Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 4. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:32. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Andrea Helgadóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Jónsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sara Björg Sigurðardóttir, Tinna Helgadóttir, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram til fyrri umræðu frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 ásamt greinargerð og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025. Jafnframt eru lagðar fram tillögur borgarstjóra undir eftirtöldum liðum í fundargerð borgarráðs frá 31. október 2025. 4. liður; lántökur vegna framkvæmda á árinu 2026, 5. liður; tillaga um álagningarhlutfall útsvars 2026, 6. liður; tillaga um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2026, 7. liður; tillaga um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2026, 8. liður; tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2026 og 9. liður; tillaga að gjaldskrám 2026. FAS25010023
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. október 2025, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki lántökur á árinu 2026 að fjárhæð 14.000 m.kr. til að fjármagna áformaðar fjárfestingar á árinu 2026 og til að fjármagna stofnframlög borgarinnar vegna byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Ennfremur verði lántakan nýtt til fjármögnunar á stofnframlögum til B-hluta fyrirtækja og hlutdeildarfélaga. Jafnframt er lagt til að veita sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs umboð fyrir hönd Reykjavíkurborgar til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast skuldabréfaútgáfu borgarsjóðs, sem og til þess að taka á móti og undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántökum þessum, enda verði einstakar lántökur lagðar fyrir borgarráð til afgreiðslu.
Greinargerð fylgir tillögunni. FAS25100017
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. október 2025, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025:
Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2026 verði 14,97% og er það sama hlutfall og tekjuárið 2025.
Greinargerð fylgir tillögunni. FAS25100036
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. október 2025, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025:Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu vegna ársins 2026 verði sem hér segir:
1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,18% af fasteignamati alls.
2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32% af fasteignamati alls.
3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr.4/1995 með síðari breytingum verði 1,60% af fasteignamati alls.
4. Hlutfall lóðarleigu fyrir íbúðarhúsalóðir verði 0,2% af fasteignamati lóða.
5. Hlutfall leigu fyrir verslunarlóðir, iðnaðarlóðir og lóðir fyrir opinberar byggingar verði 1,0% af fasteignamati lóða.Greinargerð fylgir tillögunni. FAS25100015
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-1 um álagningarhlutfall fasteignaskatta 2026:
Borgarstjórn samþykkir að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði fyrir árið 2026, þannig að tekjur borgarsjóðs af álögðum fasteignagjöldum hækki ekki milli áranna 2025 og 2026. Lagt er til að álagningarhlutfall fasteignaskatta vegna ársins 2026 verði sem hér segir:
1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 0,166%.
2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði áfram 1,32%.
3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,563%.Greinargerð fylgir tillögunni.
Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins merkt B-1 um fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði 2026:
Borgarstjórn samþykkir að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði fyrir árið 2026 þannig að áætlaðar tekjur af fasteignasköttum hækki ekki á milli áranna 2025 og 2026. Álagningarhlutfall fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði verði lækkað úr 0,18% í 0,162% og álagningarhlutfall fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,6% í 1,522%. Lóðarleiga íbúðarhúsnæðis lækki úr 0,2% í 0,177%. Lóðarleiga atvinnuhúsnæðis lækki úr 1% í 0,974%. Tillagan felur í sér að áætluð lækkun fasteignagjalda á næsta ári nemi rúmum 2,1 milljarði króna og skiptist þannig að tekjur vegna íbúðarhúsnæðis lækka um 940 milljónir, tekjur vegna atvinnuhúsnæðis lækka um 977 milljónir og 191 milljón vegna lækkunar lóðarleigu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Viðreisnar merkt C-1 um lækkun fasteignagjalda:
Lagt er til að fasteignargjöld á atvinnuhúsnæði í flokki C lækki úr 1,6% í 1,55%. Fjárhagslegu áhrifin af því að lækka álagningarhlutfallið á atvinnuhúsnæði úr 1,6% í 1,55% eru um 624 m.kr. árið 2026. Breyting tekna verður fjármögnuð með lækkun á handbæru fé.
Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.
Tillaga borgarstjóra er að öðru leyti samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. október 2025, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025:
Lagt er til að gjalddagaskipting fasteignagjalda fyrir árið 2026 verði eftirfarandi: Greiðendur fasteignagjalda skulu gera skil á fasteignagjöldum ársins 2026 með 11 jöfnum greiðslum á eftirfarandi gjalddögum: 31. janúar, 2. mars, 4. apríl, 2. maí, 1. júní, 5. júlí, 2. ágúst, 1. september, 3. október, 1. nóvember og 5. desember. Þá er lagt til að nemi álagning fasteignagjalda 25.000 kr. eða lægri fjárhæð á fastanúmer greiði gjaldendur þau með einum gjalddaga þann 31. janúar 2026. Lagt er til að gjalddagar krafna vegna framkvæmdar afsláttar til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega af fasteignaskatti og fráveitugjaldi verði 1. nóvember 2026, 5. desember 2026 og 3. janúar 2027. Lagt er til að þeir sem eiga inneignir fái þær greiddar út 5. nóvember 2026.
Greinargerð fylgir tillögunni. FAS25100015
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. október 2025, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025:
Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2026 verði eftirfarandi:
Viðmiðunartekjur
I. Réttur til 100% lækkunar.
Einstaklingur með tekjur allt að 6.000.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 8.360.000 kr.
II. Réttur til 80% lækkunar.
Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.000.001 til 6.860.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 8.360.001 til 9.270.000 kr.
III. Réttur til 50% lækkunar.
Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.860.001 til 7.980.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 9.270.001 til 11.080.000 kr.
Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins þær eru á hverjum tíma.Greinargerð fylgir tillögunni. FAS25100015
Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-2 um hækkun viðmiðunartekna sem koma til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2026:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2026 verði eftirfarandi:
Viðmiðunartekjur
I. Réttur til 100% lækkunar.
Einstaklingur með tekjur allt að 6.600.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 9.196.000 kr.
II. Réttur til 80% lækkunar.
Einstaklingur með tekjur á bilinu 6.600.001 kr. til 7.546.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 9.196.001 kr. til 10.197.000 kr.
III. Réttur til 50% lækkunar.
Einstaklingur með tekjur á bilinu 7.546.001 kr. til 8.778.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 10.197.001 kr. til 12.188.000 kr.
Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignamats og fráveitugjalds fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um afslátt af fasteignagjöldum eins og þær eru á hverjum tíma.Greinargerð fylgir tillögunni.
Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.Tillaga borgarstjóra er að öðru leyti samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.Lögð fram tillaga borgarstjóra að gjaldskrám Reykjavíkurborgar, dags. 30. október 2025, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025. FAS25010023
Lögð fram breytingartillaga og greinargerð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins merkt D-3 um afslætti af gatnagerðargjaldi vegna bifreiðageymslna neðanjarðar.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.Tillaga borgarstjóra að gjaldskrám Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 er samþykkt. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Samþykkt að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 2. desember nk.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er samstarfsflokkunum ánægjuefni að leggja fram fjárhagsáætlun þar sem sú stefna að forgangsraða í þágu barna birtist skýrlega. Þar má helst nefna víðtækt átak í viðhaldsmálum skóla- og leikskólahúsnæðis. Undirbúningur við nýjan safnskóla í Laugardal og 1. áfanga Vogabyggðarskóla heldur áfram. Uppbygging leikskóla heldur áfram, nýir leikskólar, færanlegar stofur og stækkanir eldri leikskóla. Gert er ráð fyrir fjölgun félagslegra leiguíbúða ásamt sértæku húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Undirbúningur Þjóðarhallar heldur áfram. Framkvæmdir við fjölnota knatthús KR hefjast á árinu. Fjármagn verður sett í undirbúning að dans- og fimleikahúsi í Breiðholti og endurbætur hafnar á Árbæjarlaug. Áætlunin sýnir að aðhald, ráðdeild og sparnaður er leiðarljós samstarfsflokkanna fyrir réttláta forgangsröðun fjármuna. Í útkomuspá 2025 er gert ráð fyrir 7.9% veltufé frá rekstri sem er umfram upphaflega áætlun. Áætlunin sýnir að grunnrekstur og rekstrarniðurstöður haldast sterk út tímabilið. Í fyrsta sinn síðan COVID eru öll markmið fjármálastefnunnar grænmerkt. Á næsta ári verða 4,8 milljarðar í rekstrarafgang í A-hluta rekstrarins og stefnir í að EBITDA og rekstrarniðurstaða samstæðu A- og B-hluta skili 14.6 milljarða afgangi á næsta ári. Útkomuspá fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir að fjárfestingar nemi um 22,6 ma.kr. og í áætlun 2026 er gert ráð fyrir að fjárfestingar nemi 23,6 ma.kr.
Fylgigögn
- Frumvarp að fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun 2026-2030
- Greinargerð fagsviða og B-hluta með fjárhagsáætlun 2026
- Greinargerð FAS með fjárhagsáætlun 2026-2030
- 4. liður; tillaga að lántöku vegna framkvæmda á árinu 2026
- 5. liður; tillaga um um álagningarhlutfall útsvars 2026
- 6. liður; tillaga um álagningarhlutfall fasteignaskatta og lóðarleigu 2026
- 7. liður; tillaga um gjalddagaskiptingu fasteignaskatta og lóðarleigu 2026
- 8. liður; tillaga um viðmiðunartekjur afsláttar fasteignagjalda 2026
- 9. liður; tillaga að gjaldskrám 2026
- Breytingartillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins D1-D3
- Breytingartillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins B1
- Breytingartillaga borgarfulltrúa Viðreisnar C1
-
Lagt fram frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2026-2030, ásamt greinargerð, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 31. október 2025.
Samþykkt að vísa frumvarpi að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2026-2030 til síðari umræðu í borgarstjórn sem fram fer 2. desember 2025. FAS25010023
-
Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til loka kjörtímabils og sjö til vara, formannskjör. Kosin eru af SPJ lista án atkvæðagreiðslu
Dóra Björt Guðjónsdóttir
Skúli Þór Helgason
Hjálmar Sveinsson
Sanna Magdalena MörtudóttirKosnar eru af D-lista án atkvæðagreiðslu:
Hildur Björnsdóttir
Ragnhildur Alda María VilhjálmsdóttirKosinn er af B-lista án atkvæðagreiðslu:
Einar Þorsteinsson
Formaður er kjörin án atkvæðagreiðslu Dóra Björt Guðjónsdóttir.
Varafulltrúar eru kosnir með sama hætti.
Kosin eru af SPJ-lista án atkvæðagreiðslu:
Alexandra Briem
Sabine Leskopf
Kristinn Jón Ólafsson
Andrea HelgadóttirKosin eru af D-lista án atkvæðagreiðslu:
Kjartan Magnússon
Marta GuðjónsdóttirKosin er af B-lista án atkvæðagreiðslu:
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Lögð er fram tilkynning Viðreisnar um að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði áheyrnarfulltrúi flokksins í borgarráði og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir verði varaáheyrnarfulltrúi.
Lögð er fram tilkynning Flokks fólksins um að Helga Þórðardóttir verði áheyrnarfulltrúi í borgarráði og Einar Sveinbjörn Guðmundsson verði varaáheyrnarfulltrúi.
Lögð er fram tilkynning Vinstri grænna um að Líf Magneudóttir verði áheyrnarfulltrúi í borgarráði og Stefán Pálsson verði varaáheyrnarfulltrúi. MSS22060043
-
Fram fer kosning sjö fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráð til loka kjörtímabilsins og sjö til vara, formannskjör.
Kosin eru af SPJV-lista án atkvæðagreiðslu:
Líf Magneudóttir
Hjálmar Sveinsson
Alexandra Briem
Andrea HelgadóttirKosin eru af D-lista án atkvæðagreiðslu:
Hildur Björnsdóttir
Kjartan MagnússonKosinn er af B-lista án atkvæðagreiðslu:
Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Formaður er kjörin án atkvæðagreiðslu Líf Magneudóttir
Varafulltrúar eru kosnir með sama hætti.
Kosin eru af SPJV-lista án atkvæðagreiðslu:
Stefán Pálsson
Birkir Ingibjartsson
Sara Björg Sigurðardóttir
Ásta Þ. Skjalddal GuðjónsdóttirKosin eru af D-lista án atkvæðagreiðslu:
Marta Guðjónsdóttir
Björn GíslasonKosinn er af B-lista án atkvæðagreiðslu:
Þorvaldur Daníelsson
Lögð fram tilkynning Flokks fólksins um að Einar Sveinbjörn Guðmundsson verði áheyrnarfulltrúi flokksins í umhverfis- og skipulagsráði og Helga Þórðardóttir til vara.
Lögð fram tilkynning Viðreisnar um að Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir verði áheyrnarfulltrúi flokksins í umhverfis- og skipulagsráði og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir til vara. MSS22060046
-
Fram fer kosning í skóla- og frístundaráð. Lagt er til að Kristinn Jón Ólafsson taki sæti í ráðinu í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Alexandra taki sæti Kristins Jóns sem varamaður.
Samþykkt. MSS22060048
-
Fram fer kosning í innkaupa- og framkvæmdaráð. Lagt er til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti í ráðinu í stað Kristins Jóns Ólafssonar. Jafnframt er lagt til að Kristinn Jón taki sæti Oktavíu sem varamaður.
Samþykkt. MSS22060064
-
Fram fer kosning varaforseta borgarstjórnar til loka kjörtímabils.
Lagt er til að Helga Þórðardóttir taki sæti 3. varaforseta borgarstjórnar í stað Magnúsar Davíðs Norðdahl til loka kjörtímabils. Jafnframt er lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti áheyrnarfulltrúa í forsætisnefnd í stað Helgu Þórðardóttur.
Samþykkt. MSS22060040
-
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 30. og 31. október. MSS25010002
10. liður fundargerðar borgarráðs frá 31. október; niðurfelling á yfirfærslu fjárheimilda vegna ársins 2024 yfir á árið 2025 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25100016
11. liður fundargerðar borgarráðs frá 31. október; fjárhags- og starfsáætlun svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins 2026 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090100
12. liður fundargerðar borgarráðs frá 31. október; fjárhagsáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2026-2030 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25100003
13. liður fundargerðar borgarráðs frá 31. október; gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24100168
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. október:
Reykjavíkurborg er að fara nýja leið í húsnæðis- og innviðauppbyggingu. Unnið verður með samstarfsaðila í innviðafélagi þar sem markmiðið er að byggja upp innviði í nýju hverfi hraðar en hefur þekkst, þannig að íbúðir og hverfi rísi hratt en örugglega upp. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir tekjulága og ungt fólk sem þarf að byggja fyrir. Vinna þessi hófst með áherslum í samstarfssáttmála þar sem fram kemur að: Hröð húsnæðisuppbygging og örugg heimili fólks eru lykilmál nýs samstarfs í borginni. Efnt verður til sameiginlegrar vinnu Reykjavíkur og verkalýðsfélaga með það að markmiði að stofna félag um þróun nýrra svæða og fara nýjar leiðir við skipulag, uppbyggingu innviða og fjármögnun þeirra. Tillagan felur í sér að skipaður verði starfshópur sem verði falið að hefja undirbúning að samstarfi við innviðafélag um þróun og uppbyggingu nýs íbúðarhverfis í Höllum. Val á samstarfsaðilum fari fram skv. 37. gr. laga nr. 120/2016 um samkeppnisviðræður. Valinn samstarfsaðili taki þátt í þróun nýs íbúðarhverfis samkvæmt settum markmiðum og skilyrðum borgaryfirvalda, byggi tiltekna grunninnviði og samfélagslegar stofnanir, gegn sölu á tilteknu magni byggingarréttar í opnu og gagnsæu ferli til byggingaraðila á almennum markaði.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. október:
Það er forkastanlegt að risamáli eins og húsnæðisuppbyggingu, mögulegu innviðafyrirtæki og nýjum leiðum í uppbyggingarmálum sé kastað inn í borgarráð með litlum sem engum fyrirvara. Stóru uppbyggingarmáli laumað inn í borgarráð undir sakleysislegu yfirbragði starfshóps en er í raun stefnumiðandi ákvörðun um leiðir og aðferðir í dýrri húsnæðisuppbyggingu í Úlfarsárdal. Borgarfulltrúi Viðreisnar fór fram á að málinu væri frestað og borgarráð fengi góða kynningu á málinu og hafi tækifæri til að ræða leiðir sem fara á í þessu annars spennandi verkefni. Borgarfulltrúi mótmælir harðlega svona hroðvirknis vinnubrögðum samstarfsflokkanna.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Framboð húsnæðis fyrir ungt og efnaminna fólk er eitt brýnasta úrlausnarefni samtímans. Samstarfsflokkarnir hafa enda lagt á það alla áherslu að flýta eins og mögulegt er að kynna raunverulegar aðgerðir sem flýta uppbyggingu í Úlfarsárdal. Það verkefni að tryggja efnaminni fjölskyldum öruggt þak yfir höfuðið þolir ekki frekari bið. Ákveðið var í borgarráði þann 24. mars sl. að kanna hvort hægt væri, með aðkomu innviðasjóðs, að hraða uppbyggingu á landi því sem nefnt hefur verið M22 í Úlfarsárdal. Það skref sem hér er stigið á ekki að koma neinum á óvart og er rökrétt framhald vinnu sem hófst síðastliðið vor. Í ljósi þeirra upplýsinga sem þá lágu fyrir, þeirra gagna sem fylgja málinu í dag og ekki síst í ljósi þeirrar grafalvarlegu stöðu sem uppi er í húsnæðismálum fátæks fólks, þá er mikilvægt að hraða húsnæðisuppbyggingu þar sem núverandi staða bitnar harðast á því fólki sem getur síst borið þær byrðar.
Fylgigögn
- Fundargerð borgarráðs frá 31. október 2025
- Fundargerð borgarráðs frá 30. október 2025
- 10. liður; Tillaga um niðurfellingu á yfirfærslu fjárheimilda ársins 2024-2025
- 11. liður; Starfs- og fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins 2026
- 12. liður; Fjárhagsáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins 2026-2030
- 13. liður; Gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins
-
Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 30. október, stafræns ráðs frá 22. október og umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. október. MSS25010033
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 17:56
Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 04.11.2025 - Prentvæn útgáfa