Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 18. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttur, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að boðið verði upp á fræðslu- og öryggisnámskeið um rétta meðhöndlun og öryggi matvæla og yrði þátttaka í því skilyrt fyrir allt starfsfólk sem ráðið er til starfa í eldhúsum Reykjavíkurborgar og í sjálfstætt reknum stofnunum sem gera þjónustusamninga við borgina. Einnig myndu námskeiðin ávarpa næringarfræði og matreiðslu á grænmetis- og ofnæmisfæði.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. MSS25030064Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks Fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga samstarfsflokkanna um samræmda fræðslu og upplýsingagjöf fyrir allt starfsfólk sem ráðið er til starfa í eldhúsum Reykjavíkurborgar og í sjálfstætt reknum stofnunum sem gera þjónustusamninga við borgina, var samþykkt samhljóða. Rétt meðhöndlun og öryggi matvæla getur skipt öllu máli og þar ber Reykjavíkurborg mikla ábyrgð en í hádegi á virkum degi borða um 30 þúsund manns máltíð sem er framreidd á vegum borgarinnar. Nýlega kom upp alvarleg sýking í sjálfstætt starfandi leikskóla þar sem mörg ung börn sýktust, sum lífshættulega. Það er ábyrgðarhluti að bregðast við slíku atviki með því að fara yfir fyrirkomulag með það að markmiði að fyrirbyggja að það endurtaki sig. Borgarstjóri mun fylgja málinu eftir en einnig verður hnykkt á öryggi í matarstefnu borgarinnar sem er á lokametrunum.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar telja mikilvægt að staðið sé að námskeiðum fyrir starfsfólk sem starfar í eldhúsum í skólastofnunum borgarinnar. Öryggi barna í skólastofnunum þarf ávallt að vera í fyrsta sæti. Meðhöndlun matar er viðkvæmt ferli eins og dæmin sanna. Tryggja þarf að fólk hafi þá fagþekkingu sem við á.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að hanna heppilega útfærslu á fyrirkomulagi sem gerir leigjendum Félagsbústaða mögulegt að eignast heimilin sín. Unnin verði valkostagreining á mismunandi útfærslum á slíku úrræði og kannaður möguleikinn á samvinnu við ríkið um nýtt fyrirkomulag á nýtingu húsnæðisstuðnings í þágu þess að aðstoða lágtekjuhópa við að eignast sína fyrstu fasteign.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25030065Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti borgarstjórnar kaus í dag að fella tillögu sem hefði veitt leigjendum Félagsbústaða raunverulegt tækifæri til að eignast heimili sín. Tillagan fól í sér að kanna útfærslur á slíku úrræði með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum, þar sem sambærileg kerfi hafa skilað árangri í að stuðla að fjárhagslegu öryggi lágtekjufólks. Félagsbústaðir standa frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda og leigjendur sitja úrræðalausir fastir í kerfinu. Einungis 1% leigjenda færa sig yfir á almennan leigu- eða fasteignamarkað. Með eignasölu gæfist Félagsbústöðum fjárhagslegt svigrúm til að rétta af reksturinn sem er forsenda þess að hægt sé að bæta við fleiri eignum. Árlega setja ríki og borg tugi milljarða í að niðurgreiða íbúðakaup Félagsbústaða og leigugreiðslur til Félagsbústaða. Meirihlutinn var ekki reiðubúinn til að skoða lausnir sem gætu nýtt þetta fé til að hjálpa fólki út úr kerfinu. Það er sorglegt að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi hafnað því að veita tekjulágum fjölskyldum tækifæri til að eignast heimilin sín. Það sendir lágtekjufólki skýr skilaboð um að fyrir þessum meirihluta megi það dúsa í félagslega húsnæðiskerfinu til æviloka því meirihlutanum er meira í mun að halda kerfinu óbreyttu en að hjálpa fólki úr fátækt. Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram að berjast fyrir raunverulegum lausnum sem hjálpa fólki að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði og betri framtíð.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hlutverk Félagsbústaða er að leigja út íbúðir til einstaklinga og fjölskyldna sem úthlutað hefur verið félagslegu leiguhúsnæði af velferðarsviði borgarinnar. Eignasafn Félagsbústaða telur rúmlega 3000 íbúðir sem eru á víð og dreif um borgina og telur um 5% af heildaríbúðafjölda borgarinnar. Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að opna fyrir sölu íbúða úr félagslegu sameignarsafni verður nær örugglega til þess að fækka húsnæðiskostum fyrir þá borgarbúa sem eiga ekki í önnur hús að venda. Umsækjendur um að komast í íbúð hjá Félagsbústöðum fara á biðlista og þörfin er því frekar að fjölga íbúðum hjá félaginu en að fækka. Erfitt er að rökstyðja það að selja leigjendum Félagsbústaða íbúðir á markaðsverði, því þau sem á annað borð hafa ráð á því hafa alla möguleika til þess nú þegar, án þess að skapa Félagsbústöðum þá vinnu sem felst í að leita að sambærilegri íbúð til að bæta í eignasafnið á móti. Félagsbústaðir starfa út frá sjónarmiðum um félagslega blöndun og dreifingu íbúða á hátt sem á ekki við um fólk á leið í eigið húsnæði.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja skipulagsferli vegna húsnæðisuppbyggingar á Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að gera tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur vegna þessa. Umhverfis- og skipulagssviði verði einnig falið að beita sér fyrir því að hönnun og lega mislægra gatnamóta yfir Geldinganes vegna lagningar Sundabrautar verði útfærð þannig að gatnamótin anni umferð vegna íbúðabyggðar og tryggi hagsmuni fjölbreyttra ferðamáta.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 16:30 víkur Unnur Þöll Benediktsdóttir af fundinum og Ásta Björg Björgvinsdóttir tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS25030067
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn samþykkir að tillögunni sé vísað til umhverfis- og skipulagsráðs en betur hefði farið á því að samþykkja hana í borgarstjórn. Umræður í borgarstjórn voru afhjúpandi og augljóst að mikil óeining er á milli samstarfsflokkanna um hvernig afgreiða á tillöguna. Það gefur til kynna að tillagan verði svæfð í ráðinu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsyfirlýsing Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna kveður á um að hefja undirbúning á uppfærslu aðalskipulags með áherslu á samgönguinnviði og framtíðaruppbyggingu til næstu áratuga og í hvaða röð eigi að byggja upp þau svæði sem laus eru. Undir í því máli eru næstu mögulegu áfangar í Úlfarsárdal umfram það svæði sem þegar er á aðalskipulagi en fyrir liggur að hefja á undirbúning uppbyggingar á Höllum í Úlfarsárdal og víðar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Undir í þessari skoðun eru einnig Geldinganes, Kjalarnes, Örfirisey og fleiri svæði. Framlagning þessara tillagna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felur í sér stuðningi við þá vegferð sem ávörpuð er í samstarfsyfirlýsingunni sem er hið besta mál. Þeim er vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til skoðunar í þessu samhengi.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fyrirhugaðar aðgerðir til að bæta starfsaðstæður og vinnuumhverfi í leik- og grunnskólum.
- Kl. 17:20 tekur Helga Þórðardóttir sæti á fundinum og Einar Sveinbjörn Guðmundsson víkur af fundi. MSS25030068
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar kallar eftir umræðum um tillögu samstarfsflokkanna um að bæta starfsaðstæður og vinnuumhverfi í leik- og grunnskólum. Óskað er eftir tímaáætlun og áætlun um kostnað sem fyrirhugað er að fara í á næstu 12 mánuðum til að bæta starfsaðstæður og vinnuumhverfi. Samstarfsflokkanir leggja mikla áherslu á góða þjónustu við börn og barnafjölskyldur og á því byggir þessi tillaga samstarfsflokkanna um að bæta starfsaðstæður í leik- og grunnskólum og frístund. Við viljum byggja okkar aðgerðir á þeirri vinnu sem fram hefur farið undanfarið á skóla- og frístundasviði. Á allra næstu dögum er von á niðurstöðum starfshóps sem hefur skoðað leikskólakerfið heildstætt með það að leiðarljósi að bæta starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar. Af þessum ástæðum hefur hvorki tímaáætlun né kostnaðarmat verið framkvæmt en verður kynnt og tekið til umræðu um leið og tillögur að útfærslu liggja fyrir.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar telja að fara þyrfti vandlega yfir með hvaða hætti á að tryggja starfsaðstæður og vinnuumhverfi í leik- og grunnskólum. Í samstarfssamningi kemur fram að námsgögn séu hluti af þeirri endurskoðun. Námsgagnagerð og námsgögn almennt eru á hendi ríkisins. Undanfarið hefur verið lögð vinna í að rýna aðstæður í leikskólum borgarinnar innan skóla- og frístundasviðs. Borgarfulltrúar Framsóknar telja mikilvægt að því starfi sé fram haldið og tekið sé tillit til niðurstaðna þeirrar rýni.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að hafist verði handa við skipulagningu framtíðar íbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Sérstök áhersla verði lögð á að fyrirhuguð Sundabraut falli vel að framtíðarbyggð í Geldinganesi. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að leggja fram viðeigandi tillögur að breytingu á aðalskipulagi vegna málsins eigi síðar en vorið 2026 og annast aðra skipulagsvinnu eftir því sem þörf krefur.
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS22100020
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Aðgerða er þörf vegna hins mikla húsnæðisvanda, sem við er að etja í Reykjavík. Þörf er fyrir tugi þúsunda nýrra íbúða til viðbótar þeim sem þegar eru í byggingu eða hafa verið skipulagðar. Reykjavíkurborg þarf að stórauka lóðaframboð til að svara gífurlegri eftirspurn og standa þannig að sölu lóða að verð nýrra íbúða lækki verulega frá því sem nú er. Svo mikil uppsöfnuð þörf er fyrir byggingarland að taka þarf ný hverfi til uppbyggingar sem fyrst. Í Geldinganesi má koma fyrir 7-10 þúsund manna byggð með góðu móti auk atvinnusvæðis. Nesið er um 220 hektarar að flatarmáli eða svipað og svæðið sem afmarkast af Hringbraut og Snorrabraut. Best væri að vinna samhliða að skipulagi Sundabrautar og Geldinganess enda er brautin forsenda íbúðabyggðar þar. Lóðaskortstefna vinstri flokkanna gengur í berhögg við hagsmuni tugþúsunda Reykvíkinga, ekki síst ungs fólks, sem hefur lítið á milli handanna en þráir að komast í eigið húsnæði. Húsnæðisvandinn verður ekki leystur á meðan húsnæðismál í Reykjavík eru föst í vítahring vinstri flokkanna. Stórauka verður lóðaframboð í Reykjavík og láta verkin tala. Leggja þarf viðeigandi tillögur að breytingu á aðalskipulagi vegna nýs hverfis á Geldinganesi fyrir borgarstjórn eigi síðar en vorið 2026.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsyfirlýsing Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna kveður á um að hefja undirbúning á uppfærslu aðalskipulags með áherslu á samgönguinnviði og framtíðaruppbyggingu til næstu áratuga og í hvaða röð eigi að byggja upp þau svæði sem laus eru. Undir í því máli eru næstu mögulegu áfangar í Úlfarsárdal umfram það svæði sem þegar er á aðalskipulagi en fyrir liggur að hefja á undirbúning uppbyggingar á Höllum í Úlfarsárdal og víðar í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Undir í þessari skoðun eru einnig Geldinganes, Kjalarnes, Örfirisey og fleiri svæði. Framlagning þessara tillagna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felur í sér stuðningi við þá vegferð sem ávörpuð er í samstarfsyfirlýsingunni sem er hið besta mál. Þeim er vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til skoðunar í þessu samhengi.
Fylgigögn
-
Umræðu um íbúalýðræði í Reykjavík er frestað. MSS25030069
-
Lagt til að Kjartan Magnússon taki sæti í mannréttindaráði í stað Björns Gíslasonar.
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að fresta málinu.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS25020083 -
Lagt til að Björn Gíslason taki sæti í menningar- og íþróttaráði í stað Kjartans Magnússonar.
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að fresta málinu.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS22060045 -
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. og 13. mars. MSS25010002
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. mars, skóla- og frístundaráðs frá 10. mars, umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 12. mars, velferðarráðs frá 28. febrúar og 5. og 7. mars. MSS25010033
2. liður fundargerðar forsætisnefndar, ný samþykkt fyrir mannréttindaráð, er samþykkt með tólf atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010279Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar forsætisnefndar:
Haldinn var góður kynningarfundur með fulltrúum aðgengisnefndar, fjölmenningaráðs, ofbeldisvarnarnefndar og eldri borgara og þeir upplýstir um fyrirhugaðar breytingar á mannréttindaráði Reykjavíkur. Þarna komu fram mikilvægar ábendingar sem unnið verður með í starfi sem nú hefst af fullum krafti. Eins liggur fyrir minnisblað frá borgarlögmanni um nýtt mannréttindaráð og heimild Reykjavíkurborgar til að haga sínum lögbundnu samráðsmálum með þeim hætti sem hún kýs og hefur nú gert. Nýtt mannréttindaráð verður öflugt og sterkt og það er fagnaðarefni að Reykjavíkurborg eigi góðan og stóran samráðsvettvang um réttindi og aðgengi fólks í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Harma verður að ráðist hafi verið breytingar á ráðinu án samráðs við fulltrúa fjölmenningarráðs. Sameining fjölmenningarráðs Reykjavíkur við mannréttindaráð Reykjavíkur dregur úr ákvörðunarvaldi innflytjenda þar sem fulltrúum frá samtökum innflytjenda verður fækkað en á sama tíma á að bæta við fulltrúum stjórnmálaflokka. Það mun þýða að fulltrúar innflytjenda verða með minnihlutarödd í ráði sem ætlað er þeim. Í núgildandi fyrirkomulagi fjölmenningarráðs eru fulltrúar hagsmunasamtakanna með meirihluta atkvæða á móti fulltrúum stjórnmálaflokka. Rödd innflytjenda verður þá minni en einnig er lagt upp með að fækka fundum sem fjalla um málefni innflytjenda. Það verður að teljast afturför á sama tíma og við vinnum hörðum höndum að því að auka þátttöku nýrra Íslendinga í íslensku samfélagi og viljum auka samráð við innflytjendur. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur vilja ennfremur benda á og taka undir harða gagnrýni Félags kvenna af erlendum uppruna á þessa ákvörðun meirihlutans.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. mars:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka enn og aftur þá afstöðu sína að óviðunandi sé að svokallað húsnæðisátak í Grafarvogi verði þvingað fram á forsendum ofurþéttingarstefnu vinstriflokkanna. Slíkar hugmyndir þarf að útfæra í góðri sátt og með raunverulegu samráði við íbúa viðkomandi hverfa. Varðandi Grafarvog þarf t.d. að taka ríkt tillit til staðaranda hverfisins og hagsmuna núverandi íbúa, t.d. með því aðganga ekki á græn svæði sem mörg hver eru rótgróin og ein helsta ástæða þess að fólk hefur valið hverfið til búsetu. Ljóst er að margir þeir þéttingarreitir sem borgarstjóri hefur kynnt að séu til skoðunar í Grafarvogi ganga gegn þessum sjónarmiðum og koma því ekki til greina að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Í ýmsum tilvikum er gert ráð fyrir miklum þéttleika byggðar og of fáum bílastæðum. Slíkt skipulag hefði óhjákvæmilega áhrif á lífsgæði þeirra íbúa sem fyrir eru til hins verra. Samráð við Grafarvogsbúa hefur verið takmarkað í málinu og tillögurnar mætt mikilli andstöðu. Æskilegt væri því að tillögurnar yrðu dregnar til baka í heild sinni en þess gætt í framtíðinni að auka samráð við íbúa hverfisins varðandi viðamiklar breytingar á skipulagi.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Eftir að fyrstu uppbyggingarhugmyndir um nýja íbúðabyggð í Grafarvogi voru kynntar fyrir íbúum á kynningarfundi og opnu húsi haustið 2024 voru áform rýnd út frá athugasemdum þar sem gengið var mjög langt í að mæta sjónarmiðum íbúa. Í kjölfarið hefur byggingarmagn verið minnkað og íbúðum fækkað um hartnær þriðjung, úr 476 í 340. Af þessum 340 íbúðum sem unnið verður áfram með er gert ráð fyrir að 43% íbúða verið úthlutað til óhagnaðardrifinna félaga. Fjölbreyttar íbúðategundir verða í þessari uppbyggingu eða einbýli, parhús, raðhús og fjölbýlishús. Uppbyggingarlóðir sem haldið er í hafa verið þróaðar áfram með tilliti til umhverfisáhrifa eins og gróðurs, landhalla, ofanvatns, jarðvegs, vinds, skuggavarps, hljóðs sem og útsýnis og annarra þátta. Þéttleiki uppbyggingarinnar er sá sami og er í núverandi byggð og fellur uppbyggingin vel að umhverfi sínu. Það er vöntun á minni uppbyggingarlóðum eins og hér er verið að þróa og er þessi vinna liður í húsnæðisátaki sem snýr að því að flýta húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 12. mars:
Framsókn gagnrýnir harðlega þá afstöðu meirihlutans að trjáfellingar vegna flugöryggis séu „ekki í þágu borgarbúa“. Að mati Framsóknar þjónar Reykjavíkurflugvöllur öllum landsmönnum og þessi fullyrðing lýsir djúpri vanþekkingu á hagsmunum landsmanna þegar kemur að flugvellinum. Framsókn minnir á að Reykjavík er höfuðborg Íslands og hefur skyldum að gegna gagnvart landsmönnum öllum. Framsókn fagnar því að fram sé komin aðgerðaáætlun sem tryggir rekstraröryggi flugvallarins. Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki í flugsamgöngum innanlands og tryggir ófrávíkjanlega hagsmuni landsmanna allra þegar kemur að sjúkraflugi. Framsókn telur eðlilegt að ríkið greiði þann kostnað sem af framkvæmdinni hlýst.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Við föllumst á áætlun um fellingu trjáa í Öskjuhlíð vegna flugöryggis sem kynnt var á fundinum. Við gagnrýnum um leið málsmeðferð ISAVIA og Samgöngustofu. Óskýrleiki hefur því miður einkennt ferlið sem hefur gert borginni erfitt fyrir. Sem dæmi má nefna að minnisblað ISAVIA frá því september 2024 þar sem boðuð var lokun flugbrautar barst ekki borginni fyrr en í janúar 2025. Við teljum fulla ástæðu til að árétta að skógurinn í Öskjuhlíðinni er mikilvægt upplifunar- og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Við munum gæta þeirra hagsmuna áfram samhliða því að standa vörð um flugöryggi. Verkferlar sem varða öryggi flugvallarins þurfa að vera skýrir hvað varðar alla aðila málsins. Við teljum enn fremur að eðlilegast sé að ríkið standi straum af kostnaði trjáfellingarinnar.
Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 14. mars 2025
- - 2. liður; samþykkt fyrir mannréttindaráð
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 10. mars 2025
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. mars 2025
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. mars 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 28. febrúar 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 5. mars 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 7. mars 2025
Fundi slitið kl. 19:15
Sanna Magdalena Mörtudottir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Líf Magneudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 18.03.2025 - Prentvæn útgáfa