Borgarstjórn - Borgarstjórn 18.6.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 18. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:07. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Hildur Björnsdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Unnur Þöll Benediktsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Í upphafi fundar minnist borgarstjóri Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur fyrrverandi sviðsstjóra og borgarritara sem lést 13. júní sl. MSS24010002 

  2. Fram fer umræða um árangur af flokkun og þróun í sorphirðuþjónustu. MSS24060073

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Með flokkun og hirðu á matarleifum og vinnslu þeirra í GAJU er dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Gert er ráð fyrir að um 24.000 tonn af matarleifum fari gegnum GAJU árið 2024. Þetta mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 19.200 tonnum af koldíoxíði en það samsvarar losun um 10.000 fólksbíla. Á fyrsta fjórðungi þessa árs, 2024, var urðunin 89% minni en fyrsta ársfjórðung 2023. Þegar kemur að flokkun og hirðu við heimili í Reykjavík í samanburði milli fyrstu fjögurra mánaða áranna 2022 og 2024 er 187% aukning á flokkun á plasti, 32% aukning á flokkun á pappír og 4761% aukning á flokkun matarleifa. Blandaður úrgangur hefur þá dregist saman um 37%.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar telja eðlilegt að greitt útsvar nái yfir kostnaðinn vegna sorphirðu í stað þess að íbúar greiði sérstök sorphirðugjöld. Í þeim efnum er nauðsynlegt að allir íbúar greiði útsvar til sveitarfélagsins en fjármagnseigendur eru undanþegnir greiðslu útsvars af fjármagnstekjum þrátt fyrir að þeir nýti þjónustu sveitarfélagsins. Þá telja Sósíalistar að sveitarfélagið eigi að sjá um söfnun úrgangs en ekki að bjóða þjónustuna út eins og fjallað er um sem möguleika í samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Þar stendur: „Reykjavíkurborg sér um söfnun á heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið getur sinnt söfnun úrgangs á eigin vegum eða falið öðrum framkvæmdina.“ Reynslan sýnir að útvistun leiðir ekki til betri þjónustu samanber t.a.m. umsjón með grenndargámum í Reykjavík.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ýmislegt hefur gengið á frá því nýja flokkunarkerfið var sett á laggirnar í Reykjavík, aðallega vegna tafa á hirðu sorps. Enda þótt SORPA komi hvergi nærri sorphirðu við heimili á höfuðborgarsvæðinu er ekki þar með sagt að SORPA eða meirihlutinn í borginni geti fríað sig ábyrgð ef illa gengur. SORPA og borgin bera alltaf ábyrgðina. Terra sinnir losun á pappír, plasti, gleri og málmum skv. samningi í kjölfar útboðs. Miklir erfiðleikar hafa verið í sorphirðumálum þeim sem snúa að Terru. Þá hafa sorphirðubílar bilað og seinkun verið á hirðu í allt að viku og meira. En hér má sjá galla útvistunar í hnotskurn. Þegar búið er að útvista verkefnum og þjónustan versnar þvær meirihlutinn hendur sínar. Eðlilega eru byrjunarörðugleikar þegar stór verkefni eru innleidd. Í dag er staðan þannig að víða um borg liggur sorp eins og hráviði, m.a. við grenndarstöðvar því gámar eru ýmist ekki til staðar eða eru ekki tæmdir. Ítrekað eru stampar yfirfullir og það allt of lengi. Verkefnið er meirihlutans að sinna og því ekki hægt að kenna neinum öðrum um. Fulltrúa Flokks fólksins finnst meirihlutinn aðeins vilja hreykja sér en er ekki tilbúinn að ræða hvernig og hvenær á að slípa til helstu agnúa.
     

  3. Fram fer umræða um stöðu samgöngumála í Reykjavík. MSS24060074

    Kl. 13:30 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir víkur af fundi.
    Kl. 15:00 víkja Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Kristinn Jón Ólafsson af fundinum og Ásta Björg Björgvinsdóttir og Tinna Helgadóttir taka þar sæti.
    Kl. 16:10 tekur Þorvaldur Daníelsson sæti á fundinum og Unnur Þöll Benediktsdóttir víkur af fundi. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Frá undirritun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrikað mikilvægi þess að gætt verði að tímaáætlun framkvæmda og ráðdeild hvað varðar framkvæmdakostnað. Með sáttmálanum þyrfti að tryggja frelsi og val í samgöngum – einn fararmáti skyldi ekki útiloka annan – framtíðin ætti að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika. Tæpum fimm árum eftir undirritun sáttmálans ríkir hins vegar enn mikil óvissa um fjármögnun hans og heildarkostnað. Lítið bólar á yfirstandandi endurskoðun sáttmálans sem hófst í mars 2023. Beina fulltrúar Sjálfstæðisflokks því til þeirra sem vinna nú að endurskoðun sáttmálans að horfa til ábyrgðar og ráðdeildar og leita hagkvæmustu leiða til að greiða úr samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Núna er jafnframt liðin nærri hálf öld frá því að fyrstu hugmyndir um Sundabraut litu dagsins ljós. Félagshagfræðilegur ábati af framkvæmdinni hefur verið mældur, en hann er talinn geta numið 216 til 293 milljörðum króna, allt eftir þeirri útfærslu sem valin yrði, brú eða göng. Mesti ábatinn væri vegna styttri ferðatíma en einnig vegna styttri vegalengda. Jafnframt má ljóst vera að framkvæmdin mun ávallt teljast hagkvæm og fela í sér gríðarlegan samfélagslegan ávinning, hvort heldur sem brúar- eða gangnalausn yrði fyrir valinu. Sjálfstæðismenn leggja því ríka áherslu á að Sundabraut komist til framkvæmda án tafar.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar kalla eftir því að það sé unnið harðar að því að gera öllum manneskjunum sem flæða milli staða í borginni það ávallt sem auðveldast. Framkvæmdir verði skipulagðar með þetta að sjónarmiði, að eftirlit verði með verktökum og pressa sett á þá að frágangur í kringum framkvæmdir þeirra séu þannig að öllum sé gert mögulegt að komast leiðar sinnar. Smáframkvæmdir til þess að hleypa hjólum og öðrum farartækjum á hjólum upp á gangstéttir víða um borgina, og bætt vinnulag og eftirlit í kringum byggingaframkvæmdir, eiga ekki að þurfa að kosta mikið eða taka langan tíma. Brýn þörf er á að bæta upplýsingagjöf til farþega Strætó þegar framkvæmdir valda röskun á leiðakerfi og staðsetningum biðstöðva. Hún má aldrei verða svo slök eða misvísandi að farþegar missi af vögnum. Sósíalistar kalla einnig eftir því og ítreka að borgin geri allt það sem mögulegt er til þess að strætó geti þjónustað höfuðborgina skammlaust. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við að þetta leysist við Borgarlínu, fólk þarf að geta ferðast um borgina þangað til hún kemst í gagnið, þar sem það er áratugaverkefni ekki bara nokkurra ára.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Samgöngumál eru ein af þeim málum sem meirihlutanum gengur illa að ráða bót á. Á hverjum degi situr fólk fast í umferðarteppum og almenningssamgöngur eru af versta tagi. Þjónusta hefur verið skert hjá Strætó sem er eini valkostur almenningssamgangna næstu árin. Á þeim fáu árum sem liðin eru frá undirritun samgöngusáttmálans tíðrædda hefur í raun ekki mikið gerst. Nú liggur fyrir að Borgarlína tefst og óvissa ríkir um verkefnið. Einnig er óvissa um legu Sundabrautar. Umferðin mun þyngjast enn meira enda fjölgar fólki stöðugt. Verst er stíflan til vesturs á morgnanna og til austurs seinnipart dags en í reynd er umferðarvandi allan daginn. Ekki er séð að meirihlutinn hafi af þessu miklar áhyggjur. Í það minnsta er ekki að sjá að neinar sérstakar aðgerðir séu í gangi til að taka á verstu umferðarhnútunum. Af hverju er staðan svona slæm? Oft er talað um ljósastýringar í þessu sambandi og lokanir vegna framkvæmda þegar verið er að þrengja götur sem dæmi eða þétta byggð svo um munar. Af hverju er ekki hægt að skipuleggja framkvæmdir þannig að götur lokist ekki? Getur verið að borgaryfirvöld séu að auka á vandann að ósekju með vilja? Meirihlutinn vill bílinn út hvað sem það kostar.

  4. Fram fer umræða um mál Flokks fólksins á fundum borgarstjórnar veturinn 2023-2024. MSS24060075

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Í vetur sem leið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram 30 tillögur, þar af 23 breytingatillögur við framlagningu frumvarps að fjárhagsáætlun 2024. Umræðuefni voru sjö á jafnmörgum fundum borgarstjórnar. Öllum breytingatillögunum tengdum fjármálum og sparnaði var ýmist vísað frá eða þær felldar. Tillaga um skaðabætur til þeirra sem hafa veikst af myglu og tillaga um að víkja skuli frá ákvörðun um að leggja niður Borgarskjalasafn voru felldar. Allur minnihluti borgarstjórnar kaus gegn því að fella þá síðari. Fimm tillögum var vísað til annarra ráða og sviða. Tillaga um heimsókn barna í Ráðhúsið var vísað til stýrihóps um mótun lýðræðisstefnu, tillögu um lóðir fyrir Grindvíkinga og byggingu viðlagasjóðshúsa var vísað til átakshóps í húsnæðismálum, tillögu um starfshóp til að rýna biðlista vísað til velferðarráðs og tillögu um óháða úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði var vísað til borgarráðs. Tillögu um að sviðsmynd 1 yrði fylgt við uppbyggingu skóla í Laugardal var vísað til skóla- og frístundaráðs. Ekkert hefur spurst til þessara tillagna. Þessi mál hafa öll valdið ólgu og reiði í samfélaginu. Reynslan sýnir að engin alvara er hjá meirihlutanum með að vísa málum inn í borgarbáknið, tilgangurinn er að kaupa tíma, kæla málin og vonast helst til að þau gleymist með tímanum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Samkvæmt stefnu Félagsbústaða er miðað við að um 5% íbúða í borginni séu félagslegar leiguíbúðir. Lagt er til að hlutfallið verði hækkað til þess að mæta þeim sem eru í þörf fyrir slíkt húsnæði. Kaupáætlanir Félagsbústaða hafa ekki tekið mið af þörf þar sem langir biðlistar hafa myndast eftir húsnæði. Félagsbústöðum í samvinnu við velferðarsvið verði falið að fara yfir stöðuna til þess að setja fram hversu hátt hlutfallið þurfi að vera af íbúðum í Reykjavík á vegum Félagsbústaða til þess að mæta þörf og fyrirbyggja langa biðlista. Önnur svið og/eða ráð borgarinnar komi að þessari vinnu eftir því sem þörf þykir.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar borgarráðs.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24060076

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögur um að skilgreina hærra hlutfall sem leiguíbúðir, stúdentaíbúðir og leiguíbúðir Félagsbústaða vegna langra biðlista í slíkt húsnæði. Flokkur fólksins styður því þessa tillögu. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. Samkvæmt nýjustu tölum eru 656 nú að bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, 173 manneskjur á bið eftir húsnæði sem hentar þörfum fatlaðra, 66 eru á biðlista eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 50 manns á bið eftir húsnæði sem hentar heimilislausum með miklar þjónustuþarfir. Húsnæðisástandið kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki. Í svörum hefur komið fram að samningsmarkmið hafi verið endurskoðuð þegar ástæða hefur þótt til frá því þau voru fyrst samþykkt árið 2014. Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á hvað það þýðir, „þegar ástæða hefur þótt til“. Sjálfsagt er að hækka þessi viðmið enn meira nú þegar svo illa árar í samfélaginu og verðbólga er há. Kaupáætlanir hafa ekki tekið mið af fjölda sem eru á biðlista og nauðsynlegt að hlutfall félagslegra leiguíbúða sé í takt við þörf.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vinstri græn eru sammála þeim markmiðum sem fram koma um mikilvægi þess að standa við sett markmið um hlutfall íbúða Félagsbústaða í Reykjavík og að heldur verði bætt í heldur en hitt. Reykjavík á að vera í fararbroddi á landsvísu þegar kemur að rekstri félagslegs húsnæðis og er afar mikilvægt að allar færar leiðir séu kannaðar í því samhengi í stað þess að festa sig í kreddum hægristefnunnar og tortryggni í garð félagslegra lausna.

    Fylgigögn

  6. Umræðu um Viðey er frestað. MSS24060077

  7. Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta umræðu um gjaldskyld bílastæði í Reykjavík.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24060078

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela velferðarsviði að vinna tillögu að breyttu fyrirkomulagi og skipulagi á vinnu skólasálfræðinga og annars fagfólks skólaþjónustu með það að markmiði að stytta biðlista barna þannig að ekkert barn bíði lengur eftir þjónustu en 90 daga. Hafa skal til hliðsjónar sambærilegt átak á barna- og unglingadeild, m.a. þannig að fagfólk geti unnið í meiri samvinnu og teymisvinnu að heildstæðri greiningu á vanda barns eins og óskað er eftir í tilvísun. Frumgreiningar gætu batnað og skilað meiri árangri ef þær yrðu unnar meira í teymi ólíkra sérfræðinga eftir því sem beðið er um samkvæmt tilvísun. Með þessu myndi tilvísunum fækka í hópi þeirra barna sem þurfa frekari greiningu nema kannski í allra þyngstu málunum, s.s. hjá börnum sem þurfa fötlunargreiningu eða eru með alvarlegri geðrænan vanda sem þarfnast heilbrigðisþjónustu. Einnig skal finna leiðir til að auka áhuga sérfræðinga á að vinna hjá skólaþjónustu Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta málinu.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24060079

    Fylgigögn

  9. Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta umræðu um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara.
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24060080

    Fylgigögn

  10. Fram fer kosning forseta borgarstjórnar og fjögurra varaforseta. 
    Forseti borgarstjórnar er kosin Þórdís Lóa Þórhallsdóttir með 16 atkvæðum. Auðir seðlar eru sjö.
    Varaforsetar voru kosnir án atkvæðagreiðslu:
    1. varaforseti er kosin Magnea Gná Jóhannsdóttir
    2. varaforseti er kosin Líf Magneudóttir
    3. varaforseti er kosin Sabine Leskopf
    4. varaforseti er kosin Marta Guðjónsdóttir. MSS22060040

  11. Lagt er til að Árelía Eydís Guðmundsdóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir verði kosnar skrifarar til eins árs. Lagt til að Heiða Björg Hilmisdóttir og Björn Gíslason verði kosin varaskrifarar. MSS22060040
    Samþykkt. 

  12. Fram fer kosning sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara auk formannskjörs. 

    Kosin eru af SBPC-lista:
    Dagur B. Eggertsson
    Árelía Eydís Guðmundsdóttir
    Dóra Björt Guðjónsdóttir
    Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

    Kosnar eru af DJ-lista
    Hildur Björnsdóttir
    Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
    Sanna Magdalena Mörtudóttir 

    Varafulltrúar eru kosnir með sama hætti.

    Kosin eru af SBPC-lista
    Magnea Gná Jóhannsdóttir
    Heiða Björg Hilmisdóttir
    Alexandra Briem 
    Pawel Bartoszek 

    Kosin eru af DJ-lista
    Kjartan Magnússon
    Marta Guðjónsdóttir 
    Andrea Helgadóttir 

    Formaður er kjörinn Dagur B. Eggertsson.
    Samþykkt. MSS22060043

  13. Lagt er til að Sara Björg Sigurðardóttir taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd í stað Skúla Helgasonar.
    Samþykkt. MSS22060040

  14. Lagt er til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Már Másson og Ragnheiður H. Magnúsdóttir taki sæti í stjórn Faxaflóahafna sf. til eins árs og Friðjón R. Friðjónsson, Pawel Bartoszek, Íris Baldursdóttir og Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir taki sæti til vara. Jafnframt er lagt til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði formaður stjórnarinnar.
    Samþykkt. MSS22090053

  15. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. júní. MSS24010001
    -    4. liður fundargerðarinnar; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er borinn upp í einstökum liðum. FAS24010023
    1. liður viðaukans um dagforeldra er samþykktur.
    2. liður viðaukans um sumarstörf fyrir 17 ára er samþykktur.
    3. liður viðaukans um Heilsustefnu Reykjavíkurborgar er samþykktur.
    4. liður viðaukans um framtíðarstaðsetningu skotíþrótta á höfuðborgarsvæðinu er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    5. liður viðaukans um launa- og starfsmannakostnað skrifstofu borgarstjóra og borgarritara er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. 
    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    6. liður viðaukans um breytingar á starfsmati vegna jöfnunar launa er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    7. liður viðaukans um kjaranefndarraðaða stjórnendur er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Flokks fólksins. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    8. liður viðaukans um skipulagsbreytingar á fjármála- og áhættustýringarsviði er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins styður lið 1 og 2 í viðauka við fjárhagsáætlun 2024, dagforeldrar, hækkun um 130.000 þ.kr. vegna eflingar á dagforeldrakerfinu, og vegna sumarstarfa fyrir 17 ára en bjóða á um 50 sumarstörf fyrir 17 ára einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Margt annað í þessum viðauka er verulega athugavert en við suma þætti vantar haldbærar skýringar. Hækka á fjárheimildir vegna heilsustefnu. Hér vantar skýringar, t.d. af hverju upphæðir eru svo mjög mismunandi til sviða. Sama gildir um launa- og starfsmannakostnað sem hækkar um 25 milljónir. Einu skýringar eru að verið sé að mæta breytingum án þess að það komi fram hvaða breytingar það eru. Hækka á laun stjórnenda sem eru kjaranefndarraðaðir og hækka á fjárheimildir fagsviða og miðlægrar stjórnsýslu um 85.420 þ.kr. vegna ákvarðana kjaranefndar Reykjavíkurborgar. Laun æðstu stjórnenda borgarinnar sem kjaranefnd raðar eru að fá umtalsverðar hækkanir. Loks á að hækka fjárheimildir vegna skipulagsbreytinga á fjármála- og áhættustýringarsviði sem talið var að væru einmitt til að hagræða, spara og skila meiri skilvirkni. Vissulega er hér um tilfærslu á fjármagni að ræða en nánari skýringa er þörf og ávallt skal viðhafa gagnrýna hugsun.

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 14. júní, skóla- og frístundaráðs frá 10. júní, stafræns ráðs frá 12. júní og umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. júní. MSS24010034

    Kl. 18:20 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Guðný Maja Riba víkur af fundi.

    2. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní, breyting á samþykkt fyrir öldungaráð, er frestað. MSS23010279
    4. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní, ný samþykkt fyrir áfrýjunarnefnd velferðarráðs, er samþykktur. MSS23010279
    Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
    5. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní, tillaga að sumarleyfi borgarstjórnar, er samþykktur. MSS23010287 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja tillögu að sumarleyfi borgarstjórnar í ár. Þeir minna þó á að óheppilegt er, eins og gerðist í bensínstöðvarmálinu hinn 24. júní 2021, að borgarráð taki ákvörðun í risavöxnu máli á meðan sumarleyfi borgarstjórnar stendur. Æskilegt er því að bæta við heimild í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar að borgarráð geti kallað saman borgarstjórn úr sumarleyfi ef nauðsyn krefur vegna aðkallandi mála, sbr. tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undir 30. dagskrárlið fundar borgarstjórnar 20. júní 2023.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 14. júní:

    Á meðan á sumarleyfi borgarstjórnar stendur fer borgarráð með heimildir borgarstjórnar. Í borgarstjórn eru allir fulltrúar með atkvæðisrétt en þannig er það ekki í borgarráði þar sem fulltrúar sumra flokka hafa ekki atkvæðisrétt. Fulltrúi Sósíalista telur mikilvægt að tryggja að fulltrúar allra flokka hafi jafna aðkomu að málum þegar fundir borgarstjórnar leggjast af yfir sumartímann.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar forsætisnefndar og 2. og 3. lið fundargerðar stafræns ráðs:

    4. liður fundargerðar forsætisnefndar: Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki sé gott að fulltrúar velferðarráðs í minnihluta verði skikkaðir á grundvelli samþykkta borgarinnar til að sitja í áfrýjunarnefnd án umbunar/launa. Hér er um töluverða viðbótarvinnu að ræða og ríka ábyrgð vegna mikilvægi þeirra ákvarðana sem teknar eru þar. Áfrýjunarnefnd ætti í raun aðeins að vera skipuð meirihlutafulltrúum enda eru þeir með valdið, vald til að synja eða samþykkja þær beiðnir sem áfrýjað hefur verið til nefndarinnar vegna synjunar á fyrri stigum. Fulltrúi Flokks fólksins er heldur ekki tilbúinn að vera einhver varnarskjöldur fyrir meirihlutann í þessum efnum þegar umsækjendur um fjárhagsaðstoð fá endanlega synjun frá nefndinni. 2. liður fundargerðar stafræns ráðs: Fjárhagsyfirlit. Ganga þarf röskar í hagræðingu og endurskipulagningu hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Ekki virðist hafa dugað að leggja niður skrifstofu sviðsstjóra sem orðin var ansi þung á fóðrum hvað almannafé varðar. Minnt er á tillögu Flokks fólksins um óháða úttekt sem vísað var til borgarráðs og ekki hefur spurst til síðan. 3. liður fundargerðar stafræns ráðs: Furðu er lýst yfir að nú eru flest gögn sem tengjast málefnum þjónustu- og nýsköpunarsviðs merkt sem trúnaðargögn. Hvað hefur sviðið að fela sem þolir ekki að koma fyrir augu almennings?

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:38

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18. júní 2024 - prentvæn útgáfa