Borgarstjórn - Borgarstjórn og Reykjavíkurráð ungmenna 27.2.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 27. febrúar, var haldinn sameiginlegur fundur Borgarstjórnar Reykjavíkur og Reykjavíkurráðs ungmenna. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birna Hafstein, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Einnig sátu fundinn eftirtaldir fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna: Úlfhildur Elsa Hróbjartsdóttir, Snæ Humadóttir, Andrea Sæmundsdóttir, Eyrún Eva Sigurbjörnsdóttir, Karen Hrannarsdóttir, Jökull Logi Sigurjónsson og Sóley Mjöll Ásgeirsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga Úlfhildar Elísu Hróbjartsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hækka laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur frá og með næsta sumri í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta launahækkun var gerð.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS24020127

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Eyrún Eva Sigurbjörnsdóttir, fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta og Karen Hrannarsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs Laugardals, Bústaða og Háaleitis sátu hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Unnið er að heildarendurskoðun Vinnuskóla Reykjavíkur þar sem verið er að greina umbótatækifæri á rekstri og starfsemi Vinnuskólans til skemmri og lengri tíma litið. Tillögunni er vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs þar sem hún verður skoðuð í samhengi við þessa vinnu eins og eðlilegt er.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna fyrirliggjandi tillögu ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um hækkun launa í Vinnuskóla Reykjavíkur. Rétt væri að samþykkja tillöguna hér á fundinum í stað þess að vísa henni til nefndar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á fundi borgarstjórnar 20. júní 2023 að tímalaun unglinga í Vinnuskólanum yrðu hækkuð um 9% á milli ára eða í samræmi við launavísitölu. Slík launaleiðrétting til unglinga í Vinnuskólanum er réttlætismál  sem hefði valdið óverulegum útgjaldaauka fyrir borgarsjóð. Á borgarstjórnarfundinum 20. júní kaus meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar að fresta umræðu um málefni Vinnuskólans. Jafnframt kaus meirihlutinn gegn því að tillaga Sjálfstæðisflokksins um hækkun tímalauna í Vinnuskólanum yrði sett á dagskrá. Þar sem um var að ræða síðasta fund borgarstjórnar fyrir sumarleyfi sá meirihlutinn þannig til þess að málefni Vinnuskólans kæmust ekki á dagskrá borgarstjórnar fyrr en í september eða eftir að starfsemi skólans var lokið um sumarið. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu tillöguna fram í borgarráði 22. júní. Var hún loks tekin til afgreiðslu á fundi borgarráðs 13. júlí og felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Slík launafrysting er í alla staði óheppileg fyrir yngsta starfsfólk Reykjavíkurborgar, sem sinnir mikilvægum verkefnum á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds í borginni.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heils hugar þessa tillögu um hækkun launa í Vinnuskóla Reykjavíkur. Laun ungmenna sem starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur hafa verið langt undir því sem unglingar fá í öðrum sveitarfélögum fyrir sambærileg störf. Kallað er eftir því að unglingum sé ekki mismunað eftir því hvar þeir búa, jafnræði sé tryggt og að laun í Vinnuskólanum fylgi launaþróun í landinu. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að Vinnuskólanum að öllu leyti. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Þótt verðbólga sé eitthvað að síga niður má ætla að langur tími sé í einhvern viðvarandi stöðugleika í efnahagslífinu. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga Snæjar Humadóttur, fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki nægjanlegt fjármagn til að tryggja starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvar þannig að hún verði föst félagsmiðstöð í stað þess að vera sértækt verkefni sem fær styrki til að starfa.

    -    Kl. 15:46 víkur Dagur B. Eggertsson af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti.

    -    Kl. 15:50 víkur borgarstjóri af fundinum og Ásta Þöll Gylfadóttir tekur sæti. Þorsteinn Gunnarsson tekur sæti borgarstjóra í hans stað.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24020143

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir þessa tillögu um að tryggja starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar. Þessi félagsmiðstöð hefur gengið sérlega vel og verið mjög vinsæl. Festa þarf hana í sessi til lengri tíma. Öll óvissa um framhaldið og framtíð félagsmiðstöðvarinnar er óþolandi. Samverustaður fyrir öll ungmenni er gríðarlega mikilvægur. Ungmennin þurfa að geta komið saman á öruggum stað til þess að kynnast og tengjast. Eins og segir í greinargerð með tillögunni er „mikilvægt að þekkja einhvern eins og mann sjálfan til að finna ekki fyrir einmanaleika eins og mörg upplifa og þangað koma margir krakkar í hverri viku.“ Fulltrúi Flokks fólksins vill að börn og ungmenni verði sett í meiri forgang þegar kemur að þjónustu við þau en gert hefur verið á þessu og síðasta kjörtímabili.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga Andreu Sæmundsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að gera nauðsynlegar breytingar til að grunnskólar leggi meiri áherslu á nútíma samfélagsfræði í grunnskólum og þar með umfjöllun um það sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni frá og með hausti 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24020128

    Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Sósíalista styður heilshugar þessa tillögu. Mikilvægt er að hún komist sem fyrst til framkvæmdar. Dæmi eru um að afgreiðsla tillagna í ráðum borgarinnar taki of langan tíma.

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga Eyrúnar Evu Sigurbjörnsdóttir, fulltrúa í ungmennaráði Árbæjar og Holta:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beita sér fyrir því að bætt verði við nýrri strætóleið fyrir íbúa Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts samhliða vinnu við nýja Borgarlínu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS24020129

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er til að ný strætóleið verði innleidd fyrir íbúa Árbæjar, Norðlingaholts og Grafarholts samhliða vinnu við nýja Borgarlínu eins og segir í tillögunni. Segir í greinargerð með tillögunni að ungmenni séu orðin langþreytt á afskiptaleysi Strætó og hversu fáar strætóleiðir eru í þessum ört stækkandi hverfum. Ungmennaráð Árbæjar og Holta gerði rannsókn þar sem ungmenni í 8.-10. bekk tóku þátt og sögðu yfir 90% að þau myndu nýta sér strætóleið sem gengi frá Mosfellsbæ til Mjóddar með stoppistöðvum í Grafarholti, Úlfarsárdal, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti og Breiðholti. Strætó bs. eru einu almenningssamgöngur Reykvíkinga. Strætó er byggðasamlag. Gallar eru við þetta fyrirkomulag sem felst í því að Reykjavík er stærsti eigandi Strætó en hefur ekki ákvarðanavald í samræmi við eigendaprósentu. Þjónusta er víða afleit og illa gengur að bæta úr. Sárlega þarf að breyta þessu fyrirkomulagi. Strætó hefur lengi róið lífróður. Vandinn er á flestöllum sviðum, nýtt greiðslukerfi hefur reynst illa og þjónustustefnu fyrirtækisins virðist illa fylgt. Í ljósi reynslunnar og fjárhagsstöðu Strætó bs. eru því miður ekki miklar væntingar um að þessi tillaga nái fram að ganga.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga Karenar Hrannarsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Bústaða og Háaleitis:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skóla- og frístundasviði að vinna tillögu að breytingu á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Öskju þannig að hægt sé að vera með tvær kvöldopnanir vikulega frá og með hausti 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24020130

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Ungmennaráð Laugardals, Bústaða og Háaleitis leggur til breytingu á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Öskju þannig að hægt sé að vera með tvær kvöldopnanir vikulega frá og með hausti 2024. Hér er um að ræða félagsmiðstöð fyrir nemendur á unglingastigi í Klettaskóla og hún er með kvöldopnun einu sinni í viku á miðvikudögum kl. 19:00 til 21:00. Meðaltalsmæting ungmenna á kvöldopnanir á síðasta ári var um 50% sem sýnir mikinn áhuga. Fram kemur í greinargerð að í dag sé fjármagn fyrir kvöldopnanir í Öskju dregið frá úthlutaðri yfirvinnu starfsfólks og því í raun ekki úthlutað sérstöku fjármagni fyrir kvöldopnanir. Þetta þarf að endurskoða þannig að félagsmiðstöðin Askja geti haft kvöldopnanir tvisvar í viku kl. 19:00 til 21:00 og að fjármagn sem úthlutað er nú þegar verði hækkað í ljósi mætingarhlutfalls og áhuga. Þessi hópur barna á það til að einangrast heima. Þetta er e.t.v. eini staður sumra til að koma og hitta aðra, kynnast og mynda tengsl. Fulltrúi Flokks fólksins telur það afar mikilvægt að þessi tillaga nái fram að ganga.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga Jökuls Loga Sigurjónssonar, fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Bústaða og Háaleitis:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að lengja kvöldopnunartíma í félagsmiðstöðvum frá 1. janúar 2025 og að viðhafa samráð við ungmennaráð framvegis þegar kemur að breytingum sem varða frístundastarf unglinga.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24020132

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í tillögugerð ungmennaráðs Laugardals, Bústaða og Háaleitis um að að lengja kvöldopnunartíma í félagsmiðstöðvum frá og með 1. janúar 2025 en sambærilegri tillögu Árbæjar og Holta var vísað til skóla- og frístundaráðs á fundi borgarstjórnar með Reykjavíkurráði ungmenna í febrúar 2023. Fyrirliggjandi tillaga ungmennaráðsins er tvíþætt, í fyrsta lagi að borgarstjórn lengi opnunartíma í félagsmiðstöðvum og í öðru lagi að samráð eigi að vera haft við ungmennaráð borgarinnar þegar svona ákvarðanir eru teknar. Undir þessi bæði atriði taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Til lengri tíma litið er mikilvægt að styrkja samráð við ungmenni borgarinnar og lágmark að farið sé eftir fyrirmælum 2. ml. 2. mgr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 um efnið. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft áhyggjur af skerðingum á starfsemi félagsmiðstöðva og bókað um það nokkrum sinnum áður. Hagræðing meirihlutans hefur komið allt of mikið niður á börnum og öðrum viðkvæmum hópum en einnig almennri þjónustu í þágu fjöldans. Ekki hefur verið haft samráð við ungmennin þegar ákvörðun er tekin um að stytta opnunartíma eða hætta að hafa opið einstaka kvöld. Ekkert samráð er haft við ungmennin þegar meirihlutinn ákveður að skella félagsmiðstöð í lás. Félagsmiðstöðvar eru gríðarlega mikilvægar fyrir þennan aldurshóp. Þetta er sá staður sem þau geta hist og átt samverustund með öruggum hætti í stað þess að mæla göturnar. Flokkur fólksins vill að meirihlutinn láti þjónustu við börn, ungmenni og aðra viðkvæma hópa í friði þegar hugmyndir um sparnað koma upp enda er þjónusta við börn rýr og víða brotakennd. Minna má á biðlista barna eftir skólaþjónustu en 2.086 börn bíða nú aðstoðar sálfræðinga og talmeinafræðinga. Horfa má frekar til þess að draga úr óþarfa kostnaði eins og leigubílanotkun sálfræðinga til og frá þjónustumiðstöðvum og skóla. Með því að hafa aðsetur sálfræðinga í skólum sparast margar milljónir í leigubílakostnað auk þess sem sálfræðingar skólanna eru þá nær börnunum.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga Sóleyjar Mjallar Ásgeirsdóttur, fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að beita sér fyrir því að tíðni strætóferða til og frá Kjalarnesi verði að minnsta kosti á klukkustundar fresti og að viðeigandi aðstaða sé á stoppistöðvum á akstursleiðinni.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS24020131

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins þakkar fyrir þessa tillögu ungmennaráðs Kjalarness. Lagt er til að tíðni strætóferða til og frá Kjalarnesi verði að minnsta kosti á klukkustundar fresti og telur fulltrúi Flokks fólksins það algjört lágmark til að það gagnist farþegum en í dag líða allt að fjórar stundir á milli ferða. Einnig er lagt til að gerðar verði endurbætur á strætóskýlum á akstursleiðinni til og frá Kjalarnesi. Vandamál með strætóferðir á Kjalarnesi eru ekki ný af nálinni. Líta má aftur til ársins 2013 en þá voru stopular strætóferðir um Kjalarnes ræddar í hverfisráði Kjalarness. Börn gátu þá ekki notað strætó til að komast í skóla eða til að fara í vettvangsferðir eða sækja tómstundastarf. Ljóst er að lítið hefur breyst til batnaðar. Strætó er byggðasamlag. Gallar eru við þetta fyrirkomulag sem felst í því að Reykjavík er stærsti eigandi Strætó en hefur ekki ákvarðanavald í samræmi við eigendaprósentu. Sárlega þarf að breyta þessu fyrirkomulagi. Strætó hefur hefur lengi róið lífróður. Vandinn er á öllum sviðum, vagnar hafa bilað, nýtt greiðslukerfi hefur reynst illa og þjónustustefnu fyrirtækisins virðist illa fylgt. Fulltrúi Flokks fólksins er því miður ekkert of bjartsýnn á neinar breytingar til batnaðar. Það hefur reynslan sýnt.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:13

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn með Reykjavíkurráði ungmenna 27.2.2024 - Prentvæn útgáfa