Borgarstjórn - Borgarstjórn 4.4.20232

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 4. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Trausti Breiðfjörð Magnússon.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarstjórn samþykkir að svohljóðandi málsgrein bætist við 27. grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Við það skal miðað að fyrirspurn sé svarað eigi síðar en fjórum vikum eftir að hún er lögð fram og bókuð í fundargerð. Takist ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests, skal gera skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars.

  Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta afgreiðslu málsins.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Björn Gíslason og Sandra Hlíf Ocares, borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23040017

  Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Undirritaður mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum meirihluta borgarstjórnar að fresta tveimur fyrstu liðum á dagskrá þessa borgarstjórnarfundar. Annars vegar var á dagskrá umræða um vanrækslu á viðhaldi skólahúsnæðis í Reykjavík og tengd vandamál. Stöðugt berast fregnir um stórfelld vandræði af völdum myglu og rakaskemmda í skóla- og frístundabyggingum. Er því afar ámælisvert svo ekki sé meira sagt að borgarstjórnarmeirihlutinn neiti að ræða málið í borgarstjórn heldur skjóti umræðunni á frest. Hins vegar var á dagskrá tillaga um meðferð fyrirspurna en á yfirstandandi kjörtímabili hefur mikill misbrestur orðið á því að fyrirspurnir borgarfulltrúa hljóti eðlilega meðferð í borgarkerfinu. Bæði málin eru borin fram af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Með því að ryðja dagskrána með þessum hætti gengur meirihlutinn gegn ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. greinar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. Þær greinar kveða á um þann rétt borgarfulltrúa, að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem varðar málefni sveitarfélagsins. Slíkur réttur felur að sjálfsögðu í sér að óþægileg málefni séu rædd án undanbragða í borgarstjórn en ekki skotið á frest eftir hentugleikum meirihlutans. 

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar mótmæla því harðlega að borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð þegar dagskrárliðum er frestað á fundum borgarstjórnar. Frestun dagskrárliða er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, gildandi samþykkta og samkomulag allrar borgarstjórnar, nema Sjálfstæðisflokksins. Samkomulagið miðar að því að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað. Það er miður að borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon reyni að standa í vegi fyrir breytingum sem færa borgarstjórn í átt að nútímanum og eru í góðu samræmi við ítrekaðar óskir borgarfulltrúa úr öllum flokkum. Það er jafnframt miður að stöðugt sé tönglast á því að komið sé í veg fyrir umræðu og afgreiðslu mála á vettvangi borgarstjórnar. Það er fjarri lagi, enda sjá allir sem fylgjast með borgarstjórnarfundum að þar fer fram opin umræða um mörg dagskrármál allra flokka. Meirihluti borgarstjórnar óskar þess heitt og innilega að borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon leggi borgarstjórn lið í þeirri viðleitni að að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað þar sem sameinast er um opna og vandaða umræðu, í stað þess að strá fræjum samsæriskenninga um gerræði og valdníðslu. Munum að traust til okkar allra endurspeglast í þeirri umræðu sem við stjórnum sjálf.

  Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Ásökunum meirihlutans um að undirritaður standi gegn eðlilegum breytingum á vinnulagi borgarstjórnar er vísað á bug. Borgarfulltrúar hafa skýlausan rétt á að setja mál á dagskrá borgarstjórnarfunda og meira en aldarlöng hefði er fyrir því að þeim sé ráðið til lykta á sama fundi. Í vetur hefur meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hins vegar ítrekað beitt bolabrögðum til að banna og/eða fresta umræðu um óþægileg mál. Er þess skemmst að minnast að meirihlutinn bannaði að umræður um milljarða fjárfestingar Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, færu fram í borgarstjórn, fyrr en þær höfðu átt sér stað. Því er hafnað að ekki sé fjölskylduvænt að ræða fyrirliggjandi mál á yfirstandandi borgarstjórnarfundi enda er hann haldinn á virkum degi þegar venjulegt fólk þarf að mæta til vinnu. Borgarfulltrúar eru engin forréttindastétt, sem er yfir það hafin að mæta til vinnu á virkum degi. 
   

  Fylgigögn

 2. Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um vanrækslu á viðhaldi skólahúsnæðis í Reykjavík og tengd vandamál.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Björn Gíslason og Sandra Hlíf Ocares, borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23040018

  Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Undirritaður mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum meirihluta borgarstjórnar að fresta tveimur fyrstu liðum á dagskrá þessa borgarstjórnarfundar. Annars vegar var á dagskrá umræða um vanrækslu á viðhaldi skólahúsnæðis í Reykjavík og tengd vandamál. Stöðugt berast fregnir um stórfelld vandræði af völdum myglu og rakaskemmda í skóla- og frístundabyggingum. Er því afar ámælisvert svo ekki sé meira sagt að borgarstjórnarmeirihlutinn neiti að ræða málið í borgarstjórn heldur skjóti umræðunni á frest. Hins vegar var á dagskrá tillaga um meðferð fyrirspurna en á yfirstandandi kjörtímabili hefur mikill misbrestur orðið á því að fyrirspurnir borgarfulltrúa hljóti eðlilega meðferð í borgarkerfinu. Bæði málin eru borin fram af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. Með því að ryðja dagskrána með þessum hætti gengur meirihlutinn gegn ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. greinar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. Þær greinar kveða á um þann rétt borgarfulltrúa, að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem varðar málefni sveitarfélagsins. Slíkur réttur felur að sjálfsögðu í sér að óþægileg málefni séu rædd án undanbragða í borgarstjórn en ekki skotið á frest eftir hentugleikum meirihlutans.

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar mótmæla því harðlega að borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon leggi ítrekað fram bókanir um meint harðræði og gerræðisleg vinnubrögð þegar dagskrárliðum er frestað á fundum borgarstjórnar. Frestun dagskrárliða er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, gildandi samþykkta og samkomulag allrar borgarstjórnar, nema Sjálfstæðisflokksins. Samkomulagið miðar að því að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað. Það er miður að borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon reyni að standa í vegi fyrir breytingum sem færa borgarstjórn í átt að nútímanum og eru í góðu samræmi við ítrekaðar óskir borgarfulltrúa úr öllum flokkum. Það er jafnframt miður að stöðugt sé tönglast á því að komið sé í veg fyrir umræðu og afgreiðslu mála á vettvangi borgarstjórnar. Það er fjarri lagi, enda sjá allir sem fylgjast með borgarstjórnarfundum að þar fer fram opin umræða um mörg dagskrármál allra flokka. Meirihluti borgarstjórnar óskar þess heitt og innilega að borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon leggi borgarstjórn lið í þeirri viðleitni að að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað þar sem sameinast er um opna og vandaða umræðu, í stað þess að strá fræjum samsæriskenninga um gerræði og valdníðslu. Munum að traust til okkar allra endurspeglast í þeirri umræðu sem við stjórnum sjálf.

  Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Ásökunum meirihlutans um að undirritaður standi gegn eðlilegum breytingum á vinnulagi borgarstjórnar er vísað á bug. Borgarfulltrúar hafa skýlausan rétt á að setja mál á dagskrá borgarstjórnarfunda og meira en aldarlöng hefði er fyrir því að þeim sé ráðið til lykta á sama fundi. Í vetur hefur meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hins vegar ítrekað beitt bolabrögðum til að banna og/eða fresta umræðu um óþægileg mál. Er þess skemmst að minnast að meirihlutinn bannaði að umræður um milljarða fjárfestingar Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, færu fram í borgarstjórn, fyrr en þær höfðu átt sér stað. Því er hafnað að ekki sé fjölskylduvænt að ræða fyrirliggjandi mál á yfirstandandi borgarstjórnarfundi enda er hann haldinn á virkum degi þegar venjulegt fólk þarf að mæta til vinnu. Borgarfulltrúar eru engin forréttindastétt, sem er yfir það hafin að mæta til vinnu á virkum degi. 

 3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 30. mars sl. MSS23010001

  14. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 vegna fjárfestingaáætlunar, er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS23010016

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 31. lið fundargerðarinnar: 

  Flokkur fólksins telur það brýnt að starfsmenn sem eru í beinum samskiptum við borgarbúa hafi grundvallarfærni í íslensku, nauðsynlegan grunnskilning og talkunnáttu. Árið 2017 var samþykkt í borgarstjórn heildstæð málstefna fyrir Reykjavíkurborg. Í stefnunni segir að starfsfólk, sem er í beinum samskiptum við borgarbúa, skuli hafa grundvallarfærni í íslensku. Jafnframt segir í málstefnunni að starfsfólk borgarinnar, með annað móðurmál en íslensku, skuli eiga kost á hagnýtum íslensku námskeiðum og einnig skulu símenntunarnámskeið í íslensku vera í boði fyrir alla starfsmenn. Samkvæmt lið 9.2 í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar vill borgin koma í veg fyrir hvers konar mismunun varðandi starfsaðstæður, starfsþróun og símenntun fólks af erlendum uppruna. Flokkur fólksins vonar sannarlega að verið sé að fylgja þessum stefnum til hins ýtrasta. Flokkur fólksins hefur fengið margar ábendingar um samskiptavandamál um borð í strætisvögnum, sem rekja má til tungumálaörðugleika eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Minnt er á þjónustustefnu Strætó en í henni er lögð áhersla á að Strætó skuli veita framúrskarandi þjónustu. Flokkur fólksins telur afar mikilvægt að strætóbílstjórar fái viðeigandi undirbúning og sé gefinn kostur á starfstengdu íslenskunámi eins og hver og einn þarf til að geta liðið vel í starfi sínu sem strætóbílstjóri.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Því skal haldið til haga að Strætó bs. er með virka fræðslustefnu og hefur síðastliðin ár verið í samvinnu við Retor fræðslu um íslenskukennslu starfsmanna. Flestir starfsmannanna hafa nú lokið einu til þremur stigum í íslenskunámi.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun

  Flokkur fólksins lagði fram þessa tillögu vegna þess að margir hafa haft samband og kvartað. Því eru efasemdir um að Strætó sé að fylgja fræðslustefnu sinni til hins ýtrasta. Gera þarf betur í þessu málum og jafnvel að endurskoða fræðslustefnuna þannig að starfsmönnum sé tryggð meiri þjálfun í íslensku.

  Fylgigögn

 4. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 31. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. mars, skóla- og frístundaráðs frá 20. og 27. mars, stafræns ráðs frá 22. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. og 29. mars og velferðarráðs frá 29. mars. MSS23010061

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 20. mars og 1. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. mars: 

  9. liður; Flokkur fólksins lagði hér til að Reykjavíkurborg tæki Hafnarfjarðarbæ sér til fyrirmyndar hvað varðar kjör leikskólakennara. Hafnarfjarðarbær er fyrst sveitarfélaga að samræma starfstíma í leik- og grunnskólum. Þessi breyting var unnin í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar, leikskólakennara bæjarins og Félags leikskólakennara. Kosið var um fulla styttingu, eða 36 stundir á viku. Svo virðist sem aðgerðir sveitarfélagsins um styttingu vinnutímans og samstillingu skólastiganna séu þegar farnar að skila sér með fjölgun leikskólakennara. Vegna  mikillar manneklu og skorti á fagfólki í leikskólum borgarinnar telur Flokkur fólksins ríka ástæða til að Reykjavíkurborg taki upp samtal við félag leikskólakennara og kennara í leikskólum borgarinnar líkt og Hafnarfjarðarbær gerði. 1. liður; um er að ræða tilraunaverkefni um ágústfrístund fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu. Það kemur fram í umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva að mannekla hái starfseminni og m.a. af þeim ástæðum eru settar fram efasemdir um þetta tilraunaverkefni. Flokkur fólksins telur að þegar farið er af stað með stórar breytingar eins og ágústfrístund þá sé mikilvægt að vinna undirbúningsvinnuna í góðu samráði og samstarfi við hagsmunaaðila. Það virðist ekki hafa verið gert og hvetur Flokkur fólksins aðila að bæta úr því.

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

  Fulltrúi Vinstri grænna áréttar vonbrigði sín við frávísun meirihluta menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs á hógværri tillögu varðandi það að kannaður væri möguleikinn á uppsetningu ókynaðgreinds fjölskylduklefa í Sundhöllinni. Afgreiðsla þessi er kaldar kveðjur til hóps ungmenna og áhugafólks um málefnið sem hafa fært góð og málefnaleg rök fyrir slíkri tilraun.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 13:07

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 4.4.2023 - Prentvæn útgáfa