Borgarstjórn - Borgarstjórn 24.06.2025

Borgarstjórn

Ár 2025, þriðjudaginn 24. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:01. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Birna Hafstein, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Þorkell Sigurlaugsson.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki eftirfarandi aðgerðir í tilraunaskyni til að efla íbúalýðræði og samráð við íbúa um málefni borgarinnar. Haldnir verði samráðsfundir og vinnustofur með hagaðilum í hverfum, þar sem ræddar verði áskoranir, tækifæri og aðkallandi verkefni hverfa. Niðurstöður fundanna verði unnar og lagðar fram fyrir viðkomandi fagráð og notaðar í vinnu við hverfisskipulag eða lausnamót. Settar verði á legg stærri vinnustofur í hverjum borgarhluta og íbúum boðið til stærra samtals með borgarstjórn og starfsfólki. Hverfið mitt verði útfært sem mót þar sem fólk kemur saman til að finna lausnir til að bæta hverfin og stuðla að samsköpun og samvinnu íbúa á milli sem og við sérfræðinga borgarinnar. Fjármagnið stuðli að framkvæmd þeirra verkefna sem þróast í gegnum lausnamótið. Borgaraþing verði þróað áfram með stærra úrtaki af slembivöldum fulltrúum sem dragi innblástur af reglum OECD um borgaraþing og áherslu á aðgengi borgara frá fjölbreyttum tungumála- og menningarheimum. Viðmót og ferlar ábendingagáttar og tengingar við Mínar síður verði þróaðar áfram og farið í endurbætur á kortasjám borgarinnar. Markmiðið er tímanleg, gagnsæ og viðeigandi upplýsingagjöf til íbúa. Verkefnið Borgarbúar óskast verður útvíkkað með því að kalla eftir hverfisleiðtogum, þ.e. áhugasömum íbúum sem gegna hlutverki tengiliða síns hverfis og safna saman sjónarmiðum íbúa, og málefnaleiðtogum, sem eru íbúar með þekkingu og áhuga á tilteknum málaflokkum og taka þátt í samráði tengt þeim.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS25060111

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir vilja efla íbúalýðræði í Reykjavík og þróa nýjar leiðir til að vera í samráði við Reykvíkinga og auka aðkomu þeirra að ákvörðunum sem varða þá og umhverfi þeirra. Um leið vilja samstarfsflokkarnir efla upplýsingagjöf til muna og nýta fjármagn sem best í þágu íbúalýðræðis. Vilji stendur til að nýta þann lærdóm sem dreginn hefur verið af þróun lýðræðisverkefna síðastliðinna ára og halda áfram að þróa lýðræðislegar leiðir innan borgarinnar. Það þarf að fara vel með tíma íbúa og stuðla að því að samráðið nýtist til sýnilegra breytinga. Þá er mikilvægt að niðurstöður funda og ákvarðanataka í kjölfar þeirra sé lýsandi fyrir þá vinnu og það samtal sem hefur átt sér stað með þessum lýðræðislegu leiðum og að íbúar séu upplýstir um málalyktir. Er tillögunni vísað til stafræns ráðs sem verði falin útfærsla á þessum verkefnum.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði gegn tillögu Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um aðgerðir til að efla íbúalýðræði í ljósi þess að um óljóst og ókostnaðarmetið verkefni er að ræða. Einungis örfáar vikur eru frá því að ákveðið var að leggja niður íbúaráð borgarinnar í sparnaðarskyni. Fyrirliggjandi tillögu er ætlað að vera mótsvar við þeirri aðgerð, en þó er að fullu óljóst hvort breytingin feli að endingu í sér nokkurn sparnað. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks draga í efa að fyrirliggjandi tillaga feli í sér úrbætur á íbúalýðræðismálum borgarinnar.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður tillöguna og fagnar áherslu á aukið íbúalýðræði og nýjar leiðir til samráðs. Nauðsynlegt er þó að tryggja að þessi samtöl séu ekki aðeins til málamynda, heldur leiði til raunverulegra áhrifa íbúa á ákvarðanir. Ein af fyrstu tillögum núverandi meirihluta borgarinnar sneri að því að leggja niður öll íbúaráð borgarinnar án þess að hafa plan um hvernig íbúalýðræði skyldi háttað í kjölfarið og án alls samráðs. Þau vinnubrögð voru ekki mjög lýðræðisleg. Á tímum þegar traust á stjórnmálum víða hefur beðið hnekki, er það einmitt gegnsæi, áhrif og aðkallandi aðkoma almennings sem getur endurbyggt tengslin milli íbúa og borgarinnar. Mikilvægt er að virkja fjölbreyttan hóp borgarbúa og tryggja að þátttaka sé aðgengileg og markviss. Framsókn leggur áherslu á eftirfylgni, mælanleg áhrif og trausta innleiðingu verkefna sem þessara.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikilvægt að fá aukna innsýn í skoðanir íbúa á þróun þeirra verkefna sem nú eru í vinnslu en hætt er við að einsleitur hópur sæki lýðræðisviðburði sem þessa og því er mikil hætta á því að sjónarhorn og skoðanir verði einsleitar og endurspegli ekki fjölbreytta flóru borgarbúa. Viðreisn hefur áhyggjur af þeim leiðum sem samstarfsflokkarnir ætla að fara til að nálgast þetta verkefni. Þá má ekki gleyma þeim hópum sem ekki hafa íslensku sem fyrsta mál, til dæmis í fjölmennasta hverfi borgarinnar Breiðholti. Með hvaða móti telja samstarfsflokkarnir best að nálgast þá hópa? Í verkefnum sem þessum verður væntur ávinningur að vera skýr, og kostnaðargreining að liggja fyrir, mun það koma til samþykktar á síðari stigum? Ekki má sjá svör við þessum spurningum í máli samstarfsflokkanna. Ætla má að þetta sé verulega kostnaðarsamt verkefni og því mikilvægt að meta kostnað á móti væntum ávinningi. Lýðræði og virk hlustun eru lykilþáttur í virku samfélagi en það er líka hagrænn rekstur og leggjum við því til að málið sé betur útfært áður en það fer til afgreiðslu.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn skorar á umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að gera viðeigandi breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og eftir atvikum öðru regluverki sem snýr að heilbrigðiseftirliti, svo sveitarfélögum gefist kostur að bjóða út lögbundið heilbrigðiseftirlit.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Tillagan er felld með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25060112

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Að undanförnu hefur töluvert verið fjallað um samskipti veitingamanna við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Þær frásagnir gefa til kynna að veitingamenn séu óánægðir með þau samskipti, meðal annars séu leiðbeiningar veittar treglega, svartími fyrirspurna óreglulegur og þjónustulund heilbrigðiseftirlitsins sé ófullnægjandi. Matskenndum heimildum heilbrigðiseftirlitsins er beitt með óeðlilegum hætti og biðtími eftir leyfum sé of langur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að ráðast í úrbætur á starfsemi heilbrigðiseftirlits og telja útvistun geta haft margvíslega kosti í för með sér. Reynslan af útvistun í öðrum geirum, svo sem við ökutækjaeftirlit, hefur sýnt hvernig samkeppni á eftirlitsmarkaði hefur bætt bæði þjónustu og skilvirkni. Samhliða hefur hið opinbera enn fulla stjórn á kröfum til eftirlitsskyldra aðila gegnum löggjöf og regluverk. Telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks útvistun heilbrigðiseftirlits geta haft sömu jákvæðu áhrif fyrir eftirlitsskylda aðila í Reykjavík.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gegnir lykilhlutverki í því að tryggja heilnæmt og öruggt umhverfi í borginni með því að framfylgja lögum um hollustuhætti-, matvæla- og mengunarvarnaeftirlit. Eftirlitið stuðlar jafnframt að öflugri umhverfisvöktun og veitir fræðslu til almennings í Reykjavík. Meðal verkefna þess er útgáfa starfsleyfa fyrir starfsleyfisskylda starfsemi og staðfestir það skráningarskylda starfsemi. Útvistun þessara verkefna felur í sér að einkaaðilar fái aðgang að mikilvægum þáttum í matvæla- og umhverfiseftirliti. Meginmarkmið einkafyrirtækja er að hámarka fjárhagslegan hagnað sem rímar illa við þá almannahagsmuni sem heilbrigðiseftirlitsaðilum ber að gæta. Slík breyting gæti einnig leitt til þess að kostnaðarsamar en samfélagslega mikilvægar aðgerðir væru áfram hjá sveitarfélaginu á meðan að einkaaðilar nytu ágóða af tekjum eftirlitsgjalda og annarra þjónustugjalda. Mikilvægt er að þekking og fagleg geta á sviði Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé til staðar innan sveitarfélagsins.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn heyrir skýrt ákall veitingamanna og ýmissa fyrirtækja í Reykjavík um skilvirkari þjónustu heilbrigðiseftirlitsins. Framsókn telur brýnt að einfalda og skerpa á stjórnsýslu borgarinnar gagnvart atvinnulífinu. Framsókn telur á sama tíma afar mikilvægt að vanda til verka þegar kemur að framtíðarskipulagi heilbrigðiseftirlits borgarinnar. Starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hefur mikil áhrif á heilsu og öryggi borgarbúa og krefst fagmennsku, trausts og skýrrar ábyrgðar. Því er mikilvægt að skoða allar breytingar með varfærni og byggja á vönduðum greiningum. Rétt er að mati Framsóknar að kanna hvort tiltekin verkefni, sérstaklega þar sem heilsufarsleg áhætta er lítil, geti í ákveðnum tilvikum verið unnin með öðrum hætti og jafnvel útvistað. Mikilvægt er þó að tryggja gæðastýringu og jafnræði. Þá er rétt að skoða hvort aukið samstarf eða samræming milli heilbrigðiseftirlitssvæða á höfuðborgarsvæðinu geti stutt við faglegt starf, bætt þjónustu og aukið skilvirkni í þágu borgarbúa.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Útvistun verkliða getur oft komið vel út í rekstri stórra eininga. En þegar litið er til heilbrigðiseftirlitsins er varhugavert að fara með eftirlits- og öryggisgæslu heilbrigðis í garð íbúa, gesta og lífríkisins á samkeppnismarkað. Hér er um að ræða gífurstóran öryggisventil sem nauðsynlegt er að sé skýr og farið eftir þeim lögum og reglum sem fyrirliggja. En þeim verður ekki breytt sama hver hefur umsjón með málinu og því engin lausn að færa verklagið annað, kröfurnar eru þær sömu. Gott væri að horfa til þeirra leiða sem núverandi ríkisstjórn starfar að, en þar er samráðshópur að störfum sem vinnur að bættu verklagi. Einnig mætti líta til sameiningu heilbrigðiseftirlita sem í dag eru starfandi í mörgum minni einingum. Þannig mætti ná hagræðingu og besta ferla í þágu þessara stóru öryggismála. Þegar litið er til mikilvægi heilbrigðiseftirlits í rekstri eru margir þættir sem ber að líta til og almennt hagur rekstaraðila að á rekstarstað sé öryggi heilsu tryggt eftir fremsta megni. Vera má að hægt sé að gera verklag einfaldara og þau skilyrði sem ber að uppfylla sýnilegri hverjum þeim sem þeirra leitar. Bætum aðgengi upplýsinga og tryggjum gott verklag í þágu allra. Eftirlit heilbrigðismála er ekki léttvægt mál og erum við mótfallin þessari ráðagerð.
     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela fjármála- og áhættustýringarsviði að undirbúa tillögu að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar þar sem álagningarhlutfall fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði lækki þannig að hækkun fasteignamats hafi ekki áhrif til hækkunar gagnvart íbúum og fyrirtækjum og tekjur borgarsjóðs af fasteignagjöldum hækki ekki á milli áranna 2025 og 2026. Álagningarhlutfall fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði verði lækkað úr 0.18% í 0,163% og álagningarhlutfall fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,6% í 1,536%. Lóðarleiga íbúðarhúsnæðis lækki úr 0,2% í 0,18%. Lóðarleiga atvinnuhúsnæðis lækki úr 1% í 0,968% Tillagan felur í sér að áætluð lækkun fasteignagjalda á næsta ári nemi rúmum 1,8 milljarði króna og skiptist þannig að tekjur vegna íbúðarhúsnæðis lækka um 857 milljónir, tekjur vegna atvinnuhúsnæðis lækka um 790 milljónir og 171 milljón vegna lækkunar lóðarleigu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 16:20 víkur Skúli Helgason af fundi og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson tekur sæti.

    Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25060113

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn gagnrýnir harðlega afgreiðslu meirihlutans á tillögu Framsóknar um lækkun fasteignagjalda. Fasteignagjöld hafa hækkað um tugi prósenta á kjörtímabilinu og nú þegar borgarsjóður er rekinn með afgangi og útlit fyrir góðan rekstrarafgang er eðlilegt að létta álögum af heimilum og fyrirtækjum í borginni. Í tæplega 200 milljarða fjárhagsáætlun hefði vel verið hægt að finna svigrúm til þess að skila til baka auknum álögum til heimilanna og fyrirtækjanna í borginni. Ótrúlegt er að fylgjast með afsökunum meirihlutans í málinu sem telur að allir fasteignaeigendur séu breiðu bökin sem eigi að fjármagna gæluverkefni meirihlutans. Þá ber höfnun meirihlutans skýrt með sér að hann treystir sér ekki til þess að halda áfram skýrum aðhaldsaðgerðum í rekstri borgarinnar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir í borgarstjórn minna á að fasteignaskattar eru næstlægstir í Reykjavík af öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt er minnt á að ekki stendur til að hækka álagningarhlutföll fasteignagjalda sem hafa verið óbreytt um árabil. Þegar kemur að umræðu um gjöld Reykjavíkurborgar er mikilvægt að líta til heildarmyndarinnar. Leikskólagjöld í Reykjavík eru þau lægstu á öllu höfuðborgarsvæðinu. Um 80% félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru í Reykjavík þótt fjöldi borgarbúa sé einungis um 56% af íbúum þess svæðis. Tillaga Framsóknarflokks um breytingu á álagningu fasteignagjalda til lækkunar um 2 milljarða kr. á ári er að okkar mati bæði óábyrg og ótímabær. Sé sú fjárhæð sett í samhengi þá er hún nærri þeirri upphæð sem Reykjavík setur nú í notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk. Þessi fjárhæð er um einn þriðji af því sem frístundastarf borgarinnar kostar. Þetta er hærri upphæð en það sem öll bókasöfn borgarinnar kosta. Nú er ekki rétti tíminn til að skerða þjónustu með lækkun fasteignaskatta. Nú er hins vegar tíminn til að mæta enn frekar framkvæmda- og þjónustuþörfum borgarbúa.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er eitt af markmiðum Viðreisnar að Reykjavíkurborg verði áfram hagstæð borg fyrir fjölskyldufólk til að búa í með hliðsjón af gjaldskrá og fasteignagjöldum. Viðreisn hefurt ávallt talað fyrir óbreyttu útsvari í Reykjavík. Lækkun álagningar á íbúðarhúsnæði fylgir því leiðarljósi. Þá settum við okkur það markmið í síðustu kosningum að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils. Lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði skiptir sköpum til að tryggja samkeppnishæfni borgarinnar og skapa hvata fyrir rekstri í Reykjavík. Undanfarin sjö ár í meirihluta í Reykjavík hefur Viðreisn haft þetta að leiðarljósi í hvívetna og fögnum við því að ýtt sé við meirihlutanum að stíga þessi skref áfram.
     

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026, þannig að tekjur borgarsjóðs af álögðum fasteignagjöldum hækki ekki milli áranna 2025 og 2026. Með lækkuninni verði brugðist við hækkun fasteignamats sem kynnt var á dögunum en fasteignamat hefur tekið gríðarlegum hækkunum á kjörtímabilinu. Fjármála- og áhættustýringasviði verði falið að gera tillögur að nýjum álagningarhlutföllum til samræmis við ofanritað.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25060114

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að meirihlutinn hafi fellt tillögu Sjálfstæðisflokks um lækkun fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði í Reykjavík. Frá upphafi þessa kjörtímabils hefur heildarmat fasteigna hérlendis hækkað úr 10.340 milljörðum í 16.700 milljarða, eða sem nemur um tæpum 62%. Hækkanir á fasteignamati hafa undanliðin ár óhjákvæmilega leitt til skattahækkana á heimilin og fyrirtækin í borginni. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað á yfirstandandi kjörtímabili lagt til lækkanir á álagningarhlutfalli svo bregðast megi við hækkun fasteignamats, án árangurs. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningum Reykjavíkurborgar fyrir árin 2022, 2023 og 2024 ásamt fjárhagsáætlun ársins 2025 má ljóst vera að tekjur Reykjavíkurborgar af álögðum fasteignasköttum hafa aukist töluvert á kjörtímabilinu, eða sem nemur samanlagt tæpum 16,2 milljörðum króna. Það er sú aukna fjárhæð sem sótt hefur verið til fasteignaeigenda í formi aukinnar skattheimtu svo bregðast megi við bágum rekstri borgarinnar. Er það eftir sem áður afstaða sjálfstæðismanna í borgarstjórn að óráðsíu í opinberum rekstri skuli ekki undir nokkrum kringumstæðum leiðrétta með aukinni skattheimtu, heldur þvert á móti með því að draga saman seglin í opinberum rekstri og ráðast í hagræðingar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir í borgarstjórn minna á að fasteignaskattar eru næstlægstir í Reykjavík af öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt er minnt á að ekki stendur til að hækka álagningarhlutföll fasteignagjalda sem hafa verið óbreytt um árabil. Þegar kemur að umræðu um gjöld Reykjavíkurborgar er mikilvægt að líta til heildarmyndarinnar. Leikskólagjöld í Reykjavík eru þau lægstu á öllu höfuðborgarsvæðinu. Um 80% félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru í Reykjavík þótt fjöldi borgarbúa sé einungis um 56% af íbúum þess svæðis. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um breytingu á álagningu fasteignagjalda til lækkunar um 2 milljarða kr. á ári er að okkar mati bæði óábyrg og ótímabær. Sé sú fjárhæð sett í samhengi þá er hún nærri þeirri upphæð sem Reykjavík setur nú í notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk. Þessi fjárhæð er um einn þriðji af því sem frístundastarf borgarinnar kostar. Þetta er hærri upphæð en það sem öll bókasöfn borgarinnar kosta. Nú er ekki rétti tíminn til að skerða þjónustu með lækkun fasteignaskatta. Nú er hins vegar tíminn til að mæta enn frekar framkvæmda- og þjónustuþörfum borgarbúa.
     

    Fylgigögn

  5. Umræðu um mat á úrræðum og aðgerðum borgarinnar vegna Úlfarsárdals er frestað. MSS25060012

    Fylgigögn

  6. Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar að fresta umræðu um stöðu löggæslumála. MSS25060010
     

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sitt um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings í Stjörnugróf í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar að Stjörnugróf 18 en lóðarleigusamningur vegna hennar rann út í árslok 2016. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag, sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Bústaðahverfi, Fossvogi, Háaleiti og Smáíbúðahverfi.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar að fresta tillögunni. MSS25060009

    Fylgigögn

  8. Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar að fresta umræðu um deiliskipulag Birkimels 1. MSS25060118

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að starfshópur verði skipaður sem hafi það hlutverk að leggja til breytingar á reglum, verkferlum og öðrum þáttum í því skyni að tryggja skilvirka lagaframkvæmd við fjarlægingu ökutækja og lausamuna sem hafa án heimildar verið um langa hríð í borgarlandinu. Starfshópurinn skal einnig móta stefnu um stæði fyrir stóra bíla og með hvaða hætti sé hægt að tryggja nægilegt framboð af slíkum stæðum í hverfum borgarinnar. Skrifstofa borgarstjórnar í samráði við viðeigandi fagaðila borgarkerfisins skal skipa starfshópinn. Starfshópurinn tekur til starfa eigi síðar en 15. ágúst 2025 og skal ljúka störfum fyrir árslok 2025.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar að fresta tillögunni. MSS25060119

    Fylgigögn

  10. Fram fer kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og fjögurra varaforseta.

    Forseti er kosin Sanna Magdalena Mörtudóttir með 13 atkvæðum. Aðalsteinn Haukur Sverrisson hlýtur tvö atkvæði. Átta atkvæðaseðlar eru auðir.

    Varaforsetar voru kosnir án atkvæðagreiðslu:
    1. varaforseti er kosin Guðný Maja Riba
    2. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir
    3. varaforseti er kosinn Magnús Davíð Norðdahl.
    4. varaforseti er kosin Magnea Gná Jóhannsdóttir. MSS22060040

  11. Lagt er til að Helga Þórðardóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir verði kosnar skrifarar til eins árs. Lagt er til að Alexanda Briem og Björn Gíslason verði kosin varaskrifarar.
    Samþykkt. MSS22060040

  12. Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara auk formannskjörs.

    Kosin eru af SPJV-lista án atkvæðagreiðslu:

    Líf Magneudóttir
    Skúli Þór Helgason
    Sanna Magdalena Mörtudóttir
    Dóra Björt Guðjónsdóttir

    Kosnar eru af D-lista án atkvæðagreiðslu:

    Hildur Björnsdóttir
    Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

    Kosinn er af B-lista án atkvæðagreiðslu:

    Einar Þorsteinsson

    Formaður er kjörin án atkvæðagreiðslu Líf Magneudóttir.

    Varafulltrúar eru kosnir með sama hætti.

    Kosin eru af SPJV-lista án atkvæðagreiðslu:

    Stefán Pálsson
    Sabine Leskopf
    Andrea Helgadóttir
    Alexandra Briem

    Kosin er af D-lista án atkvæðagreiðslu:

    Kjartan Magnússon
    Marta Guðjónsdóttir

    Kosin er af B-lista án atkvæðagreiðslu:

    Árelía Eydís Guðmundsdóttir MSS22060043

  13. Lagt er til að Björn Gíslason taki sæti í menningar- og íþróttaráði í stað Kjartans Magnússonar.
    Samþykkt með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Pírata.
    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060045

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggur skýrt álit borgarlögmanns og skrifstofustjóra borgarstjórnar að Björn Gíslason, borgarfulltrúi og formaður aðalstjórnar íþróttafélagsins Fylkis, sé almennt vanhæfur til setu í menningar- og íþróttaráði. Að borgarfulltrúinn sé ekki aðeins vanhæfur til þess að taka ákvarðanir í einstökum málum sem kynnu að koma fyrir menningar- og íþróttaráð, heldur sé hann almennt vanhæfur til að sinna eftirlitsskyldu ráðsins. Það er því mat samstarfsflokkanna í borgarstjórn að til að stuðla að vandaðri ákvörðunartöku, trúverðugleika, jafnræði og hlutlægri stjórnsýslu sé það óverjandi að staðfesta kjör formanns aðalstjórnar íþróttafélags Fylkis í menningar- og íþróttaráð borgarinnar þegar fyrir liggur jafn skýrt álit um vanhæfni.

    Fylgigögn

  14. Lagt er til að Kjartan Magnússon taki sæti í mannréttindaráði í stað Björns Gíslasonar.
    Samþykkt. MSS25020083

  15. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 5. júní. MSS25010002
    4. liður fundargerðarinnar; stafræn húsnæðisáætlun Reykjavíkur 2025-2034 er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24080037
    9. liður fundargerðarinnar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er samþykktur með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010024
    18. liður fundargerðarinnar; breytingar á reglum um leikskólaþjónustu er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. SFS25010095

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júní:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma að dregið verði úr sveigjanlegum opnunartíma leikskóla fyrir fjölskyldur í Reykjavík. Fulltrúarnir minna á ákvörðun meirihlutans að skerða opnunartíma leikskóla á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir að niðurstöður jafnréttismats mæltu gegn slíkri breytingu. Í ljós kom að áhyggjur sjálfstæðismanna reyndust á rökum reistar, en skertur opnunartími var talinn koma verst niður á vinnandi mæðrum, fólki í láglaunastörfum, fólki af erlendum uppruna og fólki með lítið bakland. Telja fulltrúarnir mikilvægt að leikskóla- og daggæslukerfið mæti fjölbreyttum þörfum og tryggi fjölskyldum sveigjanleika. Það er ekki síst eitt mikilvægasta jafnréttismálið sem sveitarstjórnarstigið fæst við.

    Fylgigögn

  16. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 20. júní, mannréttindaráðs frá 5. og 12. júní, menningar- og íþróttaráðs frá 13. júní, skóla- og frístundaráðs frá 18. júní, stafræns ráðs frá 14. og 28. maí og 13. júní, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4., 11. og 18. júní og velferðarráðs frá 4., 11. og 18. júní. MSS25010033
    6. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 20. júní; lausnarbeiðni Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur er samþykktur. MSS22120116
    7. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 20. júní; tillaga að sumarleyfi borgarstjórnar 2025 er samþykktur. MSS23010287
    8. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 20. júní; lántaka SORPU bs. vegna endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg. MSS24120038
    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir á borgarstjórnarfundi 24. júní 2025 að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur Reykjavíkurborgar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns SORPU bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 1.345.000.000-, með lokagjalddaga þann 20. febrúar 2039, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórn hefur kynnt sér. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki bæjarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Lánið er tekið til að fjármagna uppbyggingu endurvinnslustöðvar að Lambhagavegi sem telst vera verkefni sem hafi almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Þá skuldbindur sveitarfélagið sig til þess, sem eigandi hlutar í félaginu, að breyta ekki því ákvæði samþykkta félagsins sem kveður á um að félagið megi ekki að neinu leyti vera í eigu einkaaðila. Fari svo að sveitarfélag selji eignarhlut í félaginu til annarra opinberra aðila, skuldbindur sveitarfélagið sig til að sjá til þess að nýr eigandi yfirtaki jafnframt ábyrgð á láninu í samræmi við stærð eignarhlutans. Jafnframt er Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Reykjavíkurborgar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:30

Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir

Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 24. júní 2025 - Prentvæn útgáfa