Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 21. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sara Björg Sigurðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Fram fer umræða um borgarhönnunarstefnu Reykjavíkur. USK22100027
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru tímamót að kynna loksins fyrstu borgarhönnunarstefnu Reykjavíkur sem er nú í samráðsgátt. Við fögnum þessu skrefi. Stefnan er sett fram til að bæta gæði í uppbyggingu og stuðla að grænna og heilnæmara umhverfi fyrir íbúa Reykjavíkur. Lögð er rík áhersla á hvernig byggingar mæta umhverfi sínu og skapa þar með ramma í kringum almenningsrýmin í borginni. Sömuleiðis á birtu, hljóðvist og áhrif borgarhönnunar á umhverfi sitt. Markmiðið er að uppbygging og þróun borgarinnar stuðli að vellíðan íbúa og að þróunin sé á þeirra forsendum. Jafnframt getur stefnan stutt við aukna skilvirkni í skipulagsgerð með meiri skýrleika.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Ótímabært er að ræða borgarhönnunarstefnu þar sem samráði við íbúa er ekki lokið. Meirihlutinn leikur sér að því að fylla dagskrá borgarstjórnar með málum sem ótímabært er að ræða og kemur þannig í veg fyrir að umræða, sem byggð er á gögnum sem von er á úr samráðinu, fari fram um málið.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fundarsköp borgarstjórnar gera ráð fyrir tveimur umræðum um meiriháttar stefnumörkun og er fyrri umræðu nú lokið í takt við það.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um skýrslu Innri endurskoðunar og ráðgjafar á samningaviðræðum Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa bensínstöðvalóða. IER25100003
- Kl. 13:08 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum og Björn Gíslason víkur af fundi.
- Kl. 14:30 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Sanda Hlíf Ocares tekur sæti.Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar kemur fram að þau markmið sem sett voru í upphafi um sjálfbæra þróun og fjölgun húsnæðis í Reykjavík hafi verið málefnaleg og í samræmi við skipulagsstefnu Reykjavíkur. Borgarráð tók í upphafi ákvarðanir á grundvelli fullnægjandi upplýsinga og skilgreindra markmiða sem borgarráð samþykkti sameiginlega þvert á alla flokka að skerpa á. Engin merki eru um brot á jafnræðisreglu eða ríkisaðstoð og að forminu til var samningsgerð lögmæt. Í framsetningu meginmarkmiðanna voru þó veikleikar að mati innri endurskoðunar og hefði átt að taka fleiri sjónarmið til skoðunar en gert var. Í skýrslunni koma fram tólf umbótatillögur sem borgarráð hefur vísað til viðeigandi sviða til að tryggja í framhaldinu gagnsæja og bætta stjórnsýslu. Eftir stendur að rammasamningarnir og samningaviðræðurnar um bensínstöðvalóðir voru og eru mikilvæg pólitísk aðgerð og sýn í ljósi áskorana í loftslagsmálum, markmiða um orkuskipti í samgöngum, skipulagningar sjálfbærrar byggðar og fjölgunar íbúðarhúsnæðis á dýrmætum lóðum þar sem bensínstöðvar hafa verið um áratugaskeið.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrir liggur ítarleg úttekt Innri endurskoðunar og ráðgjafar á samningaviðræðum borgarinnar við olíufélögin um bensínstöðvalóðir. Í skýrslunni kemur fram að árið 2019 hafi verið búið að vinna faglega vinnu til að undirbúa samningaviðræðurnar og þverpólitísk sátt hafi verið um að í stað bensínstöðva skyldi rísa húsnæði fyrir íbúa og eftir atvikum atvinnulíf. Hins vegar voru mistök gerð við sjálfa samningsgerðina á árunum 2021 og 2022. Þannig skorti verulega á að vandað væri til verka að greina lagalega og hagræna þætti samningsgerðarinnar ásamt því að upplýsingagjöf til bæði borgarráðs og skipulagsráðs var ábótavant. Mistök af þessu tagi hafa leitt til þeirrar áhættu að viðsemjendur borgarinnar, olíufélögin, hafi fengið of hagstæð kjör, sem kunna að brjóta í bága við ýmsar réttarreglur, svo sem eins og um ríkisaðstoð, jafnræði og samkeppni. Hagsmunir borgarinnar voru því ekki nægilega vel tryggðir og málið í heild vekur upp áleitnar spurningar um heilindi stjórnsýslu borgarinnar. Óheppilegt er að málið hafi þá ásýnd að borgin hafi afhent öflugum rekstraraðilum mikil fjárhagsleg verðmæti á silfurfati. Með hliðsjón af öllu þessu er mikilvægt að úrbótatillögum Innri endurskoðunar og ráðgjafar verði fylgt eftir án tafar.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samningarnir um bensínstöðvalóðirnar voru gerðir á síðasta kjörtímabili og Framsókn kom ekki að þeim en Framsókn studdi eindregið að að innri endurskoðandi réðist í þessa úttekt. Borgarfulltrúar Framsóknar þakka fyrir góða úttekt á málinu en telja mikilvægt að taka ábendingar innri endurskoðanda föstum tökum og tryggja vandaðri vinnubrögð í framtíðinni. Við lestur úttektarinnar kemur skýrt fram að áhættumeta hefði þurft þá ákvörðun að gera samninga við olíufélögin út frá heildarhagsmunum borgarinnar en ekki einvörðungu út frá markmiðum í loftslagsmálum. Þá bendir innri endurskoðandi á að meta hefði átt lagalega áhættu borgarinnar gagnvart nýjum uppbyggingarsamningum sem gátu falið í sér veruleg verðmæti út frá álitaefnum um jafnræði, ríkisaðstoð og samkeppni. Rétt er að sú úttekt verði gerð af annað hvort ESA eða óháðum aðilum utan borgarkerfisins. Þá bendir innri endurskoðandi á að borgin hafi ekki fylgt eigin leikreglum samkvæmt samningunum varðandi tímafresti. Brýnt er að leiða til lykta úrbótatillögur innri endurskoðanda enda eru til meðferðar í stjórnsýslu borgarinnar uppbyggingaráform á grundvelli þessara samninga. Leitt er að sjá hvernig meirihlutinn hleypur í vörn fyrir eigin verk og gefur þannig lítið fyrir ábendingar embættis innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sósíalistaflokksins telja það jákvætt að bensínstöðvum fækki í borgarlandinu og að íbúðir og atvinnuhúsnæði rísi á lóðunum en hafa gagnrýnt fyrirkomulagið í kringum fyrirhugaða íbúðauppbyggingu þar sem olíufélög geta fengið mikinn fjárhagslegan hagnað vegna íbúðauppbyggingar. Hvað þetta varðar þá fagna fulltrúar Sósíalista sérstaklega þeirri áherslu í umbótatillögum innri endurskoðanda sem snýr að því að rétt sé að mæla fyrir um í reglum borgarinnar að framkvæma eigi „hagrænt og fjárhagslegt mat á því hvaða verðmæti eru látin í té þegar samið er við lóðarhafa um aukna uppbyggingu á lóð [...]“.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar þakkar innri endurskoðun fyrir góða skýrslu og fagnar því að borgarstjórn hafi látið vinna skýrslu um málið og taki þannig af allan vafa um lögmæti vinnunnar. Bent er á að ýmislegt mátti betur fara og snýr það mest að skilgreiningum og betri skýrleika ásamt því að gera betur hvað varðar umgjörð upplýsinga. Einnig fagnar borgarfulltrúi Viðreisnar umbótatillögum innri endurskoðunar og áherslu á utanaðkomandi ráðgjöf og utanumhald. Stór verkefni krefjast góðs utanumhalds og skýrleika og mikilvægt að borgin stilli framtíðarverkefnum þannig upp að um þau sé myndað öflugt teymi sem hefur bjargir hvað varðar stjórn, ráðgjöf og stuðning. Einnig þarf að tryggja gagnsæi og góða stjórnarhætti slíkra teyma eða samninganefnda. Ljóst er að margar umbótatillögur liggja nú fyrir er þar m.a. bent á að lagalegar greininga á mögulegri ívilnun voru ekki gerðar og þarf sannarlega að útkljá það. Það er ljóst að markmið um fækkun bensínstöðva er metnaðarfullt og óumdeild. Það er hins vegar mikilvægt að borgin kortleggi og greini verkefni af slíkri stærðargráðu vel, geri áhættugreiningar og stöðu- og kostnaðargreiningar. Borgin getur þar lært af atvinnulífi því það er alveg ljóst að eigendur olíufélagana fóru í slíka vinnu. Ljóst er að nú þarf að fara í lagalega greiningu á verkefninu og styður borgarfulltrúi Viðreisnar að farið verði í slíka vinnu.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að láta framkvæma skoðanakönnun meðal fólks á barneignaaldri í Reykjavík á þeim leiðum sem það óskar helst til að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla eða daggæslu. Markmið rannsóknarinnar verði að kanna með hvaða hætti getur reynst unnt að mæta fjölbreyttum þörfum barnafjölskyldna í Reykjavík. Jafnframt verði rannsakað hverjir hafa borið byrðarnar undanfarin ár af bæði umönnunarbilinu og þeim þjónustubresti sem reglulega kemur upp á leikskólastiginu. Leitað verði atbeina Félagsvísindastofnunar við framkvæmd könnunar og ráðgjafar óskað um bestu útfærslur hennar.
Samþykkt að vísa tillögunni til skóla- og frístundaráðs. MSS25100126.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar styðja að þessi könnun verði gerð. Þá kemur væntanlega í ljós sá stuðningur sem Framsókn finnur hjá borgarbúum um að brúa bilið með fjölbreyttum leiðum. Þar má nefna vinnustaðaleikskóla, eflingu dagforeldrakerfisins, þróun nýs daggæsluúrræðis með vinnustöðum og heimgreiðslur.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela velferðarsviði, í samstarfi við menningar- og íþróttasvið og skóla- og frístundasvið, að útfæra aðgerðir til að að auka virkni og stuðning við einstaklinga á aldrinum 16-29 ára sem eru ekki í námi, vinnu eða virkni (svokallaðan NEET-hóp). Einnig er lagt til að skóla- og frístundasviði, í samstarfi við velferðarsvið, verði falið að útfæra farsældarsamninga við foreldra/forsjáraðila barna sem eru að klára 10. bekk í grunnskólum Reykjavíkur með það að markmiði að auka samstarf borgarinnar við framhaldsskóla og bregðast við brottfalli úr framhaldsskólum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl 16:37 víkur Einar Þorsteinsson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti.
- Kl. 17:03 víkur Andrea Helgadóttir af fundinum Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir tekur sæti.
- Kl. 17:07 víkur Sabine Leskopf af fundinum og Ellen J. Calmon tekur sæti.
- Kl. 17:15 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Atli Guðjónsson tekur sæti.Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. MSS25100127
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt minnisblaði velferðarsviðs frá 6. desember 2023 má gera ráð fyrir að um 1.500 einstaklingar á aldrinum 16–29 ára í Reykjavík séu ekki í námi, vinnu eða virkni (eða í svokölluðum NEET-hóp). Það er brýnt að Reykjavíkurborg ráðist í framsæknar og markvissar aðgerðir til að styðja við þennan hóp og auka virkni hans. Lykilatriði er að efla forvarnir og stuðning innan grunn- og framhaldsskóla til að koma í veg fyrir að ungmenni falli úr námi og verði hluti af þessum hópi. Farsældarsamningar bjóða upp á aukið samstarf milli borgarinnar og framhaldsskólanna, sem mikilvægt er að nýta til að bregðast við brottfalli og tryggja samfellu í þjónustu við ungmenni. Reykjavíkurborg þarf að leggja sérstaka áherslu á samþætta þjónustu til að grípa ungmenni sem detta úr virkni og hjálpa þeim aftur af stað út í lífið og yfir þá þröskulda sem geta orðið á vegi þeirra.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:
Lagt er til að tekið verði upp sameiginlegt sundkort fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Lagt er til að unnið verði á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að því að koma á sameiginlegu sundkorti fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þannig geti íbúar nýtt sundkort og árskort sem þau kaupa í sinni hverfislaug í öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt myndi fela í sér mikinn sveigjanleika fyrir íbúa alls svæðisins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 17:30 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25100128.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn í Reykjavík leggur í dag fram tillögu í borgarstjórn sem miðar að því að bæta þjónustu við alla íbúa höfuðborgarsvæðisins, án þess að það hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Tillagan er einföld í framkvæmd, en gæti haft veruleg áhrif á daglegt líf mörg þúsund íbúa. Hún felur í sér að allir íbúar á höfuðborgarsvæðinu geti notað sundkortin sín, árskort eða aðgangskort, í hvaða sundlaug sem er, óháð sveitarfélagsmörkum. Með öðrum orðum: Sameiginlegt sundkort fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Næsta skref að hefja formlegt samtal við nágrannasveitarfélögin á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að koma á slíku sameiginlegu korti. Þetta er hvorki flókin né dýr tillaga, heldur málefnaleg leið til að auka gæði þjónustu, samnýta innviði og auðvelda fólki að nýta þá fjölbreyttu sundmenningu sem svæðið býður upp á.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Stafrænt borgarkort Reykjavíkurborgar fyrir sundlaugar, Ylströndina og Fjölskyldu- og húsdýragarðinn er í fullri vinnslu líkt og kemur fram í fundargerðum stafræns ráðs og menningar- og íþróttaráðs á þessu kjörtímabili. Fyrsti fasi stafræna borgarkortsins er áætlaður árið 2026, en sú innleiðing er nauðsynlegt fyrsta skref áður en aðrir hagaðilar eru dregnir þéttar að borðinu. Gott samtal hefur verið undanfarin ár við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um samstarf fyrir næsta fasa til að innleiða stafræna borgarkortið víðar innan höfuðborgarsvæðisins. Það felast mörg tækifæri í aukinni samvinnu og heildrænni þjónustuupplifun gagnvart íbúum og ferðamönnum. Næstu skref felast í áframhaldandi samtali með Markaðsstofunni og Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ef vilji er fyrir því meðal annarra sveitarfélaga að taka upp stafræna borgarkortið til þess efla þjónustu sína gagnvart bæði íbúum og ferðamönnum á höfuðborgarsvæðinu.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn styður tillöguna sem er liður í því að auka þjónustu við sundelskandi borgarbúa. Gagnrýnt er að tillögunni sé vísað frá.
Fylgigögn
-
Umræðu um deiliskipulag Birkimels 1 er frestað. MSS25060118
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sín um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings í Stjörnugróf í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar að Stjörnugróf 18 en lóðarleigusamningur vegna hennar rann út í árslok 2016. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Bústaðahverfi, Fossvogi, Háaleiti og Smáíbúðahverfi.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25090067
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Árið 2008 samþykkti borgarráð samhljóða fyrirheit um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings, sem skyldi verða að veruleika í síðasta lagi eftir að lóðarleigusamningur gróðrarstöðvar í Stjörnugróf rynni út í árslok 2016. Nú eru liðin mörg ár frá því samningurinn rann út, en enn hefur ekki verið staðið við þetta fyrirheit gagnvart félaginu. Málið hefur margoft komið til umræðu á vettvangi borgarstjórnar undanfarin ár, og hafa borgarfulltrúarnir ítrekað hvatt til þess að lausn finnist í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru. Þrátt fyrir það hefur ekkert miðað áfram vegna andstöðu borgarfulltrúa vinstri flokkanna, undir forystu Samfylkingarinnar. Með því að vísa tillögunni frá sýnir meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna ekki einungis Knattspyrnufélaginu Víkingi óvirðingu, heldur einnig íbúum í Fossvogi, Háaleiti og Bústaðahverfi. Rétt og eðlilegt væri að borgarstjórn sýndi skýran vilja til að standa við gefin fyrirheit gagnvart íbúum þessara hverfa og félaginu sjálfu, í stað þess að tefja málið enn og aftur í kerfinu. Mikilvægt er að lausn finnist í sátt við gróðrarstöðina Mörk og að tryggt verði að það land sem íþróttafélagið fær til afnota nýtist fyrst og fremst börnum og unglingum í félaginu.
-
Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090068- Kl. 18:19 víkur Kjartan Magnússon af fundinum og Sif Sigfúsdóttir tekur sæti.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri.
Tillögunni er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090069 -
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. og 16. október 2025.
2. liður fundargerðar borgarráðs frá 16. október, nýtt deiliskipulag, Holtsgata og Brekkustígur, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK25070082. MSS25010002Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. október:
Ný skipulagstillaga felur í sér jákvæðar breytingar sem fela í sér minna byggingarmagn, fækkun íbúða úr 15 í 11, aukinn gróður og greinilegra uppbrot á milli húsanna. Samþykkt er að setja tillöguna í auglýsingu og kalla eftir sjónarmiðum og athugasemdum. Bærinn Sæmundarhlíð stóð líklega þar sem nú er baklóð hússins Holtsgata 12 og nafnið yfirfærðist svo á nýja húsið sem reis við Holtsgötu 10. Heimild er fyrir niðurrifi á húsi við Holtsgötu 10 og niðurrifsheimildin hefur legið fyrir í lengri tíð. Húsið hefur með tímanum verið stækkað og innra fyrirkomulagi þess breytt, ásamt því að gerðar hafa verið veigamiklar útlitsbreytingar sem gera húsið óþekkjanlegt frá upprunalegri mynd. Samkvæmt húsakönnun hefur húsið miðlungs varðveislugildi. Skipulagið hefur verið í vinnslu í 11 ár. Það er ábyrgðarhluti að láta mál velkjast um í lengri tíð og mikilvægt að ljúka þessu máli á faglegum grunni. Skipulagið hefur tekið verulegum breytingum til batnaðar á þessum tíma þar sem mætt hefur verið sjónarmiðum um samfellu í byggðarmynstri sem og sjónarmiðum í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. október 2025:
Hér reyna borgarfulltrúar meirihlutans enn og aftur að rífa eitt af elstu húsum borgarinnar, Sæmundarhlíð, til að byggja 11 íbúða blokk án bílastæða sem kastar stórum skugga á sameiginlegan garð nágrannanna í stað 15 íbúða blokkarinnar sem var fyrst lagt upp með. Húsið lenti í veggjatítlu fyrir 20 árum og á þeim forsendum gerði húsfriðunarnefnd þáverandi ekki athugasemd við niðurrif. Húsið var þó lagað og fólk búið þar síðan. Árið 2021 mat Borgarsögusafn Sæmundarhlíð hafa hátt varðveislugildi í húsakönnun sinni einkum vegna menningarsögulegs gildis sem hluti af elstu byggð á svæðinu. Húsið er arftaki torfbæjar með sama nafni og tilheyrir timburhúsabyggð sem reis í Vesturbænum í upphafi 20. aldar. Saga hússins er því nátengd upphafi og þróun fyrstu byggðar á svæðinu og mikilvægur vitnisburður þeirrar sögu. Sæmundarhlíð er hluti af byggðamynstri sem er eitt af sterkum einkennum Vesturbæjarins og endurspegla þau byggingarskeið eða uppbyggingartímabil sem elstu hverfi borgarinnar hafa gengið í gegnum. Gamli Vesturbærinn nýtur hverfisverndar og verða afar sterk rök að liggja fyrir ef afmá á úr götumyndinni þessi fáu hús sem enn standa frá árdögum borgarinnar. Því ógilti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fyrri deiliskipulagsbreytinguna. Skeytingarleysi borgarstjórnarmeirihlutans gagnvart fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar vekur furðu en varpar ljósi á viðhorfin og vinnubrögðin sem hér líðast.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. október 2025:
Framsókn situr hjá við afgreiðslu málsins og lýsir yfir áhyggjum af því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála muni hafna ákvörðun um þessa uppbyggingu enda hafi húsið og götumyndin sögulegt gildi. Þá eru einnig of fá bílastæði sem fylgja fyrirhugaðri uppbyggingu.
Borgarráðsfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun undir 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. október:
Borgarfulltrúi Viðreisnar lagði fram eftirfarandi tillögu á fundi borgarráðs 16. október 2025. Tillagan er í fimm liðum. 1. Lagt er til að skráning verði tekin upp, í upphafi hverrar annar, um vistunartíma í kringum frídaga s.s. dagana fyrir jól, milli hátíða, í dymbilviku, í vetrarfríum ásamt styttri föstudögum. Sveigjanleiki verði fyrir foreldra að staðfesta vistunartíma með fjögurra vikna fyrirvara. 2. Lagt er til að afsláttur verði fyrir ónýtt pláss í kringum frídaga og styttri föstudaga. Ekki verði aukagjald fyrir foreldra sem þurfa fulla vistun. Afsláttur verði 4000 krónur fyrir hvern skráningardag. Ef enginn skráningardagur er nýttur falli námsgjald niður í maí. 3. Lagt er til að engin breyting verði á vistunartíma eða opnunartíma. 4. Lagt er til að tekið verði upp samræmt skipulag fyrir öll hverfi borgarinnar fyrir vetrarfrí og starfsdaga grunn- og leikskóla. 5. Lagt er til að leikskóladeginum verði skipt upp þannig að starfið í eftirmiðdaginn verði þróað í krakkafrístund, hreyfistund, listastund eða annað skapandi starf með börnum. Tillagan mætir bæði þörfum foreldra og þörfum leikskólanna um bætt starfsumhverfi. Borgarráð afgreiddi tillöguna og vísaði henni til stýrihóps um umgjörð leikskólastarfs til meðferðar.
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 17. október, mannréttindaráðs frá 2. og 16. október, menningar- og íþróttaráðs frá 10. október, skóla- og frístundaráðs frá 6. og 13. október, stafræns ráðs frá 8. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. og 15. október og velferðarráðs frá 15. október. MSS25010033
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. október:
Borgarfulltrúi Viðreisnar mótmælir því harðlega að málum flokksins sé ítrekað frestað á fundum borgarstjórnar. Farið er fram á að staðið verði við samkomulag sem tíðkast hefur undanfarin ár, þ.e. að tillögur allra flokka í minnihluta og mál meirihluta fái afgreiðslu í borgarstjórn. Í gildi hefur verið samkomulag að fundir borgarstjórnar standi ekki lengur en til um kl. 19.00 og að mál og tillögur allra flokka minnihlutans og a.m.k. eitt mál meirihlutans fái afgreiðslu og tíma á fundinum þannig að tryggt sé að allir flokkar fái lýðræðislegt rými í borgarstjórn. Einungis þrír flokkar eru í minnihluta í borgarstjórn og forseta því í lófa lagið að stýra fundi þannig að a.m.k. fjögur mál fái lýðræðislega meðferð á hverjum borgarstjórnarfundi. Á fundi borgarstjórnar 7. október sl. var máli Viðreisnar frestað. Á borgarstjórnarfundi 16. september fór tímaáætlun einnig úr böndunum. Minnihlutaflokkar í borgarstjórn hljóta að gera þá skýlausu kröfu að samkomulag um fundi borgarstjórnar standi hvað varðar afgreiðslu mála og tímaramma funda. Að öðrum kosti mun verða óskað eftir aukafundum samkvæmt 8. og 9. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019 með síðari breytingum.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Borgarstjórn Reykjavíkur er lýðræðislegur vettvangur þar sem allir flokkar geta lagt fram sín mál til umræðu. Áhersla er lögð á að dagskrá funda sé skipulögð með þeim hætti að sem flest mál komist til umræðu og leitast er við að allir flokkar, jafnt í meiri- og minnihluta, komi sínum tillögum til umræðu. Leitast hefur verið við að starfa eftir samkomulagi um að fundir borgarstjórnar standi almennt ekki lengur en til um kl. 19:30 og að efnislegri umræðu um tillögur og umræður á dagskrá ljúki um kl. 18:30, þá taki við umræða um fundargerðir sem eru lagðar fram. Þetta fyrirkomulag hefur verið hluti af stefnu borgarstjórnar um fjölskylduvænan vinnustað.
Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 17. október 2025
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 2. október 2025
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 16. október 2025
- Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 10. október 2025
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 6. október 2025
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. október 2025
- Fundargerð stafræns ráðs frá 8. október 2025
- Fundagerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. október 2025
- Fundagerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. október 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 15. október 2025
Fundi slitið kl. 19:42
Sanna Magdalena Mörtudottir Alexandra Briem
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.10.2025 - Prentvæn útgáfa