Borgarstjórn
Ár 2023, þriðjudaginn 18. apríl, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Einar Þorsteinsson, Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Rannveig Ernudóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason og Trausti Breiðfjörð Magnússon.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:
Lagt er til að sett verði stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík. Stýrihópur verði settur á fót á vettvangi borgarráðs sem vinni stefnuna í samvinnu við öll svið borgarinnar, borgarbúa og aðra hagaðila, með inngildingu að leiðarljósi. Stýrihópurinn leggi drög að verk- og samráðsáætlun og leggi fyrir borgarráð til staðfestingar.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS23040112
Samþykkt.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd gilti til ársins 2022 en mikið hefur breyst í samfélaginu frá þeim tíma sem sú stefna var samþykkt. Innflytjendur eru nú 22,4% af íbúum Reykjavíkur og sífellt fleiri Reykvíkingar með erlendan bakgrunn eru fæddir og uppaldir hér á landi. Það er því tímabært að endurskoða nálgun á málaflokkinn í heild sinni, skapa skýra framtíðarsýn á fjölmenningarborgina Reykjavík, sjálfsmynd borgarinnar og sýn allra íbúa á það að vera hluti af slíku borgarsamfélagi. Mikilvægt er að tryggja samþætta inngildingu, jafnrétti, virka þátttöku og innihaldsrík samskipti fyrir öll í reykvísku samfélagi. Nú hefst vinna við að móta stefnu um fjölmenningarborgina Reykjavík í samvinnu við öll svið borgarinnar, borgarbúa og aðra hagaðila, með inngildingu að leiðarljósi.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins er flokkur alls fólks – alveg óháð uppruna, trúarbragða eða kynhneigðar viðkomandi. Fulltrúi Flokks fólksins styður þess vegna alla umbætur sem stuðla að aukinni virkni fólks og sérstaklega barna af erlendum uppruna til þess að hafa áhrif og taka þátt í þjóðfélaginu sem það nú býr í. Að auka virkni og þátttöku fólks af erlendum uppruna á einnig að ríma við atvinnuþróun og annað sem byggir grunninn undir sjálfstæði og velferð hvers einstaklings. Fjölmenningarstefna ætti því væntanlega að vera þess eðlis að hún stuðli að því að auka tækifæri allra þeirra sem í borginni búa.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
11. apríl sl. hætti Reykjavíkurborg við fyrirhugað skuldabréfaútboð annan mánuðinn í röð. Þessi atburðarrás er lýsandi fyrir alvarlegan fjárhagsvanda Reykjavíkurborgar. Útkomuspá fyrir árið 2022 gerði ráð fyrir 15,3 milljarða rekstrarhalla borgarsjóðs samhliða vaxandi skuldasöfnun. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Reykjavíkurborg bréf 28. febrúar sl. Þar kom fram að samkvæmt fjárhagsáætlun stæðist reksturinn ekki tiltekin lágmarksviðmið. Með ólíkindum er að borgarstjóri hafi ekki enn lagt umrætt bréf formlega fram til umræðu í borgarráði og borgarstjórn enda varðar efni þess mikilvæga hagsmuni sveitarfélagsins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því bréfið fram hér á fundinum og óska eftir því að það verði bókað í fundargerð. Fleiri sveitarfélög fengu álíka bréf, þ.m.t. Árborg, sem tók erindinu af ábyrgð, hélt íbúafund og boðaði aðgerðir. Í Árborg nema skuldir samstæðu 2 milljónum á íbúa árið 2021, starfsmönnum hefur fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun og hlutfall launakostnaðar af tekjum sveitarfélagsins nemur nú 58,7%. Til samanburðar námu skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar 3,1 milljón á íbúa árið 2021, starfsmönnum hefur fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun og hlutfall launakostnaðar af tekjum borgarinnar nemur 60%. Má því ljóst vera að fjárhagsvandi Reykjavíkurborgar er alvarlegur og kalla borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir því að meirihluti borgarstjórnar bregðist við með jafn heiðarlegum og ábyrgum hætti og sveitarstjórn Árborgar.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er með skýra framtíðarsýn og aðgerðaáætlun í fjármálum. Vegna rekstrarhalla og erfiðra aðstæðna í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar sökum verðbólgu og hækkandi vaxta var farið í hagræðingaraðgerðir strax síðasta haust. Gert var ráð fyrir hagræðingu á mörgum sviðum, gjaldskrár leiðréttar í ljósi verðbólgu, settar voru samræmdar reglur um ráðningar, seglin rifuð í fjárfestingum og opnað fyrir fjölbreyttari fjármögnunarkosti. Þessar aðgerðir birtast skýrt í fjárhagsáætlun enda stefnt að því að það verði 9 milljarða króna viðsnúningur í A-hluta Reykjavíkurborgar. Það liggur hins vegar fyrir að borgin, líkt og flest sveitarfélög landsins, glímir við vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks. Í níu mánaða uppgjöri borgarinnar munaði 7,6 milljörðum króna á tekjum og útgjöldum í málaflokknum. Það er eitt okkar mikilvægasta viðfangsefni að ná samkomulagi við ríkið um fjármögnun málaflokksins. Uppsafnað eru frávikin í málaflokknum komin yfir tugi milljarða frá því málaflokkurinn var tekinn yfir árið2011, bara hjá Reykjavíkurborg.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og Sósíalistar sjá heildarsamhengið, þá er stórt gat í allri fjáröflun hins opinbera þegar ekki er verið að skattleggja fjármagnseigendur eins og annað fólk. Þeir komast upp með það að búa í sínu sveitarfélagi og greiða ekkert útsvar af sínum fjármagnstekjum, því eins og við vitum þá er útsvar lagt á launatekjur, tekjur öryrkja, tekjur þeirra sem minnsta fjármagnið hafa sem treysta á fjárhagsaðstoð en ekkert á ríkasta fólkið og það óréttlæti þarf að leiðrétta.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjármál Reykjavíkurborgar eru nú eins slæm og hugsast getur. Meirihlutinn hefur reyndar enn passað vel upp á að greitt sé af lánum, eins á að gera auðvitað. En auknar lántökur borgarsjóðs virðast vera það sem heldur borginni á floti fjárhagslega. Þetta er farið að minna óþægilega á ástand íslensku bankanna rétt fyrir hrun – og það mun eflaust koma að því hjá borginni líka að lánalínur einfaldlega lokast ef ekkert verður að gert. Í stað þess að minnka þenslu með því að skera niður rekstrarkostnað og eyðslu í alls kyns verkefni sem ekkert liggur á, hefur meirihlutinn farið þveröfuga leið og aukið í frekar en hitt. Sem dæmi má nefna það gríðarlega fjármagn sem búið er að eyða í væntingasmiðju þjónustu- og nýsköpunarsviðs varðandi stafræna umbreytingu. Ekkert lát virðist vera á því fjármagni sem þangað er verið að streyma inn. Þar hefur veislan náð nýjum hæðum undanfarin ár. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Reykjavíkurborg bréf í lok febrúar sl. þar sem athugasemdir eru gerðar við að borgin uppfylli ekki öll lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar. Flest bendir til að fjárhagsstaða Reykjavíkur sé ekki sjálfbær rekstrarlega séð og því ljóst að mun meira aðhalds er þörf en nú er.
- Kl. 15:00 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að halda borgaraþing um leikskólamál og umönnun ungra barna. Rætt verði um hlutverk borgarinnar í þeim efnum sem og stöðu barna og barnafjölskyldna í Reykjavík. Foreldrar ungra barna verði sérstaklega boðin velkomin á borgaraþingið en það yrði jafnframt opið öllum sem hafa áhuga á málefninu. Í aðgerðaáætlun með lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að halda skuli borgaraþing að jafnaði árlega þar sem borgarbúar fái tækifæri til að eiga samtal við borgarfulltrúa um mismunandi málaflokka. Markmiðið með því er að íbúar hafi beinni tengsl við borgarstjórn og fái tækifæri til að eiga samtal við kjörna fulltrúa um það sem skiptir þá máli. Hér er lagt til að borgaraþing verði haldið um stöðu ungra barna og barnafjölskyldna út frá stöðunni í leikskólamálum og umönnun ungra barna. Með þessu er boðið til opins fundar fyrir íbúa, foreldra og barnafjölskyldur þar sem þeim gefst færi á því að ræða við borgarfulltrúa og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Lagt er til að mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa verði borgarstjórn til liðsinnis við boðun til þingsins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar tillögu um borgaraþing um leikskóla og umönnun ungra barna. Foreldrar hafa óskað eftir auknu samtali við borgarstjórn um málið og borgarafundur er vel í samræmi við það enda um að ræða hugmynd sem var samþykkt í aðgerðaáætlun nýrrar lýðræðisstefnu borgarinnar árið 2021. Þá er í undirbúningi stýrihópur um umhverfi og aðstæður 0-6 ára sem tekur mið af þörfum og velferð barna og leiðir saman börn, fjölskyldur, ríki, sveitarfélög, fagfólk og atvinnulífið í þverfaglega stefnumótun. Borgaraþing er í samræmi við þá hugsun og því er lagt til að skipulag á borgarþingi fari inn í vinnu við umræddan stýrihóp. Við eigum að skipuleggja borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna. Mikilvægt er að horfa til þess hve ólíkur hópur börn á aldrinum 0-6 ára og fjölskyldur þeirra er og þarf því að leita fjölbreyttra og frumlegra leiða til að mæta þörfum þeirra og veita þeim valfrelsi um þjónustu. Reykjavík á að vera með sterka og ígrundaða framtíðarsýn sem unnið er út frá og setur málefni barna í forgang. Borgaraþing er því prýðileg leið til að hefja samtal, stefnu og vinnu við frekari þróun í málaflokknum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins líst vel á tillöguna. Að funda um mikilvæg málefni á breiðum grunni skilar yfirleitt einhverju góðu. Áherslan á að hafa foreldra með í ráðum er löngu tímabær því foreldrar hafa yfirleitt verið hafðir útundan þegar borgin hefur verið að skipuleggja eitthvað í kringum börn þeirra. Huga þarf að því að bæta sérstaklega tengingu velferðar- og skólayfirvalda borgarinnar við borgarbúa og foreldra ef vel á að vera. Ef ekki væri fyrir sjálfstæð foreldrafélög myndu raddir foreldra aldrei heyrast. Mikið hefur verið lagt á foreldra ungra barna undanfarin ár. Þeir hafa ítrekað verið sviknir um leikskólapláss og að þeim hefur hreinlega verið logið – samanber endurtekin loforð meirihlutans um laus leikskólapláss rétt fyrir kosningar. Allt tal um samráð og gagnsæi sem átti að setja á oddinn hjá fyrrverandi og núverandi meirihluta, hefur því miður ekki náð fram að ganga.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að stafrænt ráð verði lagt niður og þau verkefni ráðsins sem hafa ekki beint með stafræn mál að gera, verði flutt í viðeigandi ráð og nefndir. Meðferð og ábyrgð allra stafrænna mála stafræns ráðs verði færð undir þjónustu- og nýsköpunarsvið sem alfarið á að sjá um stafræna umbreytingu Reykjavíkurborgar. Það er alveg ljóst að stafrænt ráð, skipað pólitískum fulltrúum, getur engan veginn uppfyllt allar þær ólíku kröfur sem gerðar eru til málaflokksins samanber samþykkt um verksvið og óvenju margþættan verkefnalista ráðsins við stofnun þess á sínum tíma. Stafræn vegferð Reykjavíkurborgar á að vera á ábyrgð sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Sviðsstjórinn, ásamt öðrum stjórnendum þjónustu- og nýsköpunarsviðs, á að vera búinn að fá alla þá sérfræðiaðstoð og þekkingu sem til þarf í þetta verkefni þegar litið er til þess hversu miklum fjármunum sviðið er búið að eyða í kaup á erlendri ráðgjöf í heilan áratug.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 15:40 tekur Magnús Norðdahl sæti á fundinum og Rannveig Ernudóttir víkur af fundi,
Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgafulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lagði til að stafrænt ráð yrði lagt niður og þau verkefni ráðsins sem hafa ekki beint með stafræn mál að gera, verði flutt í viðeigandi ráð og nefndir. Tillagan er felld. Stafrænt ráð er með öllu óþarft að mati Flokks fólksins því að stafrænu ráði er ætlað sama hlutverk og þjónustu- og nýsköpunarsviði er ætlað, s.s. að móta stefnu í gagnsæis-, lýðræðis-, stafrænum og þjónustumálum. Meðferð og ábyrgð allra stafrænna mála stafræns ráðs á að vera alfarið á ábyrgð þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Mikilvægt er að hafa virkt eftirlit með sviðinu til að tryggja að ekki sé verið að sóa og bruðla með fjármuni í t.d. uppgötvanir og þróun á lausnum sem nú þegar eru til. Stjórnendur sviðsins ættu að vera komnir með næga þekkingu á stafrænni vegferð eftir tugi milljóna kaup á erlendri ráðgjöf í heilan áratug. Þeir sem fylgjast með borgarmálunum vita að Flokkur fólksins hefur harðlega gagnrýnt fjáraustur upp á annan tug milljarða í stafræna umbreytingu án þess að lausnir/afurðir í hlutfalli við þetta mikla fjármagn sjáist. Með niðurlagningu stafræns ráðs væri borgin að spara bæði dýrmætan tíma og fjármuni sem í raun eru ekki til – samanber bága stöðu borgarsjóðs.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Stafrænt ráð gegnir mikilvægu hlutverki í því að vinna að stefnumótun og veita pólitíska forystu og aðhald með stafrænni vegferð, þjónustu við íbúa, lýðræðisverkefnum og innri nýsköpun borgarinnar. Tilurð þess var löngu tímabær og mikill missir væri að því væri það lagt niður.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Milljarða fjárfesting í stafrænni umbreytingu er þannig vaxið verkefni að eftirlit og forgangsröðun áætlana og ráðstöfun fjármuna ætti frekar að vera í höndum borgarráðs. Því væri skynsamlegast að leggja stafrænt ráð niður og færa verkefnin til borgarráðs. Við það myndu einnig sparast nokkrir fjármunir.
- Kl. 16:45 víkur Skúli Helgason af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur sæti.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgafulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að láta framkvæma úttekt og rekjanleikagreiningu á úrgangsstraumum frá starfsstöðum Reykjavíkurborgar með það fyrir sjónum að draga úr úrgangi, auka endurvinnslu, lækka kostnað og ekki síst bæta yfirlit yfir úrgangsmálin hjá starfsstöðum borgarinnar.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna.
Vísað til meðferðar stýrihóps Reykjavíkurborgar um loftslagsmál.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er góð hugmynd að fara í slíka úttekt og er tillagan samþykkt og henni vísað til stýrihóps um loftslagsmál.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lagt til af Sjálfstæðisflokki að borgarstjórn samþykki að láta framkvæma úttekt og rekjanleikagreiningu á úrgangsstraumum frá starfsstöðum Reykjavíkurborgar með það fyrir sjónum að draga úr úrgangi, auka endurvinnslu, lækka kostnað og ekki síst bæta yfirlit yfir úrgangsmálin hjá starfsstöðum borgarinnar. Þetta er hið besta mál en er þetta ekki einmitt verkefni fyrir SORPU? Verkefnið er vissulega verðugt enda er ekki hægt að halda áfram að urða. Samkvæmt sláandi tölum frá Umhverfisstofnun hentu Reykvíkingar tæplega 103 þúsund tonnum af heimilissorpi 2021 eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni. Reykjavík þarf að taka sig á. Önnur sveitarfélög mörg hver standa sig mun betur. Mikilvægt er að afla gagna með skilvirkum hætti um þróun þessara mála. Án vandaðra upplýsinga er í raun lítið hægt að gera af viti hvað þetta varðar. Samfara þessu er gott að hafa í huga þann kostnað sem hlýst af úttekt sem þessari.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík er nú þegar að gera fjölmargt á ólíkum vettvangi sem miðar allt að því sama og tillaga Sjálfstæðismanna. Nægir að nefna græn skref í rekstri Reykjavíkur, grænt bókhald með Klöppum, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum borgarinnar, margvíslegar alþjóðlegar skuldbindingar, samstarf um loftslagsmál við atvinnulífið með Festu, samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um aðgerðir í úrgangsmálum og svo framvegis. Það væri nær að sinna þeim verkefnum sem þegar eru hafin, gera það af metnaði og vandvirkni frekar en að samþykkja tillögu sem bætir litlu ef nokkru við það sem þegar hefur verið samþykkt og verið er að vinna að. Ekki liggur fyrir hvort fjármagn fylgi tillögunni og ef svo er væri betra að veita því til allra þeirra verkefna á sviði umhverfismála sem bíða og hefur verið snautlega sinnt eftir að Samfylking, Framsókn, Píratar og Viðreisn tóku við.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að svohljóðandi málsgrein bætist við 27. grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Við það skal miðað að fyrirspurn sé svarað eigi síðar en fjórum vikum eftir að hún er lögð fram og bókuð í fundargerð. Takist ekki að svara fyrirspurninni innan þess frests, skal gera skriflega grein fyrir því, svo og hver ástæðan er og hvenær vænta megi svars.
Frestað.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um vanrækslu á viðhaldi skólahúsnæðis í Reykjavík og tengd vandamál.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Viðhald í húsnæði skóla- og frístundasviðs er í miklum forgangi í fjárfestingu borgarinnar, en enn er verið að vinna upp viðhaldsskuld sem myndaðist á árunum eftir hrun. Þá er mikið af húsnæði borgarinnar komið á aldur og þekking á skaðsemi myglu og raka hefur stóraukist á síðustu árum. Fjárfesting í reglulegu viðhaldi er í dag í samræmi við þörf, ásamt því sem risavaxið átaksverkefni er í gangi sem gerir ráð fyrir 30 milljörðum í viðhald húsnæðis skóla- og frístundasviðs á árunum 2022-2028. Er það til þess að bregðast við uppsöfnuðum vanda en á þessu ári er gert ráð fyrir 4,5 milljörðum í þessu átaki, fyrir utan hefðbundið viðhald fasteigna.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nánast vikulega koma nýjar fréttir af myglu í byggingum á vegum borgarinnar. Myglu- og rakavandamál hafa komið upp í 27 skólum frá 2018. Yfir þúsund börn stunda nám annars staðar. Þetta kemur fram í samantekt frá borginni. Mikil óþægindi fylgja þessu m.a. vegna fjarlægðar frá skólalóð. Ástæður eru lekar frá gluggum og þökum, illa hönnuð hús og skortur á rakavörnum. Áratuga vanræksla er ástæða þess að vandamálið skellur svo harkalega á núna. Meirihlutinn hefur kennt hruninu um sem er reyndar frekar langsótt þó dregið hafi þá verulega úr fjármagni til viðhalds. Þeir sem ábyrgð bera á þessu hljóta að hafa vitað af því að því lengur sem trassað er að halda við húsum, því harðari verður skellurinn. Þeir sem stjórnað hafa í borginni hvað lengst, hafa ekki sýnt nógu mikla fyrirhyggju varðandi þessi mál. Fyrir liggur fjárfestingarstefna, ákveðnar upphæðir sem eyða má í fjárfestingar. Viðhald á byggingum í eigu borgarinnar er þar vissulega ofarlega á lista en fjármagnið dugar skammt. Viðhaldsþátturinn er stærri og meiri en áætlað hefur verið og þarf því að skoða að bæta í hann í stað þess að fara t.d. í endurgerð Grófarhúss og Lækjartorgs sem eru bæði fjárfrek verkefni sem mega bíða.
-
Fram fer umræða um Fossvogsbrú.
Borgarfulltrúí Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fossvogsbrú verður dýr framkvæmd. Að gera hana úr ryðfríu stáli er mikill kostnaðarauki. Viðhald brúa er ekki bara að hindra ryðmyndun heldur þarf að huga að mörgum þáttum sem hafa með t.d. slit og skemmdir ofl. að gera. Ryðfrítt stál er stál er með að minnsta kosti 12% króminnihald. Ryðfrítt stál er því mýkra en venjulegt stál og taka þarf tillit til þess með því að nota meira magn en ef stál væri notað. Einnig er ryðfrítt stál er miklu dýrara en venjulegt stál sem notað er ásamt steypu. Hvers vegna er verið að auka byggingarkostnað um milljarða vegna þess að hefðbundið vinnuleg er ekki notað? Svo má einnig spyrja hvort ekki sé eðlilegt að þessi áform verði sett á bið vegna stöðunnar í efnahagsmálum almennt. Nýi Skerjafjörðurinn er einnig í ákveðnu uppnámi. Innviðaráðuneytið telur að áður en lengra verður haldið með þá framkvæmd, verði að fullkanna hvort búið sé að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta hefði átt áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og hefja ekki framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggur fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. júní 2022.
-
Samþykkt að taka á dagskrá beiðni Friðjóns R. Friðjónssonar borgarfulltrúa um tímabundna lausn frá störfum sínum í borgarstjórn frá 19. apríl til 15. júní nk.
Samþykkt. -
Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð.
Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði í stað Friðjóns R. Friðjónssonar.
Samþykkt. -
Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð.
Lagt til Helgi Áss Grétarsson taki sæti sem varafulltrúi í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Friðjóns R. Friðjónssonar.
Samþykkt. -
Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í stafrænt ráð.
Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í stafrænu ráði í stað Friðjóns R. Friðjónssonar. Jafnframt er lagt til að Egill Þór Jónsson taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Söndru.
Samþykkt. -
Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í innkaupa- og framkvæmdaráð.
Lagt til Birna Hafstein taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Söndru Hlífar Ocares. Jafnfram er lagt til að Sandra taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt. -
Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í íbúaráð Háaleitis og Bústaða.
Lagt til að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti í íbúaráði Háaleitis og Bústaða í stað Friðjóns R. Friðjónssonar.
Samþykkt. -
Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í íbúaráð Miðborgar og Hlíða.
Lagt til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Söndru Hlífar Ocares.
Samþykkt. -
Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 13. apríl 2023.
5. liður fundargerðarinnar, Hlemmur og nágrenni, 3. áfangi – Mjölnisholt, er samþykktur með 16 atkvæðum Samfylkingar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja fyrirhugaða tillögu ekki flokkast sem forgangsmál við núverandi aðstæður í rekstri borgarinnar. Betur færi á því að forgangsraða fjármunum í þágu grunnþjónustu borgarinnar. Jafnframt harma fulltrúarnir að tillaga þeirra úr umhverfis- og skipulagsráði um að leita samráðs við íbúa um breytinguna hafi ekki verið samþykkt.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:
Spurning er hvort ekki þurfi að fresta framkvæmdum við Hlemm og nágrenni vegna erfiðleika í efnahagsmálum. Um er að ræða framkvæmd sem setur bæði samgöngur og aðgengi á hvolf. Gæta þarf að því að fara ekki of geyst vegna hárra vaxta á lánum. Hafa má í huga hvernig komið er fyrir Árborg sem fór langt fram úr sér í framkvæmdum. Reikna má með að framkvæmdir muni kosta mun meira en áætlað er eins og reynslan sýnir. Þetta er ekki tíminn fyrir verkefni af þessu tagi. Kallað hefur verið eftir að dregið verði úr framkvæmdum á landsvísu. Fulltrúinn undrast skilningsleysi meirihlutans hvað þetta varðar. Flokkur fólksins minnir á vaxandi fátækt og langa biðlista í alla þjónustu borgarinnar. Nú bíða 2498 börn eftir sálfræðilegri og félagslegri aðstoð. Ekki hefur heldur verið haft samráð við íbúa á svæðinu um breytinguna. Fjárhagsstaða Reykjavíkur er einfaldlega enn verri en áður eru dæmi um. Borgin hefur spennt bogann til hins ýtrasta hvað varðar rekstrarkostnað, fyrirhugaðar framkvæmdir og lántöku. Ekki er séð að sýna eigi nógu mikið aðhald með því að fresta fjárfrekum framkvæmdum sem ekki er brýn þörf á. Þessu til viðbótar má nefna önnur dæmi um stór verkefni, s.s. Grófarhús og Lækjartorg.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. apríl og umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. apríl.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið í fundargerð forsætisnefndar frá 14. apríl:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum tillögum sem stuðla að bæði umbótum og auknum atvinnutækifærum í borginni. Atvinnu- og nýsköpunarstefna Reykjavíkurborgar er metnaðarfull. Mikið er lagt undir vegna áætlana í nýsköpun og kúltúrhakki – sem eru hugtök sem hafa verið mikið í tísku innan borgarinnar undanfarin ár. Það sem þó virðist vanta inn í þessa metnaðarfullu mynd, er sú staðreynd að fjármagn sem veitt er í nýsköpun, er í raun áhættufjármagn. Það að ætla sér að skapa eitthvað nýtt felur ekki í sér að svo verði. Nýsköpun er í eðli sínu ákveðin hugmyndavinna sem óljóst er hvort á endanum muni skila einhverju af sér. Það sama á við um fyrirbærið kúltúrhakk. Í stað þess að vera sífellt að eyða bæði tíma og fjármagni í fyrirbæri sem flokka mætti undir óraunhæfar væntingar, væri nær ef atvinnu- og nýsköpunarstefna meirihlutans tæki meira mið af raunverulegri stöðu borgarsjóðs og léti einkageiranum alfarið eftir þá tilraunastarfssemi og vöruþróun sem fyrirbærið nýsköpun í rauninni er. Allar áætlanir Reykjavíkurborgar varðandi atvinnuuppbyggingu og umbætur almennt, verða þess vegna að vera með markvissari árangurstengingu frekar en ákveðinni áhættusækni og þeirri óvissu sem henni fylgir.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 18:10
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Trausti Breiðfjörð Magnússon
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.4.2023 - Prentvæn útgáfa