Borgarstjórn - Borgarstjórn 21. júní 2022

Borgarstjórn

BORGARSTJÓRN

 

Ár 2022, þriðjudaginn 21. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:05. Voru þá komnir til fundar, auk Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar:  Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Kjartan Magnússon, Kolbrún Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

 

 

Þetta gerðist:

 

 

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að færa málaflokka atvinnumála, nýsköpunar og ferðaþjónustu til forsætisnefndar. Forsætisnefnd er falið að vinna tillögu að breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sem skal lögð fram til fyrri umræðu á fyrsta fundi borgarstjórnar í september.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að færa málaflokk ferðamála undir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð, málaflokk nýsköpunarmála undir stafrænt ráð og að málaflokkur atvinnumála verði áfram undir borgarráði.

 

 

-    Kl. 15:40 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir víkur af fundi.

 

 

Breytingartillagan er felld með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðsluna.

 

 

Tillaga um breytt hlutverk forsætisnefndar er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, og Viðreisnar gegn 8 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðsluna. MSS22060157

 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Hér er verið að raungera það sem fram kemur í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar; „atvinnumál, nýsköpun og ferðaþjónusta heyri undir forsætisnefnd.“

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Reykjavíkurborg er sjálfstætt stjórnvald sem stjórnað er af lýðræðislega kjörinni borgarstjórn í umboði íbúa sveitarfélagsins. Forsætisnefnd hefur því hlutverki að gegna að tryggja vel skipulagða fundi borgarstjórnar, og þar með stuðla að góðum starfsanda. Að sama skapi er það ekki hlutverk forsætisnefndar að taka afstöðu til efnisatriða er varða stjórn Reykjavíkurborgar enda þekkist það vart að nefnd á vegum löggjafarþings, þjóðþings eða stjórnar sveitarfélags, sem sér um fundarstjórn, blandi sér í pólitísk efnisatriði. Það bókast hér með að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn gjalda varhug við því að í störf forsætisnefndar blandist verkefni atvinnulífs, nýsköpunar og ferðamála, sem eru veigamiklir og mikilvægir málaflokkar. Ákjósanlegra væri fyrir málaflokkana að færa þá undir viðeigandi fagráð innan borgarkerfisins.

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Hér er verið að stækka hlutverk forsætisnefndar. Fulltrúar sósíalista telja að betur færi á því að stofna nýtt ráð utan um þau verkefni sem eru talin upp sem eru atvinnumál, ferðaþjónusta og nýsköpun, eða þau ætti að fella inn í núverandi ráð sem sjá um þau verkefni. Verka- og launafólk eru kjarninn í atvinnumálum. Án starfsfólks er engin starfsemi. Það er eðlilegt að það, eða samtök þeirra, hafi aðkomu að ráði þar sem verið er að fjalla um atvinnumál, og eðlilegt að kjaramál þeirra sem starfa beinlínis fyrir borgina verði umfjöllunarefni ráðsins sem og umræða um ásættanlegt launabil innan borgarinnar, stærsta vinnustaðar á landinu. Fulltrúar sósíalista hafa áhyggjur af því að megináherslur ráðsins í atvinnumálum verði litaðar af einfeldningslegri sýn á svokallað „atvinnulíf“ þar sem öll þau sem eiga sér ekkert nema atvinnulíf gleymast. Sósíalistar munu vinna ötullega að því að rödd verka- og láglaunafólks og starfsfólks sem vinnur í borginni og fyrir borgina fái viðeigandi áheyrn í ráðum og nefndum borgarinnar. Varðandi breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins, þá taka Sósíalistar undir mikilvægi þess að málefnin sem eru til umræðu verði til umfjöllunar í viðeigandi ráðum en telja t.a.m. ekki að ferðamál eigi heima í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði.

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Tillagan sem hér um ræðir felur í sér aukið hlutverk forsætisnefndar svo um munar. Nefndin fundar tvisvar í mánuði og á að taka yfir ólíklegustu mál, s.s. atvinnumál og ferðaþjónustu. Ekki er alveg séð hvernig þessi mál falla undir hlutverk forsætisnefndar eins og það var hugsað í grunninn. Þar ægir nú öllu saman, allt frá því að skipuleggja starf borgarstjórnar og fjalla um málefni kjörinna fulltrúa yfir í stóra málaflokka eins og atvinnu- og ferðamál. Nú þegar hlutverk forsætisnefndar hefur verið útvíkkað svo um munar er spurning hvort ekki þurfi að fjölga fundum og breyta nafni nefndarinnar.

 

 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þeirri ákvörðun forseta borgarstjórnar að sameina umræður vegna þriggja dagskrárliða yfirstandandi borgarstjórnarfundar undir einum og sama liðnum. Með þessu var vikið frá útsendri dagskrá, sem leiddi m.a. til þess að ræðutími varð takmarkaðri en ella. Forseti hefur ekki heimild til að ákveða slíka breytingu á dagskrá upp á sitt eindæmi þar eð slíka breytingu á að leggja undir fundinn sem formlega tillögu um breytingu á dagskrá fundarins og bera upp sem afbrigði. Undir umræddum dagskrárliðum stóð til að ræða tillögur um veigamiklar breytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Augljóst er að tilgangur umræddrar dagskrárbreytingar er að lágmarka óþægilegar umræður í borgarstjórn um vinnubrögð nýstofnaðs meirihluta vegna téðra stjórnkerfisbreytinga.

 

 

2.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að sameina málaflokk mannréttinda og ofbeldisvarna í nýju mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði sem tekur við hlutverki ofbeldisvarnarnefndar. Forsætisnefnd er falið að vinna nýja samþykkt fyrir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð í samráði við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu sem skal lögð fram til samþykktar á fyrsta fundi borgarstjórnar í september og kemur í stað gildandi samþykkta mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og ofbeldisvarnarnefndar. Ráðið starfar samkvæmt samþykktum mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráðs og ofbeldisvarnarnefndar þar til ný samþykkt liggur fyrir.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að færa málaflokk mannréttinda undir velferðarráð og halda ofbeldisvarnarnefnd sem sjálfstæðum samráðsvettvangi líkt og áður.

 

 

Breytingartillagan er felld með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðsluna.

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að stofna mannréttindaráð en hafa hlutverk, verkefni og málefni ofbeldisvarnarnefndar í óbreyttri mynd.

 

 

Breytingartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

 

 

Tillaga um stofnun mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðsluna. MSS22060044

 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Hér er verið að raungera það sem fram kemur í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar; „mannréttinda- og ofbeldisvarnarmál verða sameinuð í mannréttindaráði sem taki við hlutverki ofbeldisvarnarnefndar og annist reglulegt samráð um ofbeldismál.“

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að málaflokkur mannréttinda verði færður undir velferðarráð og að ofbeldisvarnarnefnd fái áfram að starfa sem sjálfstæður samráðsvettvangur líkt og áður.

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Fulltrúar sósíalista styðja mikilvægi þess að málefni mannréttinda- og ofbeldisvarna fái aukið vægi í borginni. Við leggjum ásamt öðrum fulltrúum fram breytingartillögu um að borgarstjórn samþykki að stofna mannréttindaráð en að hlutverk, verkefni og málefni ofbeldisvarnarnefndar verði áfram í óbreyttri mynd. Ofbeldisvarnarnefnd eins og hún hefur starfað skipaði fagaðila frá Stígamótum og Samtökum um kvennaathvarf, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og embætti landlæknis. Nú er ofbeldisvarnarnefnd lögð niður, en ógert er að tryggja aðkomu þeirra faglegu samráðsfulltrúa sem áður áttu meirihluta sæta í henni. Sömuleiðis voru heimildir nefndarinnar víðar, afar skýrar og einnig tilgangur hennar.

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Flokkur fólksins hefur áhyggjur af að með þessari breytingu, þ.e. að leggja niður ofbeldisvarnarnefnd og setja málaflokkinn undir mannréttindaráð, áður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð, sé verið að gengisfella málaflokkinn. Málaflokknum um ofbeldi er nánast fórnað fyrir málaflokkinn um stafræna vegferð sem nú fær sitt eigið ráð. Eitthvað þurfti því til að fylla í skarðið í mannréttindaráði og þótti þá greinilega í lagi að smella ofbeldismálunum þar inn. Þessi tilfærsla segir mest um forgangsröðun síðasta og þessa meirihluta. Stafræn umbreyting er sett hærra en ofbeldismálin. Flokkur fólksins álítur að stafrænu málin hafi verið færð í sér ráð til að erfiðara reynist að veita málaflokknum aðhald og eftirlit. Þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur legið undir gagnrýni fyrir að fara með skattfé borgarbúa af lausung ef tekið er mið af nútímakröfum um skilvirkni og aðhald. Enda þótt segi í greinargerð með tillögunni að þeim sem setið hafa í ofbeldisvarnanefndverði verði tryggð aðkoma að störfum hins nýja ráðs þá er það nokkuð annað en að sitja í sérstakri nefnd um ofbeldismál. Ekki kemur fram hvort einhver sérstakur fjárhagslegur ávinningur er af þessari breytingu.

 

 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Það er háð samkomulagi og pólitískri stefnu þeirra flokka sem starfa saman hverju sinni hvar málaflokkar eru staðsettir og hvaða málaflokkar víkja eða hafa meira eða minna vægi. Það má fetta fingur út í margar þær breytingar sem nú eru gerðar á fagráðum og forsætisnefnd en verst er þó sú breyting að leysa upp ofbeldisvarnarnefndina í þeirri mynd sem hún hefur starfað frá upphafi og setja undir mannréttindaráð. Í því felst sú hætta að samtalið við helstu lykilmanneskjur og fagfólk samfélagsins í ofbeldisvarnarmálum týnist í skarkala annarra mála. Fókusinn á þau mál sem helst ættu að vera í brennidepli og eru eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálanna; að útrýma kynbundnu ofbeldi og annars konar ofbeldi, verður óskýr og vinnan ómarkvissari. Borgarfulltrúi Vinstri grænna óttast að þessi tilhögun meirihlutans sé fyrsta merki þess að femínískum málefnum verði ekki gert hátt undir höfði á kjörtímabilinu og er það dapurleg afturför.

 

 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þeirri ákvörðun forseta borgarstjórnar að sameina umræður vegna þriggja dagskrárliða yfirstandandi borgarstjórnarfundar undir einum og sama liðnum. Með þessu var vikið frá útsendri dagskrá, sem leiddi m.a. til þess að ræðutími varð takmarkaðri en ella. Forseti hefur ekki heimild til að ákveða slíka breytingu á dagskrá upp á sitt eindæmi þar eð slíka breytingu á að leggja undir fundinn sem formlega tillögu um breytingu á dagskrá fundarins og bera upp sem afbrigði. Undir umræddum dagskrárliðum stóð til að ræða tillögur um veigamiklar breytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Augljóst er að tilgangur umræddrar dagskrárbreytingar er að lágmarka óþægilegar umræður í borgarstjórn um vinnubrögð nýstofnaðs meirihluta vegna téðra stjórnkerfisbreytinga.

 

 

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að stofna stafrænt ráð Reykjavíkurborgar. Ráðið skal taka við málaflokki stafrænna umbreytinga, þjónustu, lýðræðis- og gagnsæismála auk samfélagslegrar og opinberrar nýsköpunar. Um er að ræða fastanefnd sem verður í flokki I skv. samþykkt um kjör og starfsaðstöðu borgarfulltrúa. Forsætisnefnd er falið að vinna nýja samþykkt fyrir ráðið í samráði við mannréttindaskrifstofu sem skal lögð fram til samþykktar á fyrsta fundi borgarstjórnar í september. Ráðið starfar samkvæmt samþykkt mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs þar til ný samþykkt liggur fyrir.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðsluna. MSS22060158

 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Hér er verið að raungera það sem fram kemur í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar; „málaflokkur stafrænnar umbreytinga og þjónustu verði styrktur með nýju stafrænu ráði sem einnig fer með lýðræðis- og gagnsæismál og samfélagslega og opinbera nýsköpun.“

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks telja rétt að málaflokkur nýsköpunar verði færður undir hið nýstofnaða stafræna ráð.

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Lýðræðismál ættu betur heima í mannréttindaráði vegna þess að þau eiga ekki einungis heima á internetinu. Það að ætla að setja lýðræðismálin einungis undir hatt stafræns ráðs þrengir þá möguleika sem við höfum í ráðinu til þess að tryggja aðkomu fjölbreyttra hópa og stöðu þeirra í lýðræðismálum. Mikilvægt er að hugsa um málefni lýðræðisins á stærri grundvelli en einungis þeirra sem fara fram á stafrænum vettvangi. Margar leiðir standa til boða til að auka aðkomu að lýðræðislegum verkefnum og mikilvægt er að tryggja aðkomu þeirra sem hafa ekki aðgang að stafrænum leiðum. Lýðræði varðar mannréttindi okkar allra og því væri hægt að berjast fyrir þeim rétti inni í mannréttindaráði. Fulltrúar sósíalista munu tala af miklum krafti fyrir lýðræðismálum í þessu nýja stafræna ráði og passa að það séu ekki einungis lagðar áherslur á lýðræðismál í gegnum stafrænar leiðir, svo sem í netheimum. Skoða þarf ólíka stöðu borgarbúa hvað varðar þjónustu, gagnsæis og lýðræðismál.

 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

 

 

Lýðræðismál eru eitt af verkefnum stafræns ráðs, en þar er verkefnið ekki takmarkað við „stafrænt lýðræði“ eða lýðræði á netinu. Það kom skýrt fram í umræðum á fundinum og í þeim gögnum sem fylgdu með tillögunni.

 

 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þeirri ákvörðun forseta borgarstjórnar að sameina umræður vegna þriggja dagskrárliða yfirstandandi borgarstjórnarfundar undir einum og sama liðnum. Með þessu var vikið frá útsendri dagskrá, sem leiddi m.a. til þess að ræðutími varð takmarkaðri en ella. Forseti hefur ekki heimild til að ákveða slíka breytingu á dagskrá upp á sitt eindæmi þar eð slíka breytingu á að leggja undir fundinn sem formlega tillögu um breytingu á dagskrá fundarins og bera upp sem afbrigði. Undir umræddum dagskrárliðum stóð til að ræða tillögur um veigamiklar breytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Augljóst er að tilgangur umræddrar dagskrárbreytingar er að lágmarka óþægilegar umræður í borgarstjórn um vinnubrögð nýstofnaðs meirihluta vegna téðra stjórnkerfisbreytinga.

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Flokkur fólksins furðar sig á að eftir að búið er að tilkynna um skiptingu fulltrúa í ráð og að fyrir liggur að fulltrúi Flokks fólksins muni sitja í mannréttinda- og nýsköpunarráði næsta kjörtímabil er minnihlutinn upplýstur um að málaflokkur stafrænna umbreytinga sé fluttur úr ráðinu í sérstak stafrænt ráð. Finnst meirihlutanum þetta vera heiðarleg vinnubrögð og framkoma gagnvart minnihlutanum? Flokkur fólksins hefur veitt aðhald og haldið uppi gagnrýni á hvernig hluta 13 milljarða hefur nánast verið eytt af lausung og leikaraskap ef tekið er mið af nútímakröfum um skilvirkni. Tugir milljóna hafa streymt í einhverja erlenda ráðgjöf, fjölda tilraunaverkefna, þróunar- og uppgötvunarvinnu á lausnum sem varla teljast brýnar meðan brýnar lausnir eru látnar bíða. Látið er sem borgin reki hugbúnaðarfyrirtæki. Er hægt að álykta sem svo að með stofnun stafræns ráðs sem Flokkur fólksins á ekki aðkomu að sé verið að draga úr möguleika minnihlutafulltrúa að halda uppi málefnalegri gagnrýnni, aðhaldi og eftirliti með hvernig skattfé borgarbúa er varið í þessum málum. Í greinargerð segir að lyfta eigi upp stafrænum verkefnum. Flokkur fólksins telur að verið sé að búa til farveg þar sem gagnrýni kemst ekki að. Flokkur fólksins óttast að stefni í enn meira stjórnleysi þegar fulltrúa Flokks fólksins nýtur ekki lengur við til að veita aðhald.

 

 

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023, þannig að tekjur borgarsjóðs af álögðum fasteignagjöldum verði ekki umfram áætlanir. Með lækkuninni verði brugðist við gríðarlegri hækkun fasteignamats sem kynnt var á dögunum. Fjármála- og áhættustýringasviði verði falið að reikna ný álagningarhlutföll fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði svo álögð gjöld samsvari áður gerðum áætlunum borgarinnar fyrir árið 2023.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt að vísa tillögunni til vinnslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkur fyrir árið 2023. MSS22060159

 

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Nýverið var kynnt nýtt fasteignamat fyrir árið 2023, sem hækkar heildarmat fasteigna í Reykjavík um rúm tuttugu prósent milli ára. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en áætlanir borganir gerðu ráð fyrir, en þær gerðu ráð fyrir 6,6% hækkun. Hækkanir á fasteignamati leiða óhjákvæmilega til skattahækkana á heimili og fyrirtæki. Að óbreyttu verður meðalheimili í Reykjavík fyrir 20 þúsund króna skattahækkun árlega og atvinnulíf fyrir þriggja milljarða skattahækkun árlega. Eina skynsamlega viðbragð sveitarfélags við hækkuninni er samsvarandi lækkun skattprósentu – enda kostar það borgina ekki meira að þjónusta fasteignaeigendur þó fasteignamat hafi hækkað. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að tillögu flokksins um lækkun fasteignaskatta verði vísað til fjárhagsáætlunar. Munu fulltrúarnir fylgja málinu eftir og leggja ríka áherslu á lækkun álagningarhlutfalls við næstu áramót.

 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Tillögunni er vísað inn í gerð fjárhagsáætlunar. Í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar kemur fram að Reykjavík verði áfram hagstæðasta borg fyrir fjölskyldufólk til að búa í með hliðsjón af gjaldskrá og fasteignagjöldum. Við ætlum að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í lok kjörtímabils.

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Fulltrúar sósíalista geta ekki stutt flata skattalækkun en telja að skoða þurfi skattlagningu á íbúðarhúsnæði og hvernig hún fer fram. Skattar greiðast jafnt af skuldum og eignum og borgarfulltrúar sósíalista telja eðlilegt að skoða breytingar á skattlagningunni þannig að þau sem eiga 100% í sinni íbúð greiði örlítið meira, þ.e.a.s. hærri fasteignaskatta, svo að þau sem eru nýbúin að kaupa sína eigin íbúð þurfi ekki að greiða fasteignaskatta. Fulltrúi sósíalista lagði fram fyrirspurn um skattleysismörk fasteignagjalda í borgarráði í febrúar 2022. Fyrirspurnin sneri að því að fá fram hversu mikið skattprósenta fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði þyrfti að hækka, ef sett yrðu inn skattleysismörk upp á 10 m.kr., 15 m.kr. og 20 m.kr. á hreina eign hvers einstaklings. Fyrirspurnin varðaði hve mikið skattprósentan þyrfti að hækka miðað við þessi ólíku mörk, til að tryggja að tekjur borgarinnar yrðu ekki skertar. Í svari kom fram að innheimta þessara gjalda færi eftir lögum og að fjármála- og áhættustýringarsvið hefði ekki upplýsingar né aðgang að hreinni eign aðila í húsnæði. Sósíalistar telja mikilvægt að skoða þetta nánar.

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Mikil hækkun fasteignaskatta kemur verst við fólkið sem hefur minnst milli handanna. Launatekjur hafa ekki hækkað samhliða nema hjá fólki á ofurlaunum. Sjálfsagt er að skattleggja rækilega þá efnamestu, stóreignafólk en ekki „venjulegt“ fólk sem margt hvert er að sligast undan afborgunum af lánum. Gagnvart þeim hópi er engin sanngirni í hækkun á fasteignasköttum, því þeim fylgja ekki auknar tekjur. Kostnaður vegna húsnæðis er að aukast og varla á það bætandi. Margir munu ekki ráða við það og hærri fasteignaskattar munu ýta einhverjum fram af brúninni. Það er engra hagur að fólk missi húsnæði sitt. Ekki einu sinni húsnæði á leigu, en að vera fastur á leigumarkaði er eins og margir vita hreinasta víti. Leiga mun hækka enn frekar verði fasteignaskattar hækkaðir. Heimilin eru ekki ótæmandi auðlind til að bjarga opinberum fjármálum og það er gríðarlega illa farið með fé hjá Reykjavíkurborg, sbr. sóun í stafræna vegferð, stór hluti gæluverkefni. Leita ætti fyrst leiða til aukins svigrúms með því að fara betur með núverandi tekjur borgarinnar áður en farið er að auka skattheimtu. Flokkur fólksins myndi vilja sjá að á árinu 2023 verði álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði 0,15% af fasteignamati húss og lóðar en lóðarleiga íbúðarhúsnæðis 0,165% af lóðarmati.

 

 

Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Flöt lækkun fasteignaskatta er ekki jöfnunaraðgerð sem gagnast fólki með þyngstu og mestu útgjöldin og það er varhugavert að hlaupa til og samþykkja lækkun á öðrum stærsta tekjustofni sveitarfélagsins án þess að skoða hvort aðrar og betri leiðir eru færar. Í vaxandi verðbólgu væri nær að byrja á því að jafna aðstöðumun allra barna að grunnþjónustu Reykjavíkurborgar og skoða gaumgæfilega þau félagslegu og fjárhagslegu áhrif sem það hefur á reykvískt samfélag og þau afleiddu áhrif sem slík jöfnunaraðgerð færir okkur. Það eru því mikil vonbrigði að sá meirihluti sem nú hefur verið myndaður og telur sig bera hagsmuni fjölskyldna barna að leiðarljósi samþykki að skoða tillögu Sjálfstæðisflokksins sem kann að auka enn frekar á misskiptingu í samfélaginu en hafnar tillögu Vinstri grænna um að skoða þau jákvæðu áhrif sem það felur í sér að afnema gjaldtöku í grunnþjónustu fyrir börn.

 

 

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að gera breytingar á samsetningu stjórnar félagsins þannig að sex fulltrúar vagnstjóra verði skipaðir í stjórn byggðasamlagsins. Fulltrúar vagnstjóra verði skipaðir á eftirfarandi máta: Helmingur fulltrúa skuli vera fulltrúar fastráðinna vagnstjóra hjá Strætó bs. á móti einum frá hverju fyrirtæki sem sinnir útvistuðum akstri fyrir Strætó bs. Séu fyrirtæki í útvistunarverkefnum færri en þrjú, skuli fulltrúum fastráðinna vagnstjóra Strætó bs. fjölga til að fullskipa 6 manna hóp vagnstjóra í stjórn. Séu þau fleiri en þrjú skuli velja vagnstjóra frá þeim fyrirtækjum sem sinna stærstu verkefnunum til að fulltrúar fastráðinna vagnstjóra verði aldrei færri en þrír. Þar með væri tryggt að að lágmarki helmingur vagnstjóra í stjórn sé með reynslu af beinni ráðningu hjá Strætó, þekkingu á leiðakerfi og breytingum hjá Strætó bs. og hinn hlutinn með reynslu hjá útvistuðum strætó. Varamenn skulu sömuleiðis skipaðir fyrir hvern fulltrúa. Þessir fulltrúar yrðu viðbót við þá fulltrúa sem þegar skipa stjórn félagsins. Jafnframt er lagt til að stuðst verði við slembival til þess að velja fulltrúa vagnstjóra í stjórn Strætó bs. Borgarstjórn samþykkir að bjóða fram þá kunnáttu starfsfólks sem þegar er til staðar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu vegna slembivals og þá þekkingu sem er til hjá vefteymi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, við útfærslu þessarar tillögu. Ekki verður gerð krafa til vagnstjóra að taka þátt í slembivalinu. Sendur yrði tölvupóstur í það minnsta mánuði fyrir slembival til allra vagnstjóra þar sem þeir yrðu látnir vita af því og þeir gætu valið að gefa ekki kost á sér. Ef vagnstjórinn sem dreginn verður samþykkir ekki stjórnarsetu innan 10 daga er dregið á ný. Sá sem samþykkir stjórnarsetu skal kjörinn til fjögurra ára eins og aðrir stjórnarmenn. Vagnstjóri í stjórn skal fá greidda sömu þóknun fyrir stjórnarsetu og aðrir stjórnarmeðlimir. Að lokum er lagt er til að kostnaði við framkvæmd tillögunnar verði skipt á milli sveitarfélaga í sama hlutfalli og íbúafjöldi segir til um.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

 

 

-    Kl. 19:40 víkur Sandra Hlíf Ocares af fundinum.

 

 

Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060160

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Það er sósíalistum mikil vonbrigði að tillögur um vagnstjóra og farþega í stjórn Strætó hafi ekki fengið jákvæðari viðbrögð og unnið með þær nánar til að vinna henni gott brautargengi. Í stað þess var sett fram málsmeðferðartillaga um að vísa tillögunni til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sósíalistar eiga ekki fulltrúa. Fyrst að meirihlutinn talar fyrir því að betur færi á því að einn áheyrnarfulltrúi frá hvorum hópi fengi áheyrn í stjórn, þá furðum við okkur á því að breytingartillaga um slíkt hafi ekki verið send inn frá meirihlutanum, eða að nánar hafi verið unnið með tillöguna á vettvangi borgarstjórnar. Fulltrúar sósíalista munu þó fylgja málinu fast eftir og þrýsta á að það verði fljótt unnið úr tillögunni með jákvæðum niðurstöðum þannig að rödd farþega og vagnstjóra komi að stjórn Strætó.

 

 

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Ýmis dæmi eru um að starfsfólk eigi áheyrnarfulltrúa í stjórn. Það getur aukið gegnsæi ákvarðanatöku og aukið traust á stjórnum. Reykjavíkurborg er ekki ein við stýrið í stjórn Strætó og þarfnast þessi tillaga skoðunar innan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Ef vilji er til þess að fulltrúar starfsfólks og notenda sitji sem áheyrnarfulltrúar í stjórn, þá þarf að breyta samþykktum um byggðasamlög. Það ætti þó ekki að koma til álita að hvor hópur hefði fleiri en einn áheyrnarfulltrúa en tillagan gerir ráð fyrir sex fulltrúum frá hvorum hópi í stjórn sem myndi þýða þreföldun stjórnarmanna, úr 6 í 18.

 

 

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

 

 

Borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að gera breytingar á samsetningu stjórnar félagsins þannig að einn fulltrúi strætófarþega úr hverju aðildarsveitarfélagi verði skipaður í stjórn byggðasamlagsins og einn til vara. Þessir fulltrúar yrðu viðbót við þá fulltrúa sem þegar skipa stjórn félagsins. Jafnframt er lagt til að stuðst verði við slembival við val á fulltrúum farþega í stjórn Strætó bs. Kostnaðarskipting verkefnisins í heild sinni verði í takt við íbúafjölda sveitarfélaganna miðað við 1. janúar ár hvert. Lagt er til að slembivalið fari þannig fram að áhugasamir farþegar gefi sig fram á næstu þjónustumiðstöð, eða á sérstakri vefsíðu þar sem áhugasamir verði hvattir til að gefa sig fram. Að skráningu lokinni yrði einn þeirra skráðu slembivalinn og boðin seta í stjórn. Ef viðkomandi samþykkir ekki innan tíu daga sé dregið að nýju. Slembivalinn farþegi telst kjörinn í jafnlangan tíma og aðrir stjórnarmeðlimir. Að þeim árum loknum er nýr farþegi slembivalinn. Farþegi í stjórn skal fá greidda sömu þóknun fyrir stjórnarsetu og aðrir stjórnarmeðlimir. Verkefnið verði unnið á vettvangi Strætó bs. Borgarstjórn samþykkir að bjóða fram þá kunnáttu starfsfólks sem þegar er til staðar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu vegna slembivals og þá þekkingu sem er til hjá vefteymi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, við útfærslu þessarar tillögu. Lagt er til að kostnaðarskipting vegna verkefnisins skiptist hlutfallslega í takt við íbúafjölda þegar tillagan er samþykkt.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060161

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Það er sósíalistum mikil vonbrigði að tillögur um vagnstjóra og farþega í stjórn Strætó hafi ekki fengið jákvæðari viðbrögð og unnið yrði með hana nánar til að vinna henni gott brautargengi. Í stað þess var sett fram málsmeðferðartillaga um að vísa tillögunni til Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem sósíalistar eiga ekki fulltrúa. Fyrst að meirihlutinn talar fyrir því að betur færi á því að einn áheyrnarfulltrúi frá hvorum hópi fengi áheyrn í stjórn, þá furðum við okkur á því að breytingartillaga um slíkt hafi ekki verið send inn frá meirihlutanum, eða að nánar hafi verið unnið með tillöguna á vettvangi borgarstjórnar. Fulltrúar sósíalista munu þó fylgja málinu fast eftir og þrýsta á að það verði fljótt unnið úr tillögunni með jákvæðum niðurstöðum þannig að rödd farþega og vagnstjóra komi að stjórn Strætó.

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Flokkur fólksins telur rétt að kanna þessa leið og að góður bragur sé á að beina tillögunni til stjórnar Strætó bs. til umfjöllunar. Sannarlega ættu þeir sem eru næstir störfunum, þeir sem sinna störfunum og notendur þjónustunnar að hafa áhrif á fyrirtækið, uppbygginguna og framþróun þess þ.m.t. hvernig störfin eru unnin. Dreifa þarf valdi, leyfum röddum allra að heyrast. Það væri enginn „strætó“ ef ekki væru bílstjórar og farþegar.

 

 

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

 

 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að veita foreldrum á lágtekjuheimilum í Reykjavík sértæka aðstoð til að standa straum af gjöldum í tengslum við börn sín eftir atvikum og þörfum þeirra. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að reglur Reykjavíkur um fjárhagsaðstoð verði endurskoðaðar með tilliti til þess að börn tekjulágra foreldra fái styrk til að greiða fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskólavistun og frístundaheimili, sumardvöl og þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Tryggt verði að foreldrar sem þiggi fjárhagsaðstoð fái ávallt styrk vegna þessa. Jafnframt verði veittur slíkur styrkur til lágtekjuhópa sem ekki þiggja fjárhagsaðstoð. Lagt er til að starfshópi skipuðum sérfræðingum frá skóla- og frístundasviði og velferðarsviði verði falið að kanna hvernig skuli útfæra slíkt styrktarúrræði þannig að það nái til fátækustu barnafjölskyldnanna og sem flestra barnafjölskyldna sem eiga erfitt með að standa straum af kostnaði í tengslum við börn sín. Það er afar mikilvægt að tryggja að öll börn sitji við sama borð og að þau hafi jöfn tækifæri án tillits til efnahags foreldra þeirra. Það er samfélagsleg skylda okkar að aðstoða foreldra sem eiga erfitt með að greiða gjöld vegna þjónustu við börn sín.

 

 

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs. MSS22060162

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

 

 

Flokkur fólksins lagði til að skipaður verði starfshópur sem verði falið að kanna hvernig skuli útfæra slíkt styrktarúrræði fyrir fátækustu barnafjölskyldurnar sem eiga erfitt með að standa straum af kostnaði í tengslum við börn sín. Tillögunni er vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Talið er að það séu um 2500 börn undir 18 ára sem búa við eða eru í hættu á að falla í fátækt. Aðeins er verið að hjálpa litlum hluta þessara barna eða um 513. Samkvæmt tölum frá mars sl. fá sum þessara barna gjaldfrjálsa máltíð eða 276 börn en aðeins 166 fá ókeypis leikskóladvöl og 118 ókeypis í frístundir. Um er að ræða börn fátækustu foreldra borgarinnar, börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru atvinnulausir, börn foreldra sem eru öryrkjar eða glíma við veikindi. Þessum foreldrum þarf að hjálpa þannig að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af gjöldum sem tengjast umönnun og menntun barna sinna enda iðulega ekki mikið eftir af tekjum þegar búið er að greiða húsnæðiskostnað. Hér er ekki endilega verið að tala um þá sem eru á fjárhagsaðstoð heldur að borgin beiti sér almennt betur og meira í þágu hinna verst settu til að auka megi jöfnuð.

 

 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

 

 

Fulltrúar sósíalista styðja þessa tillögu en telja að öll þjónusta borgarinnar gagnvart börnum eigi að vera gjaldfrjáls. Börn hafa engar tekjur og eiga ekki að greiða gjöld.

 

 

8.    Fram fer kosning sjö fulltrúa í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs til fjögurra ára og sjö til vara; formannskjör. MSS22060044

 

 

Kosin eru af SBPC-lista án atkvæðagreiðslu:

Magnús Davíð Norðdahl

Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Sabine Leskopf

og Þorvaldur Daníelsson

 

 

Kosin eru af DF-lista án atkvæðagreiðslu:

Friðjón R. Friðjónsson

og Helga Þórðardóttir

 

 

Kosinn er af JV-lista án atkvæðagreiðslu

Trausti Breiðfjörð Magnússon

 

 

Formaður er kjörinn á sama hátt: 

Magnús Davíð Norðdahl

 

 

Kjör varamanna fer fram á sama hátt.

 

 

Kosnar voru af SBPC-lista:

Rannveig Ernudóttir

Unnur Þöll Benediktsdóttir

Ellen Calmon

og Ásta Björg Björgvinsdóttir

 

 

Kosnar voru af DF-lista:

Sandra Hlíf Ocares

og Kolbrún Baldursdóttir

 

 

Kosin var af JV-lista:

Sanna Magdalena Mörtudóttir 

 

 

9.    Fram fer kosning sjö fulltrúa í stafrænt ráð til fjögurra ára og sjö til vara; formannskjör. MSS22060158

 

 

Kosin eru af SBPC-lista án atkvæðagreiðslu:

Alexandra Briem

Kristinn Jón Ólafsson

Skúli Helgason

Aðalsteinn Haukur Sverrisson

 

 

Kosin eru af DF-lista án atkvæðagreiðslu:

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Friðjón R. Friðjónsson

 

 

Kosin er af JV-lista án atkvæðagreiðslu:

Andrea Jóhanna Helgadóttir

 

 

Formaður er kjörinn á sama hátt: 

Alexandra Briem

 

 

Kjör varamanna fer fram á sama hátt.

 

 

Kosnar voru af SBPC-lista:

Elísabet Guðrúnar og Jónsdóttir

Rannveig Ernudóttir

Sara Björg Sigurðardóttir

Ásta Björg Björgvinsdóttir

 

 

Kosnar voru af DF-lista:

Jórunn Pála Jónasdóttir

og Sandra Hlíf Ocares

 

 

Kosin var af JV-lista:

Sanna Magdalena Mörtudóttir 

 

 

10.    Kosningu í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð er frestað. MSS22060045

 

 

11.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. maí og 10. júní. MSS22010003

15. liður; Starmýri – deiliskipulag – breyting, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. USK22010061

27. lið; Einarsnes – úthlutun lóðar og sala byggingarréttar, er frestað. MSS22050005

 

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar frá 5. maí og 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní:

 

 

Liður 27: Byggja á lagningu þriðja áfanga Arnarnesvegar á tæplega 20 ára gömlu umhverfismati. Það virðist flestum ljóst að útfærslan er ekki að fara að leysa nein vandamál, heldur einungis að skapa ný. Önnur ljósastýrð gatnamót við Breiðholtsbraut, sem er þegar sprungin umferðaræð, munu stífla veginn enn frekar og valda frekari töfum á umferð. Þetta veit Vegagerðin en samþykkir engu að síður útfærsluna í deiliskipulagi, í stað þess að  finna betri leið. Getur það verið að aðrir hagsmunir bæjarstjórnar Kópavogs, eins og að byggja 4.000 manna byggð á toppi Vatnsendahvarfs, séu í raun að stýra þessum illa ígrunduðu framkvæmdum og koma í veg fyrir að betri lausn verði fundin og nýtt umhverfismat gert? Án Arnarnesvegar væru forsendur fyrir þessari byggð brostnar og það virðist alls ekkert mega tefja þær áætlanir. Liður 15, Starmýri 2: Samþykkja á mál sem hefur valdið uppnámi meðal íbúa hverfisins m.a. vegna aukins skuggavarps, umferðar vegna stækkunar verslunarhúsnæðis og öryggi gangandi vegfarenda. Farið er offari í þéttingu byggðar í þessu gróna hverfi. Bæta á fjórðu hæðinni ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Þessu hefur verið  mótmælt af flestum íbúum í götunni fyrir tveimur árum. Skorað er á skipulagsyfirvöld að vinna þetta mál með íbúum.

 

 

12.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. júní, skóla- og frístundaráðs frá 14. júní og velferðarráðs frá 10. júní. MSS22010217

 

 

8. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní; tillaga um sumarleyfi borgarstjórnar 2022, er samþykktur. MSS22060122

12. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní; ákvörðun nefndarinnar varðandi endurskoðun siðareglna fyrir kjörna fulltrúa, er staðfestur. MSS22060077

 

 

Borgarráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs:

 

 

Spurt var um biðlista í skólahljómsveitir og var fyrirspurnin lögð fram fyrir einu og hálfu ári síðan. Í svari kemur fram að fjöldi barna á biðlista eftir að fá að taka þátt í skólahljómsveit er 341 barn nú árið 2022. Hljómsveitir eru 4. Flokkur fólksins aflaði sér upplýsinga um hvað kostar að reka eina skólahljómsveit og er það um 70 milljónir á ári. Vel kann að vera að meirihlutinn sjái ofsjónum yfir þeirri upphæð en minnst skal á sáran ójöfnuð sem ríkir þegar horft er til tækifæra til tónlistarnáms. Efnalitlir og fátækir foreldrar geta ekki boðið börnum sínum að leggja stund á rándýrt píanónám hvað þá að fjárfesta í slíku hljóðfæri. Fram kemur að engu barni er neitað um þátttöku, „það er bara sett á bið“, um ókominn tíma. Þegar loks kemur röðin að því er áhugi þess kannski ekki lengur fyrir hendi og mikilvægt tækifæri tapað. Hér er dæmi um kolranga forgangsröðun. Minnt er á biðlista í nánast allt í Reykjavík sem lýtur að börnum. Á meðan er ekkert lát á fjárútlátum í alls kyns aðra hluti, dauða hluti, óþarfa hluti eða hluti sem mættu í það minnsta bíða þar til búið er að sinna reykvískum börnum með mannsæmandi hætti.

 

 

Fundi slitið kl. 20:46

 

 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

 

 

Aðalsteinn Haukur Sverrisson    Trausti Breiðfjörð Magnússon

 

 

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 21.6.2022 - Prentvæn útgáfa