Borgarstjórn - Borgarstjórn 16.12.2025
Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 16. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Stefán Pálsson, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 24. nóvember 2025, varðandi skýrslu stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2025, ásamt fylgiskjölum. MSS25020124
Samþykkt.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ofbeldi meðal og gagnvart börnum og ungmennum er ein af alvarlegustu áskorunum samtímans og kallar á skýr, samræmd og markviss viðbrögð. Borgarstjórn fagnar framlagningu skýrslu stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna, sem byggir á ítarlegri greiningu, víðtæku samráði og mati á stöðu mála. Með tillögunum er lögð áhersla á heildstæða nálgun í forvörnum, snemmtæka íhlutun og viðbrögð þegar vandi er kominn upp, ásamt úrræðum fyrir flókin og alvarleg mál. Sérstök áhersla er lögð á börn og ungmenni í áhættuhópum, með barnvænni og áfallamiðaðri nálgun, samþættri þjónustu og auknu samstarfi milli kerfa. Tillögurnar styðja við farsæld barna, Betri borg fyrir börn og verkefnið Saman gegn ofbeldi, og leggja áherslu á gagnadrifna stefnumótun, skýrar boðleiðir og mælanlegan árangur. Jafnframt er lögð áhersla á að efla félags- og tilfinningafærni barna snemma, styrkja kynfræðslu og fræðslu um ofbeldi og verndandi þætti, í nánu samstarfi við foreldra. Borgarstjórn undirstrikar mikilvægi þess að tillögunum verði forgangsraðað, þær fjármagnaðar og þeim fylgt eftir af festu, þannig að þær leiði til raunverulegra og varanlegra umbóta.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Viðreisnar fagnar góðum tillögum stýrihóps um forvarnir og aðgerðir gegn ofbeldi barna og ungmenna. Hér er um að ræða margar góðar og þarfar tillögur sem kosta 187 milljónir kr. sem gera 251 milljón kr. á ársgrundvelli. Þetta eru miklir fjármunir sem þarf að halda vel utan um ef af verður. Borgarfulltrúi Viðreisnar hvetur til þess að dreginn verði fram sameiginlegur vettvangur sem heldur utan um verkefni sem snýr að verkefnum barna og ungmenna. Veruleg áhætta er falin í því að svona margar tillögur þynnist út í daglegum verkefnum út á sviðum og skrifstofum borgarinnar. Mikilvægt er að samræmingarvettvangur fái þá umgjörð og heimild til að samhæfa og stýra verkefninu. Einnig leggur Viðreisn áherslu á að verkefnið verði unnið í nærumhverfi barna og foreldra þeirra.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að falla frá fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir Suðurlandsbraut, vegna fyrstu lotu Borgarlínu, en tillagan gerir ráð fyrir því að tvær akreinar verði teknar af almennri umferð undir sérakreinar Borgarlínu og að bílastæðum verði fækkað umtalsvert. Deiliskipulagsvinnan verði endurhugsuð frá grunni með það fyrir augum að koma nýjum sérakreinum almenningssamgangna fyrir norðanmegin Suðurlandsbrautar án þess að bílastæðum og akbrautum fyrir almenna umferð verði fækkað. Tryggt verði gott aðgengi allra fararmáta að fyrirtækjum, verslun og þjónustu við Suðurlandsbraut. Áhersla verði jafnframt lögð á góðar og öruggar göngu- og hjólatengingar á svæðinu. MSS25120070
- Kl. 14:30 tekur Árelía Eydís Guðmundsdóttir sæti á fundinum og Ásta Björg Björgvinsdóttir víkur af fundi.
- Kl. 14:43 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Stefán Pálsson víkur af fundi.Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Borgarstjórn samþykkir að falla frá fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir Suðurlandsbraut vegna fyrstu lotu Borgarlínu en tillagan gerir ráð fyrir því að tvær akreinar verði teknar af almennri umferð undir sérakreinar Borgarlínu og að bílastæðum verði fækkað umtalsvert. Deiliskipulagsvinnan verði endurhugsuð frá grunni með það fyrir augum að koma nýjum sérakreinum almenningssamgangna fyrir án þess að þrengt verði að umferð. Tryggt verði gott aðgengi allra fararmáta að fyrirtækjum, verslun og þjónustu við Suðurlandsbraut. Áhersla verði jafnframt lögð á góðar og öruggar göngu- og hjólatengingar á svæðinu.
Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir vonbrigðum með að meirihlutinn hafi fellt tillögu þeirra um að falla frá fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu fyrir Suðurlandsbraut í fyrstu lotu Borgarlínu. Fyrirliggjandi deiliskipulagstillaga felur í sér að akreinar eru teknar af almennri umferð, vinstri beygjur eru felldar niður, afreinar aflagðar og bílastæðum verður fækkað umtalsvert. Með þessu er dregið úr aðgengi að fyrirtækjum, verslun, heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu á svæðinu. Allt að 25.000 bílar fara um Suðurlandsbraut daglega, þær bifreiðar gufa ekki upp. Því er hætta á að umferð færist inn í íbúagötur. Vitað er að fólki í borginni, vinnandi fólki og ferðum mun fjölga á næstu árum. Breytingar sem þessar verða því að byggjast á heildstæðri greiningu, umferðargreiningum og raunhæfum mótvægisaðgerðum. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áfram áherslu á að verkefnið verði endurhannað frá grunni þannig að sérakreinar almenningssamgangna komist fyrir án þess að þrengt sé verulega að umferð, tryggt sé gott aðgengi allra fararmáta og öruggar göngu- og hjólaleiðir komist til framkvæmda með raunhæfum hætti.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillaga að deiliskipulagi göturýmis Suðurlandsbrautar er á leið í opið umsagnarferli. Tillagan er hluti af 1. lotu Borgarlínu og er í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Tillagan er einnig í samræmi við þá yfirlýstu stefnu borgarinnar að efla vistvæna og virka samgöngumáta. Við teljum tillöguna framfaraskref borgarbúum til hagsældar. Nú er komið að borgarbúum og hagsmunaaðilum að senda inn spurningar og athugasemdir. Samþykkt á tillögu Sjálfstæðisflokksins hefði komið í veg fyrir það ferli.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn hafnar útfærslu meirihlutans á legu Borgarlínunnar um Suðurlandsbraut enda gegnir gatan lykilhlutverki í samgöngum borgarinnar. Útfærslan felur í sér að fækka mjög bílastæðum og er það alvarleg aðför að þjónustu- og verslunarrekstri á svæðinu. Nú þegar er mikill skortur á bílastæðum á svæðinu og vel hægt að hanna útfærslu Borgarlínu án þess að þrengja að því sem fyrir er. Tillaga meirihlutans horfir fram hjá þeim samfélagslegu og efnahagslegu áhrifum sem tillagan hefur í för með sér og Framsókn greiðir atkvæði gegn henni. Tillaga Sjálfstæðisflokks um að Borgarlínuakreinum verði bætt við utan við núverandi gatnakerfi er ekki góð heldur því þá er öryggi gangandi og hjólandi ekki nægilega í forgrunni. Framsókn vill að unnin sé ný útfærsla að deiliskipulagi borgarlínu við Suðurlandsbraut þar sem tekið er tillit til hagsmuna allra hagaðila. Óskandi væri að umræðan um þessi mikilvægu samgöngumál væri ekki sífellt í skotgröfunum.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Þróun Suðurlandsbrautar er stór þáttur í samgöngumálum í borginni og samgöngusáttmála sem í gildi er um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Með tilkomu Borgarlínu vonumst við eftir að geta þjónað fleiri borgarbúum betur. Við breytingar sem þessar er margt að hafa í huga hvað varðar umferð akandi sem þar er fyrir, að hún gangi áfram án verulegra tafa, sem og umferð gangandi og hjólandi. Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur áherslu á alla fararmáta við Suðurlandsbraut. Auk þess að gætt sé að hvernig tryggja megi aðkomu viðskiptavina að þeim rekstrareiningum sem þegar eru á svæðinu.
Fylgigögn
-
Lögð fram ljósvistarstefna Reykjavíkurborgar ásamt aðgerðaáætlun 2025-2030, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. desember 2025. USK25090023
- Kl. 15:55 víkur Skúli Þór Helgason af fundi og Birkir Ingibjartsson tekur sæti.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að eftirfarandi texta verði bætt við kaflann „Framtíðarsýn“, í fyrirliggjandi drögum að ljósvistarstefnu Reykjavíkurborgar: „Gatnalýsing er mikilvægt öryggismál og hluti af grunnþjónustu Reykjavíkurborgar. Viðhald götulampa er mikilvægt enda vegur lýsing þungt í umferðaröryggi, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Góð gatnalýsing stuðlar einnig að öryggi gangandi vegfarenda sem þurfa að komast leiðar sinnar í myrkri um kvöld og nætur, ekki síst kvenna, gagnvart kynbundnu áreitni og ofbeldi.“ Jafnframt bætist eftirfarandi texti við 4. kafla í fyrirliggjandi drögum að ljósvistarstefnu Reykjavíkurborgar: „Viðhaldi götulampa skal sinna af metnaði og kostgæfni í borginni í því skyni að lýsing gatna og stíga sé ætíð fullnægjandi og í sem bestu horfi.“ Þá er lagt til að eftirfarandi texti bætist við 4. kafla aðgerðaáætlunar ljósvistarstefnunnar: „Sett verði skýr viðmið um hvernig staðið verði að viðhaldi ljósastaura á götum, stígum og öðrum svæðum borgarinnar. Markviss bilanaleit verði hluti af viðhaldinu. Jafnframt skal fylgjast með ábendingakerfi borgarinnar í þessu skyni. Berist ábending um óvirkan götulampa skal brugðist við henni innan þriggja virkra daga með peruskiptum eða viðgerð ef þörf krefur.“
Breytingartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.
Ljósvistarstefna Reykjavíkurborgar er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljósvistarstefna Reykjavíkurborgar, sem lítur nú loksins dagsins ljós, er yfirgripsmikil og mikilvæg stefna sem nær utan um fjölmörg verkefni sem snerta borgarbúa með beinum hætti. Um leið og hún varðar veginn fyrir nútímavædda og fjölbreytta lýsingu í Reykjavík, varðveislu myrkurgæða þar sem þau eiga við og til að sporna við ljósmengun þá tekur stefnan einnig mið af mörgum lykilstefnum borgarinnar sem allar miða að því að auka lífsgæði okkar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Viðhaldi gatnalýsingar í Reykjavík er mjög ábótavant. Brýnasta verkefnið í ljósvistarmálum borgarinnar er því að bæta þar úr með myndarlegum hætti. Í fyrirliggjandi ljósvistarstefnu er lítið sem ekkert fjallað um viðhaldsmál þrátt fyrir að unnið hafi verið að henni árum saman með ærnum tilkostnaði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram breytingartillögu til að bæta úr þessum ágalla. Tillagan fól í sér að skýrt yrði kveðið á um það í stefnunni að viðhald götulampa væri mikilvægt og að því skyldi sinnt af metnaði og kostgæfni í borginni. Í aðgerðaáætlun stefnunnar væri rétt að setja skýr viðmið um hvernig standa skuli að viðhaldi ljósastaura. Einnig ættu að vera ákvæði um hvernig standa skuli að bilanaleit og hvernig bregðast skuli við ábendingum borgarbúa um óvirka götulampa. Góð gatnalýsing er mikilvægt öryggismál fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur en einnig gagnvart vegfarendum, sem geta átt á hættu kynbundna áreitni og ofbeldi. Borgarfulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna hafa nú fellt breytingartillögu Sjálfstæðisflokksins við ljósvistarstefnuna. Með því horfast þessir flokkar ekki í augu við það ástand, sem ríkir í gatnalýsingu í borginni vegna vanrækslu á viðhaldi og vilja ekki bæta úr augljósum galla í ljósvistarstefnunni að þessu leyti. Af þessum sökum er ljósvistarstefnan meingölluð og sitja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins því hjá við afgreiðslu hennar.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Borgarfulltrúar Framsóknar leggja til að borgarstjórn samþykki að breyta Aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að gert verði ráð fyrir rekstri Reykjavíkurflugvallar út gildistíma aðalskipulagsins. Samhliða verði starfsleyfi flugvallarins framlengt til samræmis.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25120073
Samþykkt að borgarfulltrúar Framsóknarflokksins afturkalli tillöguna og leggi fram nýja tillögu svohljóðandi:
Borgarstjórn samþykkir að hefja vinnu við að breyta Aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að gert verði ráð fyrir rekstri Reykjavíkurflugvallar út gildistíma aðalskipulagsins til 2040.
Samþykkt að vísa tillögunni frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.
Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli.Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn gagnrýnir samstarfsflokkana fyrir að vísa frá án skýringa tillögu um að tryggja Reykjavíkurflugvöll í sessi til ársins 2040. Það er deginum ljósara að Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara úr Vatnsmýrinni á skipulagstímabilinu og því óskiljanlegt að samstarfsflokkarnir skuli ekki horfast í augu við raunveruleikann og breyta aðalskipulagi í samræmi við hann. Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til þess að fylgja samkomulagi við ríkið um rekstraröryggi flugvallarins þar til nýr staður á jafn góðum eða betri stað finnst. Það mun því koma til þess að breyta þurfi aðalskipulaginu ef fylgja á því samkomulagi. Stjórnvöld hyggjast reisa flugstöð sem mun líklega verða tilbúin um 2030 og því augljóst að breyta þarf aðalskipulagi borgarinnar samhliða því enda stendur ekki til að byggja heila flugstöð sem aðeins á að starfrækja í örfá ár.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg og íslenska ríkið hafa átt í samstarfi um málefni Reykjavíkurflugvallar. Enn stendur yfir vinna og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvar innanlandsfluginu er best fyrirkomið. Það er ótímabært að breyta aðalskipulagi eða ráðast í stórtækar breytingar á skipulagi og stefnu um flugvöllinn og af þeirri ástæðu ber að vísa frá tillögu Framsóknar.
Fylgigögn
-
Umræðu um deiliskipulag Birkimels 1 er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25060118
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins. -
Umræðu um nýtt deiliskipulag við Holtsgötu 10-12 og Brekkustíg 16 er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25120074
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins. -
Umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25110070
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins. -
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri. MSS25090069
Frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.Fylgigögn
-
Umræðu um öryggismál á skiptistöðinni í Mjódd er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. MSS25120075
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins. -
Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti í borgarráði í stað Hjálmars Sveinssonar og Hjálmar taki sæti varafulltrúa í stað Kristins Jóns Ólafssonar. Jafnframt er lagt til að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti varafulltrúa í ráðinu í stað Alexöndru Briem. Þá er lagt til að Alexandra Briem verði formaður ráðsins.
Samþykkt. -
Lagt til að Sabine Leskopf taki sæti sem varafulltrúi í forsætisnefnd. MSS22020041
Samþykkt. -
Lagt til að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti í mannréttindaráði í stað Oktavíu Hrundar Guðrúnar Jóns. Jafnframt er lagt til að Oktavía Hrund taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Tinnu Helgadóttur. MSS25020083
Samþykkt. -
Lagt til að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti í velferðarráði í stað Oktavíu Hrundar Guðrúnar Jóns. Jafnframt er lagt til að Oktavía Hrund taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu í stað Alexöndru Briem. MSS22060049
Samþykkt. -
Lagt er til að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í stafrænu ráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Dóra Björt Guðjónsdóttir verði formaður ráðsins.
Samþykkt. -
Lagt er til að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir verði kosin skrifari í stað Ragnhildar Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur.
Samþykkt. -
Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti varmanns í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins. MSS22060051
Samþykkt. -
Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti sem varafulltrúi í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Samþykkt. -
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. desember 2025. MSS25010002
11. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. desember, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025 vegna fjárfestingaáætlunar, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010013
12. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. desember, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010024
14. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. desember 2025, endurgreiðsluhlutfall vegna réttindasafns Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010024Fylgigögn
- Fundargerð borgarráðs frá 4. desember 2025
- Fundargerð borgarráðs frá 11. desember 2025
- - 11. liður; viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025, vegna fjárfestingaáætlunar
- - 12. liður; viðauki við fjárhagsáætlun 2025
- - 14. liður; endurgreiðsluhlutfall vegna réttindasafns Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar
- - 14. liður; umsögn fjármála- og áhættu
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. desember, mannréttindaráðs frá 27. nóvember og 4. og 10. desember, menningar- og íþróttaráðs frá 28. nóvember, stafræns ráðs frá 10. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. og 10. desember, velferðarráðs frá 3., 5. og 8. desember og skóla- og frístundaráðs frá 8. desember. MSS25010033
2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 12. desember, stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026-2030, er samþykktur. MSS25110035Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 12. desember 2025
- - 2. liður; stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík 2026-2030
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 27. nóvember 2025
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 4. desember 2025
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 4. desember 2025
- Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 28. nóvember 2025
- Fundargerð stafræns ráðs frá 10. desember 2025
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. desember 2025
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. desember
- Fundargerð velferðarráðs frá 3. desember 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 5. desember 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 8. desember 2025
- Fundargerð stafræns ráðs frá 8. desember 2025
Fundi slitið kl. 21:15
Sanna Magdalena Mörtudottir Andrea Helgadóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 16.12.2025 - Prentvæn útgáfa