Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 8. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:15. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að skapa 100 störf fyrir 17 ára ungmenni í sumar. Hluti þessara starfa verði útfærður sérstaklega fyrir 17 ára ungmenni í viðkvæmri stöðu. Jafnframt verði lögð lokahönd á framtíðarfyrirkomulag sumarstarfa fyrir 17 ára ungmenni svo ekki þurfi að bregðast við á hverju vori.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. MSS25040039Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Með þessari tillögu er samþykkt að fjármagna 100 fjölbreytt sumarstörf fyrir 17 ára ungmenni í sumar, þar sem hluti verður sérstaklega ætlaður ungmennum í viðkvæmri stöðu. Þá er vilji til að móta framtíðarfyrirkomulag sumarstarfa fyrir þennan aldurshóp, svo ekki sé þörf á að bregðast við á hverju vori. Rannsóknir gefa til kynna að sumarstörf ungmenna geti stuðlað að auknum félagsþroska og sjálfstæði og hafi mjög jákvæð áhrif á framtíð ungmenna, samhliða því að draga úr áhættuhegðun og vanvirkni. Markmiðið er að tryggja framtíð sumarstarfa fyrir ungmenni í borginni og hjálpa þeim að efla styrkleika sína. Mannauðs- og starfsumhverfissvið innleiðir í samstarfi við önnur viðeigandi svið borgarinnar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja jákvætt að fjölgað verði sumarstörfum fyrir 17 ára ungmenni. Fulltrúarnir telja þó rétt að falla frá áformum um að ráða sérstakan atvinnuráðgjafa vegna tillögunnar. Vel mætti ráðast í þessa fjölgun sumarstarfa fyrir ungmenni án þess að fjölga störfum í yfirbyggingu borgarinnar samhliða með tilheyrandi kostnaði. Fyrr á kjörtímabilinu lækkaði þáverandi vinstri meirihluti laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur með markvissum hætti. Það var gert með því að halda launum unglinganna óbreyttum milli áranna 2022 og 2023 á meðan allir aðrir hópar fengu umtalsverðar kjarabætur. Hafði þessi launafrysting í för með sér svívirðilega kjaraskerðingu fyrir 13-16 ára starfsmenn eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Reykjavíkurráð ungmenna bentu ítrekað á. Árið 2024 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað til að laun unglinganna yrðu leiðrétt í samræmi við breytingar á launavísitölu frá síðustu hækkun, þ.e. 2022. Borgarfulltrúar þáverandi vinstri meirihluta felldu umræddar tillögur og festu kjaraskerðinguna þannig í sessi sumarið 2024. Nú kýs nýr vinstri meirihluti að festa kjaraskerðinguna enn frekar í sessi sumarið 2025. Einnig hefur verið upplýst um þau áform meirihlutans að stytta vinnutíma unglinga í Vinnuskólanum um rúmlega 7% og leiðbeinenda um 11% sumarið 2025. Með þeirri breytingu eru laun unglinganna takmörkuð enn frekar og því enn höggvið í sama knérunn.
Borgarfulltrúar Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Framsóknar fagna þessum áformum en leggja áherslu á að hagrætt sé í rekstri til að eiga fyrir þessu.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Viðreisnar fagna því að sumarstörfum sé fjölgað og vonast eftir að sjá verkefnið vel útfært með lausnum sem eru viðeigandi fyrir þennan aldur. Að vinna hjá Reykjavík á að vera eftirsóknarvert og vonumst við eftir að verkefnið verði hannað með það að leiðarljósi.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um þéttingu byggðar í Breiðholti. MSS25040006
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Hið risavaxna stálgrindarhús að Álfabakka 2a hefur meðal annars haft þær afleiðingar að mun meiri áhugi er á skipulagsmálum í hverfinu en áður. Það var því fullt tilefni á fundi borgarstjórnar í dag til að ræða um þéttingu byggðar í Breiðholti. Þótt hverfaskipulag Breiðholts hafi tekið gildi haustið 2022 þá var mörgum þróunarreitum í hverfinu haldið utan við hverfaskipulagið og er því margt óljóst hvert stefni á einstökum svæðum. Á grundvelli fyrirliggjandi heimilda má ætla að byggð verði verulega þétt í Breiðholti. Í því sambandi má benda á að fyrirhuguð fjölgun íbúða í Neðra-Breiðholti, þar með talið í Norður-Mjódd og í Arnarbakka, verði um eða yfir 1000 íbúðir. Öll uppbygging í hverfinu verður að vera raunhæf og gæta þarf að því að innviðir þess springi ekki, svo sem eins og aðgangur að grænum svæðum, fullnægjandi fjölda bílastæða, viðunandi almenningssamgöngur og svo framvegis. Umræða um þróun Breiðholtsins verður ávallt að vera uppbyggileg og málefnaleg en þar skiptir verulegu máli að aðgangur að upplýsingum um skipulagsmál sé ávallt tryggður. Nauðsynlegt er að bæta upplýsingagjöf um fyrirhugaða uppbyggingu á einstökum skipulagsreitum í Breiðholti og að kortasjá borgarinnar um það efni sé ávallt uppfærð eins hratt og kostur er.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Viðreisnar fagnar framtaki borgarfulltrúans Helga Áss Grétarssonar við samantekt og væri gagnlegt fyrir íbúa ef auðveldara væri að nálgast upplýsingar eins og um var rætt. Vonumst við eftir að farið verði í að gera gögn aðgengilegri fyrir borgarbúum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að falla frá fyrirhugaðri þéttingu byggðar í grónum hverfum Grafarvogs. Þess í stað verði hafist handa nú þegar við uppbyggingu í Gufunesi. Stuðst verði við vinningstillögu í hugmyndasamkeppni um skipulag Gufunessvæðisins frá árinu 2016. Stefnt verði að uppbyggingu 700 íbúða og að íbúafjöldi verði um 1750 manns sem er í samræmi við vinningstillöguna. Áður en hafist er handa við skipulagsgerð er mikilvægt að leitað verði álits og samráðs hjá þeim sem búa og starfa í Gufunesi og í Grafarvogi.
- Kl. 16:00 víkur Guðný Maja Riba af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti.
Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.- Kl. 16:15 víkur Andrea Helgadóttir af fundinum og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir tekur sæti. MSS25040042
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Þétting byggðar í grónum hverfum Grafarvogs hefur mætt mikilli andstöðu íbúa eins og ítrekað hefur komið fram á fjölmennum íbúafundum sem boðað hefur verið til vegna málsins. Sú andstaða við ofurþéttingu í hverfinu hefur byggst á að hún muni koma niður á lífsgæðum íbúa, þar sem haft er af íbúunum sem fyrir eru, áður skipulögð rými, útivistar- og græn svæði og útsýni, jafnframt er verið að þrengja að bílastæðum og innviðum hverfanna. Það er í hróplegri andstöðu við þá stefnu aðalskipulagsins sem meirihlutinn hefur sjálfur samþykkt sem felst í því að stuðla að lífsgæðum nærumhverfis með grænum svæðum og möguleikum til útivistar. Þéttingaráformin eru enn óskiljanlegri þegar haft er í huga að farið var í skipulagssamkeppni um uppbyggingu í Gufunesi árið 2016. Hafist var handa við uppbyggingu fyrsta áfangans af þremur en ekkert hefur heyrst, frést né sést af frekari uppbyggingu þar. Nærtækara væri að uppbyggingu í Gufunesi yrði hraðað, þar sem skipulagshugmyndir liggja fyrir, og fallið verði frá öllum þéttingaráformum í grónum hverfum Grafarvogs. Með því að meirihlutinn felli tillögu okkar sjálfstæðismanna þess efnis bendir því miður til að keyra á uppbyggingaráformin áfram og að hvorki verði tekið tillit til andmæla né óska íbúanna í Grafarvogi.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikil þörf er á húsnæði á viðráðanlegu verði. Hluti af þróun húsnæðisuppbyggingar í Grafarvogi eru reitir þar sem fyrirhugað er að byggja upp íbúðarhúsnæði í samstarfi við óhagnaðardrifin uppbyggingarfélög og tryggja þannig fjölbreyttum tekjuhópum og tekjulágum þak yfir höfuðið og aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu sem og búseturéttarlegu samhengi. Vilyrðin eru háð skýrum fyrirvara um vinnu við skipulag enda er lögformlegur samráðsferill um deiliskipulag fyrir reitina eftir. Að sjálfsögðu taka vilyrðin mið af þeirri þróun hvort sem drög að skipulagsáætlunum taki breytingum á meðan samráði stendur eða verði ekki samþykkt sem endanlegt skipulag. Að úthluta vilyrðum á þessum tímapunkti skapar samstarfsgrundvöll við uppbyggingaraðilana um þróun endanlegs skipulags sem getur flýtt fyrir skipulagsvinnunni og uppbyggingunni. Tillagan fjallar um að í stað þess að byggja upp á þennan hátt í Grafarvogi myndi uppbyggingin öll fara fram í Gufunesi. Ein helstu mótrök íbúa Grafarvogs gegn þéttingu í sínu nágrenni hefur verið aukin umferð vegna þeirra 340 íbúða sem stefnt er að að dreifa um Grafarvoginn, en bílaumferð í Gufunes fer öll sömu leið um gatnamót sem eru þekktur flöskuháls fyrir íbúa norðanmegin í Grafarvogi. Ekki er að sjá að tilfærsla allrar uppbyggingar í Gufunes muni draga úr þeim vanda nema síður sé.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn skipi stýrihóp um rafíþróttir í Reykjavík sem hafi það verkefni að móta stefnu Reykjavíkurborgar í rafíþróttum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar- og íþróttaráðs. MSS25040007Borgarfulltrúar Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn telur mikilvægt að Reykjavíkurborg myndi sér stefnu um málefni rafíþrótta til að auka fjölbreytileika þeirrar íþróttastarfssemi sem borgin styður við. Það er óumdeilt að sú nálgun sem Rafíþróttasamband Íslands hefur stuðst við hefur haft mjög jákvæð áhrif á börn og ungmenni og sérstaklega hóp ungmenna sem myndu að jafnaði ekki stunda hefðbundnar íþróttir. Þótt að við í Framsókn hefðum viljað að þessi tillaga okkar hefði fengið pólitíska umræðu til að marka stefnu borgarinnar betur þá fögnum við því að málinu hafi verið vísað til menningar- og íþróttaráðs og mun fá þar faglega umræðu í samráði við Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR), enda hefur ÍBR sýnt þörfinni á uppbyggingu á þessari íþróttagrein mikinn skilning.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Rafíþróttir bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til að efla félagslega tengingu, tæknilæsi og heilbrigði meðal barna og ungmenna sem jafnvel ekki hafa fundið sig í hefðbundnum íþróttum. Í ljósi þess að nú þegar er í gildi heildstæð íþróttastefna Reykjavíkurborgar til 2030 vísa samstarfsflokkarnir tillögunni til menningar- og íþróttasviðs þar sem kallað verður eftir stöðumati á íþróttastefnunni og kortlagningu á stöðu rafíþrótta í samstarfi við hagaðila.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar telja að framboð ólíkra íþróttagreina séu mikilvægar fyrir fjölbreyttan hóp íbúa. Að framboð sé eins takmarkað og það er í dag er til betrunar og gott væri að hefjast handa sem fyrst með verkefnum sem snúa sérstaklega að þessari grein og taka svo aðrar greinar fyrir í kjölfarið.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um nýtingu og staðsetningu auglýsingaskilta í borgarlandinu.
- Kl. 18:05 víkur Skúli Helgason af fundinum og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson tekur sæti. MSS25040040
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar er þakklátur fyrir þá miklu umræðu sem voru á fundinum. Mikilvægt er að skoða þessi mál betur og horfa gagnrýnum augum á hvernig ákvarðanataka hefur farið fram til þessa. Rýnum tölfræðileg gögn og tökum ákvarðanir út frá staðreyndum.
Borgarfulltrúar Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum því að nýjar reglur um skilti í Reykjavíkurborg eru á lokametrunum. En um leið setjum við spurningarmerki við þau handahófskenndu vinnubrögð sem hefur einkennt rökstuðning Reykjavíkurborgar þegar kemur að því að banna LED auglýsingaskilti í borginni. Aukinheldur finnst okkur meðalhófs ekki verið gætt þegar borgin fer fram á að slökkt verði á skiltum á meðan að vinna við reglur um skilti eru ennþá í vinnslu og með tilheyrandi tekjutapi, t.a.m. íþróttafélaga sem halda þeim úti. Eðlilegra hefði verðið að rekstraraðilar fengi að njóta vafans á meðan þetta er skýrt út.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að veita aukin fjárframlög úr borgarsjóði með þeim börnum sem lögheimili eiga í Reykjavík, og sækja nám í sjálfstætt starfandi leikskólum eða grunnskólum í borginni. Markmiðið verði að treysta rekstrargrundvöll skólanna, þannig að sjálfstætt starfandi grunnskólar þurfi ekki að innheimta skólagjöld og sjálfstætt starfandi leikskólar þurfi ekki að notast við hærri gjaldskrár, fyrir nemendur búsetta í Reykjavík. Þannig verði efnahagur foreldra ekki ákvarðandi forsenda við skólaval. Skóla- og frístundasviði verði falið að útfæra viðeigandi reiknilíkan vegna breyttra framlaga. Breytingar verði gerðar á samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla og grunnskóla, og breytingarnar taki gildi 1. september 2025.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 18:30 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Oktavía Guðrúnar Jóns tekur sæti.
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Magneu Gná Jóhannsdóttur, Aðalsteins Hauks Sverrissonar og Þorvaldar Daníelssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins að fresta tillögunni. MSS25040041
Fylgigögn
-
Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Árelíu Eydísar Guðmundsdóttir, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Magneu Gná Jóhannsdóttur, Aðalsteins Hauks Sverrissonar og Þorvaldar Daníelssonar, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins að fresta umræðu um bílastæðamál. MSS24120083
-
Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 3. apríl. MSS25010002
8. liður fundargerðarinnar: Hverafold - vilyrði til Félagsbústaða er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030053
9. liður fundargerðarinnar: Hverafold - vilyrði til Bjargs íbúðafélags er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030054
10. liður fundargerðarinnar: Starengi - vilyrði til Bjargs íbúðafélags er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030055
11. liður fundargerðarinnar: Veghús - vilyrði til Bjargs íbúðafélags er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030056
12. liður fundargerðarinnar: Sóleyjarimi - vilyrði til Búseta húsnæðissamvinnufélags er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030057
15. liður fundargerðarinnar: tilraunaverkefni um fjarkennslu í grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. SFS25030062
23. liður fundargerðarinnar: stofnun opinbers hlutafélags um rekstur almenningssamgangna er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030151
24. liður fundargerðarinnar: viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010024Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. – 12. lið og 23. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast gegn lóðavilyrðunum enda ljóst að fyrirhuguð uppbygging og þétting byggðar í Grafarvogi hefur verið skipulögð í mikilli andstöðu við íbúa hverfisins. Betur færi á því að leggja fyrirhuguðum áformum og hefja samtalið við íbúa Grafarvogs frá grunni. Sannarlega mætti ráðast í hóflega uppbyggingu innan hverfisins, ekki síst til að svara þörfum eldri íbúa sem hefðu hug á að flytja úr stærri sérbýlum, en öll slík áform þarf að vinna af vandvirkni og í góðri sátt við umhverfið enda um rótgróið fullbyggt hverfi að ræða. Varðandi stofnun opinbers hlutafélags um rekstur almenningssamgangna eru gerðar athugasemdir við að í samþykktum hlutafélagsins hefur ekki verið hugað að hlutverki og skyldum kjörinna fulltrúa. Til dæmis hafa samþykktirnar þann ágalla að fulltrúar minnihluta borgar- og bæjarstjórnar eiga enga leið til að koma á framfæri bókunum, tillögum eða upplýsingum til stjórnar hlutafélagsins um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu nema með sérstöku samþykki þá bæjar- eða borgarstjórnarmeirihlutans að hverju sinni. Sveitarstjórnarmenn geta ekki einu sinni flutt tillögur á aðalfundi félagsins. Kjörnir fulltrúar standa því ekki allir jöfnum fæti gagnvart félaginu og hafa hvorki aðkomu né getu til að hafa eftirlit með ákvörðunum í félaginu sem kunna hafa veruleg áhrif á íbúa. Í öðrum dótturfélögum borgarinnar hefur verið gætt að þessu en hér hefur það farið á mis.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, Hjálmar Sveinsson; borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Kristinn Jón Ólafsson; borgarfulltrúar Pírata leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. - 12. lið fundargerðarinnar:
Mikil þörf er á húsnæði á viðráðanlegu verði. Hluti af þróun húsnæðisuppbyggingar í Grafarvogi eru reitir þar sem fyrirhugað er að byggja upp óhagnaðardrifið húsnæði í samstarfi við óhagnaðardrifin uppbyggingarfélög og tryggja þannig fjölbreyttum tekjuhópum og tekjulágum þak yfir höfuðið og aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu sem og búseturéttarlegu samhengi. Vilyrðin eru háð skýrum fyrirvara um vinnu við skipulag enda er lögformlegur samráðsferill um deiliskipulag fyrir reitina eftir. Að sjálfsögðu taka vilyrðin mið af þeirri þróun hvort sem drög að skipulagsáætlunum taki breytingum á meðan samráði stendur eða verði ekki samþykkt sem endanlegt skipulag. Að úthluta vilyrðum á þessum tímapunkti skapar samstarfsgrundvöll við uppbyggingaraðilana um þróun endanlegs skipulags sem getur flýtt fyrir skipulagsvinnunni og uppbyggingunni.
Borgarfulltrúar Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. - 12. lið fundargerðarinnar:
Framsókn telur ótímabært að samþykkja lóðavilyrði sem tengjast uppbyggingu í Grafarvogi. Upphaflegar hugmyndir um uppbyggingu hafa tekið miklum breytingum og formlegt skipulagsferli er að hefjast. Framsókn telur rétt að fá fyrst fram athugasemdir íbúa við þær tillögur og vinna málið áfram í samvinnu við íbúa.
Helga Þórðardóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins, Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, Sabine Leskopf og Ellen Jacqueline Calmon borgarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:
Ákvörðun skóla- og frístundaráðs um að ráðast í tilraunaverkefni um fjarnám snýst fyrst og fremst um að uppfylla þarfir nemenda sem ekki finna sig í staðnámi í reykvískum grunnskólum og þróa enn frekar reykvískt skólastarf eins og lög gera ráð fyrir. Mörg tækifæri felast í því að Reykjavíkurborg geti boðið sínum nemendum upp á fjarnám, s.s. að tengja fjarnámið við annað skóla- og frístundastarf með það að markmiði að styrkja félagsleg tengsl nemenda í sínu umhverfi og vinna þannig markvisst gegn skólaforðun. Reykjavíkurborg hefur alls ekki útilokað að nemendur sem núna sækja nám hjá Ásgarðsskóla geti haldið námi sínu áfram þar. Viðræður um hugsanlegt samstarf eru þegar hafnar á milli eiganda Ásgarðsskóla og skóla- og frístundasviðs og vert er að bíða og sjá hvað kemur út úr þeim viðræðum. Hins vegar er full þörf á að Reykjavíkurborg geti boðið upp á fjarnám í heimabyggð og aukið þannig fjölbreyttar aðferðir og leiðir í grunnnámi í reykvískum skólum. Þannig axlar Reykjavíkurborg ábyrgð á skólastarfi sínu með því að bjóða uppá fjölbreytt úrræði sem gagnast ólíkum þörfum nemenda.
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Ásta Þórdís Skjalddal, borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 23. lið fundargerðarinnar:
Öruggir samgönguinnviðir og áreiðanlegar almenningssamgöngur eru grundvallaratriði í styrkingu samfélags og bættum lífsgæðum borgarbúa. Aðkoma ríkisins að rekstri almenningssamgangna ásamt sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægt innlegg til að mæta loftslagsmarkmiðum stjórnvalda en einnig auka umferðaröryggi almennt og tryggja skilvirka og trausta uppbyggingu hágæða almenningssamgangna. Það er gleðilegt að samstaða hefur náðst um þetta mikilvæga samfélagsmál og stofnað verður félag sem annast þróun, skipulag og rekstur almenningssamgangna með sjálfbærni og skilvirkni við íbúa í forgrunni. Við fögnum þessum áfanga.
Fylgigögn
- Fundargerð borgarráðs frá 3. apríl 2025
- - 8. liður; Hverafold – vilyrði til Félagsbústaða
- - 9. liður; Hverafold – vilyrði til Bjargs íbúðafélags
- - 10. liður; Starengi – vilyrði til Bjargs íbúðafélags
- - 11. liður; Veghús – vilyrði til Bjargs íbúðafélags
- - 12. liður; Sóleyjarimi – vilyrði til Búseta húsnæðissamvinnufélags
- - 15. liður; tilraunaverkefni um fjarkennslu í grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar
- - 23. liður; stofnun opinbers hlutafélags um rekstur almenningssamgangna
- - 24. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025
-
Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 4. apríl, menningar- og íþróttaráðs frá 28. mars, stafræns ráðs frá 26. mars og umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. apríl. MSS25010033
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs:
Að óbreyttu mun fyrirliggjandi tillaga um hækkun hússins Brautarholts 16 um tvær hæðir, auka enn á það ófremdarástand, sem nú ríkir í Brautarholti og nærliggjandi götum vegna skorts á bílastæðum. Verið er að hækka húsið um tvær hæðir og bæta við 39 gistirýmum fyrir 94 gesti að hámarki. Engin bifreiðastæði eru innan lóðar og verður því notast við þau stæði sem fyrir eru í götunni. Sex bílastæði eru við húsið, sem dugar engan veginn fyrir tugi ferðamanna, sem munu dveljast í húsinu hverju sinni. Ef bílastæðum verður ekki fjölgað í tengslum við stækkun hússins, mun það óhjákvæmilega auka á það ófremdarástand, sem ríkir nú í bílastæðamálum í hverfinu.
Fylgigögn
-
Samþykkt að taka kosningu í velferðarráð á dagskrá. Lagt er til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti í velferðarráði í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl.
Samþykkt. MSS22060049
-
Samþykkt að taka kosningu í mannréttindaráð á dagskrá. Lagt er til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti í mannréttindaráði í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl.
Samþykkt. MSS25020083 -
Samþykkt að taka kosningu í forsætisnefnd á dagskrá. Lagt er til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd í stað Alexöndru Briem.
Samþykkt. MSS22060040 -
Samþykkt að taka kosningu skrifara á dagskrá. Lagt er til að Helga Þórðardóttir verði kosin skrifari í stað Lífar Magneudóttur.
Samþykkt. MSS22060040 -
Fellt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Viðreisnar að taka umræðu um mælingar Gallup á trausti til borgarstjórnar á dagská. MSS24030071
Fundi slitið kl. 19:33
Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 8.4.2025 - prentvæn útgáfa