Borgarstjórn - Borgarstjórn 13.2.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 13. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:04. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Björn Gíslason, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Halldóra J. Hafsteinsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Rúnar Sigurjónsson, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um drög að borgarstefnu. MSS24020025

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarstefna setur fram og stuðlar að framtíðarsýn, þróun og eflingu tveggja borgarsvæða á Íslandi, Reykjavíkur og Akureyrar. Mikilvægi málsins er ótvírætt. Íbúafjöldi svæðanna samanlagt er um 90% landsmanna og því brýnt að styðja áfram við sjálfbæra framþróun svæðanna í efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu samhengi. Áhersla á aukna samkeppnishæfni Reykjavíkur, fjárfestingu í innviðum og umhverfis- og loftslagsmál er sérstakt fagnaðarefni. Áhersla á hlutverk háskóla og háskólaborgina mætti vera skýrari. Meirihluti borgarstjórnar styður drög að borgarstefnu heilshugar og hvetur til að hún verði unnin áfram og samþykkt.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Þetta er þörf umræða og tengist einnig sameiginlegri þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Suðurland og Vesturland. Þarft væri að sameina byggðir á svæðinu frá Hvalfirði til Hellisheiðar og að sama skapi ætti að sameina byggðir við Eyjafjörð, byggðir við Skagafjörð og Húnaflóa, alla Vestfirði, Vestur-, Suður- og Austurland. Miða þarf við að atvinna sé sameiginleg og þá er hægt að mynda öfluga byggðarkjarna sem geta verið eins sjálfstæðir og höfuðborgarsvæðið. Mælanleg markmið þarf og svo auðvitað að ákveða hvaða aðgerðir skuli fara í og hvernig skuli forgangsraða þeim.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagsráði að hefja vinnu við endurskoðun aðalskipulags með hliðsjón af aukinni eldvirkni í námunda við höfuðborgarsvæðið. Endurskoðuð verði vaxtarmörk borgarinnar með það fyrir augum að útvíkka afmörkun þéttbýlis innan Reykjavíkur. Jafnframt verði skilgreining aðalskipulags á uppbyggingarreitum fyrir nýja íbúðabyggð endurskoðuð, meðal annars svo unnt verði að auka íbúðamagn á Kjalarnesi og tryggja möguleika á nýrri byggð á svæðum aðliggjandi Sundabraut.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar átakshóps Reykjavíkur í húsnæðismálum. MSS24020062
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Forsendur aðalskipulags Reykjavíkur til ársins 2040 eru brostnar bæði vegna aukinnar eldvirkni í námunda við höfuðborgarsvæðið og vegna mannfjöldaþróunar.  Þess vegna er brýnt að endurskoða aðalskipulagið sem og vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins til að mæta breyttum veruleika. Þá er ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni þar til og ef annar betri kostur finnst, slíkt mun ekki verða að veruleika næstu fimmtán til tuttugu ár. Flýta þarf Sundabraut og endurskoða skipulag fyrir nýja íbúðabyggð meðfram brautinni, svokallaða Sundabyggð. Að teknu tilliti til síðustu mannfjöldaspár Hagstofunnar munu 40 til 50 þúsund manns bætast við í Reykjavík til ársins 2040. Þar er ekki tillit tekið til þeirrar stöðu sem nú er á Reykjanesskaga, þess óstöðugleika sem við búum nú við og munum líklega búa við næstu ár og áratugi. Sú staða kallar á nýja forgangsröðun. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins skora á átakshóp Reykjavíkurborgar um eflingu uppbyggingar íbúðarhúsnæðis næstu tvö ár að mæta þessum áskorunum með opnum hug og snúa af einstrengingslegri stefnu fyrri meirihluta í skipulagsmálum Reykjavíkur.

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti borgarstjórnar hefur þegar brugðist við erfiðum ytri aðstæðum á húsnæðismarkaði með stofnun átakshóps í húsnæðisuppbyggingu. Átakið byggir á grunni húsnæðisáætlunar borgarinnar sem hefur nýlega verið uppfærð, aðalskipulagi borgarinnar og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Fjöldi byggingarlóða og byggingarheimilda er fyrirliggjandi í samþykktu skipulagi og frekari skipulagsvinnu má hraða. Fjármagnskostnaður og aðrar hömlur á fasteignamarkaði eru hins vegar það sem er fyrst og fremst hamlandi fyrir uppbygginguna við núverandi aðstæður. Reykjavík mun vinna að því að auka og hraða uppbyggingu í húsnæðismálum, meðal annars með öflugri aðkomu óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga. Engin ástæða er hins vegar til að taka undir tillögur um að útvíkka vaxtarmörk Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins. Því er lagt til að fyrirliggjandi tillögum sé vísað til starfshóps um húsnæðisátak, með þeim fyrirvara að ekki standi til að útvíkka vaxtarmörk.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í árafjöld hefur verið viðvarandi húsnæðisskortur á Íslandi og alls ekki nægilega byggt af húsnæði. Flokkur fólksins styður alla uppbyggingu á húsnæði og þá sérstaklega íbúðarhúsnæði fyrir efnaminna fólk, en þar virðist húsnæðisvandinn vera hvað mestur. Víða í borgarlandinu eru uppbyggingarsvæði, Úlfarsárdalurinn og Grafarvogur sem dæmi, og þar eru einnig innviðir sem munu geta tekið við fólksfjölgun. Haldið er of fast um tauminn og þétting byggðar er orðin meira en eitthvað sem gagnast fólkinu. Horfa þarf til þess að brjóta nýtt land undir byggð. Átak í húsnæðismálum í Reykjavík er löngu tímabært. Flokkur fólksins hefur lengi bent á að of mikil stífni hafi ríkt í úthlutun lóða hjá þessum og síðasta meirihluta. Sjálfsagt hefur verið að þétta byggð víða í Reykjavík þar sem byggð er dreifð en það þarf meira til. Það þarf að brjóta nýtt land undir byggð og hafa meiri sveigjanleika við úthlutun lóða. Horfa þarf til atvinnutækifæra í hverfum mun meira en gert hefur verið. Reykjavík verður að finna leiðir til að bjóða fleiri lóðir til þeirra sem vilja og geta byggt hús og skipuleggja fleiri svæði til að byggja á. Það veltur á Reykjavík hvernig til tekst á húsnæðismarkaði.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarstjórn samþykkir að stofna embætti umboðsmanns borgarbúa að fyrirmynd þess sem var við lýði á árunum 2013-2020. Áhersla verði á stjórnskipulega stöðu umboðsmanns sem tryggi faglegt sjálfstæði óháð öðrum starfseiningum og embættismönnum Reykjavíkurborgar. Þá þarf að tryggja að sýnileiki umboðsmanns sé góður þannig að borgarbúar viti hvert sé hægt að leita. Starfsmannafjöldi þarf einnig að endurspegla fjölda mála sem berast embættinu þannig að hægt verði að leysa vel og fljótt úr málum. Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu verði falið að útfæra efni þessarar tillögu í samstarfi við aðra viðeigandi aðila innan borgarinnar. Einnig verði málið sett í samráðsgátt Reykjavíkurborgar og leitað eftir umsögnum borgarbúa við útfærslu þessarar tillögu.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Tillögunni er vísað frá með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS24020063

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Umboðsmaður borgarbúa var lagður niður í þeirri mynd sem hann var og færður til innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Sósíalistar lögðu til að embætti umboðsmanns borgarbúa yrði stofnað að fyrirmynd þess sem var við lýði á árunum 2013-2020. Áhersla yrði á stjórnskipulega stöðu umboðsmanns sem tryggi faglegt sjálfstæði óháð öðrum starfseiningum og embættismönnum Reykjavíkurborgar. Þá þarf að tryggja að sýnileiki umboðsmanns sé góður þannig að borgarbúar viti hvert sé hægt að leita. Starfsmannafjöldi þarf einnig að endurspegla fjölda mála sem berast embættinu þannig að hægt verði að leysa vel og fljótt úr málum. Tryggja þarf að upplifun borgarbúa sé sú að gengið sé að afmörkuðu embætti sem starfar í umboði borgarbúans fremur en stjórnvaldsins. Eftir sameiningu eftirlitseininga sem samþykkt var af meirihlutanum í borgarráði á síðasta kjörtímabili sameinuðust embætti umboðsmanns borgarbúa og persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar innri endurskoðun. Ljóst er að núverandi fyrirkomulag er ekki skýrt og aðgengilegt gagnvart borgarbúum. 

    Borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Um er að ræða mikilvægt lýðræðisverkefni sem ekki hefur verið lagt niður. Tillögunni er því vísað frá. Verkefnið var flutt undir innri endurskoðun, sem er sjálfstæður eftirlitsaðili, til að nýta þar samlegðaráhrif og efla starfið. Þar hefur verkefnið fengið heitið „ráðgjöf borgarbúa“. Stafrænt ráð ber samkvæmt samþykkt ábyrgð á stefnumótun í lýðræðismálum. Til stendur að ráðið fái kynningu á hvernig þetta ferli gengur og meti í kjölfarið hvort breyta þurfi áherslum. Það er mjög mikilvægt að þessi þjónusta og eftirlit séu til staðar og ekki síður mikilvægt að dreifa ekki rangfærslum um að það hafi verið lagt niður, sem grefur undan því að það nái  markmiði sínu.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins tekur undir tillöguna um að endurreisa embætti umboðsmanns borgarbúa eins og það var á árunum 2013-2020. Flokkur fólksins heldur að það hafi verið mistök að leggja af embættið. Verkefni umboðsmannsins voru flutt yfir til innri endurskoðunar og búinn til eins konar „ráðgjafi íbúa“ hjá því embætti. Án þess að ætla að gera lítið úr þessum þætti innri endurskoðunar þá er þjónusta þar alls ekki sambærileg þeirri sem fólk fékk hjá umboðsmanni borgarbúa. Innri endurskoðun aðstoðar ekki fólk t.d. við gerð skjala vegna málskots til æðra stjórnvalds eins og umboðsmaður borgarbúa gerði. Borgarbúum er ekki heldur hjálpað við að semja kærur þegar þeir eiga í samskiptum við Reykjavíkurborg. Dæmi eru um mál þar sem aðili/fyrirtæki telur borgina hafa brotið á sér og sem ekki hefur fengið fullnægjandi aðstoð hjá ráðgjafa innri endurskoðunar. Nefna má Loftkastalamálið en eigandi hans telur borgina hafa brotið illilega á sér og hefur málið velkst um í mörg ár. Það er enn óleyst og hefur valdið aðilum þess mikilli vanlíðan. Hver á að hjálpa borgarbúa núna sem ekki hefur ráð á lögfræðingi að semja kærur þegar hann telur borgina hafa brotið á sér?

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að finna lóð í borgarlandinu fyrir t.d. skandinavísk eða kanadísk einingahús fyrir þá Grindvíkinga sem vilja setjast að í Reykjavík í stað þess að snúa aftur til Grindavíkur þar sem mikil óvissa ríkir um framtíðarbúsetu vegna eldsumbrota og jarðhræringa.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Vísað til meðferðar átakshóps Reykjavíkur í húsnæðismálum. MSS24020064
    Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar Sabine Leskopf og borgarfulltrúi Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins lagði til að borgarstjórn samþykkti að finna lóðir fyrir fljótbyggð einingahús fyrir þá Grindvíkinga sem vilja mögulega setjast að í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn hyggst skoða tillöguna frekar. Vegna jarðhræringa og eldgosahættu á Reykjanesi hefur þurft að rýma alla Grindavík og ekki er vitað hvenær og þá yfir höfuð hvort hægt sé að snúa til baka. Grindvíkingar eru því í bráðri þörf fyrir ný heimili sem allra fyrst. Í kjölfar eldgossins í Heimaey í Vestmannaeyjum 1973 flúðu nær allir íbúar eyjunnar upp á land. Þetta eldgos hafði það í för með sér að eitthvað af íbúum eyjarinnar snéru ekki aftur og þurftu að finna sér ný heimkynni til framtíðar. Eitt af því sem Íslendingar gerðu þá til að mæta bráðum húsnæðisvanda Eyjamanna var að fá til landsins 550 timbureiningahús sem smíðuð voru á Norðurlöndum og í Kanada. Byggt var m.a. í Breiðholti, nánar tiltekið við Keilufell, þar sem reist voru 40. Í dag er þetta hverfi rómantískt og skemmtilegt hverfi lítilla einbýlishúsa sem sómi er af í borgarlandinu. Flokkur fólksins telur tilvalið að endurtaka leikinn og reisa einingahúsabyggð í þeim tilgangi að búa Grindvíkingum sem vilja búa í Reykjavík ný heimkynni.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um stöðu samgöngusáttmálans og sex mánaða skýrslu Betri samgangna ohf., sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. febrúar. MSS23010066

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Eins og sjá má í skýrslu Betri samgangna stendur ekki steinn yfir steini í framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans. Sáttmálinn snýst fyrst og síðast um átta stofnbrautarverkefni og sex lotur Borgarlínu. Nú þegar tæpur þriðjungur af fimmtán ára framkvæmdatíma sáttmálans er liðinn er engu þessara átta stofnbrautarverkefna lokið, en verklegar framkvæmdir eru einungis hafnar við eitt þeirra. Engu að síður kemur fram í skýrslu Betri samgangna að nú þegar hafi verið varið tæpum 3,4 milljörðum í þetta fyrirtæki. Skýrsluhöfundar sjá auðvitað enga ástæðu til að greina frá því í hvað þessi fjármunir hafi farið. Það vekur einnig athygli að skýrslan greinir hvergi frá kostnaðaráætlunum af neinum toga, rétt eins og ráðstöfun á almannafé skipti skýrsluhöfundana engu máli. Hvergi er heldur orði minnst á arðsemismat þó slíkt mat hafi um áratuga skeið verið grundvallarþáttur í öllum áætlunum um opinberar framkvæmdir. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Miklar verðhækkanir hafa orðið, einkum í verklegum framkvæmdum, auk þess sem ljóst er að kostnaðaráætlanir Borgarlínu voru vanáætlaðar. Tímalína er enn óljós af ýmsum ástæðum. Í raun má segja að þetta verkefni hafi tekið á sig allt aðra mynd en upphaflega var farið af stað með. Engin af þessum stærstu breytum halda, t.d. kostnaðaráætlun eða tímalína. Flokkur fólksins setti strax í upphafi spurningarmerki við þá miklu óvissu sem fylgir svo stóru verkefni. Flokkur fólksins hefur viljað að áhersla sé lögð á almenningssamgöngur, þær einu sem til eru, sem er Strætó bs. Öllum hlýtur nú að vera ljóst að langt er í að Borgarlína sem slík virki. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að farið var af stað í þessa bjartsýnisferð. Þjóðin hefur þurft að takast á við áföll, COVID og eldgos svo það helsta sé nefnt. Þessir þættir hafa áhrif á fjármálastöðugleika sem hlýtur síðan að hafa áhrif á framvindu samgöngusáttmála. Fulltrúa Flokks fólksins finnst stundum sem Betri samgöngur séu ekki alveg í tengslum við þann raunveruleika þegar félagið ræðir og kynnir stöðu Borgarlínu.

    Fylgigögn

  6. Umræðu um uppbyggingaráform á lóðinni Ægisíðu 102 er frestað. MSS22120052

  7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 8. febrúar. MSS24010001

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 23. lið fundargerðarinnar:

    Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þessar reglur of ferkantaðar. Gerðar eru athugasemdir við að skv. 3. gr. megi ekki lengur hafa formála að fyrirspurnum. Stundum er það einfaldlega nauðsynlegt og með því að banna það er verið að loka fyrir möguleikann á stuttum útskýringum með fyrirspurnum eða tillögum. Mikilvægt er að hafa sveigjanleika en ekki njörva niður hvert einasta atriði. Rök meirihlutans eru veikburða og er vísað til að skýrleiki fyrirspurna verði meiri ef ekki er formáli. Það er auðvitað fráleitt. Önnur rök eru að ef formáli er hafður þá tefji það afgreiðslu málsins sem er enn fráleitara. Eins og staðan er núna þá eru reglur mismunandi eftir hvaða ráð um ræðir. Það sem er leyft í einu ráði er bannað í öðru ráði. Stundum ræður geðþóttinn einn. Ritskoðun mála gengur oft of langt að mati fulltrúa Flokks fólksins. Minnihlutafulltrúum er t.d. meinað að bóka við mál sem er framvísað. Í raun og sann er aldrei hægt að meina fulltrúum að bóka um mál. Bókunarréttur borgarfulltrúa er firnasterkur.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 9. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. febrúar, velferðarráðs frá 31. janúar og 7. febrúar og skóla- og frístundaráðs frá 31. janúar.
    2. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga að breytingu á viðauka 2.6 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, síðari umræða, er samþykktur. MSS24010034

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    1. liður fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 31. janúar og 1. liður fundargerðar velferðarráðs frá 31. janúar. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá kynningu og fræðslu frá BUGL því þar á bæ hefur náðst árangur í að stytta biðlista. Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist árum saman fyrir því að tekið verði á sístækkandi biðlista barna til skólasálfræðinga og annarra fagaðila. Ljóst er að breyta þarf skipulagi og auka skilvirkni í vinnubrögðum fagfólks skólaþjónustunnar í Reykjavík. Það myndi breyta miklu upp á skilvirkni og skipulag ef aðsetur sálfræðinganna væri í skólunum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Nú bíða 2.086 börn eftir þjónustu en voru 400 árið 2018. Listinn lengist, þrátt fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn, sem hafði það að markmiðið að færa þjónustuna nær börnunum. Ljóst er að eitthvað er ekki að virka. Verklag er ekki skilvirkt. Fastráðnir sérfræðingar og verktakar ná ekki að vinna saman, ná ekki samfellu, eru tvístraðir og skortur er á eftirfylgni með málum verktaka. Það þarf að gera dýpri frumgreiningar, svo barn þurfi ekki að fara aftur á biðlista. Ef talmeinafræðings er þörf verður hans mat að koma strax inn, vera hluti af frumgreiningunni. Teymisvinna er góð ef hún er skilvirk, ef samvinnan er skilgreind. Auk þess skortir úrræði fyrir börn sem þurfa sértæka aðstoð.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 17:45

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 13.2.2024 - Prentvæn útgáfa