Borgarstjórn - Borgarstjórn 12.12.2023

Borgarstjórn

Ár 2023, þriðjudaginn 12. desember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Jóhanna Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birna Hafstein, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Heiða Björg Hilmisdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Líf Magneudóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer umræða um niðurstöður úr PISA könnuninni 2022.

    -    Kl. 13:05 tekur Björn Gíslason sæti á fundinum og Birna Hafstein víkur. SFS23120025

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn tekur alvarlega þær niðurstöður sem birtast í PISA könnuninni sem mælir menntakerfi landsins. Við viljum taka höndum um þá þætti sem niðurstöður PISA sýna að hægt sé að bæta. Við erum stolt af því að börnum líður vel í skólastarfi okkar og að þau mælast hærra í þrautseigju og lægra í streitu en almennt gerist. Við teljum að menntastefna okkar sé öflug og að áhersla á að rækta tilfinningar og sjálfsskilning komi vel fram. Meirihlutinn mun fá fagfólk á sviði menntamála til að greina niðurstöðurnar og í framhaldinu koma með tillögur um hvernig við getum horft til framtíðar til að hækka röðun okkar en ekki síður til þess að efla börnin í skólum okkar enn frekar.

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Niðurstöður úr PISA 2022 valda áhyggjum enda sýna þær versnandi árangur reykvískra skólabarna, en þau mælast undir OECD meðaltali og Norðurlanda meðaltali í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Fyrir liggur að lægra hlutfall drengja en stúlkna nær grunnhæfni í bæði lesskilningi og læsi á náttúruvísindi. Þá vekur það töluverðar áhyggjur að nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma verr út úr könnuninni. Merki eru um að ójöfnuður aukist hvað varðar PISA námsárangur á Íslandi, einkum í lesskilningi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að bregðast við stöðunni, m.a. með því að gefa skólastjórnendum kost á að rýna sundurgreindar niðurstöður PISA 2022 fyrir eign skóla. Niðurstöðurnar gætu reynst sérhverjum skóla mikilvægt tól til að meta vankanta í skólastarfi og ráðast í umbætur. Bæði Eistland, sem mælist efst Evrópuþjóða, og Finnland, sem mælist efst Norðurlandaþjóða, birta skólastjórnendum slíkar upplýsingar og álíta þær gagnlegt tól til framfara. Reykvískir skattgreiðendur munu á næsta ári verja rúmlega 73 milljörðum í skólakerfið í borginni, en það hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að málþroska og læsi. Það er eðlilegt að borgarstjórn geri þá kröfu að kerfin sem við stýrum og fjármögnum skili árangri í þágu barnanna í borginni.

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Aukin misskipting veldur samkeppnismiðuðu samfélagi á kostnað samkenndar og samheldni. Hún elur af sér þjóðfélag sem krefst einstaklingsbundinnar þrautseigju, en veldur niðurbroti samfélagslegrar seiglu. Sósíalistum þykir greinilegt að niðurstöður PISA könnunar staðfesti grunsemdir um þessi áhrif og vara við því ef ekki verður brugðist við vandanum í rót hans. Þetta er alvarleg óheillaþróun þar sem samfélög sem eru hrjáð af vaxandi misskiptingu einkennast af síversnandi lífsskilyrðum æ stækkandi hóps fátækra, hóps sem skipaður er börnum í hærra hlutfalli en meðal þeirra sem sjá hag sinn og auð dafna; þau einkennast einnig af hærri glæpa- og ofbeldistíðni og öðrum neikvæðum samfélagslegum áhrifum. Sveitarfélögum ber að standa vel að námi barna og ungmenna og fjármagna starfið og skipuleggja það þannig að öll börn búi sannanlega við það að geta lært og notið sín til fulls óháð íþyngjandi félagslegum eða efnahagslegum aðstæðum.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það var áfall að sjá niðurstöður PISA sem komu þó fæstum á óvart. Í hverju felast mistökin og hvernig ætlar Reykjavíkurborg að læra af þeim? Það hlýtur að þurfa að rýna í aðferðir lestrarkennslu, nálgun og samsetningu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að vandinn sé margþættur en mest þó að skort hefur miðlæga stýringu og samræmt mat lestrarkennslunnar. Engin pólitísk ákvörðun hefur verið tekin og því eru þessi mál í raun stefnulaus. Hver og einn skóli er að fóta sig með sína samsetningu, sitt lítið af hverju, hljóðaaðferð að hluta, byrjendalæsi að hluta sem ekki er gagnreynd aðferð. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að innleiða Kveikjum neistann sem er eina heildstæða rannsóknarverkefnið í gangi í dag sem skilað hefur marktækum árangri. Það sætti því undrun þegar fram kom í svari frá skóla- og frístundasviði að enginn skóli í Reykjavík hafi sýnt verkefninu áhuga. Þættir eins og farsími, samfélagsmiðlar og minnkandi notkun íslenskunnar hafa neikvæð áhrif. Skóla- og frístundasvið hefur ekki getað tekið afstöðu til þess hvort banna eigi síma í skólastofunni. Stuðningur við foreldra hefur einnig verið vanræktur. Þeir þurfa fræðslu og hvatningu um mikilvægi þess að börn þeirra lesi daglega til að viðhalda lestrarfærni og þróa lesskilning.

    Borgarfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Niðurstöður Íslands í PISA könnuninni kalla vissulega á viðbrögð allra sem bera ábyrgð á menntun barna. Hins vegar ber að hafa í huga að PISA mælir skólakerfi landa og samanburð þeirra við önnur lönd. Kannanirnar segja okkur hvar við erum stödd í þeim samanburði en ekki af hverju og ekki hvað þarf að gera til að ráðast í umbætur. Slíkt liggur í höndum okkar að meta og gera og í þeirri vinnu verður að horfa heildstætt á allar aðgerðir og ákvarðanir sem teknar eru á sviði menntamála; styðjast við rannsóknir og mælingar og menntavísindalega nálgun. Reykjavíkurborg getur tileinkað sér margar ábendingar sem fylgja íslensku greinargerðinni með niðurstöðunni og stutt betur við þá þætti sem bent er á og ráðist strax í margþættar umbætur sem lengi hefur verið kallað eftir. Hafa þarf í huga að gott og þroskandi menntakerfi þar sem börnum líður vel og þar sem þau dvelja á sínum forsendum er ekki einstakt átaksverkefni heldur samvinna margra og langhlaup. Um þetta þarf að ríkja sátt til framtíðar og við þannig markmið skulu aðgerðir okkar miðast.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Borgarstjórn samþykkir að beina því til skóla- og frístundasviðs að kalla eftir því við Menntamálastofnun að teknar verði saman sundurgreindar niðurstöður úr PISA könnuninni 2022 niður á hvern þátttökuskóla í Reykjavík. Í framhaldinu óski sviðið eftir aðgangi að upplýsingunum og geri þær aðgengilegar skólastjórnendum og skóla- og frístundaráði. Niðurstöðurnar verði notaðar sem mælitæki til að meta árangur einstakra skóla, meta hvar úrbóta reynist þörf og setja grunnskólum borgarinnar mælanleg markmið í þágu umbóta og framfara.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt með 22 atkvæðum Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS23120025

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Allar upplýsingar um PISA þurfa að liggja á borðinu til að hægt sé að læra af þeim. Gagnsæi er bara sjálfsagt í lýðræðisríki. Hver er tilgangurinn með því að halda upplýsingum frá almenningi? Við verðum að horfast í augu við þessar niðurstöður og nota allar upplýsingar könnunarinnar til að byggja undir nýjar ákvarðanir sem leiða vonandi til betri árangurs. Það hlýtur að vera gríðarlega mikilvægt fyrir hvern og einn skóla, yfirvöld og einnig foreldra að geta rýnt í sundurgreindar upplýsingar um árangur hvers skóla í einstökum greinum til að draga af þeim lærdóm. Við vitum að gögnin varpa mögulega ekki með skýrum hætti ljósi á niðurstöður einstakra skóla en eru engu að síður mikilvæg. Það hlýtur að vera gagnlegt fyrir skólana að fá endurgjöf og sjá hvernig einstakir skólar standa og hvernig einstaka sveitarfélög standa sig. Þar með er hægt að sjá hvar gera þarf betur og læra af þeim sem eru að gera vel. Meiri upplýsingar eru ávallt af hinu góða og eina leiðin til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun.

    Fylgigögn

  3. Samþykkt að taka á dagskrá svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Borgarstjórn samþykkir að fela skóla- og frístundaráði að gangast fyrir opinni umræðu og ítarlegri greiningu á niðurstöðum PISA sem hluta af undirbúningi á innleiðingaráætlun menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, fyrir árin 2025-27. Fulltrúar fagfólks, nemendur og foreldrar verði kallaðir til auk valinna innlendra og erlendra sérfræðinga í menntamálum. Næsta innleiðingaráætlun menntastefnunnar, 2025-2027, byggi meðal annars á niðurstöðu þessarar vinnu.

    Samþykkt. 

    Lögð fram svohljóðandi viðaukatillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna:

    Borgarstjórn samþykkir að fela skóla- og frístundaráði að gangast fyrir opinni umræðu og ítarlegri greiningu á niðurstöðum PISA og TALIS sem hluta af undirbúningi á innleiðingaráætlun menntastefnu Reykjavíkur, Látum draumana rætast, fyrir árin 2025-27. Fulltrúar fagfólks, nemendur og foreldrar verði kallaðir til auk valinna innlendra og erlendra sérfræðinga í menntamálum. Næsta innleiðingaráætlun menntastefnunnar, 2025-2027, byggi meðal annars á niðurstöðu þessarar vinnu.

    Samþykkt.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það var áfall að sjá niðurstöður PISA sem komu þó fæstum á óvart. Í hverju liggja mistökin og hvernig ætlar Reykjavíkurborg að læra af þeim? Það hlýtur að þurfa að rýna í aðferðir lestrarkennslu, nálgun og samsetningu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að vandinn sé margþættur en mest þó að skort hefur miðlæga stýringu og samræmt mat lestrarkennslunnar. Engin pólitísk ákvörðun hefur verið tekin og því eru þessi mál í raun stefnulaus. Hver og einn skóli er að fóta sig með sína samsetningu, sitt lítið af hverju, hljóðaaðferð að hluta, byrjendalæsi að hluta sem ekki er gagnreynd aðferð. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt til að innleiða Kveikjum neistann sem er eina heildstæða rannsóknarverkefnið í gangi í dag sem skilað hefur marktækum árangri. Það sætti því undrun þegar fram kom í svari frá skóla- og frístundasviði að enginn skóli í Reykjavík hafi sýnt verkefninu áhuga. Þættir eins og farsími, samfélagsmiðlar og minnkandi notkun íslenskunnar hafa neikvæð áhrif. Skóla- og frístundasvið hefur ekki getað tekið afstöðu til þess hvort banna eigi síma í skólastofunni. Stuðningur við foreldra hefur einnig verið vanræktur. Þeir þurfa fræðslu og hvatningu um mikilvægi þess að börn þeirra lesi daglega til að viðhalda lestrarfærni og þróa lesskilning.

    Fylgigögn

  4. Umræðu um málefni fatlaðs fólks er frestað. MSS23120072

    -    Kl. 16:00 er gert hlé á fundi
    -    Kl. 16:24 er fundi fram haldið

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

    Borgarstjórn samþykkir að krefja ríkisstjórnina um aðgerðir þannig að skammtímaleiga íbúða til ferðamanna verði takmörkuð enn frekar. Krafan er þríþætt og felur eftirfarandi í sér: 1) Að breytingar verði gerðar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þannig að heimildir til heimagistingar verði takmarkaðar við lögheimili einstaklings þar sem viðkomandi hefur sannarlega fulla búsetu. 2) Að breytingar verði gerðar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þannig að óheimilt verði að leigja út íbúðir í atvinnuskyni, þ.e.a.s. að óheimilt verði að leigja út íbúðir sem gististaði, þ.e.a.s. sem rekstrarleyfisskylda starfsemi sem fellur undir gistiflokka II–IV. 3) Að fara fram á það að eftirlit með skammtímaleigu verði aukið til að tryggja að ekki sé farið á svig við lög og reglur. Markmið þessarar tillögu er að auka framboð á langtímaleigu á húsnæði á almennum leigumarkaði.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt að vísa tillögunni til borgarstjóra. MSS23120073
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að borgarstjórn leiti allra leiða til að tryggja að þær íbúðir sem byggðar eru til búsetu verði nýttar til búsetu. Mikill fjöldi íbúða er nú nýttur í skammtímaleigu, einkum fyrir erlenda ferðamenn, og hefur slíkt haft neikvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn, leigjendur og mannlíf. Bregðast þarf við þeirri húsnæðiskrísu sem nú hefur verið viðvarandi árum saman og takmarka útleigu íbúða til skammtímaleigu. Sósíalistar leggja áherslu á að breytingar verði gerðar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald þannig að heimildir til heimagistingar verði takmarkaðar við lögheimili einstaklings, þar sem viðkomandi hefur sannarlega fulla búsetu, að breytingar verði gerðar á sömu lögum þannig að óheimilt verði að leigja út íbúðir í atvinnuskyni. Þá þarf einnig að auka eftirlit með skammtímaleigu til að tryggja að ekki sé farið á svig við lög og reglur. Reglugerðarbreyting sem gerð var árið 2018 var mjög neikvæð og leiðir til þess að fyrirtæki með fjölda íbúða í skammtímaleigu komast hjá því að skrá íbúðirnar sem atvinnuhúsnæði þó svo að íbúðirnar séu nýttar í atvinnurekstur. Fasteignaskattar eru mun lægri af íbúðarhúsnæði en atvinnuhúsnæði og er óeðlilegt að borgin verði fyrir tapi af þessum rekstri ofan á samfélagslegan kostnað. Mikilvægt er að reglugerð verði breytt í fyrra horf hvað þetta varðar.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Árið 2018 var gerð breyting á reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 649/2018 og nr. 686/2018 þar sem krafa um að gististaðir yrðu að vera í skráðu atvinnuhúsnæði var felld út. Með breytingunni var geta Reykjavíkur til að fylgja eftir sinni stefnu um gististarfsemi takmörkuð og því er ástæða til að bregðast við. Nýlega hefur verið töluverð umfjöllun í fjölmiðlum um skammtímagistingu, sér í lagi í tengslum við hús í Bríetartúni þar sem stærstur hluti íbúða er leigður út í skammtímaleigu. Fjöldinn er umfram það sem heimilað hefur verið út frá skipulagi borgarinnar og er það afleiðing af þessari reglugerðarbreytingu. Í undirbúningi er að brugðist verði við þessari stöðu með erindi til ráðherra. Tillögunni er vísað til borgarstjóra sem getur tekið mið af þessum sjónarmiðum við gerð erindisins.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins telur nauðsynlegt að setja hömlur á skammtímaleigu íbúða og styður því tillöguna. Í einni mestu húsnæðiskreppu Íslandssögunnar eru sjö prósent íbúða borgarinnar með virka skráningu á Airbnb, eða 3.800 híbýli. Í helstu ferðamannaborgum Evrópu er hlutfallið að meðaltali tvö prósent. Takmarkanir á skammtímaleigu eru mikilvægar til að verja leigjendur, viðhalda hverfismenningu og sporna við of miklum ágangi ferðamanna. Skammtímaleigumarkaðurinn er farinn að auka þrýsting á fasteigna- og langtímaleigumarkaðinn með því að draga til sín íbúðir sem annars væru notaðar undir íbúðarhúsnæði. Það er algjört stjórnleysi á húsnæðismarkaðnum og það er svo komið að jafnvel heilu blokkirnar eru ekki nýttar til búsetu heldur fyrir ferðamenn. Á sama tíma búa íbúar borgarinnar í ósamþykktu húsnæði. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að Reykjavíkurborg auki eftirlit með skammtímaleigu til að tryggja að farið sé eftir lögum og reglum. Það er brýnt að leita allra leiða til að auka framboð á húsnæði og framboð á langtímaleigu á húsnæði á almennum markaði.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

    Borgarstjórn samþykkir að marka ákveðinn heimsóknardag á ári fyrir börn til að heimsækja Ráðhúsið. Borgarfulltrúar og starfsfólk taki á móti börnunum, sýni þeim húsið og segi frá starfinu í Ráðhúsinu. Boðið verði upp á veitingar.

    Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stýrihóps um mótun lýðræðisstefnu. MSS23120074
    Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að marka árlegan heimsóknardag fyrir börn að heimsækja Ráðhúsið, hafa eins konar opið hús. Hér er ekki átt við skipulagðar heimsóknir nemenda sambærilegt því sem er á Alþingi. Sú tillaga hefur þegar verið lögð fram. Hér er lögð til önnur og einfaldari tillaga. Borgarfulltrúar og starfsfólk munu taka á móti börnum, sýna þeim húsið og segja frá starfinu í Ráðhúsinu. Þessi tillaga mun ekki leiða af sér háan kostnað. Markmiðið er að dýpka þekkingu barna á hlutverki borgarstjórnar og veita börnum innsýn í ólík störf í Reykjavíkurborg. Börnin, þau yngri í fylgd foreldra, fá tækifæri til að ganga í bæinn, skoða rýmin og máta sig í sæti í sal borgarstjórnar. Heimsóknin er miðuð út frá aðalnámskrá grunnskóla en þar er meðal annars kveðið á um að nemendur á yngri stigum þekki mikilvægar stofnanir samfélagsins og geti nefnt dæmi um lýðræðislega þætti, réttindi sín og skyldur. Reglubundin heimsókn sem þessi rennir stoðum undir ákvæði Barnasáttmálans um að börn eigi að hafa rödd og á þau skuli hlustað. Þess vegna er mikilvægt að þau sjái og kynnist hvar og hverjir það eru sem hlusta á raddir þeirra og gera eitthvað með óskir þeirra. Það er mikilvægt að þau þekki hvernig samfélaginu er stjórnað og hvar staðinn er vörður um réttindi þeirra.

    Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Allt síðan 2021 hefur verið áhugi á því að bjóða skólahópum í heimsókn í Ráðhúsið, leyfa þeim að prófa að sitja nefndarfundi, æfa sig í því að tala fyrir rökstuddum tillögum og kjósa um þær. Þannig væri þekking barna á lýðræðinu efld um leið og þau myndu kynnast því betur hvernig Reykjavík er stjórnað. Tillaga Flokks Fólksins fellur vel að þessari aðgerð sem nú þegar er komin í aðgerðaáætlun lýðræðisstefnu og því er tillögunni vísað inní þá vinnu.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 7. desember.
    4. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023, er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    5. liður fundargerðarinnar, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 vegna fjárfestingaáætlunar A-hluta Reykjavíkurborgar, er samþykktur. 
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS23010001

    Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:

    Sósíalistar styðja sérstaklega tillögu um samning við Pólska skólann og Móðurmál – samtök um tvítyngi um móðurmálskennslu, auknar fjárheimildir til grunnskóla vegna sértæks stuðnings og tillögu vegna fjölgunar nemenda í Arnarskóla.

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 20. lið fundargerðarinnar: 

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um byggingarhæfar lóðir og hvort lóðarhöfum/verktökum séu sett einhver skilyrði um hvenær uppbyggingu skuli lokið á lóðinni. Í svari segir að á kortasjá borgarinnar er að finna 47 lóðir þar sem heimilt er að byggja allt að 2.708 íbúðir á lóðum sem teljast byggingarhæfar. Nauthólsvegur 79 er eina lóðin sem á að bjóða á föstu verði. Um skilyrðin segir að aðaluppdrættir húss og lóðar skuli hafa borist skipulagsráði til samþykktar eigi síðar en tveimur árum og fimm mánuðum eftir B-dag (afhendingardag lóðar), platan skal steypt eigi síðar en þremur árum eftir B-dag og húsið skal fokhelt fjórum árum eftir B-dag. Þetta gefur lóðarhafa 5-6 ár til að ljúka nokkurn veginn verkinu sem er óþarflega langur tími til að koma íbúðum í sölu að mati fulltrúa Flokks fólksins. Lóðarhafi getur nýtt sér þennan tíma til að spila á markaðinn með það í huga að hagnast sem mest, því að íbúðaverð sveiflast upp og niður. Ákvarðanir verktaka ráða miklu og þeir geta í raun stýrt framboðinu ef því er að skipta. Ef tíminn væri styttri drægi úr þeirri hættu.

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram fundargerðir velferðarráðs frá 1. og 6. desember. MSS23010061

    Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 11. lið fundargerðarinnar frá 6. desember: 

    Umsögnin er endurómur boðskaps Flokks fólksins síðustu 3-4 árin um að gæta þurfi aðhalds í tengslum við þróun og uppgötvanir á hugbúnaði sem er alla jafna á höndum einkageirans. Ef þörf er á nýju kerfi á að leita fyrst eftir tilbúinni lausn og því næst að athuga með lausnir sem eru aðlaganlegar en sérsmíði á að vera síðasti valkosturinn. Þetta er það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur margsagt í gegnum árin. Tryggja þarf að kostnaðaráætlun og tímaáætlun séu í takti við raunveruleikann. Uppbygging kerfa skal ávallt vera í samvinnu við önnur sveitarfélög og ríkið. Því miður náði ekkert af þessum ábendingum, tillögum og viðvörunum frá Flokki fólksins eyrum síðasta meirihluta. Nær 20 milljarðar fóru í stafræna hít á þremur árum og góður hluti þess hvarf í hreinan vitleysisgang. Þjónustu- og nýsköpunarsvið fékk frjálsar hendur til að leika sér að fjármagni borgarbúa með því að stunda uppgötvunartilraunir á lausnum sem margar döguðu uppi. Gagnrýnin hugsun og aðhald meirihlutans skorti þegar kom að þessu eina sviði borgarinnar. Forgangsröðun var þess utan kolröng. Byrja hefði átt á skóla- og frístundasviði, velferðarsviði og umhverfis- og skipulagssviði sem nú koma síðust í röðinni að fá þær lausnir sem sárlega vantar til að bæta þjónustu.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 17:27

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Alexandra Briem

Líf Magneudóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 12.12.2023 - Prentvæn útgáfa