Borgarstjórn - Borgarstjórn 21.1.2025

Borgarstjórn

Ár 2025, þriðjudaginn 21. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Stefán Pálsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. janúar 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar 2025, á endurskoðaðri aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, ásamt fylgiskjölum, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2025.

    Samþykkt.

    -     Kl. 13:10 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Guðný Maja Riba víkur af fundi. VEL25010024

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn fagnar þeim árangri sem hefur náðst í kjölfar stefnu og aðgerðaáætlunar sem samþykkt var 2019. Á þeim tíma hefur þjónustunni verið gjörbreytt og áhersla á skaðaminnkun og einstaklingsmiðaða þjónustu og húsnæði fyrst verið í forgangi. Tímabundnu neyðarhúsnæði og varanlegum húsnæðisúrræðum hefur fjölgað um 86 sem hefur minnkað þörf á neyðarrýmum í gistiskýlum. Áfram verður unnið á þeim grunni en í endurskoðaðri aðgerðaáætlun er áætlað að einingum fjölgi um 106 til ársloka 2027 og að áfram verði unnið með þróun á einstaklingsbundnum stuðningi og þróun skaðaminnkandi og valdeflandi þjónustu. Það er áskorun að Reykjavíkurborg eitt sveitarfélaga beri þungann af þjónustunni. Borgarstjórn skorar á ríkið að móta stefnu í málaflokknum og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að setja fram áætlanir um viðbrögð við heimilisleysi einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem hafa lögheimili utan Reykjavíkur en sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Sækja má hugmyndir í skýrslu sem er afrakstur vinnu á vegum Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness árið 2022. Markmiðið með verkefninu var m.a. að móta tillögur um það hvernig bæta mætti þjónustu við þennan hóp með sameiginlegu átaki aðildarsveitarfélaganna. Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis þeirra til úrbóta.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins undirstrika mikilvægi þess að tryggð sé örugg þjónusta við heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Málaflokkurinn hefur bæði vaxið og breyst gríðarlega frá því Reykjavíkurborg samþykkti fyrst stefnu og aðgerðaáætlun í málefnum heimilislausra. Mikil og góð vinna hefur verið unnin innan velferðarsviðs og hefur Reykjavíkurborg sett gott fordæmi og tekið forystu í að leiða málaflokkinn. Heimilisleysi er hins vegar sannarlega ekki eingöngu bundið við Reykjavík og því ótækt að Reykjavíkurborg komi ein að því að móta og bera fjárhagslega ábyrgð á þjónustu við heimilislausa. Þjónustuþörf þessa notendahóps er margvísleg og samtvinnast gjarnan við þjónustu sem ríkinu ber að veita. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja mikilvægt að ríki og sveitarfélög marki sér sameiginlega stefnu og taki sameiginlega ábyrgð á málaflokknum. Forsvarsfólk velferðarmála borgarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga ber ríka ábyrgð á því að leiða þetta samtal, og þykir fulltrúunum miður hve lengi það hefur dregist. Mikilvægt verður að tryggja bæði fjármögnun verkefna, og þátttöku ríkis og annarra sveitarfélaga, áður en ráðist er í fleiri milljarða fjárfestingu á næstu árum.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og tryggja að nægt húsnæði og gistirými sé til staðar sem og viðeigandi stuðningur, þannig að ekki sé beðið til lengdar. Lengi vel hefur ekki verið til nægt húsnæði og mikilvægt er að byggt sé út frá þörfum þeirra sem bíða eftir öruggu húsaskjóli. Þá er mikilvægt að hægt sé að aðlaga stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir og aðgerðaáætlun hennar ef þörf er á. Það þarf að hlusta á raddir þeirra sem hafa beina reynslu af vinnunni og af þjónustunni þegar stefnumótun er gerð. Á sama tíma og það er mikilvægt að ríkið móti stefnu í þessum málaflokki og að önnur sveitarfélög standi sig gagnvart sínum íbúum með uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði og viðeigandi stuðningi, þá getur Reykjavíkurborg ekki skotist undan sinni ábyrgð gagnvart þeim sem eru heimilislausir og þurfa á aðstoð að halda.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt árið 2019 en aðgerðaáætlunin með henni fór síðan tveimur árum síðar í endurskoðun. Margt hefur áunnist svo sannarlega, 29 aðgerðum er lokið. Fimm eru í ferli. Flokkur fólksins vísaði tveimur tillögum til stýrihópsins, annarri um aukinn opnunartíma neyðarskýla. Flokkur fólksins lagði líka til að bæta og efla heilbrigðisþjónustu við þennan hóp. Í kjölfar samtals við ríki samþykkti ráðuneytið að ráðstafa 30 m.kr. til að tryggja heimilislausu fólki betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Það er verkefni að fá önnur sveitarfélög til að sinna þessum málum. Fólk sem er heimilislaust með miklar og flóknar þjónustuþarfir er jaðarsett í okkar samfélagi og er það skylda okkar sem samfélag að hið opinbera ríki og öll sveitarfélög taki höndum saman um að koma í veg fyrir að fólk lendi í þessum aðstæðum og samþykkja viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skal við heimilisleysi. Nú þurfa önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að setja fram áætlanir um viðbrögð við heimilisleysi einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem hafa lögheimili utan Reykjavíkur en sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis sveitarfélaganna til úrbóta.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er mikið gleðiefni að borgin samþykki uppfærða aðgerðaáætlun ásamt stefnu í málefnum heimilislausra á grunni góðrar vinnu sem unnin hefur verið í mikilli sátt og þverpólitískt. Borgin er í skuld í þessum málaflokki, þótt jákvæð skref hafi verið tekin á síðustu árum. Nái áætlunin fram að ganga má vænta þess að staðan verði mun betri í náinni framtíð. Þá er mikilvægt að tryggja fjármögnun aðgerða og að þeim sé fylgt af alvöru og einurð og að samtal sveitarfélaganna við ríkið um samþættingu þjónustu fari fram sem fyrst, eins og mælt er með í stefnumótuninni.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli.

    -     Kl. 14:45 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Stefán Pálsson víkur af fundi. MSS22030087

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg ber skylda til að tryggja fullnægjandi flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll. Hins vegar blasir við að illa hefur verið haldið á málum af hálfu borgarinnar er varðar hvernig trjágróður í Öskjuhlíð ógnar því öryggi. Þrátt fyrir að hafa fengið margar viðvaranir og fresti á fresti ofan frá samgönguyfirvöldum hafa borgaryfirvöld dregið fæturnar í viðbrögðum. Óumdeilt er að hár trjágróður í vestanverðri Öskjuhlíð hefur neikvæð áhrif á aðstæður við Reykjavíkurflugvöll og stefnir flugöryggi í hættu. Samgöngustofa og Isavia hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum af þeirri öryggisógn sem stafar af trjánum. Bent hefur verið á að trjágróður fari upp í lögbundinn hindrunarflöt, sem alþjóðaflugreglur kveða á um að eigi að vera frír í öryggisskyni. Nú er svo komið að Isavia sér ekki annað í stöðunni en að loka flugbraut vegna þessa. Rétt er að geta þess að trén voru gróðursett af starfsmönnum flugmálastjórnar fyrir fjölda ára og tilvalið að nýta tækifærið til að gróðursetja aðrar og fleiri trjátegundir. Það er pólitísk ákvörðun meirihluta Framsóknarflokksins, Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar að sýna af sér skeytingarleysi í málinu og þrengja þannig enn frekar en orðið er að Reykjavíkurflugvelli á kostnað allra þeirra sem um hann fara. Sjúkraflug og öryggi sjúklinga á landsbyggðinni mega ekki sæta afgangi.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar og það er því mikið áhyggjuefni að flugbraut hafi verið lokað tímabundið. Meirihluti SBPC telur afar alvarlegt ef sjúkraflug raskast og því brýnt að opna flugbrautina aftur. Reykjavíkurborg óskaði þann 11. janúar eftir skýru erindi frá Samgöngustofu um hvernig borgin gæti mætt óskum Samgöngustofu um fellingu trjáa og á hvaða lagagrunni sú krafa byggði. Samgöngustofa hefur svarað því erindi og óskar þess að Reykjavíkurborg geri aðgerðaáætlun í samvinnu við rekstraraðila flugvallarins um trjáfellingar þar sem horfa megi til VSS flatar í stað þess að fella nær öll tré á fimm hekturum. Það er fagnaðarefni og í samræmi við sjónarmið borgarinnar um að mikilvægt sé að gæta meðalhófs varðandi trjáfellingar. Viðbrögð meirihlutans eru að lýsa yfir skýrum vilja til að tryggja flugöryggi og rekstrarhæfi flugvallarins, samhliða því að standa vörð um þau verðmæti sem felast í einu vinsælasta útivistarsvæði í borgarlandinu.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Umræða um flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli í tengslum við kröfu Isavia um að Reykjavíkurborg felli stóran fjölda hárra trjáa í Öskjuhlíð sem metin eru að ógni flugöryggi. Verði ekki brugðist við muni þurfa að loka annarri flugbrautinni. Flokkur fólksins telur að bregðast þurfi við þessu. Fátt annað er hægt að gera en að fjarlægja þessi háu tré. Setja má niður þess í stað lægri tré og trjágróður eins og t.d. lauftré eða birki, reynivið, selju, hlyn og gullregn. Allar tegundir koma til greina sem ekki vaxa beint upp heldur líka til hliðar sem gerir það að verkum að auðvelt er að hindra hækkun þeirra sem ekki er hægt að gera þegar um sitkagreni er að ræða. Mörgum þykir þetta miður en flugöryggi verður ávallt að ganga fyrir. Fram kemur í erindinu frá Isavia að í undangengnu samkomulagi milli ríkis og borgar um framtíð og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hefur verið ákvæði um að fara þurfi í trjáfellingar í Öskjuhlíð en Reykjavíkurborg hefur aðeins framkvæmt lítinn hluta af því verkefni. Nú er svo komið að trjágróður í Öskjuhlíð er farinn að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13 og ekki er hægt að una við það.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna telur kröfur Isavia um fjöldafellingu trjáa í Öskjuhlíð vanreifaða og illa rökstudda. Brýnt er að borgaryfirvöld standi í lappirnar í máli þessu og verji borgarskóginn í Öskjuhlíð. Jafnframt er minnt á fyrri tillögur hreyfingarinnar um tafarlausan flutning einkaþotuflugs, þyrluflugs og æfingaflugs frá Reykjavík til Keflavíkur.

  3. Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Borgarstjórn lýsir yfir mikilvægi þess að bæta upplýsingagjöf til húsnæðiskaupenda, sér í lagi um fyrirliggjandi uppbyggingaráform í nærliggjandi byggð. Skorað er á yfirvöld að skerpa á þessari skyldu. Of oft eru væntingar skapaðar við sölu eigna um nýtingu gæða sem líklegt getur talist að seljendum sé vel kunnugt um að muni ekki fylgja eigninni nema til skamms tíma. Upplýsingarétt kaupenda sem og réttarstöðu við svo umfangsmikil kaup sem íbúðakaup jafnan eru þarf almennt að tryggja betur.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    -     Kl. 15:26 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Helgi Áss Grétarsson tekur þar sæti. MSS25010127

    Fylgigögn

  4. Lögð fram aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2028, ásamt fylgiskjölum, sbr. 2. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar.

    -    Kl. 16:05 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur þar sæti.

    Samþykkt. MSS24060082

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ofbeldi er alvarlegt samfélagsmein. Sósíalistar vilja ítreka það að rannsóknir sýna að samfélög ójöfnuðar eru líka ofbeldisfyllri samfélög, bæði í samhengi nærsamfélagsins sem og á sviði þjóðfélagsins alls. Það þarf að hafa í huga í stefnu af þessum toga. Það er mikilvægt að auglýsa vel hvert leita má fyrir viðeigandi aðstoð vegna ofbeldismála og að það eigi við um alla: Þolendur ofbeldis, vitni að ofbeldi, fagfólk sem vinnur að stuðningi við þolendur, eða gerendur og aðstandendur þeirra. Húsnæði eða efnahagur má ekki vera ráðandi þáttur í að fólk festist í ofbeldisaðstæðum. Það þarf einnig að stuðla að því meðal viðbragðsaðila og í samfélaginu almennt að tekið sé mark á vitnisburði þolenda og að þeim sé sýnd nærgætni. Við Sósíalistar leggjum ríka áherslu á að hið opinbera, og stofnanir þess, þurfi sjálft að ganga fram af fyllstu virðingu gagnvart öllum og fara ekki fram með ofbeldisfullum hætti gegn neinum, sérstaklega ekki fólki í viðkvæmri stöðu. Við vörum við vopnavæðingu lögreglu og eftirlits- og hræðsluvæðingu samfélagsins. Tilhneiging ráðamanna til að vilja skipa fólki í virðingarstiga eftir þjóðfélagslegri stöðu þess má ekki líðast. Skjólstæðingar skulu ávallt njóta vafans gagnvart þeim sem gegna valdastöðu og sé ekki gert að vera undir umsjá mögulegra gerenda.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ef aðgerðaáætlun á að vera skilvirk og árangursrík þarf hún að byggja á góðri og málefnalegri stefnu. Sá málaflokkur sem hér um ræðir er einn sá mikilvægasti í okkar samfélagi nú. Áhyggjur eru af vaxandi ofbeldi, ekki síst meðal ungmenna. Nýlega lagði borgarfulltrúi fram tillögu um að borgarráð samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs og -sviðs að það hefji endurskoðun á eineltisstefnu og viðbrögðum grunnskóla Reykjavíkurborgar við einelti og öðru ofbeldi. Í endurskoðuninni skal huga að því að tímabært er að auka eftirlit utan skólastofunnar í grunnskólum borgarinnar, svo sem á göngum, salernum og jafnvel einnig í útiveru. Tillagan er lögð fram að gefnu tilefni. Ítrekað hafa komið upp atvik þar sem börn hafa orðið fyrir aðkasti, áreiti, áreitni og jafnvel grófu ofbeldi, t.d. inni á salernum skóla borgarinnar. Skólar borgarinnar þurfa aukinn stuðning frá borgaryfirvöldum til að takast á við vaxandi ofbeldi innan skóla borgarinnar. Spyrna þarf fótum við þessari vá hið snarasta. Áhyggjur eru einnig af vaxandi ofbeldi meðal eldra fólks. Borgarstjórn getur gert almennt betur í að greina hvað betur má fara og hvar og í framhaldi setja á laggirnar skilvirka aðgerðaáætlun.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um  hvernig leysa á mál vöruskemmunnar við Álfabakka.

    -     Kl. 16:40 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

    -     Kl. 17:15 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundinum og Birna Hafstein tekur þar sæti. USK24120135

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt og skrifað um skemmuna í Álfabakka sem reis á skömmum tíma í miðju íbúðahverfi, næst við íþróttavöll barna. Í skemmunni á m.a. að starfrækja kjötvinnslu sem samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur. Staðfest hefur verið að lóðin sé þjónustu- og verslunarlóð. Út um glugga hluta Búsetablokkar sem þarna stendur blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur. Í þessum skrifuðu orðum eru framkvæmdir skemmunnar í fullu gangi. Því meira byggingarefni sem sett er í skemmuna því dýrari verða breytingar. Ef ekki stendur til að rífa skemmuna þarf að gjörbreyta henni, lækka t.d. verulega norðurhlutann sem skyggir á útsýni í Búsetablokkinni. Þar er einnig innkeyrsla með tilheyrandi mengun og slysahættu. Aðrar hugmyndir snúa að umhverfinu og Búsetablokkinni og eru það hugmyndir sem aldrei munu geta talist fullnægjandi. Ákall er um að skemman verði rifin og flutt annað. Örskamman tíma tók að setja húsið saman enda er um forsmíðaðar einingar að ræða. Niðurrif ætti einnig að geta gengið hratt fyrir sig. Borgin ber mestu ábyrgðina á þessari hörmung en þeir sem hönnuðu og settu upp húsið bera einnig mikla ábyrgð. Þeir einir vissu hvernig húsið myndi líta út.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Brýnt er að leita lausna á því skipulagsslysi sem blasir við landsmönnum að lóðinni að Álfabakka 2a, Suður-Mjódd. Á fjölmennum íbúafundi sem haldinn var 16. janúar síðastliðinn af félagi Sjálfstæðismanna í Skóga- og Seljahverfi ályktaði fundurinn „að vöruhúsið sem er að rísa við Álfabakka 2a verði fjarlægt“. Þessi vilji íbúa á ekki að koma neinum á óvart en kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja á það áherslu að málið sé leyst eins skjótt og örugglega og kostur er. Jafnframt að íbúar að Árskógum 5-7 fái beina aðkomu að þeim mögulegum lausnum sem til greina koma.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Í þessu tilfelli er nauðsynlegt að taka afstöðu með vilja íbúanna.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt er til að ábendingavefur borgarinnar verði auglýstur með það að markmiði að leitast við að fá inn ábendingar íbúa um það sem megi bæta í þjónustu borgarinnar. Eða ef það er eitthvað sérstaklega jákvætt sem mætti auka. Markmiðið verði að senda út skilaboð um að borgarstjórn vilji heyra frá borgarbúum og auglýsa vel hvernig megi koma skilaboðum áleiðis. Síðan verði unnið skipulega úr þeim athugasemdum sem berast svo að borgarfulltrúar geti kynnt sér þær. Á sama tíma verði auglýst vel hvernig megi koma ábendingum áleiðis bréfleiðis ef viðkomandi kýs slíkt fram yfir rafrænar lausnir. Lagt er til að um verði að ræða sérstakt átak sem standi fyrst um sinn yfir í mánuð, t.a.m. að auglýst verði vel fyrir febrúarmánuð að verkefnið sé að fara í gang og ábendingum safnað saman þegar mánuðurinn hefur runnið sitt skeið. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu og þjónustu- og nýsköpunarsviði verði falið að halda utan um verkefnið og meta hvernig best sé að auglýsa það. Auglýsingar um verkefnið og notendaviðmótið verði á nokkrum tungumálum. Ábyrgðarsviðum verði falið að meta hvort nýta eigi núverandi ábendingavef borgarinnar eða hvort þörf sé á öðru kerfi til að taka á móti ábendingum. MSS25010128

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er um að ræða afbragðs tillögu. Það er tilvalið að auglýsa ábendingagáttina að lokinni uppfærslu sem er í gangi og hvetja íbúa og starfsfólk til að koma með ábendingar og hugmyndir um hvað megi betur fara, hverju sé ofaukið eða koma með hugmyndir um ný verkefni sem þau vilja benda okkur á að innleiða í þjónustu. Þá er líka gagnlegt að heyra um það sem fólk er ánægt með og vill hafa áfram, eða útvíkka, ekki síst svo að við vitum hverju fólk vill ekki láta hliðra frá til að rýma fyrir nýjum hugmyndum. Með þessum hætti fáum við bæði hugmyndir og tillögur frá íbúum að úrbótum og spennandi verkefnum og kynnum í leiðinni ábendingavefinn fyrir fólki og gerum auðveldara og aðgengilegra að nýta hann í framtíðinni.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins hefur alla tíð viljað meira samtal og samráð á milli íbúa og borgaryfirvalda og því styður Flokkur fólksins þessa tillögu að kalla eftir ábendingum frá borgarbúum um hvernig bæta megi þjónustu borgarinnar. Það hlýtur að vera gagnlegt fyrir borgarstjórn að fá ábendingar frá íbúum um hvað betur megi fara í borginni. Undanfarin ár hefur borgarstjórn hunsað gagnrýni borgarbúa sem hafa birst með ýmsum hætti. Það er gagnlegt að koma þessum ábendingum í ákveðinn farveg og vonandi vill borgarstjórn heyra frá borgarbúum.

    Fylgigögn

  7. Umræðu um bílastæði í borginni er frestað. MSS25010129

  8. Samþykkt að taka tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna um samnýtingu sundkorta sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar 7. janúar á dagskrá.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  9. Lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir taki sæti í borgarráði í stað Dags B. Eggertssonar. Jafnframt er lagt til að Skúli Þór Helgason taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Heiðu Bjargar Hilmisdóttur. Jafnframt er lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir verði formaður ráðsins.
    Samþykkt. MSS22060043

    Fylgigögn

  10. Lagt til að Guðný Maja Riba og Einar Sveinbjörn Guðmundsson taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Sabine Leskopf og Helgu Þórðardóttur. Jafnframt er lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns og Helga Þórðardóttir taki sæti sem varafulltrúar í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur.
    Samþykkt. MSS22060044

  11. Lagt til að Tinna Helgadóttir taki sæti sem varafulltrúi í stafrænu ráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060158

  12. Lagt til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í umhverfis- og skipulagsráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060046

  13. Lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns og Einar Sveinbjörn Guðmundsson taki sæti sem varafulltrúar í velferðarráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur.
    Samþykkt. MSS22060049

  14. Lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur og að Tinna Helgadóttir taki sæti sem varafulltrúi í stað Oktavíu. Jafnframt er lagt til að Unnur Þöll Benediktsdóttir verði formaður nefndarinnar.
    Samþykkt. MSS22060053

  15. Lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti í heilbrigðisnefnd í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Tinna Helgadóttir og Róbert Aron Magnússon taki sæti sem varafulltrúar í ráðinu í stað Oktavíu og Egils Þórs Jónssonar.
    Samþykkt. 

  16. Lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti sem varafulltrúi í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060064

  17. Lagt til að Alexandra Briem taki sæti sem varafulltrúi í íbúaráði Breiðholts í stað Elísabetar Guðrúnar Jónsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060056

  18. Lagt til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti í íbúaráði Kjalarness í stað Egils Þórs Jónssonar.
    Samþykkt. MSS22060060

  19. Lagt til að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti sem varafulltrúi í íbúaráði Vesturbæjar í stað Rögnu Sigurðardóttur.
    Samþykkt. MSS22060063

  20. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. janúar 2025 og 16. janúar 2025.
    21. liður fundargerðarinnar frá 16. janúar, skipurit skóla- og frístundasviðs er samþykkt með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010002

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill sérstaklega vekja athygli á tillögu sem flokkurinn lagði fram í borgarráði 16. janúar og laut að eineltisstefnu í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Lagt var til að borgarráð samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs að hefja endurskoðun á eineltisstefnu og viðbrögðum grunnskóla Reykjavíkurborgar við einelti og öðru ofbeldi. Í endurskoðuninni skal huga að því að tímabært er að auka eftirlit utan skólastofunnar í grunnskólum borgarinnar, svo sem á göngum, salernum og jafnvel einnig í útiveru. Ítrekað hafa komið upp atvik þar sem börn hafa orðið fyrir aðkasti, áreiti, áreitni og jafnvel grófu ofbeldi t.d. inni á salernum skóla borgarinnar. Þetta hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins fengið upplýsingar um. Skólar borgarinnar þurfa aukinn stuðning frá borgaryfirvöldum til að takast á við vaxandi ofbeldi innan sumra skóla borgarinnar. Spyrna þarf fótum við þessari vá hið snarasta. Kalla þarf eftir upplýsingum frá foreldum og samvinnu við foreldrasamfélagið um þessi mál, þróun og lausnir.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 17. janúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. desember 2024, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 13. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. janúar og velferðarráðs frá 15. janúar.
    4. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar, reglur um borgaraþing, er samþykktur.
    9. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar, lausnarbeiðni Dags B. Eggertssonar, er samþykktur.
    10. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar, lausnarbeiðni Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur, er samþykktur.
    11. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar, lausnarbeiðni Rögnu Sigurðardóttur, er samþykktur. MSS25010033

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar forsætisnefndar:

    Ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins, var kjörin til setu á Alþingi 30. nóvember sl. Undir þessum lið um lausnarbeiðni vil ég nota tækifærið og þakka borgarstjórn, starfsfólki Ráðhússins og Borgartúns samstarfið. Ég vil einnig þakka öllum þeim borgarbúum og öðrum sem ég hef átt samskipti við í þau tæpu sjö ár sem ég hef verið oddviti og borgarfulltrúi í Reykjavík. Starfið hefur verið lærdómsríkt og ríkt af krefjandi verkefnum. Ég hef lagt mig alla fram í starfi mínu sem borgarfulltrúi og vona að verk mín og verkefni hafi nýst borgarbúum og Reykjavíkurborg til góðs. Ég fer frá borði rík af reynslu og þekkingu og er full tilhlökkunar að takast á við nýtt starf á sviði landsmála. Reynsla mín sem borgarfulltrúi mun án efa nýtast mér vel á nýjum vettvangi. Ég vil óska borgarstjórn velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún tekst á við um þessar mundir og öðrum sem koma. Sem Reykvíkingur í húð og hár mun ég sem fyrr ávallt bera hag borgarinnar og borgarbúa fyrir brjósti. Ég vil að lokum óska arftaka mínum Helgu Þórðardóttur velfarnaðar í nýju hlutverki hennar sem oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:59

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 22. janúar 2025 - Prentvæn útgáfa