Borgarstjórn
Ár 2024, þriðjudaginn 17. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helga Þórðardóttir, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram til síðari umræðu tillaga borgarstjóra, dags. 27. ágúst 2024, varðandi viðauka við samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, drög að samkomulagi vegna reksturs stjórnskipulags og veghalds, og yfirlýsing um sameiginlegan skilning varðandi framkvæmd samkomulags um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 3. september 2024.
Samþykkt með fimmtán atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Vinstri grænna og Söndru Hlífar Ocares borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Björns Gíslasonar, Kjartans Magnússonar, Mörtu Guðjónsdóttur og Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Friðjón R. Friðjónsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.Friðjón R. Friðjónsson og Sandra Hlíf Ocares, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi viðaukatillögu:
Reykjavíkurborg lýsir því yfir að Miklubrautargöng verði sett í einkaframkvæmd og hefjist vinna við undirbúning þeirra á þessu ári og stefnt verði að því að þeim verði lokið árið 2032. Framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans verði breytt til samræmis.
Viðaukatillögunni er vísað frá með sextán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24080093
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar mjög samþykkt borgarstjórnar á uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Um er að ræða risastóra og mikilvæga innviðauppbyggingu sem hefur í för með sér miklar lífskjarabætur fyrir höfuðborgarbúa og landsmenn alla. Markmiðið með samgöngusáttmálanum er að stytta ferða- og biðtíma í bílum, búa til hágæðaalmenningssamgöngur og efla göngu- og hjólastíga til muna. Framkvæmdin öll gerir það að verkum að fólk kemst hraðar milli borgarhluta, hefur val um samgöngumáta og hefur að auki mjög jákvæð áhrif á lýðheilsu landsmanna.
Björn Gíslason, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sætta sig ekki við frekari tafir á úrbótum í samgöngumálum. Þeir vilja að strax verði gripið til aðgerða til að auka umferðaröryggi, bæta umferðarflæði og draga úr mengun í borginni. Ljúka þarf skipulagsvinnu vegna gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar sem fyrst og ráðast í framkvæmdir 2025. Stórbæta þarf umferðarstýringu strax. Grípa þarf til aðgerða strax í því skyni að stórefla almenningssamgöngur í stað þess að bíða í mörg ár eftir borgarlínu. Mörg verkefni sáttmálans eru of flókin og dýr. Sáttmálinn er ófjármagnaður, hann vanáætlar kostnaðarliði, sýnir enga greiningu á óvissu- og áhættuþáttum og greinir ekki arðsemi- og ábatamat einstakra verkþátta. Ljóst er að ætlunin er að leggja þunga viðbótarskatta á Reykvíkinga vegna hans. Uppfærsla samgöngusáttmála einkennist þannig af tafastefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn, sem í áraraðir hefur barist gegn samgöngubótum í Reykjavík. Veri það „samgöngustoppið“ 2011 eða aðalskipulagsbreytingar 2014 þegar samgönguumbætur voru teknar af skipulagi. Ekki hefur verið staðið við fyrirheit úr samgöngusáttmálanum 2019 um að þessi kyrrstaða yrði rofin. Með uppfærslunni nú verður haldið áfram á sömu braut. Ljúka átti úrbótum á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar 2011, sem hefur nú verið frestað til 2030. Úrbætur í umferðarljósastýringu áttu að vera í forgangi en afar lítið gerst í þeim efnum.
Friðjón R. Friðjónsson og Sandra Hlíf Ocares borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er ljóst að ráðast verður í stórátak á höfuðborgarsvæðinu til að bæta samgöngur og auka öryggi í umferðinni með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Gjöld af umferð til að fjármagna samgöngumannvirki skulu miðast við notkun, samhliða niðurfellingu vörugjalda af bifreiðum og eldsneyti. Borgarfulltrúarnir undirstrika mikilvægi þess að við framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði verkefnum forgangsraðað til að vinna hratt á þeim bráðavanda sem miklar og vaxandi umferðatafir valda og tryggja að arðsemi ráði forgangsröðun. Þá telja borgarfulltrúarnir jafnframt að lagning Sundabrautar skuli vera í forgangi. Borgarfulltrúarnir harma höfnun borgarstjórnar á að Miklubrautargöngum verði flýtt.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Nauðsynlegt er að efla samgönguinnviði vegna langvinnrar vanfjármögnunar. Ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu koma að fjármögnuninni þar sem samkomulag gerir m.a. ráð fyrir innheimtu veggjalda eða annarri fjármögnun frá ríkinu. Innheimta veggjalda hefur ekki komið til framkvæmda en í samkomulagi var gert ráð fyrir að sú innheimta yrði 143 milljaðar. Sósíalistar geta ekki samþykkt veggjöld sem fjármögnunarleið en ljóst er að slíkt bitnar harðast á þeim sem verst standa. Þá á einnig að nota ábatann af þróun og sölu Keldnalandsins til fjármögnunar samgöngusáttmálans. Ef að lóðir til húsnæðisuppbyggingar á Keldnalandi verða seldar hæstbjóðenda þá mun slíkt skila sér út í íbúðaverðið og bitna á framtíðaríbúum svæðisins. Almenningur á ekki að þurfa að greiða fyrir samgönguúrbætur með þessum hætti og leggja Sósíalistar áherslu á að tekjur verði sóttar til þeirra sem peningana eiga, þeirra sem greiða ekki eins og aðrir til nærsamfélagsins. Ánægjulegt er að sjá fyrirhugaða aðkomu ríkisins að rekstri Strætó bs. og mikilvægt er að þjónustuskerðingar verði dregnar tilbaka sem fyrst og þjónusta bætt til að mæta þörfum farþeganna.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar uppfærslu samgöngusáttmálans. Uppfærslan var unnin nokkurn veginn af sama fólki og bjó til fyrri sáttmálann sem er galli því betur sjá augu en auga. Vonir stóðu til að sáttmálinn fæli í sér úrbætur og úrræði til að létta eitthvað á umferðarþunga borgarinnar. Fram kemur að fjárfesta eigi í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun fyrir umferðarljósastýringar en það kemur ekki fram hvenær. Sáttmálinn fjallar hvað mest um stóru framkvæmdirnar, Miklubraut í göng, Borgarlínu og Fossvogsbrú, sem komast eiga í gagnið eftir mörg ár ef ekki áratugi. Þeir sem eru komnir vel yfir miðjan aldur munu aldrei upplifa eða sjá þennan veruleika en sitja hins vegar áfram fastir í umferðarteppum með tilheyrandi mengun og töfum. Ekki er ósennilegt að uppfæra þurfi plaggið einu sinni enn því í hann vantar fjölda kostnaðarliða, s.s. tölvubúnað, verkstæði, geymslur fyrir vagna, stjórnstöð, o.fl. Jákvætt er að ríkið skuldbindur sig til þess að fjármagna þriðjung kostnaðar vegna reksturs almenningssamgangna á móti sveitarfélögunum. Í gögnum segir að borgarlínan mun gera almenningssamgöngur eftirsóknarverðari og raunhæfan valkost. En þýðir þetta að borgarbúar eru ekki í bráð að fara að sjá bættar almenningssamgöngur? Eitthvað þarf að gera strax því Strætó í þeirri mynd sem nú er, er ekki fólki bjóðandi.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fagnar samþykkt hins uppfærða sáttmála um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Gerð samgöngusáttmálans, undir forystu Katrínar Jakobsdóttur fyrrverandi forsætisráðherra, markaði þáttaskil í þróunar- og samgöngumálum Reykjavíkurborgar. Uppfærsla hans nú undir leiðsögn Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra er sömuleiðis stórt skref og mikilvægur þáttur í að sigla gömlu baráttumáli Vinstri grænna í höfn. Er sérlega ánægjulegt hversu margar stjórnmálahreyfingar hafa meðtekið stefnu flokksins í samgöngum með húð og hári.
-
Fram fer umræða um skólamál, samræmt námsmat og fleira. MSS24090004
- Kl. 15:45 víkur Skúli Helgason af fundinum og Guðný Maja Riba tekur sæti.
- Kl. 16:30 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Unnur Þöll Benediktsdóttir tekur sæti.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn fagnar mikilli umræðu og áhuga á skólamálum enda haldast gæði menntunar í hendur við hagsæld og velgengni okkar sem samfélags. Endurteknar niðurstöður úr Pisa-könnunum eru tilefni til þess að endurskoða og setja í forgang viðbrögð til þess að gera betur og auka árangur menntakerfisins. Þegar hefur verið sett af stað fagleg vinna til að greina stöðuna og finna lausnir til þess að bregðast við. Nú stendur yfir endurskoðun á menntastefnu Reykjavíkur. Að auki hafa skólayfirföld í borginni unnið þétt með mennta- og barnamálaráðuneytinu að nýju og bættu samræmdu námsmati, matsferli, sem mun leysa gömlu samræmdu prófin af hólmi.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fjölþætt, breiðvirkt námsmat byggt á ólíkum mælikvörðum er það sem Flokkur fólksins vill sjá komast í gagnið hið fyrsta. Mikilvægt er að hafa hluta matsins samræmt. Vandinn við eina tegund af mælikvarða eins og samræmdu prófin er sá að börn sem eru að standa sig vel í öðrum greinum en samræmdu prófin mældu féllu í skuggann þar sem framhaldsskólar einblíndu mest á einkunnir samræmdu prófanna. Nemendur með annan menningar- og tungumálabakgrunn en íslensku eiga ekki möguleika á að sitja við sama borð og íslensk börn t.d. á samræmdu íslenskuprófi. Börn í lægri efnahagsstöðu sitja heldur ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Sem dæmi fá þau síður einkakennslu sem hjálpar þeim með undirbúning eins og börn efnameiri foreldra geta veitt börnum sínum. Fjölþættara mat er nauðsynlegt til að gefa breiða mynd af getu nemenda, styrkleika þeirra. Börn með t.d. lestrarörðugleika eða annað móðurmál en íslensku þurfa að fá sanngjarnt mat og sömu tækifæri. Þegar rætt er um skólamál og samræmt námsmat má einnig horfa á málið út frá framhaldsskólunum og hvernig þeir geta tekið við nemendum á grundvelli meiri jöfnuðar. Umfram allt verður að reyna að mæta óskum barna um skóla og nám.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að Reykjavíkurborg fari þess á leit við barna- og menntamálaráðherra að samræmd próf verði tekin upp að nýju í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla í þeim tilgangi að bæta námsárangur grunnskólanema. Samræmdu prófunum fylgi kennsluátak fyrir þá nemendur sem helst þurfa á því að halda.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með tuttugu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24090003
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins telur að ekki eigi að taka upp gömlu samræmdu prófin í óbreyttri mynd og að þau verði aftur eina námsmatið sem framhaldsskólar styðja sig við í vali á umsóknum. Rétt er að gefa nýju breiðvirku námsmati tækifæri sem hannað hefur verið hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Koma þarf því í gagnið hið fyrsta. Það skapaði losarabrag og nokkra óreiðu þegar samræmd próf voru aflögð með einu pennastriki og ekkert sambærilegt var tilbúið í staðinn. Framhaldsskólar hafa ekki haft neitt samræmt mat í nokkur ár til að meta umsóknir. Samræmd próf hafa bæði kosti og galla. Kostirnir eru að þau hvetja nemendur til að hefja snemma prófundirbúning. Í flestum skólum var sett af stað ákveðið kennsluátak fyrir samræmdu prófin sem skilaði sér í aukinni þekkingu, metnaði og þjálfun í öguðum vinnubrögðum. Pisa-kannanir sýna að staða íslenskra grunnskólanema í lestri, stærðfræði og náttúruvísindum er óviðunandi. Nær 50% drengja og þriðjungur stúlkna geta ekki lesið sér til gagns að lokinni 10 ára skólagöngu. Ísland var neðst Norðurlandanna í síðustu Pisa-könnun og næstneðst allra Evrópuríkja. Nú þarf að hanna áreiðanlegt breiðvirkt námsmat sem tekur einnig til greina nemendur með sértæka námserfiðleika og nemendur sem koma frá ólíku mál- og menningarumhverfi.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Borgarstjórn samþykkir að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að dregið verði úr næringargildi skólamáltíða og verði það m.a. gert með því að tryggja að skólar með eldhús geti eldað matinn á staðnum.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar stýrihóps um matarstefnu. MSS24090005
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:Fulltrúi Flokks fólksins telur sjálfsagt að leita allra leiða til að viðhalda næringargildi skólamáltíða. Það er þó ekki endilega sjálfgefið að skólamatur sem er eldaður á staðnum hafi meira næringargildi en sá sem matreiddur utan skóla. Nefna má fyrirtækið Skólamat sem sinnir sjö skólum í borginni af fagmennsku. Sjálfsagt eru fyrirtækin fleiri sem veita góða þjónustu. Sjá má á heimasíðu skolamatur.is þar sem segir að þar starfar gæðastjóri sem hefur það að markmiði að halda uppi gæðum ásamt því að tryggja öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Skólamatur vinnur eftir gæðakerfi þar sem gæði og matvælaöryggi varanna er í fyrirrúmi. Skólamatur verslar aðeins við viðurkennda íslenska birgja og gerir miklar kröfur til þeirra, bæði hvað varðar gæði og ferskleika hráefnis. Ekki er heldur framhjá því litið að það er ákveðið hagræði fólgið í því að skipta við stórt eldhús þar sem hluti matarins er fulleldaður og sendur út í skólana. Einnig eru sumir skólar einfaldlega ekki með eldhúsaðstöðu til að elda allan mat en geta kannski eldað hluta hans eða hitað upp mat. Ef skólamatur á að vera eldaður frá grunni í öllum leik- og grunnskólum þarf að gera ráð fyrir auknum kostnaði til að bæta aðstæður og ráða kokka/matráða.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fagnar tillögu Sósíalistaflokksins um skólamáltíðir. Brýnt er að nú þegar gjaldfrjálsa skólamáltíðaverkefninu er ýtt úr vör verði það nýtt sem raunverulegt tækifæri til að nálgast fyrirbærið skólamáltíð upp á nýtt. Það getur kallað á gerð kennsluefnis – bæði fyrir börn og skólastarfsmenn. Það getur kallað á breytingar á húsnæði, ekki hvað síst við uppbyggingu góðra matreiðslueldhúsa í sem flestum skólum, þar sem leitast verði við að elda mat frá grunni.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara. MSS24090006
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í nýrri könnun sem Kennarasamband Íslands lét gera kemur fram að rúmlega fjórðungur leik- og grunnskólakennara segja ólíklegt eða mjög ólíklegt að þeir verði áfram í starfi eftir fimm ár. Formaður Kennarasambands Íslands segir þessar tölur vekja ugg. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það þurfi að taka þessar niðurstöður alvarlega því þarna eru hættumerki á ferð sem þarf að rýna. Bregðast þarf við af krafti til að koma í veg fyrir brottfall úr kennarastéttinni. Nægur er mannekluvandinn í leik- og grunnskólum borgarinnar. Álag á kennara hefur aukist mikið undanfarin ár. Í einum bekk getur verið stór hópur nemenda sem ekki skilur íslensku og til viðbótar geta verið nokkrir nemendur með ýmsar sérþarfir eins og athyglisbrest, einhverfu, málþroskaröskun og svo mætti lengi telja. Í þessum aðstæðum finnst kennurum þeir hafa litlar bjargir. Verkefnið verður of stórt og þeir upplifa sig vanmáttuga. Það þarf að efla íslenskukennslu sem annað tungumál. Ef börnin læra ekki íslensku þá verða þau útundan í samfélaginu og hætta mörg hver skólagöngu eftir grunnskólann. Það þarf að leita allra leiða til að flýta framkvæmd farsældarlaganna og veita kennurum auknar bjargir. Það er mikið óþol í kennurum að framkvæmd þeirra raungerist. Helsta ákall kennara er að fá stuðning inn í kennslustofuna.
Fylgigögn
-
Umræðu um stefnumótun í málefnum innflytjenda og úttekt OECD er frestað. MSS24090078
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði/ samgönguskrifstofu að búa til rými í bílastæðahúsum borgarinnar sem eru sérmerkt deilibílum, ásamt því að veita deilibílum sérmerkt rými miðsvæðis í öllum hverfum borgarinnar, í þeim tilgangi að auka flæði í umferð og ýta undir deilihagkerfið. Sviðinu verði einnig falið að auglýsa eftir samstarfsaðilum.
Frestað. MSS24090079
Fylgigögn
-
Lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Helga Áss Grétarssonar. Einnig er lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti varamanns í skóla- og frístundaráði í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur.
Samþykkt. MSS22060048 -
Lagt til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti í velferðarráði í stað Ragnhildur Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur. Jafnframt er lagt til að Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir taki sæti varamanns í velferðarráði í stað Söndru Hlífar Ocares.
Samþykkt. MSS22060049 -
Lagt til að Birna Hafstein taki sæti í fjölmenningarráði í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt. MSS22060054 -
Lagt til að Kjartan Magnússon taki sæti í íbúaráði Breiðholts í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt. MSS22060056 -
Lagt til að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Grafarvogs í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt. MSS22060058 -
Lagt til að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti í íbúaráði Miðborgar og Hlíða í stað Söndru Hlífar Ocares.
Samþykkt. MSS22060062 -
Lagt til að Birna Hafstein taki sæti sem varamaður í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt. MSS22060064 -
Lagt til að Sara Björg Sigurðardóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir og Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti í öldungaráði. Jafnframt er lagt til að Ellen Jacqueline Calmon, Dagbjört Höskuldsdóttir og Þorkell Sigurlaugsson taki sæti sem varamenn í ráðinu.
Samþykkt. MSS22060068 -
Samþykkt að taka kosningu í stjórn Félagsbústaða á dagskrá. Lagt er til að Sandra Hlíf Ocares taki sæti sem varamaður í stjórn Félagsbústaða í stað Helga Áss Grétarssonar.
Samþykkt. -
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. september 2024.
2. liður fundargerðarinnar frá 5. september, rekstrarframlag til Strætó, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
1. liður fundargerðarinnar frá 12. september, Keldur, verklýsing aðalskipulagsbreytingar, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
2. liður fundargerðarinnar frá 12. september, Aðalskipulag, Borgarlína, fyrsta lota, er samþykktur með 16 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
3. liður fundargerðarinnar frá 12. september, Breiðholt, hverfi 6.1, Neðra Breiðholt – breyting á hverfisskipulagi, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
4. liður fundargerðarinnar frá 12. september, Breiðholt I – breyting á deiliskipulagi – Arnarbakki 2-6, 8 og 10, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
6. liður fundargerðarinnar frá 12. september, samningur við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála 2025, er samþykktur með 16 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
8. liður fundargerðarinnar frá 12. september, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta, er borinn upp í þrennu lagi: 3. liður viðaukans er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 4. liður viðaukans er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. Viðaukinn er að öðru leyti samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001Friðjón R. Friðjónsson, Marta Guðjónsdóttir og Sandra Hlíf Ocares, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 12. september:
Fyrirhugað íbúðahverfi í Keldnalandi er mikilvægasta skipulagsverkefni í Reykjavík í áratugi. Þar gefst einstakt tækifæri til að hanna eftirsóknarvert íbúðahverfi enda er svæðið fallegt og staðsetningin góð. Við skipulag hverfisins er rétt að áhersla verði lögð á að skapa þar fallegt og mannvænlegt hverfi í samræmi við þá byggðarþróun sem fyrir er í stað áherslu á ofurþéttingu og hámarksafrakstur af lóðasölu. Ofurþétting myndi hafa neikvæð áhrif á þá íbúabyggð sem fyrir er í Grafarvogi og lífsgæði íbúa. Tryggja þarf góðar umferðartengingar allra fararmáta við Keldnahverfi sem og bifreiðastæði fyrir íbúa við hús þeirra. Óraunhæft er að ætla íbúum í hverfinu að ganga langar leiðir frá heimilum sínum að bílastæðahúsum, sem virðast eiga að koma í stað hefðbundinna stæða. Við friðlýsingu Grafarvogs er æskilegt að farið verði eftir tillögu umhverfisráðuneytisins um verndarmörk, sem felur í sér að grunnsævi, leirur og fjörur innan vogsins verði friðlýstar, auk menningarminja og skilgreinds útivistarsvæðis Grafarvogsbúa. Þá er ljóst að hverfisíþróttafélagið Fjölnir mun þurfa á auknu landrými og íþróttamannvirkjum að halda með tilkomu hins nýja hverfis.
Björn Gíslason og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar frá 12. september:
Hér á að samþykkja í auglýsingu aðalskipulagsbreytingu vegna fyrstu lotu Borgarlínu uppfærðs samgöngusáttmála, sem hefur þó ekki verið samþykktur af borgarstjórn. Um helmingur kostnaðarins við samgöngusáttmálann er vegna Borgarlínu en kostnaðurinn hefur á fjórum árum vaxið úr 67 ma.kr. í 130 ma.kr. Því telja borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eðlilegast að samþykki allra bæjarstjórna á samgöngusáttmálanum liggi fyrir áður en aðalskipulagsbreyting vegna Borgarlínu er tekin til endanlegrar afgreiðslu.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar frá 12. september:
Tillagan felur í sér miklar breytingar á stóru svæði við Arnarbakka, sem hingað til hefur verið litið á að sé miðja fjölmenns og hverfisverndaðs íbúasvæðis. Tekið er undir þá skoðun íbúaráðs Breiðholts, sem leggst gegn umræddum byggingaráformum, að lóðin við Arnarbakka 10 sé hið græna torg hverfisins og sannkallað hverfishjarta, sem sé mikið notað af börnum í hverfinu og öðrum íbúum þess fyrir viðburði og leiki. Að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fela fyrirliggjandi breytingar í sér of mikla þéttingu byggðar og að of freklega sé gengið á græn svæði. Um er að ræða sólríkan og skjólsælan stað, sem stendur hærra en nærliggjandi skólalóð. Fyrirhugaðar nýbyggingar munu standa hátt og þannig breyta ásýnd hverfisins. Sparkvöllur á leiksvæði Breiðholtsskóla verður að verulegu leyti í skugga á skólatíma, verði byggingaráformin að veruleika. Þá er augljóst að bílastæðum mun fækka um of en nú þegar ríkir bílastæðaskortur í hverfinu. Horft er framhjá þörfinni fyrir fjölgun bílastæða vegna umfangsmikillar starfsemi leikskóla, grunnskóla, verslunar og þjónustu á svæðinu, auk íbúabyggðar. Ekki þýðir að horfa framhjá þeirri staðreynd að margir stúdentar nota bifreiðar til að komast leiðar sinnar eins og aðrir borgarar. Þá er ljóst að umræddar breytingar munu hafa í för með sér verulega aukna umferð um þetta viðkvæma svæði.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september og 1. og 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september:
Fundargerð borgarráðs frá 5. september, 1. liður, rekstrarframlag til Strætó: Útvistun aksturs er óhagkvæmur kostur. „Lægri rekstrarkostnaður“ er ávallt tekinn út annarsstaðar í rekstrinum, svo sem í kjörum starfsfólks, í þessu tilfelli vagnstjóra. Eftirlit með verktökum og efndum á samningum er sömuleiðis kostnaðarsamt. Aðkoma milliliða flækir að auki boðleiðir vegna umbóta þjónustunnar. Fundargerð borgarráðs frá 12. september, 1. liður, Keldur, verklýsing aðalskipulagsbreytingar: Nota á ábatann af þróun landsins til fjármögnunar samgöngusáttmálans. Ef lóðir til húsnæðisuppbyggingar eru seldar hæstbjóðenda aukast líkurnar á að íbúðaverðið hækki sem bitnar á framtíðaríbúum svæðisins. Leggja Sósíalistar áherslu á að tekjur verði sóttar til fjármagnseigenda, sem greiða ekki eins og aðrir til nærsamfélagsins. Markmið með uppbyggingu Keldna ætti að miða að uppbyggingu á félagslegum grunni, til þess að sporna við neyðarástandi í húsnæðismálum. Fundargerð borgarráðs frá 12. september, 2. liður, Aðalskipulag, Borgarlína, fyrsta lota: Í gögnum tillögunnar stendur: „Borgarlínan mun gera almenningssamgöngur eftirsóknarverðari og raunhæfan valkost sem er lykilforsenda til að breyta ferðavenjum í samræmi við markmið sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“ Mikilvægt er að úrbætur á núverandi almenningssamgangnakerfi komi strax fram svo strætófarþegar þurfi ekki að bíða til fjölda ára eftir áreiðanlegu kerfi. Þá þarf að bæta almenningssamgöngur strax svo litið verði á þær sem raunhæfan valkost til framtíðar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. og 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. september:
1. liður; Keldur, verklýsing aðalskipulagsbreytingar: Á Keldnalandinu á að vera heilmikil atvinnustarfsemi umfram þá starfsemi sem nú þegar er þar. Hér eru grundvallar þjónustustörf svo sem verslun undanskilin að sjálfsögðu. Það er óskynsamlegt því landið er dýrmætt og ætti því að nýta að langmestu leyti sem íbúðabyggingarland. Auðvelt ætti að vera að sækja vinnu frá hverfinu enda stefnt að góðum almenningssamgöngum í gegnum hverfið til annarra borgarhluta t.d. í austurhluta Höfðahverfis og Hólmsheiði. Bein leið verður til miðsvæðis m.a. með væntanlegri Borgarlínu. Skoða þarf einnig að hafa bílastæðakjallara undir húsum þar sem hentar auk þeirra sex bílastæðahúsa sem gert er ráð fyrir í hverfinu. 8. liður, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta: Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur með tvennt í þessum viðauka. Kostnaður við breytingar á bökkunum í Sundhöll Reykjavíkur er of mikill. Þessi breyting er umdeild og fjölmargir telja hana ekki hafa neitt að gera með öryggi. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til fyrir skemmstu að borgarráð endurskoði ákvörðun um að breyta laugarbökkunum. Þessi breyting er ekki gerð með þarfir sundgesta að leiðarljósi. Hitt atriðið er að hætt er við að stækka hjúkrunarrýmið á Droplaugarstöðum. Öll vitum við hversu mikil þörf er á að fjölga rýmum þar.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. september, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 30. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 9. september, stafræns ráðs frá 11. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. og 11. september og velferðarráðs frá 4. september.
3. liður fundargerð forsætisnefndar frá 13. september; tímabundin lausnarbeiðni Helga Áss Grétarssonar, er samþykktur. MSS24010034Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 11. september:
Því má fagna að komin sé vísir að einhverskonar verkáætlun með tilkomu verkefnaráðs. Eftir lestur fundargerða verkefnaráðs er fulltrúi Flokks fólksins þó engu nær um raunverulega stöðu verkefna og enn er mest púður sviðsins að fara í það að uppgötva hið augljósa. Þar er átt við þá miklu vinnu sem eytt er í komast að því hver ábati hvers verkefnis sé. Svona rannsóknarvinna skilar í raun engu nema því sem vitað er fyrir. Það er löngu vitað að stafræn umbreyting skilar margvíslegum ábata og er talið að fjármagni sviðsins sé betur varið í að innleiða lausnirnar sem fyrst í stað þess að mæla ábata af innleiðingum þeirra þar sem ábati stafrænna umbreytinga liggur nú þegar fyrir innanlands sem utan. Rafskútuverkefni sviðsins kallar á fjármagn til þess að kalla fram gögn og mánaðarlegar greiðslur til Hopp. Minnt er á að Google maps er með flest af þeim gögnum sem ætlunin er að greiða fyrir. Fram kemur að gögn borgarinnar á Workplace hafi verið vistuð í Bandaríkjunum í langan tíma og því spurning hvort þarna hafi verið um að ræða brot á persónuverndarlögum af hálfu Reykjavíkurborgar.Fylgigögn
Fundi slitið kl. 17:48
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17. september 2024 - Prentvæn útgáfa