Borgarstjórn - Borgarstjórn 5.9.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 5. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:15. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Geirdís Hanna Kristjánsdóttir, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf og Skúli Helgason. Sanna Magdalena Mörtudóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi dagskrárbreytingartillögu:

  Lagt er til að dagskrárliður 1 verði færður aftast á dagskrá fundarins.

  Dagskrárbreytingartillagan er felld með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. 

 2. Fram fer umræða um kynnisferð borgarráðs til Portland og Seattle sem fram fór 20.-24. ágúst 2023. MSS23090025

 3. Fram fer umræða um stöðu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. MSS23090026

  -    Kl. 13:40 víkur Magnús Davíð Norðdahl af fundinum og Kristinn Jón Ólafsson tekur sæti.
  -    Kl. 15:00 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti.
  -    Kl. 16:45 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir tekur sæti. 

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Samgöngusáttmálinn gegnir lykilhlutverki fyrir framtíð samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í honum felst sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaganna á svæðinu, sýn sem felst í uppbyggingu Borgarlínu, stórbættra vegainnviða og öflugs hjólastíganets. Fulltrúarnir leggja á það áherslu að þær framkvæmdir og aðgerðir sem eru hluti af sáttmálanum nái fram að ganga eins fljótt og auðið er. Í viðræðum við ríkið um uppfærslu sáttmálans þarf að tryggja nauðsynlega fjármögnun til að svo geti orðið ásamt því að semja um rekstur þeirra innviða og verkefna sem sáttmálinn nær til. Jafnframt á það að vera afstaða borgarinnar að hlutur höfuðborgarinnar í heildarfjárfestingu ríkisins til samgangna eigi að vera sanngjarn og taka í meira mæli tillit til stærðar hennar og íbúafjölda.

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Frá undirritun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrikað mikilvægi þess að gætt verði að tímaáætlun framkvæmda og ráðdeild hvað varðar framkvæmdakostnað. Með sáttmálanum þyrfti að tryggja frelsi og val í samgöngum – einn fararmáti skyldi ekki útiloka annan – framtíðin ætti að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika. Tæpum fjórum árum eftir undirritun sáttmálans ríkir hins vegar enn mikil óvissa um fjármögnun hans og heildarkostnað. Jafnframt hefur komið í ljós hvernig tilteknar framkvæmdir hafa reynst stórlega vanáætlaðar, má þar nefna Sæbrautarstokk og Fossvogsbrú. Að auki hefur ekki verið lokið við neina þeirra flýtiframkvæmda sem tilgreindar voru sem forgangsverkefni í sáttmálanum. Beina fulltrúar Sjálfstæðisflokks því til þeirra sem vinna nú að endurskoðun samgöngusáttmálans að viðhafa ábyrgð og ráðdeild í fyrirliggjandi vinnu og leita hagkvæmustu leiða til að greiða úr samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Nauðsynlegt er að efla almenningssamgöngur, bæði nú og til lengri tíma. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Ekkert er eðlilegra en að endurskoða samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og borgarlínuverkefnið. Einnig mætti endurskoða þriðja áfanga Arnarnesvegar en framkvæmdin byggir á 20 ára gömlu umhverfismati. Flokkur fólksins hvatti borgaryfirvöld til endurskoðunar sáttmálans í fyrra en málið mætti  mikilli mótspyrnu meirihlutans í borgarstjórn. Forsendur framkvæmda hafa breyst, ekki síst fjárhagslegar. Framkvæmdakostnaður Borgarlínu hefur margfaldast. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu berjast nú í bökkum fjárhagslega og flest þeirra forgangsraða í þágu þjónustu við fólk. Mörg ár ef ekki áratugir eru í Borgarlínu og á meðan eru einu almenningssamgöngurnar Strætó sem dregið hefur úr þjónustu vegna fjárhagserfiðleika. Ef brot af því fjármagni sem ætlað er í samgöngusáttmálann væri sett í að bæta þjónustu Strætó væru almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í góðum málum. Mörgum í efri byggðum finnst að græn svæði þar séu ekki eins metin og önnur græn svæði í borginni. Það er greinilega ekki sama í hvaða póstnúmeri fólk býr. Nú er hafin framkvæmd við Arnarnesveg, þriðja áfanga milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Vinir Vatnsendahvarfs með mörg hundruð manns að baki hafa sent inn athugasemdir og óskað eftir nýju umhverfismati enda svæðið ríkt af lífríki. Framkvæmdin stríðir gegn Græna plani meirihlutans. Græni hluti efri borgarbyggða er greinilega minna merkilegur í augum meirihlutans.

 4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

  Borgarstjórn samþykkir tilraunaverkefni til eins árs sem felur í sér að borgarbúum verði boðið að koma að tjá sig um ákveðin málefni á borgarstjórnarfundi. Lagt er til að borgarstjórn feli forsætisnefnd að útbúa ferilinn. Markmiðið með þessari tillögu er að borgarbúar fái færi á því að ávarpa borgarstjórn beint um málefni sem tengjast þeim. Forsætisnefnd verði falið að leggja fram viðeigandi breytingar eða viðauka sem gæti þurft að gera á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar við útfærslu þessa tilraunaverkefnis. Þá þarf einnig að búa til feril utan um það hvernig íbúar geti skráð sig til þátttöku, hversu lengi megi tjá sig og hvort fjöldi íbúa sem ávarpi hvern borgarstjórnarfund verði takmarkaður. Lagt er til að við útfærslu þessa verkefnis verði nokkrir möguleikar fyrir mætingu, hægt verði að mæta á staðinn í persónu og tjá sig á fundinum rafrænt í gegnum fjarfundarbúnað.

  Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stafræns ráðs.
  Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090027

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Lagt er til að tillögunni sé vísað til stafræns ráðs sem sér um lýðræðisstefnu borgarinnar. Ráðið gæti þá mögulega skoðað hvort hægt sé að útfæra markmið tillögunnar með öðrum hætti, t.d. í tengslum við borgarafundi.

  Fylgigögn

 5. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um skaðabætur til þeirra sem hafa veikst vegna myglu og raka í skólabyggingum.

  Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090028

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Tillögunni er vísað frá m.a. með þeim rökum að ef hlúð væri að þessum hópi væri verið að mismuna starfsfólki. Veikindi sem rekja má til myglu og raka eru ekki eins og almenn veikindi. Þau börn og þeir starfsmenn sem hér um ræðir áttu ekkert val. Þeim var gert að vera í heilsuspillandi húsnæði í langan tíma. Skólaganga er skylda og fólk sem hefur ráðið sig í vinnu vill gjarnan geta stundað hana. Fulltrúi Flokks fólksins finnst meirihlutinn hræddur við þessa tillögu. Meirihlutinn óttast að verið sé að opna fyrir peningakrana. Málið er að meirihlutinn virðist ekki vita mikið um þennan hóp. Engar rannsóknir eða kannanir hafa verið gerðar á honum og ekkert er utanumhaldið. Það er skylda borgaryfirvalda að ná til þessa hóps og bjóða þeim sem hér um ræðir upp á samtal og spyrja hvað hann vantar og hvernig honum finnst borgin geta stutt við það. Borgarstjórn má ekki láta eins og þeim komi þessi mál ekki við. Flokkur fólksins vill setja fólkið sjálft og þjónustu við það í forgang.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að huga vel að þeim sem verða fyrir skaða vegna myglu- og rakaskemmda og allra annarra veikinda. Ef borgin greiðir skaðabætur, þá þarf að vera skýrt hvenær skaðabótaskylda borgarinnar á við og í hvaða tilfellum. Kjarasamningar og lög eiga að vernda veikindarétt starfsfólks og því líta fulltrúar sósíalista svo á að í tillögunni sé um tvo ólíka þætti að ræða. Líkt og greint hefur verið frá á síðustu misserum þá er þörf á viðgerðum og viðhaldi í ýmsum byggingum borgarinnar og skólabörn og starfsfólk hefur þurft að ferðast til skólabygginga í öðrum hverfum með meðfylgjandi álagi. Ef það kæmi til skaðabóta vegna óheilnæms starfsumhverfis þá er mikilvægt að það sé skýrt hvenær um skaðabætur sé um að ræða og í hvaða tilfellum það eigi við. 

  Fylgigögn

 6. Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fresta umræðu um leikskólamál. MSS23090029

 7. Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fresta umræðu um snjallsímanotkun í grunnskólum og hugsanlegt bann. MSS23090030

  Fylgigögn

 8. Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að fresta umræðu um kostnað Reykjavíkurborgar við ráðgjafarkaup. MSS23090031

  Fylgigögn

 9. Samþykkt að taka tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun samgöngusáttmála á dagskrá.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðsluna.

  Lögð er fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarstjórn samþykkir að beina því til vinnu við endurskoðun samgöngusáttmálans að skoðaðir verði fleiri og hagkvæmari samanburðarkostir á tengingu almenningssamgangna milli Reykjavíkur og Kársness. Kostnaðaraukning á framkvæmd við Fossvogsbrú, úr 2,25 milljörðum króna í 7,5 milljarða króna, krefst augljóslega slíkrar endurskoðunar.

  Tillagan er felld með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Eitt það mannvirkja sem samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir og borgaryfirvöld virðast hafa sett í forgang er Fossvogsbrúin. Núverandi uppfærslu á samgöngusáttmálanum lýkur ekki fyrr en í nóvember en Reykjavíkurborg ætlar hins vegar í útboð með Fossvogsbrú, nú í október, áður en uppfærslu sáttmálans er lokið. Fossvogsbrúin er einungis ætluð fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðar og eina strætóleið, en ekki fyrir almenna umferð ökutækja. Kostnaður við brúnna var árið 2021 áætlaður 2,25 milljarðar króna en er nú kominn í 7,7 milljarða. Þetta er því mjög kostnaðarsamt umferðarmannvirki með takmarkað notagildi. Eftir að kostnaður við brúna hefur rúmlega þrefaldast á fjórum árum, hlýtur að þurfa að endurskoða arðsemisútreikninga brúarinnar. Líklega mun hún aldrei verða hagkvæm. Þetta vita borgaryfirvöld sem ætla nú að sóa skattpeningum borgarbúa til að flýta ferð Kársnesbúa í miðbæ Reykjavíkur um nokkrar mínútur. Í svona áætlunum er auðvitað ekki heil brú. Einungis hluti af heildarkostnaði brúarinnar gæti snjallljósavætt allar stofnbrautir höfuðborgarinnar, þúsundum vegfarenda til hagsbóta, dag hvern.

  Fylgigögn

 10. Lagt er til að Pawel Bartoszek taki sæti í borgarráði í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur. Jafnframt er lagt til að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í stað Pawels.
  Samþykkt. MSS22060043

 11. Lagt er til að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur.
  Samþykkt. MSS22060045

 12. Lagt er til að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Pawels Bartoszek. Jafnframt er lagt til að Pawel taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur.
  Samþykkt. MSS22060046

 13. Lagt er til að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur. MSS22060064
  Samþykkt. 

 14. Lagt er til að að Huginn Þór Jóhannsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Laugardals.
  Samþykkt.

  -    Kl. 18:18 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti. MSS22060061

 15. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 22. júní, 29. júní, 13. júlí, 27. júlí, 17. ágúst og 31. ágúst.
  11. liður fundargerðarinnar frá 31. ágúst; Einimelur 20, stækkun lóðar og afsal lóðarleiguréttinda, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
  Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010001

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. ágúst:

  Tillaga að endurskoðaðri útgáfuáætlun skuldabréfa sem hér liggur fyrir sýnir svo ekki verður um villst að þrátt fyrir ört versnandi lánskjör hyggst meirihluti borgarstjórnar halda áfram að fjármagna gífurlegan taprekstur Reykjavíkurborgar með glórulausum lántökum. Taprekstur borgarinnar nam tæpum fjórum milljörðum króna fyrstu þrjá mánuði ársins og var niðurstaðan um tveimur milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Við slíkar aðstæður er æskilegt að árshlutauppgjör liggi sem fyrst fyrir og er því óheppilegt að sex mánaða uppgjör hafi ekki enn verið lagt fram í borgarráði. Fyrir þremur vikum neyddist borgin til að hafna öllum tilboðum í skuldabréfaútboði vegna dræmrar þátttöku. Versnandi lánskjör Reykjavíkurborgar eru uggvænleg vísbending um fjárhagsstöðu hennar. Fjárhagsvandinn verður ekki leystur með áframhaldandi taprekstri og skuldabréfaútboðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að borgarstjórn ráðist nú þegar í róttækar aðgerðir í því skyni að koma rekstri Reykjavíkurborgar í jafnvægi og hætta þannig lántökum.

 16. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. september, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 24. ágúst, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. júní og 25. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 9. júní,12. júní, 26. júní og 28. ágúst, stafræns ráðs frá 23. ágúst, umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. júní, 28. júní, 16. ágúst, 23. ágúst og 30. ágúst og velferðarráðs frá 9. júní og 21. júní. MSS23010061

  Björn Gíslason, Helgi Áss Grétarsson og Sandra Hlíf Ocares borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. júní:
   
  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja eindregið tillögu íbúaráðs Breiðholts um að umferðaröryggi verði metið í Fálkabakkabrekkunni. Í janúar sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði til að gripið yrði til aðgerða sem fyrst í því skyni að auka umferðaröryggi í brekkunni. Sú tillaga var felld á fundi ráðsins 19. apríl sl. Vonandi verður einróma samþykkt íbúaráðs Breiðholts til þess að málið verði skoðað frekar og gripið til viðeigandi aðgerða. Til þess verður að líta að á liðnum vetri lentu bifreiðar og strætisvagnar ítrekað í vandræðum í Fálkabakkabrekkunni vegna mikillar hálku. Um er að ræða þekkt og langvinnt vandamál en við slæmar hálkuaðstæður getur alvarleg hætta skapast í brekkunni. Brýnt er að málið verði skoðað í samráði við Strætó bs. og viðeigandi úrbætur gerðar, t.d. að hita upp götuna þar sem brattinn er mestur. Einnig verði skoðað að hafa þá strætisvagna á nagladekkjum sem aka Fálkabakka í vetrarfærð.
   
  Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní:
   
  Fossvogsbrú yrði u.þ.b. 300 metra löng stálbrú, sem tengja á saman tvö jaðarsvæði, Kársnes og Nauthólsvík. Ljóst er að kostnaður verður miklu hærri en upprunalegar áætlanir gerðu ráð fyrir og því umhugsunarvert hvort kanna mætti aðrar útfærslur og nýta fjármunina betur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum núverandi fyrirætlana á siglingar og sjósund, sem löng hefð er fyrir í Nauthólsvík og hafa farið vaxandi. Athygli er jafnframt vakin á því að fyrirhugað brúarstæði er í aðflugsstefnu Reykjavíkurflugvallar og þarf því að gæta þess sérstaklega að byggingakranar og framkvæmdir á svæðinu almennt ógni ekki flugöryggi.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 12. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. júní og 26. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. júní:

  Liður fimm í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. júní: Flokkur fólksins lagði til að gerð yrði úttekt á nýtingu samræmdra viðmiðunarreglna um skólasókn og fjölda skólaforðunarmála í Reykjavík en tillagan var felld. Óvíst er hvort viðmiðunarreglurnar virki fyrir alla skóla. Reglurnar eru gallaðar vegna þess að þær gera ekki greinarmun á ástæðu fjarveru; leyfi, veikindi eða óleyfilegar fjarvistir. Gallarnir hafa án efa fælt suma skóla frá að nota reglurnar. Liður 12: Spurt var um fjölda barna á biðlista eftir fagþjónustu vegna skólaforðunar (barnið hætt að vilja mæta í skólann). Ekki er til svar við þessu hjá Reykjavíkurborg. Á biðlista eru um 2.500 börn og ætla má að hópur þar glími við skólaforðunarvanda sem ávallt á langan og erfiðan aðdraganda. Liður 26. í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 28. júní: Tillaga Flokks fólksins var að hefja ætti undirbúning námslínu fyrir leiðbeinendur í samráði við leikskólasamfélagið. Það er einungis einn þriðji af starfsfólki leikskólanna með leikskólakennaramenntun. Tillögunni var vísað frá með þeim rökum að borgin bjóði upp á fræðslu, t.d. stafræna námslínu og að starfsfólk geti farið í námsleyfi. Þessi rök eru út í hött. Flokkur fólksins er að tala um skipulagða og skilvirka námslínu sem skilar nemendum lokagráðu.

Fundi slitið kl. 18:52

Magnea Gná Jóhannsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.9.2023 - Prentvæn útgáfa