir fyrir slíku námi. Eins leggur fulltrúi Flokks fólksins áherslu á að námsefni í fjármálalæsi sé útgefið og framleitt af hlutlausum aðila. Menntastofnun og sum sveitarfélög eins og Reykjavík hafa þróað fræðsluefni í fjármálalæsi sem er vel. Einkafyrirtæki eins og Arion banki, Landsbankinn, Íslandsbanki, Creditinfo og Samtök fjármálafyrirtækja hafa gefið út námsefni í fjármálalæsi og boðið upp á fræðslu fyrir skóla. Flokkur fólksins er á móti því að slík hagsmunasamtök sjái um fræðslu ungmenna.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Sverris Loga Róbertssonar fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Háaleitis og Bústaða:
Lagt er til að borgarstjórn feli umhverfis- og skipulagsráði að bæta aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda í Skeifunni og að umbætur hefjist eigi síðar en vorið 2026.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS25010160Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Ragnheiðar Óskar Kjartansdóttir fulltrúa í ungmennaráði Grafarvogs:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beina því til stjórnar Strætó bs. að það verði frítt í strætó fyrir 18 ára og yngri á höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. janúar 2027.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS25010161Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Magneu Þóreyjar Guðlaugsdóttur fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að finna leiðir til að auka samstarf grunn- og framhaldsskóla í Reykjavík vegna framhaldsskólakynninga fyrir 10. bekkinga og hvetji til þess að stóra framhaldsskólakynningin verði haldin árlega að hausti til.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS25010162Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Ragnheiðar Andrésdóttur fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:
Lagt er til að að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að festa lífsleiknikennslu í grunnskólum borgarinnar í sessi sem sérstaka námsgrein og samræma áherslur og kennsluaðferðir milli grunnskóla í borginni. Miða skal við að unnið verði að samþykktinni skólaárið 2025-2026.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS25010163Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga Ísgerðar Esju Nóadóttur fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundaráði að beita sér fyrir því að allar félagsmiðstöðvar hafi til umráða húsnæði og búnað til að halda úti faglegu félagsmiðstöðvastarfi í samræmi við viðmið og stefnur Reykjavíkurborgar eigi síðar en haustið 2028.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS25010164Fylgigögn
Fundi slitið kl. 18:06
Magnea Gná Jóhannsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn og Reykjavíkurráð ungmenna 28.1.2025 - prentvæn útgáfa