Borgarstjórn - Borgarstjórn 5.6.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 5. júní, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:30. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Dagur B. Eggertsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sandra Ocares og Skúli Helgason.  Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

    Lagt er til að samþykkt verði fyrirliggjandi drög að lánasamningi að fjárhæð 100 milljónir evra milli Reykjavíkurborgar, kt. 530269-7609 og Þróunarbanka Evrópuráðsins eða Council of Europe Developement Bank (CEB) til að fjármagna viðhaldsátak í skólahúsnæði borgarinnar. Borgarstjóra verði veitt heimild til að undirritunar og frágangs gagna.

    Kl. 15.50 tekur Hjálmar Sveinsson sæti á fundinum með rafrænum hætti.
    Kl. 16.10 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og tekur sæti með rafrænum hætti.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS24020034

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lánið hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins, CEB; gerir Reykjavíkurborg kleift að halda áfram í umfangsmiklu viðhaldsátaki í skólahúsnæði borgarinnar sem nú stendur yfir. Á síðustu árum hefur Reykjavíkurborg að mestu fjármagnað fjárfestingar sínar með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði en það er fagnaðarefni að borgin hafi fleiri valkosti í fjármögnun. CEB lánar í Evrum og eru fjölmörg stöndug ríki í Evrópu með lán hjá bankanum, að meðtöldu íslenska ríkinu vegna uppbyggingar í Grindavík. Það er mikilvægt að lán í erlendri mynt séu ekki stórt hlutfall af lánasafni borgarinnar, en með þeim varnöglum sem tilgreindir eru í greinargerð, er ekkert því til fyrirstöðu að auka fjölbreytni í lántöku með þessum hætti upp að vissu marki og lækka þannig vonandi greiðslubyrði. Þess ber að geta að hér er ekki um viðbótarlántöku að ræða, heldur tiltekna leið til að haga lántöku vegna fjárfestingar sem þegar er samþykkt.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar vaxa á ógnarhraða. Skuldirnar jukust um 50 milljarða árið 2023, en þar af jukust skuldir A-hluta um tæpa 24 milljarða. Á árunum 2024 til 2028 áætlar borgin frekari skuldsetningu samstæðu sem nemur 219 milljörðum króna! Lántaka síðasta árs reyndist 81% af fjárfestingum, og fór borgin því langt út fyrir það markmið sitt að lántaka megi aldrei nema hærra hlutfalli en 70% af fjárfestingum. Umfangsmikil skuldsetning borgarinnar reynist rekstrinum dýrkeypt en afborganir langtímalána og leiguskulda munu nema tæpum 13 milljörðum þetta árið. Ljóst er að Reykjavíkurborg hefur gengið illa að fjármagna sig á skuldabréfamörkuðum að undanförnu. Dræm þátttaka í liðnum útboðum gefur til kynna hve litla tiltrú markaðurinn hefur á rekstri Reykjavíkurborgar. Af þeim sökum leitar nú meirihlutinn til þróunarbanka Evrópuráðsins eftir láni í erlendri mynt (EUR) með tilheyrandi gengisáhættu. Þess ber að geta, að fyrirhugað viðhaldsátak í leik- og grunnskólum borgarinnar, sem til stendur að fjármagna með fyrirliggjandi lánsfjárhæð, er afleiðing margra ára uppsafnaðs viðhaldsvanda á skólahúsnæði í eigu borgarinnar. Ef eðlilegu viðhaldi hefði verið sinnt síðasta áratuginn hefði mátt koma í veg fyrir það umfangsmikla tjón sem nú hefur orðið á skólahúsnæði með tilheyrandi kostnaði fyrir borgarsjóð, raski á skólastarfi og heilsutjóni fyrir starfsfólk og nemendur.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Taka á erlent lán að fjárhæð 100 milljónir evra hjá Þróunarbanka Evrópuráðsins til fjármögnunar á viðhaldsátaki í húsnæði grunnskóla og leikskóla. Vegna slakrar fjármálastöðu borgarinnar verður að grípa til þessa örþrifaráðs. Reykjavíkurborg hefur að mestu fjármagnað fjárfestingar með útgáfu skuldabréfa á innlendum markaði. Þróunarbankinn lánar öllu jafna samfélögum sem eiga undir högg að sækja en hyggst nú veita lán til borgar sem hefur vanrækt að halda við skólabyggingum í áraraðir þrátt fyrir að geta talist velmegunarborg. Á þessu væri ekki þörf ef sveitarfélagi lánast að halda rétt á spilunum að vera fjárhagslega stöndugt. Það er almenn þumalfingurregla að ekki eigi að taka lán í öðrum gjaldmiðli en lántakinn fær tekjur sínar í. Reynslan hefur sýnt að þetta getur verið tvíbent eins og við sáum glöggt í hruninu. Þessi lántaka mun þýða að afborganir lána munu hækka enn frekar á komandi árum og er þá hæpið að veltufé frá rekstri nægi til að standa undir afborgunum lána. Það er þess utan útilokað að átta sig á hver gengisáhættan verður. Að borgin skuli vera nauðbeygð til að leita á náðir Þróunarbankans vegna viðhaldsskuldar er skýrt merki um skort á fyrirhyggju og skilvirkni í stjórnsýslunni og ábyrgri fjármálastjórnun.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Reykjavíkurborg stendur frammi fyrir stórum og krefjandi verkefnum, m.a. á sviði viðhaldsmála. Það er áhyggjuefni að fjárhagur hennar teljist svo þröngur að grípa verði til aukinnar skuldsetningar sem aftur leiðir til aukinnar óvissu í rekstri borgarinnar og sem getur mögulega bitnað á mennta- og velferðarmálum. Það er dapurlegt að svo illa hafi verið haldið á spöðunum að ekki sé unnt að leita á náðir innlendra lánastofnana eða skuldabréfamarkaðarins en auðvitað hefði verið langbest að þurfa hvorki að leita til þeirra né Þróunarbanka Evrópuráðsins. Við blasir að traustari fjármálastjórnar er þörf og hefði fyrst átt að hagræða í rekstri frekar en að samþykkja aukna skuldsetningu borgarinnar.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 16:25

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.6.2024 - prentvæn útgáfa