Borgarstjórn - Borgarstjórn 12.2.2013

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2013, þriðjudaginn 12. febrúar, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra, Dags. B. Eggertssonar, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Karl Sigurðsson, Óttarr Ólafur Proppé, Eva Einarsdóttir, Einar Örn Benediktsson, Páll Hjalti Hjaltason, Oddný Sturludóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sóley Tómasdóttir. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 5. febrúar 2013:

Lagt er til að fjármögnun Hörpu verði endurskoðuð með eftirfarandi hætti:

1. Samþykkt verði árleg viðbótarframlög eigenda til Hörpu árin 2013-2016 að fjárhæð 160 m.kr. sem skiptist á eigendur í eignarhlutföllum að Hörpu.

2. Samþykkt verði að umbreyta eigendalánum að fjárhæð 794 m.kr. í stofnframlög til Hörpu sem skiptist á eigendur í eignarhlutföllum að Hörpu.

3. Samþykkt verði að veita borgarstjóra heimild til að undirrita þríhliða samkomulag milli Reykjavíkurborgar, ríkis og Hörpu um ofangreind atriði.

Hlutur Reykjavíkurborgar í viðbótarframlagi árið 2013, 73,6 m.kr. verði fjármagnaður af ófyrirséðu, kostnaðarstað 09205. Gera verður ráð fyrir þessari breytingu við gerð fjárhagsáætlana 2014-2016. Greinargerð fylgir tillögunni.

- Kl. 14.05 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 16.06 tekur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur.

Samþykkt með 10 atkvæðum gegn 5.

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu hefur nú verið tryggður til framtíðar með viðbótarframlögum á árunum 2012–2016 og aukins stofnfjár. Algjör endurskipulagning hefur farið fram á stjórnskipulagi Hörpu, félög hafa verið sameinuð þannig að eftir mun standa eitt félag sem er ábyrgt fyrir húsinu og rekstrinum, Harpa. Ítarleg rýning hefur verið gerð á rekstri hússins og í kjölfar þess hefur verið lögð fram raunhæf rekstrar- og aðgerðaáætlun til fimm ára. Rekstur hefur verið endurskipulagður þannig að rekstarbati nemur um 250 milljónum króna á tímabilinu 2012-2016. Áætlanir miða við raunhæfar rekstraraðgerðir og hófstilltar tekjuspár. Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús hefur sannað menningarlegt gildi sitt. Húsið hefur haft jákvæð áhrif á tónlistarlíf borgarinnar og er orðið eitt helsta kennileiti hennar. Markaðssetning Hörpu sem ráðstefnuhúss er í fullum gangi og finna þeir sem að því standa fyrir miklum áhuga. Það er því ljóst að með endurskipulagningu rekstrar, bættum rekstraráætlunum og tímabundnu viðbótarframlagi er rekstrargrundvöllur Hörpu traustur og starfsemi í húsinu getur blómstrað til framtíðar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Þegar framtíð Hörpunnar var ákveðin árið 2009 var skýrt að ekki kæmi til frekari viðbótarframlags en ákveðið hafði verið með samningi ríkis og borgar árið 2004. Sé rekstur hússins nú fjórum árum síðar komin í svo þrönga stöðu er eðlilegra að mæta því með einföldun og hagræðingu í rekstri og stjórnun hússins. Að auki á aðkoma ríkis og borgar ekki að fjármagna rekstur, heldur byggingu hússins, líkt og fram kemur 2. málsgrein eigendastefnunnar þar sem orðrétt segir að ,,rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu skal standa undir sér þannig að ekki þurfi að koma til frekari opinberra framlaga. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja því ekki tillögu um viðbótarframlag og telja hana brjóta í bága við það sem áður var ákveðið og var ein meginforsenda þess að gengið var til þess að halda áfram með byggingu Hörpunnar.

2. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 29. janúar 2013, með beiðni um staðfestingu á ákvörðun stjórnar um sölu fasteigna Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og Réttarháls. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 4. febrúar 2013.

- Kl. 16.30 víkja Björk Vilhelmsdóttir og Oddný Sturludóttir af fundinum og Hjálmar Sveinsson og Eva H. Baldursdóttir taka þar sæti.

Samþykkt með 10 atkvæðum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir því að húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og Réttarháls verði selt og að starfsemin verði flutt í ódýrara húsnæði. Heildarkostnaður við Orkuveituhúsið nemur 9,8 milljörðum króna á núverandi verðlagi en ,,söluverð“ þess samkvæmt fyrirliggjandi tillögu nemur 5,1 milljarði króna. Ef litið er svo á að um sölu á húsinu sé að ræða felur það því í sér feiknarlegt tap fyrir Orkuveituna. Að ýmsu leyti hefur fyrirliggjandi sölusamningur yfirbragð lánssamnings til 10-20 ára og í því ljósi má segja að Orkuveitan sé í raun að taka dýrt lán. Kaupverð er langt undir endurstofnverði og vaxtakjör eru mun lakari en Orkuveitan og Reykjavíkurborg njóta nú á lánum sínum.

- Kl. 16.45 víkur Einar Örn Benediktsson af fundi og Sigurður Björn Blöndal tekur þar sæti.

3. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 7. febrúar.

- 39. liður fundargerðarinnar, uppsetning útilistaverks Rafael Barrios í Borgartúni, samþykkt með 14 atkvæðum gegn 1.

4. Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að taka á dagskrá kosningu fulltrúa í heilbrigðisnefnd.

Samþykkt með 15 samhljóða atkvæðum að Einar Örn Benediktsson taki sæti Sigurðar Eggertssonar í heilbrigðisnefnd og að Sigurður taki sæti Karls Sigurðssonar sem varamaður í nefndinni.

5. Lagðar fram fundargerðir mannréttindaráðs frá 22. janúar, íþrótta- og tómstundaráðs frá 1. febrúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. febrúar og skóla- og frístundaráðs frá 6. febrúar.

Fundi slitið kl. 16.55

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Gísli Marteinn Baldursson Karl Sigurðsson

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 12.02.13