Borgarstjórn - Borgarstjórn 18.11.2025

Borgarstjórn

Ár 2025, þriðjudaginn 18. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:02. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birna Hafstein, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Í upphafi fundar eru flutt minningarorð um Helga Pétursson, fyrrverandi borgarfulltrúa.

    Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 11. nóvember 2025, um hækkun á þaki sérstaks húnæðisstuðnings, sbr. 6. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember. 
    Samþykkt. MSS25110033

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með þessum breytingum er verið að lækka íþyngjandi húsnæðiskostnað leigjenda. Hámark samanlagðra húsaleigubóta og sérstaks húsnæðisstuðnings hækkar frá áramótum um 10.000 krónur, úr 100.000 í 110.000, leigjendum til hagsbóta. Hátt leiguverð hefur veruleg áhrif á stöðu leigjenda og því skiptir stuðningur við þau sem fá sérstakan húsnæðisstuðning miklu máli. Áhrifin verða mest hjá þeim sem búa fleiri en eitt í húsnæði þar sem um er að ræða aukinn stuðning um allt að 10.000 krónur á mánuði fyrir barnafjölskyldur, hjón eða aðra sambúðaraðila. Mikilvægt er að styðja við leigjendur sem greiða háan húsnæðiskostnað, á meðan verið er að byggja upp gott húsnæði á viðráðanlegu verði.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að: a) Beina því til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að taka upp símatíma og gefa almenningi kost á því að hafa beint samband við starfsfólk eftirlitsins. Starfsfólk eftirlitsins skal í símatímunum geta veitt helstu upplýsingar og leiðbeiningar varðandi verkefni embættisins líkt og tilgreint er í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. b) Gera úttekt á starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og starfsháttum starfsmanna þess. Helsti tilgangur slíkrar úttektar væri að tryggja samræmi í túlkun laga og reglugerða og jafna meðferð gagnvart þjónustuþegum af hálfu eftirlitsins, sbr. 11 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. c) Beina því til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að vinna verklagsreglur um fastan tímaramma í svörun og úrvinnslu erinda til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skulu verklagsreglurnar vera í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um skjótar ákvarðanir í málum, tryggja að erindum sé svarað vel og tímanlega og skilvirka úrvinnslu umsókna. Í verklagsreglunum skal einnig gætt að því að ákvarða tímafresti þannig að úrvinnsla erinda til Heilbrigðiseftirlitsins valdi ekki sérstökum töfum í úrvinnslu samhangandi erinda viðkomandi embætta svo sem sýslumanni, byggingarfulltrúa eða skrifstofu borgarstjórnar. d) Beina því til heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að gerð verði árleg þjónustukönnun á þjónustu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skulu niðurstöður könnunarinnar nýttar til mælanlegra umbóta og framþróunar í störfum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar að vísa a-lið tillögunnar frá. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar að vísa b-lið tillögunnar frá. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar að vísa c-lið tillögunnar frá. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar að vísa d-lið tillögunnar frá. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090055

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Taka verður alvarlega lýsingar rekstraraðila á samskiptunum við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Í könnun Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði kom fram að einungis 10 af 73 fyrirtækjum voru ánægð með samskiptin við eftirlitið og aðeins 11% töldu svartíma og afgreiðslutíma fullnægjandi. Viðbrögð Heilbrigðiseftirlitsins hafa verið óljós. Það skortir skýra sýn og mælanleg markmið í óopinberu úrbótaáætlunina. Ekki er að finna opinberar þjónustukannanir á heimasíðu eftirlitsins og síðasti birti ársreikningur er frá 2021. Ólíkt flestum stofnunum býður Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ekki upp á beint símasamband. Umsækjendur þurfa að bíða eftir símhringingu, oft dögum saman, sem lengir ferlið og eykur líkur á óþarfa töfum vegna rangra eða ófullnægjandi umsókna. Margra mánaða bið eftir afgreiðslu einfaldra erinda er í ósamræmi við 9. gr. laganna, sem kveður á um að ákvarðanir skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Að auki hafa rekstraraðilar ítrekað lýst misræmi milli starfsmanna í túlkun reglugerða. Tillögurnar sem hér eru lagðar fram um innleiðingu símatíma, úttekt á starfsháttum, skýran tímaramma í úrvinnslu erinda og reglulegar opinberar þjónustukannanir ganga lengra í að bæta þjónustu en til stendur í núverandi áformum Heilbrigðiseftirlitsins. Tillögurnar tryggja fagleg vinnubrögð, fyrirsjáanleika og jafnræði og draga úr töfum. Þær eru hófstilltar en brýnar til að mæta ákalli hagaðila.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillögunni er vísað frá þar sem þegar stendur yfir rýni á þjónustu Heilbrigðiseftirlitsins og efni hennar fellur undir þá vinnu.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það vekur furðu að sjá vandræðagang meirihlutans um að ætla að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins frá. Greinilegt að meirihlutinn er ekki samstíga í því að innleiða góða þjónustu í allar stofnanir borgarinnar. Viðreisn styður að þjónustustefna borgarinnar sé að fullu innleidd og að gerðar séu reglulegar þjónustukannanir og þær birtar í ársskýrslu. Það er skýrt að samkvæmt stefnu borgarinnar, eiga allar stofnanir borgarinnar, alveg óháð því hversu sjálfstæðar þær eru, að fylgja þjónustustefnu borgarinnar. Lögð er áhersla á að þjónustan sé aðgengileg, fjölbreytt og framúrskarandi. Þjónustustefnan lýsir samræmdri sýn borgarinnar á hvað þjónusta snýst um. Að þessu sögðu er eðlilegt að Heilbrigðiseftirlitið innleiði stefnuna af fullum krafti, geri reglulegar þjónustukannanir og kynni þær í ársskýrslu eftirlitsins.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026-2030, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember.

    -    Kl. 14:18 víkur Birna Hafstein af fundi og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.

    Samþykkt að vísa stefnunni í samráðsgátt Reykjavíkurborgar. MSS25110035

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg er fjölmenningarborg og gegnir þar mikilvægum hlutverkum sem stjórnvald, atvinnurekandi, þjónustuveitandi og samstarfsaðili. Inngildandi nálgun og fjölmenningarleg gildi þurfa þess vegna að endurspeglast í allri stefnumótun sem og þjónustu borgarinnar til að tryggja virka þátttöku íbúa með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn í borgarsamfélaginu. Nú verður stefnan send í víðtækt samráð í gegnum samráðsgáttina og verður fróðlegt og gagnlegt að fá viðbrögð almennings við henni.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisfokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að vísa stefnudrögum um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026–2030 í samráðsgátt borgarinnar. Stefnan er skref í átt að borgarsamfélagi þar sem allir íbúar fá raunhæf tækifæri til þátttöku. Þó ber sérstaklega að undirstrika að án öflugrar íslenskukennslu munu markmið stefnunnar ekki nást. Niðurstöður skýrslu OECD frá 2024 sýna skýrt að tungumálakunnátta er lykilforsenda inngildingar innflytjenda. Meðal annars kemur fram að aðeins um 20% innflytjenda á Íslandi telji sig hafa góða íslenskukunnáttu sem er lægsta hlutfall allra OECD-ríkja. Skortur á íslenskukunnáttu er jafnframt algengasta hindrun innflytjenda á vinnumarkaði og opinber framlög til tungumálanáms eru langt undir því sem þekkist á Norðurlöndum. Til að stefnan nái tilgangi sínum leggjum við því áherslu á að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að íslenskunám verði aðgengilegra, markvissara og fjármagnað í samræmi við raunverulegar þarfir. Öflug íslenskukennsla er forsenda inngildingar og lykill að samfélagi þar sem allir borgarbúar, óháð uppruna, taka virkan þátt.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn fagnar nýrri stefnumótun um fjölmenningarborgina Reykjavík, stefnu sem á rætur í vinnu síðasta meirihluta. Mikilvægt er að borgin ígrundi stöðugt hvernig hún geti tekið enn betur á móti innflytjendum, ekki síst starfsfólki af erlendum uppruna og börnum sem hefja nám í skólum borgarinnar og þurfa aukinn stuðning til að komast inn í samfélagið og læra íslensku. Reykjavík hefur lengi verið leiðandi á þessu sviði og á að halda þeirri forystu. Fulltrúar Framsóknar undrast þó að stefnan sé tekin sérstaklega til umræðu áður en hún fer í samráðsgátt. Skynsamlegra hefði verið að borgarstjórn ræddi málið að loknu samráði. Þá vekur Framsókn athygli á því að í aðgerðaáætlun stefnunnar er ekki minnst á íslenskukennslu barna í kaflanum um skóla- og frístundasvið. Það er sérkennilegt í ljósi ört vaxandi fjölda barna af erlendum uppruna. Áhersla borgarinnar hlýtur að vera á markvissa íslenskukennslu og bætta þjónustu svo börn geti notið náms og tekið fullan þátt í samfélaginu.

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fjölmenningarstefna sem hér er samþykkt er góð og Viðreisn styður hana heilshugar. Stefnan mun þó ekki framkvæma sig sjálf. Það er sérstaklega jákvætt að stefnan byggi á hugtakinu inngilding. Það er ekki bara að taka á móti fólki, heldur að gera ráð fyrir fjölbreytileika frá upphafi. Þar er grundvallarmunur. Fjölmenning bætir vinnumarkaðinn. Hún styrkir menningarlífið. Hún eflir lýðræði og samfélagslega virkni og hún bætir líf allra. Það sem vantar eru skýrir mælikvarðar, tímalínur, ábyrgð og fjármögnun. Án þess verður stefnan eins og lítið jólaljós í glugga, falleg en lýsir ekkert upp. Við í Viðreisn viljum að borgin gefi út reglulega stöðu- og framvinduskýrslu, með því sem hefur áunnist og því sem eftir er. Við viljum líka að borgin fjármagni þessa stefnu af alvöru. Það er ekki hægt að byggja inngildingu á góðum vilja eingöngu.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að hefja vinnu við stefnumótun um hestamennsku í Reykjavík til 2050. Komið verði á fót stýrihópi til að móta stefnuna með hagaðilum. Borgarráði verði falið að móta erindisbréf stýrihópsins í samráði við hagaðila og verði hagaðilum jafnframt tryggð þátttaka í stýrihópnum ásamt kjörnum fulltrúum.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar menningar- og íþróttaráðs. MSS25110069

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn fagnar góðum viðtökum við tillögu Framsóknar um stefnumótun um framtíð hestamennsku í Reykjavík til ársins 2050. Framsókn telur þó að betur hefði farið á því að samþykkja tillöguna og að borgarráð færi með forræði stefnumótunarinnar enda varðar hún fjölbreytta hagsmuni en ekki aðeins menningar- og íþróttasvið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:

    Lagt er til að farið verði í átak um endurgerð gangstétta í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi. Sett verði inn í fjárfestingaáætlun borgarinnar fimm ára átak í viðhaldi og endurgerð gangstétta í þessum hverfum. Gangstéttir á svæðunum eru að þó nokkru leyti ónothæfar eða mjög skemmdar. Viðhald gangstétta hefur ekki verið sett í nægilegan forgang og hafa þær verið endurnýjaðar af handahófskenndu vali í samfloti við aðrar framkvæmdir. Í samræmi við gönguvæna borg sem nú er unnið að hörðum höndum þar sem gangstéttir borgarinnar eru grunnstoð er mikilvægt að stíga strax inn og horfa til þess við gerð fimm ára fjárfestingaráætlunar 2026-2029. Í fyrrnefndum hverfum voru gangstéttir lagðar fyrir rúmlega 40 árum. Auk þess er lagt til að eyrnamerkja fjármagn til að styðja við stærri húsfélög við að ráðast í framkvæmdir um endurgerð og viðhald gangstétta á lóðum húsfélaga, umgjörð utan um það verði sett við upphaf átaksins.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25100020

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að í upphafssetningu tillögunnar komi orðin „í öllum hverfum borgarinnar“ í stað orðanna „Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi“. Upphafssetningin hljóði því svo: „Lagt er til að farið verði í átak um endurgerð gangstétta í öllum hverfum borgarinnar.“ Sama breyting verði gerð á heiti tillögunnar.

    Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Samþykkt að vísa tillögu borgarfulltrúa Viðreisnar til meðferðar borgarráðs. MSS25100020

    Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Viðgerðir og viðhald gangstétta og stíga er ekki valkvætt verkefni, þetta er viðhald á grunnstoðum þess samfélags sem borgina byggir. Hryggir það fulltrúa Viðreisnar að ekki sé strax tekið tillit til þess hvað fyrirséð viðhaldsþörf mun kosta og allir virðast hér meðvitaðir um. Fyrir liggur að þetta eru aðgerðir sem þarf að fara í en þær eru ekki sýnilegar í áætlunum. Ábyrg áætlanagerð er hornsteinn í þessari tillögu.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Afar brýnt er að ráðast í fjárfestingarátak í endurgerð og viðhaldi á gangstéttum í borginni allri. Því er tillögunni fagnað og vonir bundnar við að meirihlutinn færi til fjármagn í fjárfestingaáætlun og kynni við aðra umræðu fjárhagsáætlunar í desember.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram til síðari umræðu borgarhönnunarstefna Reykjavíkur, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. október og 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. nóvember. 

    Samþykkt. USK22100027

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vinna við borgarhönnunarstefnu var sett í gang snemma á kjörtímabilinu enda höfðu á umliðnum árum risið hús þar sem gæði uppbyggingar höfðu ekki verið tryggð hvað varðar birtuskilyrði í íbúðum, hljóðvist og fleira. Þessi stefna á að hafa það að markmiði að tryggja og auka gæði í húsnæðisuppbyggingu. Leggja átti áherslu á að tryggja betri birtuskilyrði í íbúðum, vanda betur samspil húsnæðis og grænna svæða og bæta hljóðvist og aðra umgjörð í hverfum borgarinnar. Borgarhönnunarstefna á að vera leiðarljós fyrir uppbyggingaraðila og hraða skipulagsferlinu enda séu sjónarmið borgarinnar um fallega og heilnæma byggð skýr frá upphafi. Framsókn styður stefnuna þó benda megi á eitt og annað sem getur orkað tvímælis. Sér í lagi það sem snýr að bílastæðum og hönnun gatna. Stefnan þarf að vera raunhæf og taka mið af raunverulegum þörfum íbúa, aðgengi snjómoksturstækja og sorphirðu svo fátt eitt sé nefnt.

    Fylgigögn

  7. Umræðu um deiliskipulag Birkimels 1 er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25060118

    -    Kl. 15:50 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundi og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti. 

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja skipulagsvinnu vegna áforma um uppbyggingu lífsgæðakjarna á jörðinni Gunnarshólma.

    Greinargerð fylgir tillögunni. 
    Frestað. MSS25110068

    Fylgigögn

  9. Umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25110070

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri.

    Frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25090069

    Fylgigögn

  11. Lagt til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í almannavarnanefnd í stað Lífar Magneudóttur. 
    Samþykkt. MSS22060051

    Fylgigögn

  12. Lagt til að Líf Magneudóttir taki sæti varamanns í forsætisnefnd. 
    Samþykkt. MSS22060040

    Fylgigögn

  13. Lagt til að Björn Gíslason taki sæti Söndru Hlífar Ocares í heilbrigðisnefnd. 
    Samþykkt með 11 atkvæðum Friðjóns R. Friðjónssonar, Helga Áss Grétarssonar, Hildar Björnsdóttur, Kjartans Magnússonar og Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Skúla Helgasonar, Sabine Leskopf, Söru Bjargar Sigurðardóttur og Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Einars Sveinbjörns Guðmundssonar borgarfulltrúa Flokks fólksins gegn tveimur atkvæðum, Hjálmars Sveinssonar borgarfulltrúa Samfylkingarinnar og Lífar Magneudóttur borgarfulltrúa Vinstri grænna.
    Aðrir borgarfulltrúar sátu hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  14. Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti Björns Gíslasonar í innkaupa- og framkvæmdaráði. 
    Samþykkt. MSS22060064

    Fylgigögn

  15. Lagt til að Andrea Helgadóttir verði kosin skrifari borgarstjórnar í stað Helgu Þórðardóttur. 
    Samþykkt. MSS22060040

    Fylgigögn

  16. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 6. nóvember og 13. nóvember. 
    13. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. nóvember, framþróun og fjölbreytni á reykjavík.is, er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 
    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25010002

    Fylgigögn

  17. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 14. nóvember, mannréttindaráðs frá 6. nóvember, menningar- og íþróttaráðs frá 31. október, skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 5. og 12. nóvember og velferðarráðs frá 5. nóvember. Framlagningu fundargerðar stafræns ráðs frá 12. nóvember er frestað. MSS25010033

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:29

Sanna Magdalena Mörtudottir Andrea Helgadóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 18.11.2025 - Prentvæn útgáfa