Borgarstjórn - Borgarstjórn 17.10.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 17. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson, Trausti Breiðfjörð Magnússon og Þorkell Sigurlaugsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer umræða um skýrslu nefndar um heildstæða athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. október.

  -    Kl. 13:04 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Stefán Pálsson víkur. MSS23090194

  Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:

  Yfirlýsing borgarstjórnar í kjölfar skýrslu vöggustofunefndar. Borgarstjórn biður börn sem vistuð voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins og fjölskyldur þeirra afsökunar á illri meðferð sem lýst var í skýrslu vöggustofunefndar. Ljóst er að vistun á vöggustofum hefur í mörgum tilvikum haft afdrifarík áhrif á líf þeirra barna sem þar voru. Þetta er svartur blettur í sögu Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn vill þakka vöggustofunefndinni fyrir sérlega umfangsmikla, vel rannsakaða og rökstudda skýrslu. Borgarstjórn er einnig þakklát hvatamönnunum að því að rannsóknin var unnin, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni. Borgarstjórn tekur heilshugar undir tillögur vöggustofunefndar sem fram koma í skýrslunni. Fyrsta tillagan lýtur að hugsanlegum skaðabótagreiðslum til þeirra sem vistaðir voru á vöggustofunum sem börn. Þau mál eru til meðferðar Alþingis. Önnur tillagan fjallar um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu til sömu einstaklinga og er til meðferðar hjá Reykjavíkurborg. Sú þriðja beinist að gildandi framkvæmd og eftirliti á sviði barnaverndarmála og er til umfjöllunar í velferðarráði og umdæmisráði barnaverndar. Fjórða og síðasta tillagan lýtur að því að borgarráð taki afstöðu til þess hvort rétt sé að framhald verði á athugun á vöggustofum í Reykjavík.  Eftirfylgni með tillögunum er þegar hafin. 

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að frekari athuganir verði gerðar þannig að rannsóknin nái til ársins 1979. Líkt og kemur fram í athugasemdum Réttlætis þá var Vöggustofa Thorvaldsenfélagsins starfrækt til ársins 1973 en var þá breytt í upptökuheimili fyrir 23 börn, frá þriggja mánaða til 12 ára aldurs. Fyrir liggur að á upptökuheimilinu var vöggustofa sem rekin var til ársins 1979. Hún var rekin af og á ábyrgð Reykjavíkurborgar rétt eins og Vöggustofan að Hlíðarenda og Vöggustofa Thorvaldsenfélagsins. Um þetta er fjallað í opnu bréfi til borgaryfirvalda frá hópnum Réttlæti, dagsett 15. mars 2022.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að borgarstjórn hafi sameinast um að ráðast í athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík. Nú þarf að vanda vel til framhaldsins og vinna það sem mest í samráði við þá sem málinu tengjast. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að frekari athuganir verði gerðar þannig að rannsóknin nái til ársins 1979. Hugur Flokks fólksins er hjá þeim sem þarna voru vistuð sem börn og öðrum þeim sem hafa liðið vegna starfseminnar. Flokkur fólksins þakkar hópnum sem óskaði eftir rannsókninni, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni.

 2. Fram fer umræða um Sundabraut.

  -    Kl. 14:00 víkur borgarstjóri af fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir tekur sæti.
  -    Kl. 15:10 tekur Sandra Hlíf Ocares sæti á fundinum og Þorkell Sigurlaugsson víkur.
  MSS23100125

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihluti Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar fagnar góðum framgangi í undirbúningi Sundabrautar enda afar mikilvæg samgönguframkvæmd fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Stigin hafa verið markviss skref við undirbúning Sundabrautar í samvinnu við Vegagerðina og stendur nú yfir kynningarferli umhverfismatsáætlunar og verklýsingar aðalskipulags. Lagt er upp með bratta tímalínu við aðalskipulagsvinnuna samhliða umhverfismati þar sem ábendingar úr núverandi kynningarferli verða nýttar til að undirbúa tillögu sem svo verður auglýst í kjölfarið og að endingu verður unnið úr ábendingum fyrir staðfestingu aðalskipulagsbreytingar, sem taka mun mið af niðurstöðu umhverfismats framkvæmdarinnar og aðalskipulagsbreytingarinnar.

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Nú er liðin nærri hálf öld frá því að fyrstu hugmyndir um Sundabraut litu dagsins ljós. Það vekur sérstaka eftirtekt þegar saga málsins er skoðuð, að öll þau skref sem stigin hafa verið vegna Sundabrautar – og einhverja þýðingu hafa haft fyrir framganginn – hafa verið stigin af ríkinu. Innlegg borgarinnar hefur almennt verið þróttlítið og fyrst og fremst til þess fallið að fækka valkostum og tefja. Það er merkilegt ekki síst fyrir þær sakir að lýðræðislegur vilji fyrir framkvæmdinni hefur ítrekað mælst yfirgnæfandi, hjá kjósendum allra flokka. Félagshagfræðilegur ábati af framkvæmdinni hefur jafnframt verið mældur, en hann er talinn geta numið 216 til 293 milljörðum króna, allt eftir þeirri útfærslu sem valin yrði, brú eða göng. Mesti ábatinn væri vegna styttri ferðatíma, en einnig vegna styttri vegalengda. Jafnframt má ljóst vera að framkvæmdin mun ávallt teljast hagkvæm og fela í sér gríðarlegan samfélagslegan ávinning, hvort heldur sem brúar- eða gangnalausn yrði fyrir valinu. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar þeirri vinnu sem er loks hafin við breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna Sundabrautar. Við teljum mikilvægt að ganga inn í þá vinnu með opinn huga hvað varðar einstakar útfærslur. Það sem mestu skiptir þó, og við sjálfstæðismenn leggjum megin áherslu á, er að Sundabraut komist til framkvæmda án tafar.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúar sósíalista styðja að unnið verði áfram að útfærslu þessa samgöngumannvirkis en þar þarf að taka tillit til mismunandi þátta, t.a.m. áhrifa á náttúru og íbúabyggð. Einnig þarf að leita álits hjá íbúum og samtökum almennings. Hvað varðar fjármögnun Sundabrautar þá geta fulltrúar sósíalista ekki tekið undir þá sýn að Sundabraut verði fjármögnuð með veggjöldum líkt og fjallað er um í yfirlýsingu innviðaráðherra og borgarstjóra sem er dagsett 6. júlí 2021. Sameiginlegir sjóðir eiga að standa undir uppbyggingu samgöngumannvirkja en með veggjöldum er verið að leggja auka gjöld á almenning.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Tafir Sundabrautar hafa verið miklar. Sundabraut hefur verið með hléum í umræðunni í um 50 ár. Dráttur á að ákvarða legu Sundabrautarinnar tefur aðra uppbyggingu. Engum blöðum er um það að fletta að gera skal brú frekar en göng til að bæði gangandi og hjólandi geti nýtt brúna. Þannig verður Sundabraut hluti af borgarsamgöngukerfinu. Brú, fallega hönnuð, á þessum stað getur verið glæsileg og gert aðkomu að Reykjavík virðulega. Tenging við Geldinganesið er mikilvæg enda klárlega framtíðarbyggingarsvæði. Svo þarf að árétta að ekki má skerða gæði strandarinnar og grunnsævis. Þess vegna þarf að byggja brýr en alls ekki landfyllingar. Mestu hagsmunir borgarinnar með tilkomu Sundabrautar eru góð tenging milli Vogahverfis og Grafarvogs. Fyrir liggur tillaga frá borgarstjóra um að stofna samráðshóp fjölda sérfræðinga um útfærslu og lagningu Sundabrautar. Skipa á fimm fulltrúa í borgarráði og af þeim er aðeins einn frá minnihluta. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í þessum hópi ættu að eiga sæti allir oddvitar, til að samfella verði þótt meirihluti falli í kosningum.

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Eitt stærsta verkefni Reykjavíkurborgar er að ná niður kolefnissporinu sem stafar af samgöngum m.a. með því að innleiða breyttar ferðavenjur. Í raun ætti ekki að ráðast í milljarða vegaframkvæmd sem hefur umferðaraukandi áhrif á borgarumhverfið fyrr en borgin og ríkið hafa náð markmiðum sínum um kolefnishlutleysi og breyttar ferðavenjur. Það er löngu orðið brýnt að endurskoða umfang núverandi vega til að draga úr heildarumfangi vegakerfisins frekar en að auka við það. Að mörgu er að hyggja þegar það kemur að Sundabraut/göngum. Verði hún að veruleika er mikilvægt að tryggja að hún valdi ekki mengun og umferðarhávaða, sé ekki lýti í borgarlandslaginu og skeri ekki í sundur Grafarvog og höfnina og sé beint frá íbúabyggð. Eins ætti framkvæmdin að vera hugsuð þannig að Sundabraut/göng tengi landsbyggð og flugvöll og hafi þann tilgang að vera meginstofnvegur gegnum höfuðborgarsvæðið fyrir vöruflutninga en ekki umferðaræð inn í hjarta Reykjavíkur. Þá eru mörg dýrmæt náttúrusvæði undir í verklýsingu Sundabrautar/ganga og væri það dapurlegt ef þau færu undir í framkvæmdum fyrir grátt mengandi ferlíki.

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að skoða fýsileika þess að styðja við uppsetningu sólarsella á heimilum í Reykjavík.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23090100

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Baráttan við loftslagsvandann er eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálamanna um heim allan. Mikilvægt er að rannsaka fleiri græna orkukosti sem gera kleift að skipta út mengandi orkugjöfum. Tillagan felur í sér ábendingu til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að kanna fýsileika þess að nýta sólarsellur á reykvískum heimilum og telur meirihlutinn sjálfsagt að ráðast í slíka athugun.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Flokki fólksins líst vel á að Orkuveita Reykjavíkur skoði fýsileika þess að styðja við uppsetningu sólarsella á heimilum í Reykjavík. Til að mæta  yfirlýstum loftslagsmarkmiðum yfirvalda og standa undir orkuskiptunum er ljóst að frekari orkuöflunar er þörf. Undanfarin ár hafa stjórnvöld á Norðurlöndunum unnið markvisst að því að hvetja íbúa til að setja upp sólarsellur á hús sín með opinberum niðurgreiðslum. Tækniframfarir í gerð sólarsella hafa gert þær mun kröftugri, harðgerðari og hagkvæmari en áður. Með aukinni rafbílavæðingu og fjölgun íbúa er meiri þörf fyrir rafmagn og finnst fulltrúa Flokks fólksins sjálfsagt að skoða stuðning við notkun sólarsella í Reykjavík líkt og ríkisstjórnin hefur stutt við kaup á varmadælum til að minnka rafmagnsnotkun á köldum svæðum á Íslandi.

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Vinstri græn eru sammála því sjónarmiði sem fram kemur í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að sólarsellur geti verið góð viðbót við orkubúskap landsmanna sem vistvænn kostur. Engu að síður samþykkir fulltrúi Vinstri grænna ekki þann rökstuðning sem fram kemur í greinargerð að baráttan gegn loftslagsbreytingum vinnist með hömlulausri aukningu orkuframleiðslu. Þá hafa Vinstri græn efasemdir um að Orkuveita Reykjavíkur sé sá aðili sem best sé til þess fallin að leiða sólarselluverkefni sem þetta í beinni samkeppni við eigin rekstur. Vel kæmi hins vegar til álita að borgin sjálf gengi á undan með góðu fordæmi og gerði tilraunir með nýtingu sólarorku í tengslum við eigin byggingar og nýframkvæmdir.

  Fylgigögn

 4. Fram fer umræða um frístundastyrk og hvernig vikið hefur verið frá upphaflegu markmiði hans. MSS23100126

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Frístundastyrknum var upphaflega ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu með því að gefa börnum í Reykjavík tækifæri til að stunda íþróttir og tómstundir. Í áranna rás hefur reglunum verið breytt og er nú styrkurinn einnig einskonar gjaldmiðill, t.d. til að greiða gjald fyrir dvöl barna á frístundaheimili eða íslenskunám. Það er 1.021 barn sem getur ekki notað frístundastyrk sinn til að velja sér íþrótt eða tómstund því styrkurinn er nýttur til að greiða gjald frístundaheimilis. Frístundastyrkur 150 barna er þess utan nýttur í íslenskukennslu. Þetta er með eindæmum ósanngjarnt gagnvart þessum börnum og er allt í boði Samfylkingarinnar sem gefur sig út fyrir að vera jafnaðarflokkur og hinna meirihlutaflokkanna. Flokkur fólksins hefur barist í fimm ár fyrir því að fá þessu breytt en ekkert haggast. Breyta þarf reglum styrksins aftur til upprunans til að hann megi þjóna sínu hlutverki fyrir öll börn óháð efnahag foreldra. Til að hjálpa efnaminni foreldrum með að greiða nauðsynleg gjöld vegna barna sinna eiga að vera í boði annars konar styrkir. Öll börn ættu að geta verið bæði í frístund, sótt íslenskunám og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir, listnám eða tómstundir að eigin vali.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Frístundastyrkurinn hefur sannað gildi sitt sem mikilvægt jöfnunar- og forvarnartæki. Síðan styrkurinn var innleiddur árið 2007 hefur þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu frístundastarfi aukist til muna og stefnir nýtingarhlutfall styrksins yfir 75% í ár. Yfir 90% foreldra nýta styrkinn til að fjármagna þátttöku barna sinna í íþróttastarfi, listnámi eða öðru fjölbreyttu frístundastarfi. Í einungis 4% tilvika er fjármagnið nýtt til að greiða fyrir þjónustu frístundaheimila. Forgangsverkefni er að rýna betur hvernig megi auka enn frekar nýtingu frístundastyrksins og sérstaklega hvernig megi auka þátttöku í þeim hverfum þar sem nýtingin er undir meðaltali, einkum í Breiðholti og á Kjalarnesi.

  Fylgigögn

 5. Fram fer umræða um NPA-samninga og fjölda sem er á bið. MSS23100127

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  42 manneskjur í Reykjavík eiga samþykkta umsókn um NPA (notendastýrða persónulega aðstoð) og bíða eftir því að þjónusta geti hafist. Samningum um NPA hefur ekki verið fjölgað í Reykjavík frá árinu 2021. Fjöldi fólks bíður eftir lögbundinni þjónustu og enginn á að þurfa að bíða til lengdar. Hér er um lögbundinn rétt fatlaðs fólks að ræða og óásættanlegt er að fólk sé látið bíða til lengdar.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Meirihluti borgarstjórnar leggur ríka áherslu á að niðurstaða náist í samræðum ríkis og sveitarfélaga um fulla fjármögnun þjónustu við fatlað fólk, með þeim hætti að tryggt sé að sú þjónusta sem sveitarfélögum er falið að veita í lögum sé fullfjármögnuð, þ.m.t. NPA. Enda er óheimilt að fela sveitarfélögum verkefni án þess að fjármögnun þeirra liggi fyrir. Reykjavíkurborg mun halda áfram innleiðingu á NPA í trausti þess að ríkið fari að lögum.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þegar lögin um NPA voru sett grunaði engan að NPA yrði ekki fjármagnað eins og þurfti. Þess má minnast að allir fögnuðu og glöddust að nú skyldi eiga taka utan um fatlað fólk og setja það loks í forgang. Notendastýrð persónuleg aðstoð byggir á hugmyndafræði um sjálfstætt líf og hafa val um hvernig aðstoðinni við það er háttað. En Adam var ekki lengi í Paradís. Fjármagn hefur ekki fylgt svo ekki er hægt að virkja alla samninga. Búið er að leggja til 14 nýja samninga en nú þegar hafa 44 manneskjur fengið samþykkta umsókn um NPA þjónustu. Þannig að 30 einstaklingar þurfa að bíða lengur eftir þjónustu. Verið er að brjóta á þessu fólki á hverjum degi. Réttindi fatlaðs fólks eru ekki virt í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk. Það er siðlaust að samþykkja lög sem síðan verða aðeins orð á blaði. Hér þarf að hugsa fyrst og framkvæma svo. Vandinn er að þarfir öryrkja eru sjaldnast í forgangi hjá löggjafanum. Fólk sem fær þessu þjónustu er virkara í samfélaginu. Samfélagið fær margfalt til baka. Það er biturt að öll umræða um NPA snúist um að fjármagna málaflokkinn.

  Fylgigögn

 6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

  Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að bjóða Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ til viðræðna um kosti þess að sameina sveitarfélögin þrjú í eina, öfluga heild.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar; Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni frá.
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins MSS23100128

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúi Vinstri grænna lýsir vonbrigðum sínum með þá ákvörðun meirihluta borgarstjórnar að láta ekki reyna á áhuga og vilja íbúa Seltjarnarness, Reykjavíkur og Mosfellsbæjar til sameiningar sveitarfélaganna. Það er metnaðarleysi að gefa sér niðurstöðu málsins fyrirfram. Á liðnum dögum hefur talsverð umræða spunnist um sameiningarmálin í framhaldi af framlagningu tillögunnar og æskilegt hefði verið að leyfa henni að þróast áfram. Sagan mun hins vegar reynast málstað sameinaðs og öflugs norðursvæðis á höfuðborgarsvæðinu hliðholl.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Tillögunni er vísað frá enda liggur neikvæð afstaða bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar og Mosfellsbæjar fyrir.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Borgarfulltrúar Sósíalista geta ekki séð að íbúar þessara sveitarfélaga séu að kalla eftir sameiningu og styðja því ekki tillögu um að efna til viðræðna um kosti þess að sameina sveitarfélögin þrjú, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og Reykjavík, í eina heild. Sveitarfélög eiga að tryggja helstu nærþjónustuna og mikilvægt er að íbúar komi að ákvarðanatöku þeirra. Allar ákvarðanir um stærð sveitarfélaga eiga að hafa það markmið að færa ákvörðunartöku nær íbúum.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Hér er tillaga um að bjóða Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ til viðræðna um kosti þess að sameina sveitarfélögin þrjú í eina, öfluga heild. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það sjálfsagt mál og hefði mátt gera fyrir löngu. Að ræða og skoða málin skaðar aldrei. Í raun yrði það mikið framfaraskref ef sveitarfélögin sem nú er rætt um myndu sameinast í eitt. Skipulagsmál, framtíðaráætlanir, samgöngur o.fl. gætu batnað verulega. Og ef slík sameining yrði þyrfti væntanlega að endursemja um byggðasamlagsverkefni og draga úr slíku skipulagskerfi enda er það kerfi afleitt og ólýðræðislegt. Sameining gæti svo leitt til sparnaðar í stjórnsýslunni. Þetta myndi vissulega þýða að einhverjir missi spón úr aski sínum hvað varðar völd en það eru hagsmunir heildarinnar sem skipta máli.

  Fylgigögn

 7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ráðast í aðgerðir í því skyni að bæta almenningssamgöngur í borginni. Sérstök aðgerðaáætlun verði gerð þar sem fram komi hvenær einstakir hlutar hennar komast til framkvæmda ásamt kostnaðarmati, tímasetningum og ábyrgðaraðilum. Miðað skal við að ráðist verði í fyrstu aðgerðir samkvæmt áætluninni á árinu 2024. Aðgerðir í tillögunni merktar 1-6 eru tilgreindar í fylgiskjali.

  Frestað.

  Fylgigögn

 8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

  Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að beina því til nefndar um endurskoðun samgöngusáttmálans að snjallljósastýring umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu verði sett í algeran forgang við endurskoðun sáttmálans. Innleidd verði allra nýjasta tækni sem byggir á miðlægu tölvukerfi sem notar infrarauðar myndavélar, radar og gervigreind til að greina alla umferð gangandi, hjólandi og akandi. Með slíkri tækni lágmarkar kerfið biðtíma allra vegfarenda með áherslu á forgang sjúkrabíla, lögreglubíla, slökkvibíla og almenningssamgangna, eykur þannig umferðarflæði og umferðaröryggi og dregur úr mengun. Sett verði tímamörk og skilyrði um að snjallvæðingu umferðarljósa á öllu höfuðborgarsvæðinu verði lokið innan árs frá endurskoðun samningsins, enda kalla þessar breytingar hvorki á flókna skipulagsvinnu né kostnaðarsama eða tímafreka mannvirkjagerð.

  Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar; Framsóknar, Pírata og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins MSS23100128

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Það breytir svo sem litlu um afdrif málsins þótt meirihlutinn vísi frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að beina þeim tilmælum til þeirra er nú endurskoða sáttmálann að snjallljósastýring umferðarljósa höfuðborgarsvæðisins verði sett í algjöran forgang, sett í tímaramma og gerð að skilyrði sáttmálans. Enda fram komið í fjölmiðlum að umræddri tillögu verði fylgt eftir á Alþingi Íslendinga. Snjallljósastýring umferðarljósa hefur verið í forgangi sáttmálans frá upphafi fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, en borgaryfirvöld hafa svikist við að koma henni í framkvæmd. Þess vegna er rétt að þetta ákvæði hans verði  ítrekað með þessum skilyrðum. Hið sama var upp á teningnum þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu um endurskoðun sáttmálans í borgarstjórn, 21. febrúar á þessu ári, en þá fundu meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn endurskoðuninni allt til foráttu. Nokkru síðar var þess krafist að sáttmálinn yrði endurskoðaður, enda kostnaður kominn langt fram úr áætlunum. Ráðgert er að sú vinna líti dagsins ljós núna í nóvember. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ein sú lausn sem á eftir að breyta miklu til að leysa umferðartafir í borginni er snjallvæðing umferðarljósa. Þetta hefur verið margrætt í borgarstjórn og tillögur komið frá fulltrúum minnihluta. Fleira má skoða auk snjallljósa og stillinga en það er breytilegur vinnutími, t.d. í stofnunum borgarinnar, og mismunandi byrjun á skólatíma hefur einnig komið til tals. Lengja mætti og laga aðreinar á stórum umferðargötum eins og Miklubraut, Sæbraut og nokkrum fleiri stöðum. Skoða mætti að setja göngubrýr í stað gönguljósa á stórar umferðaræðar svo sem Miklubraut við Hlíðarnar, Klambratún og Háskólann, ásamt Kringlumýrarbraut við Suðurver og Sæbraut.

  Fylgigögn

 9. Samþykkt með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar; Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins að fresta umræðu um kostnað Reykjavíkurborgar við ráðgjafarkaup.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðsluna. MSS23100131

 10. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

  Borgarstjórn samþykkir að fela borgarráði að stofna samráðshóp um útfærslu og lagningu Sundabrautar, á brú eða í göngum. Fimm fulltrúar verði skipaðir í borgarráði. Þá skipi borgarráð einnig fulltrúa í hópinn skv. tilnefningu íbúaráðs Grafarvogs, Laugardals og Kjalarness, einn fulltrúa hvert. Með hópnum starfi sérfræðingar Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og Faxaflóahafna eins og þurfa þykir og starfstími hans verði á meðan vinnu að umhverfismati, skipulagi og hönnun verkefnisins stendur, þ.m.t. leiðarval og útfærsla einstakra hluta framkvæmdarinnar. Borgarráði verði jafnframt falið að skilgreina nánar hlutverk og verkefni samráðshópsins.

  Samþykkt. 

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fyrir liggur tillaga frá borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar að stofna samráðshóp fjölda sérfræðinga um útfærslu og lagningu Sundabrautar.  Skipa á fimm fulltrúa í borgarráði og af þeim eru tveir frá minnihluta. Fulltrúi Flokks fólksins telur að í þessum hópi ættu að eiga sæti allir oddvitar, til að samfella verði þótt meirihluti falli í kosningum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lýst yfir áhuga sínum og gefið kost á sér að sitja í ofangreindum samráðshópi.

  Fylgigögn

 11. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi ályktunartillögu borgarfulltrúanna Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, Lífar Magneudóttur, Hildar Björnsdóttur, Mörtu Guðjónsdóttur, Magneu Gná Jóhannsdóttur, Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur, Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttur, Söru Bjargar Sigurðardóttur, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, Guðnýjar Maju Riba, Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, Alexöndru Briem, Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur og Söndru Hlífar Ocares:

  Á kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975 var fyrst boðað til kvennafrís á Íslandi þar sem konur voru hvattar til að leggja niður launuð og ólaunuð störf í heilan dag, þann 24. október. Tilgangurinn var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið og að undirstrika kröfu kvenna um jafna stöðu og kjör á við karla í íslensku samfélagi. Um 90% kvenna á Íslandi tóku þátt í þessum sögulega viðburði sem markaði ákveðin vatnaskil í þróun jafnréttismála á íslandi. Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks hafa nú blásið til heils dags kvennaverkfalls á ný þann 24. október næstkomandi undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“ því þrátt fyrir árangur jafnréttisbaráttu undanfarinna áratuga er jafnrétti kynja ekki náð og það sé ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér. Við eigum kvennahreyfingum á Íslandi mikið að þakka fyrir að hafa rutt brautina og þrýst á breytingar í samfélaginu fyrir okkur öll því jafnrétti er ekki aðeins réttlætismál, heldur einnig efnahagsleg nauðsyn. Stjórnvöld, þar með sveitarfélög, eiga að vera leiðandi í jafnréttismálum og sjá til þess með stefnu sinni og aðgerðum að allir íbúar fái jafna meðferð og hafi jafnan rétt til þátttöku og athafna í samfélaginu.  Við konur í borgarstjórn tökum undir þau meginmarkmið kvennaverkfalls að kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi verði útrýmt og að störf kvenna og kvára verði metin að verðleikum.  Við heitum því að leggja okkur fram í störfum okkar til að félagslegt og launalegt jafnrétti nái fram að ganga. Reykjavíkurborg hefur þegar gefið út að ekki verði dregið af launum kvenna og kvára sem leggja niður störf vegna kvennaverkfalls 24. október. Við munum sjálfar taka þátt í kvennaverkfalli og hvetjum konur og kvár til að gera slíkt hið sama. Við hvetjum stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að  gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera starfsfólki sínu kleift að taka þátt í baráttudeginum 24. október og til að vinna að jafnrétti á öllum sviðum framvegis.

 12. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í skóla- og frístundaráð. 
  Lagt er til að Stefán Pálsson taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Lífar Magneudóttur.
  Samþykkt. 

 13. Samþykkt að taka á dagskrá kosningu í velferðarráð. 
  Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti sem varamaður í velferðarráði í stað Stefáns Pálssonar. 
  Samþykkt.

 14. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 5. og. 12. október 2023.
  1. liður fundargerðar borgarráðs frá 5. október; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
  3. liður fundargerðar borgarráðs frá 5. október; uppgjör lífeyrisskuldbindinga vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, er samþykktur. 
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins 
  8. liður fundargerðar borgarráðs frá 12. október; framtíðarstaðsetning íþróttamiðstöðvar skotíþrótta, er samþykktur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. 
  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010001

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. október: 

  Fulltrúar sósíalista taka undir mikilvægi þess að fundin verði viðeigandi framtíðarstaðsetning fyrir skotsvæðið. Ekki er hægt að samþykkja að slík starfsemi verði í Álfsnesi til ársloka 2028 þar sem slíkt hefur valdið íbúum ónæði og mikilli hávaðamengun.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. október:

  Fyrirhuguð er aðalskipulagsbreyting, sem felur það í sér að núverandi og óbreytt starfsemi verði áfram í Álfsnesi til skemmri tíma. Fulltrúi Flokks fólksins harmar að áfram skuli eiga að leggja þetta á íbúa Kjalarness. Mikil óánægja hefur ríkt með að skotíþrótt skuli vera stunduð svo nærri byggð og viðkvæmu fjörulífríki svo ekki sé minnst á neikvæð umhverfisáhrif s.s. ónæði vegna hávaða og mengun af völdum blýhagla. Skotvellir eru starfsemi sem er mengandi skv. reglugerð 550/2018 um losun frá atvinnustarfsemi og mengunarvarnaeftirlit. Í gögnum kemur fram að enn eru notuð blýhögl og hluti þeirra berst í fjörusvæðið þar sem fuglar éta þau að einhverju marki. Reyna á að draga úr áhrifum með mótvægisaðgerðum en ekki hefur verið skilgreint hver eigi að bera kostnað af þeim. Reykjavík hefur kostað uppbyggingu á skotveiðisvæðinu. Segir í gögnum að finna þurfi efni til að binda mengun. Er verið að ýja að því að borgin greiði fyrir að leysa mengunarvandamál vegna blýhagla? Þetta er mikið áfall fyrir landeigendur sem þurfa að lifa með neikvæðum umhverfisáhrifum vegna skotæfinga næstu 5 ár í það minnsta. Búið er að skoða önnur svæði sem framtíðarstaðsetningu og komu nokkur til greina. Hefði ekki mátt skoða eitthvert þeirra til skammtímanotkunar?

  Fylgigögn

 15. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. október, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. október, skóla- og frístundaráðs frá 9. október, stafræns ráðs frá 11. október, umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. og 11. október og velferðarráðs frá 4. október.
  - 2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 13. október; tillaga að breytingu á viðauka 2.6 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, er vísað til síðari umræðu.
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010061

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 22. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 8. lið fundargerðar stafræns ráðs:

  22. liður fundargerðar skóla- og frístundaráðs: Flokkur fólksins spurði hvernig bregðast ætti við alvarlegri niðurstöðu um vanlíðan barna í nýlegri æskulýðsrannsókn. Það er mat Flokks fólksins að í svari sé gert lítið úr þessari könnun. Hugtakaskilningur og niðurstöður eru dregnar í efa og þær gerðar ótrúverðugar. Það er einnig gert lítið úr upplifun barnanna sjálfra. Í stað þess að auka aðgengi barna að sálfræðingum eins og börn hafa sjálf kallað eftir sem og skólayfirvöld er stefnan að draga frekar úr aðgenginu. Skólasálfræðingar eru allir staðsettir utan skólanna. Áhersla er að mestu á lausnarteymin sem eru starfsfólki til ráðgjafar. Vissulega njóta börnin góðs af því. 8. liður fundargerðar stafræns ráðs: Spurt var um móttöku Þjóðskjalasafns á gögnum Borgarskjalasafns. Gerðar eru athugasemdir við nokkra punkta í svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Fram kemur að samkvæmt lögum skuli Þjóðskjalasafn taka við safnkostum héraðsskjalasafna sem hafa hætt. Nú er það svo að gögn Reykjavíkurborgar munu halda áfram að safnast saman þrátt fyrir að Borgarskjalasafn hafi verið lagt niður. Áfram verður þörf á öflugri gagnaþjónustu varðandi skjöl borgarinnar. Óljóst er hvernig áframhaldandi vinnu Borgarskjalasafns verður háttað innan Þjóðskjalasafns eða hvað borgin þarf að greiða Þjóðskjalasafni fyrir alla þá áframhaldandi vinnu sem nú er unnin í Borgarskjalasafni.

  Fylgigögn

Fundi slitið 20:35

Magnea Gná Jóhannsdóttir Líf Magneudóttir

Alexandra Briem

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 17.10.2023 - Prentvæn útgáfa