Borgarstjórn - Borgarstjórn 19.9.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 19. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:09. Voru þá komnir til fundar eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Alexandra Briem, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sandra Hlíf Ocares, Skúli Helgason, Trausti Breiðfjörð Magnússon, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Þorkell Sigurlaugsson og Þorvaldur Daníelsson. Eftirtalinn starfsmaður tók sæti á fundinum með rafrænum hætti: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um kynfræðslu og hinsegin fræðslu. SFS23040018

    Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi ályktunartillögu borgarstjórnar:

    Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu vill Borgarstjórn Reykjavíkur árétta stuðning sinn við það mikilvæga starf sem á sér stað í skólum borgarinnar. Fræðsla um fjölbreytileika samfélagsins, meðal annars þegar kemur að kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu er mikilvægur þáttur í að undirbúa ungmennin okkar fyrir lífið og stuðlar að betra og mannvænna þjóðfélagi. Á liðnum árum hafa orðið miklar umbætur og framfarir þegar kemur að réttindum hinsegin og kynsegin fólks sem mikilvægt er að standa vörð um. Borgarstjórn ber fyllsta traust til kennarastéttarinnar og skólastjórnenda og afar mikilvægt er að fólkið sem fræðir börnin okkar geti gert það án þess að þurfa að þola áreiti og árásir frá einstaklingum sem vilja skerða réttindi annarra.

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn sendir frá sér sameiginlega ályktun um kynfræðslu og hinsegin fræðslu þar sem fjallað er um mikilvægi fræðslunnar. Sósíalistar telja einnig rétt að benda á hvernig fjársterk öfl hafa kynt undir hatur gegn hinsegin samfélaginu. Dæmi um slíkt sjáum við hjá Morgunblaðinu, fjölmiðli í eigu auðugasta fólks landsins. Þar hafa verið birtar greinar sem ala á fordómum og jaðarsetningu hinsegin fólks. Tilgangurinn virðist vera að sundra almenningi og beina reiði fólks að tilteknum samfélagshópum sem eru í viðkvæmri stöðu. Slíkt er óásættanlegt. Borgarstjórnarflokkur Sósíalista stendur með hinsegin samfélaginu og baráttunni gegn hatri. Við fögnum fjölbreytileikanum.
     

  2. Fram fer umræða um leikskólamál. MSS23090029

    -    Kl. 13:34 tekur Helgi Áss Grétarsson sæti á fundinum og Þorkell Sigurlaugsson víkur.
    -    Kl. 14:25 tekur Pawel Bartoszek sæti á fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir víkur.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Leikskólastarf í borginni gengur í meginatriðum vel og mikil uppbygging stendur yfir á nýjum leikskólarýmum, sú mesta í áratugi. Sex nýir leikskólar opnuðu á síðasta ári með yfir 600 nýjum leikskólaplássum og stefnir í sambærilega eða enn meiri fjölgun á næstu 18 mánuðum með nýjum leikskólum, stækkun starfandi leikskóla og fjölgun rýma hjá sjálfstætt starfandi leikskólum. Ýmis ljón eru þó í veginum sem tefja fyrir innritun nýrra barna, þar sem mest munar um miklar viðhaldsframkvæmdir í eldri leikskólum. Það er hins vegar jákvætt að mikill meirihluti þeirra plássa sem nýtast ekki í dag vegna viðhaldsframkvæmda munu opna á ný strax á næsta ári. Almennt er því þróunin í rétta átt og metnaðarfull uppbygging samhliða miklum úrbótum á starfsaðstæðum barna og starfsfólks þar sem Reykjavík hefur verið í forystu á landsvísu verður áfram forgangsmál í málaflokknum.

    Borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Enn eitt haustið blasir við erfitt ástand í leikskólamálum í borginni. Staðan versnar milli ára en hinn 1. september sl. voru 725 börn á biðlista en voru á sama tíma í fyrra 583. Þessar tölur segja ekki alla söguna því mánaðarlega fjölgar á biðlistum um 135-140 börn. Samkvæmt þessu mun fjöldi barna á biðlistum halda áfram að hækka á næstu mánuðum og misserum. Meðalaldur barna sem hefja leikskólavist nálgast nú tveggja ára aldurinn en var á síðasta ári 20,1 mánuður. Þá bíða 214 börn eftir að hefja aðlögun í leikskóla sem boðið hefur verið pláss í leikskólum sem ekki eru tiltæk. Ekki hefur tekist að leysa vandann þrátt fyrir boðaðar aðgerðir meirihlutans þess efnis í fyrra haust í því ófremdarástandi sem skapaðist þá. Þetta ástand bitnar á barnafjölskyldum sem augljóslega verða fyrir tekjumissi á meðan barnið kemst ekki á leikskóla. Við þetta ástand bætist svo mikil þjónustuskerðing þannig að foreldrar þurfa að sækja börnin sín fyrr og þjónustan hefur verið rýrð sem nemur heilum vinnudegi foreldra. Þetta er ekki bara lífskjaramál heldur einnig jafnréttismál. Það er orðið löngu tímabært að meirihlutinn viðurkenni vandann, bregðist við honum hið fyrsta og forgangsraði í þágu barnanna í borginni í stað óþarfa gæluverkefna.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Neyðarástand hefur ríkt í leikskólamálum Reykjavíkurborgar lengi vegna þess að loforð um leikskólapláss hafa ítrekað verið svikin. Aldrei hafa foreldrar verið sviknir svo gróflega eins og í þessum málaflokki. Flokkur fólksins krefst þess að meirihlutinn endurskoði forgangsröðun sína hið snarasta og setji barnafjölskyldur og þar með leikskólamál í algeran forgang. Það byggist ótrúlega margt á að þessi mál séu í lagi. Foreldrar þurfa að mæta til vinnu til að eiga fyrir nauðsynjum. Þetta er kannski ekki aðeins spurning um fjármagn heldur einnig skipulag og rétta röðun á ferlum. Það var sem dæmi gengið allt of harkalega að dagforeldrakerfinu þegar ekkert annað var tilbúið að taka við. Myglumálin hafa sannarlega sett strik í reikninginn en það er eitthvað sem meirihlutinn, sá síðasti og þar síðasti, hefði mátt gera sér grein fyrir. Leggja þarf meira fé til leikskólamálanna, viðgerða á híbýlum leikskóla vegna myglu, lagfæra laun og minnka álag með því að fjölga starfsfólki til að laða fólk til starfa. Flokkur fólksins hefur lagt sitt af mörkum til að bæta þennan málaflokk. Tillögur eins og heimgreiðslur/styrkir geta verið einn valmöguleiki í því úrræðaleysi sem nú ríkir. Aldrei komu nein viðbrögð frá meirihlutanum við þeim tillögum. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að stofna stýrihóp þriggja borgarfulltrúa, tveggja frá meirihluta og eins frá minnihluta, undir forystu formanns borgarráðs sem gegni því hlutverki að marka stefnu svo hægt sé að byggja meira, hraðar og fjölbreyttara húsnæði. Stýrihópurinn getur, sé það talið fýsilegt, leitt saman sveitarstjórnarfólk af höfuðborgarsvæðinu og aðila vinnumarkaðarins og ríkisins til að nýju byggingarátaki verði ýtt úr vörum með sem skilvirkustum hætti og þannig mæta mikilli eftirspurn á húsnæðismarkaði og leysa með því framboðsvanda húsnæðis sem blasir við öllum hagaðilum. Stýrihópurinn hefst þegar handa og skal skila af sér fyrstu tillögum eigi síðar en í desember á þessu ári. MSS23090094

    Frestað.

    Fylgigögn

  4. Umræðu um þjóðarhöll er frestað. MSS22050013

    -    Kl. 14:42 víkur borgarstjóri af fundinum.
    -    Kl. 14:50 víkur Björn Gíslason af fundinum og Þorkell Sigurlaugsson tekur sæti.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarstjórn samþykkir að breyta fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði þannig að skatturinn verði 1,65% af fasteignamati húss og lóðar í stað 1,60%. Breytingin taki gildi frá og með janúar 2024. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útfæra breytingarnar, auglýsa þær og gera ráð fyrir kostnaðaráhrifum í fjárhagsáætlun næsta árs sem og fimm ára áætlun. Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði voru lækkaðir úr 1,65% niður í 1,60% árið 2021 og hefur það valdið borgarsjóði miklu tekjutapi. MSS23090097

    Tillagan er felld með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalista og Flokks fólksins.
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru nú 1,60%. Ekki stendur til að ráðast í þær skattahækkanir sem lagðar eru til í tillögunni og er tillagan ekki í samræmi við samstarfssáttmála meirihlutans. Er hún því felld.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er til af borgarfulltrúum Sósíalista að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verði hækkaðir í 1,65% af fasteignamati húss og lóðar í stað 1,60%. Þessir skattar voru lækkaðir árið 2021 þar sem borgin kynnti slíkt sem hluta af viðbrögðum vegna áhrifa COVID-heimsfaraldurs. COVID-faraldurinn er liðinn, þó vissulega haldi fólk áfram að smitast en faraldurinn er ekki lengur að hafa áhrif á atvinnulífið. Áætlað er að hækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði vegna ársins 2024 geti skilað borgarsjóði vel yfir 500 milljónum. Flokki fólksins líst vel á þessa tillögu og mun því styðja hana. Það veitir ekki af að auka tekjur í borgarsjóð. Best væri að þessar auknu tekjur væru notaðar til að bæta þjónustu við börn og aðra minnihlutahópa.

    Fylgigögn

  6. Fram fer umræða um snjallsímanotkun í grunnskólum og hugsanlegt bann. MSS23090030

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meðan fullorðna fólkið ræðir fram og til baka um símanotkun barna í skólum er skólaganga hafin og fjöldi barna fer í skólann með síma sína í handraðanum. Staðfest hefur verið með fjölda rannsókna og kannana að sími truflar einbeitingu nemenda í námi. Einhverjir skólar hafa lagt blátt bann við snjallsímum jafnvel á skólalóðinni, aðrir skólar eru með mildari útfærslu. Enn aðrir skólar skipta sér lítið af því hvort nemendur eru með síma á skólatíma. Mikilvægt er að samtal verði haft við alla hlutaðeigendur, ekki síst foreldra. Ákvörðun um hvort símar skuli bannaðir í skólastofunni hlýtur engu að síður að þurfa að koma frá yfirvöldum. UNESCO hefur kallað eftir því að blátt bann verði lagt við notkun snjallsíma í skólum. Eitt af hverjum fjórum ríkjum heims hefur nú þegar orðið við þessu. Stofnunin segir að símnotkun barna í skólum auki á lærdómserfiðleika, einelti og almenna vanlíðan. Margir eru uggandi yfir hversu háðir nemendur eru símanum. Það er útilokað að vera með óskerta athygli á námi og samskiptum í skólastofunni með símann í augsýn. Það er freistandi að skoða símann þegar hann lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp. Sími ofan í tösku sem slökkt er á truflar minna.

    -    Kl. 15:50 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Egill Þór Jónsson tekur sæti.
    -    Kl. 16:45 víkur Heiða Björg Hilmisdóttir af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur sæti.
    -    Kl. 16:56 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundinum og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir tekur sæti.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um Ljósleiðarann. MSS23010191

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með því að viðhafa lokað útboð á þriðjungshlut Orkuveitu Reykjavíkur í Ljósleiðaranum ehf. er í raun og veru verið að handvelja hverjir skuli verða meðeigendur Orkuveitunnar. Rétt væri að almenningur hefði tök á að festa kaup í hlutnum og hefði tök á að auka hlut sinn í því þegar fram í sækir en fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn hafa ítrekað hafnað því að frekari hlutir í fyrirtækinu verði seldir. Slíkar yfirlýsingar eru til þess fallnar að draga úr áhuga fjárfesta að kaupa hlut í því. Einn stærsti lífeyrissjóður landsins hefur það til að mynda að reglu að fjárfesta ekki í hlutafélögum þegar einn aðili á meirihluta hlutafjár. Auðséð er að við þessar aðstæður hefur lokað útboð vart fjárhagslegt forskot umfram opið útboð á söluandvirði hlutabréfanna. Vænlegra hefði verið að fara í opið útboð sem er sannarlega í þágu gagnsæis, jafnræðis og dreifðs eignarhalds og skilar væntanlega ekki síðra söluverði í krafti stærri kaupendahóps.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikil og vönduð vinna hefur farið í að greina mismunandi útfærslur varðandi fyrirhugaða hlutafjáraukningu í Ljósleiðaranum. Sú vinna hefur leitt í ljós að útboð til fagfjárfesta sé vænlegasta leiðin til að skila þeim árangri sem að er stefnt, þ.e. að hámarka það verð sem fæst fyrir hina nýju hluti, laða að langtímafjárfesta sem þjóna almannahagsmunum og jafnframt höfða til fjárfesta sem hafa reynslu og þekkingu á sviði fjarskiptamála sem nýst getur Ljósleiðaranum farsællega. Margt mælir gegn almennu útboði í þessu tilviki, þ.m.t. erfiðleikar við endursölu bréfa þar sem þau eru ekki á markaði, óvissa um arðgreiðslur næstu misserin, óstöðugleiki á hlutabréfamarkaði og loks mun hærri kostnaður en í útboði til fagfjárfesta svo nemur að minnsta kosti 100 milljónum króna. Greining leiðir í ljós að í útboðum á minnihlutaeign í sambærilegum félögum erlendis hefur þessari aðferðafræði verið beitt með góðum árangri. Þá liggur fyrir ítarlegt regluverk til að lágmarka áhættu á hagsmunaárekstrum og sömuleiðis aðferðafræði til að stuðla að dreifðu eignarhaldi með það að markmiði að draga úr áhættusækni og líkum á að sjónarmið einstakra hluthafa verði of ráðandi við stefnumótun og ákvarðanatöku.

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að skoða fýsileika þess að styðja við uppsetningu sólarsella á heimilum í Reykjavík. MSS23090100

    Frestað.

    Fylgigögn

  9. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 7. og 14. september.
    16. liður fundargerðarinnar frá 7. september, breytingar á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva, er samþykktur með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.
    17. liður fundargerðarinnar frá 7. september, Varmahlíð 1 – Perlan söluferli, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    19. liður fundargerðarinnar frá 7. september, tillaga um gjaldskrár 2023, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    16. liður fundargerðarinnar frá 14. september, endurskoðun leiguverðslíkans Félagsbústaða, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010001

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja að Perlan verði sett í söluferli. Hins vegar gera þeir skýran fyrirvara við þá ákvörðun að láta tvo vatnsgeyma af sex fylgja með. Svara verður þeirri spurningu hvort not verði fyrir umrædda vatnsgeyma í framtíðinni vegna hitaveitumiðlunar í almannaþágu. Afhendingaröryggi hitaveitunnar er algert forgangsmál enda voru geymarnir byggðir í þeim tilgangi að þeir gætu þjónað veitustarfsemi til framtíðar í ört vaxandi borg. Í fagáliti um málið frá 2013 kemur fram að ef fyrirætlanir um þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar gangi eftir, t.d. með byggingu nýs Landspítala, verði það æskilegt, ef ekki óhjákvæmilegt í þágu afhendingaröryggis hitaveitunnar, að taka a.m.k. einn vatnsgeymi til viðbótar í notkun fyrir framrásarvatn. Einnig þarf að hafa í huga mikilvægt hlutverk hitaveitugeymanna þegar alvarlegar bilanir verða í hitaveitukerfinu. Endurnýjun og viðhald kerfisins hefur verið í lágmarki á undanförnum árum og því má búast við því að slíkum bilunum fjölgi. Fullnægjandi miðlun heits vatns hefur ítrekað staðið tæpt á undanförnum árum og heitavatnsskortur því verið yfirvofandi í kuldaköstum. Óábyrgt og óviðunandi er að setja umrædda vatnsgeyma í söluferli fyrr en ýmsum áleitnum spurningum í málinu hefur verið svarað.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 16., 17. og 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september og 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september:

    Sósíalistar leggjast gegn breytingum á reglum um þjónustu félagsmiðstöðva, þar sem verið er að skerða opnunartíma en vísa að öðru leyti til bókunar Sósíalista um slíkt frá fundi borgarráðs þann 7. september sl. Varðandi breytingu á leiguverðslíkani, þá er ekki hægt að samþykkja að leiga hjá 145 leigjendum Félagsbústaða hækki um 12.000 krónur eða meira. Tillagan sem er hér lögð fram felur í sér breytingar á leiguverðslíkani m.a. til að jafna leiguna á milli ólíkra eigna og óháð staðsetningu. Finna verður aðrar leiðir til að ná þessum markmiðum fram en að hækka leiguna hjá leigjendum Félagsbústaða sem búa við kröpp kjör. Vegna tillögu um hækkun gjaldskráa geta Sósíalistar ekki tekið undir að gjaldataka á almenning hækki í því árferði sem nú ríkir. Sósíalistar leggjast einnig gegn sölu á Perlunni, hér er um að ræða mannvirki sem borgin byggði upp og skilar borgarsjóði tekjum. Með sölu er opnað fyrir aðgengi einkafyrirtækja að Perlunni og þar með hverfur ákvarðanavald borgarinnar um það hvernig rýmið nýtist, slíkt getur m.a. leitt til hækkunar á gjaldtöku á einum af bestu útsýnisstöðum innan borgarinnar. Ljóst er að breytinga er þó þörf þar sem okur á sér stað á kaffihúsi innan Perlunnar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. september og 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. september:

    16. liður fundargerðar borgarráðs frá 7. september: Flokkur fólksins er mótfallinn styttingu á opnunartíma félagsmiðstöðva. Félagsmiðstöðvar borgarinnar gegna mikilvægu hlutverki í mótun ungmenna. Flokkur fólksins óttast að svona hagræðingaraðgerð muni kosta samfélagið meira þegar til lengri tíma er litið. Starfsemi félagsmiðstöðva hefur ríkt forvarnargildi. Sparnaðurinn af styttingu opnunartíma er rýr og næg tækifæri annars staðar í borgarkerfinu til að spara álíka fjárhæð. 16. liður fundargerðar borgarráðs frá 14. september: Flokki fólksins líst vel á að það verði þak á fasteignamati í einstökum hverfum til þess að grípa tilvik þar sem fasteignamat hækkar umfram meðaltal. Það er jákvætt að leiguverð sé sem jafnast óháð staðsetningu og aldri íbúðar og að breytingar á leiguverði verði ekki í stökkum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeim 5,5% leigjenda þar sem leigan mun hækka um meira en 12.000 kr. á mánuði. Fjöldi leigjenda hefur kvartað undan stöðugum hækkunum á leiguverði undanfarið. Flokkur fólksins hvetur Félagsbústaði til að sýna sveigjanleika þar sem leigjendur eru í miklum erfiðleikum og jafnframt tilkynna leigjendum þessa breytingu sem fyrst svo fólk geti gert ráðstafanir. Flokkur fólksins mótmælir harðlega að vangreidd leiga sé send lóðbeint til lögfræðinga Motus. Leigjendur Félagsbústaða eru viðkvæmur hópur og margir eru efnalitlir og fátækt fólk.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Birtingarmynd handahófskenndrar fjármálastjórnunar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar blasir við undir þessum tíunda lið á útsendri dagskrá borgarstjórnar. Gjaldskrár eru nú hækkaðar í þriðja sinn á innan við ári, leiguverð hjá Félagsbústöðum endurskoðað án þess að tryggt sé að þau sem mest munu hækka verði varin sem skyldi, starfsemi félagsmiðstöðva skert til að spara smáaura og söluferli Perlunnar hafið. Ráðdeild og útsjónarsemi eru augljóslega ekki orð sem þessi meirihluti býr yfir og metnaðarleysið gagnvart grunnþjónustu borgarbúa er algert. Meirihlutanum hefur mistekist við fjármálastjórn borgarinnar og borgarbúar eiga eftir að þurfa súpa seyðið af því lengi.

    Fylgigögn

  10. Lagt er til að að Andrés Skúlason taki sæti sem varamaður í íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals í stað Elínar Bjarkar Jónasdóttur. MSS22060057
    Samþykkt.

  11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. september, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 14. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. september, skóla- og frístundaráðs frá 11. september, stafræns ráðs frá 13. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. og 13. september og velferðarráðs frá 30. ágúst og 6. september. MSS23010061

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 13. september og 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. september:

    9. liður fundargerðar stafræns ráðs frá 14. september: Flokkur fólksins spurði um vúlgar stigann í Breiðholti sem lenti í 8. sæti í kosningunni Hverfið mitt og hvort verkefnin sem voru í sæti 1-7 hefðu verið framkvæmd en þau voru jólaljós í tré og við Seltjörn, nýjar ruslatunnur, bætt lýsing í hverfið, gróðursetning trjáa, ærslabelgur og trampólíngarður. Í svari segir að fjárheimildir, 130 m.kr. hafi rúmað stigann, 36 m.kr. Þess er ekki getið hvað hin verkefnin kostuðu en gefið er í skyn að öll hafi verið framkvæmd. Í ljós hefur komið að það er ekki rétt. Hvergi bólar t.d. á bættri lýsingu og nýjum tunnum. 6. liður fundargerðar velferðarráðs frá 6. september: Stytta á opnunartíma unglingasmiðjanna Stígs og Traðar og draga úr starfshlutfalli forstöðumanna. Með þessu næst hagræðing upp á 12,7 m.kr. á ári. Fulltrúa Flokks fólksins finnst lítið sparað með þessu ef horft er til neikvæðra áhrifa á unglingana. Óheyrilegur tími og kostnaður hefur farið í að klípa fáeinar krónur af þessu frábæra úrræði. Flokkur fólksins mótmælti harðlega þegar meirihlutinn samþykkti þessa þjónustuskerðingu í sparnaðarskyni. Halda hefði átt óbreyttri starfsemi.

    Fylgigögn

  12. Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að taka á dagskrá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á fjármögnun unglingasmiðjanna Traðar og Stígs.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að fallið verði frá því að skerða fjármögnun unglingasmiðjanna Traðar og Stígs um 12,7 milljónir, sbr. 6. lið fundargerðar velferðarráðs frá 6. september. Í staðinn sé færður peningur úr styrkjapotti velferðarráðs uppá 12,7 milljónir yfir í rekstur Traðar og Stígs, þannig að ekki þurfi að skerða þjónustu við ungmenni sem eiga í félagslegum erfiðleikum og í leiðinni auka vinnuálag á starfsmenn. Með því er verið að færa hagræðingu á milli liða innan sviðsins en ekki falla frá hagræðingu.

    Samþykkt að vísa málinu til meðferðar velferðarráðs.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:40

Magnea Gná Jóhannsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn19.9.2023 - Prentvæn útgáfa