Borgarstjórn - Borgarstjórn 19.11.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:23. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Líf Magneudóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Árelía Eydís Guðmundsdóttir. Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Marta Guðjónsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason og Unnur Þöll Benediktsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2024-2027, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. nóvember 2024.
    Samþykkt. VEL23060034

    Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:

    Barnavernd Reykjavíkur aðstoðar börn og foreldra í alvarlegum vanda við að tryggja velferð og öryggi barna til framtíðar með fjölbreyttri ráðgjöf, stuðningi og faglegum lausnum. Aðstoð og stuðningur eru alltaf út frá því sem ætla má að sé barni fyrir bestu. Í þeirri framkvæmdaáætlun Barnaverndar sem hér er samþykkt koma fram skýr meginmarkmið um skilvirkni, virkt samstarf um farsæld og samþættingu þjónustu. Sett eru fram markmið um ráðdeild og hakvæmni í rekstri og að Barnavernd Reykjavíkur njóti trúverðugleika og trausts hjá borgarbúum. Sett er fram sóknaráætlun til ársins 2027.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2024-2027 er mjög góð áætlun og þar er framtíðarsýnin mikil og sóknaráætlun er jákvæð. Flokkur fólksins er sannarlega sammála því að Barnavernd Reykjavíkur vinnur gott og farsælt starf í barnaverndarmálum. Það er líka gott að heyra að lausn sé í sjónmáli varðandi tímabundið húsnæði fyrir Mánaberg en vistheimilið hefur lengi verið í mikilli húsnæðiseklu. Það hefur verið í farvegi að byggja nýtt húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs og eru þær áætlanir komnar á góðan rekspöl. Fulltrúi Flokks fólksins saknar hins vegar að bent sé á viðvarandi verkefni sem Barnavernd Reykjavíkur stendur frammi fyrir eins og hvernig mætti bæta þjónustuna og mikilvægi þess að fjölga meðferðarúrræðum. Áskoranir Barnaverndar eru fjölmargar. Tilkynningum til Barnaverndar hefur fjölgað og nýjustu skýrslur Barnaverndar sýna aukningu á neyslu á meðal barna. Tilkynningum hefur einnig fjölgað verulega til lögreglu og Barnaverndar þar sem grunur er um að barn beiti ofbeldi. Gríðarlegur vöxtur hefur orðið á vistgreiðslum Barnaverndar og á sama tíma sárvantar stuðnings- og fósturfjölskyldur. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af öllum þeim áskorunum sem Barnavernd stendur frammi fyrir en vonandi auðnast Barnavernd að leysa allar þessar áskoranir farsællega.

    Fylgigögn

  2. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarstjórn samþykkir að ráðast í 2.000 íbúða bráðaaðgerðir á húsnæðismarkaði sem koma skulu til framkvæmda árið 2025. Sjónum verði beint að þegar deiliskipulögðum svæðum, þróunarsvæðum og framtíðarsvæðum í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi sem þegar gera ráð fyrir íbúðabyggð samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Jafnframt verði fyrirliggjandi hugmyndum um þéttingu byggðar í Grafarvogi vísað aftur til átakshóps í húsnæðismálum sem stofnaður var með erindisbréfi 30. janúar 2024. Verði þeim tilmælum beint til átakshópsins að draga verulega úr umfangi uppbyggingarinnar og hafa skýra hliðsjón af byggðarmynstri og staðaranda Grafarvogs við alla tillögugerð. Sjónum verði sérstaklega beint að þróunarreitum sem styrkt geta Staðahverfi og leitt til þess að Korpuskóli verði aftur opnaður.

    -    Kl. 13:55 tekur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir sæti á fundinum og Helga Þórðardóttir víkur.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24110120

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Andvaraleysi sveitarstjórnarmanna í húsnæðismálum hefur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun efnahagslífs hérlendis. Frá árinu 2014 hefur húsnæðisliðurinn, sem að mestu ræðst af fasteignaverði, verið helsti drifkraftur verðbólgu hérlendis. Ríkjandi skortstefna í lóðamálum borgarinnar birtist í langvarandi framboðsskorti á húsnæðismarkaði sem leitt hefur af sér gríðarlegar hækkanir fasteignaverðs. Sé aðeins litið á yfirstandandi kjörtímabil, má sjá hvernig heildarmat fasteigna hérlendis hefur hækkað um tæp 48%. Stóraukið lóðaframboð og kraftmikil húsnæðisuppbygging geta því falið í sér gríðarlega kjarabót fyrir almenning í landinu. Með því að koma jafnvægi á húsnæðismarkað má ná betri tökum á verðbólgu hérlendis og hafa jákvæð áhrif á heimilisbókhald og lífsgæði allra landsmanna. Sjálfstæðisflokkur leggur því ríka áherslu á að þær bráðaaðgerðir sem hér voru lagðar fram, og snúa að uppbyggingu 2.000 íbúða strax árið 2025, nái fram að ganga. Sjónum verði beint að þegar deiliskipulögðum svæðum, þróunarsvæðum og framtíðarsvæðum í Úlfarsárdal, á Kjalarnesi og í Staðahverfi í Grafarvogi.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það bráðvantar húsnæði, um það er ekki deilt. Við viljum draga úr áherslu á þéttingu byggðar enda slíkt húsnæði ekki hugsað fyrir efnaminna fólk. Flokkur fólksins vill brjóta nýtt land undir byggð, t.d. í Úlfarsárdal og Geldinganesi samhliða Sundabraut sem þar liggur yfir. Aðferðafræði borgarstjóra í vegferð hans í uppbyggingarfasa í Grafarvogi fór á versta veg eins og öllum er kunnugt um. Taka þarf hugmyndir frá Grafarvogsbúum sjálfum og vinna út frá þeim en ekki öfugt. Víðtæk mótmæli og óánægja er með þær hugmyndir sem borgarstjóri hefur kynnt um uppbyggingu í Grafarvogi. Það mátti sjá á íbúafundi sem haldinn var í Rimaskóla 12. nóvember sl. Annar eins fjöldi fólks hefur varla sést áður á fundi af þessu tagi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ótækt að farið sé fram með offorsi í svona máli. Tekið er undir að hugmyndum um þéttingu byggðar í Grafarvogi verði vísað aftur til átakshóps í húsnæðismálum sem stofnaður var með erindisbréfi 30. janúar 2024 og einnig er tekið undir að þeim tilmælum verði beint til átakshópsins að draga verulega úr umfangi uppbyggingarinnar.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum, sbr. 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. nóvember 2024.

    -    Kl. 15:25 víkur Unnur Þöll Benediktsdóttir af fundi og Kristjana Þórarinsdóttir tekur sæti. MSS23010102

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum er á dagskrá borgarstjórnar. Þessi aðgerðaáætlun er sannarlega yfirgripsmikil. Það sem kannski vantar þó í hana er að fjallað sé um hvernig eftirfylgni aðgerða á að vera háttað. Það sem merkt er við aðgerðir „viðvarandi“ veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvernig á að mæla árangur af þessu „viðvarandi“ og hvernig eftirfylgni er háttað. Það skiptir máli að sjá með áþreifanlegum hætti hvort það sem verið er að gera skili sér eins og lagt var upp með. Ef það er ekki að skila þeim árangri sem lagt var upp með þarf að gera breytingar. Það er ekki nóg að skrifa einhverjar áætlanir og síðan ekki söguna meir. Mælingar á árangri af þeim skipta öllu máli.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um mistök Reykjavíkurborgar við gerð deiliskipulags lóðanna Gufunesvegur 34 og Þengilsbás 1.

    -    Kl. 15:55 víkur Kristinn Jón Ólafsson af fundi og Kjartan Jónsson tekur sæti.
    -    Kl. 16:03 víkur Skúli Helgason af fundi og Ellen Calmon tekur sæti. MSS22070086

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á eigendum Loftkastalans hefur Reykjavíkurborg brotið sem fólst í að borgin útfærði ekki í deiliskipulagi það sem þó ber að gera samkvæmt skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa. Þetta er ákveðið og gert án vitundar lóðarhafa. Eigendur kærðu í þrígang til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en málinu var jafnoft vísað frá með þeim rökum að borginni væri í lófa lagið að leiðrétta mistökin og einnig að málið væri einkaréttarlegs eðlis. Viðurkennt er að borgin gerði mistök, leiðrétti þau ekki nægjanlega til að eignin yrði nothæf. Borgin lagði fram lausn sem var lækkun á götum sem voru þó látnar halla að húsum Loftkastalans. Gatan er enn hærri en gólf núverandi húsa. Eigendur hafa ekki getað nýtt byggingarréttinn og er Reykjavíkurborg ábyrg fyrir skerðingu á rekstri tveggja fyrirtækja í fimm ár. Á meðan lóðin er ónothæf hafa eigendur haldið eftir greiðslu þrjú og fjögur sem eru vegna byggingarréttar og gatnagerðargjalda og háðar því að unnt sé að byggja á lóðinni. Borgin hefur nú lýst yfir að vilja rifta samningnum vegna vanefndanna jafnvel þótt Reykjavíkurborg hafi ekki orðið fyrir tjóni þar sem þessar greiðslur vegna byggingarréttargjalda og gatnagerðargjalda eru verðtryggðar samkvæmt kaupsamningnum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning friðlýsingar Laugarnestanga sem fólkvangs.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24110121

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það eru vonbrigði að borgarstjórn vísi tillögu um friðun Laugarnestanga sem fólkvangs til umhverfis- og skipulagsráðs til meðferðar. Eðli málsins samkvæmt hefði borgarstjórn átt að hafa hugrekki til að samþykkja tillöguna milliliðalaust og koma henni strax í formlega vinnu með fagfólki umhverfis- og skipulagssviðs og í samstarfi við Umhverfisstofnun. Ekki var hins vegar vilji til þess að senda skýr skilaboð um afstöðu borgarstjórnar til friðunar dýrmæts náttúru- og menningarminjasvæðis og verndunar lífbreytileika. Mikil vinna átti sér stað á síðasta kjörtímabili við að greina tækifæri til svæðisbundinnar náttúruverndar í Reykjavík og er friðun Laugarnestanga sem fólkvangs eitt af þeim. Forvinnan hefur því þegar farið fram og það eina sem stendur eftir er að taka skýra afstöðu til þess að Reykjavíkurborg vilji friða Laugarnestangann. Það varð hins vegar ekki raunin og því fór sem fór með þreklítilli og máttvana afgreiðslu borgarstjórnar.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka jákvætt í hugmyndir um friðlýsingu Laugarnestanga en leggja þó áherslu á að útfærslan gangi ekki á stækkunarmöguleika Reykjavíkurhafna. Mikilvægt er að tryggja höfnunum möguleika á frekari landfyllingum við Sundahöfn, ekki síst ef lega Sundabrautar mun að endingu ganga á hafnarsvæðið. Með auknum landfyllingum má efla núverandi hafnarstarfsemi og tryggja vaxtarmöguleika hafnanna til fyrirsjáanlegrar framtíðar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins er fylgjandi friðlýsingu Laugarnestanga svo og fjörum hans. Landfyllingar á þessu svæði og þar með eyðilegging fjörunnar eru framkvæmdir sem ekki á að líða. Með því að fylla fjörur er lífríki eyðilagt endanlega. Hvað er að frétta af öllu tali meirihlutans um líffræðilegan fjölbreytileika þegar ákveðið er að fylla fjörur? Hugtökin líffræðilegur fjölbreytileiki er ofnotað af skipulagsyfirvöldum, eins konar tískuhugtak sem skipulagsyfirvöld kasta fram í tíma og ótíma. Skipulagsyfirvöld setja t.d. beð eða blómapott þar sem áður var bílastæði og státar sig af því að auka líffræðilegan fjölbreytileika í borgarlandinu. En hvað er líffræðilegur fjölbreytileiki, hver er skilgreiningin? Alþjóðlega hugtakið líffræðileg fjölbreytni vísar til fjölbreytni alls lífs á jörðinni og nær yfir breytileika innan tegunda, milli tegunda og meðal vistkerfa. Líffræðileg fjölbreytni er hið formlega heiti á hugtakinu en það er einnig kallað líffræðilegur fjölbreytileiki, lífbreytileiki og líffjölbreytni.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um bætt umferðaröryggi við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar, sbr. 10. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. október 2024 og 8. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 15. október sl.

    -    Kl. 17:43 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Stefán Pálsson tekur sæti.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS24100077

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessi tillaga, að ráðist verði í tafarlausar neyðaraðgerðir til að bæta umferðaröryggi við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar, er mjög í anda þess sem Flokkur fólksins hefur verið að segja og skrifa að undanförnu, þar á meðal að setja þarna upp snjallstýringu á umferðarljósum og snjallgangbraut sem skynjar aðstæður, umferðarflæði og gangandi og hjólandi vegfarendur. Flokkur fólksins styður því þessa tillögu. Þetta klukkukerfi Reykjavíkurborgar er ekki snjallkerfi enda þótt meirihlutinn vilji láta sem svo sé.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um matvöruverslun á Bauhaus-reit, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. nóvember sl.
    Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna að fresta málinu. 
    Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24110023

    Fylgigögn

  8. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Söndru Hlífar Ocares.
    Samþykkt. MSS22060048

  9. Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í velferðarráði í stað Söndru Hlífar Ocares. Jafnframt er lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur.
    Samþykkt. MSS22060049

  10. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti í fjölmenningarráði í stað Birnu Hafstein.
    Samþykkt. MSS22060054

  11. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti í íbúaráði Breiðholts í stað Kjartans Magnússonar.
    Samþykkt. MSS22060056

  12. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Grafarvogs í stað Þorkels Sigurlaugssonar.
    Samþykkt. MSS22060058

  13. Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Helgu Marzellíusardóttur.
    Samþykkt. MSS22060062

  14. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Birnu Hafstein.
    Samþykkt. MSS22060064

  15. Lagt til að Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varamaður í stjórn Félagsbústaða í stað Söndru Hlífar Ocares. MSS23060121
    Samþykkt.

  16. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 17. október og 7. og 14. nóvember. MSS24010001
    4. liður fundargerðarinnar frá 17. október, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS24010023
    20. liður fundargerðarinnar frá 7. nóvember, sala á bílastæðum í bílakjallara Hörpu – Austurbakki 2, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. FAS24010037
    22. liður fundargerðarinnar frá 7. nóvember, gjaldskrá fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. VEL24100014
    2. liður fundargerðarinnar frá 14. nóvember, viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS24010023

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðarinnar frá 7. nóvember:

    Flokkur fólksins fagnar að loksins á að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis um að Reykjavíkurborg beri að breyta gjaldskrám fyrir sameiginlega akstursþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins hefði aldrei samþykkt annað. Búið er að ræða um ólíkar útfærslur að gjaldskrám í velferðarráði á þremur fundum ráðsins. Fyrst áttu 12-17 ára fötluð börn að fara að greiða öryrkjagjald fyrir akstursþjónustuna en áður var skólaakstur grunnskólabarna gjaldfrjáls. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælti því fyrirkomulagi harðlega m.a. af þeirri ástæðu að þessi börn höfðu fengið fría akstursþjónustu áður. Ekki er um mörg börn að ræða og því kostnaður ekki íþyngjandi fyrir borgina. Það hefði því verið mikið óréttlæti að láta fötluð börn greiða fyrir akstursþjónustuna sem þau höfðu ekki þurft að gera áður. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á meirihlutasáttmálann en þar segir að börn á grunnskólaaldri fái ókeypis í strætó. Þetta loforð hefur ekki verið efnt að fullu. Það hefði því verið fráleitt og afar ósanngjarnt að rukka ákveðinn hóp fatlaðra barna fyrir akstur. Fulltrúi Flokks fólksins barðist af hörku í velferðarráði fyrir því að snúið yrði frá fyrri tillögu að gjaldskrá og var niðurstaðan loksins að öll fötluð leik- og grunnskólabörn fái fría akstursþjónustu.

    Fylgigögn

  17. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 15. nóvember, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. nóvember, skóla- og frístundaráðs frá 11. nóvember, stafræns ráðs frá 13. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. nóvember og velferðarráðs frá 8. nóvember. MSS24010034

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja fyrirliggjandi hugmyndir um byggingu knatthúss ásamt viðbyggingu á svæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur á grundvelli tillögu félagsins. Mikilvægt er að draga lærdóm af vandkvæðum sem upp hafa komið við alútboð vegna áður byggðra knatthúsa í borginni. Vanda þarf til verka við útboð verksins, samningagerð og eftirlit á framkvæmdatíma. KR glímir við mikinn aðstöðuvanda og er því frekari uppbygging íþróttamannvirkja í Vesturbænum löngu tímabær. Hins vegar er óeðlilegt að gera þá kröfu að KR gangi á takmarkað athafnasvæði sitt með byggingu fjölbýlishúsa í því skyni að fjármagna uppbyggingu íþróttamannvirkja. Eru slíkar kröfur að jafnaði ekki gerðar til hverfisíþróttafélaga í borginni vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja á félagssvæðum þeirra til framtíðar. Rétt er að hafa í huga að útlit er fyrir mikla þéttingu byggðar og fjölgun íbúa í Vesturbænum á næstu árum. Slík fjölgun mun stórauka kröfur til KR og er því mikilvægt að félaginu sé tryggt nægilegt athafnarými til framtíðaraukningar.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 11. nóvember og 1. lið fundargerðar velferðarráðs frá 8. nóvember:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hver staðan sé í íslenskuverum Reykjavíkurborgar. Það kemur á óvart að sjá í svari hversu langur biðlisti er í íslenskuverin, en 72 nemendur bíða eftir að komast í íslenskukennslu. Þetta eru slæm tíðindi. Fjölga þarf íslenskuverum strax og dýpka kennsluna og lengja hana. 1. liður fundargerðar velferðarráðs frá 8. nóvember. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir harðlega að hækka eigi leigu umfram verðlag eins og fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir. Hækka á leigu um 6,5% umfram verðlag strax í upphafi áætlunartímabils. Nú þegar er stór hópur að sligast undan leiguverði enda eru flestir sem leigja hjá Félagsbústöðum lágtekjufólk og fólk sem býr við slæman efnahag af ýmsum ástæðum. Það á ekki að koma niður á leigjendum að eigendum Félagsbústaða tekst ekki að reka fyrirtækið á sjálfbæran hátt. Finna þarf aðrar leiðir en að seilast í vasa leigjenda. Hvar eru mótvægisaðgerðir til að hjálpa þeim sem ekki geta greitt hærri leigu? Annað áhyggjuefni eru biðlistar en það bíða nokkur hundruð manns á listanum eftir félagslegu húsnæði og í þeim hópi eru tugir barna. Skera á niður í viðhaldi sem er ávísun á stór vandræði, myglu og rakavandamál munu skjóta upp kollinum eins og gorkúlur.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:18

Sabine Leskopf Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Friðjón R. Friðjónsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 19.11.2024 - Prentvæn útgáfa