Borgarstjórn - Borgarstjórn 19.12.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 19. desember, var haldinn aukafundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Marta Guðjónsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf og Skúli Helgason, 
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. janúar 2023:

    Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars tekjuárið 2024 verði hækkað úr 14,74% í 14,97% og er það hækkun um 0,23 prósentustig frá því sem lagt var fram í október sl. með fjárhagsáætlun ársins 2024.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. FAS23010019

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Borgarstjórn fagnar áfangasamkomulagi Sambands íslenskra sveitarfélaga og stjórnvalda um fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið er mikilvægur áfangi á þeirri leið að ná sátt um fjármögnun og framtíðarskipulag þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér áframhaldandi vinnu varðandi börn með flóknar þjónustuþarfir og öryggisvistun fullorðinna, sem mikilvægt er að botna hið fyrsta. Jafnframt þarf að fjármagna uppbyggingaráætlun í búsetumálum og NPA. Greiningar sem liggja fyrir um málaflokkinn sýna okkur að til að tryggja fötluðu fólki þá þjónustu sem þau eiga skilið er mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að þróa þjónustuna áfram og tryggja fulla fjármögnun, í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Það er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks sem og tækifæri til sjálfstæðs lífs.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að stórum áfanga hafi verið náð í samningum sveitarfélaga og ríkis um fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks. Fulltrúarnir samþykkja því fyrirliggjandi útsvarshækkun sem ætlað er að fjármagna málaflokkinn, og felur ekki í sér skattahækkun á íbúa, heldur breytta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Fulltrúarnir telja þó eftir sem áður að Reykjavíkurborg beri að ráðast í umfangsmiklar úrbætur á rekstri borgarinnar svo unnt verði að lækka skatta á fólk og fyrirtæki í Reykjavík.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er að tryggja öll mannréttindi fatlaðs fólks, þannig þarf að vera hægt að endurskoða samninginn ef þörf er á. Tryggja þarf til dæmis búsetufrelsi, en í samningnum stendur að skilgreindur verði lágmarksfjöldi íbúa á bak við hvert þjónustusvæði. Samningur þessi má ekki leiða til takmörkunar á frelsi fólks til þess að ákveða hvar það býr og starfar. Þá er eðlilegt að fulltrúar fatlaðs fólks eigi sæti í þeim hópum sem ráða framtíðarfyrirkomulagi þjónustunnar og fjármögnunar hennar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins fagnar þessu samkomulagi sem felur í sér breytingu á fjármögnun lögbundinnar sértækrar þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir. Vísað er í samkomulagið um nánari útfærslu. Flokkur fólksins hefur þó nokkrar áhyggjur af því að með þessari breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk verði litið svo á að þeir þættir sem lagðir eru til grundvallar séu endanlega útkljáðir milli ríkis og sveitarfélaga. Allt sem er endanlegt í svo mikilvægum málaflokki hræðir fulltrúa Flokks fólksins. Það er ómögulegt að átta sig á hvernig mál kunna að þróast og hefði borgarfulltrúi Flokks fólksins vilja nota annað hugtak en endanlegt í þessu samhengi.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 15:23

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 19.12.2023 - Prentvæn útgáfa