Borgarstjórn - Borgarstjórn 3.9.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 3. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. 
Fundarritari var Ebba Schram.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram til fyrri umræðu tillaga borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2024, varðandi viðauka við samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, drög að samkomulagi vegna reksturs stjórnskipulags og veghalds, og yfirlýsing um sameiginlegan skilning varðandi framkvæmd samkomulags um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, sbr. 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2024.
    Vísað til síðari umræðu. MSS24080093

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að efla samgönguinnviði vegna vanfjármögnunar undanfarinn áratug. Ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu koma að fjármögnuninni þar sem m.a. er gert ráð fyrir innheimtu veggjalda upp á 143 (nettó) milljarða. Sósíalistar geta ekki samþykkt veggjöld sem fjármögnunarleið en ljóst er að slíkt bitnar harðast á þeim sem verst standa. Þá á einnig að nota ábatann af þróun og sölu Keldnalandsins til fjármögnunar samgöngusáttmálans. Ef lóðir til húsnæðisuppbyggingar á Keldnalandi verða seldar hæstbjóðenda þá mun slíkt skila sér út í íbúðaverðið og bitna á framtíðaríbúum þessa svæðis. Almenningur ætti ekki að þurfa að greiða fyrir samgönguúrbætur með þessum hætti og leggja Sósíalistar áherslu á að tekjur verði sóttar til þeirra sem peningana eiga, þeirra sem greiða ekki eins og aðrir til nærsamfélagsins. Ánægjulegt er að sjá fyrirhugaða aðkomu ríkisins að rekstri Strætó og mikilvægt er að þjónustuskerðingar verði dregnar til baka og þjónusta bætt til að mæta þörfum farþeganna.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar uppfærslu samgöngusáttmálans. Margt í honum var löngu úrelt. Vonir stóðu til að sáttmálinn fæli í sér úrbætur og úrræði til að létta eitthvað  á umferðarþunga borgarinnar. Fram kemur að fjárfesta eigi í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar en það kemur ekki fram hvenær. Þetta er bráðavandi sem þarf að leysa hið fyrsta. Sáttmálinn er að mestu um stórar framkvæmdir sem komast eiga í gagnið eftir mörg ár ef ekki áratugi. Um er að ræða Miklabraut í göng, Fossvogsbrú og Borgarlínu. Þeir sem eru komnir vel yfir miðjan aldur munu aldrei upplifa eða sjá þennan veruleika en sitja hins vegar áfram fastir í umferðarteppu með tilheyrandi mengun sem aðeins mun versna því bílum fjölgar stöðugt. Í sáttmálanum vantar enn fullt af kostnaðarliðum í áætlunina eins og verkstæði, geymslur fyrir vagna, stjórnstöð, tölvubúnað o.fl. Einnig var uppfærslan unnin nokkurn veginn af sama fólki og bjó til fyrri sáttmálann. Það er galli því betur sjá augu en auga. Jákvætt er að ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum. En hvenær sést ávinningur af því? Ekki liggur heldur fyrir hvernig almenningssamgöngur púslast inn í áætlanir Borgarlínu en þessir tveir ferðamátar skarast mikið.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um ofbeldistilvik á Menningarnótt, öryggismál og fyrirbyggjandi aðgerðir. MSS24050148

    Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn er harmi slegin vegna þeirrar árásar sem átti sér stað á Menningarnótt og leiddi til hörmulegs andláts ungrar stúlku. Við vottum aðstandendum innilega samúð og sendum þeim sem eiga um sárt að binda ljós og kærleik á þessum erfiðu tímum. Borgin okkar á að vera öruggur staður fyrir okkur öll. Reykjavíkurborg tekur fullan þátt í þjóðarátaki gegn ofbeldi og vopnaburði barna.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Alvarleg ofbeldistilvik áttu sér stað í miðborginni á Menningarnótt þar sem eggvopnum var beitt með hræðilegum afleiðingum. Merki hafa verið síðustu ár um að ákveðin hnífaofbeldismenning hafi þróast meðal ungmenna. Ekki er hægt að segja að við þessu hafi verið brugðist að heitið geti þótt þróunin hafi blasað við. Í upphafi kjörtímabils lagði Flokkur fólksins fram tillögu um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík og lagði til aukið samráð þriggja sviða sem koma mest að þjónustu við börn. Þá þegar voru ýmis teikn á lofti um aukið ofbeldi meðal barna og ungmenna. Tillagan fékk ekki brautargengi. Sem mótsvar við tillögu Flokks fólksins lagði mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fram tillögu um samráðsvettvang alltof stórs hóps að mati Flokks fólksins. Tillagan þvældist lengi um í kerfinu en var loks samþykkt. Ekki er vitað hvenær er að vænta niðurstöðu frá hópnum og tímasettrar aðgerðaáætlunar. Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn sendi frá sér sameiginlega ályktun þar sem hún harmar ofbeldisatvik sem áttu sér stað á Menningarnótt sem leiddu til andláts ungrar stúlku. Borgarstjórn einsetur sér að vinna með öllum ráðum strax að fyrirbyggjandi aðgerðum til að koma í veg fyrir að slík ofbeldisbrot endurtaki sig.

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Reykjavíkurborg fari þess á leit við barna- og menntamálaráðherra að samræmd próf verði tekin upp að nýju í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla í þeim tilgangi að bæta námsárangur grunnskólanema. Samræmdu prófunum fylgi kennsluátak fyrir þá nemendur sem helst þurfa á því að halda.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24090003.
    Frestað.

    Fylgigögn

  4. Umræðu um skólamál, samræmt námsmat og fleira er frestað. MSS24090004 

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarstjórn samþykkir að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að dregið verði úr næringargildi skólamáltíða og verði það m.a. gert með því að tryggja að skólar með eldhús geti eldað matinn á staðnum.

    Frestað.
    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24090005

    Fylgigögn

  6. Umræðu um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara er frestað. MSS24090006.

  7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 27. júní, 11. júlí, 15., 22. og 29. ágúst. MSS24010001
    5. liður fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst; tekjuskattsundanþága byggðasamlaga – rekstrarform SORPU bs. er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24080057
    5. liður fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, er borinn upp í einstökum liðum. FAS24010023
    1.-4. og 6. liðir viðaukans eru samþykktir.
    5. liður viðaukans um ráðningar- og mannauðsmál í leikskólum er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    6. liður fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst, tillaga um sameiningu Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar við Brú Lífeyrissjóð, er samþykktur. MSS23110152

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst:

    Vísað er til bókunar Sósíalistaflokks Íslands við þetta mál á fundi borgarráðs þann 15. júní 2023: Samtök vinnandi fólks hafa lýst mikilli andstöðu við þá tegund samninga sem liggja til grundvallar ráðningum Afleysingastofu, svokallaðra núll-samninga. Reykjavíkurborg á ekki að gerast virkur þátttakandi í niðurbroti á réttindum láglaunafólks til starfsöryggis hér á landi til þess eins að bregðast við vandamáli sem borgaryfirvöld hafa sjálf skapað með sinnuleysi og niðurskurði í rekstri leikskólanna. Fjárhagslegt óöryggi láglaunafólks hefur farið hríðversnandi og opinberir aðilar eiga ekki að ýta undir versnandi stöðu þeirra með aðgerðum sínum. Það að ætla að auka umsvif Afleysingastofu án samráðs við þau stéttarfélög sem eru málsvarar fólksins sem þar sækir um störf og núverandi starfsfólks leikskólanna, og heildarsamtök þeirra, er ekki skynsamlegt eða tímabært. Málið þarfnast ítarlegri umræðu sem á meira heima í borgarstjórn og á opinberum vettvangi.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst:

    5. liður fundargerðar íbúaráðs Laugardals frá 29. maí sl.: Hvað skyldi nú vera að frétta af sviðsmyndarmálinu vegna málsins framtíðaruppbygging skóla í Laugardal? Síðast þegar fréttist af málinu þá höfðu þær sviptingar orðið að sviðsmynd 1 átti að varpa fyrir róða fyrir sviðsmynd 4 (afbrigði af sviðsmynd 3) sem mikill meirihluti hafði hafnað. Þetta kom eins og blaut tuska í andlit íbúa í Laugardal. Viðbrögð létu ekki á sér standa og kallað var eftir umsögnum. Síðan ekki söguna meir. Tekið er undir bókun foreldrafélagsins þar sem segir „stjórnsýsla borgarinnar er átalin og virðingarleysi borgaryfirvalda gagnvart íbúalýðræði. Skóla- og frístundaráð og fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn hyggjast nú ganga gegn öllu samráði sem m.a. byggði á endurteknum umsögnum sem unnar voru m.a. af skólastjórnendum, starfsmönnum og börnum í Laugardal. Til stuðnings breyttri afstöðu hefur borgaryfirvöldum mistekist hrapallega að sýna fram á breyttar forsendur og sundurlaus rök um erfiðar framkvæmdir og rask sannfæra engan.“ Flokkur fólksins kallar eftir fréttum af málinu, hvar er það statt og hvað er að gerast? Auðvitað er gerð sú krafa að tillaga um sviðsmynd 1 sem valin var af íbúum Laugardals og samþykkt var í borgarráði 2022 verði fylgt. Ef troða á annarri sviðsmynd ofan í kok á íbúum er um að ræða gróf samráðssvik.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. ágúst:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna er ekki sannfærður um að þessi leið sem stjórn SORPU bs. leggur til sé endilega sú réttasta. Því situr borgarfulltrúinn hjá í þessu máli.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 30. ágúst, fundargerðir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 20. júní og 22. ágúst, fundargerðir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. og 27. júní, fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 24. júní og 26. ágúst, fundargerð stafræns ráðs frá 28. ágúst, fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 19. og 26. júní og 14. og 21. ágúst og fundargerðir velferðarráðs frá 19. júní og 21. ágúst. MSS24010034
    2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 30. ágúst, lausnarbeiðni Rannveigar Ernudóttur varaborgarfulltrúa Pírata til loka kjörtímabils er samþykktur. MSS23060052
    9. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 30. ágúst, lausnarbeiðni Trausta Breiðfjörð Magnússonar borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands til loka kjörtímabils, er samþykktur. MSS22090101

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    9. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 30. ágúst: Flokkur fólksins fékk óvæntan stuðning frá Sósíalistum á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. ágúst síðastliðinn. Fulltrúa Sósíalista ofbauð framkoma fulltrúa Samfylkingarinnar og óhróður hans um Flokk fólksins og oddvita hans og sendi inn formlega kvörtun til forsætisnefndar. Af reynslu var vitað að erindið fengi aldrei faglega meðferð hjá forsætisnefnd og var það því birt á Facebook-síðu flokksins. Í ljós kom að það var rétt mat. Áréttað er að birting erindisins er ekki trúnaðarbrot enda er kvörtun yfir óásættanlegri framkomu ekki trúnaðarmál. Það er ósk Flokks fólksins að umræddur fulltrúi láti af öllu áreiti á fundum í garð Flokks fólksins og er málinu þar með lokið af hálfu Flokks fólksins. 10. liður fundargerðar stafræns ráðs frá 28. ágúst: Sett er spurningarmerki við tölurnar í svarinu við fyrirspurn um heildarkostnað stafrænnar umbreytingar borgarinnar. Það vantar í heildarútreikning þess kostnaðar sem spurt var um. Sjá má að það eru mismunandi merkingar á fjárheimildum umsókna frá sviðinu sem borist hafa frá 2019. Oft hefur allskyns kostnaður sem varla er hægt að skilgreina sem „eign“ verið eignfærður í bókhaldi. Þar má nefna hluti eins og hugbúnaðaruppfærslur sem ættu að vera hluti af kostnaði Reykjavíkurborgar af stafrænni umbreytingu sem beðið var um. Þetta þarf að skoða.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 17:52

Magnea Gná Jóhannsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 03.09.2024 - Prentvæn útgáfa