Borgarstjórn - Borgarstjórn 6.6.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 6. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sara Björg Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkur til ársins 2023.

    Umræða um stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkur til ársins 2023, tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins um að borgarstjórn bjóði Leigjendasamtökunum stuðning vegna kaupa á íbúðum Heimstaden og umræða um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík voru sameinaðar á fundinum. MSS23060027

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er algjört lykilatriði að halda áfram húsnæðisuppbyggingu á landinu. Reykjavíkurborg er með metnaðarfulla húsnæðisáætlun sem miðar að því að vera áfram leiðandi í þeirri uppbyggingu sem er nauðsynleg. Með samkomulagi ríkis og borgar, frá 5. janúar 2023, skuldbatt Reykjavíkurborg sig til þess að vera með lóðir fyrir 1.500-3.000 íbúðir tilbúnar til uppbyggingar á hverjum tíma. Í árslok 2022 voru 2.478 íbúðir í byggingu og byggingarhæfar lóðir fyrir 2.219 íbúðir til viðbótar. Þess ber að geta að nú eru stór svæði að verða tilbúin til uppbyggingar, svo sem á Ártúnshöfða í kringum Krossamýrartorg. Það er gífurlega mikilvægt að tryggja að ytri skilyrði styðji við að mögulegt sé að byggja á þeim lóðum sem eru uppbyggingarhæfar hratt og vel. Hátt vaxtastig er þar áhyggjuefni og því ber að halda til haga að án uppbyggingar mun vandi aukast á húsnæðismarkaði vegna hraðrar fjölgunar borgarbúa. Þannig er mikilvægt að tilraunir til að stemma stigu við verðbólgu vinni ekki gegn því að hægt sé að fjármagna nauðsynlega húsnæðisuppbyggingu.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja stafræna húsnæðisáætlun sannkallað framfaraskref, sem lyfta muni grettistaki í að greiða úr upplýsingaóreiðunni sem einkennt hefur uppbyggingartölur frá Reykjavíkurborg undanliðin ár. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga, sem undirritaður var árið 2022, gerir ráð fyrir að tryggja þurfi uppbyggingu 35.000 nýrra íbúða hérlendis næsta áratug til að mæta uppsafnaðri húsnæðisþörf. Gerir samningurinn ráð fyrir 36% hlutdeild Reykjavíkurborgar í uppbyggingunni, eða sem nemur 2.000 íbúðum árlega fyrstu fimm árin, en 1.200 íbúðum árlega síðari fimm árin. Strax á fyrsta ári áætlunarinnar er borgin komin í skuld, en húsnæðisuppbygging hefur verið langt undir markmiðum ársins og að óbreyttu mun uppsöfnuð þörf halda áfram að vaxa. Mælingar HMS sýna jafnframt gríðarlega uppsafnaða grunnþjónustuþörf, en nauðsynlegt er að fara tafarlaust í sérstakt átak til að fjölga grunnskólum og leikskólum svo bregðast megi við þörfinni. Það verður því gríðarlega mikilvægt að huga tímanlega að nauðsynlegri innviðauppbyggingu samhliða stóraukinni húsnæðisuppbyggingu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrika ekki síst, að ef metnaðarfull markmið um húsnæðisuppbyggingu í borginni eiga að nást, verði borgin að tryggja aukið lóðaframboð á aðgengilegum svæðum, en jafnframt lipra, sveigjanlega og stafræna stjórnsýslu. Jafnframt þurfi að lækka álögur til að bregðast við þeim sérstöku aðstæðum sem nú eru uppi. Borgin hefur gríðarmörg tækifæri til að gera betur.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þessi áfangaskýrsla er bara endurtekið efni. Ekkert nýtt frá síðustu áfangaskýrslu í raun. Fullyrða má að borgin úthlutar ekki lóðum í samræmi við þörf eins og var lofað. Kallað er eftir loforði frá Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninga. Lögaðili fullyrðir að engar óseldar lóðir séu til en halda mætti að lögaðilar eigi að kaupa lóðir sem eru í einkaeigu. Fram hefur komið hjá lögaðila að á þéttingarreitum er lóðaverð komið í allt að og jafnvel yfir 200 þúsund krónur fyrir hvern byggðan fermetra að meðtöldum gjöldum. Sjá má á vefsjá borgarinnar tölu um að tæpar 2.600 lóðir virðast vera til sölu og sagðar byggingarhæfar. Fyrirkomulagið er að lóðir eru boðnar út til hæstbjóðenda. Þeir sem vilja byggja íbúðir sem hægt er að selja og/eða leigja á viðráðanlegu verði eru ekki endilega þeir sem geta boðið hæst. Á meðan líður tíminn og fjölgar í þeim hópi sem ekki hefur tryggt húsnæði sem það getur kallað heimili. Þessi hópur er tekjulægsta fólkið sem og aðrir viðkvæmir hópar. Ef við eigum ekki að sitja í þessari súpu húsnæðisskorts um aldur og ævi verður þessi meirihluti að gera breytingar þannig að hægt sé að byggja hraðar og víðar í borginni. Ekki vantar land. 

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohjóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna lýsir ánægju með markmið þau og meginniðurstöður sem birtast í stafrænni húsnæðisáætlun Reykjavíkur. Hún kallast vel á við glænýja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stórátak til uppbyggingar leiguíbúða í landinu með tvöföldun stofnframlaga innan almenna íbúðakerfisins og hækkun framlaga til hlutdeildarlána. Yfirlýsingin felur einnig í sér að ráðist skuli í mikilvægar lagabreytingar til að tryggja réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði. Mikilvægt er að ríki og Reykjavíkurborg vinni náið saman að því að hrinda þessum áætlunum í framkvæmd.

     

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Leigufélagið Heimstaden hyggst selja um 1.700 íbúðir sem það á hér á landi. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu, þar af 450 í Reykjavík. Samtök leigjenda hafa brugðist við og óskað eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þær geti áfram verið í útleigu. Leigjendasamtökin hafa einnig óskað eftir viðræðum við fjármálaráðuneytið og stjórn ÍL-sjóðs um fjármögnun kaupanna. Þá hafa samtökin einnig óskað eftir viðræðum við stærstu lífeyrissjóði um fjármögnun sem og aðkomu innviðaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um nauðsynlegar lagabreytingar er snúa að stofnun og rekstri samvinnufélags leigjenda þar sem hugmynd Leigjendasamtakanna snýr að því að nýtt samvinnufélag leigjenda verði kaupandi og eigandi þar sem leigjendur séu í stjórn rekstrarfélagsins og móti stefnu þess og markmið. Lagt er til að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að leita til samtaka leigjenda og bjóða fram stuðning sinn við markmið Leigjendasamtakanna um kaup á íbúðum Heimstaden og útleigu þeirra á kostnaðarverði. Lagt er til að eitt af því sem verði skoðað og rætt er stuðningur sem gæti t.a.m. verið í formi fjárhagslegs stuðnings vegna kaupa á íbúðum í Reykjavík. Lagt er til að borgarritara verði falið að halda utan um verkefnið í samvinnu við önnur svið borgarinnar eftir því sem við á.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Tillagan er felld með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060029

    Umræða um stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkur til ársins 2023, tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins um að borgarstjórn bjóði Leigjendasamtökunum stuðning vegna kaupa á íbúðum Heimstaden og umræða um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík voru sameinaðar á fundinum. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins standa með leigjendum Heimstaden sem standa frammi fyrir ótta og óöryggi vegna fráhvarfs leigufyrirtækisins af íslenskum húsnæðismarkaði, og fagna áætlun samtaka leigjenda á Íslandi um að taka að sér að skipuleggja félag undir stjórn leigjendanna sjálfra sem gæti tekið við íbúðareignum fyrirtækisins.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Lagt er til að borgarstjórn bjóði Leigjendasamtökunum stuðning vegna kaupa á íbúðum Heimstaden. Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu heilshugar. Hér gætu borgaryfirvöld komið sterk inn. Leigufélagið Heimstaden hyggst selja um 1.700 íbúðir sem það á hér á landi. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu, þar af 450 í Reykjavík. Samtök leigjenda hafa brugðist við og óskað eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þær geti áfram verið í útleigu. Tillagan er ekki íþyngjandi að neinu leyti heldur er einungis lagt til að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að leita til samtaka leigjenda og bjóða fram stuðning sinn við markmið Leigjendasamtakanna um kaup á íbúðum Heimstaden og útleigu þeirra á kostnaðarverði. Aðdragandi er að í maí sl. fréttist að leigufélagið Heimstaden ætli sér að hörfa frá Íslandi og muni selja um 1.700 íbúðir. Fulltrúa Flokks fólksins brá við þessi tíðindi í ljósi erfiðs leigumarkaðar í Reykjavík. Samtök leigjenda brugðust við með því að óska eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á íbúðum félagsins svo þau geti áfram verið í útleigu. Leigjendasamtökin tala fyrir því að íbúðirnar verði leigðar út á kostnaðarverði.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir þá grunnhugsun sem fram kemur í tillögu Sósíalistaflokksins. Ríki og sveitarfélög eiga ekki að hika við að vera virkir gerendur á húsnæðismarkaðnum og ekki einskorða aðkomu sína við félagslegt húsnæði. Sú tillaga sem hér er lögð fram um málefni leigufélagsins Heimstaden og möguleg kaup á eignum þess er þó vanreifuð. Forsendur verkefnisins liggja ekki fyrir og ekki er fyrirliggjandi erindi frá þeim aðila sem stungið er upp á að sinni því.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík.

    Umræða um stafræna húsnæðisáætlun Reykjavíkur til ársins 2023, tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins um að borgarstjórn bjóði Leigjendasamtökunum stuðning vegna kaupa á íbúðum Heimstaden og umræða um húsaleigumarkaðinn í Reykjavík voru sameinaðar á fundinum. MSS23060031

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Húsnæði af öllum stærðum og gerðum sárvantar í Reykjavík. Það hefur verið byggt en ekki nóg. Reykjavíkurborg ber hér ríka ábyrgð. Borgin er að brjóta lög ef horft er til 14. gr. húsaleigulaga frá 1998. Samkvæmt 14. greininni á sveitarfélag m.a. að skoða framboð og eftirspurn eftir ólíkum búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði að teknu tilliti til ólíkra búsetuforma. Að tryggja framboð á lóðum og leysa úr húsnæðisþörf einstaklinga í sveitarfélaginu og eiga frumkvæði að því að aflað verði húsnæðis til að koma til móts við þá sem þurfa aðstoð í húsnæðismálum. Borgarmeirihlutinn hefur einblínt á að þétta byggð. Að þétta byggð er dýrt og tekur langan tíma og íbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar. Efnafólk hefur sölsað undir sig margar eignir sem leigðar eru á okurverði. Leigjendur eru að sligast undan hárri leigu. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja sanngjarnt leiguverð í samræmi við greiðslugetu leigjenda og vill Flokkur fólksins skoða að setja á leiguþak/leigubremsu. Borgin getur beitt sér í þessa átt á meðan ástandið er svona erfitt. Ljóst er að hvatning til leigusala um að stilla leiguverði í hóf hefur ekki áhrif. Hvað er borgarmeirihlutinn annars að gera til að beita sér í þessum málum?

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í Reykjavík er staðan á húsnæðis- og leigumarkaði afar slæm. Frá árinu 2011 hefur húsaleiga hækkað um 127% umfram verðlag. Að meðaltali borga leigjendur 44% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu, tæplega helming tekna sinna. Samkvæmt nýlegri rannsókn Barnaheilla búa um 20% barna á leigumarkaði við fátækt. Þessar og aðrar sláandi staðreyndir blasa við leigjendum og samfélaginu. Líkur leigjenda á að komast í eigið húsnæði eru sáralitlar og minnka þær líkur með hverju ári sem líður. Nær ógjörningur er fyrir einstæðinga að eignast sitt eigið húsnæði. Líkur einstæðra foreldra á leigumarkaði eru enn minni og þá sér í lagi einstæðra mæðra. Aðeins 0,5-2,4% allra leigjenda eldri en 34 ára hafa komist af leigumarkaði undanfarin ár. Af þeim leigjendum sem koma fram í könnun Vörðu um stöðu launafólks 2023, sem beri „þunga byrði“ af húsnæði er hlutfallið u.þ.b. 27% innfæddra Íslendinga og 54% innflytjenda. Í þessari stöðu er nauðsynlegt að meira sé byggt félagslega. Sérstaklega vegna þess að 66% alls íbúðarhúsnæðis frá árinu 2005 hefur verið keypt af fjárfestum, sem viðheldur framboðsskorti. Sósíalistar hafa ítrekað vakið athygli á háu eiginfjárhlutfalli Félagsbústaða, langt umfram það sem gengur og gerist hjá leigufélögum almennt. Það fé má nýta til að hefja stórfellda uppbyggingu félagslegra íbúða.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að óska eftir því við Skipulagsstofnun að láta framkvæma umhverfismat vegna mengaðs jarðvegs á því landsvæði þar sem fyrirhuguð er uppbygging á nýrri byggð í Skerjafirði. Á því svæði er einhver mengaðasti jarðvegur borgarinnar en ekkert liggur fyrir um það hvaða áhrif umtalsvert jarðrask á þessum slóðum kynni að hafa heilsufarslega á íbúa nærliggjandi byggðar né um hvaða áhrif slíkt jarðrask kynni að hafa á lífríki fjörunnar. Í 1. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 segir m.a. um markmið laganna: Sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif.

    -    Kl. 14:30 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.

    -    Kl. 15:25 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundinum og Unnur Þöll Benediksdóttir tekur sæti.

    Fram kemur munnleg ósk um nafnakall og er atkvæðagreiðslu frestað til svo unnt sé að senda inn skriflega beiðni. Þegar atkvæðagreiðslan fer fram hafa liðir nr. 3-10 á dagskrá fundarins verið afgreiddir.

    Fram fer nafnakall.

    Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060028

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meginástæðan fyrir þessari tillögu er sú staðreynd að á hinu fyrirhugaða byggingarsvæði í Skerjafirði er einhver mengaðasti jarðvegur borgarinnar. Verkfræðistofan EFLA stóð fyrir jarðvegskönnun og rannsóknum á jarðvegsmengun á svæðinu árið 2018. Þá kom í ljós að svæðið hefur að geyma mjög mengaðan jarðveg, eftir margvíslega starfsemi innan flugvallarins og eftir að hafa verið helsta birgðasvæði Shell í 70 ár. Niðurstöðurnar 2018 kölluðu á frekari sýnatökur 2021. Í ljós komu veruleg frávik í niðurstöðum. Fyrri rannsóknin gefur til kynna að um helmingur jarðvegsins sé hæfur fyrir íbúðabyggð, sú síðari gefur hins vegar til kynna að það sé einungis 4%. Slíkt ósamræmi hlýtur að vekja spurningar um hvort ekki sé rétt að gera nákvæmari rannsóknir. Það væri óðs manns æði að hefja umtalsvert jarðrask á svæði sem þessu sem er einungis 15-20m frá austurmörkum núverandi byggðar Skerjafjarðar. Samkvæmt niðurstöðu EFLU er þessi mengaði jarðvegur rúmlega 88% af heildarjarðvegi svæðisins. Umhverfisáhrif slíks mengaðs jarðvegs kunna að hafa heilsufarsleg áhrif á íbúa og áhrif á lífríki og náttúru. Auk þess kann svæðið vel að vera það pandórubox sem gæti sett allar framkvæmdir úr skorðum með gífurlegum kostnaði en fyrst og síðast rússnesk rúlletta fyrir lýðheilsu íbúanna. Ef einhvern tímann og á einhverjum stað hefur verið þörf á umhverfismati óvilhallra aðila, er það í þessu tilviki. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fyrsta skref í væntri uppbyggingu í Skerjafirði er að fara í jarðvegsskipti. Allar líkur eru á því að umhverfismat á þessu stigi myndi staðfesta það að þörf sé á þeirri aðgerð. Afar ósennilegt er að niðurstöður verði á þá leið að ekki sé ástæða til þess. Í ljósi þess að til stendur að fara í umrædd jarðvegsskipti, til að gæta fyllstu varúðar, er óljóst hvað græðist á því að tefja framkvæmdir um 2-3 ár til að komast að sömu niðurstöðu.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins styður þessa tillögu um umhverfismat vegna mengaðs jarðvegs á fyrirhuguðu byggingarsvæði i Skerjafirði. Þarna er mengaður jarðvegur, um það er ekki deilt. Það er skynsamlegra að rannsaka hann frekar en að hunsa þetta og fá svo bakreikning síðar. Hreinsa þarf mengun úr jarðvegi áður en uppbygging hefst á 1.400 íbúða byggð. Moka á upp 170.000 rúmmetrum af olíumenguðum jarðvegi. Fjölmargar athugasemdir hafa borist um þetta atriði bæði frá einstaklingum og stofnunum svo sem Náttúrufræðistofnun. Hér er vert að minnast á fyrirhugaða landfyllingu. Í Skerjafirði er ein fallegasta fjara í borginni og er full af lífi. Náttúrufræðistofnun skrifaði mjög harðorða umsögn um þessa landfyllingu sem er ennþá í umhverfismati. Fram hefur komið hjá meirihlutanum að byggja verði á þessari landfyllingu annars verði hverfið, Nýi Skerjafjörður, ekki sjálfbært. Miklu er fórnað fyrir að byggja hverfi ofan í flugvelli. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af lífríki fjörunnar. Nú stendur til að fara í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir svo eitthvað sé hægt að nýta flugvöllinn þegar búið er að byggja þétt upp við hann. Allt er óljóst með þessar mótvægisaðgerðir og hvernig og hversu mikið þær tryggja að flugvöllurinn verði nothæfur og öruggur.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um ályktun svæðisskipulagsnefndar SSH og SSS um greiðar, vistvænar og öruggar samgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.

    -    Kl. 16:15 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir tekur þar sæti. MSS23050048

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í sameiginlegri ályktun svæðisskipulagsnefnda SSH og SSS er sjónum beint að samgöngum milli svæðanna með sérstakri áherslu á tvöföldun Reykjanesbrautar, tíðar, aðgengilegar og gæðamiklar almenningssamgöngur með góðri aðstöðu fyrir farþega á Keflavíkurflugvelli og bættar hjólasamgöngur milli svæðanna. Þessari sameiginlegu ályktun er fagnað og tekið undir þau sjónarmið sem þar koma fram.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um Árbæjarsafn og tækifæri því tengd sem útivistarsvæði í Elliðaárdal.

    -    Kl. 16:45 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Pawel Bartoszek víkur af fundi.

    -    Kl. 16:50 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum og Rannveig Ernudóttir tekur þar sæti. MSS23060030

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrst og fremst finnst fulltrúa Flokks fólksins að gera þurfi aðgengi að safninu auðveldara öllum samfélagshópum. Í raun er rándýrt inn á þetta safn og stórum hópi sífjölgandi fátækra barnafjölskyldna ómögulegt að hafa efni á að fara með börn sín á safnið. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til um síðustu áramót að gjaldskrá Árbæjarsafns yrði breytt. Lagt var til að unglingar milli 17 og 18 ára fengju frían aðgang að Árbæjarsafni eins og börn til 17 ára. Lagt var einnig til að nemendur með gilt skólaskírteini fengju ókeypis aðgang en nú greiða þeir 1.200 kr. Lagt var til að hjón/pör sem heimsækja safnið með barn/börn greiddu aðeins gjald fyrir annað foreldrið. Lagt var til að menningar- og ferðamálasviði yrði falið að kostnaðarmeta áhrif tillögunnar sem yrðu fjármögnuð af liðnum ófyrirséð við síðari umræðu í borgarstjórn. Þessari tillögu var auðvitað hafnað eins og meirihlutans er von og vísa þegar kemur að tillögum minnihlutans, jafnvel þeim sem bæta munu þjónustu við börn eða gleðja þau.

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að framkvæmdir við breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, frá Vallá að Hvalfjarðargöngum, verði boðnar út sem fyrst. Um er að ræða eitt brýnasta verkefni í þágu umferðaröryggis á höfuðborgarsvæðinu. Umræddur vegarkafli er hættulegur en breikkun vegarins og aðskilnaður akreina myndu draga verulega úr slysahættu á honum.

    Tillögunni er vísað frá með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23050100

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breikkun Vesturlandsvegar er brýnt umferðaröryggismál. Nú er unnið að fyrri áfanga verksins: frá Varmhólum að Vallá. Óvissa ríkir um hvenær hafist verður handa við síðari áfanga; frá Vallá að Hvalfjarðargöngum, en upphaflega var stefnt að því að öllu verkinu lyki á árinu 2023. Fyrir fundi borgarstjórnar í dag lá tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að borgarstjórn skoraði á Alþingi og ríkisstjórn að sjá til þess að framkvæmdir við breikkun síðari áfanga verksins yrðu boðnar út sem fyrst. Óumdeilt er að breikkun Vesturlandsvegar sé eitt brýnasta verkefnið í þágu umferðaröryggis á landinu. Fjölmörg alvarleg slys hafa orðið á umræddum vegarkafla en breikkun hans og aðskilnaður akreina mun draga verulega úr slysahættu. Um er að ræða gífurlegt hagsmuna- og öryggismál fyrir alla vegfarendur um Vesturlandsveg og Kjalnesinga eins og íbúaráð Kjalarness hefur ítrekað bent á. Tillagan var á dagskrá borgarstjórnarfundar 16. maí sl. en þá ákvað meirihlutinn einhliða að taka hana af dagskrá. Nú var tillagan tekin fyrir en vísað frá af meirihlutanum, nánast án umræðu en einungis borgarfulltrúi Pírata tjáði sig stuttlega um efni hennar. Slík vinnubrögð borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar eru með ólíkindum og lýsa áhugaleysi þessara flokka á brýnum úrbótum í umferðaröryggismálum og málefnum Kjalnesinga.

    Fylgigögn

  8. Fram fer umræða um þróunarverkefnið kveikjum neistann í Reykjavík. MSS23060033

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Kveikjum neistann er rannsóknar- og þróunarverkefni sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í og hefur verið í gangi með nemendum í bráðum tvö ár. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að skólayfirvöld skoði þetta verkefni með það fyrir augum að innleiða það þó ekki væri nema í tilraunaskyni. Nýjustu tíðindi eru að 94 af 96 börnum ná að brjóta lestrarkóðann eftir 1. bekk, sem sagt geta lesið einstök orð, og yfir 83% ná fullu læsi eftir 2. bekk (eftir að prófa 2 nemendur). Kveikjum neistann byggir á vísindarannsóknum og er stöðugt verið að árangursmæla það. Grunnatriðin eru markviss þjálfun og áskorun miðað við færni. Staða margra nemenda í lestri og lesskilningi í Reykjavík er ekki nógu góð. Þetta hafa PISA kannanir sýnt okkur undanfarin ár en 16% barna ná ekki stigi tvö í PISA í lesskilningi, sem sagt lesa sér ekki til gagns. Þegar líðan er skoðuð hjá börnunum greinist marktækur munur milli þeirra barna sem tóku þátt í kveikjum neistann í 1. bekk og þeim sem voru í 1. bekk árinu áður en verkefnið fór af stað. Þetta segir okkur hvað lestrarfærni er mikil áhrifabreyta á líðan og sjálfstraust barnsins. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er áhugavert að fylgjast með nýjum nálgunum á kennslu barna, og sjálfsagt að fylgja nýjum straumum í fræðunum sem miða að því að auka ánægju og getu barna í námi. Sósíalistar leggja þó áherslu á að ekki sé unnið eftir þeirri aðferðafræði að skólar þurfi að leggja í alls kyns átaksverkefni til að fá fjármagn til starfsins til að tryggja næga fjármögnun til hins daglega starfs og treysta því fagfólki sem vinnur þegar innan veggja skólanna og á sviðum borgarinnar.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir áskorun til dómsmálaráðherra annars vegar og innviðaráðherra hins vegar um að þeir hafi frumkvæði að því að breyta viðeigandi ákvæðum laga svo að frá og með sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 verði borgarstjórinn í Reykjavík kjörinn beinni kosningu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokksins að fresta afgreiðslu tillögunnar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060034

    Fylgigögn

  10. Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta umræðu um málefni Ljósleiðarans ehf.

    Borgarfulltrúar Sósialistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010191

  11. Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í borgarráði í stað Alexöndru Briem. Einnig er lagt til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl.

    Samþykkt. MSS22060043

  12. Tilkynnt er um að Alexandra Briem taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl. Jafnframt er tilkynnt um að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti sem varaáheyrnarfulltrúi í ráðinu í stað Alexöndru Briem. MSS22060040

  13. Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.

    Samþykkt. MSS22060048

  14. Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti í stafrænu ráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og að Elísabet taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Alexöndru. Jafnframt er lagt til að Alexandra verði formaður ráðsins.

    Samþykkt. MSS22060158

  15. Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Dóra verði formaður ráðsins.

    Samþykkt. MSS22060046

  16. Lagt er til að Kristinn Jón Ólafsson taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Elísabet taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Kristins Jóns Ólafssonar.

    Samþykkt. MSS22060064

  17. Lagt til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í stefnuráði SSH í stað Alexöndru Briem.

    Samþykkt. MSS22060151

  18. Kosningu í stjórn Strætó bs. er frestað. MSS22060153

  19. Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti sem varamaður í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins í stað Alexöndru Briem.

    Samþykkt. MSS22060151

  20. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 25. maí. MSS23010001

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu undir 22. lið fundargerðarinnar:

    Lagt er til að fyrirliggjandi tillögu um grenndarstöð við Öldugötu verði frestað og í framhaldi kynnt fyrir þeim íbúum götunnar og aðliggjandi gatna, sem hagsmuna eiga að gæta. Verði íbúunum gefinn kostur á að láta í ljós skoðun sína á framkvæmdinni áður en endanleg ákvörðun verður tekin um hana. Jafnframt er lagt til að tillagan verði kynnt fyrir starfsfólki og foreldrafélagi leikskólans Öldukots, sem augljóslega á einnig hagsmuna að gæta í málinu.

    Málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er felld með með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúar Sósialistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar.

    22. liður fundargerðarinnar; Hrannarstígur/Öldugata – grenndarstöð, er samþykktur með með 16 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. USK23050134

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðarinnar:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa fengið ótal ábendingar um að kynningu grenndarstöðvarinnar hafi verið ábótavant. Ekki hafi verið tekið tillit til fjölda athugasemda sem komu frá íbúum sem sneru aðallega að því að umferðaröryggi myndi versna, sérstaklega þegar litið er til þess að leikskóli er við hliðina á þeirri grenndarstöð sem um er að ræða. Grenndarstöðin hefur í för með sér umtalsverða breytingu á Öldugötu bæði hvað varðar landnotkun og útsýni á þessu svæði.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Í húsnæðisáætluninni er greint frá hve margar íbúðir hafa verið byggðar. Ekkert er talað um hversu mikið þarf að byggja til að að hægt sé að bjóða upp á húsnæðisöryggi í Reykjavík. Sárlega vantar lóðir fyrir lögaðila eins og Bjarg og Blæ sem eru tilbúin að byggja hagkvæmt leiguhúsnæði. Þær tölur sem varpað er fram í þessari skýrslu hafa því litla þýðingu. Þétting byggðar í kringum borgarlínu er í forgangi hjá meirihlutanum á meðan stór hópur fólks nýtur ekki húsnæðisöryggis og enginn sér sem stendur að borgarlína sé að hefja akstur í nánustu framtíð. Í raun er fulltrúi Flokks fólksins orðinn þreyttur á svona skýrslum. Fólk hrópar á hjálp eftir öruggu húsaskjóli og að komast ferðar sinnar án stórkostlegra tafa. Yfir 1.000 bíða eftir húsnæði hjá borginni og tæp 800 eftir almennu félagslegu húsnæði. Staðan á leigumarkaði er óbærileg. Ekkert bólar á aðgerðum frá borgaryfirvöldum um hvernig bregðast megi við ástandinu. Fyrirkomulag úthlutunar lóða er bæði erfitt og gallað. Lóðir fara í útboð sem þýðir að hæstbjóðandi fær hana sem verður til þess að íbúðirnar eru seldar á hærra verði.

    Fylgigögn

  21. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 2. júní, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 11. og 15. maí, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. maí, skóla- og frístundaráðs frá 22. maí, stafræns ráðs frá 10. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17., 24. og 31. maí og velferðarráðs frá 24. maí. MSS23010061

    1. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Þórdísar Jónu Sigurðardóttur til loka kjörtímabilsins, er samþykkt. MSS22080201

    2. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Geir Finnssonar til 9. janúar 2024, er samþykkt. MSS23050188

    5. liður; breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar – fram fer fyrri umræða. Samþykkt með 17 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunum til síðari umræðu. MSS22080219

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta með engu móti samþykkt andlýðræðislegar tillögur sem takmarka rétt þeirra til að koma sínum sjónarmiðum og málum á framfæri. Gæta þarf þess að farið sé að lögum og réttindum borgarfulltrúa og jafnræðis sé gætt milli þeirra. Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa og með því að setja þak á lok borgarstjórnarfunda, stytta ræðutíma í fyrstu ræðu úr 10 mínútum í átta, fækka ræðum borgarfulltrúa úr þremur við hverja umræðu í tvær og að hvert andsvar fari úr tveimur mínútum í eina er verið að ganga á rétt borgarfulltrúa, málfrelsi þeirra og tillögurétt. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. maí:

    Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um leikskólann Sælukot sem er einkarekinn. Fyrirspurnin er ársgömul. Fyrirspurnin var lögð fram í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar þar sem fram komu ábendingar til nokkurra leikskóla út frá ákveðnu áhættumati þ.m.t. arðgreiðslum. Segir í svari að Sælukot sé ekki rekið sem einkahlutafélag og er því ekki skráð með arðgreiðslur. Í skýrslunni kemur fram að mánaðargjald hjá Sælukoti vegna barna 18 mánaða og yngri er hærra en heimilt er og að hámarksstuðull sem á að vera 2,15 er á bilinu 2,37-2.63, mismunandi eftir dvalartíma og flokki. Gjaldskráin er því frá 6.764 kr. til 9.312 kr. hærri á mánuði en heimilt er. Þetta var fyrir tæpu ári og síðan þá hefur skóla- og frístundasvið gert nýja þjónustusamninga við átta einkahlutafélög um framlög vegna leikskólaplássa og framundan er heildarskoðun á samningum borgarinnar við sjálfstætt starfandi leikskóla. Reynslan sýnir að í einkarekstri er ákveðin hætta á að gjöld hækki en þjónustan standi í stað eða jafnvel dali. Enginn býður í rekstur nema hann sjái fram á gróða. Það getur orðið á kostnað þjónustunnar og að þeir sem bera ábyrgð séu ekki með fagmenntun.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 20:53

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 6. júní Prentvæn útgáfa