Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 16. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Ásta Þ. Skjalddal Guðjónsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Sveinbjörn Guðmundsson, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Lagt er til að stigið verði næsta skref við þróun tilraunaverkefnis um kjarnasamfélög (e. co-housing) eins og kveðið er á um í samstarfssáttmála samstarfsflokkanna og aðgerðaáætlun samstarfsflokkanna sem samþykkt var í borgarstjórn 4. mars sl. með því að fela skrifstofu skipulags- og byggingamála á umhverfis- og skipulagssviði að vinna grunn að hugmyndasamkeppni um kjarnasamfélög. Lagt er upp með að þróa kjarnasamfélög á tveimur lóðum, Laugavegi 159 og Yrsufelli 2a-i. Grunnurinn og umgjörð hugmyndasamkeppninnar verði meðal annars unnin upp úr þeirri greiningu og rannsóknarvinnu á kjarnasamfélögum sem kynnt hefur verið. Byggt verði á gildum og viðmiðum sem einkenna kjarnasamfélög.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25020110
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingatillögu:
Lagt er til að stigið verði næsta skref við þróun tilraunaverkefnis um kjarnasamfélög (e. co-housing) eins og kveðið er á um í samstarfssáttmála samstarfsflokkanna og aðgerðaáætlun samstarfsflokkanna sem samþykkt var í borgarstjórn 4. mars sl. með því að fela skrifstofu skipulags- og byggingamála á umhverfis- og skipulagssviði að vinna grunn að hugmyndasamkeppni um kjarnasamfélög. Grunnurinn og umgjörð hugmyndasamkeppninnar verði meðal annars unnin upp úr þeirri greiningu og rannsóknarvinnu á kjarnasamfélögum sem kynnt hefur verið. Byggt verði á gildum og viðmiðum sem einkenna kjarnasamfélög. Lagt verði upp með að kostnaður vegna hugmyndasamkeppni verði óverulegur.
Breytingatillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Tillaga um þróun tilraunaverkefnis um kjarnasamfélög er samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
- Kl. 13:39 tekur Helga Þórðardóttir sæti á fundinum og Einar S. Guðmundsson víkur.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun.
Í samstarfssáttmála Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna er kveðið á um að huga að fjölbreyttum búsetuformum og kjarnasamfélögum. Ein aðgerða aðgerðaáætlunar samstarfsflokkanna frá 4. mars er tillaga um tilraunaverkefni um kjarnasamfélag þar sem umhverfis- og skipulagsráði var falið að greina mögulega staðsetningu fyrir tilraunaverkefni um kjarnasamfélög (e. co-housing) og móta ramma í kringum tilraunaverkefnið. Hér er verið að stíga næstu skref í þessu efni byggt á rannsóknar- og greiningarvinnu sem unnin var í sumar þar sem lagt er til að vinna áfram með tvær lóðir og vinna úr greiningarvinnunni matsviðmið fyrir hugmyndasamkeppni um lóðirnar. Það er vilji samstarfsflokkanna að stuðla með þessu að fjölbreytileika, nýsköpun, sveigjanleika og umhverfisvænum og félagslegum áherslum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja fjölbreyttar lausnir á húsnæðismarkaði en telja ótímabært að ráðstafa tveimur tilgreindum lóðum til hugmyndasamkeppni um kjarnasamfélög enda enn óljóst hvort áhugi sé á slíkri uppbyggingu. Telja fulltrúarnir áríðandi að tiltækum lóðum innan borgarmarkanna verði ráðstafað í auknum mæli til uppbyggingar húsnæðis á almennum markaði, sem svarað getur raunverulegri þörf. Þá telja fulltrúarnir mikilvægt að kostnaður vegna fyrirhugaðrar hugmyndasamkeppni verði óverulegur.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar styðja fjölbreyttar lausnir í húsnæðismálum og telja í góðu lagi að kanna áhuga íbúa á þessu fyrirkomulagi. Framsókn gerir hinsvegar fyrirvara um afstöðu sína í ljósi þess að endanleg útfærsla liggur ekki fyrir, t.a.m. um hvort lóðirnar verða niðurgreiddar af borginni eða ekki.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn hefur ávallt stutt margþættar og fjölbreyttar leiðir í uppbyggingu húsnæðismálum. Hugmynd um kjarnasamfélög við Yrsufell og Laugaveg er stórfín. Mikilvægt er við val á slíkum verkefnum að áhersla sé lögð á samfélagslega uppbyggingu og þróun samvinnu og samnýtingu. Viðreisn varar við að farið sé af stað í óljóst verkefni, með óljósar forsendur. Hér er lagt upp með að farið sé í hugmyndasamkeppni og Viðreisn styður það. Lögð er sérstök áhersla á að borgin gæti jafnræðis og ekki séu gefin loforð sem ekki er hægt að verða við.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að falla frá hækkun gatnagerðargjalda í því skyni að draga úr byggingarkostnaði og verðbólgu. Umrædd hækkun var samþykkt á fundi borgarstjórnar 4. febrúar sl. og tók gildi nú um mánaðamótin. Tillagan felur í sér að gatnagerðargjald lækki til samræmis við fyrra hlutfall og verði eftirfarandi: Einbýlishús: 15%, óbreytt álagningarhlutfall. Parhús: hlutfall lækki úr 15% í 11,3%. Raðhús, keðjuhús: hlutfall lækki úr 15% í 11,3%. Fjölbýlishús: hlutfall lækki úr 10% í 5,4%. Annað húsnæði: hlutfall lækki úr 13% í 9,4%. Tekinn verði upp að nýju afsláttur af gluggalausu kjallararými, sem aðeins er gegnt í innan frá, sem og vegna yfirbyggðra göngugatna og sameiginlegra bifreiðageymsla fyrir þrjár eða fleiri bifreiðar.
Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins MSS25090015
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:Fyrir fundinum lá tillaga Sjálfstæðisflokksins um að afturkalla gífurlega hækkun gatnagerðargjalda til að draga úr byggingarkostnaði og verðbólgu. Með því að fella tillöguna staðfestir meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins ákvörðun fyrri meirihluta um einhverja mestu hækkun gjalda, sem Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir. Gatnagerðargjöld hækka um 85% á íbúðir í fjölbýlishúsum, 33% á raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Að viðbættu nýju gjaldi á bíla- og hjólageymslur mun hækkunin nema 90-100% á íbúðir í fjölbýlishúsum. Að auki tuttugufaldast gatnagerðargjald á bílastæðakjallara. Ekkert sveitarfélag leggur á eins há gjöld á nýjar íbúðir og Reykjavíkurborg. Borgin er methafi í lagningu skatta og gjalda á íbúðarhúsnæði. Há gatnagerðargjöld bætast við önnur gjöld og kvaðir, sem húsbyggjendur eru krafðir um. Borgin leggur á há byggingarréttargjöld (innviðagjöld), sem nema tugum þúsund króna á nettófermetra í fjölbýlishúsi. Eftir hækkunina geta byggingarréttargjöld og gatnagerðargjöld numið tíu milljónum samanlagt fyrir 100 m2 íbúð. Svo mikil hækkun gatnagerðargjalda mun stuðla að hækkun íbúðaverðs í borginni og vinna gegn hagsmunum íbúðakaupenda. Tugþúsundir Reykvíkinga hrekjast út á dýran leigumarkað sem varla er á færi venjulegs launafólks, hvað þá láglaunafólks, að kaupa nýja íbúð í borginni. Hækkunin vinnur einnig gegn hjöðnun verðbólgu og vaxta, sem eru helstu áherslumál ríkisstjórnarinnar.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun.
Gatnagerðargjöld í Reykjavík hafa ekki tekið breytingum síðan 2007. Gjöldin eru lögð á til að standa undir gatnagerð og viðhaldi gatna og gatnamannvirkja og hafa þau ekki staðið undir kostnaði undanfarin ár. Því voru lagðar til breytingar á gjaldstofni í nýrri samþykkt sem tók gildi 1. september. Þrátt fyrir að ný samþykkt kveði á um hækkanir munu tekjurnar ekki standa að fullu undir kostnaði við gatnagerð og viðhald. Hins vegar var mikilvægt að breyta samþykktum á þennan veg og færa þær til samræmis við önnur nærliggjandi sveitarfélög. Enginn vilji er til að vinda ofan af þeirri ákvörðun enda væri það óábyrgt í ljósi fyrirhugaðra fjárfestinga og viðhalds og því er tillaga Sjálfstæðisflokksins felld.Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík hefur undanfarin ár verið með lægri gatnagerðargjöld en tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. Þessi hækkun sem tók gildi 1. september gerir það að verkum að nú er Reykjavík með jafnhá eða lægri gatnagerðargjöld en nágrannasveitarfélögin. Lög kveða á um að gatnagerðargjald skuli standa straum af gatnagerð og viðhaldi gatna almennt. Mikilvægt er að tryggja að tekjustofninn nýtist til þessara verkefna enda getur skortur á viðhaldi gatna valdið slysahættu og umferðartöfum. Framsókn tekur þó undir með Sjálfstæðisflokki að afar brýnt er að vinda ofan af framkvæmd borgarinnar varðandi afnám afslátta vegna gatnagerðagjalda bílastæðakjallara og færa aftur til fyrra horfs.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2025, varðandi skýrslu starfshóps um hringrásarhagkerfið á höfuðborgarsvæðinu og tillögur starfshópsins, ásamt fylgiskjölum, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. september 2025.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24050066
Tillagan er samþykkt með 17 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun.
Hringrásarhagkerfið felur í sér skýr markmið um að draga úr auðlindanotkun, auka líftíma auðlinda jarðar og draga úr því að efni og hlutir endi sem úrgangur með tilheyrandi sóun. Skýrsla starfshópsins felur í sér 23 tillögur að aðgerðum, sem eru fjölbreyttar og styðja við framtíðarsýn borgarinnar um sjálfbæra borg sem sett er fram í grundvallarstefnu borgarinnar: Græna planinu. Meðal burðartillagna í skýrslunni eru aðgerðir sem tengjast uppbyggingu hringrásarmiðstöðvar, nýtingu fráveituúrgangs, aukinni framleiðslu metans og bættri nýtingu bakrásarvatns hitaveitu. Tillögunum verður nú vísað til viðeigandi fagsviða, fyrirtækja borgarinnar og byggðasamlaga til nánari útfærslu og innleiðingar.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Vel hefði farið á því að þessi tillaga væri lögð til samþykktar allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er góð stjórnsýsla að leggja fyrir borgarstjórn tillögur sem að ákveðnu leyti binda hendur annarra sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu. Stjórn SORPU á að hafa umboð til þess að vinna með þær tillögur sem hér eru settar fram enda eru þær flestar komnar til aðgerða. Mikilvægt er að stjórn SORPU hafi umboð til stefnumótunar á sviði hringrásarhagkerfisins enda grundvallar þáttur í því fyrir hönd borgarinnar. Að öðru leyti styður Framsókn öfluga sókn í eflingu hringrásarhagkerfisins og styður málið.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er samþykktar 23 tillögur sem allar lúta að fjölbreyttum leiðum til að mæta áskorunum, s.s. nýtingu fráveituúrgangs, nýtingu metans og bættri nýtingu bakrásarvatns hitaveitu ásamt því að móta hringrásarmiðstöð. Tillögurnar eru margar hverjar komnar í fulla vinnslu hjá B-hluta fyrirtækjum borgarinnar ásamt sviðum borgarinnar. Viðreisn fagnar því að þekking og kraftar ólíkra aðila voru virkjaðir og með þessum aðgerðum tekur borgin skref í átt að öflugu hringrásarhagkerfi.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg hefji vinnu við að verða þátttakandi í verkefninu barnvænt sveitarfélag. Borgarstjórn felur borgarráði að kynna verkefnið innan Reykjavíkurborgar og fyrir Reykjavíkurráði ungmenna eins og reglur um barnvænt sveitarfélag kveða á um. Að því loknu verði tillaga um formlega innleiðingu á barnvænu sveitarfélagi lögð fyrir borgarstjórn.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25090012
- Kl. 15:34 tekur Árelía Eydís Guðmundsdóttir sæti á fundinum og Þorvaldur Daníelsson víkur.
- Kl. 16:57 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Erlingur Sigvaldason tekur sæti.Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fela mannréttindaráði að meta stöðu á innleiðingarferli barnasáttmálans og hvaða viðbótarávinningur felist í vottun um barnvænt samfélag. Að því loknu meti mannréttindaráð hvort rétt sé að næstu skref verði að leggja til að Reykjavíkurborg innleiði formlega verkefnið barnvænt sveitarfélag.
Breytingatillagan er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan er samþykkt svo breytt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi borgarinnar hafa víðtæk áhrif á börn. Hvort sem um ræðir skipulag hverfa, samgöngur, menntun eða félagsþjónustu. Því er mikilvægt að „barnaréttindagleraugun“ séu ávallt uppi og aðkoma barna að ákvörðunartöku sé aukin. Verkefnið barnvænt sveitarfélag felur í sér markvissari innleiðingu á barnasáttmálanum og er grundvallarbreyting á því hvernig við högum stefnumótun borgarinnar og forgangsröðun. Við undrumst afgreiðslu meirihlutans á málinu sem kom með breytingatillögu um að ávinningur verkefnisins verði skoðaður á sama tíma og meirihlutinn segist vera hlynntur því að barnasáttmálinn sé markvisst og kerfislega innleiddur í Reykjavíkurborg. Það felur í sér algjört metnaðarleysi. Hér hefði verið tækifæri fyrir borgarstjórn að standa saman að því að setja hagsmuni barna í fyrsta sæti.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Allt frá því að Alþingi lögfesti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2013 hefur Reykjavíkurborg unnið að því að tryggja að öll starfsemi borgarinnar taki mið af þeim skuldbindingum sem leiða af þessari lögfestingu. Nú síðast samþykkti borgarráð þann 7. nóvember 2024 samning við UNICEF um samvinnu vegna innleiðingar réttindaskóla. Í framhaldinu getur mannréttindaráð nú skoðað vel hversu langt innleiðing barnasáttmálans sé komin þvert á svið og starfsstöðvar borgarinnar með sérstöku tilliti til jaðarsettra hópa barna. Þá verður hægt að meta viðbótarávinning sem geti falist í vottunarferli vegna barnvæns sveitarfélags og ákveða næstu skref.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:
Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði að kanna og skoða áhrif þess að stytta sumarfrí grunnskólabarna í Reykjavík um allt að tvær vikur. Með það að markmiði að styðja við velferð barna og félagsþroska og auka jafnræði í aðgengi að öruggu og uppbyggilegu umhverfi yfir sumartímann. Færa okkur þannig nær skipulagi skólaárs hjá þeim nágrannalöndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Horft verði til fjölda kennslustunda og samfellu í degi barna með tilliti til skóla, íþrótta, frístunda o.fl.Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25090065
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi breytingatillögu:
Lagt er til að borgarstjórn feli skóla- og frístundasviði að kanna og skoða áhrif þess að stytta sumarfrí grunnskólabarna í Reykjavík um allt að tvær vikur án þess að fjölga kennsludögum og þar með kennsluskyldu kennara. Með það að markmiði að styðja við velferð barna og félagsþroska og auka jafnræði í aðgengi að öruggu og uppbyggilegu umhverfi yfir sumartímann. Færa okkur þannig nær skipulagi skólaárs hjá þeim nágrannalöndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Horft verði til fjölda kennslustunda og samfellu í degi barna með tilliti til skóla, íþrótta, frístunda o.fl.
- Kl. 19:04 víkur Aðalsteinn Haukur Sverrisson af fundi og Þorvaldur Daníelsson tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni svo breyttri til meðferðar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn fagnar því að samtal muni eiga sér stað á vettvangi Sambands íslenska sveitarfélaga og vonar að það verði börnum til hagsbóta að kanna möguleikann á því að endurskipuleggja skólastarf. Löng, samfelld sumarfrí í langan tíma hafa neikvæð áhrif á líðan barna og sérstaklega á þau efnaminni.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir telja tillöguna gott innlegg í umræðu um skólaárið, kennslutilhögun og velferð skólabarna. Við bendum um leið á að mennta- og barnamálaráðuneytið gefur út reglugerðir og aðalnámskrá þar sem er kveðið á um lágmarksfjölda skóladaga og skipulag skólastarfs. Lög um grunnskóla kveða á um að kennsla skuli vera að jafnaði 180 kennsludagar á ári. Innan þess ramma ákveða sveitarfélögin skipan skólaársins í samstarfi við skólastjórnendur og kennara. Það er því ekki á valdi Reykjavíkurborgar að stytta sumarfrí grunnskólabarna í Reykjavík eða lengja skólaskyldu. Það krefst samtals milli ríkis, sveitarfélaga, stéttarfélaga og alls samfélagsins. Samstarfsflokkarnir leggja til að vísa tillögunni til Sambands íslenskra sveitarfélaga til nánari skoðunar.
Fylgigögn
-
Umræðu um deiliskipulag Birkimels 1 er frestað með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. MSS25060118
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík verði endurskoðaðar með það að markmiði að við framtíðar deiliskipulagsvinnu og útgáfu byggingarleyfa í Reykjavík skuli að jafnaði vera heimilt að hafa eitt bílastæði með hverri íbúð í nýbyggingum, nema sérstakar skipulagslegar aðstæður kalli á annað.
Greinargerð fylgir tillögunni. MSS25090066
Samþykkt að fresta tillögunni með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sín um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings í Stjörnugróf í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar að Stjörnugróf 18 en lóðarleigusamningur vegna hennar rann út í árslok 2016. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Bústaðahverfi, Fossvogi, Háaleiti og Smáíbúðahverfi. MSS25090067
Samþykkt að fresta málinu með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Fylgigögn
-
Umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs er frestað með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. MSS25090068
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri. MSS25090069
Samþykkt að fresta málinu með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Fylgigögn
-
Lagt til að Björn Gíslason taki sæti í mannréttindaráði í stað Kjartans Magnússonar. MSS25020083
Samþykkt -
Lagt til að Kjartan Magnússon taki sæti í menningar- og íþróttaráði í stað Björns Gíslasonar. MSS22060045
Samþykkt -
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. september 2025. MSS25010002
2. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. september 2025, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2025, er samþykktur. FAS25010024
3. liður fundargerðar borgarráðs frá 11. september 2025, náttúruborgarsamningur Berlínar, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK25080284Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 16. september, mannréttindaráðs frá 28. ágúst og 4. september, menningar- og íþróttaráðs frá 22. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 8. september, stafræns ráðs frá 27. ágúst og 9. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. og 10. september og velferðarráðs frá 3. og 10. september. MSS25010033
- Kl. 20:53 víkur Líf Magneudóttir af fundi og Stefán Pálsson tekur sæti.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar velferðarráðs frá 10. september:
Vesturmiðstöð er ein af miðstöðvum borgarinnar þar sem íbúar Reykjavíkurborgar geta nálgast fjölbreytta þjónustu, upplýsingar og ráðgjöf. Þar er meðal annars veittur stuðningur við börn, ungmenni, fjölskyldur, fatlað fólk og eldra fólk. Mikilvægt er að viðeigandi húsnæði sé til staðar fyrir starfsemina með góðu aðgengi. Núverandi húsnæði hefur reynst óhentugt, leigusamningur rennur út um áramót og leit að hentugu húsnæði í hverfinu hefur ekki borið árangur. Áætla má að þessi breyting skili sér í lægri húsnæðiskostnaði. Mikilvægt er að hið nýja rými komi til móts við þarfir um aðgengi en miðstöðin verður í nálægð við almenningssamgöngur og mun auka samlegð með annarri þjónustu. Velferðarráð leggur áherslu á að hönnun nýrrar móttöku tryggi hlýlegt og öruggt umhverfi fyrir íbúa og starfsfólk og að breytingin verði unnin út frá þörfum notenda. Velferðarráð leggur áherslu á að í breytingarferlinu verði vel haldið utan um starfsfólk og notendur og óskar ráðið eftir reglulegum upplýsingum um framvindu verkefnisins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 16. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. september:
Ófremdarástand ríkir á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls eftir að gatnamótin voru þrengd og tveimur beygjuakreinum lokað. Breytingin hefur í för með sér umferðaröngþveiti á gatnamótunum og stórauknar umferðartafir á stóru svæði í austurhluta borgarinnar. Breytingin virðist hafa verið gerð í því skyni að tefja vísvitandi fyrir umferð. Unnt er að stórbæta öryggi gangandi og hjólandi á gatnamótunum án þess að þrengja þau og fjarlægja umræddar beygjuakreinar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2025 lögðust borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gegn því að umræddar beygjuakreinar yrðu fjarlægðar og bentu á að slík breyting myndi draga úr umferðarflæði og valda óþarfa töfum á umferð. Um leið og beygjuakreinunum var lokað jukust umferðartafir gífurlega á gatnamótunum og þar er nú hreinasta umferðaröngþveiti á annatímum. Slíkt ástand er óviðunandi og því hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um að umræddar beygjuakreinar verði opnaðar að nýju. Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna hefur nú fellt tillögu Sjálfstæðisflokksins um að gerðar verði tafarlausar úrbætur á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls í því skyni að draga úr umferðartöfum þar. Með því sýnir meirihlutinn að vegna kreddufullrar afstöðu til umferðarmála, er hann ekki fær um að horfast í augu við eigin mistök og leiðrétta þau.
Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 12. september 2025
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 28. ágúst 2025
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 4. september 2025
- Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 22. ágúst 2025
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 8. september 2025
- Fundargerð stafræns ráðs frá 27. ágúst 2025
- Fundargerð stafræns ráðs frá 9. september 2025
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. september 2025
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. september 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 3. september 2025
- Fundargerð velferðarráðs frá 10. september 2025
Fundi slitið kl. 21:00
Sanna Magdalena Mörtudottir Helga Þórðardóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 16.09.2025 - Prentvæn útgáfa