Borgarstjórn - Borgarstjórn 14.5.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 14. maí, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:07. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Þórdís Skjalddal, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Pawel Bartoszek, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Lagður fram að nýju til síðari umræðu, ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2023, ódags., sbr. 1. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 7. maí 2024. Einnig er lögð fram að nýju skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 2. maí 2024, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta og greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 2. maí 2024, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, dags. 11. apríl 2024, og greinargerð um innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, ódags., ásamt yfirlýsingu um stjórnarhætti og ófjárhagslegar upplýsingar, dags. 11. apríl 2024. Jafnframt er lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2023, dags. 2. maí 2024, og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2023, dags. 29. apríl 2024.

  Kl. 13:15 tekur Árelía Eydís Guðmundsdóttir sæti á fundinum og Þorvaldur Daníelsson víkur.

  Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2023 er samþykktur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins áritar ársreikninginn með fyrirvara. FAS24010051

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2023 staðfestir að áætlanir meirihlutans um jákvæðan viðsnúning í rekstri borgarinnar ganga eftir þrátt fyrir erfitt efnahagsumhverfi, mikla verðbólgu og þrýsting á innviði vegna fjölgunar borgarbúa. Með samstilltu átaki og aga í útgjöldum er 10 milljarða viðsnúningur milli ára í A-hluta þar sem 15,6 milljarða halli hefur dregist saman í tæpa 5 milljarða. Samanburður milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sýnir glögglega hversu krefjandi rekstur sveitarfélaganna er. Þegar horft er á skuldaviðmið A-hluta þeirra sveitarfélaga stendur það næstlægst í Reykjavík. Þá eru skuldir á hvern íbúa einnig næstlægstar í höfuðborginni - sem og skuldahlutfall. Veltufjárhlutfall er svo næsthæst í Reykjavík af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu en veltufé frá rekstri er orðið jákvætt og er það viðsnúningur upp á 12,4 milljarða frá árinu 2022. Handbært fé er 11,5 milljarðar sem er nokkuð yfir markmiðum fjármálastefnu. Miklar fjárfestingar eru framundan í innviðum, samgöngum, skólahúsnæði og íbúðauppbyggingu. Meirihlutinn hyggst halda áfram á sömu braut og koma jafnvægi á rekstur borgarinnar en um leið veita öfluga og metnaðarfulla þjónustu. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2023 ber fjárhag borgarinnar ekki fagurt vitni. Skuldir halda áfram að vaxa en skuldir samstæðu aukast um 50 milljarða milli ára, þar af aukast skuldir borgarsjóðs um 24 milljarða. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var 13 milljörðum króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrarhalli borgarsjóðs nam fimm milljörðum króna. Rekstrarútgjöld fara langt umfram fjárheimildir en ástæður minnkandi rekstrarhalla frá fyrra ári má nær allar rekja til aukinna skatttekna, jöfnunarsjóðstekna og arðgreiðslna frá bæði Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum. Vandi borgarinnar er því ekki tekjuvandi, heldur útgjaldavandi. Reksturinn er ósjálfbær og ekki unnt að standa undir grunnþjónustu við íbúanna án einskiptistekna af eignasölu. Það er alvarleg staða í rekstri sveitarfélags.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 sýnir að áætlanir borgaryfirvalda ganga hvorki upp né taka mið af veruleikanum. Vanfjármögnun grunnþjónustu er kostnaðarsöm fyrir rekstur borgarinnar, líðan starfsfólks og íbúa borgarinnar. Hár kostnaður hlýst af því að draga útgjöld saman í niðursveiflum eða verðbólgu, sjá má slæmar afleiðingar viðhaldsleysis í skólabyggingum og þess óhagræðis sem fylgir í kjölfarið t.a.m. þegar starfað er á mörgum starfsstöðvum á meðan unnið er að viðhaldi og endurbótum. Kostnaður vegna langtímaveikinda í skóla- og frístundastarfi var um 500 m.kr. umfram áætlanir. Ýmsar ástæður geta legið að baki langtímaveikindum en slæmar starfsaðstæður ýta undir slíkt. Nauðsynlegt er að tryggja góðar starfsaðstæður til að sporna gegn veikindum sem tengjast vondri umhverfisvist eða álagi. Sækja þarf fjármagn til þeirra sem það hafa með því að leggja útsvar á fjármagnstekjur en slíkt er ekki hægt án þrýstings á löggjafann. Lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði árið 2021 leiddi til þess að borgarsjóður verður af um hálfum milljarði ár hvert. Efla þarf tekjustofna borgarinnar en á sama tíma þarf að ráðstafa fjármagni með réttlátum hætti, húsnæðisuppbygging á félagslegum grunni ætti þar að vera aðaláhersla. Af þeim 1.550 nýjum íbúðum sem var áætlað að færu í uppbyggingu var aðeins byrjað að byggja 690 nýjar íbúðir.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Afkoma hefur skánað en er enn afspyrnu slæm. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar var 13 milljörðum króna lakari en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrarhalli borgarsjóðs nam fimm milljörðum króna. Veltufjárhlutfall lækkar milli ára og lausaskuldir hækka. Veltufé frá rekstri dugar ekki til að standa undir afborgunum lána og leiguskulda. Reksturinn skilar aðeins broti upp í heildarfjárfestingar ársins. Taka á erlent lán til að geta farið í viðhaldsframkvæmdir á mygluðu skólahúsnæði. Af B-hlutanum eru það matsbreytingar Félagsbústaða sem fara fyrir brjóstið á mörgum, þar er verið að slá ryki í augu borgarbúa. Áhyggjur eru af Strætó bs. sem mun þurfa ríkuleg framlög eigendanna ef Strætó á að vera starfhæfur. Flokkur fólksins skrifar undir ársreikning með fyrirvara m.a. vegna reikningsskilaðferðar Félagsbústaða en einnig vegna óánægju með fjármálastjórn þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Flokkur fólksins hefur lagt til að gerð verði óháð heildarúttekt á fjármálasýsli sviðsins. Talið var að innri endurskoðun færi í það verkefni 2023 en svo reyndist ekki vera. Það er mat Flokks fólksins að innri endurskoðun sé heldur ekki rétti aðilinn í það verk heldur þurfi nýja og ferska aðila að borðinu sem ekki hafa verið hluti af borgarkerfinu. Í úttektarteymi þurfa að sitja fagmenn, sérfræðingar sem þekkja hinn stafræna heim í þaula.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

  Meirihlutinn áréttar, vegna fyrirvara Flokks fólksins við undirritun ársreikningsins, að ítarlega hefur verið fjallað um grundvöll reikningsskila Félagsbústaða á síðustu árum og málið m.a. ratað til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Stofnunin lauk málinu í september sl. og taldi ekki ástæðu til að rannsaka frekar.

  Fylgigögn

 2. Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um afléttingu trúnaðar á skýrslu innri endurskoðunar varðandi Orkuveitu Reykjavíkur sbr. 6. lið fundargerð borgarstjórnar dags. 23. apríl 2024.
  Samþykkt með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna að vísa tillögunni til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarstjórn óskar jafnframt eftir því að stjórnin veiti umsögn um tillöguna. MSS24020040
  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins gekk út á að stærsti eigandi Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti að beina því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að aflétta trúnaði yfir tiltekinni skýrslu frá nóvember 2023. Þessi beiðni var á sínum tíma einnig sett fram á vettvangi borgarráðs. Það ráð ákvað að vísa beiðninni til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur núna gripið til sama ráðs. Þessu verklagi er mótmælt þar eð mun eðlilegra hefði verið að borgarstjórn hefði strax tekið afstöðu til tillögunnar. Þá hefur margsinnis verið bent á að hluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er vanhæfur til að ráða örlögum skýrslunnar verandi hlutaðeigandi í aðfinnslum hennar. Í sameignarsamningi um Orkuveituna stendur að stjórn skuli upplýsa eigendur um óvenjuleg eða veigamikil atriði í rekstri þótt þau kalli ekki á ákvörðun af hálfu eigenda. Og að sveitarstjórnarfólk og almenningur eigi ríkan rétt til upplýsinga um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Það er með öllu óforsvaranlegt af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skuli þráast við að afgreiða fyrri tillögur um afléttingu trúnaðar á skýrslunni til þess eins að halda trúnaði yfir skýrslu um trúnaðarbrot gagnvart eigendum.

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

  Borgarfulltrúar meirihlutans árétta að ákvörðun um trúnað á umræddri skýrslu var ekki tekin í borgarstjórn og borgarfulltrúar hafa hvorki upplýsingar um innihald hennar né ástæður þess að hún var trúnaðarmerkt. Það væri ekki í takt við góða stjórnsýslu að taka afstöðu til þeirrar afléttingar nema vita nánari skil á þeim ástæðum. Réttast er að vísa tillögunni til afgreiðslu stjórnar Orkuveitunnar, ásamt beiðni um umsögn þar sem farið er yfir málavexti.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Um er að ræða tillögu um tafarlausa afléttingu trúnaðar yfir skýrslu innri endurskoðunar um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga. Það ríkir allt of mikil leynd og leyndarhyggja hjá þessum og síðasta meirihluta. Verið er að halda gögnum frá borgarfulltrúum minnihlutans og borgarbúum í of miklum mæli. Trúnaður er settur á hin ólíklegustu mál. Þetta á sjálfsagt oftast við þegar meirihlutinn vill fela óheppileg og óvönduð vinnubrögð sín eða ef gerð hafa verið mistök. Sjálfsagt er að hafa trúnað á málum sem fela í sér persónugreinanlegar upplýsingar eða snerta fjármál á viðkvæmum tímapunktum. Annað ætti að vera að mestu upp á borði. Viðreisn boðaði gegnsæi og Píratar einnig ef borgarfulltrúi Flokks fólksins man rétt. Þessir tveir flokkar  hafa einmitt viljað fela óþægileg mál  síðustu fimm ár í borgarstjórn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður tillöguna um tafarlausa afléttingu trúnaðar yfir skýrslu innri endurskoðunar um samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnarhætti og miðlun upplýsinga. Skýrslan á að verða gerð opinber í heild sinni.
   

  Fylgigögn

 3. Lagðar fram fundargerðir mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. maí 2024, stafræns ráðs frá 8. maí 2024 og  umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. maí 2024. MSS24010034

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðar stafræns ráðs:  

  Kynning á ábatamati stafrænnar umbreytingar. Óþarfa tíma er eytt í að mæla væntanlegan ábata verkefna í stafrænni umbreytingu þegar um er að ræða lausnir sem sjáanlega flýta fyrir þjónustu og létta vinnu á starfsfólki. Allt í kringum okkur sjáum við hvernig rafvæðing þjónustuferla sparar tíma, akstur og pappír. Skemmst er að minnast margra vikna vinnu starfsmanna við að vigta pappír í þjónustuveri til þess eins að geta tekið fram í kynningu verkefnisins hversu mikið af pappír myndi sparast af rafvæðingu þess verkefnis. Þetta er sóun á tíma og fé. Nær væri að starfsfólk lyki við innleiðingar mikilvægra þjónustulausna og tryggði örugga eftirfylgni þeirra verkefna svo þeim verði lokið innan eðlilegra marka. Kynning á Mínum síðum, Búa og Bjargeyju. Spyrja má hér hvort  þjónustu og nýsköpunarsvið hafi kannað hvaða lausnir önnur sveitarfélög og ríkið eru að nota og gera það sama og  Mínum síðum, Búa og Bjargey er ætlað innan Reykjavíkurborgar. Varla er sviðið að fara í enn frekari uppgötvanir og tilraunaleiki hvað varðar lausnir sem búið er að uppgötva og innleiða annars staðar. Mikill fjármagns- og tímasparnaður næst þegar sveitarfélög sem eru að veita sömu þjónustu, sameinast um innleiðingu lausna eða noti þær lausnir sem flestir nota.

  Fylgigögn

 4. Samþykkt að taka kosningu í stjórn Strætó bs. á dagskrá. Lagt er til að Alexandra Briem taki sæti sem varamaður í stjórninni í stað Hjálmars Sveinssonar.
  Samþykkt. 

Fundi slitið kl. 17:50

Alexandra Briem Líf Magneudóttir