Borgarstjórn
Ár 2024, þriðjudaginn 15. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:07. Voru þá komnir til fundar, auk Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Birna Hafstein, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sandra Hlíf Ocares, Sara Björg Sigurðardóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
-
Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarstjórnar sem kemur í stað fyrirliggjandi tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar og tillögu borgarfulltrúa Vinstri græna um sama efni:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að skipa stýrihóp um gerð stefnu og áætlunar um gönguvæna borg. Í vinnunni verði mótuð sýn og aðgerðir um hvernig Reykjavík getur orðið gönguvæn borg á heimsmælikvarða og hvernig hægt er að auka aðgengi, öryggistilfinningu, vellíðan og hlutdeild gangandi vegfarenda í ferðum innan borgarinnar og stytta og einfalda ferðir þeirra. Öruggar og aðgengilegar gönguleiðir barna í skóla og tómstundir sé sérstakt áhersluatriði vinnunnar. Undir í vinnunni verði meðal annars mótun áætlunar um úrbætur á innviðum eins og gangstéttum, gönguþverunum og ljósastýringu sem og stefnumörkun um útfærslur göturýmis og gönguþverana. Einnig verði unnið með áætlun um hraðalækkandi aðgerðir og farið yfir vetrar- og vorþjónustu á gönguleiðum sem og aðrar leiðir til að styðja við umferð gangandi vegfarenda í borginni.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt. MSS24100084Borgarstjórn leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórn hefur lagt til og sameinast um tillögu um að hefja vinnu við gerð stefnu og áætlunar um gönguvæna borg til að auka aðgengi, öryggistilfinningu og vellíðan gangandi í borginni og auka hlutdeild þeirra í ferðum. Í þeirri vinnu ætlum við að nota þá fyrirmynd sem hjólreiðaáætlun hefur verið undanfarin ár sem hefur umbylt tækifærum til notkunar hjólreiða sem fararmáta í borginni en við vitum að fjárfesting í innviðum og aukin áhersla skilar sér í breyttri hegðun. 18% ferða eru farnar fótgangandi sem er þó nokkuð en sýnir líka þau miklu tækfæri sem í fararmátanum felast. Sérstök áhersla vinnunnar verður greið og örugg leið barna til skóla og tómstundaiðkunar.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Það á að sjálfsögðu að vera forgangsmál að íbúar geti komist klakklaust milli staða gangandi. Allir þurfa að geta gengið um borgina, það er aðgengismál sem gagnast öllum, líka þeim sem nýta aðra fararmáta. Til þess að borgin sé í raun gönguvæn þarf að tryggja að almenningssamgöngur séu allstaðar aðgengilegar í göngufjarlægð, og að snjór eða hálka komi ekki í veg fyrir að hægt sé að komast um gönguleiðir borgarinnar. Það er ekki síður lykilatriði að gerðar séu ráðstafanir til þess að öruggt sé fyrir óvarða vegfarendur að komast leiðar sinnar í kringum framkvæmdir, sérstaklega þarf að huga að því að ganga frá og útbúa öruggar gönguleiðir í og úr nýjum hverfum á meðan á uppbyggingartíma stendur. Fjölga þarf umtalsvert stæðum sem nýtast fólki með skerta hreyfigetu því geta til gangs er mismikil.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sjálfsagt er að mynda stýrihóp sem tekur saman helstu áherslur. Það er mjög mikilvægt að auka aðgengi og öryggi fólks um borgina og ekki hvað síst fyrir fatlað fólk. Mikilvægt er að gera gönguleiðir barna í skóla og tómstundir öruggar. Flokkur fólksins hefur lagt til að lýsing við skóla verði bætt en víða er lýsingu ábótavant. Gangstéttir eru mjög víða hættulegar og heppni að ekki hafi orðið fleiri slys á gangandi og hjólandi vegfarendum sem fara um þær. Endurbætur eru látnar reka á reiðanum. Nýlega varð banaslys við Sæbraut, ekið á gangandi vegfarenda þrátt fyrir að lengi hafi verið ákall bæði frá íbúum og minnihluta pólitíkurinnar um að bæta öryggi á þessum stað. Hjólandi fólki hefur fjölgað en þó ekki eins mikið og vænst var. Hins vegar er bílum að fjölga um einhverja tugi í hverjum mánuði og við það ber að una.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni Reykjavíkurflugvallar. MSS22030087
- Kl. 15:45 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundinum og Þorkell Sigurlaugsson tekur þar sæti.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins er sammála því að ekki gangi að þrengja meira að Reykjavíkurflugvelli. Ekki gengur að skerða meira rekstraröryggi flugvallarins. Á meðan flugvöllurinn er í Vatnsmýrinni verður að vera tryggt að öryggi hans sé ekki aðeins viðunandi heldur fullnægjandi. Ekki er hægt að hunsa t.d. orð lækna um mikilvægi þess að sjúkraflug verði sem næst Landspítala. Fjarlægðir til miðstöðva leitar og björgunar og annarra lykilaðila örstuttar. Um 1000 sjúkraflug eru farin á ári og líklegt má telja að þeim fari fjölgandi. Nálægð flugvallarins við eina hátæknisjúkrahús landsins er ekki hvað síst mikilvægt í bráðatilfellum. Næg eru svæðin í borgarlandinu sem hægt er að byggja á. Það viðurkennist þó að Vatnsmýrin er dýrmætt byggingarsvæði og líklegt að byggð þar verði dýr. En staðan er eins og hún er, flugvöllurinn hefur engan stað að fara á sem telst henta og mun því vera áfram á sínum stað til ókominna ára. Þær mótvægisaðgerðir sem hafa verið gerðar eftir að uppbygging í Skerjafirði hófst hafa kostað borgina talsvert. Það er ekki skynsamlegt að þrengja meira að vellinum og mögulega ógna öryggi flugs sem um hann fer.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg láti af fjármögnun og annarri þátttöku í undirbúningsvinnu vegna hugsanlegs flugvallar í Hvassahrauni.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillagan er felld með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn sjö atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins.- Kl. 16:40 víkur Magnea Gná Jóhannsdóttir af fundinum og Ásta Björg Björgvinsdóttir tekur þar sæti. MSS24100088
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Starfshópur um hugsanlega lagningu flugvallar í Hvassahrauni (Afstapahrauni) hefur skilað af sér skýrslu. Hópurinn kemst ekki að óyggjandi niðurstöðu þrátt fyrir fjögurra ára vinnu en vill halda áfram að skoða málið. Athygli vekur að aðeins er fjallað um náttúruvá vegna jarðhræringa og eldgosa á þremur blaðsíðum í skýrslunni. Þar kemur fram að forsendur vegna náttúruvár byggist á stöðu þekkingar áður en eldvirkni gerði vart við sig á ný á Reykjanesskaga. Er með miklum ólíkindum að í skýrslunni skuli ekki vera tekið mið af þeim miklu eldsumbrotum og níu eldgosum sem orðið hafa á svæðinu frá árinu 2021. Fjölmargir jarðvísindamenn hafa fjallað um málið og mælt gegn því að ráðist verði í lagningu nýs flugvallar á svæðinu. Benda þeir á að nýtt eldsumbrotatímabil á Reykjanesskaga geti staðið áratugum og jafnvel öldum saman. Líklegt sé að á því tímabili verði eldgos í fleiri kerfum en þeim tveimur sem gosið hefur í frá 2021. Ekki er því skynsamlegt að Reykjavíkurborg ráðist í frekari kostnað vegna rannsókna og framkvæmda í tengslum við flugvallarhugmyndir í Hvassahrauni á næstu áratugum. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kýs hins vegar að halda óraunhæfri hugmynd um flugvöll í Hvassahrauni til streitu og kasta fjármunum skattgreiðenda á glæ í því skyni.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillagan snýst um að Reykjavíkurborg láti af fjármögnun og annarri þátttöku í undirbúningsvinnu vegna hugsanlegs flugvallar í Hvassahrauni. Um all langt skeið hefur verið tekist á um hvort halda eigi áfram með rannsóknir til að kanna hvort skilyrði séu til að leggja flugvöll í Hvassahrauni. Þær raddir heyrast annars vegar að ekkert sé því til fyrirstöðu að flugvöllur geti verið byggður í Hvassahrauni og ætti því að halda áfram með rannsóknir á svæðinu til að fá frekari staðfestingar á hvort Hvassahraun sé heppilegur staður fyrir flugvöll. Hinn hópurinn telur það áhættusamt og eyðslu á fjármagni þar sem sérfræðingar hafa bent á að líkur eru á að flugvallarsvæðið fari undir hraun, ef verði gos á eldstöðvum Krýsuvíkur sem er þarna næst. Líklegustu sviðsmyndir eru þrjár. Nr. 1, lítið gos nr. 2, meðalstórt gos með stutt rennsli sem gæti farið yfir helming svæðisins og nr. 3, meðalstórt gos með langt rennsli og þar gæti allt flugvallarsvæðið farið undir hraun. Það er því eðlilegt að spurt sé hvort stjórnvöld vilja verja 200 milljónum plús til áframhaldandi rannsókna. Hér takast á tvö sjónarmið. Málið er hápólitískt og mun ákvörðun um hvort haldið verð áfram með rannsóknir að mestu vera í höndum næstu ríkisstjórnar. Reykjavíkurborg þarf ekki að fjármagna þær rannsóknir.
Fylgigögn
-
Umræðu um framtíð Reykjavíkur sem tónlistarborgar er frestað. MSS24100086
Fylgigögn
-
Samþykkt með fjórtán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks íslands og Flokks fólksins að fresta umræðu um deiliskipulag lóðanna Gufunesvegur 34 og Þengilsbás 1. MSS22070086
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði og skóla- og frístundasviði að fara í sérstakt átak í ráðningum í lausar stöður á frístundaheimilum og til að manna stöður frístundaheimila. Lagt er til að í átakinu skuli m.a. leita óhefðbundinna leiða, s.s. með því að samþykkja sérstaka umbun fyrir starfsfólk í formi styrkja eða hlunninda og með því að leita samstarfs við hagsmunafélög eldra fólks og hagsmunasamtök námsmanna með það að markmiði að bjóða fólki úr þessum hópum störf á frístundaheimilum.
- Kl. 17:30 víkur Birna Hafstein af fundinum og Helga Margrét Marzellíusardóttir tekur þar sæti.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíaistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. MSS24100090
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Börn eru á vergangi vegna plássleysis á frístundaheimili sem rakið er til manneklu. Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn samþykki að fela mannauðs- og starfsumhverfissviði og skóla- og frístundasviði að fara í sérstakt átak í ráðningum í lausar stöður á frístundaheimilum og til að manna stöður frístundaheimila. Leita verður óhefðbundinna leiða s.s. með því að samþykkja sérstaka umbun fyrir starfsfólk í formi styrkja eða hlunninda. Árlega myndast langir biðlistar á frístundaheimilum þegar skólar hefjast á haustin. Horfa má til þessa merka áfanga sem náðist í kjarasamningum Eflingar og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Í fyrra var staðan sérstaklega slæm en þá voru 127 börn enn á biðlista þegar skólaárinu var að ljúka. Nú bíða á annað þúsund börn eftir að komast að á frístundaheimili og óvíst hvort og þá hvenær þau fá pláss þar. Leita mætti eftir samstarfi við Félag eldri borgara og önnur hagsmunafélög eldra fólks en vel kann að vera að fólk sem komið er af hefðbundnum vinnumarkaði hafi áhuga á hlutastörfum á frístundaheimili. Hægt er að semja við starfsfólk á einstaklingsgrunni. Einnig mætti leita eftir samstarfi við íþróttafélög og þá sem sinna æskulýðs- og tómstundastarfi til að koma inn í starf frístundaheimilanna.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Sósíalistar taka undir það að grípa þurfi til aðgerða til að leysa vandann sem undirmönnun í frístund er. Frístundastarf er þó ekki starf sem hægt er að manna með fólki sem á bara að vera til staðar, án fagþekkingar eða skilnings á frístundastarfi með grunnskólabörnum, eða fólki sem ekki býr yfir starfsgetu sem hentar vinnustað eins og frístund er. Mönnunarvandinn sem steðjar að frístund er bundinn órjúfanlegum böndum við almennan mönnunarvanda í skólakerfinu og það skiptir höfuðmáli að skapa aðstæður sem laða kennara og annað fagfólk að til starfa í skólakerfinu. Það myndi létta á þeirri þörf sem til staðar er og nýta þann mannauð í borginni sem er í boði umfram kennaramenntað fólk, eða annað fagfólk sem vantar í skólum borgarinnar. Bæta þarf starfskjör og -öryggi starfsfólks í frístund með því að hætta að ráða fólk inn á tímabundnum eins árs samningum og bjóða þess í stað upp á vinnu allt sumarið, það myndi gera starfið æskilegra eða eftirsóknarverðara fyrir námsmenn sem þurfa á slíku að halda á meðan sumarleyfum skóla stendur. Það væru allt aðgerðir sem myndu bæta mönnunarvanda frístundar.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um deilibíla, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. október 2024:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði/samgönguskrifstofu að búa til rými í bílastæðahúsum borgarinnar sem eru sérmerkt deilibílum, ásamt því að veita deilibílum sérmerkt rými miðsvæðis í öllum hverfum borgarinnar, í þeim tilgangi að auka flæði í umferð og ýta undir deilihagkerfið. Sviðinu verði einnig falið að auglýsa eftir samstarfsaðilum.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra tillögur til að bæta aðgengi að deilibílum í öllum hverfum borgarinnar sem og að veita deilibílum aðgang að bílastæðahúsum borgarinnar til þess að auka samgönguflæði og ýta undir deilihagkerfið ásamt því að laða rekstraraðila deilibíla að rekstri í borginni.
- Kl. 18:00 víkur Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir af fundinum og Gunnar Smári Þorsteinsson tekur þar sæti.
Breytingartillagan er samþykkt.
Tillagan er jafnframt samþykkt svo breytt. MSS24090079Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:
Í skoðun hafa verið leiðir til að efla deilibíla á vettvangi umhverfis- og skipulagsráðs og minnisblað með tillögum frá Eflu hefur verið lagt þar fram, á sama fundi og haldinn var samráðsfundur með rekstraraðilum deilibíla og smáfarartækja. Það er tekið vel í að efla deilihagkerfið og auka aðgengi að deilibílum í takti við þá vinnu sem hefur verið í gangi.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Hugsjónin um deilihagkerfi er af hinu góða, það má þó ekki gleymast að styðja við og hvetja til þess að það skapist á samfélagslegum forsendum, í anda Munasafnsins og „carpooling“ eins og það þekkist erlendis. Ekki má skekkja samkeppni með því að veita ívilnanir sem gagnast aðeins fyrirtækjum án þess að tryggja það að sömu ívilnanir séu til staðar fyrir almenning sem gæti kosið að deila ökutækjum sín á milli án milligöngu fyrirtækja.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Sjálfsagt er að styðja þessa tillögu um að búa til rými í bílastæðahúsum borgarinnar sem eru sérmerkt deilibílum. Eitthvað mætti skoða einnig að veita deilibílum sérmerkt rými miðsvæðis í öllum hverfum borgarinnar. Á það er þó bent að víða í borginni er mikill hörgull á venjulegum bílastæðum og bílum fer hratt fjölgandi í Reykjavík. Einfaldasta aðgerðin sem gæti aukið flæði umferðar er að losa um umferðarhnúta með t.d. snjallljósastýringarkerfi. Slík aðgerð myndi breyta miklu en skipulagsyfirvöld hafa út í hið óendanlega dregið lappirnar að koma slíku snjallkerfi í gagnið. Fram hefur komið að það hefur reynst erfitt að innleiða deilibíla og mun það krefjast mikils stuðnings í styrkjaformi að koma slíku kerfi á koppinn og þá er að sjá hvernig það reynist. Spurning hvort það sé verjandi að greiða mikið með kerfinu. Í Berlín búa um 3,5 milljónir. Þar eru 2.000 deilibílar. Með sama árangri gætu verið um 80 deilibílar í Reykjavík og varla telst það vera bylting í umferðarmálum borgarbúa í ljósi þess að bílum fjölgar hratt, eða um 60 á viku.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 10. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. október 2024:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að farið verði í neyðaraðgerðir, í samráði við Vegagerðina, til að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar. Í fyrsta lagi er lagt til að sérstakri snjallgangbraut verði komið fyrir á gatnamótunum. Snjallgangbrautir virka þannig að þær skynja þegar gangandi vegfarendur nálgast gangbrautina. Þá kviknar LED-göngulýsing sem lýsir upp gangbrautina og vegfarendur á meðan gengið er yfir götuna. Í annan stað er lagt til að gatnamót þessi verði snjallvædd með nýjustu tækni í snjallljósastýringum, en umferðarljósin á gatnamótum Kleppsmýrarvegar og Sæbrautar sýna svo ekki verður um villst, að þeim er stýrt með klukku þar sem græna ljósið varir aðeins í 15 sekúndur þegar gengið er yfir götuna og er þar af leiðandi ekki snjallvætt. Snjallljós skynja umferð akandi, gangandi og hjólandi, besta umferðarflæðið og auka til muna öryggi allra vegfarenda.
Frestað. MSS24100015
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 2. október sl. tillögu um að setja göngubrú yfir Sæbraut sem forgangsverkefni í ljósi hörmulegs banaslyss sem varð við Sæbraut fyrir skemmstu. Leggur fulltrúi Flokks fólksins til að hefjast skuli handa strax við að byggja bráðabirgða göngubrú yfir Sæbraut við gatnamót við Skeiðarvog/Kleppsmýrarveg. Koma verður hið snarasta upp snjallstýrðum gangbrautarljósum sem lesa umferðarflæði, aðstæður og hreyfingar vegfarenda. Snjallstýrð ljósastýringarkerfi og gangbrautir eru við lýði í þeim löndum sem við berum okkur saman og því mikilvægt að koma þeim upp hið fyrsta á þessu svæði og víðar í Reykjavík til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. Vogabyggð er orðin fjölmenn byggð og börnin í hverfinu þurfa daglega að fara yfir Sæbrautina til að sækja skóla, frístundir og fleira. Íbúar hafa lengi verið að kalla eftir úrbótum. Þótt byrja þurfi á einhverri tímabundinni ráðstöfun þarf að fara í varanlega lausn. Þetta er stórhættulegar aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Íbúar Vogabyggðar hafa þurft að takast á við ótta um öryggi barna sinna allt of lengi og gangandi vegfarendur eru í stöðugri hættu.
Fylgigögn
-
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. október.
15. liður fundargerðar borgarráðs frá 3. október, samningur við Kjósarhrepp um skóla- og frístundaþjónustu, er samþykktur. MSS24010001Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. október:
Lagt er fram minnisblaði borgarlögmanns, dags. 23. september 2024, um málefni Loftkastalans ehf. vegna kaupa á fasteign og byggingarrétti í Gufunesi, þ.e. Gufunesvegi 34 og Þengilsbáss 1. Í þessu minnisblaði eru margar rangfærslur og aðalatriðin ekki ávörpuð. Lóðarhafi var t.d. aldrei boðaður á fund í lok árs 2022 eins og haldið er fram. Það eru einnig ósannindi að Reykjavíkurborg hafi ekki vitað hvað til stóð hjá Loftkastalanum. Talað er um að Loftkastalinn hafi átt að gera athugasemdir en gerði ekki. Það var vegna þess að engin ástæða er til að gera athugasemd við deiliskipulag þar sem ekkert í skipulagi gefur heimild til landslagsbreytinga eins og borgin er ábyrg fyrir. Fleira mætti tína til og er það mat Flokks fólksins að borgarlögmaður hafi ekki fengið réttar upplýsingar frá skipulagsyfirvöldum. Búið er að viðurkenna af hálfu borgarinnar að hæð hannaðrar aðliggjandi götu við hús Loftkastalans sé of mikil og að gólfplata hafi verið mæld sem sannreyndi það. Götur fyrir aftan hús eru enn of háar og Þengilsbás 1 hefur ekki enn fengið hæðarkóta sem er andstætt lögum. Óbyggð lóð er 60 cm of há og því mismunandi hæð milli húsanna. Þetta er ekki ávarpað í minnisblaði borgarlögmanns. Lóðarhafi hefur orðið fyrir gríðarlegu tjóni, Flokkur fólksins mun fara nánar yfir málið í borgarstjórn 19. nóvember.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Í bókun borgarfulltrúans eru misvísandi og rangar fullyrðingar og vísast í greinargerð borgarlögmanns í því efni.
Fylgigögn
-
Lögð fram fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 26. september, fundargerðir menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. september og 11. október, fundargerð stafræns ráðs frá 9. október, fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. og 9. október og fundargerðir velferðarráðs frá 27. september og 2. og 3. október. MSS24010034
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 9. október:
Stafræn vegferð borgarinnar hefur kostað tugi milljarða frá 2019. Borgin fór í þessa vegferð full af hroka og stórkarlalátum og það er ekki fyrr en nýlega sem borgin hefur viðurkennt að þurfa á samstarfi að halda við aðra til að eiga þess kost að hanga í lestinni. Allt tal um að komast á heimsmælikvarða er auðvitað bara hlálegt. Því miður líður skólakerfið enn fyrir hægaganginn. Það sárvantar nýtt skráningarkerfi fyrir mál sem koma til skólaþjónustu. Mest áberandi er þó að borgin er enn með gamla pappírsbeiðnakerfið til að kaupa þjónustu utan úr bæ. Sagt er að beðið sé eftir hinu „fullkomna“ kerfi sbr. það sem fram kom í svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins. Beiðnakerfið býður upp á alls konar misnotkun. Eftir því sem Flokkur fólksins í borgarstjórn kemst næst virðist verklag innkaupabeiðna hafa verið nánast óbreytt undanfarna áratugi. Um er að ræða handskrifaðar pappírsbeiðnir sem látnar eru fylgja pappírsreikningum sem sendir eru til borgarinnar sem síðan þarf að skrá handvirkt í tölvukerfi. Mörg sveitarfélög ásamt ríkinu hafa tekið upp rafræn beiðnakerfi. Beiðnum úr beiðnaheftum borgarinnar hefur stundum verið stolið og í einu tilfelli var ekki hægt að gera grein fyrir allt að sjö milljónum sem verslað var fyrir með handskrifaðri innkaupabeiðni frá Reykjavíkurborg.
Fylgigögn
- Fundargerð mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 26. september 2024
- Fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. september 2024
- Fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 11. október 2024
- Fundargerð stafræns ráðs frá 9. október 2024
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. október 2024
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. október 2024
- Fundargerð velferðarráðs frá 27. september 2024
- Fundargerð velferðarráðs frá 2. október 2024
- Fundargerð velferðarráðs frá 3. október 2024
-
Samþykkt að taka á dagskrá umræðu um ummæli borgarstjóra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna frá 10. október, um skólakerfi Reykjavíkurborgar og starfsaðstæðna kennara, að beiðni borgarfullrúa Vinstri grænna.
Frestað. MSS24010050 -
Samþykkt að taka á dagskrá bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 14. október sl. þar sem óskað er eftir að borgarstjórn samþykki að þóknanir fyrir störf í kjörstjórnum í Reykjavík við alþingiskosningar sem fram fara 30. nóvember 2024, verði óbreyttar frá forsetakosningum sem fram fóru 1. júní sl. og verði sem sem hér segir: hverfiskjörstjórn: kr.136.000 og undirkjörstjórn kr. 82.000.
Samþykkt. MSS24100091Fylgigögn
-
Samþykkt að taka á dagskrá bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 14. október sl. þar sem óskað er eftir að borgarstjórn samþykki að kjörstaðir í Reykjavík við alþingiskosningar sem fram fara 30. nóvember árið 2024, verði óbreyttir frá forsetakosningum sem fram fóru 1. júní sl. og verði í Árbæjarskóla, Álftamýrarskóla, Borgarbókasafni Kringlunni, Borgaskóla, Breiðagerðisskóla, Breiðholtsskóla, Dalskóla, Foldaskóla, Fossvogsskóla, Frostaskjóli, Höfðatorgi, Hagaskóla, Hlíðaskóla, Ingunnarskóla, Íþróttamiðstöðinni Austurbergi, Kjarvalsstöðum, Klébergsskóla, Laugalækjarskóla, Vogaskóla, Norðlingaskóla, Ráðhúsi Reykjavíkur, Rimaskóla, Vesturbæjarskóla og Ölduselsskóla.
Samþykkt. MSS24100091Fylgigögn
-
Samþykkt að taka á dagskrá bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 14. október sl. þar sem óskað er eftir að borgarstjórn samþykki að fela borgarráði að fullnaðarafgreiða erindi vegna alþingiskosninga sem fara fram 30. nóvember árið 2024, þ.m.t. að skipa hverfiskjörstjórnir og undirkjörstjórnir og ráða til lykta öðrum málum sem kunna að heyra undir verksvið borgarstjórnar vegna framkvæmdar alþingiskosninganna.
Samþykkt. MSS24100091Fylgigögn
Fundi slitið kl. 19:05
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson
Líf Magneudóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 15.10.2024 - prentvæn útgáfa