Borgarstjórn - Borgarstjórn 5.3.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 5. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um ávinning stafrænnar umbreytingar fyrir borgarbúa. MSS24030024

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Stafræn umbreyting er fyrst og fremst breyting á þjónustu borgarinnar, með notendamiðaða hönnun að leiðarljósi. Verkferlar eru endurskoðaðir, flöskuhálsar fjarlægðir og menningu breytt, á sama tíma og stafræn tól eru notuð til að flýta afgreiðslu og gera fólki kleift að sækja um á tíma sem þeim hentar, án þess að þurfa að skila inn pappírsgögnum úr öllum áttum. Þessi umbreyting hefur gengið gífurlega vel og árangurinn sýnir sig á öllum sviðum borgarinnar, bæði í bættum gagnainnviðum og í þjónustuviðmótum sem snúa að notendum. Þar má nefna nýjan leikskólareikni borgarinnar, umsóknarkerfi um fjárhagsaðstoð, húsnæði, málakerfi velferðarsviðs, málakerfi skólaþjónustu, vinnslu í þjónustuveri, nemendagrunn, rafræn byggingarleyfi, lóðaumsóknakerfi, húsnæðisuppbyggingarvef, framkvæmdasjá, hverfið mitt, samráðsgátt, styrkjagátt og ótal margt annað.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Vissulega hafa einhverjar stafrænar lausnir litið dagsins ljós síðustu ár en tilbúnar afurðir eru hins vegar ekki í neinu samhengi við þá 20 milljarða sem nú þegar er búið að eyða. Sárlega vantar enn mikilvægar lausnir á svið borgarinnar. Verkefni hafa mörg verið illa skilgreind og jafnvel dagað uppi í tilraunasmiðjum. Núverandi meirihluti er áfram sama gagnrýnislausa málpípa þessa sviðs og eru borgarfulltrúar meirihlutans fastir í blindri meðvirkni. Tugum milljóna hefur verið eytt í dýran húsbúnað, tækjakost og skemmtanaviðburði. Boðið er upp á uppskrúfaðar kynningar um verkefni sem flest eru „á leiðinni“ og fullyrt að árangur sviðsins sé á heimsmælikvarða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þessi mál við embætti innri endurskoðanda. Starfsmannavelta sviðsins er áhyggjuefni enda virðist það vera daglegt brauð að fólk sé ráðið og rekið á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Stafrænni vegferð borgarinnar hefur verið líkt við fyrirbærið „startup cult“ sem skilgreinist m.a. þannig að umhverfið og ásýndin er aðalatriðið hvort sem verið er að skila vöru eða ekki. Hugmyndafræði slíkra fyrirtækja er að leggja upp með óljósar áætlanir og fara með fjármagn eins og um áhættufjármagn sé að ræða.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

    Fulltrúar meirihlutans vísa þessari gagnrýni alfarið á bug. Öllum fyrirspurnum um stöðu verkefna, nýtingu fjármuna og framvindu hefur verið svarað, oft ítrekað. Farið hefur verið yfir framvindu stafrænnar umbreytingar margoft, bæði í borgarstjórn, borgarráði og á fundum stafræns ráðs og áður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Aldrei hefur reynst steinn yfir steini í þessum síítrekuðu dylgjum fulltrúa Flokks fólksins. Eins eru gögn um ársreikninga og ársskýrslur þjónustu- og nýsköpunarsviðs aðgengilegar. Það er óboðlegt að vegið sé að fagmennsku og starfsheiðri þeirra sem fást til að starfa við stafræna þjónustuumbreytingu hjá borginni og er þeim borgarfulltrúum sem tekið hafa þátt í þessum linnulausa rógburði ekki til sóma.

    -    Kl. 13:49 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir víkur af fundi.

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að leita samninga við lóðarhafa að Ægisíðu 102 með það að markmiði að Reykjavíkurborg leysi til sín lóðina og tilheyrandi fasteignir svo hana megi nýta undir leikskólastarfsemi og tryggja varðveislu hússins samkvæmt ábendingum Borgarsögusafns Reykjavíkur.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS22120052

    Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Hildur Björnsdóttir víkur af fundinum undir þessum lið. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Í ljósi þess að lóðin Ægisíða 102 er staðsett við hliðina á öðrum leikskóla í hverfi þar sem nú vantar tæplega 350 leikskólapláss að lágmarki og geymir mannvirki sem Borgarsögusafn Reykjavíkur hefur lagt til að verði friðað, lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að leitað yrði samninga við lóðarhafa í þágu þess að friða mannvirkið og nýta það og lóðina undir leikskólastarf. Það veldur miklum vonbrigðum að sjá að þegar á reynir eru yfirlýsingar meirihlutans um að vilja leita allra leiða til að vinna bug á leikskólavandanum einungis orðin tóm. Þessi tiltekna lóð veitir einstakt tækifæri til að bæði hraða fjölgun leikskólaplássa í Vesturbænum og í sömu andrá varðveita hönnunarperlur íslenskrar byggingarsögu. Á þessum þéttasta stað borgarinnar er heilmikil uppbygging þegar búin að eiga sér stað og er henni hvergi nærri lokið. Jafnvel ef bjartsýnustu áætlanir um stækkun þeirra leikskóla sem fyrir eru gengu eftir dygði það ekki til að leysa leikskólavandann, en væri þessi lóð nýtt undir leikskólastarf gæti tekist að leysa leikskólavandann í Vesturbænum. Því miður lá að þessu sinni allur metnaður borgarfulltrúa meirihlutans í að leita réttlætingar á því að nýta þennan reit ekki undir leikskólastarf. Sem er sorgleg sóun á vel staðsettri lóð og vitsmunum fólks í valdastóli borgarstjórnar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihluti borgarstjórnar gerði samninga við fyrirtæki um fækkun bensínstöðva á síðasta kjörtímabili og í kjölfar þeirra munu stórfyrirtæki hagnast gríðarlega á verðmætum í borgarlandinu. Slíkt var sett fram í nafni „hagrænna hvata“ vegna fækkunar bensínstöðva. Fulltrúar Sósíalista gagnrýna þetta fyrirkomulag. Sósíalistar taka undir markmið tillögu Sjálfstæðisflokksins um það að Reykjavíkurborg leysi til sín lóðina og tilheyrandi fasteignir á Ægissíðu 102. Í skýrslu Borgarsögusafns frá árinu 2023 sem ber heitið Bensínstöðvar á uppbyggingarlóðum – Húsakönnun stendur eftirfarandi um Ægissíðu 102: „Byggingin hefur hátt varðveislugildi sem einstök og fágæt byggingarlist og ein fárra bensínafgreiðslustöðva með slíka sérstöðu sem varðveittar eru í því sem næst upprunalegri mynd. Lagt er til að húsið njóti verndar í rauðum flokki. Einstök hús, húsaraðir og götumynd sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi.“ Sósíalistar telja áform um það hvaða starfsemi eigi að vera á svæðinu þurfa nánari umfjöllun m.a. í samræmi við niðurstöður Borgarsögusafns.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins tekur undir að leitað verði samninga við lóðarhafa að Ægisíðu 102 með það að markmiði að Reykjavíkurborg leysi til sín lóðina og tilheyrandi fasteignir svo hana megi nýta í annað uppbyggilegt í hverfinu eða það sem vantar inn í þjónustumöguleika þess, sem dæmi leikskóla. Lóðin Ægissíða 102 geymir bensínstöð og stórt þvottaplan. Minjastofnun Íslands vill að húsið verði friðað og þeir hafa heimildina. Það er mikilvægt að hverfisbúar fái um það að segja hvað verður á þessari lóð. Sem stendur er lóðin hluti af samkomulagi milli Reykjavíkurborgar og lóðarhafa frá árinu 2021 um fækkun bensínstöðva. Mikilvægt er að endurskoða samkomulagið meðal annars út frá niðurstöðu skýrslu Borgarsögusafns um húsakönnun og mat á varðveislugildi 12 bensínafgreiðslustöðva í Reykjavík þar sem bygging bensínstöðvarinnar að Ægisíðu er metin með hátt varðveislugildi. Eins og ferskt er í minni urðu mikil læti og megn óánægja í kringum þessa samninga við olíufélögin og sterkar líkur eru á að borgin hafi í einhverjum þessara mála samið af sér. Spyrja má af hverju innviðagjöld eru felld niður gagnvart Festi á þessari lóð.

    -    Kl. 16:00 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum og Birkir Ingibjartsson tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um bættar almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar. MSS24030026

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins telur skynsamlegt að efla almenningssamgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins. Þúsundir manna sækja flugvöllinn á degi hverjum. Það er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir stóran hóp fólks að fá góðar samgöngur til og frá flugvellinum. Það er líka óþarfi að mörg þúsund bílar séu að keyra, með tilheyrandi mengun fyrir umhverfið, milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar með örfáa farþega. Samkvæmt upplýsingum um ferðavenjur í dag þá er eingöngu áætlað að um 15% ferðamanna ferðist til og frá flugvelli með hópbifreiðum sem ferðast eftir tímatöflu. Talan hækkar upp í 25-30% að vetri til. Um 2% starfsfólks Isavia nýta sér strætó/rútur í ferðum til og frá vinnu (2021). Um 1% alls starfsfólks flugvallarins sem býr í Reykjanesbæ nýtti sér strætó til að ferðast til vinnu árið 2023 samkvæmt samgöngukönnun Isavia. Þessar upplýsingar sýna gríðarlega litla notkun á almenningssamgöngum sem er miður en jafnframt skiljanlegt. Samgöngurnar sem eru núna eru stopular og þær eru mjög dýrar.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um akstursþjónustu Pant. MSS24030027

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins telur að Pant akstursþjónusta hafi gengið vel alla vega um nokkurt skeið. ÖBÍ er með fulltrúa í notendaráði Pant og er það mjög gott. Þó hafa komið upp alvarleg tilvik sem eru mjög sláandi eins og þegar einstaklingur gleymist í bílnum eða er skilinn eftir. Það er reiðarslag og verður að rannsaka slíkt mál ofan í kjölinn. Það þarf einnig að ræða að kalla eftir hvernig upplýsingar um farþega/notendur eru skráðar (þ.e. þarfir og hvað á að forðast), hvaða upplýsingar bílstjórar fá og hvaða verkferlum þeir eiga að vinna eftir (bæði almennt og fyrir hvern farþega fyrir sig). Síðast en ekki síst vill fulltrúi Flokks fólksins vita hvaða bakgrunnstékk hefur verið gert á bílstjórum áður en þeir byrja að keyra fyrir Pant, hvaða þjálfun þeir fá í upphafi og hvort það fari fram símenntun. Bent er á að stór hluti notenda þjónustunnar fer um í leigubílum, eitt með bílstjóra. Þetta er viðkvæmasti hópur samfélagsins, oft ungmenni með þroskaskerðingu. Þá verður utanumhaldið að vera gríðarlega öruggt.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks Fólksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að stofna starfshóp sem fengi m.a. þau verkefni að rýna biðlista barna og ungmenna eftir skólaþjónustu til að meta hvort framsetning listans og skráning erinda/tilvísana sé með þeim hætti að hann gefi raunsanna mynd af stöðu mála. Í því felst að skoða hvað mörg börn á biðlistanum hafa fengið þjónustu eða hluta af þjónustu. Einnig hvaða þjónustu var óskað eftir samkvæmt tilvísun/beiðni og meta hvaða breytingar þurfi að gera á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar til að gera hana skilvirkari. Markmið hópsins verði að ná biðtíma barna eftir þjónustu undir 90 daga.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til meðferðar velferðarráðs. MSS24030028

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að stofnaður verði starfshópur sem fær það verkefni að rýna biðlista barna eftir skólaþjónustu og finna leiðir til að ná biðtímanum undir 90 daga. Flokkur fólksins hefur lengi haft áhyggjur af þessum langa biðlista. Við upphaf þessa kjörtímabils lagði fulltrúi Flokks fólksins fram sambærilega tillögu sem meirihlutinn felldi. 2.086 börn bíða nú eftir skólaþjónustu en þau voru 400 árið 2018. Bak við hvert barn er tilvísun, undirrituð af skóla og foreldrum. Það skiptir sköpum í lífi þessara barna að fá fagþjónustuna fljótt til að þau geti notið styrkleika sinna. Meðalbiðtími er nú sex mánuðir, þ.e. 180 dagar og mörg börn bíða jafnvel í allt að tveimur árum eftir að fá fagþjónustu. Fara þarf í átak við að stytta biðlista líkt og BUGL fór í með góðum árangri. Flokki fólksins finnst börn ekki sett nægjanlega í forgang í borginni. Börn eiga aldrei að þurfa að bíða eftir þjónustu. Setja á þau í forgang og ekki spara í neinu í þjónustu við þau. Langur biðtími eftir aðstoð af þessu tagi getur valdið börnum langvarandi skaða.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hafist verði handa við skipulagningu íbúðasvæðis við Halla og í Hamrahlíðalöndum í Úlfarsárdal, þ.e. á svokölluðum M22 reit. Byggt verði á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið frá árinu 2007 en það uppfært og betrumbætt eftir því sem þörf krefur. Stefnt skal að því að úthlutun lóða í hverfinu hefjist árið 2026. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að endurskoða gildandi deiliskipulag svæðisins og annast aðra skipulagsvinnu vegna málsins.

    Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar átakshóps Reykjavíkur í húsnæðismálum. MSS24030029

    .

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar styðja uppbyggingu íbúðabyggðar en hafa áhyggjur af mögulegri umferðaraukningu sem gæti fylgt samhliða, en nú þegar er mikið álag á stofnæð sem er þar. Mikilvægt er að byggja upp innviði og samgöngur samhliða húsnæðisuppbyggingu, má þar nefna mikilvægi þess að efla Strætó.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Í Úlfarsárdal er nægt land til að byggja á og þar eru innviðir til staðar. Það er glapræði ef ekki á að byggja þarna meira og það af krafti. Víða annars staðar í borgarlandinu eru uppbyggingarsvæði, s.s. í Grafarvogi, og þar eru einnig innviðir sem geta tekið við fólksfjölgun. Haldið er of fast um tauminn og þétting byggðar er orðin meira en eitthvað sem gagnast fólkinu. Horfa þarf til þess að brjóta nýtt land undir byggð. Átak í húsnæðismálum í Reykjavík er löngu tímabært. Flokkur fólksins hefur lengi bent á að of mikil stífni hafi ríkt í úthlutun lóða hjá þessum og síðasta meirihluta. Sjálfsagt hefur verið að þétta byggð víða í Reykjavík þar sem byggð er dreifð en það þarf meira til. Það þarf að brjóta nýtt land undir byggð og hafa meiri sveigjanleika við úthlutun lóða. Horfa þarf til atvinnutækifæra í hverfum mun meira en gert hefur verið. Reykjavík verður að finna leiðir til að bjóða fleiri lóðir til þeirra sem vilja og geta byggt hús og skipuleggja fleiri svæði til að byggja á. Það veltur á Reykjavík hvernig til tekst við að byggja upp öflugan húsnæðismarkað.

    Fylgigögn

  7. Lagt er til að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Halldóru Jóhönnu Hafsteinsdóttur.

    Samþykkt. MSS22060044

  8. Lagt er til að Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Halldóru Jóhönnu Hafsteinsdóttur.

    Samþykkt. MSS22060044

  9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 15. og 29. febrúar.

    3. liður, skilmálabreyting á lánasamningi Orkuveitu Reykjavíkur hjá Evrópska fjárfestingabankanum, er samþykktur.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. febrúar: 

    Flokkur Fólksins hefur verið að leita í dyrum og dyngjum að lausnum til að leysa mannekluvandann í leikskólum og hugkvæmdist að leggja fram tillögu um að nemendum á efri skólastigum yrði boðið starf á leikskóla á þeirra forsendum. Gerðir yrðu skammtímaráðningarsamningar um vinnu á leikskólum sem mátast við námskrá hvers og eins nemanda. Það er ekki verið að gera nákvæmlega þetta, þ.e. leggja áherslu á hóp námsmanna og bjóða þeim upp á sveigjanleika í starfi eftir því hvað þeim hentar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt þessa tillögu við marga og hefur hún fengið góðan hljómgrunn. Öll þekkjum við hversu gríðarleg mannekla er í leikskólum sem hefur valdið því að foreldrar fá ekki pláss fyrir börn sín og sífellt er verið að biðja foreldra að sækja börn sín því ekki tókst að manna daginn. Vel kann að vera að einhverjir eða fleiri nemendur séu tilbúnir að vinna á leikskólum borgarinnar ef þeim er gert auðvelt að laga vinnuna að námi þeirra. Af hverju vill meirihlutinn í borginni ekki kanna þennan möguleika?

    Fylgigögn

  10. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 1. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. og 28. febrúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. og 23. febrúar, skóla- og frístundaráðs frá 12. og 26. febrúar og stafræns ráðs frá 14. og 28. febrúar. MSS24010034

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. febrúar: 

    Ítarleg vinna við forgangsröðun íþróttamannvirkja fór fram á seinasta kjörtímabili og lauk árið 2020. Niðurstaðan var sameiginleg hjá Íþróttabandalagi Reykjavíkur og Reykjavíkurborg og er unnið eftir henni. Tillögur um einstaka framkvæmdir verða ekki teknar fram fyrir röðina enda var víðtæk sátt um þessa forgangsröðun í borgarstjórn og innan íþróttahreyfingarinnar í borginni. Hins vegar er rétt að fram komi að tillögur um úrbætur á aðstöðu Fjölnis í Grafarvogi hafa verið til meðferðar á skrifstofu borgarstjóra undanfarin misseri og gott samtal verið í gangi við félagið um þessar hugmyndir. Svo mun verða áfram.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun undir 6. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. febrúar: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar felli fyrirliggjandi tillögu um úrbætur í aðstöðumálum Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi. Félagið er stærsta íþróttafélag landsins með um 3.500 iðkendur. Fjölnir sinnir afar mikilvægu starfi í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs og er jafnframt óaðskiljanlegur hluti af hverfisbrag í Grafarvogi. Ljóst er að þær framkvæmdir, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til, myndu bæta verulega aðstæður til íþróttaiðkunar í Grafarvogi og fullnægja kröfum KSÍ um leyfisveitingar vegna keppnisvalla í efstu deildum Íslandsmótsins í knattspyrnu. Núverandi keppnisvöllur Fjölnis stenst ekki þær kröfur sem er óviðunandi og stendur félagið höllum fæti að þessu leyti í samanburði við önnur íþróttafélög í Reykjavík. Átalinn er sá tilefnislausi dráttur sem varð á afgreiðslu tillögunnar í ráðinu en nú eru liðnir rúmir sextán mánuðir frá framlagningu hennar. Ljóst er að ekki hefur verið farið eftir forgangsröðun í íþróttamálum, sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili, nema að nokkru leyti. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 14. febrúar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn varðandi kvartanir um kynferðislega áreitni á þjónustu- og nýsköpunarsviði síðastliðin fjögur ár. Spurt var einnig hvort einhver hefur hætt störfum í tengslum við slíkt mál. Á fundi ráðsins lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu um að vísa málinu frá. Það kom fulltrúa Flokks fólksins mjög á óvart. Svona mál á ekki að þagga. Meirihluti ráðsins ákvað að vísa fyrirspurninni til þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem er eina sviðið sem getur svarað henni þar sem meintar kvartanir áttu sér stað þar en voru aldrei formlega tilkynntar eftir því sem næst er komist. Verkferlar í málum af þessu tagi hjá borginni virkjast ekki nema borist hafa formlegar tilkynningar. Hægt er þó að hefja frumkvæðisathugun á málinu. Starfsánægjukannanir segja ekkert til um einstök mál eða hvort brotið hafi verið á starfsmönnum. Ástæða fyrirspurnar þessarar eru ábendingar sem Flokki Fólksins hafa borist þar sem fram kemur að þolendur hafi verið reknir þegar þeir kvörtuðu yfir kynferðislegri áreitni. Flokkur fólksins vill fá að vita hvort þetta sé rétt og hvort einhver hafi hætt störfum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði vegna mála af þessu tagi.

    Fylgigögn

  11. Hafnað með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að taka á dagskrá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um heildstæða athugun á verkefninu Stafræn Reykjavík.

  12. Samþykkt að taka svohljóðandi ályktunartillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar á dagskrá:

    Borgarstjórn styður áframhaldandi vinnu starfshóps um bættar almenningssamgöngur til Keflavíkurflugvallar sem sett hefur verið í gang af hálfu innviðaráðuneytisins. Það er mikilvægt hagsmunamál fyrir Reykjavík og landið allt að Keflavíkurflugvöllur sé tengdur höfuðborgarsvæðinu með tíðum, gæðamiklum og umhverfisvænum almenningssamgöngum með aðgengi fyrir öll. Til skamms tíma þarf að gæta að því að tíðni og þjónustutími falli að áætlun flugfélaga og vaktafyrirkomulagi vallarins, að greiðslukerfið sé samræmt milli höfuðborgarsvæðis og Suðurnesja og að aðgengi og sýnileiki Strætó jafnt í Leifsstöð sem og á skiptistöðvum á höfuðborgarsvæðinu sé sem bestur. Til lengri tíma þarf að vinna að því að svæðin séu tengd með grænum hágæðaalmenningssamgöngum í samræmi við það besta sem þekkist á sambærilegum borgarsvæðum um allan heim.

    Samþykkt. 

Fundi slitið kl. 18:42

Magnea Gná Jóhannsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 5.3.2024 - Prentvæn útgáfa