Borgarstjórn - Borgarstjórn 17.12.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 17. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:08. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Sara Björg Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að fela Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að undirbúa, leggja fyrir og vinna úr rökræðukönnun meðal almennings um framtíðarfyrirkomulag skóla- og frístundamála í Laugardalnum. Þar til niðurstaða liggur fyrir verði ákvörðun borgarstjórnar um málið frestað.

    Samþykkt með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna að vísa tillögunni frá. MSS24120084

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundamál í Laugardalnum hafa setið á hakanum of lengi. Hringlandaháttur meirihlutans er átakanlegur. Hann hefur frestað og ýtt á undan sér málinu þannig að staðan hefur versnað til muna. Því hefur fylgt óvissa og álag fyrir skólasamfélagið. Nú hefur verið samþykkt aðgerðaáætlun sem inniheldur stórfelldar framkvæmdir við alla skólana þrjá, uppbyggingu bráðabirgðaskólasvæðis á framkvæmdatíma og byggingu nýs safnskóla fyrir unglingastigið. Þessu fylgir tímaáætlun sem er í besta falli bjartsýn. Borgarfulltrúi Vinstri grænna er ekki mótfallin því að hafa safnskóla en ákvörðun um það á ekki að vera tekin vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast heldur eftir faglega yfirlegu og í nánu samtali við skólasamfélagið og aðra sem koma að ákvörðuninni. Hins vegar skrifast þau hroðvirknislegu vinnubrögð meirihlutans og reiðin og vantraustið sem hefur skapast í skólasamfélaginu í Laugardal alfarið á það hvernig hann hefur haldið á málinu. Rökræðukönnun á þessum tímapunkti gæti orðið til þess að skapa aftur traust skólasamfélagsins og ná fram bestu hugsanlegri niðurstöðu fyrir framtíðarfyrirkomulag skólamála í Laugardal. Það er miður að tillögu Vinstri grænna þess efnis hafi verið vísað frá. Nú er það forgangsverkefni að ná sátt um ákvörðunina, sem borgarfulltrúi Vinstri grænna efast um að sé sú besta, og tryggja að framkvæmdir gangi greiðlega.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að samþykkja að fela Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að undirbúa, leggja fyrir og vinna úr rökræðukönnun meðal íbúa í hverfinu um framtíðarfyrirkomulag skóla- og frístundamála í Laugardalnum. Einnig að samþykkja að þar til niðurstaða liggur fyrir verði ákvörðun borgarstjórnar um málið frestað.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. desember sl., á tillögu um skóla- og frístundastarf í Laugardal, ásamt fylgiskjölum, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. desember 2024.

    -     Kl. 14:30 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.

    Samþykkt með 13 atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. SFS24050075

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstjórn samþykkir hér skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir mennta- og frístundastarf í Laugardalnum eftir langt, flókið og erfitt ferli en harmar um leið tafir og ósætti sem upp hafa komið. Byggður verður upp unglingaskóli í hjarta borgarinnar þar sem skólabragur og skólamenning verða sniðin að þörfum þess aldurshóps. Með unglingaskóla skapast betri tækifæri til að efla bæði mannauð og starfsumhverfi með hag unglingsins að leiðarljósi. Á sama tíma verður ráðist í nauðsynlegt viðhald í grunnskólunum þremur sem er löngu tímabært að ráðast í. Þar skapast að sama skapi tækifæri til að þróa áfram skólastarf með hag yngri barna að leiðarljósi. Þessi ákvörðun er tekin eftir víðtæka stefnumótunar- og greiningarvinnu og fulltrúar meirihlutans vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem hafa tekið þátt í og unnið að framtíðarsýn skólamála í Laugardalnum undanfarin ár.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti borgarstjórnar hefur illu heilli skapað andrúmsloft vantrausts í sinn garð vegna framgöngu sinnar í garð hagsmuna skólasamfélagsins í Laugardal. Tilkoma Framsóknarflokksins í meirihlutasamstarfið vorið 2022 hefur ekki breytt mynstri aðgerðarleysis og vanefndra loforða. Þó tókst haustið 2022 að ná þverpólitískri sátt um að fara þá leið að byggja við Langholtsskóla, Laugarlækjarskóla og Laugarnesskóla, til að mæta langvarandi þörf, en sú niðurstaða fékkst meðal annars í kjölfar undirskriftasöfnunarinnar „stöndum vörð um skólana í Dalnum“. Á vordögum varð þó ljóst að meirihlutinn hyggðist ganga á bak orða sinna, falla frá fyrri áformum og byggja þess í stað einn unglingaskóla. Í kjölfarið efndu íbúar í Laugardalnum til undirskriftarsöfnunarinnar, „verndum skólaumhverfi í Laugardal“ og líkt og í fyrri undirskriftarsöfnun rituðu á annað þúsund manns undir áskorun til borgaryfirvalda. Núna hins vegar hefur meirihlutinn samþykkt að nýr unglingaskóli muni rísa á þríhyrningnum, en sú lóð er og verður á íþróttasvæði Þróttar samkvæmt samkomulagi félagsins við borgina frá 1996. Samhliða þessu öllu þarf að reisa svokallað skólaþorp, sem samanstanda mun af færanlegum kennslustofum á bílastæði við Laugardalsvöll. Það er því ljóst að meirihlutinn hefur ákveðið að hefja þessa vegferð í mikilli andstöðu við bæði skólasamfélagið og íþróttahreyfinguna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða því atkvæði gegn tillögunni.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistar kjósa gegn framkvæmd eftir sviðsmynd meirihlutans vegna þess hvernig staðið var að lokavinnslu málsins. Þegar kjörnir fulltrúar velja að notast við íbúasamráð í mikilvægum ákvörðunum eins og framtíðarskipulagi skólastarfs hverfis, þarf að umgangast slíkt af mikilli virðingu. Það voru gerð stórfenglega alvarleg mistök við íbúasamráðið í þessu máli þegar skyndilega var breytt um stefnu frá því sem íbúar héldu að yrði lokaniðurstaða, án þess að opna samráð aftur við íbúa hverfisins. Það er best til þess fallið að bæta traust og efla samstarf stjórnvalda og borgaranna að allir aðilar samráðs séu upplýstir og með í ráðum þegar forsendur breytast. Í þessu tilfelli var, eins og svo oft áður þegar notast hefur verið við samráð, tekin einhliða lokaákvörðun sem gengur í berhögg við vilja annarra aðila samráðsins og skilning þeirra á niðurstöðu þess. Ef unnið hefði verið áfram á forsendum samráðs og samvinnu hefði verið auðvelt að komast að sameiginlegri niðurstöðu um góða framtíðarlausn, enda fékk nýr unglingaskóli ágætis undirtektir meðal ungmenna og starfsfólks félagsmiðstöðva. Við lítum svo á að ákvörðunin eigi að vera íbúanna, í samstarfi við borgina, og styðjum tillögu Vinstri grænna um að fela Félagsvísindastofnun að taka málið aftur upp við íbúa Laugardals, starfsfólk skólanna og nemendur.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúar í Laugardal hafa verið dregnir á asnaeyrunum í þessu máli um langt skeið. Um sviðsmynd 1 var sátt, að byggt yrði við eldri skólana. Tveimur árum síðar var því slengt framan í íbúa að fallið hafi verið frá sviðsmynd 1 og afbrigði af sviðsmynd 4 valin, sem kallar á byggingu nýs safnskóla. Flokkur fólksins lagði þá fram tillögu um að sviðsmynd 1 yrði fylgt eins og sátt var um en hún var felld. Af þessu hlýst að breyta á skólagerð Laugarnesskóla, henda Laugalækjarskóla út og byggja risavaxinn safnskóla fyrir unglingastigið. Hér er engin smá uppstokkun framundan, kippa á heilu stigi út úr skólum og stofna til annars skólastigs í öðrum skóla. Fullyrt er að hinn svokallaði þríhyrningur á lóð Þróttar verði fyrir valinu en Þróttur hefur skýran afnotarétt af þeim reit. Samkvæmt viljayfirlýsingu Þróttar á ekki að gefa þann reit eftir. Framundan er óhemju rask. Gert er ráð fyrir að það taki næstu þrjú skólaár að laga Laugarnesskóla og að stór hluti skólans fari fram í gámahúsnæði á bílastæði KSÍ. Eftir það fara annað hvort nemendur Laugarlækjar- eða Langholtsskóla í þá gáma, meðan húsnæði skólanna er lagað. Áætlað er að byrjað verði að kenna í þessum nýja unglingaskóla veturinn 2031.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem heimili rekstur matvöruverslunar á reit M9c (Bauhaus-reit), sem er á skilgreindu miðsvæði við Lambhagaveg/Vesturlandsveg. Nú er óheimilt að vera með matvöruverslun á umræddum reit samkvæmt aðalskipulagi.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. MSS24110023

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsyn er á því að dagvöruverslun sé nálægt fólki úti í hverfum borgarinnar, t.d. er hægt að fara að fyrirmynd vel heppnaðra hverfiskjarna fyrir verslun og þjónustu sem voru byggðir upp hér í eldri hluta borgarinnar og hafa staðist tímans tönn. Bauhaus-reitur er algjörlega óaðgengilegur fyrir fólk sem er ekki á eigin bíl eða myndi kjósa að geta rölt í verslun þegar því hentar, t.d. í daglegri gönguferð með sofandi barn í vagni. Óravegur er á Bauhaus-reit gangandi frá næstu íbúðarhúsum, um kílómetri að lengd, og engin strætóleið. Fyrir löngu hefði átt að fara í aðgerðir til þess að tryggja að verslanir með matvöru rísi á þeim grundvelli sem hugsaður er fyrir hverfið, sem sagt miðlungsstórar eða minni dagvöruverslanir sem þjónusti sitt nærsamfélag. Tæplega 800 fm verslunarhúsnæði stendur nú autt inni í hverfinu, við Skyggnisbraut, sem fyrirtæki í matvöruverslun hafa ekki nýtt sér til að opna verslun í. Borgin þarf að hafa frumkvæði að því að tryggja þessa nauðsynlegu þjónustu við borgarbúa í hverfum borgarinnar ef einkaaðilar taka ekki við sér.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er lagt til að ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem heimili rekstur matvöruverslunar á reit M9c (Bauhaus-reit), sem er á skilgreindu miðsvæði við Lambhagaveg-Vesturlandsveg. Nú er óheimilt að vera með matvöruverslun á umræddum reit samkvæmt aðalskipulagi. Tillagan hefur áður verið lögð fram en felld af meirihlutanum. Grafarholt og Úlfarsárdalur eru ört vaxandi hverfishlutar og þar búa nú um níu þúsund manns. Íbúar hverfisins hafa lengi óskað eftir því að sköpuð verði skilyrði fyrir rekstri stórverslunar með lágu vöruverði og miklu vöruúrvali í hverfishlutanum. Eigendur Bauhaus vilja nýta viðkomandi lóð undir matvöruverslun sem yrði mikil þjónustubót. Umræða um stöðu verslunar í Úlfarsárdal hefur ítrekað komið upp í borgarstjórn. Næstum 20 ára hverfi sem átti að vera sjálfbært hefur enn enga matvöruverslun. Sennilega er þetta hverfi eitt minnst sjálfbæra hverfi í borginni fyrir utan e.t.v. Gufunes. Að ekki skuli vera hægt að kaupa mjólkurpott nema að fara inn í næsta hverfi er með ólíkindum. Íbúar eru margir búnir að missa alla von um að matvöruverslun eigi nokkurn tíma eftir að koma í Úlfarsárdal. Þegar þetta mál er skoðað hafa skipulagsyfirvöld sýnt ótrúlegan ósveigjanleika í ákvörðunum sínum.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúar í Úlfarsárdal hafa lengi kallað eftir matvöruverslun í hverfi sínu, en erfitt hefur reynst að fá aðila til að taka að sér slíkan rekstur í hjarta hverfisins. Ljóst er að þrátt fyrir góð og göfug markmið aðalskipulagsins er ekki hægt að bíða endalaust eftir því að málin leysist af sjálfu sér. Tillaga Sjálfstæðismanna um matvöruverslun á Bauhaus-reit er órýnd og óútfærð, en gefur tilefni til þess að ráðast í alvöru athugun á því hvernig unnt sé að finna skjóta lausn á vandræðum hverfisins sem haldist í hendur við framtíðaruppbyggingu þess. Borgarfulltrúi Vinstri grænna samþykkir að vísa tillögunni til frekari rýni og umræðu í umhverfis- og skipulagsráði en vill þó halda því til haga að æskilegt væri að taka reit M22 með í þeirri rýni og að staðinn verði vörður um kaupmanninn á horninu sem lýst er í aðalskipulagi Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  4. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarstjórn samþykkir að koma á samtali við löggjafann um breytingar á fasteignagjöldum einstaklinga. Markmiðið verði að finna leiðir til að íbúðarhúsnæði sé skattlagt með tilliti til eignastöðu eiganda. Fasteignagjöld eru 0,18% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Gjöldin leggjast á verðmæti eigna án tillits til skuldastöðu, svo fólk sem á 10% í íbúðinni sinni greiðir það sama og þau sem eiga sína íbúð skuldlaust. Fasteignagjöld eru þannig skattur á skuldir hinna skuldugu. Lagt er til að unnið verði að því að koma á endurskoðun þannig að skattprósentan verði hækkuð, þannig að sveitarfélögin verði ekki af tekjum en að ákveðin skattleysismörk verði sett inn, t.d. á bilinu 10-12 m.kr., eða því sem nemur u.þ.b. 20% markaðsvirðis tveggja herbergja íbúðar. Unnið verði að mismunandi útfærslum sem sýni fram á hver fasteignagjöld þurfi að verða til að tryggja ákveðin skattleysismörk. Hér þarf sérstaklega að gæta þó að hópum sem eiga mögulega skuldlausa eign en ekkert mikið meira en það, t.a.m. eldri borgara sem og tekjulægri hópa sem hafa náð að eignast eigið húsnæði. Gildi þessi lækkun aðeins um húseignir einstaklinga en ekki lögaðila. Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að leitast eftir þessu samtali og leggja fram mögulegar sviðsmyndir um útfærslu í borgarráði til nánari umræðu.

    Vísað til meðferðar borgarstjóra.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24120081

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands telja það góða málsmeðferð að borgarstjóri taki tillöguna til umfjöllunar á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þótt markmið tillögu Sósíalistaflokksins um að bæta stöðu efnalítilla fasteignaeigenda sé ágætt, er borgarfulltrúi Vinstri grænna ósammála útfærslunni. Mun betra og sanngjarnara væri að beita fyrirliggjandi vaxtabótakerfum til að ná fram slíkum markmiðum en að gera það í gegnum fasteignaskattakerfið. Borgarfulltrúi Vinstri grænna efast hins vegar um að afdrif tillögunnar, sem vísað er til borgarstjóra, verði rismikil eða henni verði komið í framkvæmd með einhverjum hætti í hans meðförum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að í skóla- og frístundastarfi sé lögð meiri áhersla á umhverfismál, bæði með símenntun og starfsþróun starfsfólks og svo þátttöku allra stofnana í formlegum umhverfisverkefnum eins og grænum skrefum og grænfánaverkefni Landverndar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með 22 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Samfylkinginarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands,  Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24120082

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Gildi umhverfisverndar og þekkingar á umhverfismálum er óumdeilanlegt. Í aðalnámskrá er kveðið á um að gera megi ráð fyrir að athygli nemenda beinist í vaxandi mæli að málefnum er varða nýtingu auðlinda og náttúruvernd. Það er mikilvægt að ungt fólk geti fjallað um og tekið gagnrýna afstöðu til siðferðislegra þátta sem tengjast umhverfisvernd og skilja hvað felst í hugtakinu sjálfbærni. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á að börn og ungt fólk fái aukinn áhuga á sínu nánasta umhverfi og finni löngun og þörf til að taka ábyrgð ekki aðeins á umhverfinu heldur einnig velferð lífvera. Hluti af þessu er að vilja og kunna að flokka úrgang sem fellur til á heimilum og skilja tilganginn með flokkuninni. Fjölmargir skólar og leikskólar eru grænfánaskólar og einnig fjöldi grunnskóla, leikskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar taka þátt í grænum skrefum sem fela í sér fjögur skref. Börn eru almennt áhugasöm og því mikilvægt að þau fái góðan grunn og tækifæri til að vera sjálf frumkvöðlar á þessu sviði.
     

    Fylgigögn

  6. Umræðu um bílastæðamál í Reykjavík er frestað. MSS24120083

  7. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og 12. desember.
    10. liður fundargerðarinnar frá 5. desember, fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu 2025-2029, er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    11. liður fundargerðarinnar frá 5. desember, endurgreiðsluhlutfall vegna réttindasafns Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    2. liður fundargerðarinnar frá 12. desember, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er tekinn til afgreiðslu í fernu lagi.
    6. liður viðaukans, breytingar á nefndarlaunum, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    7. liður viðaukans, breytingar vegna kjaranefndarraðaðra stjórnenda er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    10. liður viðaukans, breytingar vegna innri leigu fasteigna, er samþykktur með 15 atkvæðum Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands.
    Viðaukinn er að öðru leyti samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    3. liður fundargerðarinnar frá 12. desember, bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga vegna ársreiknings Reykjavíkurborgar 2023 ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, er lagður fram.
    4. liður fundargerðarinnar frá 12. desember, framlenging og viðauki við samning um milli- og löginnheimtu, er samþykktur með  20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
    5. liður fundargerðarinnar frá 12. desember, gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    6. liður fundargerðarinnar frá 12. desember, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024 vegna fjárfestingaáætlunar, er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24010001

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 12. desember:

    Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur yfirfarið ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 ásamt skýrslu endurskoðanda. Samkvæmt ársreikningnum hefði sveitarfélagið ekki uppfyllt þau lágmarksviðmið sem kveðið er á um í lögum né heldur lágmarksviðmið eftirlitsnefndarinnar. Lögin eru ekki orðin virk en lögin verða virk fyrir árið 2026. Bréf eftirlitsnefndarinnar er áminning til borgarinnar um að huga að því að uppfylla lágmarksviðmiðin því það styttist í að þau taki gildi. Fjárhagsstaðan er ekki góð í Reykjavík eins og fjárhagsáætlun 2025 ber vott um. Sé horft til annarra viðmiða eftirlitsnefndar, þ.e. vegna A-hluta, eru þrjár af fjórum kennitölum Reykjavíkurborgar undir lágmarksviðmiðum nefndarinnar. Ein af forsendum niðurstöðu á rekstrarreikningi borgarsjóðs fyrir árið 2024 er að söluferli fasteignarinnar Perlunnar verði lokið fyrir áramót. Enn bólar ekkert á söluferlinu. Fulltrúi Flokks fólksins sendi fyrirspurn til reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga um hvort það samræmdist ákvæðum auglýsingar nr. 414/2001 að færa svo háa fjárhæð, sem fellur til vegna eignasölu, sem „aðrar tekjur“ á rekstrarreikningi. Í svari segir: „Söluverð eigna er sem slíkt aldrei fært í rekstrarreikning við reikningsskil en söluhagnaður eða sölutap eigna, eftir atvikum, er fært þar og er þá gert ráð fyrir að söluhagnaður eða sölutap eigna sé aðgreint í reikningsskilum þeirra og sýnt sérstaklega“.
     

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. desember, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 28. nóvember og 10. desember, skóla- og frístundaráðs frá 9. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember og velferðarráðs frá 6. desember.
    2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember, samþykkt fyrir menningar- og íþróttaráð, er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    4. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember, tímabundin lausnarbeiðni Geirs Finnssonar varaborgarfulltrúa, er samþykktur. MSS24010034

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 18. lið fundargerðar velferðarráðs:

    11. liður fundargerðar skóla- og frístundaráðs: Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um hvernig á að bregðast við ástandinu í Laugarnesskóla þar sem fjöldi starfsmanna hefur farið í veikindaleyfi eða látið af störfum vegna veikinda sem tengja má við mygluvandamál í skólanum. Rýr umsögn liggur fyrir. Í henni er ekkert sem ekki var áður vitað, þ.e. að fara eigi í umfangsmikið viðhald og endurnýjun í Laugarnesskóla á næstu árum og er vísað á framkvæmdasíðu Reykjavíkurborgar. Fyrirspurnin laut að því hvernig bregðast eigi við ástandinu vegna fjölda starfsmanna sem farið hafa í veikindaleyfi vegna myglu og raka í skólabyggingunni. Hvernig ganga muni að manna störfin og þess háttar. Áhyggjur eru einnig af heilsufari barnanna. Skemmst er að minnast fyrrverandi skólastjóra sem sá sig knúna til að hætta störfum vegna veikinda sem rekja mátti beint til myglu. 18. liður fundargerðar velferðarráðs: Það er gott að endurskoða á stefnu Reykjavíkurborgar um túlka- og þýðingamál. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið nokkrar kvartanir frá notendum túlkaþjónustunnar um galla á þjónustunni. Þær eru m.a. að sumir túlkar eru slakir í því máli sem þeir eru að túlka og þannig komist upplýsingar ekki til skila og einnig eru kvartanir um að túlkar tali ekki íslensku. Leiðbeiningar fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar byggja á úreltri stefnu frá 2017.

    Fylgigögn

  9. Lagt er til að borgarstjórn samþykki afbrigði til að taka á dagskrá tillögu um stjórnsýsluúttekt á Álfabakkamálinu að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.
    Tillaga um afbrigði er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. MSS24120099

Fundi slitið kl. 18:15

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 17.12.2024 - prentvæn útgáfa