Borgarstjórn - Borgarstjórn 13.01.2026

Borgarstjórn - Borgarstjórn 13.01.2026

Borgarstjórn

Ár 2026, þriðjudaginn 13. janúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Skúli Helgason, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Þorvaldur Daníelsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og mannréttindamálum 2023-2026, sbr. 6. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 9. janúar 2026. MSS23010102

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Aðgerðaáætlunin í jafnréttis- og mannréttindamálum 2023-2026 er afar mikilvægt verkfæri sem tryggir að borgin sem stjórnvald, atvinnurekandi, veitandi þjónustu og samstarfsaðili fylgi markmiðum mannréttindastefnu borgarinnar. Af 103 aðgerðum eru 46 innleiddar í verklag eða viðvarandi, 28 er lokið, 18 eru í vinnslu, níu vel á veg komnar og einungis tvær ekki hafnar en á áætlun fyrir árið 2026. Afar ánægjulegt er hversu vel hefur tekist að framfylgja þessari aðgerðaáætlun en mikilvægt er að huga að áframhaldandi starfi og endurskoðun á aðgerðum og stefnumótun.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn þakkar fyrir umræðuna og styður málið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fella út úr Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 framlengingu Hallsvegar að Vesturlandsvegi. Í framhaldi verði gerð viðeigandi breyting á skipulagsuppdráttum og greinargerð aðalskipulagsins þannig að ekki sé gert ráð fyrir tengingu Hallsvegar við Vesturlandsveg.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS26010081

    Lögð fram málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um að tillögunni verði vísað til umfjöllunar hjá umhverfis- og skipulagsráði. 
    Tillagan kemur ekki til atkvæðagreiðslu.

    Samþykkt að vísa tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það eru vonbrigði að meirihluti vinstriflokkanna hafi vísað frá tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fella út úr Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 framlengingu Hallsvegar að Vesturlandsvegi. Með því er meirihlutinn að halda inni í aðalskipulagi áformum sem geta leitt til þess að Hallsvegur breytist úr hverfisgötu í þunga umferðaræð, sérstaklega í ljósi fyrirhugaðrar Sundabrautar og annarra tenginga við Vesturlandsveg. Engu skiptir hvort Sundabraut verði í göngum eða yfir brú; tenging Hallsvegar við Vesturlandsveg mun skerða lífsgæði í Grafarvogi. Íbúar Grafarvogs hafa ítrekað lýst áhyggjum af því að umferð um Hallsveg muni margfaldast ef tenging frá Víkurvegi að Vesturlandsvegi verði gerð. Nú þegar er Hallsvegur nýttur innan hverfisins og liggur nærri íþróttasvæði Fjölnis og sundlaug Grafarvogs. Þá fara börn til skóla milli hverfa og yfir veginn. Aukin bílaumferð og meiri hraði myndi grafa undan umferðaröryggi barna og ungmenna, skerða hverfisgæði og auka hljóðmengun. Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að standa gegn því að umferðaræð liggi í gegnum gróið íbúðahverfi og harmar afstöðu Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalista, Vinstri grænna og Flokks fólksins sem eru með þessu að taka skýra afstöðu gegn hagsmunum Grafarvogsbúa.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Með þessu er ekki verið að vinna gegn hagsmunum Grafarvogsbúa. Líkt og kom fram í umfjöllun um tillöguna er ekki tímabært að taka afstöðu til tillögu Sjálfstæðisflokksins.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirhuguð uppbygging nýrra hverfa í Grafarvogi og í hlíðum Úlfarsfells kallar á samgönguskipulag sem þjónar hverfunum sem best. Sömuleiðis er skipulag Sundabrautar ennþá óákveðið. Við teljum af þeim sökum ótímabært að breyta aðalskipulagi hvað varðar legu Hallsvegar og vísum því tillögunni frá. Skoða þarf betur hvaða leiðir eru færar og hvaða möguleikar eru opnir. Við tökum hins vegar heilshugar undir að Hallsvegur verði mannvæn borgargata, hvernig svo sem lega hans verður í framtíðinni.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður tillögu um framlengingu á Hallsvegi verði tekin úr Aðalskipulagi Reykjavíkur. Með tilkomu Sundabrúar/Sundagangna getur umferð um Hallsveg margfaldast af Vesturlandsvegi sem myndi auka álag inn í hverfið, en umferð um Hallsveg er þegar mikil. Framsókn harmar að meirihluti samstarfsflokkanna vísi tillögunni frá í stað þess að samþykkja málsmeðferðartillögu okkar Framsóknar að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs til frekari umræðu.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu 2026-2028, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. janúar 2026. MSS26010045

    -    Kl. 14:37 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum og Ásta Björg Björgvinsdóttir víkur af fundi. 
    -    Kl. 14:49 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi og Sandra Hlíf Ocares tekur sæti.

    Samþykkt. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Lýðheilsa er grunnstoð í velferð og lífsgæðum borgarbúa. Hún snýst ekki aðeins um að koma í veg fyrir sjúkdóma, heldur um að skapa umhverfi sem styður við heilsu, vellíðan og jöfnuð. Borgir sem leggja áherslu á lýðheilsu verða ekki aðeins heilbrigðari – þær verða sjálfbærari, öflugri og betri til búsetu fyrir alla aldurshópa. Þess vegna er mikið ánægjuefni að hér sé samþykkt aðgerðaáætlun til næstu tveggja ára til að ná markmiðum lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar. Lýðheilsa er stefnumarkmið sem skilar alvöru lífsgæðum, hamingjusömum íbúum og hamingjusamri borg. Það er ávinningur sem bætir líf allra og eykur virði þess að búa í Reykjavík.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn styður aðgerðir til þess að auka lýðheilsu í Reykjavík. Sérstaklega er mikilvægt að ráðast í aukinn stuðning við starfsfólk Reykjavíkurborgar með það að markmiði að draga úr veikindahlutfalli. Framsókn telur þó að betur hefði mátt skýra í þessu skjali hver kostnaður við aðgerðirnar eru.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:

    1. Greiðslur til fjölskyldna vegna fáliðunar: Fjölskyldum sem verða fyrir skerðingu á leikskóladvöl barna sinna vegna fáliðunaraðgerða í leikskólum verði greitt heim frá Reykjavíkurborg. Í þeim leikskólum þar sem gripið hefur verið til fáliðunaráætlunar vegna manneklu skulu foreldrar fá greiðslur frá borginni til að mæta því tekjutapi sem skerðing á vistun veldur. Greiðslur nemi 20.000 krónum á barn fyrir hvern dag sem fáliðun stendur yfir. 2. Samstarf við menntastofnanir um fjölgun leikskólastarfsfólks: Reykjavíkurborg óski eftir samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og framhaldsskóla sem bjóða upp á nám til leikskólaliða, með það að markmiði að fjölga leikskólastarfsfólki. Skoða þarf hvort Reykjavíkurborg geti orðið að liði þegar kemur að því að fjölga starfsfólki leikskóla. 3. Samtal við menntastofnanir um vinnu með námi: Reykjavíkurborg hefji formlegt samtal við framangreinda skóla um hvernig borgin geti stuðlað að fjölgun nema. Skoðað verði sérstaklega hvort skipuleggja megi kennslu í leikskólakennslufræði og námi til leikskólaliða með þeim hætti að nemendur geti samhliða námi starfað í hlutastarfi á leikskólum borgarinnar. 4. Fjölgun sumarstarfsfólks vinnuskólans í leikskólum: Stöðugildum í sumarstörfum á vegum Vinnuskóla Reykjavíkurborgar í leikskólum verði fjölgað til að kynna fleiri ungmennum leikskóla sem mögulegan starfsstað til framtíðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS26010082

    -    Kl. 16:30 víkur Skúli Þór Helgason af fundi og Birkir Ingibjartsson tekur sæti.

    Fyrsti töluliður tillögunnar er felldur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn fjórum atkvæðum borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Samþykkt að vísa öðrum tölulið tillögunnar til skóla- og frístundaráðs.
    Samþykkt að vísa þriðja tölulið tillögunnar til skóla- og frístundaráðs. 
    Samþykkt að vísa fjórða tölulið tillögunnar til umhverfis- og skipulagsráðs.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn harmar að meirihlutinn skuli ekki vilja styðja foreldra með greiðslum vegna fáliðunar en fagnar þó að ákveðið var að vísa aðgerðum 2, 3 og 4 áfram til frekari vinnslu í fagráðum borgarinnar. Fjölgun starfsfólks í leikskólum er lykilverkefni borgarstjórnar. Brýnt er leita allra leiða til að fjölga starfsfólki í leikskólum og að ráðast í aðgerðir til að bæta starfsaðstæður í leikskólum. Í leikskólum borgarinnar hefur verið gripið til svokallaðra fáliðunaraðgerða til að mæta viðvarandi manneklu en þær eru verulega íþyngjandi fyrir þær fjölskyldur sem lenda í viðvarandi fáliðunaraðgerðum. Á leikskólanum Funaborg er t.a.m. gert ráð fyrir að börn þurfi að vera heima í 32 daga á vorönn 2026. Ofan á það kemur 20 daga sumarfrí en hinn hefðbundni launþegi á rétt á 25-30 daga leyfi á ári. Það er íþyngjandi fyrir þær fjölskyldur og því er leitt að meirihlutinn sé ekki tilbúinn til þess að mæta foreldrum sem lenda í fáliðun á meðan unnið er að því að ráða starfsfólk í leikskóla borgarinnar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsóknarflokkurinn leggur til fjórar tillögur sem hann telur að geti bætt mönnun og unnið gegn fáliðun í leikskólum Reykjavíkur. Þrjár tillögur eru góðra gjalda verðar og snúa í raun að verkefnum sem þegar eru í gangi og hafa gefist vel en það er alltaf gott að taka stöðuna á þeim og sjá hvort gera megi betur eða öðruvísi. Þetta eru tillögur sem ganga út á að nemendur geti með námi sínu unnið hlutastörf í leikskólum, að fjölgað sé sumarstörfum á vegum Vinnuskólans og að farið sé í samstarf við háskóla og framhaldsskóla um að fjölga leikskólakennurum og leikskólaliðum. Þessum þremur tillögum er vísað til umsagnar og meðferðar í tveimur fagráðum sem fara með málaflokkinn. Tillaga um greiðslur til fjölskyldna vegna fáliðunar er hins vegar vanhugsuð, óútfærð og afar kostnaðarsöm og ekki verður séð að sú tillaga geti skapað stöðugleika eða fjölgun starfsfólks í leikskólum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:

    Lagt er til að breytingar verði gerðar á gr. 5.4 í gildandi eigandastefnu Reykjavíkurborgar þannig að tilnefning og kosning fulltrúa í stjórnarsæti einkaréttarlegra fyrirtækja borgarinnar verði alfarið óháðar eigandanum. Í þessu felst sú breyting að kjörnir fulltrúar Reykjavíkur og starfsmenn Reykjavíkurborgar verði ekki tilnefndir í stjórnir. Tillagan er í samræmi við góða stjórnarhætti, leiðbeiningar Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallar ásamt leiðbeiningum OECD um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja. Lagt er til að breyting á gr. 5.4 í almennu eigandastefnunni verði breytt og taki breytingarnar gildi á næsta kjörtímabili við tilnefningar í stjórnir í júní 2026. Fjármálaráðherra tók af skarið á síðasta ári og tilnefndi einungis óháða einstaklinga í stjórnir stærri fyrirtækja í eigu ríkisins. Tillagan felur í sér að Reykjavíkurborg stígi næsta skref í innleiðingu góðra stjórnarhátta og fari að fordæmi ríkisins og tilnefni einvörðungu óháða einstaklinga í stjórnir fyrirtækjanna.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS26010084

    -    Kl. 17:01 víkur Sandra Hlíf Ocares af fundi og Birna Hafstein tekur sæti.

    Tillagan er felld með 16 atkvæðum Guðnýjar Maju Riba og Sabine Leskopf borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn fjórum atkvæðum Dóru Bjartar Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, borgarfulltrúa Pírata og borgarfulltrúa Viðreisnar.
    Birkir Ingibjartsson, Heiða Björg Hilmisdóttir og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn telur óþarfi að ganga lengra en núverandi eigendastefna gerir ráð fyrir. Í dag er borgin með blandað kerfi af háðum og óháðum fulltrúum sem tryggir möguleika kjörinna fulltrúa til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu lögum samkvæmt.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins eru þeirrar skoðunar að opinber fyrirtæki eigi að hafa fólk í stjórn sem ber umfram allt hagsmuni borgaranna fyrir brjósti, sem eigenda fyrirtækjanna og sem treysta á þjónustu þeirra. Það er best gert með því að hafa fulltrúa í stjórnum sem hafa umboð sitt frá kjósendum og sæta ábyrgð gagnvart þeim. Fulltrúarnir benda á að með því að fara eftir leiðbeiningum gefnum út af hagsmunasamtökum atvinnulífsins við það að skipa svokallaða óháða stjórnarmenn séu hagsmunir atvinnulífsins tryggðir langt umfram hagsmuni íbúa. Fulltrúarnir kjósa því gegn tillögunni.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að ráðist verði í breytingu á aðalskipulagi, sem heimili rekstur matvöruverslunar á reit M9c (Bauhaus-reit), sem er á skilgreindu miðsvæði við Lambhagaveg og Vesturlandsveg. Nú er óheimilt að vera með matvöruverslun á umræddum reit samkvæmt aðalskipulagi.

    Greinargerð fylgir tillögunni. MSS24110023
    Tillögunni er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Þorvaldar Daníelssonar og Aðalsteins Hauks Sverrissonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar og borgarfulltrúar Framsóknarflokksins Magnea Gná Jóhannsdóttir og Unnur Þöll Benediktsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  7. Samþykkt að fresta umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Þorvaldar Daníelssonar og Aðalsteins Hauks Sverrissonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar og Magnea Gná Jóhannsdóttir og Unnur Þöll Benediktsdóttir borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25110070

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri.

    MSS25090069
    Tillögunni er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Þorvaldar Daníelssonar og Aðalsteins Hauks Sverrissonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar og borgarfulltrúar Framsóknarflokksins Magnea Gná Jóhannsdóttir og Unnur Þöll Benediktsdóttir sitja hjá við afgreiðslu málsins.

  9. Umræðu um öryggismál á skiptistöðinni í Mjódd er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn átta atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Þorvaldar Daníelssonar og Aðalsteins Hauks Sverrissonar borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.
    Borgarfulltrúi Viðreisnar og Magnea Gná Jóhannsdóttir og Unnur Þöll Benediktsdóttir borgarfulltrúar Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25120075

  10. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. desember 2025 og 8. janúar 2026. MSS26010002
    4. liður fundargerðar borgarráðs frá 18. desember 2025, tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir göturými Suðurlandsbrautar frá gatnamótum við Skeiðarvog og til vesturs að gatnamótum við Lágmúla, er samþykktur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. USK24090201

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. desember:

    Að baki deiliskipulagstillögu fyrir fyrstu lotu Borgarlínu á Suðurlandsbraut milli Kringlumýrarbrautar og Skeiðarvogs liggur mikil greiningarvinna samgönguverkfræðinga Betri samgangna og borgarinnar. Umtalsvert samráð hefur verið haft við lóðarhafa og verður því haldið áfram. Fyrirkomulagið sem tillagan gerir ráð fyrir mun að áliti samgönguverkfræðinganna leiða til nauðsynlegra samgöngubóta á Suðurlandsbraut en búast má við að mun fleiri leggi leið sína þarna um í nálægri framtíð. Vegna umræðu um bílastæðamál er rétt að vekja athygli á því að í dag eru 1600 bílastæði á svæðinu, þeim mun fækka um 160, eða 10%, og nær eingöngu á landi í eigu borgarinnar. Benda má á að lóðarhafar hafa í flestum tilvikum heimildir til að byggja bílastæðahús á baklóðum og fjölga þannig bílastæðum á sínum lóðum. Tillagan er í samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2040. Hún er einnig í samræmi við yfirlýsta stefnu borgarinnar um að efla virka og vistvæna samgöngumáta. Við teljum tillöguna framfaraskref borgarbúum til hagsældar. Nú er komið að borgarbúum og hagsmunaaðilum að senda inn athugasemdir og spurningar því tillagan verður nú auglýst í umsagnarferli.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. desember:

    Ekki kemur fram í deiliskipulagsgögnum vegna Borgarlínu, 1. lotu – Suðurlandsbraut, hve mörg bílastæði við götuna hverfa við deiliskipulagsbreytinguna. Meirihluti vinstriflokkanna vísar til þess að talning sýni 1.600 bílastæði á og við lóðir Suðurlandsbrautar 4-32 og að áætluð fækkun verði einungis um 160 stæði (10%). Þessar tölur ganga þó ekki upp þegar þær eru bornar saman við talningar í gögnum borgarinnar sjálfrar. Þar er ljóst að að minnsta kosti 355 bílastæði hverfa eða verða ónothæf. Einnig er ljóst að um 230 stæði af þeim 1.600 sem talin eru á og við lóðir Suðurlandsbrautar 4-32 eru m.a. við Ármúla og Vegmúla. Deiliskipulagsgögnin eru því ófullnægjandi og ætti að hafna þeim.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Endanleg útfærsla á bílastæðum við Suðurlandsbraut liggur ekki fyrir, en þetta skipulag fjallar fyrst og fremst um legu Borgarlínu.

    Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. desember:

    Framsókn hafnar þessari útfærslu á legu Borgarlínunnar um Suðurlandsbraut. Um er að ræða alvarlega aðför að þjónustu- og verslunarrekstri á svæðinu, þar sem fjölmörg fyrirtæki hafa starfað og byggt upp starfsemi sína í áratugi. Nú þegar er mikill skortur á bílastæðum á svæðinu. Þessi tillaga er reist á óraunsærri sýn á samgöngumál og mikilvægi Suðurlandsbrautar sem einnar af lykilumferðaræðum borgarinnar. Fyrirliggjandi hugmyndir taka hvorki mið af nauðsynlegu aðgengi né viðkvæmum rekstraraðstæðum þessara fyrirtækja þar sem fækkun bílastæða er veruleg, og horfa fram hjá þeim samfélagslegu og efnahagslegu áhrifum sem slík truflun hefði í för með sér. Framsókn greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar þess að ný útfærsla sé unnin enda styður Framsókn samgöngusáttmálann og verkefni hans.

    Fylgigögn

  11. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 9. janúar, mannréttindaráðs frá 10. desember, menningar- og íþróttaráðs frá 12. desember, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. desember og velferðarráðs frá 17. desember 2025. MSS26010022 
    3. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 9. janúar, viðauki við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019, seinni umræða, sbr. 19. lið fundargerðar borgarstjórnar 16. desember 2025, er samþykktur.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010279

    Fylgigögn

  12. Fram fer kosning í umhverfis- og skipulagsráð. Lagt er til að Magnús Davíð Norðdahl taki sæti í umhverfis- og skipulagsráði í stað Alexöndru Briem. Jafnframt er lagt til að Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns taki sæti sem varafulltrúi í ráðinu stað Söru Bjargar Sigurðardóttur.
    Samþykkt. MSS22060046

Fundi slitið kl. 19:55

Sanna Magdalena Mörtudottir Líf Magneudóttir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 13.01.2026 - Prentvæn útgáfa