Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 3. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Guðný Maja Riba, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 13. maí 2025, um uppfærða húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2025-2034, sbr. 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí 2025. Einnig fer fram umræða um skipulagsbreytingar til að hraða uppbyggingu og tryggja gæði.
8. liður fundargerðar borgarráðs frá 15. maí 2025 er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.- Kl. 14:42 víkur Ívar Vincent Smárason af fundi og Helga Björk Laxdal tekur við fundarritun. MSS23120067
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar endurspeglar skýrt nýjar áherslur samstarfsflokkanna. Hún markar stefnu til framtíðar og er leiðarvísir að öruggara, réttlátara og fjölbreyttara borgarsamfélagi. Í samræmi við markmið samstarfsyfirlýsingarinnar frá febrúar 2025 er gert ráð fyrir að 35% nýrrar uppbyggingar verði óhagnaðardrifin. Áhersla er lögð á gæði nærumhverfis, birtu, náttúrulegt umhverfi og betri almenningsrými og að stærri torg og almenningsrými verði á forræði Reykjavíkurborgar. Félagslegar áherslur húsnæðisstefnu eru að byggð eigi að þróast með jöfnuði og sjálfbærni að leiðarljósi. Þó mikil vinna hafi farið í skipulagsferla síðustu ár, þá er ljóst að við þurfum að auka hraða og afkastagetu enn frekar og því höfum við samþykkt skipulagsbreytingar sem miða að því að bæta þjónustu, stytta boðleiðir og auka sveigjanleika og hagkvæmni. Samhliða er verið að taka enn betur utan um eignir borgarinnar, viðhald og framkvæmdir. Þá fela þær einnig í sér fjárhagslegt hagræði til lengri tíma.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja húsnæðisstefnu Samfylkingar og fylgitungla hafa beðið algjört skipbrot. Viðvarandi og uppsafnaðan húsnæðisskort borgarinnar megi að miklu leyti rekja til lóðaskortsstefnu meirihlutans og ofurþéttingar þar sem öll áhersla er á þung, dimm og háreist fjölbýli. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka að svo svara megi fyrirséðri þörf á húsnæðismarkaði til næstu ára verður nauðsynlegt að brjóta nýtt land og færa út vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins. Skipuleggja þurfi ný hverfi á mannlegum skala, þar sem tryggður er mildari þéttleiki, lágreistari byggð og fjölbreyttari valkostir. Fulltrúarnir telja það markmið húsnæðisáætlunar borgarinnar að 35% nýrrar uppbyggingar verði niðurgreitt húsnæði, fela í sér óæskilega og ósjálfbæra nálgun á húsnæðismarkaðinn. Mun fremur þurfi að skapa heilbrigðan húsnæðismarkað, þar sem framboð er nægt og fólk eigi þess kost að eignast eigið húsnæði í fyllingu tímans. Þá vekja fulltrúarnir athygli á því að árið 2024 voru aðeins fullkláraðar 989 íbúðir í Reykjavík þrátt fyrir loforð um uppbyggingu 2.000 íbúða árlega.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Eina leiðin til að rjúfa vítahring verðhækkana á húsnæði, aukna verðbólgu og hækkun vaxta er að auka lóðaframboð, brjóta nýtt land, þétta byggð með skynsamlegum hætti, skilyrða uppbyggingarheimildir þannig að það verði frekar hvati til að byggja strax en að sitja á lóðum og braska með þær og bæta stjórnsýslu og umgjörð uppbyggingarmála. Framsókn hefur áhyggjur af því að meirihlutinn í borginni ætli sér um of í félagslegri uppbyggingu á kostnað húsnæðisuppbyggingar fyrir þær fjölskyldur sem vilja kaupa eigið þak yfir höfuðið. Þá er sorglegt að sjá að búið er að stinga tillögu Framsóknar um að hefja skipulagsferli fyrir íbúabyggð á Geldinganesi undir stól og er svæðið ekki nefnt í þessari húsnæðisáætlun sem nær til ársins 2034.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um bílastæðamál. MSS25050054
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn telur að gjaldskylda bílastæða geti gagnast íbúum sem hafa íbúakort en telur að breyta þurfi reglum um íbúakort þannig að hægt sé að kaupa fleiri en eitt kort á íbúð. Þá þurfi að tryggja að íbúar séu hafðir með í ráðum áður en ráðist er í breytingar á gjaldskyldusvæðum. Einnig þarf að útfæra reglur um gjaldskyld bílastæði þannig að þau hafi sem minnst áhrif á atvinnustarfsemi í borginni svo sem á þjónustu sem íbúar þurfa að kaupa heim til sín svo sem vegna viðhaldsverkefna og verslun og þjónustu sem íbúar sækja á gjaldskyld svæði. Framsókn styður ekki fækkun bílastæða og þykir rétt að slík áform séu sett á ís þar til almenningssamgöngur hafa verið bættar svo sem með aukinni tíðni strætó og borgarlína hefur hafið akstur. Fækkun bílastæða þrengir að lífsgæðum íbúa og borgin þarf að sýna íbúum mildi þegar kemur að þessum málum.
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 20. maí 2025, um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. maí 2025.
- Kl. 17:15 víkur Helga Þórðardóttir af fundinum og Einar Sveinbjörn Guðmundsson tekur sæti.
Samþykkt. MSS25030059
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Spretthópur borgarstjóra um leikskólauppbyggingu leggur til níu uppbyggingarverkefni til að mæta þörf barnafjölskyldna fyrir ný leikskólarými. Nýir borgarreknir leikskólar verða reistir í Elliðaárdal, Safamýri og Miðborg við Njálsgötu, auk þess sem Félagsstofnun stúdenta og Hjallastefnan stefna að byggingu nýrra leikskóla. Þá er lagt til að nýtt framtíðarhúsnæði verði reist fyrir leikskólana Laugasól, Sunnuás og Ægisborg. Nýju uppbyggingarverkefnin geta skilað allt að 900 nýjum leikskólarýmum auk þeirra 164 nýju plássa sem opna í starfandi leikskólum með færanlegum húsum, 264 plássum sem endurheimtast eftir verklok framkvæmda og um 730 plássum sem þegar hafa verið ákveðin í aðgerðaáætluninni Brúum bilið. Alls mun því fjölga um nærri 2000 leikskólarými á næstu fimm árum. Spretthópurinn leggur til að stofnstyrkir verði teknir upp til að hvetja til fjölgunar plássa á vegum sjálfstætt starfandi leikskóla. Þá verði teknar upp viðræður við íþróttafélög um hreystileikskóla og samnýting skóla- og frístundahúsnæðis í þágu leikskólastarfsemi aukin. Stuðningur er við hugmyndir um aukið samræmi vinnutíma starfsfólks leikskóla og grunnskóla og aðgerðir til að bæta starfsaðstæður, mönnun og hljóðvist verða mótaðar í vinnu nýs spretthóps um breytingar á reglum um leikskólastarf sem hefur hafið störf og mun skila tillögum sínum í þessum mánuði.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna vissulega áformum um uppbyggingu fleiri leikskólaplássa en vekja athygli á því að enn skortir fjármögnun fyrir uppbygginguna og aðgerðir til að tryggja mönnun á fyrirhuguðum plássum. Jafnframt gefa heildartölur skakka mynd enda taka þær ekki mið af þeim leikskólaplássum sem falla út samhliða uppbyggingunni. Fulltrúarnir minna jafnframt á að leikskólavandinn er mismikill milli hverfa og því nauðsynlegt að skipuleggja uppbygginguna sérstaklega eftir þörfum á hverju svæði enda mikilvægt hagsmunamál fjölskyldna að börn þeirra fái leikskólapláss innan hverfis. Þá sakna fulltrúarnir áforma um fjölbreyttari lausnir og aukið samstarf við fyrirtækin í borginni um daggæslu og leikskóla á vinnustöðum.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn hefur frá upphafi þessa kjörtímabils unnið að uppbyggingu leikskólaplássa með fjölbreyttum aðgerðum. Framsókn styður við að stýrihópur taki þá vinnu sem átt hefur sér stað og haldi henni áfram. Mikilvægt er að hafa í huga að leikskólauppbygging miði ekki aðeins að fjölda leiksskólaplássa heldur taki einnig til gæða innra starfs leikskóla. Mönnun er nú stærsta áskorun sem borgin stendur frammi fyrir gagnvart börnum á leikskólaaldri og fjölskyldum þeirra. Framsókn telur þó miður að núverandi meirihluti hafi ekki áhuga á því að semja við vinnustaði um vinnustaðaleikskóla og telur brýnt að einnig sé hugað að því að brúa bilið með fjölbreyttum lausnum svo sem heimgreiðslum fyrir foreldra sem bíða eftir dagvistunarplássi.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn fagnar fjölgun leikskólaplássa, enda hefur verkefnið verið í undirbúningi um langt skeið og Viðreisn unnið ötullega að verkefninu Brúum bilið undanfarin ár. Viðreisn fagnar því sérstaklega að um er að ræða fjölbreyttar leiðir við fjölgun leikskólaplássa enda höfum við ávallt stutt fjölbreyttar lausnir og fjölbreytt rekstrarform. Við hörmum hins vegar að stytta eigi opnunartíma og hverfa eigi frá því að hafa sveigjanlegum opnunartíma.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að stofnaður verði stýrihópur fulltrúa allra flokka í borgarstjórn til þess að móta framtíðarsýn Reykjavíkurborgar um Heiðmörk. Verkefni hópsins verði að tryggja að hagsmunir almennings séu tryggðir í þeirri vinnu sem stendur yfir vegna krafna um aukna vernd vatnsbóla sem Veitur starfrækja. Stýrihópurinn kalli til ráðgjafar og samstarfs þá aðila sem verkefnið krefst.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 19:08 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.
- Kl. 19:26 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Birna Hafstein tekur sæti.
- Kl. 19:46 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Þorkell Sigurlaugsson tekur sæti.Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25060007
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er óskiljanlegt að meirihlutinn hafni tillögu Framsóknar um að stofna stýrihóp um mótun framtíðarsýnar fyrir Heiðmörk. Fyrir liggur að Veitur vilja ráðast í breytingar á aðgengi almennings að Heiðmörk til að tryggja vatnsvernd. Það er afar mikilvægt að tryggja aðkomu kjörinna fulltrúa að ákvörðunum sem snerta svo mikilvæga hagsmuni almennings. Bæði hvað varðar vatnsvernd og lýðheilsu enda eru um 500 þúsund heimsóknir í Heiðmörk á ári. Stefna Veitna um að banna bílaumferð felur í sér að gera þyrfti bílastæði langt frá elstu og vinsælustu svæðunum í skóginum. Frá Suðurlandsvegi þyrftu íbúar að ganga þrjá tilfjóra kílómetra áður en þeir komast í skóginn. Það myndi útiloka meginþorra þeirra sem heimsækja Heiðmörk. Stýrihópurinn gæti leitt lýðræðislegt samtal við hagaðila og almenning, látið vinna áhættugreiningu, lýðheilsumat og sviðsmyndir um fjárfestingu í vatnsöflun á nýjum svæðum til þess að koma í veg fyrir takmarkað aðgengi að Heiðmörk, nýjar aðgangsstýringar eða lausnir sem tryggja bæði sjónarmið vatnsverndar og útivistar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Vatnsvernd snýst um brýna almannahagsmuni og sú ábyrgð sem hvílir á borginni og Veitum að tryggja vatnsöryggi höfuðborgarsvæðisins er rík og ekki í boði að skorast þar undan. Jafnframt er Heiðmörk eitt mikilvægasta og fallegasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegt að tryggja að það nýtist áfram sem slíkt. Því ber að halda til haga að um er að ræða tvö aðskilin mál. Annars vegar stækkun girðingarsvæðis utan um brunnsvæði Veitna að kröfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem Veitur telja sér ekki stætt að ganga gegn. Hins vegar áætlanir um að takmarka bílaumferð um svæðið í þeim tilgangi að tryggja betur vatnsöryggi Reykvíkinga. Þær áætlanir eru á frumstigi og er ríkt samráð við íbúa og aðra hagaðila á svæðinu mjög mikilvægt. Finna þarf leið til þess að ná saman um þau sjónarmið sem hér skarast á, en við viljum uppfylla bæði vatnsverndarsjónarmið en jafnframt tryggja gott aðgengi að útivist, t.d. með skynsamlegri staðsetningu bílastæða og lagningu stíga. Ferill girðingarvinnunnar er til umfjöllunar á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs þar sem mikilvægt er að fá fram skýr svör um hvort ástæða sé til að uppfæra vatnsverndarsamþykktina sem skilgreining vatnsbólanna byggir á. Þar sem málið er í skýrum farvegi er tillögunum vísað frá.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að við mótun nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk verði lögð rík áhersla á öruggt og greiðfært aðgengi almennings að þessu mikilvæga og rótgróna útivistarsvæði. Fulltrúarnir telja hugmyndir Veitna um umfangsmiklar takmarkanir á umferð um Heiðmerkursvæðið vera of íþyngjandi, þær séu líklegar til að skerða verulega aðgengi almennings og draga úr möguleikum íbúa til útivistar og afnota af svæðinu. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á að mengunarhætta á vatnsverndarsvæðinu hafi aukist á undanförnum árum. Þvert á móti bendir margt til þess að sú hætta sé fremur á undanhaldi. Þá hafa engin atvik orðið á undanförnum árum sem truflað hafa vatnsvinnslu eða haft neikvæð áhrif á vatnsgæði á svæðinu. Sjálfstæðismenn telja Veitur ekki hafa gætt meðalhófs í fyrirliggjandi tillögum og telja rétt að kannaðar verði mildari og markvissari leiðir við yfirstandandi deiliskipulagsvinnu, sem tryggja bæði vatnsvernd og áframhaldandi aðgengi íbúa höfuðborgarsvæðisins að Heiðmörk.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn tekur undir það að vatnsból Reykjavíkurborgar sé einstakt og ómissandi og afar mikilvægt að horfa til langrar framtíðar. Viðreisn styður að vatnsbólið verði verndað eins og kostur er. Að setja málið á dagskrá með þverpólitískum stýrihóp og helstu hagaðilum er fín hugmynd sem styður við að almenn sátt náist til framtíðar. Mikilvægt er að finna lausn þar sem vatnsvernd og útivist fara saman í Heiðmörk. Það er tímabært að að kjörnir fulltrúa leggi sína krafta á vogarskálarnar og leitað verði allra leiða til að ná góðu samstarfi milli Veitna, íbúa og allra hagaðila í Heiðmörk.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stefnu og áherslur Reykjavíkurborgar í málefnum aldraðs fólks í Reykjavík.
- Kl. 20:20 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns tekur sæti.
- Kl. 20:25 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti. MSS25060008Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Ekkert hefur heyrst frá áformum samstarfsflokkanna um hvað fyrirhugað er að gera í málefnum aldraðra Reykvíkinga. Nú höfum við beðið í marga mánuði en ekkert hefur gerst í stefnumörkun í málefnum eldra fólks. Stefna borgarinnar er nú úrelt og rann sitt skeið fyrir þremur árum síðan. Viðreisn spyr, hver er nú áhersla borgarinnar þegar það kemur að þjónustu við aldraða Reykvíkinga? Hver er staðan hvað varðar upplýsingamiðlun, samþættingu, þróun þjónustu og virkni aldraðs fólks? Hvernig er staðan á stefnumótun borgarinnar, á hverju strandar? Viðreisn hefur verulega áhyggjur af því að loka eigi farsælli dagdvöl í Þorraseli. Úrræði sem 75 einstaklingar nýta í viku hverri, úrræði með 98% nýtingu. Úrræði sem er greitt af ríkinu og mun því ekki spara Reykjavíkurborg neina fjármuni. Viðreisn kallar eftir stefnu sem byggir á virkni og þátttöku aldraðs fólks. Við viljum tryggja góða þjónustu fyrir einstaklinga í heimahúsum, svo sem aðgengi, hjálpartæki, endurhæfingu, hreyfingu, fæði og síðast en ekki síst dagdvöl sem er samþætt afbragðs stuðningsþjónustu og heimahjúkrun. Við viljum samfellu í þjónustu við aldrað fólk.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sín um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings í Stjörnugróf í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar að Stjörnugróf 18 en lóðarleigusamningur vegna hennar rann út í árslok 2016. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag, sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Bústaðahverfi, Fossvogi, Háaleiti og Smáíbúðahverfi.
Frestað. MSS25060009
Fylgigögn
-
Umræðu um stöðu löggæslumála er frestað. MSS25060010
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að við mótun nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk verði lögð rík áhersla á öruggt og greiðfært aðgengi almennings að þessu mikilvæga og rótgróna útivistarsvæði. Borgarstjórn telur hugmyndir Veitna um umfangsmiklar takmarkanir á umferð um Heiðmerkursvæðið vera of íþyngjandi, þær séu líklegar til að skerða verulega aðgengi almennings og draga úr möguleikum íbúa til útivistar og afnota af svæðinu. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á að mengunarhætta á vatnsverndarsvæðinu hafi aukist á undanförnum árum. Þvert á móti bendir margt til þess að sú hætta sé fremur á undanhaldi, meðal annars vegna aukinnar notkunar rafknúinna farartækja og vinnuvéla. Þá hafa engin atvik orðið á undanförnum árum sem truflað hafa vatnsvinnslu eða haft neikvæð áhrif á vatnsgæði á svæðinu. Borgarstjórn telur Veitur ekki hafa gætt meðalhófs í fyrirliggjandi tillögum um íþyngjandi aðgangstakmarkanir að Heiðmörk. Borgarstjórn beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að kanna mildari og markvissari leiðir við yfirstandandi deiliskipulagsvinnu, sem tryggja bæði vatnsvernd og áframhaldandi aðgengi íbúa höfuðborgarsvæðisins að Heiðmörk.
Tillögunni er vísað frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25060011
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að við mótun nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk verði lögð rík áhersla á öruggt og greiðfært aðgengi almennings að þessu mikilvæga og rótgróna útivistarsvæði. Fulltrúarnir telja hugmyndir Veitna um umfangsmiklar takmarkanir á umferð um Heiðmerkursvæðið vera of íþyngjandi, þær séu líklegar til að skerða verulega aðgengi almennings og draga úr möguleikum íbúa til útivistar og afnota af svæðinu. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á að mengunarhætta á vatnsverndarsvæðinu hafi aukist á undanförnum árum. Þvert á móti bendir margt til þess að sú hætta sé fremur á undanhaldi. Þá hafa engin atvik orðið á undanförnum árum sem truflað hafa vatnsvinnslu eða haft neikvæð áhrif á vatnsgæði á svæðinu. Sjálfstæðismenn telja Veitur ekki hafa gætt meðalhófs í fyrirliggjandi tillögum og telja rétt að kannaðar verði mildari og markvissari leiðir við yfirstandandi deiliskipulagsvinnu, sem tryggja bæði vatnsvernd og áframhaldandi aðgengi íbúa höfuðborgarsvæðisins að Heiðmörk.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Vatnsvernd snýst um brýna almannahagsmuni og sú ábyrgð sem hvílir á borginni og Veitum að tryggja vatnsöryggi höfuðborgarsvæðisins er rík og ekki í boði að skorast þar undan. Jafnframt er Heiðmörk eitt mikilvægasta og fallegasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlegt að tryggja að það nýtist áfram sem slíkt. Því ber að halda til haga að um er að ræða tvö aðskilin mál. Annars vegar stækkun girðingarsvæðis utan um brunnsvæði Veitna að kröfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem Veitur telja sér ekki stætt að ganga gegn. Hins vegar áætlanir um að takmarka bílaumferð um svæðið í þeim tilgangi að tryggja betur vatnsöryggi Reykvíkinga. Þær áætlanir eru á frumstigi og er ríkt samráð við íbúa og aðra hagaðila á svæðinu mjög mikilvægt. Finna þarf leið til þess að ná saman um þau sjónarmið sem hér skarast á, en við viljum uppfylla bæði vatnsverndarsjónarmið en jafnframt tryggja gott aðgengi að útivist, t.d. með skynsamlegri staðsetningu bílastæða og lagningu stíga. Ferill girðingarvinnunnar er til umfjöllunar á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs þar sem mikilvægt er að fá fram skýr svör um hvort ástæða sé til að uppfæra vatnsverndarsamþykktina sem skilgreining vatnsbólanna byggir á. Þar sem málið er í skýrum farvegi er tillögunum vísað frá.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn telur afar mikilvægt að finna lausn þar sem vatnsvernd og útivist fara saman í Heiðmörk. Það er tímabært að að kjörnir fulltrúa leggi sína krafta á vogarskálarnar og leitað verði allra leiða til að ná góðu samstarfi milli Veitna, íbúa og alla hagaðila í Heiðmörk.
Fylgigögn
-
Umræðu um mat á úrræðum og aðgerðum borgarinnar vegna Úlfarsárdals er frestað. MSS25060012
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 15. og 22. maí 2025.
- Kl. 20:53 víkur Árelía Eydís Guðmundsdóttir af fundinum og Ásta Björg Björgvinsdóttir tekur sæti.
6. liður fundargerðarinnar frá 15. maí, Laugardalur – breyting á deiliskipulagi vegna skólaþorps við Reykjaveg, er samþykktur með 17 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
7. liður fundargerðarinnar frá 15. maí, Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Laugardalur, breytt landnotkun – skilgreining samfélagsþjónustu við Reykjaveg, er samþykktur með 17 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
12. liður fundargerðarinnar frá 15. maí, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025, vegna fjárfestingaáætlunar er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
15. liður fundargerðarinnar frá 15. maí, tilnefning í stjórn Þjóðarhallarinnar, er samþykktur.
17. liður fundargerðarinnar frá 15. maí, tilnefning í stjórn Minjaverndar, er samþykktur.
11. liður fundargerðarinnar frá 22. maí, Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Borgarlína 1. lota – Ártún – Fossvogsbrú, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
13. liður fundargerðarinnar frá 22. maí: Hlíðarendi – breyting á deiliskipulagi – reitur A – Arnarhlíð 3 er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010002Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí:
Laugardalur – breyting á deiliskipulagi vegna skólaþorps við Reykjaveg: Með þessari breytingu verður lóð sem áður var skilgreind fyrir tímabundið leikskólaúrræði í formi ævintýraborgar þess í stað gerð að lóð fyrir skólaþorp. Um er að ræða tímabundið grunnskólaúrræði sem nýtt yrði til þess að lágmarka rask fyrir nemendur og foreldra meðan unnið er að nauðsynlegum endurbótum á grunnskólahúsnæði hverfisins. Með þessu er verið að forgangsraða í þágu barna hverfisins og tryggja að húsnæði skóla í Laugardal sé komið í gott og heilsusamlegt horf, til að bæta innivist og vellíðan nemenda og kennara við skólana. Einn af öðrum munu nemendurnir fá inni í skólaþorpinu á meðan byggingarnar eru gerðar upp, en með þessari ráðstöfun munu nemendur ekki þurfa að fara í skóla utan hverfis, mögulega árum saman, meðan unnið er að úrbótum. Það er mikilvægt sjónarmið fyrir svona veigamikla og nauðsynlega framkvæmd sem ekki þolir frekari bið.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí:
Forgangsröðun meirihluta Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og VG vekur furðu. Framlög vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja KR og Fram eru lækkuð verulega. Lækkun til fjölnota íþróttahúss KR nemur 100 milljónum króna og lækkun vegna mannvirkja Fram í Úlfarsárdal 45 milljónum. Framlög til selalaugar Húsdýragarðsins eru hins vegar aukin um 60 milljónir. Fulltrúum Sjálfstæðisflokksins er ekki um sel. Áform um uppbyggingu fjölnota íþróttahúss fyrir KR hafa staðið yfir um árabil, fjárheimildir verið veittar árlega síðustu ár en ítrekað verið frestað vegna tafa. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítreka mikilvægi þess að uppbyggingin tefjist ekki og að borgin tryggi fjármagn og framgang verkefnisins. Áformað var að nýtt knatthús fyrir Fram í Úlfarsárdal yrði tekið í notkun árið 2020, samkvæmt framkvæmdaáætlun frá árinu 2017, sem unnin var í tengslum við samning Fram og Reykjavíkurborgar. Borgin hefur ekki enn staðið við samninginn þrátt fyrir ítrekaðar tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í nýjum samningi Fram og Reykjavíkurborgar frá 7. nóvember 2024, er kveðið á um að knatthúsið verði ekki tilbúið fyrr en 2029, sem mun fela í sér seinkun um næstum því áratug frá upprunalegri áætlun. Skert framlög til íþróttafélaga í borginni auka hættu á því að uppbygging íþróttamannvirkja tefjist enn frekar og skora fulltrúarnir því á meirihlutann að afturkalla skerðingarnar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Hér er rangt farið með að verið sé að skerða framlög til íþróttafélaga. Breytingarnar fela aðeins í sér tilfærslu á milli ára vegna breytinga á framkvæmdaáætlun þeirra og því eru fjármunirnir tryggðir til allra verkefna sem borgin hefur skuldbundið sig um gagnvart íþróttafélögunum. Þessi framsetning er beinlíns röng og villandi og ekki til þess fallandi að vekja traust íþróttafélaga til Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. maí, ásamt 11. og 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. maí:
Framsókn vekur athygli á því að á með þessum viðauka er verið að setja 60 milljónir í endurgerð selalaugar. Heildarkostnaðarmat nemur 160 milljónum samkvæmt eldra mati. Það liggur því fyrir að þessi fjárhæð dugir ekki fyrir framkvæmdinni. Í selalauginni eru tveir selir og því lítur út fyrir að heildarfjárfestingin nemi 80 milljónum á hvorn sel. Framsókn telur fjármunum borgarinnar betur varið í önnur verkefni. Framsókn styður uppbyggingu Fossvogsbrúar og fyrstu lotu borgarlínu. Framsókn situr hinsvegar hjá við afgreiðslu málsins vegna áhyggja af útfærslu á legu borgarlínu um Suðurlandsbraut. Framsókn situr hjá við afgreiðslu málsins í ljósi þess að fjöldi íbúða eykst umtalsvert frá fyrra skipulagi og íbúar hafa lýst áhyggjum af of mikilli uppbyggingu á svæðinu. Verkefnið er þó mikilvægt enda rennur ágóði þess til uppbyggingar fjölnota íþróttahúss Vals sem gagnast öllum íbúum á svæðinu.
Borgarfulltrúar Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. maí:
Fulltrúi Viðreisnar fagnar því að Perlan sé seld. Viðreisn leggur áherslu á að fleiri eignir séu seldar og má þar nefna eignir þar sem borgin er ekki að reka sína grunnþjónustu. Dæmi um eignir sem borgin er ekki að nýta fyrir sína grunnþjónustu eru Lindargata 51, Tjarnargata 20, Holtavegur 11, Hverfisgata 47 og Hafnarstræti 16. Allt eru þetta eignir í útleigu en eru ekki að vista grunnþjónustu borgarinnar. Mikilvæg starfsemi er í þessum eignum og nýir eigendur geti hæglega tekið við útleigu og eign fasteignanna. Það er skoðun Viðreisnar að Reykjavíkurborg eigi að vinna að því að minnka umfang fasteignasafns. Eignasafn borgarinnar er gríðarstórt sem kallar á umsjón, viðhald og stjórnun sem mikilvægt er að straumlínulaga.
Fylgigögn
- Fundargerð borgarráðs frá 15. maí 2025
- Fundargerð borgarráðs frá 22. maí 2025
- Laugardalur – breyting á deiliskipulagi vegna skólaþorps við Reykjaveg
- Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Laugardalur, breytt landnotkun – skilgreining samfélagsþjónustu við Reykjaveg
- Viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025, vegna fjárfestingaáætlunar
- Tilnefning í stjórn Þjóðarhallarinnar
- Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – Borgarlína 1. lota – Ártún – Fossvogsbrú
- Hlíðarendi – breyting á deiliskipulagi – reitur A – Arnarhlíð 3
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 30. maí, mannréttindaráðs frá 8. og 15. maí, menningar- og íþróttaráðs frá 23. maí, skóla- og frístundaráðs frá 12. og 26. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 14., 21. og 28. maí og velferðarráðs frá 21. maí.
6. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 30. maí, fundadagatal borgarstjórnar og forsætisnefndar ágúst 2025-júlí 2026, er samþykktur.
8. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 30. maí, aðalfundur Faxaflóahafna – tillögur, er samþykktur. MSS25010033Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 30. maí
- fundadagatal borgarstjórnar og forsætisnefndar ágúst 2025-júlí 2026
- aðalfundur Faxaflóahafna – tillögur
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 8. maí
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 15. maí
- Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 23. maí
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 12. maí
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 26. maí
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. maí
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. maí
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. maí
- Fundargerð velferðarráðs frá 21. maí
-
Samþykkt að taka á dagskrá erindi SORPU bs., dags. 28. apríl 2025, með beiðni um samþykki fyrir lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna uppbyggingar endurvinnslustöðvar að Lambhagavegi 14 ásamt lánssamningi nr. 2505_31, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 28. maí 2025, og öðrum fylgiskjölum.
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir á fundi sínum 3. júní 2025 að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns SORPU bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 345.000.000,- með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem borgarstjórn hefur kynnt sér. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki borgarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Er lánið tekið til framkvæmda og uppbyggingar á nýrri endurvinnslustöð á Lambhagavegi sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn skuldbindur hér með Reykjavíkurborg sem eiganda félagsins til að breyta ekki ákvæði samþykkta félagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut sinn í félaginu til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta. Jafnframt er Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Reykjavíkurborgar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns. MSS24120038
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Samþykkt að taka á dagskrá erindi SORPU bs., dags. 28. apríl 2025, með beiðni um samþykki fyrir lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. vegna endurfjármögnunar láns hjá Íslandsbanka ásamt lánssamningi nr. 2505_27, umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs dags. 28. maí 2025, og öðrum fylgiskjölum.
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir á borgarstjórnarfundi 3. júní 2025 að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns SORPU bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 639.000.000,- með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki borgarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Er lánið tekið til að endurfjármagna forvinnslulínu fyrir blandað sorp frá heimilum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Borgarstjórn skuldbindur hér með Reykjavíkurborg sem eiganda félagsins til að breyta ekki ákvæði samþykkta félagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila. Fari svo að Reykjavíkurborg selji eignarhlut sinn í félaginu til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta. Jafnframt er Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Reykjavíkurborgar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns. MSS25020006
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Samþykkt að taka kosningu í mannréttindaráð á dagskrá.
Lagt er til að Einar Sveinbjörn Guðmundsson taki sem varamaður sæti í mannréttindaráði í stað Lífar Magneudóttur.
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 21:05
Guðný Maja Riba Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Alexandra Briem
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 3.6.2025 - prentvæn útgáfa