Borgarstjórn - Borgarstjórn 23.4.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 23. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon Kristinn Jón Ólafsson, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Sandra Hlíf Ocares og Skúli Helgason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer umræða um stöðu löggæslumála í Reykjavík.

  -    Kl. 13:47 víkur Björn Gíslason af fundi og Birna Hafstein tekur sæti.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks Fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við styðjum heilshugar hugmyndafræði samfélagslöggæslu sem leggur áherslu á að lögreglumenn byggi upp jákvæð tengsl við samfélög sem þeir þjóna. Markmið samfélagslöggæslu er að vinna með borgurum og draga þannig úr glæpatíðni. Með samfélagslöggæslu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir eins og samstarf, sameiginlega lausn vandamála og samfélagsþátttöku öfugt við hefðbundnar viðbragðsaðgerðir lögreglu. Samfélagslögregla vinnur með Barnavernd, félagsþjónustu og menntastofnunum og teygja sig til barna og fólks sem finnst það útilokað frá samfélaginu. Þegar er afar góð reynsla af samfélagslöggæslu í borginni. Samfélagsmiðuð löggæsla eflir einnig umburðarlyndi og víðsýni innan lögreglunnar og styður með því við traust jaðarsettra hópa á lögreglunni. Borgarstjórnarflokkar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokk Fólksins hvetja Alþingi og ríkisstjórn til þess að auka við fjármagn svo fjölga megi samfélagslögreglumönnum sem auka bæði aðgengi að lögreglu og öryggistilfinningu fólks en full þörf er á. Hlutfall lögreglumanna á hverja þúsund íbúa er lægst í Reykjavík og hefur fækkað síðustu ár þó langflest tilkynnt ofbeldisbrot séu framin í höfuðborginni. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

  Vandi og viðfangsefni lögreglunnar í dag er af fjölbreyttum toga. Í hröðum samfélagsbreytingum hefur starfsumhverfi lögreglunnar tekið miklum breytingum á stuttum tíma; aukin harka í undirheimum, aukning ofbeldisbrota og vopnaburðar, netglæpir, mansal og skipulögð brotastarfsemi eru dæmi um viðfangsefni sem leggjast þungt á herðar lögreglunnar og við reiðum okkur á að hún leysi. Svo það megi verða þarf Alþingi að tryggja nægilegt fjármagn til almennrar löggæslu enda leiða vanfjármagnaðar stofnanir af sér undirmönnun, fækkun í stéttinni, veikindi og kulnun sem að lokum bitnar á öryggi landsmanna. Eins þarf að leggja áherslu á að fá menntaða lögregluþjóna til starfa og treysta þannig og efla undirstöður lögreglunámsins með auknu fjármagni til kennslu og rannsókna og inntöku nemenda með fjölbreytta reynslu, menntun og bakgrunn. Þá má nefna að verkefni þar sem unnið er með hugmyndafræði samfélagslöggæslu er til fyrirmyndar og mikilvægt er Reykjavíkurborg styðji vel við þá vinnu. Til að borgarstjórn hafi raunveruleg áhrif á gang mála ætti borgarstjóra og formanni borgarráðs að vera í lófa lagið að biðja um fund með allsherjar- og menntamálanefnd og benda á ofangreinda þætti sem vert er að leggja áherslu á svo tryggja megi öryggi og þjónustu við Reykvíkinga og íbúa höfuðborgarsvæðisins.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Frásagnir utan lögreglunnar og innan hennar sýna að margt þarf að bæta. Ómenning hefur viðgengist þar sem hefur ekki aðeins valdið almennum borgurum miska heldur einnig lögreglumönnum. Slíkt ástand getur eingöngu versnað með álagi vegna undirmönnunar, þar sem áherslurnar og aðferðirnar sem beitt er verða æ harðneskjulegri. Vandamálin verða ekki leyst með auknum fjárheimildum einum og sér eða auknum heimildum til þess að ganga á réttindi borgaranna. Það verður heldur ekki með fjölgun lögreglumanna, þótt óeðlilega fáir lögreglumenn séu við störf á höfuðborgarsvæðinu, enda erfiðara að bæta úr slæmri vinnustaðarmenningu og vinnubrögðum eftir að slíkt hefur skotið rótum. Sérstaklega ef jákvæðar samfélagslegar framfarir verða ekki á sama tíma, því í samfélagi vaxandi ójöfnuðar vex glæpatíðnin sömuleiðis. Það væri þó jákvætt skref fram á við að lögreglan starfaði á forsendum samfélagslöggæslu, í samvinnu með fólki og með nærsamfélaginu fremur en gegn einhverjum meintum ógnvöldum innan þess. Vonandi yrði það til þess að hvetja til jákvæðrar þróunar í kerfinu og með því yrði menningin bætt í tímans rás.Sósíalistar taka því undir að fjölgun lögreglumanna á forsendum samfélagslögreglu sé af hinu góða, en að það sé þó aðeins ein af mörgum aðgerðum sem ráðast þurfi í á sviði löggæslu á Íslandi.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokki fólksins finnst hugmyndafræðin um samfélagslöggæslu sem leggur áherslu á að lögreglumenn byggi upp jákvæð tengsl við samfélög sem þeir þjóna mjög góð. Enda þótt Reykjavíkurborg hafi ekki vald í löggæslumálum getur meirihlutinn beitt sér með margs konar hætti til að gera borgina öruggari. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um mikilvægi þess að setja upp öryggismyndavélar t.d. við leiksvæði barna og þar sem börn koma saman til náms og leikja. Borgarfulltrúa Flokks fólksins er umhugað um börnin í borginni. Öryggismyndavélar eru í raun það eina sem bæði hefur fælingarmátt og hjálpar til við að upplýsa mál. íbúaráðin mörg hver eru sama sinnis. Hins vegar strandar á stefnumörkun til framtíðar um eftirlitsmyndavélar í borginni. Borgarráð samþykkti tillögu borgarstjóra á fundi sínum 19. október 2023 um að fela þjónustu- og nýsköpunarsviði ábyrgð á utanumhaldi og eftirliti með rafrænni vöktun öryggismyndavéla sem settar eru upp á vegum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að þetta eigi eftir að taka mörg misseri jafnvel ár eins og mörg önnur stafræn verkefni í borginni. Hvorki er til stefna né heildstæðar verklagsreglur innan Reykjavíkurborgar um hvernig standa skuli að ákvörðun um uppsetningu og rekstur öryggismyndavéla eins og segir í svari borgarritara um málið.

  Fylgigögn

 2. Fram fer umræða um leikskóla- og daggæslumál í Reykjavík. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Frá árinu 2014 hefur leikskóla- og daggæsluplássum fækkað um 940 í Reykjavík. Samhliða hefur börnum á leikskólaaldri í Reykjavík fækkað um 10% en fjölgað í nágrannasveitarfélögum. Fjölskyldufólk kýs með fótunum og velur fremur búsetu í nágrannasveitarfélögum þar sem leikskóla- og húsnæðismál reynast hagstæðari. Þann 4. apríl sl. voru 1327 börn 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Við biðlistann bætast svo 267 börn á sjálfstætt starfandi leikskólum sem óska flutnings á borgarrekna leikskóla. Samtals bíða því tæp 1.600 börn eftir leikskólavist á borgarreknum leikskólum. Biðlistinn eykst jafnframt í hverjum mánuði sem nemur ríflega 100 börnum, eftir því sem fleiri börn ná 12 mánaða aldri. Við þetta bætast svo 363 vannýtt pláss vegna viðhaldsvanda og 140 vannýtt pláss vegna manneklu. Samkvæmt útreikningum Viðskiptaráðs verður fjölskylda á meðallaunum fyrir töluverðum tekjumissi vegna biðlistavandans ef gert er ráð fyrir því að annað foreldrið sé frá vinnu meðan beðið er leikskólavistar. Fyrir 10 mánaða bið eftir leikskólavist (sem er meðal biðtími að loknu fæðingarorlofi) nemur tekjutapið ríflega 6,5 milljónum króna, sem eru gríðarlegir fjármunir fyrir ungt fjölskyldufólk. Leikskólavandinn er stærsta jafnréttismálið sem sveitarstjórnarstigið fæst við. Mikilvægt er að leysa þennan vanda og duga þar engin vettlingatök.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihlutinn hefur lagt áherslu á að bæta gæði og faglegan umbúnað leikskóla í Reykjavík. Búið er að endurskoða verklag varðandi inntöku barna og innritun. Nú er innritað í öll laus pláss sem eru til staðar og lagt er upp með að öll börn, sem fá boð um vistun í vor, fái dagsetningu fyrir aðlögun í síðasta lagi í nóvember. Mikið hefur verið lagt í að bæta mönnun ásamt áframhaldi á tilraunaverkefninu Fyrr í frístund. Meirihlutinn er í miðju viðhaldsátaki í leikskólahúsnæði en einhverjum þeirra verkefna lýkur á næsta ári. Í borginni er sterk og skýr pólitísk forysta fyrir því að halda áfram að betrumbæta starfsumhverfi og aðstæður leikskóla og fjölskyldna. Ef horft er á þróunina undanfarin 15 ár hefur börnum í leikskólum borgarinnar fjölgað um 8,5%. Bætt hefur verið við 1100 nýjum leikskólaplássum frá 2018 og fjölgar þeim um annað eins á næstu misserum. Tafið hefur fyrir innritun yngri barna að metfjöldi eldri leikskóla hefur þurft að loka plássum vegna viðhaldsframkvæmda. Það horfir nú til betri vegar strax á næsta ári þegar meirihluti þessara plássa opna á ný til viðbótar um 500 nýjum leikskólaplássum. Síðast en ekki síst er unnið að stefnumótun um fjölbreyttar lausnir til að mæta þörfum 0-6 ára barna.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ástandið í leik- og daggæslumálum borgarinnar er óásættanlegt. Enginn mótmælir því, ekki einu sinni meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Foreldrar hafa liðið lengi fyrir óvissuna og fulltrúar leikskólastjóra hafa komið með alvarlegar athugasemdir um stöðuna. Nánast allir borgarreknir leikskólar voru í halla, frá janúar-september 2023 og er hallareksturinn 1.959 m.kr. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólki leikskóla vegna undirmönnunar, heilsuspillandi starfsumhverfis og óvissu um húsnæðismál. Vegna alls þessa hafa margir starfsmenn farið í langtímaveikindi. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið iðinn við að lofa en öðru máli gegnir um efndir. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum berast til borgarfulltrúa reglulega. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskólum sem á eftir að byggja. Mönnunarvandinn kemur sérlega illa niður á foreldrum sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ástandið hefur þess utan skapað annað misrétti. Foreldrar sem ekki fá inni fyrir börn sín í borgarreknum leikskólum þurfa að leita til einkageirans þar sem niðurgreiðsla frá borginni er lægri. Þetta þarf að jafna út. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgarráð samþykki að hækka niðurgreiðslu Reykjavíkurborgar hjá einkareknum ungbarnaleikskólum þegar barn nær 18 mánaða aldri, í þeim tilvikum þegar barn er með virka umsókn en fær ekki pláss hjá dagforeldrum eða á borgarreknum leikskóla.

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

  Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna áætlun að útfærslu byggingarfélags Reykjavíkurborgar. Hlutverk þess félags verði fyrst og fremst að sjá um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis fyrir borgarbúa. Umhverfis- og skipulagssvið geti leitað til annarra sviða eða aðila innan borgarinnar eftir því sem þörf þykir. Áætlunin verði síðan lögð fyrir borgarráð.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Tillagan er felld með nítján atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna.
  Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Hugsunin að baki þessari tillögu er góð. Það er sannarlega í anda stefnu Flokks fólksins þ.e. að tryggja öllum þak yfir höfuðið og hlúa sérstaklega að þeim sem minna mega sín. Félagsbústaðir eru til staðar og þá er spurning hvernig Byggingarfélag Reykjavíkur virkar samhliða. Það sárvantar húsnæði í borginni, um það er ekki deilt. Byggja þarf miklu meira en gert hefur verið undanfarin ár. Verði byggt nógu mikið mun það leysa húsnæðisvanda flestra hópa. Biðlisti eftir húsnæði um þessar mundir telur nokkur hundruð manns. Þessum biðlista þarf að eyða. Vandi húsnæðismarkaðarins er slíkur nú að hann teygir sig í alla þjóðfélagshópa nema kannski þá efnamestu. Ástandið kemur verst niður á fátækum og efnalitlu fólki sem jafnvel leita skjóls í ósamþykktu og hættulegu húsnæði. Sjálfsagt er að skoða fleiri lausnir, alls konar lausnir og getum við lært heilmikið af nágrannaþjóðum okkar.

  Fylgigögn

 4. Fram fer umræða um tjarnir í Reykjavík og umhirðu þeirra.

  -    Kl. 16:30 víkur Sabine Leskopf af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill hvetja meirihlutann til að marka stefnu um framtíð tjarna í Reykjavík. Engin slík er til. Í því felst m.a. að skilgreina ferli sem lýsir áætlun um hvernig breytingum frá núverandi ástandi skuli náð og hver sé æskileg eða viðunandi staða eftir tilsettan tíma. Bæta þarf umhirðu tjarna ekki síst Reykjavíkurtjarnar. Það er dapurlegt að sjá í henni og í kringum hana rusl sem er helst plastrusl. Þetta má sjá víða í öðrum tjörnum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill auk þess að hlúð sé betur að fuglalífi við tjarnir með gerð fleiri hólma en flestar tjarnir eru manngerðar. Stór hluti unga eru étnir af köttum og er eina leiðin til að sporna við því er að gera fleiri hólma á Tjörninni og tjörnum almennt.  Flokkur fólksins vill sjá borgarstjórn sýna meiri metnað þegar kemur að Reykjavíkurtjörn og öðrum helstu tjörnum í borgarlandinu. Almennt mætti huga betur að því að gera aðstæður við tjarnir í borgarlandinu betri, að þær biðu upp á áningu svo hægt sé að njóta þeirra. Til dæmis að setja fleiri bekki og jafnvel borð í kring sem gefur fólki kost á að staldra við þær, tylla sér á bekk og jafnvel borða nesti á meðan það nýtur umhverfisins.

  Fylgigögn

 5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Lagt er til að gatnaþrif verði aukin í Reykjavík í því skyni að bæta hreinlæti í borginni og draga úr svifryksmengun. Stofnbrautir og tengigötur verði þvegnar a.m.k. nokkrum sinnum á ári til viðbótar hefðbundinni götusópun.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS24040057

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Reykjavíkurborg er grútskítug og mikilvægt er að auka þrifatíðni verulega. Tekið er undir tillögu um aukin gatnaþrif í Reykjavík. Götur sem eru þaktar fínum sandi og gúmmíögnum eru óholl blanda. Stefna ætti að því að þvo götur með vatni eins oft og unnt er eða þegar veðurfar leyfir. Sú lausn er alla jafna betri en að rykbinda með magnesíum klóríði. Hvert sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer um borgina er kvartað yfir skítugri borg. Hér þarf að gera miklu betur. Flokkur fólksins hefur einnig áður talað um hvað veggjakrot er áberandi í miðborginni. Gera þarf átak í að hreinsa veggjakrot af eignum sem borgin á og ber ábyrgð á. Sagt er að virkt eftirlit sé í gangi en fulltrúa Flokks fólksins þykir það ósennilegt. Fleirum þykir það ekki trúverðugt því stöðugt berast ábendingar um mikið veggjakrot. Kostnaður borgarinnar vegna veggjakrots var um 13,5 m.kr. árið 2022. Ekki er vitað um kostnað á síðasta ári 2023 en vert er að kalla eftir þeim upplýsingum. Eins má spyrja hvort það komi ekki til greina að hafa háar sektir við veggjakroti. Kostnaður við að þrífa veggjakrot er verulegur og stundum illgerlegt er að þrífa.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarstjórn samþykkir að kalla eftir tafarlausri afléttingu trúnaðar yfir skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar frá nóvember 2023 um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga. Skýrslan skal verða gerð opinber í heild sinni.

  Frestað. MSS24020040

  Fylgigögn

 7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 11. og 19. apríl. MSS24010001

  -    Kl. 17:20 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir víkur. 

  - 5. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; viðaukar við fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar 2024 er samþykktur.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS24040013
  - 7. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; Laufásvegur 19 og 21-23 – deiliskipulag er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23100130
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  - 8. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; Holtsgata 10 og 12 – Brekkustígur 16, deiliskipulag er samþykktur með með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. SN220212
  - 10. liður fundargerðarinnar frá 11. apríl; kirkjugarður í Úlfarsfelli, útboð framkvæmda er samþykktur með með sextán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands Viðreisnar og Flokks fólksins gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. USK23030269
  - 2. liður fundargerðarinnar frá 19. apríl; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 er samþykktur. FAS24010023
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  - 5. liður fundargerðarinnar frá 19. apríl; samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík er samþykktur. HER24010001

   

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. apríl: 

  Störf unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur eru mikilvæg og vega þungt í umhirðu, þrifum og viðhaldi í borginni. Laun í unglingavinnunni hækkuðu síðast sumarið 2022 en voru síðan óbreytt 2023 samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Launafrystingin 2023 var ekki tilkynnt fyrr en eftir að unglingarnir hófu störf um sumarið og fól hún í sér verulega kjaraskerðingu gagnvart þessum yngstu starfsmönnum borgarinnar. Eðlilegt og sanngjarnt væri að leiðrétta nú laun unglinganna í samræmi við breytingar á launavísitölu frá síðustu breytingu árið 2022. Þyrftu launin að hækka um rúmlega 14% til að þau héldu verðgildi sínu miðað við 2022. Meirihlutinn ætlar hins vegar að skammta unglingunum 7,9% hækkun, sem er langt frá því að vinna upp þá kjaraskerðingu er þeir hafa orðið fyrir frá síðustu breytingu. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að launin hækki í samræmi við launavísitölu frá 2022, eins og fulltrúar Reykjavíkurráðs ungmenna lögðu til á fundi með borgarfulltrúum í febrúar sl., var felld með atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl og 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. apríl: 

  Mikilvægt er að vandað verði til verka þannig að þær breytingar sem gerðar verði á húsnæðinu henti til búsetu en hér er um að ræða atvinnuhúsnæði. Mikilvægast af öllu er að húsnæðið henti þörfum tilvonandi íbúa, að nægt rými sé til staðar, þannig að ekki of mörg verði í sama rými, næg salerni og sturtuaðstaða verði til staðar og allt annað sem þarf fyrir bústaði fólks. Það þarf að vanda vel til verka þannig að híbýlin verði manneskjuvæn og viðundandi fyrir fjölskyldur með börn. Fundargerð borgarráðs frá 18. apríl - 5. liður; samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík: Sósíalistar telja eðlilegt að greitt útsvar nái yfir kostnaðinn vegna sorphirðu í stað þess að íbúar greiði sérstök sorphirðugjöld. Í þeim efnum er nauðsynlegt að allir íbúar greiði útsvar til sveitarfélagsins en fjármagnseigendur eru undanþegnir greiðslu útsvars af fjármagnstekjum, þrátt fyrir að þeir nýti þjónustu sveitarfélagsins. Þá telja Sósíalistar að sveitarfélagið eigi að sjá um söfnun úrgangs en ekki að bjóða þjónustuna út en í samþykktinni kemur fram að „Sveitarfélagið getur sinnt söfnun úrgangs á eigin vegum eða falið öðrum framkvæmdina.“

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar frá 11. apríl:

  Óskað er eftir að borgarráð heimili að boðnar verði út áframhaldandi framkvæmdir við kirkjugarð í Úlfarsfelli sem felast m.a. í móttöku moldar á væntanlegum kirkjugarði í Úlfarsfelli. Loksins, segir borgarfulltrúi Flokks fólksins enda mikil þörf á. Það eru um fjögur ár síðan ljóst varð að grafarsvæði í Reykjavík myndu brátt klárast og ekki verði til skiki til að jarða í Reykjavík. Leita hefur þurft á náðir Kópavogsbæjar til að fá pláss þegar tilvistinni á þessari jörðu lýkur. Ástæðan er sú að borgar- og skipulagsyfirvöld hafa dregið lappirnar í að fullklára nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell. Þetta ferli hefur gengið allt of hægt og brösuglega. Þess utan vantar fjármuni til að viðhalda eldri kirkjugörðum og þá sérstaklega Hólavallakirkjugarði. Eftir hrun var skorið hressilega niður hjá kirkjugarðsumdæmunum og aldrei hefur sá niðurskurður gengið til baka þrátt fyrir góðærisárin undanfarið. Hólavallakirkjugarður hefur fengið að drabbast niður. Flokkur fólksins lagði til fyrir um 2 árum að gera gangskör í framkvæmdum að nýjum kirkjugarði við Úlfarsfell til þess að Reykvíkingar sem hafa valið að vera jarðsettir í kistu frekar en keri fái að hvíla innan borgarmarkanna þegar þeirra tími kemur.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 19. apríl, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 5. apríl, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 11. apríl, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. apríl, skóla- og frístundaráðs frá 8. apríl, stafræns ráðs frá 10. apríl, umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. og 17. apríl og velferðarráðs frá 17. apríl. MSS24010034

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar stafræns ráðs:

  Lagt er fram svar við fyrirspurn um uppsagnir, niðurlagningu starfa og andrúmsloft á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Af svari má ráða hversu gríðarlegar sviptingar eiga sér stað á þessu sviði. Starfsfólk hlýtur að vera á tánum alla daga, vita aldrei hvenær það fær reisupassann. Síðan er sagt að „öllum lögum sé framfylgt“ eins og það breyti einhverju. Látið er að því liggja að Flokkur fólksins hafi skapað vanlíðan með gagnrýni á stjórnunarhætti og því hvernig farið hefur verið með almannafé. Það er pólitísk skylda kjörinna fulltrúa að láta í sér heyra þegar þeim finnst óskynsamlega farið með fjármagn með bruðli og sóun. Sviðsstjóri ber alla fjárhagslega og framkvæmdarlega ábyrgð á því fjármagni sem hann hefur óskað heimildar að fá og hefur fengið. Það blöskrar mörgum að horfa upp á hvernig meirihlutinn hefur gagnrýnislaust opnað peningakrana til sviðsins og virðist sem stjórn þess og sýsl með peninga lúti engu eftirliti að heitið geti. Flokkur fólksins hefur aldrei ásakað starfsfólk þessa sviðs eða annarra um neitt misjafnt heldur frekar haft samúð með því. Það er ófaglegt af stjórnanda að nota starfsfólk sitt sem persónulegan hlífðarskjöld. Það er löngu tímabært að farið verði í óháða úttekt á sviðinu og hefur Flokkur fólksins þegar lagt fram slíka tillögu sem vísað var til borgarráðs.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Það er rétt að það er mikilvægt hlutverk kjörinna fulltrúa að veita aðhald og spyrja spurninga og fyrirspurnir eru nauðsynlegur þáttur í því. Þegar því er misbeitt dregur það úr áhrifum fyrirspurna sem verkfæris, en fyrirspurnir Flokks fólksins hafa verið margar, óskýrar, stundum síendurteknar, rætnar í framsetningu, gefa sér rangar forsendur og dylgja um störf embættismanna og starfsfólks. Eins gerir síendurtekin gagnrýni, sem hefur ítrekað verið svarað, býr ekki bara til mikið álag, heldur gerir það einnig erfiðara að veita réttmætt aðhald þar sem þess gerist þörf, með því að taka upp það rými sem kjörnir fulltrúar hafa fyrir það samtal. Því skal haldið til haga að það sem fulltrúi Flokks Fólksins gerir athugasemd við er minnisblað ritað af starfsfólki, en þar er einnig vísað í könnun á starfsanda innan sviðsins á vegum Sameykis, sem hluti af könnun á stofnun ársins, en þar fékk sviðið almennt háar einkunnir, nema helst í þeim liðum sem snúa að ímynd og ytri umræðu. En einnig er bent á að starfsfólk upplifi að gagnrýni Flokks Fólksins beinist að þeim og þeirra störfum og það hafi áhrif á starfsánægju.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

  Flokkur fólksins hefur aldrei misbeitt sér í þessu máli og fengið þvert á móti mikinn stuðning frá fólki úr ýmsum geirum sem þakkar Flokki fólksins fyrir að hafa staðið á þessari vakt meðan aðrir sváfu. Hér er um að ræða almannafé og er það skylda kjörinna fulltrúa að benda á ef verkefni eru illa skilgreind og ekki sé leitað hagkvæmustu leiða og aðferða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur af öllum uppsögnum á sviðinu. Tugum starfsfólks hefur verið sagt upp á á örfáum árum. Svo er talað um að það þurfi að vera í einhverskonar mótvægisaðgerðum til þess að koma í veg fyrir atgervisflótta starfsfólks og stjórnenda vegna fyrirspurna frá Flokki fólksins. Fulltrúinn ítrekar að skoða þarf heildarmynd þessara mála áður en settar eru fram einhliða fullyrðingar sem skauta algjörlega framhjá margvíslegum afleiðingum þeirra miklu öfga sem einkennt hafa starfsmannahald sviðsins sjálfs.

  Fylgigögn

 9. Hafnað með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að taka tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um laun í Vinnuskóla Reykjavíkur á dagskrá.
  Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

Fundi slitið kl. 17:58

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 23.4.2024 - Prentvæn útgáfa