Borgarstjórn - Borgarstjórn 21.3.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 21. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Voru þá komnir til fundar auk Þorsteins Gunnarssonar  eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir eftirfarandi bráðaaðgerðir í málefnum barna á leikskólaaldri: Í fyrsta lagi að hrint verði í framkvæmd stefnu í málefnum dagforeldra sem reist er á tillögum í skýrslu dags. maí 2018; í öðru lagi að farið verði í samningaviðræður við sjálfstætt starfandi leikskóla um að fjölga leikskólaplássum með ýmsum hætti, svo sem með möguleikum á stækkun á starfsemi þeirra með útibúi leikskólanna og/eða svokölluðum ævintýraborgum/færanlegum kennslustofum á lóðum þeirra leikskóla þar sem því verður við komið. í þriðja lagi að framkomnar tillögur um foreldrastyrk/heimgreiðslur verði samþykktar; í fjórða lagi að farið verði strax í tilraunaverkefni í þeim hverfum þar sem leikskólavandinn er mestur og komið á laggirnar fimm ára deildum í grunnskóla þar sem kennsla fer fram á forsendum leik- og grunnskólans. Öllum aðgerðum samkvæmt ofangreindu verði lokið eigi síðar en 1. september 2023. Til að hrinda aðgerðunum í framkvæmd verður fimm manna aðgerðarhópur settur á laggirnar sem samanstendur m.a. af einum fulltrúa frá fagfélagi dagforeldra og einum fulltrúa frá sjálfstætt starfandi leikskólum. Hinir þrír fulltrúar hópsins skipi einstaklingar innan og utan stjórnkerfisins sem hafa fagþekkingu á sviði áætlanagerðar, samningagerðar, fjármála og leikskólamála. Hópurinn taki til starfa sem fyrst en hann heyrir beint undir skóla- og frístundaráð borgarinnar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22010084

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um bráðaaðgerðir í málefnum barna á leikskólaaldri er sett fram til að bregðast við því neyðarástandi sem blasir við í leikskólamálum. Tillöguflutningurinn byggir á breyttum áherslum og nýjum lausnum til að fjölga dagvistunarúrræðum. Tillagan myndi efla dagforeldrakerfið, fjölga plássum í sjálfstætt starfandi leikskólum, tryggja heimgreiðslur til foreldra og hefja undirbúning að nýstárlegu tilraunaverkefni svo að fimm ára börn í þeim hverfum þar sem staðan er verst geti hafið nám í grunnskóla. Í stað þess að samþykkja tillöguna og koma einstökum þáttum hennar til framkvæmda sem fyrst hefur tillögunni, að frumkvæði meirihlutans, verið vísað til skóla- og frístundaráðs. Ákjósanlegra hefði verið fyrir borgarstjórn að taka efnislega afstöðu til tillögunnar. Með því hefði verið lýst yfir að mæta þurfi hagsmunum barna og foreldra strax. Að þessu leyti er niðurstaðan vonbrigði, sérstaklega að teknu tilliti til þess að síðan haustið 2019 hefur meðalaldur barna sem hefur í fyrsta skipti inngöngu í borgarreknum leikskólum verið yfir 20 mánaða og ekki er útlit fyrir annað en að meðalaldurinn verði hærri næstkomandi haust. Þessi staða er í hróplegu ósamræmi við síendurtekin loforð Samfylkingarinnar í aðdraganda síðustu þrennra borgarstjórnarkosninga 2014-2022.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn í borgarstjórn hefur undanfarin ár unnið jafnt og þétt að því að bæta og efla umgjörð leikskólastarfs í borginni. Fyrst með því að tryggja í samningum samkeppnisfær laun starfsfólks, með fjölmörgum aðgerðum til að bæta starfsumhverfi leikskólakennara og annars starfsfólks og skapa umgjörð fyrir fjölskylduvænni vinnustöðum til að stuðla að meiri stöðugleika í starfsmannahaldi. Vandi leikskólans, ekki síst viðvarandi manneklu, má rekja til afdrifaríkra ákvarðana Alþingis að frumkvæði menntamálaráðuneytis árið 2008 þegar kennaranámið var lengt úr þremur árum í fimm sem leiddi til alvarlegs skorts á fagfólki sem enn hamlar leikskólastarfi í landinu. Húsnæðisvandi í eldri leikskólum borgarinnar hægir tímabundið á aðgerðum til að lækka inntökualdur barna en uppbyggingin heldur áfram á fullri ferð og eftir metár í fyrra þar sem um 600 ný pláss urðu til stefnir í aðra metfjölgun á næstu 12-16 mánuðum og opnun 6 nýrra leikskóla víðs vegar um borgina. Meirihlutinn mun áfram vinna að fjölbreyttum lausnum til að koma til móts við foreldra, þ.m.t. efla dagforeldrakerfið og leita leiða til að lækka útgjöld barnafjölskyldna samhliða því að þrýsta á lengingu fæðingarorlofs.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Sjálfstæðisflokksins er fjórþætt. Sósíalistar telja að liður nr. 1 og nr. 3 um eflingu dagforeldrakerfisins og heimgreiðslur eigi að fá nánari skoðun og komast til framkvæmda sem fyrst til að mæta stöðu barnafjölskyldna sem nú eru í erfiðri stöðu. Fulltrúar sósíalista árétta mikilvægi þess að nauðsynlegt er að efla leikskólastig borgarinnar á öllum stigum, hækka þarf laun leikskólastarfsfólks og tryggja góðar starfsaðstæður þannig að allt sé til staðar sem þörf er á. Hagræðingartillögur meirihlutans vegna fjárhagsáætlunargerðar árið 2023 gera ráð fyrir niðurskurði í tækjapotti leikskólanna. Borgaryfirvöld eru þannig ekki að styrkja leikskólaumhverfið eins og svo sannarlega er þörf á. Á meðan borgin vinnur að framtíðarsýn sem ekki gengur að koma á laggirnar, sýn sem snýst um að tryggja börnum á ákveðnum aldri dvöl á leikskóla, verður að mæta barnafjölskyldum á þeim stað sem þau eru. Þannig telja sósíalistar að heimgreiðslur geti létt á stöðu einhverra foreldra sem eru í slæmri stöðu vegna þess að ekki hefur verið staðið við fyrirheit. Fulltrúar sósíalista telja ekki að breyta eigi aldri vegna grunnskólainntöku til þess að stytta bið eftir leikskólaplássi. Sósíalistar greiða ekki atkvæði með heildartillögunni þar sem ekki er hægt að styðja alla liði tillögunnar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Neyðarástand ríkir í leikskólamálum Reykjavíkurborgar. Loforð um leikskólapláss hafa ítrekað verið svikin. Leikskólaplássum hefur fækkað. Til stendur að loka alls 25 af 67 leikskólum næsta skólaár. Foreldrar eru í áfalli og miklir erfiðleikar blasa við þeim. Nú ríkir neyðarástand í leikskólamálum. Aldrei hafa borgarbúar, foreldrar verið sviknir af neinum meirihluta svo gróflega eins og hér hefur átt sér stað. Við þetta þurfa borgarbúar að búa í önnur þrjú ár. Flokkur fólksins krefst þess að meirihlutinn endurskoði forgangsröðun sína hið snarasta og setji barnafjölskyldur og þar með leikskólamál í algeran forgang. Hætta á strax við öll áform um endurgerð Grófarhúss og Lækjartorgs og með því endurskoða fjárhagsáætlun í ljósi neyðarástandsins. Leggja þarf meira fé til leikskólamálanna, viðgerðir á híbýlum leikskóla vegna myglu, lagfæra laun og minnka álag (með því að fjölga starfsfólki) til að laða fólk til starfa. Flokkur fólksins hefur lagt sitt af mörkum til að bæta þennan málaflokk. Tillögur eins og heimgreiðslur/styrki getur verið einn valmöguleiki í því úrræðaleysi sem nú ríkir. Eins lagði Flokkur fólksins til að verulegar umbætur yrðu gerðar á dagforeldrakerfinu til að mæta þessu ástandi. Ekkert hefur gerst í þessum málum hjá meirihlutanum nema kannski fundað. Hvergi er að sjá áþreifanlegar úrbætur.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þær bráðabirgðalausnir sem hér eru lagðar til eru ekki hugsaðar til hlítar og munu ekki gagnast leikskólastiginu eða betrumbæta umönnun ungra barna. Lausnirnar felast ekki í að þenja út dagforeldrakerfið, úthýsa leikskólastarfi til einkaaðila eða koma 5 ára börnum í grunnskólana. Vandi leikskólastigsins er fyrst og fremst mönnunarvandi sem tekur tíma að leysa. Á meðan verður borgin að staldra við og endurhugsa umgjörð loforða sinna og endurmeta hvort raunhæft sé að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskólans að öllu óbreyttu.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að mótuð verði heildarstefna um sértækt hlutverk skólasafna í Reykjavík. Víðtækt samráð skal hafa við skólasöfnin, Félag fagfólks á skólabókasöfnum, Upplýsingu – félag bókasafns- og upplýsingafræðinga og aðrar fagstéttir og hlutaðeigandi sem máli kunna að skipta.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar-, íþrótta og tómstundaráðs. Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030136

    -    Kl. 16.00 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Stefán Pálsson tekur sæti. 

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þó einhvers konar vinna og samtal sé yfirstandandi á milli menningar- íþrótta- og tómstundaráðs og skóla- og frístundaráðs um samrekstur/samvinnu skóla- og almenningssafna þá er það borgarfulltrúa vinstri grænna til efs að tilgangur, markmið og hagsmunir skólasafna séu í forgrunni í þeirri vinnu. Skynsamlegast hefði verið að samþykkja tillögu Vinstri grænna um að skólasöfnin í Reykjavík fengju sína eigin stefnu svo þau gætu vaxið og dafnað í takt við nemendur sína, skólasamfélagið og samtímann. Það er því miður að tillögunni er vísað inn í illa formgerða vinnu sem lítið er vitað um nema það að hún gangi út á að spara í rekstri almennings- og skólasafna.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Skólabókasöfnin í borginni gegna gífurlega mikilvægu hlutverki varðandi læsi og velferð barna í grunnskólum. Starfið í dag er afar fjölbreytilegt, verkefnum hefur fjölgað og aðgengi almennings aukist til muna. Samstarfið við borgarbókasafnið og hverfissöfnin á hverjum stað hefur gefið góða raun og vert er að skoða þau tækifæri enn betur í framtíðinni í nánu samstarfi við hagaðila. Besta dæmið um velheppnað samstarf er samrekið hverfisbókasafn og skólabókasafn í menningarmiðstöðinni í Úlfarsárdal sem þjónar bæði leik- og grunnskóla í Dalskóla og íbúunum í hverfinu. Nú er unnið að undirbúningi sambærilegs verkefnis á Kjalarnesi til að bæta þjónustuna við íbúa þess hverfis og miðar þeim undirbúningi vel.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Stefna er mikilvæg en umfram allt þarf að fylgja henni eftir. Mikið er til af flottum stefnum í borginni en allur gangur er á hvort þær séu virkar. Flokkur fólksins telur að skólabókasöfn séu mikilvægur þáttur í skólaumhverfinu og þar fer fram gríðarlega mikilvæg starfsemi. Skólasöfn grunnskóla gegna lykilhlutverki í að miðla menningu og upplýsingum til skólasamfélagsins og styðja við árangursríka lestrar- og læsisfærni nemenda. Flokkur fólksins styður því tillöguna og að víðtækt samráð verði haft við skólasöfnin og Félag fagfólks á skólabókasöfnum. Flokkur fólksins óttast að ráðist verði á skólasöfnin og þeim jafnvel lokað líkt og gert var með Borgarskjalasafnið en það var eitt af stærstu mistökum þessa meirihluta. Sú aðgerð var ómerkileg og aðfarirnar til skammar auk þess sem sett er i uppnám gríðar mikil verðmæti og reynslu starfsfólks þar með kastað á glæ. Skólasöfnin hafa einnig mikla sérstöðu og víða hefur þeim verið sinnt af alúð og natni. Börn upp til hópa njóta skólasafnanna með ýmsum hætti og hafa söfnin í gegnum tímans rás útvíkkað hlutverk sitt með ýmsum hætti.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Reykjavíkurborg samþykkir að útrýma heimilisleysi innan sinna marka. Staða og fjöldi heimilislausra verði kortlögð og í kjölfarið verði farið í stórfellda uppbyggingu á félagslegu og öðru viðeigandi húsnæði. Einnig er lagt til að bætt verði við stuðningi eftir þörfum, fyrir þau sem eru að stíga inn úr heimilisleysi. Tryggt verði að þau sem þurfi á að halda fái stuðning frá velferðarsviði ásamt viðeigandi húsnæði. Jafnframt lýsi borgaryfirvöld því yfir að heimilisleysi sé samfélagslegt mein sem beri að uppræta með öllu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23030137

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér var lagt til að Reykjavíkurborg setti sér markmið og hæfi uppbyggingu í þeim tilgangi að binda enda á heimilisleysi innan sinna marka. Slíkt sjáum við takast með góðum árangri í höfuðborg Finnlands, og vilja Sósíalistar fara að því fordæmi sem þar er sett. Best hefði farið á því að samþykkja tillöguna í borgarstjórn í stað þess að vísa til velferðarráðs. Viljinn er allt sem þarf og ef hann er skýr getur borgin samþykkt að ganga í verkin. Því miður var ekki vilji til að staðfesta efni þessarar tillögu hér og nú.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Auðvitað á að útrýma heimilisleysi og fátækt. Útrýming fátæktar er kjarninn í stefnu Flokks fólksins og hefur flokkurinn barist gegn fátækt bæði í borgarstjórn og á Alþingi. Til að útrýma fátækt þarf þessi meirihluta að endurraða verkefnum í þágu fólksins í stað glæsibygginga og torga. Hér er vísað í Grófarhús og Lækjartorg sem hefja á hönnun og framkvæmdir við á þessu ári með tilheyrandi tugi milljóna kostnaði. Á meðan stækkar sá hópur sem á hvergi heima, sem býr við fátækt og sem bíður eftir nauðsynlegri þjónustu, lögbundinni og annarri þjónustu. Í mars 2022 spurði fulltrúi Flokks fólksins um fjölda heimilislausra í kjölfar þess að COVID var þá á undanhaldi. Fyrir liggja upplýsingar um að árið 2021 voru 301 heimilislaus í Reykjavík, þar af 54% % í húsnæði (getur verið sjúkrahús, fangelsi, áfangaheimili), 3% á víðavangi og 31% í reglubundinni neyðargistingu. Staðan hefur versnað ef eitthvað er. Smáhýsin eru aðeins að hluta til komin í gagnið. Heimilisleysi þeirra sem eru með flóknar þjónustuþarfir urðu hvað mest áberandi þegar fólk sem leitaði skjóls í gistiskýlum borgarinnar var vísað út ákveðinn tíma dags þegar kuldinn beit hvað mest í vetur. Sem betur fer var tekin ákvörðun um sólarhringsopnun en aðeins tímabundið. 

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Vinstri grænna fagnar tillögu Sósíalistaflokksins um að útrýma heimilisleysi. Á liðnum árum hefur mikil vitundarvakning átt sér stað í þessum málaflokki. Hugmyndafræðin um húsnæðið fyrst hefur sannað gildi sitt og með skaðaminnkandi nálgun í þjónustu við heimilislausa er hægt að bæta til muna lífsgæði einhvers jaðarsettasta hóps þjóðfélagsins. Húsnæði fyrir alla er mannréttindamál.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um verkefnið Betri borg fyrir börn og skilvirkni þess. MSS23030036

    -    Kl. 16.35 víkur Helgi Áss Grétarsson af fundinum og Birna Hafstein tekur sæti. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Verkefnið Betri borg fyrir börn státar ekki af nægjanlegri skilvirkni. Nú bíða 2049 börn eftir ýmist fyrstu eða frekari félags- og sálfræðilegri þjónustu. Ekki er vitað hvort eitthvað af þessum börnum eru að fá snemmtæka íhlutun.  Eitt helsta markmiðið með Betri borg fyrir börn var að færa sálfræðinga í nærumhverfi barna og var talið að það þýddi að starfsstöð þeirra yrði þá í skólunum. Það hefur ekki gerst. Kallað er sárlega eftir fleira fagfólki inn í skólana þar sem þeir vinna á gólfinu við að þjónusta börnin og foreldra þeirri í uppeldishlutverkinu. Ef ferli Betri borg fyrir börn er skoðað virkar það flókið. Byrjað var á að skipa starfshópa sem nú hafa verið lagðir niður. Þá var skipaður eigendahópur með sviðsstjórum, skrifstofustjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúa framkvæmdastjóra miðstöðva. Stofnaður var stýrihópur innleiðingar sem í sátu allir þeir sömu ásamt ráðgjafa. Þá voru skipaðir verkefnisstjórnir Betri borg fyrir börn á hverri miðstöð með framangreindri hersingu auk deildarstjóra barna- og fjölskyldudeildar, plús staðgengli hans og öðrum þremur frá velferðarsviði og enn öðrum þremur frá skóla- og frístundasviði. Viðurkennt hefur verið að allt reyndist þetta þyngra en reiknað var með og að fundarálag sé mikið. Hvað með foreldra barnanna? Finnst þeim þjónustan hafa batnað með tilkomu Betri borg fyrir börn? Ekki hefur verið leitað eftir viðbrögðum foreldra svo vitað sé til.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti borgarstjórnar lýsir yfir ánægju með verkefnið Betri borg fyrir börn sem er eitt mikilvægasta framfaraskref sem tekið hefur verið til að koma til móts við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra sem þurfa á þjónustu að halda. Þverpólitísk samstaða hefur verið um að fara þess leið, setja barnið í fyrsta sæti og sníða þjónustu og menntun að þörfum þess, veita viðeigandi stuðning sem fyrst með skilvirkni og heildræna þjónustu í huga. Lögð er áhersla á reglulegar mælingar til að greina hvort stuðningur hafi leitt til bættrar stöðu barns þannig að þjónusta þróist sannarlega þannig að hún nýtist sem best.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Verkefninu Betri borg fyrir börn er ætlað að samþætta skóla- og frístundaþjónustu og velferðarþjónustu til að þjónustan nýtist sem best börnum og fjölskyldum þeirra. Fulltrúar Sósíalista árétta mikilvægi þess að hlúa vel að aðbúnaði og kjörum starfsfólks sem veita umrædda þjónustu og að mönnunarvandinn verði leystur með öllum ráðum. Auk þess verður fjármagn að aukast í takt við fjölgun barna í hverfum. Mikilvægt er að skóla- og frístundaþjónusta og velferðaþjónusta sé samþætt, enda á Reykjavíkurborg að vinna í heild sinni að hag barna. Hér þarf einnig að taka inn stærra samhengið en á síðustu árum hefur fjölda barna sem búa við ótryggar aðstæður fjölgað. Aðgengi að öruggu húsnæði fellur undir velferðarþjónustu og biðlistar eftir félagslegu húsnæði hafa lengst og húsnæðisaðstæður marga barna eru mjög ótryggar á þeim leigumarkaði sem blasir við okkur í dag. Öruggt húsnæði er grunnur að velferð. 153 barnafjölskyldur og 260 börn bjuggu við ótryggar húsnæðisaðstæður þann 1. desember 2019. Þann 1. desember 2022 bjuggu 206 barnafjölskyldur við ótryggar húsnæðisaðstæður og fjöldi barna í slíkum aðstæðum var 411. Gott er að samþætta þjónustu borgarinnar en hún mun ekki nýtast öllum börnum á meðan að ekki er hugað að grunninum sem er m.a. öruggt húsnæði.

    Fylgigögn

  5. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarstjórn Reykjavíkur skorar á Íslandspóst ohf. að halda áfram rekstri póstafgreiðslu í Mjóddinni í Breiðholti.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 17.30 víkja Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason af fundinum og Sandra Hlíf Ocares, Egill Þór Jónsson og Þorkell Sigurlaugsson taka sæti.

    Samþykkt. MSS23030138

    Fylgigögn

  6. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Slíkum skýlum verði komið fyrir á fjölförnum biðstöðvum í öllum hverfum borgarinnar í því skyni að bæta aðstæður farþega og fjölga viðskiptavinum Strætó.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis og skipulagssviði að kanna þörf fyrir upphituð biðskýli fyrir farþega strætó í Reykjavík, í samhengi við aðgerðir til að bæta aðgengi að biðskýlum og endurnýjun á þeim, og sé kannað í samhengi við innleiðingu nýs leiðakerfis og borgarlínu.

    Breytingartillagan er samþykkt.

    Tillaga borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins er samþykkt svo breytt. MSS23030037

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir góðar umræður um biðskýlin í borginni og samþykkja fyrirliggjandi breytingartillögu í trausti þess að málið verði tekið til raunverulegrar skoðunar í borgarkerfinu. Þau hefðu þó fremur kosið að upphafleg tillaga hefði verið samþykkt og verkin látin tala án tafar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Sósíalistar styðja mikilvægi þess að skjólgóðum og upphituðum biðskýlum verði komið upp. Á sama tíma þarf einnig að tryggja að allar biðstöðvar séu yfir höfuð biðskýli og minna fulltrúar sósíalista á að margar biðstöðvar eru fjölfarnar og því gæti reynst snúið að velja stakar biðstöðvar í hverfum til upphitunar. Að sama skapi þarf að stórefla alla heildarhugsun í þjónustu við strætófarþega, þannig að gert sé ráð fyrir þeim þegar snjóruðningur á sér stað, þannig að auðvelt sé að komast í biðskýlin og að allar upplýsingar séu til staðar á og við biðskýli, hér er um að ræða tímatöflu og ójafna rauntímabirtingu, bæði er hún oft á tíðum ónákvæm, sem og ekki við öll biðskýli. Þá er einnig mikilvægt að taka fram að þörf er á því að auka tíðni ferða, sem aftur á móti leiðir til þess að farþegar þurfa ekki að bíða jafn lengi úti í öllum veðrum og vindum líkt og staðan er nú. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins styður tillöguna að borgarstjórn samþykkir að ráðist verði í uppsetningu skjólgóðra og upphitaðra biðskýla fyrir strætisvagnafarþega í Reykjavík. Borgarmeirihlutinn er að hvetja borgarbúa að nota strætó en lítið er gert til að laða fólk í strætó. Þjónusta hefur verið skert, færri ferðir og lengra að stoppistöðvum. Þau fáu innibiðskýli sem til eru í borginni eru í slæmu ástandi og þau eru ekki opin á kvöldin. Sum skýli eru varla bjóðandi, slíkt er ástand þeirra. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 um endurbætur á öllum biðstöðvum strætó sem voru þá víða í lamasessi. Tillagan kom til afgreiðslu þremur árum síðar og var þá felld. Í umsögn var minnst á niðurstöður úttektar frá 2020 á aðgengismálum á biðstöðvum Strætó. Þá voru yfir 500 biðstöðvar metnar ófullnægjandi. Aðeins á 11 biðstöðvum af 556 var aðgengi viðunandi. Aðgengi og lélegt yfirborð stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Staðfest var í umsögn með málinu að endurbætur eru á bið vegna væntanlegrar borgarlínu sem búið er að upplýsa um að tefjist um 3-5 ár. Flokkur fólksins telur að endurmeta verði endurbætur á þeim fjölda biðstöðva sem eru í lamasessi í ljósi fyrirsjáanlegrar seinkunar borgarlínu.

    -    Kl. 18.00 víkur Skúli Helgason af fundinum og Ellen Calmon tekur sæti. 

    Fylgigögn

  7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. mars.

    3. liður fundargerðarinnar frá 9. mars; samkomulag um öryggismyndavélar í miðborg Reykjavíkur. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

    Lagt er til að staðfestingu samkomulags um uppsetningu eftirlitsmyndavéla verði frestað þangað til að búið er að skoða betur rök fyrir fjölgun eftirlitsmyndavéla, áhrif á mannréttindi, persónuvernd og annarra sjónarmiða og þangað til að samráð við viðeigandi aðila hefur átt sér stað. Af því loknu verði samkomulagið á ný til umræðu í borgarstjórn.

    Málsmeðferðartillagan er felld með tíu atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar og Viðreisnar gegn fimm atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, borgarfulltrúa Vinstri grænna og Kristins Jóns Ólafssonar og Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, borgarfulltrúi Flokks fólksins og Magnús Davíð Norðdahl borgarfulltrúi Pírata sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar á samkomulaginu:

    Lagt er til að 7.gr. samkomulagsins um gildistöku og gildistíma hljóði svona: Samkomulag þetta tekur gildi við undirritun og gildir fram til 31. desember 2023. Samkomulag þetta kemur í stað fyrra samkomulags aðila um sama verkefni. Myndavélar sem settar voru upp sem hluti af því samkomulagi falla undir samkomulag þetta. Samkomulag þetta endurnýjast sjálfkrafa í eitt ár í senn hafi því ekki verið sagt upp með tveggja mánaða fyrirvara, þ.e. fyrir 1. nóvember ár hvert en þó aldrei lengur en til 5 ára.

    Breytingartillagan er samþykkt með nítján atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

    Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu tillögunnar. 

    Samkomulag um öryggismyndavélar í miðborg Reykjavíkur samþykkt svo breytt með sextán atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Kristins Jóns Ólafssonar og Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata. 

    Borgarfulltrúar Flokks fólksins, Vinstri grænna og Magnús Davíð Norðdahl, borgarfulltrúi Pírata sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    5. liður fundargerðarinnar frá 9. mars; samþykkt að Erna Guðmundsdóttir, lögfræðingur, taki sæti í kjaranefnd í stað Ingu Bjargar Hjaltadóttur. Jafnframt er samþykkt að Ólafur Darri Andrason verði formaður nefndarinnar. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    1. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. mars; Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – skotæfingasvæði Álfsnesi - lýsing er samþykkt með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    4. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. mars; loftslagsstefna fyrir höfuðborgarsvæðið er samþykkt. MSS23010001

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. mars:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vilji setja sér heildarstefnu í loftlagsmálum enda nauðsynlegt að vera samtaka í þessum efnum. Aftur á móti er ýmislegt í verkfærakistunni sem verður að setja spurningamerki við enda sett fram án rökstuðnings um hvernig það sé hluti af því að ná markmiðum stefnunnar.

    Borgarfulltrúar Pírata ásamt Birki Ingibjartssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og Þorvaldi Daníelssyni, borgarfulltrúa Framsóknar leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. mars: 

    Breyting hefur verið gerð á samkomulaginu á þann hátt að gildistími þess er út árið með möguleika á endurnýjun í eitt ár í senn í fimm ár í heildina, í stað þess að það gildi í heil fimm ár án uppsagnarákvæðis. Sú breyting er til bóta, en ljóst er að nauðsynleg greiningarvinna á forsendum samkomulagsins hefur ekki farið fram á þessu stigi og fullnægjandi rökstuðningur fyrir nauðsyn þess liggur ekki fyrir. Mikilvægt er að ráðast í víðtæka þarfagreiningu og mat á forsendum samkomulagsins þar sem kallað verður eftir umsögnum frá þar til bærum fagaðilum á sviði mannréttinda-, afbrota- og persónuverndarmála og metið hvort samkomulagið samræmist m.a. mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Æskilegt er að greiningarvinnunni ljúki sem fyrst og í síðasta lagi fyrir 1. nóvember næstkomandi svo endurskoða megi samkomulagið út frá þeim upplýsingum sem þá liggja fyrir. Æskilegra hefði verið að greining sem þessi hefði farið fram áður en svona lagað kæmi til samþykktar, svo hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um málið, enda er sérstaklega mikilvægt að vanda til verka við ákvarðanatöku og skoða allar mögulegar afleiðingar þegar um er að ræða ákvörðun sem kemur til með að færa lögreglunni aukin völd og burði til þess að vega að borgaralegum réttindum fólks.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. og 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. mars:

    Sósíalistar geta ekki samþykkt vöktun á almenningi sem nýtir stjórnarskrárvarinn rétt sinn til mótmæla. Það er óhugsandi að samþykkja aukið myndavélaeftirlit í þessum tilgangi. Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 – skotæfingasvæði Álfsnesi – lýsing: Íbúar á svæðinu hafa greint frá mikilli hávaðamengun sem fylgir starfsemi skotæfinga. Í ljósi þess geta fulltrúar sósíalista ekki samþykkt þessa tillögu. Þá er einnig mikilvægt að koma í veg fyrir mengun sem kann að fylgja starfseminni. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar frá 16. mars: 

    Með þessari verklýsingu er skapað skilyrði fyrir starfsemi skotfélaga og það á að vera til skemmri tíma. Auðvitað á að hefja strax leit að nýju skotæfingasvæði í stað þess að aðlaga Álfsnesið að skotæfingasvæði. Miklar líkur eru á að það verði þarna þar til Sundabraut byggist eða að skipulagsyfirvöld finni einhvern iðnað sem þau telja skipta meira máli en skotæfingasvæði. Úrskurðinum um lokun skotæfingasvæðis er hent út um gluggann. Í sextán ár hafa íbúar Kjalarness mátt þola hljóðmengun auk þess sem blý hefur safnast í jarðveginn, sjóinn og á ströndina og líklega í fuglum. Skothvellir er mikil hljóðmengun. Gönguleiðin á Esjuna er í 700 m fjarlægð og bergmál skotkvellanna mikið. Einhverjar leiðir hafa verið nefndar sem mótvægisaðgerðir s.s. breyta skotstefnu en áhrif þeirra til batnaðar eru óljós. 4. liður; Loftslagsstefna. Skógrækt er eitt aðalatriðið þegar talað er um loftslagsmál. Skógrækt reiknast sem kolefnisbinding svo og endurheimt votlendis. Minnka þarf sóun og endurnýta kolefni. Nýta allt metan sem myndast og glatvarma og sóun frá matvælageiranum, hefja söfnun á endurnýjanlegum úrgangi svo sem fitu sem brenna mætti í stað olíu. Landbúnaður losar verulega. Samgöngur eru í raun lítill hluti orkunotkunar, en ástæða er til að breyta vali á samgöngumátum með tilliti til losunar.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 3. og 16. mars, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. mars, skóla- og frístundaráð frá 6. mars, stafræns ráðs frá 8. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. mars og velferðarráðs frá 3. og 15. mars

    3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 3. mars; tillaga að breytingu á samþykkt fyrir öldungaráð er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata Framsóknar og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010061 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 3. mars: 

    Fulltrúar sósíalista telja mikilvægt að borgin vinni að útfærslu á öldungaráði þannig að tryggja megi setu fulltrúa úr ólíkum samtökum og félögum sem láta sig málefni eldri borgara varða. Mikill munur er á því að koma inn á fundinn til ráðgjafar og að eiga sæti í ráðinu.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5., 6. og 7. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 8. mars: 

    Fram kemur í svari í 5. lið að samstarf Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stafræna Íslands er í gangi upp að vissu marki og eru alls kyns upptalningar týndar til því til sönnunar. Það breytir þó ekki því að Reykjavíkurborg hefur á vissan hátt brugðist því hlutverki m.t.t.  stærðar sinnar, að vera meira leiðandi í þeirri stafrænu umbreytingu sveitarfélaga sem í gangi hefur verið undanfarin ár með aðkomu Stafræns Íslands. Svör í 6. lið varðandi áskriftarkaup sviðsins að ráðgjöf Gartner Group á Írlandi, skauta framhjá þeirri staðreynd að þau kaup byrjuðu löngu áður en sviðið hóf stafræna vegferð og hafa staðið í næstum áratug. Bent er á að sú nálgun sviðsins hvað stafræn mál varðar, hefur sætt gagnrýni fagaðila hérlendis þ.á.m. frá Samtökum iðnaðarins. Þeir fjármunir sem sviðið er búið er eyða í alla þessa erlendu ráðgjöf, virðist ekki hafa stuðlað að árangursmiðaðri verkefnastjórnun þegar litið er til þess tíma sem það tekur sviðið að innleiða margar af þeim lausnum sem beðið er eftir. Rök sviðsins í 7. lið fyrir kaupum á dýrum Apple búnaði fyrir starfsfólk, eru ekki í takt við þær hagræðingarkröfur sem önnur svið þurfa að hlíta og virðist sem að sviðið sé með sín eigin viðmið hvað fjármál varðar.

    -    Kl. 19.04 víkur Hjálmar Sveinsson af fundinum 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 19:15

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Trausti Breiðfjörð Magnússon

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.3.2023 - Prentvæn útgáfa