Borgarstjórn - Borgarstjórn 7.11.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 7. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Skúli Helgason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagt fram til fyrri umræðu frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 ásamt greinargerð og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023. Jafnframt eru lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 3. nóvember 2023. 4. liður; lántökur á árinu 2024, 5. liður; tillaga um álagningarhlutfall útsvars 2024, 6. liður; tillaga um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2024, 7. liður; tillaga um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2024, 8. liður; tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2024 og 10. liður; tillaga að gjaldskrám 2024.

  -    Kl. 13:50 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur þar sæti.
  -    Kl. 16:15 víkur Trausti Breiðfjörð Magnússon af fundinum og Ásta Þórdís Skjalddal tekur þar sæti. 

  Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. október 2023, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki lántökur á árinu 2024 að fjárhæð 16.500 m.kr. til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2024 og til að fjármagna stofnframlög borgarinnar vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Enn fremur verði lántakan nýtt til fjármögnunar á stofnframlögum B-hluta fyrirtækja og hlutdeildarfélaga. Jafnframt er lagt til að veita sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs umboð f.h. Reykjavíkurborgar til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast skuldabréfaútgáfu borgarsjóðs, sem og til þess að taka á móti og undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökum þessum, enda verði einstakar lántökur lagðar fyrir borgarráð til afgreiðslu.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. október 2023, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2024 verði 14,74% og er það sama hlutfall og tekjuárið 2023.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. október 2023, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2024 verði sem hér segir:
  1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,18%. 
  2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32%. 
  3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,60%. 
  4. Hlutfall lóðarleigu fyrir íbúðarhúsalóðir verði 0,2% af fasteignamatsverði. 
  5. Hlutfall leigu fyrir verslunarlóðir, iðnaðarlóðir og lóðir fyrir opinberar byggingar verði 1,0% af fasteignamatsverði.

  Greinargerð fylgir tillögunni.

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-1 um álagningarhlutfall fasteignaskatta 2024:

  Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta vegna ársins 2024 verði sem hér segir:
  1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,165%. 
  2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði áfram 1,32%. 
  3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,56%.Tillagan felur í sér að tekjur lækka um 660 m.kr. vegna fasteignaskatts skv. a-lið sbr. ofangreint og um 440 m.kr. skv. c-lið. Samanlögð tekjulækkun sem nemur 1.100 m.kr. verði fjármögnuð af lækkun útgjalda.

  Greinargerð fylgir breytingartillögunni. 
  Breytingartillagan er felld með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokksins og Viðreisnargegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
  Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands merkt J-2, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Borgarstjórn samþykkir að breyta fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði þannig að skatturinn verði 1,65% af fasteignamati húss og lóðar í stað 1,60%. Breytingin gildi frá og með janúar 2024. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði því 1,65%.

  Greinargerð fylgir breytingartillögunni. 
  Breytingartillagan er felld með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. 
  Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Óskað hefur verið eftir að greidd verði atkvæði um tillögu borgarstjóra í tvennu lagi. Fyrst er borinn upp 3. liður tillögunnar, þ.e. að hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,60%.
  Liðurinn er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillaga borgarstjóra er að öðru leyti samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. október 2023, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Lagt er til að gjalddagaskipting fasteignagjalda fyrir árið 2024 verði eftirfarandi: Greiðendur fasteignagjalda skulu gera skil á fasteignagjöldum ársins 2024 með 11 jöfnum greiðslum á eftirfarandi gjalddögum: 31. janúar, 3. mars, 2. apríl, 4. maí, 1. júní, 2. júlí, 3. ágúst, 1. september, 2. október, 2. nóvember og 3. desember. Þá er lagt til að nemi álagning fasteignagjalda 25.000 kr. eða lægri fjárhæð á fastanúmer greiði gjaldendur þau með einum gjalddaga þann 31. janúar. Lagt er til að gjalddagar krafna vegna framkvæmdar afsláttar til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti og fráveitugjaldi verði 2. nóvember, 3. desember og 4. janúar. Lagt er til að þeir sem eiga inneignir fái þær greiddar út 7. nóvember 2024.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks flokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 31. október 2023, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2024 verði eftirfarandi: 
  Viðmiðunartekjur 
  I. Réttur til 100% lækkunar 
  Einstaklingur með tekjur allt að 5.380.000 kr. 
  Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.510.000 kr. 
  II. Réttur til 80% lækkunar 
  Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.380.001 til 6.160.000 kr. 
  Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.510.001 til 8.320.000 kr. 
  III. Réttur til 50% lækkunar 
  Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.160.001 til 7.160.000 kr. 
  Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.320.001 til 9.940.000 kr. 
  Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins þær eru á hverjum tíma.

  Greinargerð fylgir tillögunni.

  Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga merkt F-4 um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts, sbr. 15. lið fundargerð borgarráðs frá 3. nóvember 2023:

  Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2024 verði eftirfarandi: 
  I. Réttur til 100% lækkunar 
  Einstaklingur með tekjur allt að 5.412.000 kr. 
  Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 7.555.000 kr. 
  II. Réttur til 80% lækkunar 
  Einstaklingur með tekjur á bilinu 5.412.001 til 6.196.000 kr. 
  Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 7.555.001 til 8.370.000 kr. 
  III. Réttur til 50% lækkunar 
  Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.196.001 til 7.202.000 kr. 
  Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.370.001 til 10.000.000 kr.
  Kostnaðarauki vegna tillögunnar nemur 50 m.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir á sameiginlegum kostnaði (ÖNN) verði hækkaðar á móti.

  Greinargerð fylgir breytingartillögunni.
  Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillaga borgarstjóra er samþykkt. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Lögð fram tillaga borgarstjóra um gjaldskrár Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024, dags. 31. október 2023, ásamt greinargerð, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023.

  Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands merkt J-1 um gjaldfrjálst skóla- og frístundastarf, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023.
  Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-1 um frystingu á gjöldum ákveðinna minnihlutahópa, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023.

  Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-2 um gjöld í Árbæjarsafn, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023.
  Tillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Lögð fram breytingartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins merkt F-3 um hundagjöld, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023.
  Breytingartillagan er felld með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillaga borgarstjóra um gjaldskrár er borin upp í tvennu lagi. Gjaldskrár skóla- og frístundasviðs, þ.e. gjaldskrár frístundaheimila, sumarnámskeiða, máltíðir í grunnskólum, skólahljómsveitir og Tónlistarskólans Klébergi, gjaldskrár leikskóla – námsgjald, fæðisgjald og börn íslenskra ríkisborgara með lögheimili erlendis og framlag vegna barna hjá dagforeldrum eru samþykktar með með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Tillaga borgarstjóra um gjaldskrár er samþykkt að öðru leyti með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 5. desember nk.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir 2024 gerir ráð fyrir batnandi afkomu A- og B-hluta og að rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð. Hagræðingaraðgerðir hafa skilað betri árangri en áætlanir gerðu ráð fyrir á yfirstandandi ári. Veltufé frá rekstri er orðið jákvætt og fer hækkandi. Hlutfall launa miðað við tekjur fer lækkandi, hraðar en gert var ráð fyrir. Með lækkun fjárfestinga er einnig dregið úr lánsfjárþörf í erfiðu vaxta- og verðbólguumhverfi. Þennan árangur má þakka samstilltu átaki starfsfólks og stjórnenda hjá borginni og fyrirtækjum borgarinnar. Áfram er unnið á sama grunni og stefnt að því að vöxtur í tekjum og aðhald í útgjöldum einkenni áætlun borgarinnar á næsta ári. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Rekstur samstæðu Reykjavíkurborgar er neikvæður sem nemur 4,4 milljörðum króna, sem er 12,5 milljarða neikvæð sveifla frá fjárhagsáætlun 2023. Samhliða aukast skuldir samstæðunnar um 44 milljarða milli ára. Rekstur borgarsjóðs er neikvæður sem nemur 4,8 milljörðum og skuldir aukast um 25 milljarða. Borgarstjóri segir útkomuspá sýna 10 milljarða jákvæðan viðsnúning í rekstri borgarinnar sem skýra megi með góðum árangri við hagræðingar í rekstri. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks mótmæla þessari fullyrðingu harðlega. Boðaðar hagræðingaraðgerðir meirihlutans hafa engum ávinningi skilað enda jókst rekstrarkostnaður borgarinnar um 11 milljarða milli ára, en tekjur jukust jafnframt um 21 milljarð. Tíu milljarða viðsnúningurinn fékkst því einungis með auknum skatttekjum – beint úr vösum skattgreiðenda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja eftir sem áður áherslu á aukið hagræði í rekstri borgarinnar, minni yfirbyggingu, skipulega niðurgreiðslu skulda og frekari eignasölu.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar snýst um að móta hvert við viljum stefna, hvernig borg við viljum lifa í og hverjar áherslurnar eiga að vera við útdeilingu fjármagns og tekjuöflunar. Sú áætlun sem meirihluti borgarstjórnar leggur hér fram er ekki í samræmi við sýn sósíalista. Það verður að stöðva gjaldheimtu á börnum sem þurfa á menntun, næringu og frístundum að halda. Á meðan borgin setur upp hindranir og rukkar börn fyrir aðgang að þjónustu verður fjöldi þeirra ávallt skilinn eftir. Sósíalistar leggja til að öll skólastig á vegum borgarinnar verði gjaldfrjáls og frístundaheimilin einnig. 4 af hverjum 25 börnum í 4. bekk í Reykjavík fara svöng að sofa en borgin er ekki með áherslur um að draga úr barnahungri og fátækt. Á meðan hin aflögufæru greiða ekki til nærsamfélagsins rukkar borgin hin efnaminni fyrir grunnþjónustu. Útsvar á fjármagnstekjur er mikið réttlætismál auk þess að vera fjármögnunarliður fyrir þau verkefni sem sósíalistar leggja til. Hin allra auðugustu greiða ekki í okkar sameiginlegu sjóði og því þarf að breyta. Þá telja sósíalistar eðlilegt að fasteignaskattar atvinnuhúsnæðis verði 1,65%. Eyða þarf biðlistum í félagslegt húsnæði og auka uppbyggingu til muna. Sósíalistar berjast fyrir fjárhagsáætlun sem skapar borg fyrir öll, ekki bara hin fáu.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  A-hlutinn er að mestu fjármagnaður með skatttekjum íbúa borgarinnar. Yfirlit um A- og B-hluta gefur fyrst og fremst yfirlit um heildarumfang í rekstri og efnahag borgarinnar vegna þess hve einstakar rekstrareiningarnar eru ótengdar. Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar hefur verið erfiður á undanförnum árum. Árlega hefur hluti rekstrarútgjalda borgarsjóðs verið fjármagnaður með lántökum. Fjárfestingar og afborganir lána hafa verið fjármagnaðar með lántökum. Fráleitt er að kenna kostnaði við verkefni sem tengjast málefnum fatlaðs fólks um slæma rekstrarstöðu borgarinnar að miklu leyti eins og gert hefur verið. Útlit er fyrir að rekstur A-hluta borgarsjóðs sé í hægum bata og því ber vissulega að fagna. Langt er þó í land með að fjárhagsstaða borgarinnar sé ásættanleg. Athygli vekur t.d. að veltufjárhlutfall fer í fyrsta sinn um árabil undir 1 á komandi ári og fer svo enn lækkandi. Það bendir til að erfiðara verði að greiða reikninga á réttum tíma á komandi árum með hækkandi dráttarvöxtum. Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á að gripið verði til óhjákvæmilegra hagræðingaraðgerða sem skipta máli í rekstri borgarinnar. Hagræðingarkrafa um 1% ætti að flokkast undir eðlilegt árlegt aðhald en ekki sértækar aðgerðir til að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu.

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fjárhagsáætlun sú sem meirihlutaflokkarnir í Reykjavík bera nú fram einkennist af sérkennilegri blöndu af óskhyggju og metnaðarleysi. Sá hægfara bati sem hefur átt sér stað á afkomu sveitarfélagsins er afleiðing flatra verðskrárhækkana sem lent hafa á herðum borgarbúa. Sjálf áætlunin gengur að mestu út á gyllivonir um betri tíð með blóm í haga eftir 4-5 ár. Borgarinnar bíða hins vegar mörg knýjandi verkefni, s.s. á sviði mennta- og umhverfismála, sem þola ekki frekari bið. Brýnt er að gera mikilvægar umbætur á þessari áætlun á milli umræðna.
   

  Fylgigögn

 2. Lagt fram frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2024-2028, ásamt greinargerð, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. nóvember 2023. FAS23010019

  Samþykkt að vísa frumvarpi að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2024-2028 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 5. desember nk.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að efla grunninnviði líkt og almenningssamgöngur en strætisvagnar á nokkrum leiðum eru nú þegar fullnýttir á annatímum, þjónusta hefur verið skert og ekki er útlit fyrir að þjónusta verði bætt í náinni framtíð. Endurnýjunarþörf og skortur á vögnum er helsta orsökin. Aldur og staða vagnaflotans auka líkur á að fella þurfi niður ferðir sem skerðir enn frekar þjónustu og hefur áhrif á virka notendur og getur hamlað fjölgun þeirra. Þetta kemur fram í greinargerð Strætó bs. með fjárhagsáætlun og ljóst að bregðast þarf við þessari alvarlegri stöðu. Góðar almenningssamgöngur eru mikilvæg loftslagsaðgerð sem og þjónusta sem mörg reiða sig á. Vegna tillagna um fasteignaskatta þá benda Sósíalistar á að fasteignaskattar íbúðarhúsnæðis taka ekki mið af því hlutfalli sem íbúar eiga í íbúð sinni. Sósíalistar telja eðlilegt að skoða fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði þannig að það taki tillit til mismunandi stöðu húsnæðiseigenda, sum hafa ný keypt og eiga lítið í sínu húsnæði á meðan að aðrir eiga íbúð sína skuldlaust.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ef horft er til fimm ára áætlunar Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir verulegum viðsnúningi í rekstri A-hluta borgarsjóðs til hins betra. Gegnumgangandi er að reiknað sé með að samningar náist við ríkið um fjármögnun málefna fatlaðs fólks eins og borgin hefur lagt upp með. Það er engan veginn öruggt og jaðrar við að vera draumsýn. Það er mjög varhugavert að ganga út frá því að ríkisvaldið muni samþykkja allar kröfur Reykjavíkurborgar þar að lútandi. Því væri skynsamlegt að setja upp tvær eða þrjár sviðsmyndir um niðurstöður þeirra samninga til að betur liggi fyrir hvernig fjármál borgarinnar muni þróast út frá mismunandi forsendum. Fjárhagsáætlunarvinnu ætti einmitt að nota til að sem fæst komi á óvart. Athyglisvert er að veltufjárhlutfall A-hluta borgarsjóðs fer lækkandi á tímabilinu og er komið niður undir 0,8. Það er varhugaverð þróun sem nauðsynlegt er að bregðast við tímanlega. Mikil lækkun veltufjárhlutfalls undir 1 eykur líkur á að dráttarvextir fari vaxandi. Á meðan þetta er með þessum hætti hringja viðvörunarbjöllur. Það mun taka lengstan tíma að koma mikilvægasta atriðinu í fjármálastefnu borgarinnar í ásættanlegt horf, veltufé frá rekstri. Nauðsynlegt er að bregðast við og leita allra leiða til að styrkja þróun veltufjár frá rekstri í A-hluta borgarsjóðs.

  Fylgigögn

 3. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 19. október, 31. október, 2. nóvember og 3. nóvember. MSS23010001
  9. liður fundargerðarinnar frá 3. nóvember; niðurfelling á yfirfærslu fjárheimilda vegna ársins 2022 yfir á árið 2023 er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS32100035
  11. liður fundargerðarinnar frá 3. nóvember; fjárhags- og starfsáætlun svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins 2024 er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090091
  12. liður fundargerðarinnar frá 3. nóvember; fjárhagsáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23100121
  13. liður fundargerðarinnar frá 3. nóvember; fjárhagsáætlun starfshóps um vatnsvernd og vatnsnýtingu 2024 er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090143

  MSS23010001

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði fram fjórar breytingartillögur við fjárhagsáætlun. Sú fyrsta sneri að því að frysta gjaldskrárhækkanir um eitt ár er varða vetrar- og sumarstarf frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðvar barna og eldri borgara sem og annarra minnihlutahópa . Hafa skal í huga að ekki er hægt að nota frístundakortið til að greiða sumarnámskeið auk þess sem efnaminni foreldrar yfir 1000 barna nota kortið til að greiða frístundaheimili í stað þess að þeim séu boðnar heimildargreiðslur til að dekka kostnað við frístundaheimili. Tillaga tvö er að gjald í Árbæjarsafn verði breytt m.a. þannig að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiði aðeins gjald fyrir annað foreldrið og að unglingar milli 17 og 18 ára fái frían aðgang sem og að nemar fái ókeypis aðgang. Tekjulækkun nemur 10 m.kr. verði fjármögnuð af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð. Þriðja tillagan er að hið árlega hundagjald og einnig handsömunargjald lækki um 50%. Hið fyrra er nú kr. 15.700 og hið síðara kr. 34.000. Loks er lagt til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2024 verði nokkru hærri en meirihlutinn leggur til. Kostnaðarauki 50 m.kr. verði fjármagnaður af kostnaðarstað 09205 ófyrirséð og fjárheimildir á sameiginlegum kostnaði (ÖNN) verði hækkaðar á móti.

  Fylgigögn

 4. Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 31. október, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 13. október, stafræns ráðs frá 25. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. og 25. október og 1. nóvember, velferðarráðs frá 18. og 20. október og 1. nóvember.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  2. liður fundargerðar velferðarráðs frá 18. október: Fjallað er um skilgreiningu á markhópi neyðarskýla. Flokkur fólksins tekur það ekki í mál að einstaklingi sem leitar skjóls í neyðarskýli sé nokkurn tíma vísað út á guð og gaddinn. Engum skal úthýst nema búið sé að finna viðkomandi annað skjól eða tryggja að viðkomandi sé kominn undir þak. 6. liður fundargerðar velferðarráðs frá 1. nóvember: Um að sveitarfélög standi að baki vettvangs- og ráðgjafarteymis (VoR-teymis). Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögunni. Hér er um afar viðkvæman hóp að ræða. VoR-teymið sinnir mikilvægu hlutverki og er brýnt að VoR-teymið fái þann stuðning sem þarf til að viðhalda þeirra góða starfi. Mikilvægt er að öll þau sem eru án heimilis fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á. 30. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. október: Á sjötta hundrað strætóbiðstöðvar þarfnast endurbóta. Samkvæmt nýju leiðaneti á að leggja niður 126 biðstöðvar. Það kann að vera óskynsamlegt þar sem væntingar um að stutt sé í borgarlínu hafa dvínað. Um það bil 156 biðstöðvar þurfa aðgengisbætandi aðgerðir. Samkvæmt áætlun eru um 15-20 biðstöðvar endurgerðar á ári, sem er ekki mikið þegar heildarfjöldi er 546. Á þessum hraða tekur það um 35 ár að ljúka endurbótum á þeim öllum.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 17:25

Magnea Gná Jóhannsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 7.11.2023 - Prentvæn útgáfa