Borgarstjórn - Borgarstjórn 9.1.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 9. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birna Hafstein, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Stefán Pálsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Umræðu um þjóðarhöll er frestað. MSS22080037

  2. Fram fer umræða um gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar. FAS23010019

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Brýnt er að Reykjavíkurborg láti ekki sitt eftir liggja í baráttunni við verðbólguna, sem er eitt brýnasta viðfangefnið í stjórnmálum um þessar mundir. Hávært ákall er um að hið opinbera hækki ekki verð á þjónustu sinni umfram verðlagsbreytingar enda eru allar slíkar hækkanir olía á verðbólgubálið. Samkvæmt samþykktri tillögu borgarstjóra frá því í nóvember áttu gjaldskrár þjónustugjalda borgarinnar að jafnaði að hækka um 5,5% nú um áramótin. Þegar höfðu gjaldskrár verið hækkaðar um 3,6% 1. október 2023. Mörg sláandi dæmi eru hins vegar um margfalt meiri gjaldskrárhækkanir hjá borginni að undanförnu. Þannig hafa sorphirðugjöld hækkað um allt að 71%, fargjöld Strætó bs. um 30%, bílastæðagjöld um 40% og margir gjaldliðir SORPU um rúmlega 100%. Allar þessar hækkanir voru samþykktar af borgarfulltrúum meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Augljóst er að borgarstjórnarmeirihluti sem beitir sér fyrir hækkunum þjónustugjalda upp á tugi og jafnvel hundruð prósenta hefur engar áhyggjur af hækkun verðbólgu.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar ítreka samþykkt borgarráðs frá 21. desember þar sem lagt var til að Reykjavíkurborg stuðli að lægri verðbólgu og langtíma kjarasamningum á hófsömum nótum með því að bjóðast til að draga úr gjaldskrárhækkunum vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur þannig að þær verði ekki hærri en 3,5% árið 2024. Forsendur fyrir slíku er samflot og samstaða Reykjavíkurborgar, ríkis og annarra sveitarfélaga, verkalýðshreyfingar og aðila á vinnumarkaði um samstillta kjarasamninga sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að kaupmætti og vinna gegn verðbólgu. Fjölskyldur í Reykjavík hafa um árabil búið við lágar gjaldskrár í öllum samanburði og svo verður áfram.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bent meirihlutanum á að hækkun gjaldskráa fer beint út í verðlagið og viðheldur ástandinu með verðbólguna og í fyrra varð það klárlega til að gera illt verra með hækkandi verðbólgu. Gjaldskrár hafa hækkað árlega. Það sætir furðu að fjármálasvið borgarinnar og meirihlutanum hafi ekki borið gæfa til að halda gjaldskrám óbreyttum þegar verðbólga rauk upp úr öllu valdi sem varð til þess að hver stýrivaxtahækkunin var sett á á eftir annarri. Þrátt fyrir þessar gjörðir kveður nú við annan tón og er sagður góðir vilji til að endurskoða áform um hækkanir gjaldskráa. Hér er um eina stóra mótsögn að ræða því að á sama tíma og talað er um endurskoðun hækkana gjaldskráa er ekki tekið í mál að endurskoða gjaldskrá skólamáltíða. Mótsögn meirihlutans í Reykjavík má skýrt sjá í umsögn um þingsályktunartillögu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Meirihlutinn í borginni segir eitt í þessu máli en gerir síðan eitthvað annað. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari tillögu til þingsályktunar og telur að þarna sé lag fyrir ríki og sveitarfélög að vinna saman og stuðla að því að bæta hag barnafjölskyldna. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að gripið verði til sértækra aðgerða og að börn tekjulágra fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vinstri græn minna á að baráttan við verðbólguna er brýnasta viðfangsefni íslenskra efnahagsmála þessi dægrin. Illu heilli hefur borgarstjórnarmeirihlutinn kosið að skila auðu í þeirri baráttu og velt auknum álögum yfir á borgarana með gjaldskrárhækkunum. Til að bíta höfuðið af skömminni er ýjað að því að mögulega og kannski kunni borgin að endurskoða einhverjar þessara hækkana ef niðurstaða kjarasamninga á markaði verður sveitarfélaginu þóknanleg. Slíkur skilyrtur stuðningur við þessa mikilvægu baráttu er hvorki gagnlegur né uppbyggilegur.

  3. Fram fer umræða um stöðu Strætó bs. MSS24010092

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Gjaldskrár Strætó taka hækkunum á meðan þjónusta við farþega versnar. Almenningur er hvattur af yfirvöldum til þess að nota strætó, en á meðan er þjónustan látin grotna niður og hefur Strætó því takmarkað bolmagn til að taka við fleiri farþegum eða bæta þjónustu í takt við væntingar þeirra sem taka áskoruninni og velja að nýta almenningssamgöngur til ferða sinna um borgina. Stakt gjald í strætó er nú 630 krónur og tímabilakort hafa einnig tekið hækkunum. Reykjavíkurborg á að beita sér sérstaklega fyrir því að tryggja að borgarbúar geti vanist því að treysta á notkun almenningssamgangna áður en borgarlína kemst í gagnið, beita sér gagnvart öllum þeim sem hafa áhrif á getu Strætó bs. til þess að sinna samfélagslegri skyldu sinni sem einu almenningssamgöngur fyrir íbúa borgarinnar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fjárhagsstaða Strætó er ákaflega erfið. COVID hafði mikil áhrif á reksturinn og hafði í för með sér aukinn kostnað og tekjufall. Þá tæmdust sjóðir sem átti að nota í endurnýjun vagna og í orkuskipti. Síðan hafa vagnar orðið eldri og eldsneyti dýrara. Stuðningur ríkisins hefur verið lítill og þó sveitarfélögin sem standa að Strætó hafi bætt við töluverðum fjármunum, þá hefur það ekki dugað til. Þá bætist við lítill fyrirsjáanleiki í rekstri til lengri tíma, þegar tímalína innleiðingar samgöngusáttmála, nýs leiðakerfis og borgarlínu liggja ekki fyrir. Ekki náðist samstaða á vettvangi eigenda um að brúa rekstrarbil fyrirtækisins til fulls. Stjórn Strætó stóð því frammi fyrir því að þurfa annað hvort að hækka fargjöld töluvert eða skerða þjónustu. Af tvennu illu var talið að gjaldskrárhækkun væri illskárri. Engum dylst að það er vont að þurfa að grípa til þessa ráðs, sérstaklega þegar við viljum efla almenningssamgöngur, en það var engu að síður talið óhjákvæmilegt á þessum tímapunkti. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Almenningssamgöngur í Reykjavík líða fyrir sinnuleysi borgaryfirvalda. Strætisvagnakerfið er vanrækt og látið reka á reiðanum í stað þess að þróa það áfram með markvissum hætti. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt fram tillögur um eflingu strætókerfisins með markvissum aðgerðum en slíkar tillögur hafa ekki hlotið náð fyrir augum meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Síðastliðið haust lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að ráðist yrði í sérstaka aðgerðaáætlun í þágu almenningssamgangna sem m.a. fæli í sér að greitt yrði fyrir för strætisvagna með lagningu forgangsakreina og snjallstýringu umferðarljósa. Þá yrði ráðist í úrbætur í biðskýlum og skiptistöðvum, lélegu greiðslukerfi skipt út, leiðakerfi bætt og að endurnýjun vagnaflotans yrði hraðað. Þrátt fyrir að vinstrimeirihlutinn hafi ekki viljað samþykkja tillögurnar, eru þær enn í fullu gildi og mörgum þeirra væri hægt að hrinda í framkvæmd með skjótum og skilvirkum hætti.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohjóðandi bókun: 

    Strætó er okkar einu almenningssamgöngur. Flokkur fólksins hefur árum saman hvatt til þess að betur séð hlúð að Strætó bs. Strætó bs. er byggðasamlag sem hefur vægast sagt reynst illa þegar kemur að svo viðkvæmri þjónustu sem almenningssamgöngur eru. Þetta hafa fleiri flokkar viðurkennt en Flokkur fólksins benti á galla byggðasamlagskerfisins strax 2018. Reykjavík er stærsti eigandi Strætó en hefur hlutfallslega ekki vægi þegar kemur að ákvörðunum. Strætó hefur verið óvenju ófarsælt fyrirtæki síðustu ár. Nú rær það lífróður. Vandinn er á öllum sviðum, vagnar hafa bilað, nýtt greiðslukerfi hefur reynst illa og lítur svo út sem þjónustustefna fyrirtækisins sé ekki að skila sér. Kvartanir vegna aksturslags og annarra þjónustuþátta eru nánast daglegt brauð. Vegna fjárhagsvanda hefur þurft að skerða þjónustu, draga úr tíðni, stytta leiðir og hækka fargjöld. Nú hafa fargjöld hækkað enn einu sinni. Þess utan hafa kærumál tekið sinn toll. Nú rétt fyrir áramót óskaði Strætó eftir meira fjármagni til að mæta skaðabótagreiðslum og vöxtum sem fyrirtækið þarf að standa skil á. Heildarupphæð sem kemur í hlut Reykjavíkur að greiða er því 351.458.794 kr. Að þurfa að greiða slíka skaðabætur bendir til þess að stjórnun Strætó bs. sé ekki til fyrirmyndar.

  4. Fram fer umræða um skertan opnunartíma sundlauga á frídögum og hátíðardögum. MSS24010093

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld til að endurskoða opnunartíma sundlauga á frídögum og stórhátíðum og hafa enn frekara samráð við sundlaugargesti og starfsfólk sundlauga. Í þessu máli er verið að spara aurinn en kasta krónunni. Undanfarin tvö ár hefur opnunartími sundlauga Reykjavíkurborgar verið skertur verulega og til stendur að skerða hann enn frekar. Gestir sundlauganna eru fjölbreyttur hópur, fjölskyldur, einstaklingar, fólk á öllum aldri og ferðamenn. Um 79% fullorðinna Íslendinga fara í sund og tæp 40% fara reglulega í sund allt árið. Sundlaugarnar eru þjóðargersemi okkar. Ekkert áhugamál eða tómstundagaman er jafn útbreitt og að fara í sund. Engin íþrótt eða heilsubót er jafn almenn. Yfir jólahátíðina hefur opnunartími átta sundlauga Reykjavíkur verið styttur um 162 klukkustundir frá árinu 2021 eða úr 275 klukkustundum í 113 klukkustundir. Undanfarið ár hefur opnunartíminn verið skertur á öðrum frídögum, s.s. um páskahátíðina, sumardaginn fyrsta og fleiri daga. Þetta er  slæm þróun því það er einmitt á slíkum frídögum sem fólk vill njóta samveru og útivistar með fjölskyldu og vinum. Sundiðkun bjargar mörgum frá einmanaleika sem hrjáir svo marga í nútíma borgarsamfélagi. Ákveðinn hópur fólks hefur ekki gott aðgengi að baðaðstöðu og notar sundlaugar m.a. í þeim tilgangi.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þjónusta sundlauga borgarinnar er fyrsta flokks og á heimsmælikvarða ef horft er til gæða, opnunartíma og verðlags. Sundlaugarnar eru að meðaltali opnar 356 daga á árinu og sú vinsælasta, Laugardalslaug, alla daga ársins fyrir utan einn, þ.e. jóladag, sem er jafnframt eini dagur ársins þar sem allar sundlaugarnar eru lokaðar. Á öðrum hátíðisdögum eru a.m.k. þrjár og oftast fjórar sundlaugar opnar í borginni. Þetta er betri þjónusta en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bjóða og sömuleiðis betri en í nágrannalöndunum, t.d. Kaupmannahöfn og Stokkhólmi sem þó geta ekki boðið upphitaðar útisundlaugar sem opnar eru allan ársins hring með heitum og köldum pottum, gufubaði og góðum félagsskap. Öllum ábendingum um þjónustuna er þó vel tekið og kemur vel til greina að skoða breytta útfærslu á opnunartímanum á hátíðisdögum, svo fremi sem breytingar rúmast innan fjárhagsramma sviðsins. Málið verður rætt í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði á föstudag og ákvörðuð næstu skref.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að endurskoða lokanir og þjónustuskerðingar í sundlaugum Reykjavíkur fyrir næstu jólahátíð. Komu skerðingarnar þyngst niður á íbúum Grafarvogs, Grafarholts og Úlfarsárdals. Mörg tækifæri eru til hagræðingar í rekstri borgarinnar, aðrar en þær að skerða mikilvæga og vinsæla þjónustu við íbúa.
     
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Opnunartími sundlauga hefur verið skertur og til stendur að skerða hann enn frekar. Áætlað er að slík skerðing um helgar spari borginni um 20 milljónir á ári. Sundlaugar gegna mikilvægu hlutverki fyrir lýðheilsu, þar er aðstaða fyrir holla hreyfingu almennings. Yfirfullar laugar geta ekki sinnt því hlutverki og þannig minnka jákvæð áhrif á lýðheilsu sem annars hefðu fylgt starfsemi þeirra, og lífsgæði íbúa og gesta borgarinnar minnka sömuleiðis. Mikilvægt er að hlustað sé á mat starfsfólks við breytingar á slíkri starfsemi. Að þjónustan sé í þeim gæðaflokki að hún nái að halda lýðheilsumarkmiðum sínum. Upphæðin sem talin er sparast er svipuð og sú sem hefði mátt ná fram ef borgarfulltrúar og fyrstu varaborgarfulltrúar hefðu ekki tekið við launahækkunum ofan á grunnlaun árið 2024. Fulltrúar sósíalista lögðu slíkt til við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 og ef það hefði verið samþykkt má áætla að sparnaðurinn hefði verið um 21 milljón. Mikilvægt er að forgangsraða í rekstri borgarinnar og sundlaugar eru mikilvæg kjarnastarfsemi.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ráðast í athugun á kostum, göllum og möguleikum á því að Reykjavík gerist vinaborg Gazaborgar eða annarrar borgar/svæðis í Palestínu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar forsætisnefndar. MSS24010094

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í mars 2021 samþykkti borgarstjórn nýja alþjóðastefnu til ársins 2030. Ýmislegt nýtt var kynnt í stefnunni sem leggur upp með að alþjóðlegt samstarf Reykjavíkurborgar styðji við áhrif, ímynd og mörkun borgarinnar, styrki samkeppnishæfni hennar og öfluga þekkingarmiðlun borgarinnar sem bæði miðlar þekkingu og áskotnast aukin þekking með sínu alþjóðasamstarfi. Í stefnunni er horfið frá hefðbundnu vinaborgarsamstarfi en slíkt samstarf hefur oft á tíðum verið táknrænt í stað þess að vera alvöru hreyfiafl í þágu íbúa þó það sé ekki hægt að alhæfa í því efni. Í staðinn er lögð áhersla á marghliða samstarf og verkefnabundið samstarf sem þjónar hagsmunum íbúa og áherslum borgarinnar. Eina undantekningin sem gerð hefur verið síðan stefnan tók gildi er nýlegt vinaborgarsamband við Lviv sem hófst formlega vorið 2022 en byggði á samstarfsverkefnum á sviði menningar og endurhæfingar og kom það frumkvæði frá borgarstjóra Lviv. Á sama tíma var horfið frá vinaborgarsamstarfi við Moskvu. Íhuga þarf vel hvers konar alþjóðlegu samstarfi borgin vill taka þátt í og á hvaða forsendum og mun það grundvallast á gildandi stefnu borgarinnar. Því er lagt til að tillögunni sé vísað til forsætisnefndar sem hefur umsjón með alþjóðasamstarfi borgarstjórnar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með því að taka fordæmi margra annarra borga og taka upp vinaborgasamband við borg í Palestínu myndi Reykjavík senda sterk skilaboð um að hún standi við mannréttindastefnu sína, að hún leggist gegn hryllilegum árásum og mannréttindabrotum sem eru framin á íbúum Palestínu og hafa verið framin áratugum saman. Hefur borgin þegar tekið slíkt samband upp á svipuðum forsendum við borgina Lviv í Úkraínu. Sósíalistar styðja tillöguna heilshugar, enda ekki hægt að sitja hjá meðan atburðir af þessari stærðargráðu standa yfir.

    Fylgigögn

  6. Umræðu um álit innviðaráðuneytisins, dags. 13. nóvember 2023, varðandi rétt borgarfulltrúa til að setja málefni Ljósleiðarans ehf. á dagskrá borgarstjórnar, er frestað. MSS23010066

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 14. og 21. desember 2023.
    11. liður fundargerðarinnar frá 14. desember; gjaldskrá vegna dagforeldra, er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    24. liður fundargerðarinnar frá 21. desember; starfs- og fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 2024 er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010001

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 14. desember: 

    Mikilvægt er að reglur um niðurgreiðslur til dagforeldra endurspegli það markmið að þjónusta dagforeldra sé fyrst og fremst hugsuð fyrir börn áður en þau byrja í leikskóla. Í núverandi reglum kemur fram að niðurgreitt sé þar til barn hefur grunnskólagöngu um 6 ára aldur, ef öllum skilyrðum niðurgreiðslu er fullnægt. Mikilvægt er að tryggja að börn fái reynslu af skipulögðu skólastarfi áður en í grunnskóla er komið og því ætti að skerpa á reglum um aldur barna í daggæslu, þó mætti gera ráð fyrir sveigjanleika fyrir eldri börn sem komast ekki inn í leikskóla svo að foreldrar lendi ekki í því að verða fyrir tekjutapi vegna slíks. Mætti til dæmis miða við að til þess að barn yfir ákveðnum hámarksaldri fái daggæslu sé skilyrði um virka leikskólaumsókn. Áhersla sé lögð á að öll börn fái reynslu af fyrsta skólastiginu.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohjóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 14.desember: 

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að þessar niðurgreiðslur til dagforeldra vegna 18 mánaða og eldri barna komi allt of seint. Niðurgreiðslurnar voru samþykktar í borgarráði 15. júní en koma ekki til framkvæmda fyrr en rúmum sjö mánuðum seinna. Þessar niðurgreiðslur hefðu átt að taka gildi 1. janúar 2024. Hækkunin fyrir börn yngri en 18 mánaða er mjög lítil og óttast fulltrúi Flokks fólksins að hún muni ekki skila sér til foreldra þar sem dagforeldrar borga gjöld af öllum hækkunum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að það þurfi að styðja betur við dagforeldrakerfið sem hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Enda þótt breytingar á reglum séu ekki til afgreiðslu nú vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að gera þarf breytingar við 8. mgr. í gr. 3.a. Áhyggjur eru af þessu ákvæði: „Niðurgreitt er þar til barn hefur grunnskólagöngu um 6 ára aldur, ef öllum skilyrðum niðurgreiðslu er fullnægt.“ Fulltrúi Flokks fólksins vill að skerpt verði á þessu ákvæði í reglum og að miðað sé við að niðurgreiðslur nái til þess tíma sem beðið er eftir leikskólaplássi. Að virk umsókn sé í gangi.

  8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 5. janúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 11. og 14. desember 2023, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. og 15. desember 2023, skóla- og frístundaráðs frá 11. desember 2023, 263. og 264. fundar, stafræns ráðs frá 11. og 13. desember 2023, umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. desember 2023 og velferðarráðs frá 14. desember 2023. MSS24010034

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið í fundargerð stafræns ráðs frá 13. desember: 

    Flokkur fólksins óskaði eftir upplýsingum um starfsmannamál þjónustu- og nýsköpunarsviðs, m.a. hversu margt starfsfólk sviðsins hefur hætt störfum eða verið sagt upp undanfarin fimm ár. Spurt er vegna orðróms um að fólki hafi verið sagt upp störfum á sviðinu í óvenju miklum mæli og einnig að þar ríki mikil óánægja. Í svari segir að frá árinu 2018 hafi 67 starfsmenn sagt upp störfum og hefur 22 starfsmönnum verið sagt upp störfum á sviðinu. Þetta er óheyrilega há tala að mati fulltrúa Flokks fólksins. Það  er vissulega hægt að bera því við að uppsagnir séu vegna skipulagsbreytinga. Talað er um að ávallt sé um að ræða beina uppsögn. Hvað er hér átt við? Þeir sem þurft hafa að taka pokann sinn eða hafa hætt eru deildarstjóri, fjármálaráðgjafi, fjármálastjóri, fulltrúi skjalasafns, gæða- og öryggisstjóri, hugbúnaðarsérfræðingur, kerfisfræðingur, kerfisstjóri, lögfræðingur, mannauðsráðgjafi, mannauðsstjóri, safnvörður, skrifstofustjóri, teymisstjóri, tölvunarfræðingur, verkefnastjóri, vörustjóri, þjónustufulltrúi og öryggis- og húsvörður. Fulltrúi Flokks fólksins er gáttaður á þessum upplýsingum og spyr hvort það geti raunverulega verið að meirihlutanum finnist ekkert athugavert við þetta.

    Fylgigögn

  9. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráð.
    Lagt er til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti sem varafulltrúi í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Kjartans Magnússonar.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Hafnað með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks, Flokks fólksins og Vinstri grænna að taka á dagskrá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kosningu borgarstjóra sem taki gildi 16. janúar 2024.

Fundi slitið kl. 15:12

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Magnús Davíð Norðdahl

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 9.1.2023 - Prentvæn útgáfa