Borgarstjórn - Borgarstjórn 20.6.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 20. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birna Hafstein, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Trausti Breiðfjörð Magnússon.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um loftgæði, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní 2023.

    -    Kl. 13:25 tekur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum og Birna Hafstein víkur sæti. MSS23060113

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Á síðasta fundi borgarráðs var stofnaður stýrihópur sem móta á langtímastefnu um loftgæði og uppfæra aðgerða- og viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar. Í samvinnu milli sveitarfélaga, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og lögreglunnar hefur gagna verið aflað um mögulegar aðgerðir og gagnsemi þeirra byggt á reynslu víða að. Það skiptir öllu máli að stuðla að góðum loftgæðum og umræðan í borgarstjórn endurspeglaði mikinn vilja til þess.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meðalmanneskjan andar að sér um 11 þúsund lítrum af lofti á dag og því er gríðarlega mikilvægt að tryggja góð loftgæði, að við séum að anda að okkur góðu lofti í þeim 25 þúsund andardráttum sem við drögum að jafnaði inn yfir daginn. Þegar talað er um aðgerðir til að bæta loftgæði, þá þarf að fara að rót vandans sem er kapítalisminn og hvernig auðvaldið hefur fengið að éta upp náttúruna sér til hagnaðar. Beita þarf aðgerðum líkt og sköttum og reglum gagnvart fyrirtækjum sem menga mest og lífsgæði almennings eiga að vera leiðarljós allra loftslagsaðgerða en ekki hagnaðarkrafa fyrirtækjaeigenda. Til að bæta þau lífsgæði þarf að tryggja góðar umhverfisvænar samgöngur og hér er nauðsynlegt að leggja áherslu á að efla almenningssamgöngur. Aðrar aðgerðir sem snúa beint að borginni og varða heilnæm loftgæði er aðstaða og skattlagning á mengandi starfsemi líkt og starfsemi skemmtiferðaskipa og það að tryggja aðgengi að góðum grænum svæðum í nærumhverfi okkar allra sem stuðpúði gagnvart slæmum loftgæðum. Það er ekki nóg að grænu svæðin séu til staðar heldur þurfa þau að vera aðlaðandi, vel skipulögð og hirt þannig að fólki líði vel þar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Umræða um loftgæði er þörf. Halda þarf svifryksmengun innan lögbundinna marka. Of hægt hefur gengið að breyta bílaflota Reykjavíkur yfir í vistvæna bíla. Aðeins um fjórðungur bíla sem borgin notar eru knúnir af vistvænum orkugjöfum. Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkrar góðar tillögur til að draga úr útblæstri og bæta loftgæði og má þar helst nefna aukna skógrækt. Svifryk er einatt til vandræða og plöntun trjáa er einföld aðgerð sem hefur góð áhrif. Flokkur fólksins er á móti því að banna nagladekk eða setja á þau sérstakt gjald. Ekki má gleyma hvar við búum og við hvaða veðurskilyrði. Öryggi þarf ávallt að vera í forgrunni. Ferðavenjur eru persónubundnar hvort heldur það er bíll, hjól eða almenningssamgöngur. Almenningssamgöngur eru því miður ekki nógu góðar í Reykjavík. Bílum fer fjölgandi og taka þarf á umferðarteppum enda menga þær hvað mest. Eitt af því sem mengar hvað mest er flugvélaútblástur. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á að draga skuli úr utanlandsferðum. Slíkt fordæmi hefur nú þegar verið sett af hálfu innviðaráðuneytisins.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir áskorun til dómsmálaráðherra annars vegar og innviðaráðherra hins vegar um að þeir hafi frumkvæði að því að breyta viðeigandi ákvæðum laga svo að frá og með sveitarstjórnarkosningum vorið 2026 verði borgarstjórinn í Reykjavík kjörinn beinni kosningu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 14:50 víkur Sandra Hlíf Ocares af fundinum og Birna Hafstein tekur sæti.

    Samþykkt að vísa tillögunni frá með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060034

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur lengi viljað að stjórnkerfi borgarinnar verði skilvirkara við að þjóna íbúum og fyrirtækjum borgarinnar. Ein hugsanleg leið að því marki er að koma á því framtíðarfyrirkomulagi að æðsti yfirmaður starfsmanna Reykjavíkurborgar, borgarstjórinn, verði kjörinn í beinni kosningu. Tilgangur tillöguflutningsins var því að efna til umræðu um kosti og galla þess að borgarstjórinn sé kjörinn beinni kosningu. Margt áhugavert kom fram í umræðunni um tillöguna og fyrir það ber að þakka. Á hinn bóginn er það miður að tillögunni hafi verið vísað frá í stað þess að borgarstjórn tæki efnislega afstöðu til hennar. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hvort sú aðferð að kjósa borgarstjóra beinni kosningu væri lýðræðislegra fyrirkomulag en það sem nú er, er í besta falli umdeilanlegt og myndi velta bæði á kosningaaðferð og þeim völdum sem borgarstjóri færi með. Hins vegar er sennilegt að það myndi draga úr völdum borgarstjórnar og færa meira vald í hendur einnar manneskju. Eins er ljóst að ef sveitarstjórnarlögum væri breytt á þann veg að skylt væri að kjósa sveitarstjóra beinni kosningu myndi það koma sér illa fyrir smærri sveitarfélög sem kjósa að ráða sveitarstjóra ópólitískt. Ef ætlunin er að fyrirkomulagið gildi bara um Reykjavík þyrfti að útskýra hvaða rök hníga til þess að það sé nauðsynlegt þar en ekki annars staðar, hvar þau mörk liggja og hvers vegna.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það eru gallar og kostir við allt stjórnskipunarfyrirkomulag en gallar við að kjósa borgarstjóra beint eru fleiri en kostir. Með því að kjósa borgarstjóra beint er vikið frá lýðræðishefðum sem hafa verið ríkjandi lengi. Það er áhætta að kjósa borgarstjóra beint því að baki slíkum borgarstjóra og verkum hans er enginn kjörinn hópur sem ber ábyrgð nema þeir sem kusu viðkomandi. Vissulega er það rétt að það er auðveldara fyrir borgarstjóra sem er kjörinn beint að taka erfiðar ákvarðanir sem eru nauðsynlegar fyrir velferð íbúa og framtíð borgarinnar. En skýra þyrfti valdmörk hans ítarlega. En hvað ef ákvarðanir hans skaða íbúana? Hvað ef dómgreind þessa borgarstjóra brestur? Borgarstjóri sem kosinn er beint verður sannarlega aldrei leiðtogi allra, ekki nema hann sé kosinn af öllum sem ekki er líklegt. Í stuttu máli er þetta mikil áhætta og höfum við séð dæmi um það víða. Flokkur fólksins er einnig afar ósammála því að fjölgun borgarfulltrúa hafi verið mistök. Fjölgun borgarfulltrúa gerir það að verkum að borgarbúar eiga fleiri raddir í borgarstjórn. Tilkoma Flokks fólksins í borgarstjórn er lifandi sönnun þess. Benda má á að þegar fulltrúum var fjölgað var hætt að setja menn sem ekki voru kosnir í nefndir sem var til sparnaðar.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Sjálfstæðisflokksins um beina kosningu borgarstjóra er vanhugsuð tilraun til að reyna að steypa borgarmálin í mót landsmálanna, þar sem litið er á borgarstjóra sem einhvers konar ígildi forsætisráðherra í stað þess að vera fyrst og fremst framkvæmdastjóri sveitarfélags. Fortíðarþrá þessi, þar sem reynt er að endurvinna fremur misheppnað kerfi frá þriðja áratug síðustu aldar ber heldur ekki merki um mikla lýðræðisást þar sem sú hugmynd virðist vera ríkjandi að embætti borgarstjóra hljóti að koma í hlut stærsta stjórnmálaflokksins. Slík hugsun er útbreidd í löndum sem búa við einmenningskjördæmakerfi, líkt og í Bretlandi þar sem sjálfsagt þykir að stærsti flokkurinn fái öll völd jafnvel út á mikinn minnihluta atkvæða. Norræna fjölflokkahefðin viðurkennir þvert á móti að forysta í stjórnarsamstarfi getur komið í hlut allra þátttakendanna í samstarfinu.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um vinaborgarsamning Reykjavíkurborgar við Lviv.

    -    Kl. 15:58 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundinum og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti.

    -    Kl. 16:08 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Rannveig Ernudóttir tekur sæti. 

    MSS23060115

    Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjórn Reykjavíkur fagnar heilshugar nýgerðum vinaborgarsamningi við Lviv. Jafnframt áréttar borgarstjórn fyrri stuðning sinni við Úkraínu og fordæmir hina ólögmætu og ógeðfelldu innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Á stundum sem þessum er mikilvægt að halda á lofti þeim gildum sem sameina ríki og borgir, að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Það er von og vænting borgarstjórnar að þessi nýju vinaborgartengsl sendi skýr skilaboð um samstöðu Reykvíkinga með íbúum Lviv og leggi jafnframt grundvöll að innihaldsríku og gjöfulu samstarfi milli borganna í framtíðinni.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um íslenskukennslu barna og fólks af erlendum uppruna. MSS23060116

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Móttaka barna og fullorðinna af erlendum uppruna er eitt stærsta verkefnið sem blasir við íslensku samfélagi. Innflytjendum hefur fjölgað og okkar bíður sú áskorun að aðstoða þennan hóp að skilja og tala íslensku svo þeir geti aðlagast sem best íslensku samfélagi. Innflytjendur eru nú rúmlega 20% af íbúum í Reykjavík. Flokkur fólksins vill taka taka vel á móti nýjum borgurum og til þess að þeim geti liðið vel þurfa þeir að skilja tungumálið sem talað er í samfélaginu. Íslenskukunnátta er lykillinn að farsæld og framgangi þeirra í þjóðfélagi okkar. Það er ekki eingöngu mikilvægt fyrir innflytjendurna heldur er það liður í varðveislu íslenskrar tungu og menningar. Áskorunin er stærri en svo að hægt sé að setja ábyrgðina eingöngu á skólana heldur þarf þjóðarátak til og aðeins þannig náum við samstilltu átaki. Helsta áskorunin er að gefa fólkinu tækifæri til að tala íslensku. Þjálfun í að tala er lykilatriði. Íslenskukunnáttan mun auka möguleika á framgangi í íslensku samfélagi. Það mun auðvelda fjölmargt, s.s. samskipti við einstaklinga og stofnanir. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er stórt og það þarf að vinna með sameiginlegu átaki og í samvinnu við nýja borgara.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Inngilding bæði barna og fullorðinna af erlendum uppruna er grundvöllur fyrir farsæla þróun borgarsamfélagsins. Mikilvægt er að tryggja góðan aðgang að íslensku tungumáli til að ná árangri í lífi og starfi. Virkt tvítyngi barna og íslenskan eru forsendur lýðræðislegrar þátttöku, vellíðunar, farsældar, jafnréttis og jafnræðis. Borgin hefur brugðist við með ýmsum hætti til að styðja við börn með annað móðurmál en íslensku en heldur áfram að byggja upp íslenskunám fyrir sitt starfsfólk til að styðja þann mannauð sem býr í fjölbreytileika.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt er til að launahækkunum borgarfulltrúa og fyrstu varaborgarfulltrúa verði frestað á þessu ári. Í ljósi hárrar verðbólgu og óvissu í efnahagslífinu á borgarstjórn að leiða með góðu fordæmi og hafna hækkunum ofan á laun sem eru gríðarlega há. Borgarfulltrúar þurfa ekki þessar hækkanir og ljóst er að núverandi launastefna hefur ekki vakið neina sátt í samfélaginu. Mörgum íbúum finnst laun borgarfulltrúa alltof há og það að launin hækki tvisvar á ári ofan á það er óverjandi. Fara þarf í endurskoðun á launauppbyggingu kjörinna fulltrúa í Reykjavík og skoða annað fyrirkomulag. Til þess verði skipaður stýrihópur kjörinna fulltrúa úr öllum flokkum borgarstjórnar og leitað til aðila vinnumarkaðarins, þ.e.a.s heildarsamtaka launafólks og verkalýðsfélaga, til þess að gefa stýrihópnum ráð. Settar verði fram tillögur að samfélagssátt um laun borgarfulltrúa, til að bæði auka traust íbúa til borgarstjórnar og spara fé í stjórnkerfinu. Þessi vinna feli einnig í sér að sett verði fram viðmið um hvað teljist eðlilegt launabil á milli hæstu og lægstu launa hjá Reykjavíkurborg og fyrirtækja í eigu hennar. Lagt er til að starfsmaður frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu haldi utan um stýrihópinn og að niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en 1. október 2023.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    -    Kl. 17:00 víkja borgarstjóri og Skúli Helgason af fundinum og Ragna Sigurðardóttir og Birkir Ingibjartsson taka sæti.

    -    Kl. 17:24 tekur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir sæti á fundinum og Helga Þórðardóttir víkur.

    Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn einu atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs. MSS23060117

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er miður að meirihluti borgarstjórnar sjái sér ekki fært að samþykkja tillögu um endurskoðun launauppbyggingar kjörinna fulltrúa, þar sem um há laun er að ræða með sérstökum aukagreiðslum. Sósíalistar lögðu til að grunnlaun borgarfulltrúa tækju ekki hækkunum á þessu ári og að launastefnan yrði endurskoðuð til þess að tryggja eðlileg laun í samhengi við önnur laun sem eru greidd í borginni. Einnig var lagt til að launastefna yrði þróuð fyrir Reykjavíkurborg í heild sinni sem og fyrirtækja í eigu hennar um eðlileg viðmið á milli hæstu og lægstu launa. Á síðustu 12 mánuðum hafa grunnlaun borgarfulltrúa hækkað um 71.512 kr. Á sama tíma þarf launafólk oft að hafa mikið fyrir sjálfsögðum og eðlilegum kjarabótum. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu ekki aftengdir raunveruleika og lífskjörum almennings. Með því að koma á hámarks launabili í borginni yrði hægt að koma því í kring. Borgarstjórn samþykkti að skoða nánar fyrirhugaða launahækkun sem á að koma til greiðslu í ágúst. Það er skref í rétta átt þar sem borgarfulltrúar eru með því að viðurkenna að eðlilegt sé að skoða launin í tengslum við ytri aðstæður. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Tillögunni er vísað til borgarráðs þar sem verið er að skoða þessi mál og hvaða breytingar verða á kjörum borgarfulltrúa þegar laun verða greidd út 1. ágúst nk. Hækkun á launum borgarfulltrúa fylgir launavísitölu og ætti því að fylgja almennri launaþróun í landinu. Við stefnum á að laun borgarfulltrúar muni ekki hækka um meira en það sem samið var um á hinum almenna markaði.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um stöðu sviðslista og sjálfstæðra menningarhópa í Reykjavík. MSS23060118

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það er brýnt að leysa úr þeim vanda sem Tjarnarbíó stendur frammi fyrir. Sviðslistir eiga víða undir högg að sækja, rýmum til æfinga- og sýningahalds hefur fækkað ört á liðnum árum og í öðrum sveitarfélögum hafa sviðslistahópar hætt með tilheyrandi samdrætti í menningarfjölbreytni. Það dugar ekki eitt og sér að samþykkja metnaðarfulla stefnu í lista- og menningarmálum heldur verður að sýna í verki að stjórnvöldum er alvara með henni. Nú reynir á stjórnvöld í Reykjavík, hvort þau raunverulega standi með fjölbreyttri listsköpun, sviðslistum og gróskumiklu menningarframboði. Stöndum vörð um Tjarnarbíó, miðstöð sjálfstæðu sviðslistahópanna.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Staða sviðslista í borginni er að mörgu leyti sterk þar sem fjölbreyttar greinar leiklistar, dans og tónlistar birtast í skapandi starfi sviðslistahópa í menningarborginni Reykjavík. Aðstöðumál eru þó hamlandi og því miður hefur sviðum fækkað á undanförnum árum á höfuðborgarsvæðinu. Tjarnarbíó er heimili sjálfstæðra sviðslistahópa og heldur uppi metnaðarfullri starfsemi við metaðsókn. Það er sameiginlegt markmið Reykjavíkurborgar, menningarmálaráðuneytis og Tjarnarbíós að greina þarfir sviðslistanna og finna farsæla lausn til framtíðar. Blómleg starfsemi sjálfstæðra sviðslistahópa stuðlar að grósku og nýsköpun í menningarlífinu í samræmi við metnaðarfulla menningarstefnu borgarinnar.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir að tillaga yrði tekin inn með afbrigðum til að bregðast við bráðavanda Tjarnarbíós svo ekki komi til lokunar þessa mikilvæga menningarhúss í haust og til að tryggja framtíðarstefnu fyrir sjálfstæða sviðslistastarfsemi í Reykjavík. Tillagan var sett fram til að hin framsækna grasrót sviðslistanna, tugir sviðslistahópa, verði ekki húsnæðislaus og menningarborgin Reykjavík verði snauðari og litlausari fyrir vikið. Þá var tillagan einnig sett fram til að efla sjálfstæða sviðslistastarfsemi og til að tryggja frekari fyrirsjáanleika og öryggi í rekstri sjálfstæðu leikhúsanna. Það er menningarpólitísk ákvörðun að setja fjármagn í menningu og listir og því fylgir ábyrgð af hálfu hins opinbera. Framlög borgarinnar hafa ekki haldist í hendur við efnahagsþróun, launahækkanir, verðbólgu eða aukinn kostnað á aðföngum og gjöldum. Ef ekkert verður að gert verður Tjarnarbíói lokað í haust. Sjálfstæðisflokkurinn harmar að meirihlutinn sýni ekki ábyrgð í verki og hafi hafnað að taka tillöguna fyrir en hún hefði ekki falið í sér kostnaðarauka því létt hefði verið að hætta við ónauðsynlegan ímyndarbækling og færa það fjármagn til að standa frekar undir hlutverki borgarinnar sem menningarborgar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Við lifum á tímum nýfrjálshyggju. Í hennar hugmyndafræði eru jöfnur eins og menning ekki teknar með sem eitthvað sem auðgar samfélagið. Þegar þráhyggjan fyrir „skilvirkni“ og „hagkvæmni“ tekur yfir allan þankagang er öllu öðru fórnað á því altari. Aldrei er horft lengra fram í tímann en til næsta ársfjórðungs því þar er allt sem skiptir máli: Tölur á blaði. Reykvíkingar hafa horft upp á hvert menningarhúsið loka á fætur öðru. Í samfélagi sem metur peninga og excelskjöl ofar öllu, verður mannleikanum fórnað á móti. Mannleikinn og listin verða aldrei metin til fjármuna. En án þeirra er samt ekki gott að búa og samfélög sem leyfa slíku ekki að þrífast eiga erfitt með að dafna. Sósíalistar vilja að rekstur Tjarnarbíós verði tryggður af Reykjavíkurborg sem og annarrar grasrótarstarfsemi sem vinnur að því að auðga menningu borgarinnar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikil eftirspurn er eftir sviðslistafólki og nú virðist staðan vera þannig að sviðslistafólk vantar hentugt og öruggt húsnæði. Tjarnarbíó annar ekki eftirspurn og lítið er um annað húsnæði í boði. Ef borgin hefur yfir að ráða húsnæði með stórum opnum rýmum ætti að skoða hvort hægt væri að nýta slíkt. Þetta þarf að kanna. Leita þarf allra leiða til að skapa sviðslistum góðar aðstæður eins og öðrum listgreinum ef því er að skipta.

  7. Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem sjúkraflugvallar og varaflugvallar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    MSS23060119

  8. Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um Vinnuskóla Reykjavíkur.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    MSS23060120

  9. Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um Keldnalandið.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23060114

  10. Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að fresta umræðu um málefni Ljósleiðarans ehf.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    MSS23010191

  11. Fram fer kosning forseta borgarstjórnar til eins árs og fjögurra varaforseta.

    Forseti er kosin Þórdís Lóa Þórhallsdóttir með 19 atkvæðum. Þrír atkvæðaseðlar eru auðir og Hildur Björnsdóttir hlaut eitt atkvæði.

    Varaforsetar voru kosnir án atkvæðagreiðslu:

    1. varaforseti er kosin Magnea Gná Jóhannsdóttir.

    2. varaforseti er kosin Líf Magneudóttir.

    3. varaforseti er kosin Sabine Leskopf.

    4. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir. MSS22060040

  12. Lagt til að Magnús Davíð Norðdahl og Líf Magneudóttir verði skrifarar borgarstjórnar til eins árs og Alexandra Briem og Friðjón R. Friðjónsson verði varaskrifarar.

    Samþykkt. MSS22060040

  13. Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara auk formannskjörs.

    Kosin eru af SBPC-lista án atkvæðagreiðslu:

    Einar Þorsteinsson

    Heiða Björg Hilmisdóttir

    Dóra Björt Guðjónsdóttir

    Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

    Kosnar eru af DJ-lista án atkvæðagreiðslu:

    Hildur Björnsdóttir

    Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

    Sanna Magdalena Mörtudóttir

    Formaður er kjörinn án atkvæðagreiðslu Einar Þorsteinsson.

    Varafulltrúar eru kosnir með sama hætti.

    Kosin eru af SBPC-lista án atkvæðagreiðslu:

    Árelía Eydís Guðmundsdóttir

    Skúli Helgason

    Alexandra Briem

    Pawel Bartoszek

    Kosin eru af DJ-lista án atkvæðagreiðslu:

    Kjartan Magnússon

    Marta Guðjónsdóttir

    Trausti Breiðfjörð Magnússon MSS22060043

  14. Lagt til að Friðjón R. Friðjónson taki sæti sem varafulltrúi í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Helga Áss Grétarssonar.

    Samþykkt. MSS21120108

  15. Lagt til að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í stafrænu ráði í stað Söndru Hlífar Ocares. Jafnframt er lagt til að Sandra taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Egils Þórs Jónssonar.

    Samþykkt. MSS22060158

  16. Kosningu í velferðarráð er frestað. MSS22060049

  17. Kosningu í aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks er frestað. MSS22060053

  18. Kosningu í heilbrigðisnefnd er frestað. MSS22060075

  19. Kosningu í íbúaráð Laugardals er frestað. MSS22060061

  20. Kosningu í stjórn Félagsbústaða er frestað. MSS23060121

  21. Lagt er til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Már Másson og Ragnheiður H. Magnúsdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og Friðjón R. Friðjónsson, Pawel Bartoszek, Íris Baldursdóttir og Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir taki sæti til vara. Jafnframt er lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði formaður stjórnarinnar.

    Samþykkt. MSS22090053

  22. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð. 

    Lagt til að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Söndru Hlífar Ocares.

    Samþykkt. MSS22060044

  23. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráði. 

    Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Birnu Hafstein. Jafnframt er lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Söndru.

    Samþykkt. MSS22060064

  24. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í íbúaráði Háaleitis og Bústaða. 

    Lagt til að Friðjón R. Friðjónsson taki sæti í íbúaráði Háaleitis og Bústaða í stað Helgu Margrétar Marzellíusardóttur.

    Samþykkt. MSS22060059

  25. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í íbúaráði Miðborgar og Hlíða.

    Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Þorkels Sigurlaugssonar.

    Samþykkt. MSS22060062

  26. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 8. og 15. júní.

    - 4. liður fundargerðarinnar frá 8. júní; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    - 6. liður fundargerðarinnar frá 8. júní; auglýsing nýs deiliskipulags fyrir Holtsgötu 10 og 12 og Brekkustíg 16, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    - 10. liður fundargerðarinnar frá 15. júní; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    - 12. liður fundargerðarinnar frá 15. júní; tillögur vegna ráðninga í leikskóla, Reykjavíkurborgar er tekinn fyrir. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram frestunartillögu undir þessum lið. Frestunartillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Tillögur vegna ráðninga í leikskóla eru samþykktar með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Birkir Ingibjartsson víkur af fundinum undir þessum lið og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson tekur sæti. MSS23010001

    Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson og Birna Hafstein borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. júní:

    Í rúm 100 ár hefur litla timburhúsið Sæmundarhlíð staðið af sér fjölmargan misvindinn, steinsteypuöld, breytingar á aðalskipulagi og þéttingar- og niðurrifsstefnur borgaryfirvalda. Nú er svo komið að af þeirri steinbæja- og timburhúsabyggð sem reis á reitnum í byrjun 20. aldar standa einungis eftir tvö hús, Sæmundarhlíð og Brekkustígur 10. Samkvæmt Borgarsögusafni hefur Sæmundarhlíð hátt varðveislugildi og er elsta hús á reitnum, byggt á þeim tíma þegar timburhús tóku við af torfbæjum og steinbæjum sem híbýli fólks. Saga hússins er því nátengd upphafi og þróun fyrstu byggðar svæðisins og mikilvægur vitnisburður þeirrar sögu, sögu þrautseigju og framtakssemi efnaminni frumbyggja Vesturbæjarins, og hefur sem slíkt menningarsögulegt gildi. Auk þess að vera hluti af því byggðarmynstri sem einkennir stóran hluta byggðar í Vesturbænum. Það er fráleitt að leyfa deiliskipulagsbreytingu að fara í auglýsingu sem kveður á um niðurrif Sæmundarhlíðar fyrir byggingu blokkar. Í þessu sambandi má benda á að á mismunandi tímum átti að rífa Grjótaþorpið, Bernhöftstorfuna og fleiri þekkt hús sökum þess að þau væru illa á sig komin. Sæmundarhlíð er hógværari og íburðarminni en nýklassíkin og múrarameistaravillurnar en kjörið dæmi um afreksverk þessa fyrstu Vesturbæinga sem fluttust til Reykjavíkur með ekkert á milli handanna nema heilsu sína og verkvit í leit að betra lífi.

    Kjartan Magnússon, Helgi Áss Grétarsson og Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní:

    Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að tímalaun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur hækki um 9% á milli ára, eða í samræmi við launavísitölu. Slík launaleiðrétting í þágu unglinga í Vinnuskólanum er grundvallaratriði, sem myndi auk þess valda óverulegum útgjaldaauka fyrir borgarsjóð. Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar neiti að taka tillöguna til afgreiðslu á þessum fundi. Með launafrystingu 13-16 ára eru kjör þess aldurshóps skert verulega þar sem verðbólga mælist nú mikil, á meðan allir aðrir kjarahópar hjá Reykjavíkurborg fá umtalsverðar kjarabætur. Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa hækkað vinnuskólalaun sín verulega á milli ára að Reykjavíkurborg undanskilinni, sem borgar nú langlægstu launin. Tímalaun vinnuskóla flestra nágrannasveitarfélaganna eru nú 12% hærri en í Reykjavík og í Mosfellsbæ eru þau um 17% hærri. Vinnuskólinn er fyrsta reynsla þúsunda unglinga af vinnumarkaðnum. Með slíkri launafrystingu sendir meirihluti borgarstjórnar þessum unglingum slæm skilaboð og sýnir mikilvægu vinnuframlagi þeirra í þágu Reykjavíkurborgar óvirðingu. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. júní: 

    Það er mikilvægt að umræða skapist um fyrirkomulag Vinnuskóla Reykjavíkur. Skilgreina þarf til hvers er ætlast með því starfi sem þar fer fram. Í síðustu fjárhagsáætlun var samþykkt að minnka fræðslu í Vinnuskólanum en auka á móti vægi vinnunnar. Ef farið verður í þá átt má líta svo á að um hefðbundna vinnu sé að ræða. Í því fyrirkomulagi er óréttlætanlegt að laun ungs verkafólks séu ákvörðuð einhliða af borginni. Í umsögn ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða var því mótmælt að laun ungmenna hafi verið fryst í ár. Fulltrúar Sósíalista taka undir yfirlýsinguna og vilja að ungmennin hafi meira að segja um hvernig Vinnuskólinn starfar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 12. lið fundargerð borgarráðs frá 15. júní:

    Mannekla hefur verið vandamál árum saman og lengst af lítið verið gert til að leysa þennan vanda. Þungar byrðar hafa verið lagðar á foreldra og mikið hefur mætt á starfsfólki, ekki síst við að reyna að manna leikskólana. Fullyrt er að margt sé búið að reyna en Flokkur fólksins spyr þá: Hvað nákvæmlega er búið að reyna? Fulltrúi Flokks fólksins hefur sent inn tugi bókana um mannekluvandann sem og tillögur til lausnar. Vandann má rekja að mestu til tveggja þátta, lágra launa og álags í starfi en aðstæður í sumum leikskólum eru bágbornar. Þrengsli eru víða og ekki bætti úr skák þegar hvert myglu- og rakamálið rak annað. Í tillögum meirihlutans felst uppgjöf. Lagt er til að ráða mannauðsstjóra, enn eitt nýtt stöðugildi sem skýtur skökku við þegar ekki hefur verið til fjármagn til að bæta kjör leikskólastarfsfólks. Nú þegar eru átta slíkir ráðgjafar á sviðinu sem mætti nýta. Afleysingastofa hefur verið ónýtt í þessu verkefni en nú á að virkja hana. Samtök vinnandi fólks hafa lýst mikilli andstöðu við þá tegund samninga sem liggja til grundvallar ráðningum Afleysingastofu, svokallaðra núll-samninga, og vill Flokkur fólksins að þetta sé sérstaklega skoðað áður en lengra er haldið.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar borgarráðs:

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna setur sig alfarið upp á móti niðurrifi á húsum á Holtsgötu 10 og Brekkustíg 16 og því deiliskipulagi sem nú fer í auglýsingu. Betur hefði farið á því að varðveita á þessum gróna og viðkvæma reit í Vesturbænum eldra byggðarmynstur og hús. Þó það sé vissulega ákjósanlegt að fjölga íbúðum og þétta byggð þá er ekki sama hvernig það er gert. Niðurrif húsa er óafturkræf aðgerð og ætti í lengstu lög að varðveita, endurgera og byggja við gömul hús frekar en að rífa þau. Fulltrúi Vinstri grænna greiðir því atkvæði gegn þeirri deiliskipulagstillögu sem nú verður send í auglýsingu enda hefði hún betur getað tekið tillit til ofangreindra þátta og annarra. Eins er vísað í umsögn Borgarsögusafns um varðveislugildi umræddra húsa og menningarsögu.

    Fylgigögn

  27. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. júní, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. júní, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. júní, skóla- og frístundaráðs frá 12. júní, stafræns ráðs frá 25. maí og 14. júní, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. og 14. júní og velferðarráðs frá 7. júní.

    -    Kl. 20:40 víkur Ragna Sigurðardóttir af fundinum og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson tekur þar sæti. MSS23010001

    -    Kl. 21:10 víkur Árelía Eydís Guðmundsdóttir af fundinum og Unnur Þöll Benediktsdóttir tekur sæti. 

    - 3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní; lausnarbeiðni Rannveigar Ernudóttur frá 1. ágúst 2023 til 1. september 2024, er samþykktur.

    - 4. liður; tillaga um sumarleyfi borgarstjórnar 2023, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    - 6. liður; aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum 2023-2026, er samþykktur.

    - 7. liður; síðari umræða um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

    Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. júní 2023, þar sem tillaga um breytingu á stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er send borgarstjórn til síðari umræðu, sbr. 21. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 6. júní 2023 og 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní 2023.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar að breytingu á 8. gr. samþykktarinnar:

    Borgarstjórn heldur reglulega fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur samkvæmt fundadagatali sem borgarstjórn samþykkir á síðasta fundi sínum fyrir sumarleyfi. Borgarstjórn skal að jafnaði funda tvisvar í mánuði, á þriðjudögum sem ekki ber upp á helgidag eða almennan frídag, og skulu fundir hefjast kl. 12:00. Borgarstjóri, forseti borgarstjórnar eða borgarstjórn geta ákveðið annan fundarstað og fundartíma.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt til að tillaga um breytingu á 8. gr. breytist og verði svohljóðandi: Borgarstjórn heldur reglulega fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur samkvæmt fundadagatali sem borgarstjórn samþykkir á síðasta fundi sínum fyrir sumarleyfi. Borgarstjórn skal að jafnaði funda tvisvar í mánuði, á þriðjudögum sem ekki ber upp á helgidag eða almennan frídag, og skulu fundir hefjast kl. 9:00. Borgarstjóri, forseti borgarstjórnar eða borgarstjórn geta ákveðið annan fundarstað og fundartíma.

    Samþykkt að vísa breytingatillögunni til frekari meðferðar forsætisnefndar. 

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt til að tillaga um breytingu á 8. gr. breytist og verði svohljóðandi: Borgarstjórn heldur reglulega fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur samkvæmt fundadagatali sem borgarstjórn samþykkir á síðasta fundi sínum fyrir sumarleyfi. Borgarstjórn skal að jafnaði funda tvisvar í mánuði, á þriðjudögum sem ekki ber upp á helgidag eða almennan frídag, og skulu fundir hefjast kl. 10:00. Borgarstjóri, forseti borgarstjórnar eða borgarstjórn geta ákveðið annan fundarstað og fundartíma.

    Samþykkt að vísa breytingatillögunni til frekari meðferðar forsætisnefndar. 

    Tillaga forsætisnefndar er samþykkt með 16 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar að breytingu á 3. mgr. 10. gr.:

    Lagt til að 3. mgr. 10. gr. breytist og verði svohljóðandi: Borgarfulltrúi sem óskar eftir að fá mál tekið á dagskrá borgarstjórnarfundar skal tilkynna forsætisnefnd það skriflega fyrir kl. 9:00 á föstudegi fyrir reglulegan fund. 

    Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstra grænna. 

    Lögð fram tillaga forsætisnefndar að breytingu á 22. gr. samþykktarinnar:

    Lagt til að 22. gr. breytist og verði svohljóðandi: Borgarfulltrúar mega tala tvisvar við hverja umræðu máls, að frummælanda undanskildum sem má tala þrisvar. Borgarfulltrúa er þó heimilt að taka oftar til máls til að gera stutta athugasemd eða bera af sér ámæli. Forseti getur heimilað borgarfulltrúa að gera stutta athugasemd oftar en einu sinni undir hverjum dagskrárlið sé um að ræða athugasemd um fundarsköp, fundarstjórn forseta eða ef borgarfulltrúi hyggst bera af sér ámæli. Borgarstjóri hefur óbundið málfrelsi og getur því tekið til máls oftar en tvisvar.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt til að tillaga um breytingu á 22. gr. breytist og verði svohljóðandi: Borgarfulltrúar mega tala tvisvar við hverja umræðu máls, að frummælanda undanskildum sem má tala þrisvar. Fullnýti borgarfulltrúi annar en frummælandi ekki rétt til andsvara undir málinu er honum heimilt að koma upp í ræðu í þriðja sinn. Borgarfulltrúa er þó heimilt að taka oftar til máls til að gera stutta athugasemd eða bera af sér ámæli. Forseti getur heimilað borgarfulltrúa að gera stutta athugasemd oftar en einu sinni undir hverjum dagskrárlið sé um að ræða athugasemd um fundarsköp, fundarstjórn forseta eða ef borgarfulltrúi hyggst bera af sér ámæli. Borgarstjóri hefur óbundið málfrelsi og getur því tekið til máls oftar en tvisvar.

    Breytingatillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Tillaga forsætisnefndar er samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar að breytingu á 24. gr.:

    Lagt til að 24. gr. breytist og verði svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. getur forseti leyft borgarfulltrúum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki annarri ræðu eða öðru andsvari. Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en eina mínútu og skal ræðumanni heimilt að svara því á einni mínútu. Svari ræðumaður andsvari er þeim sem andsvar veitti heimilt að veita andsvar öðru sinni og er ræðumanni jafnframt heimilt að svara því andsvari. Veiti fleiri en einn borgarfulltrúi andsvar við sömu ræðu skal ræðumanni að jafnaði veitt færi á að svara hverju andsvari fyrir sig. Orðaskipti í andsvörum mega að jafnaði ekki standa lengur en 10 mínútur í einu.Að jafnaði er borgarfulltrúa heimilt að veita andsvar við tveimur ræðum undir hverjum dagskrárlið.

    Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Lagt til að tillaga um breytingu á 24. gr. breytist og verði svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. getur forseti leyft borgarfulltrúum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum strax og þær hafa verið fluttar. Skal þá sá er vill svara bera fram ósk um það við forseta. Andsvari má einungis beina að máli ræðumanns en ekki annarri ræðu eða öðru andsvari. Hvert andsvar má ekki taka lengri tíma en eina og hálfa mínútu og skal ræðumanni heimilt að svara því á einni og hálfri mínútu. Svari ræðumaður andsvari er þeim sem andsvar veitti heimilt að veita andsvar öðru sinni og er ræðumanni jafnframt heimilt að svara því andsvari. Veiti fleiri en einn borgarfulltrúi andsvar við sömu ræðu skal ræðumanni að jafnaði veitt færi á að svara hverju andsvari fyrir sig. Orðaskipti í andsvörum mega að jafnaði ekki standa lengur en 16 mínútur í einu. Heimilt er forseta að takmarka ræðutíma í andsvörum enn frekar en skv. 2. mgr., sé fyrirséð að orðaskipti muni að öðrum kosti standa lengur. Að jafnaði er borgarfulltrúa heimilt að veita andsvar við tveimur ræðum undir hverjum dagskrárlið.

    Breytingatillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Tillaga forsætisnefndar er samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    - 8. liður; fundadagatal borgarstjórnar og forsætisnefndar 2023-2024, er samþykktur með 17 atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS23010061

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta með engu móti samþykkt tillögur meirihlutans enda vega þær að opinni lýðræðislegri umræðu og takmarka rétt borgarfulltrúa til að koma sjónarmiðum og málefnum á framfæri á vettvangi borgarstjórnar. Borgarstjórn er málstofa borgarfulltrúa og með því að takmarka umræður og fjölda tillagna í borgarstjórn, ásamt því að takmarka lengd funda, er gengið á rétt borgarfulltrúa, málfrelsi þeirra og tillögurétt. Tillögur meirihlutans snúa meðal annars að því að gera borgarstjórn að fjölskylduvænni vinnustað og gera ráð fyrir að borgarstjórnarfundir hefjist á hádegi og borgarfulltrúar yfirgefi fundarsal borgarstjórnar á áttunda tímanum að kvöldi. Slíkt getur vart talist fjölskylduvænt fyrirkomulag. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margbent á það að tillaga flokksins um að hefja borgarstjórnarfundi kl. 9 að morgni myndi tryggja fjölskylduvænt starfsumhverfi án þess að takmarka lýðræðislega umræðu í borgarstjórn.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 13. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. júní: 

    Á fundinum var svar birt vegna fyrirspurnar Sósíalista um vagnaflota strætó. Spurt var um fjölda þeirra vagna sem þyrfti að endurnýja og hver áætlaður kostnaður væri vegna þess. Auk þess var óskað eftir svörum um hvers vegna ekki hafi verið ráðist í vagnakaup og hvenær mætti búast við því að slíkt yrði gert. Svar barst síðan frá framkvæmdastjóra Strætó, Jóhannesi R. Rúnarssyni. Í því kemur fram að mikil þörf sé fyrir endurnýjun vagnaflota Strætó. Staðan er sú að innan tveggja ára munu u.þ.b. 70% allra vagna verða ónothæfir. Engar áætlanir eru uppi um að kaupa nýja vagna þrátt fyrir það. Fulltrúar Sósíalista benda á að með þessu mun útvistun aukast, sem hefur í för með sér auknar niðurgreiðslur til rútufyrirtækja, og verri launakjör vagnstjóra. Nauðsynlegt er að endurskoða fyrirkomulag byggðasamlagsins og einnig sjá til þess að nýir vagnar séu tryggðir innan Reykjavíkur.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 16. júní og 5. liðar fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 12. júní: 

    6. liður: Aðgerðaáætlunin er góð eins langt og hún nær en vandinn er að það er ekki verið að fara eftir henni nema að hluta til. Brotið er á börnum og viðkvæmum hópum daglega í Reykjavík, t.d. með því að láta börn svo tugum skiptir bíða á biðlistum. Það stríðir gegn barnasáttmálanum sem borgin hefur ekki enn innleitt. Jafnrétti og almenn sanngirni ríkir heldur ekki í launamálum. Einnig má nefna að laun ungmenna í Vinnuskólanum hafa ekki fylgt almennum launahækkunum. 5. liður: Flokkur fólksins lagði til að framkvæmd yrði úttekt á hvort samræmdar viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst grunnskólum í Reykjavík til að fylgjast með fjölda þeirra tilvika þar sem nemendur forðast skóla. Tillagan var lögð fram fyrir 14 mánuðum og nú fyrst kemur hún fyrir skólaráðið og er vísað frá. Fullyrt er í bókun meirihlutans að búið sé að þaulgreina „fyrirbærið“ og að góð vitneskja sé um miðlægt verklag. Í raun eru þessi vandi að aukast og vísbendingar eru um að sviðið hafi sofnað á verðinum. Biðlistatölur (2.500 börn) sýna það. Á þeim lista eru án efa börn sem glíma við misalvarlegan vanda, þ.m.t. skólaforðunarvanda.

    Fylgigögn

  28. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að taka á dagskrá með afbrigðum tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hækkun tímalauna unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur.

    Fellt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

  29. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að taka á dagskrá með afbrigðum tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sjö milljón króna aukafjárveitingu til að mæta bráðavanda Tjarnarbíós.

    Fellt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.

  30. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að taka á dagskrá með afbrigðum tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna sumarleyfis borgarstjórnar.

    Fellt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

  31. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að taka á dagskrá með afbrigðum tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna dagskrár borgarstjórnar.

    Fellt með 15 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands. 

  32. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að taka á dagskrá með afbrigðum tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna andsvara.

    Fellt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

Fundi slitið kl. 22:05

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 20. júní 2023