Borgarstjórn - Borgarstjórn 11.6.2024

Borgarstjórn

Ár 2024, þriðjudaginn 11. júní, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:22. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, Magnús Davíð Norðdahl, Marta Guðjónsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sabine Leskopf, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Sara Björg Sigurðardóttir, Skúli Helgason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Daníelsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer umræða um framtíðarskipulag skóla í Laugardal.

  -    Kl. 13:40 tekur Líf Magneudóttir sæti á fundinum og Stefán Pálsson víkur af fundi.
  -    Kl. 14:00 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti a fundinum og Þorvaldur Daníelsson víkur af fundi.
  -    Kl. 14:24 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Sandra Ocares tekur þar sæti. SFS22020010

  Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Endurbóta er þörf á húsnæði í þremur grunnskólum Laugardals en auk þess er farið að þrengja að nemendum í skólunum vegna uppbyggingarsvæða í grennd. Meirihlutinn bregst við þessari stöðu með áframhaldandi viðhaldi og framkvæmdum í skólunum en hefur auk þess kynnt tillögu þess efnis að byggja nýjan unglingaskóla í Laugardal sem samkvæmt nýrri greiningu er áhættuminni, ódýrari og fljótvirkari framkvæmd en aðrar sviðsmyndir sem kannaðar hafa verið. Einnig hafa margir bent á að unglingasafnskóli getur þýtt fjölbreyttari námsframboð, sterkari faggreinakennslu, meiri sveigjanleika í skólastarfinu og öflugt félagslíf nemenda. Kallað hefur verið eftir sjónarmiðum íbúa og unnið verður áfram með þau. Höfuðáhersla er lögð á að lágmarka rask fyrir nemendur og skólastarf í skólunum þremur og búa til skólahúsnæði til framtíðar sem er til fyrirmyndar í dalnum.

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Verði fallið frá fyrri samþykktum um að byggja við skólana þrjá við Laugardalinn og reisa þess í stað sameiginlegan unglingaskóla, er ljóst að allt tal meirihlutans um íbúasamráð er innantómt og merkingarlaust. Fyrir liggur að eftir fjölmenna undirskriftasöfnun, sem íbúar í Laugardal efndu til, ákvað borgarstjórn að fara þá leið í október 2022 sem íbúar í Laugardalnum sóttust eftir, að byggja við skólana þrjá. Skólasamfélagið var því í góðri trú um að staðið yrði við þau loforð. Það vekur furðu hversu mikill viðsnúningur hefur orðið á málinu af hálfu meirihlutans. Frá þeim tíma sem ákvörðunin var tekin um að byggja við skólana, virðist hins vegar hafa átt sér stað vinna að annarri lausn en foreldrum var lofað. Sú vinna fór leynt, skýrsla þess efnis lá fyrir í nóvember 2023 en var ekki gerð aðgengileg fulltrúum minnihlutans í skóla- og frístundaráði fyrr en 10. maí síðastliðinn. Skýrslan var svo gerð opinber fjórum dögum síðar. Hvernig svo sem verður leyst úr þessu viðfangsefni er bersýnilegt að meirihluti borgarstjórnar hefur aukið mjög vantraust í sinn garð, ekki síst frá foreldrum, nemendum og öðrum hagsmunaaðilum í skólunum við Laugardal.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Eftir mikla vinnu og samtal við íbúaráð, börn og starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva á svæðinu, skólaráð og foreldrafélög, var ákveðið að fylgja sviðsmynd 1 um framtíðarsýn skóla- og frístundastarfs í hverfinu. Þ.e.a.s. að skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verið við þá alla til að mæta auknum nemendafjölda á næsta áratug í skólahverfunum í takti við forsagnir. Tillagan var samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs þann 3. október 2022, og staðfest í borgarráði. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur nú tekið algjöran viðsnúning í mikilli óþökk nærumhverfisins. Þegar íbúar, starfsfólk og börn hafa fært sterk rök fyrir sinni afstöðu er það gróf vanvirðing að ætla að ganga út úr samkomulagi þar sem ákvörðun hefur verið tekin. Það er gróf vanvirðing við þau lýðræðisferli sem íbúar hafa aðgang að. Sósíalistar leggja afar sterka áherslu á það að svo mikilvægar ákvarðanir séu teknar í algjöru samráði við þau sem þær varða. Það sé fullkomin gjaldfelling á slíku samráði ef það getur farið fram svo gagnger viðsnúningur án þess að samráðsvettvangurinn sé nýttur til endurnýjaðs samráðs um hann. Sósíalistar ítreka að slík endurupptaka á samráði geti ekki farið fram nema fyrir því séu gefnar afar veigamiklar ástæður.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Umræðan sem meirihlutinn ber á borð í borgarstjórn um framtíðarskipulag skóla í Laugardal er samsafn af bulli svo vægt sé til orða tekið. Rökin fyrir að henda út sviðsmynd 1 fyrir sviðsmynd 4 sem er ný útfærsla af sviðsmynd 3 sem var hafnað á sínum tíma, halda ekki vatni. Ámælisvert er að sá hópur sem treyst var fyrir að útfæra og kostnaðarmeta sviðsmynd 1 skyldi fara svo gróflega út fyrir umboð sitt. Í stað þess að útfæra samþykkta sviðsmynd 1 var henni hent út fyrir uppfærða sviðsmynd 3 sem búið var að hafna. Skýrslan með þessari nýju sviðsmynd er gefin út í nóvember 2023 en ekki birt fyrr en hálfu ári síðar. Nú á að hraða málinu og aðeins stuttur frestur er gefinn til umsagnar og umræðu innan skólasamfélagsins. Tvö ár frá því að sviðsmynd 1 var samþykkt hafa farið til spillis. Rök meirihlutans fyrir þessari kúvendingu í málinu eru veikburða, t.d. þau að bygging þjóðarhallar hafi breytt afstöðunni. Það hefur legið fyrir í mörg ár að byggja ætti þjóðarhöll. Meirihlutinn fullyrðir að nú liggi fyrir lóð fyrir safnskóla, hinn svokallaði þríhyrningur. Þróttur hefur skýran afnotarétt af þeim reit og samkvæmt viljayfirlýsingu Þróttar á ekki að gefa þann reit eftir.

  Fylgigögn

 2. Fram fer umræða um greiðslukerfi strætófargjalda gagnvart öryrkjum.

  -    Kl. 16:00 víkur Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir af fundinum og Helga Þórðardóttir tekur sæti.
  -    Kl. 16:05 tekur Heiða Björg Hilmisdóttir sæti á fundinum og Sara Björg Sigurðardóttir víkur af fundi.
  -    Kl. 16:10 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Jónína Sigurðardóttir tekur sæti. MSS24060039

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fyrir rúmu ári lagði Flokkur fólksins til að öryrkjar fengju sama rétt og aðrir farþegar Strætó, þ.e. að öryrkjar gætu keypt afsláttarkort á fleiri stöðum en á Hesthálsi. Í umsögn Strætó um tillöguna segir að hlutverk Strætó sé að gæta hagsmuna eigenda sinna og að gæta þess að viðskiptavinir greiði rétt fargjald. Stjórnendur Strætó sjá svindlara í hverju horni og eru öryrkjar sérstaklega tortryggðir. Flokki fólksins er brugðið að sjá viðhorf Strætó til öryrkja. Þetta er sláandi því vitað er að ÖBÍ var búið að gera samkomulag við Strætó um að öryrkjar gætu keypt staka miða og tímabilskort á öðrum sölustöðum gegn framvísun gildra skilríkja. Rafræn skilríki eru ekki aðgengileg fyrir margt fatlað og aldrað fólk. Öryrkjar neyðast því til að kaupa sér farmiða á fullu verði og þá er verið að brjóta á réttindum þeirra. Öryrkjar ættu að vera síðasta fólkið sem gert er að fara upp á Hestháls til að kaupa strætómiða. Flokkur fólksins harmar þetta viðhorf Strætó til öryrkja. Nú fá öryrkjar ekki að kaupa afsláttarkort eins og aðrir þó þeir framvísi skilríkjum frá Tryggingastofnun. Verið er að bíða eftir að eftirlitskerfi verði sett upp til að fyrirbyggja svindl. Þetta finnst Flokki fólksins gróf mismunun.

 3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

  Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fylgja sviðsmynd 1 um framtíðaruppbyggingu skólastarfs í Laugardal sem samþykkt var árið 2022.

  Greinargerð fylgir tillögunni.
  Samþykkt með tuttugu og tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar , Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar og Flokks fólksins gegn atkvæði borgarfulltrúa Vinstri grænna að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS22020010

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins leggur til að tillaga um sviðsmynd 1 sem valin var af íbúum Laugardals og samþykkt var í borgarráði 2022 verði fylgt. Að valta yfir heilt hverfi með því að þvinga inn aðra ólíka sviðsmynd eftir allt það sem á undan er gengið er vanvirðing og eiginlega valdníðsla. Um er að ræða gróf samráðssvik. Meirihlutinn leggur fram málsmeðferðartillögu um að vísa tillögunni til skóla- og frístundaráðs en því miður má telja víst að þar bíði hennar tunnan eða tætarinn ef því er að skipta. Meirihlutinn vill byggja nýjan skóla í stað þess að byggja við eldri skóla og kallar það sviðsmynd 4 sem er afbrigði af eldri sviðsmynd 3 sem íbúar höfnuðu alfarið á sínum tíma. Þessi nýja útfærsla mun slíta Laugarneshverfi í tvennt. Sviðsmynd 4 leysir ekki langtímavanda Langholtsskóla. Sviðsmynd 1 hefur aldrei verið könnuð til hlítar. Tilkoma Þjóðarhallar eru ekki rök fyrir að ekki sé hægt að fylgja sviðsmynd 1 enda lengi vitað að Þjóðarhöll muni rísa á þessum stað. Íbúar Laugardals og Flokkur fólksins hafna því að skólahverfinu verði umbylt með vanhugsuðum breytingum sem virðast bera keim af tækifæriskenndum lausnum frekar en að byggja á faglegum forsendum og samráði.

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Verði fallið frá fyrri samþykktum um að byggja við skólana þrjá við Laugardalinn og reisa þess í stað sameiginlegan unglingaskóla, er ljóst að allt tal meirihlutans um íbúasamráð er innantómt og merkingarlaust. Fyrir liggur að eftir fjölmenna undirskriftasöfnun, sem íbúar í Laugardal efndu til, ákvað borgarstjórn að fara þá leið í október 2022 sem íbúar í Laugardalnum sóttust eftir, að byggja við skólana þrjá. Skólasamfélagið var því í góðri trú um að staðið yrði við þau loforð. Það vekur furðu hversu mikill viðsnúningur hefur orðið á málinu af hálfu meirihlutans. Frá þeim tíma sem ákvörðunin var tekin um að byggja við skólana, virðist hins vegar hafa átt sér stað vinna að annarri lausn en foreldrum var lofað. Sú vinna fór leynt, skýrsla þess efnis lá fyrir í nóvember 2023 en var ekki gerð aðgengileg fulltrúum minnihlutans í skóla- og frístundaráði fyrr en 10. maí síðastliðinn. Skýrslan var svo gerð opinber fjórum dögum síðar. Hvernig svo sem verður leyst úr þessu viðfangsefni er bersýnilegt að meirihluti borgarstjórnar hefur aukið mjög vantraust í sinn garð, ekki síst frá foreldrum, nemendum og öðrum hagsmunaaðilum í skólunum við Laugardal.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:

  Sósíalistar gagnrýna málsmeðferðartillögu meirihlutans í þessu máli. Þar er bæði verið að skorast undan því að taka afstöðu um málið á opnum fundi sem borgarbúar geta fylgst með, sem og að vísa afgreiðslu tillögu í ráð sem flytjandi hennar hefur ekki atkvæðisrétt í. Það er að okkar mati ekki gott vinnulag. Á grunni þess að tillöguflytjandi sjálfur er hlynntur málsmeðferðinni styðja Sósíalistar hana í atkvæðagreiðslu.

  Fylgigögn

 4. Umræðu um gjaldskyld bílastæði í Reykjavík er frestað. MSS24060040

 5. Umræðu um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara er frestað. MSS24060041

  Fylgigögn

 6. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 23. maí og 6. júní. MSS24010001
  1. liður fundargerðar borgarráðs frá 23. maí; skotæfingasvæði á Álfsnesi, breyting á aðalskipulagi, er samþykktur með 20 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins. USK23030130
  8. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. júní, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024, er samþykktur. FAS24010023
  12. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. júní, Austurbakki 2, bílastæði í bílakjallara Hörpu, söluferli, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. FAS24010037
  Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
  13. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. júní, Sólheimar 25-35, sala undir leikskóla, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. FAS24050031
  Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
  14. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. júní, Varmahlíð 1, Perlan, fyrirkomulag á söluferli, er samþykktur með 19 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna. FAS23090001
  Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

  Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Kjartan Magnússon og Jónína Sigurðardóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar frá 6. júní:

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja að Perlan verði sett í söluferli. Hins vegar gera þeir skýran fyrirvara við þá ákvörðun að láta tvo vatnsgeyma af sex fylgja með fyrr en því hefur verið svarað með rökstuddum hætti hvort sala geymanna dragi úr afhendingaröryggi hitaveitunnar til borgarbúa, sem er brýnt forgangsmál. Hitaveitugeymarnir í Öskjuhlíð voru byggðir í því skyni að tryggja miðlun og afhendingaröryggi hitaveitunnar til framtíðar í ört vaxandi borg. Líklegt er að þörf verði á umræddum vatnsgeymum í framtíðinni vegna heitavatnsmiðlunar í almannaþágu. Í áliti sérfræðinga hitaveitunnar frá árinu 2013 kemur fram að ef fyrirætlanir um þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar ganga eftir, t.d. með byggingu nýs Landspítala, verði það æskilegt, ef ekki óhjákvæmilegt, í þágu afhendingaröryggis hitaveitunnar, að taka a.m.k. einn vatnsgeymi til viðbótar í notkun fyrir framrásarvatn. Einnig þarf að hafa í huga mikilvægt hlutverk hitaveitugeymanna þegar alvarlegar bilanir verða í hitaveitukerfinu. Endurnýjun og viðhald kerfisins hefur verið of lítið á undanförnum árum og því má búast við að slíkum bilunum fjölgi. Fullnægjandi miðlun heits vatns hefur ítrekað staðið tæpt á undanförnum árum og heitavatnsskortur því verið yfirvofandi í kuldaköstum. Óábyrgt er að setja umrædda vatnsgeyma í söluferli nema fullnægjandi heitavatnsmiðlun til borgarbúa sé tryggð.

  Friðjón R. Friðjónsson, Helgi Áss Grétarsson og Sandra Hlíf Ocares, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 23. maí:

  Varðandi 1. lið, skotæfingasvæði á Álfsnesi – breyting á aðalskipulagi, í fundargerð borgarráðs frá 6. júní ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks mikilvægi þess að hér sé um tímabundna ráðstöfun að ræða og leggja ríka áherslu á að skotæfingasvæðinu verði fundinn nýr staður innan tímamarka.

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 23. maí og 8., 12. og 14. lið fundargerðarinnar frá 6. júní:

  1. liður fundargerðar borgarráðs frá 23. maí, skotæfingasvæði Álfsnesi, breyting á aðalskipulagi: Sósíalistar taka undir mikilvægi þess að fundin verði viðeigandi framtíðarstaðsetning fyrir skotsvæðið. Ekki er hægt að samþykkja að slík starfsemi verði í Álfsnesi til allt að árslokum 2028 þar sem slíkt hefur valdið mikilli hávaðamengun og ónæði fyrir íbúa. 8. liður fundargerðar borgarráðs frá 6. júní, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2024: Fjármögnun NPA samninga: Sósíalistar minna á að enn eru fjölmörg sem bíða eftir lögbundinni þjónustu NPA. Ótækt er að setja kvóta á mannréttindi sem leiði til þess að ekki öll fái þjónustuna. 12. liður, Austurbakki 2, bílastæði í bílakjallara Hörpu, söluferli: Sósíalistar leggjast gegn sölu á eignum borgarinnar, það hefur sýnt sig að verð hefur oft hækkað og þjónusta versnað þegar þjónustu er komið til einkaaðila, þar að auki ætti ekki að selja eignir sem geta verið tekjumyndandi fyrir borgarsjóð. 13. liður, Sólheimar 25-35, sala undir leikskóla: Sósíalistar eru á móti því að selja eign borgarinnar undir einkarekstur á leikskóla. 14. liður, Varmahlíð 1, Perlan, fyrirkomulag á söluferli: Sósíalistar telja að ekki eigi að selja þessa eign sem hefur eftir mikla uppbyggingu skilað borgarsjóði tekjum.

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 23. maí:

  Nú á að framlengja starfsleyfi fyrir skotæfingasvæði á Álfsnesi til 2028 fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotveiðifélag Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins hefur litla trú á að skotvellirnir fari 2028. Þær breytingar sem hér á að framkvæma til að hýsa áfram skotvellina eru kostnaðarsamar og er reikningurinn sendur á skattgreiðendur. Íbúar á Kjalarnesi hafa staðið í stappi við borgaryfirvöld í tæpa tvo áratugi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um málið enda ofbýður honum yfirgangur meirihlutans gagnvart íbúum Kjalarness í þessu máli. Íbúar mega sín lítils. Það er auðvelt að setja sig í spor íbúanna sem mega þola mengun af ýmsu tagi. Í gögnum kemur skýrt fram að talsvert magn er af höglum í jarðvegi, bæði gömul og ný. Staðfest er að högl berast niður í fjöru frá skotsvæðunum og enda í maga fugla. Niðurstöður greiningar benda til þess að hlutfall blýhagla sé hærra en ætlað var frá upplýsingum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur haft fram að þessu. Niðurstöður mælinga á hávaðamengun koma heldur ekki vel út. Stytta þarf kvöldopnunartíma til að takmarka ónæði vegna skothljóða. Tekið er undir athugasemd þar sem segir: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur ekkert gert annað en að matreiða niðurstöður svo skotfélögin geti haldið sinni starfsemi áfram á Álfsnesi.

  Fylgigögn

 7. Lagðar fram fram fundargerðir forsætisnefndar frá 7. júní, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 23. maí, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. og 24. maí, skóla- og frístundaráðs frá 13. og 27. maí, stafræns ráðs frá 15. maí, umhverfis- og skipulagsráðs frá 15., 22. og 29. maí og 5. júní, velferðarráðs frá 10., 15. og 31. maí og 5. júní. MSS24010034
  2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 7. júní, fundadagatal borgarstjórnar 2024-2025, er samþykktur. MSS23010287
  4. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 7. júní, seinni umræða um samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík, er samþykktur. HER24010001

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar forsætisnefndar:

  Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks áskilja sér allan rétt til að óska eftir aukafundum borgarstjórnar þegar þeir telja tilefni til. 

  Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. og 4. lið fundargerðar forsætisnefndar: 

  2. liður fundargerðar forsætisnefndar frá 7. júní, fundadagatal borgarstjórnar 2024-2025: Rétt er að minna á að þó svo að borgarráð fari með heimildir borgarstjórnar á meðan á sumarleyfi stendur að þá hafa ekki fulltrúar allra flokka atkvæðarétt í borgarráði. 4. liður, samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík – seinni umræða: Sósíalistar telja eðlilegt að greitt útsvar nái yfir kostnaðinn vegna sorphirðu í stað þess að íbúar greiði sérstök sorphirðugjöld. Í þeim efnum er nauðsynlegt að allir íbúar greiði útsvar til sveitarfélagsins en fjármagnseigendur eru undanþegnir greiðslu útsvars af fjármagnstekjum, þrátt fyrir að þeir nýti þjónustu sveitarfélagsins. Þá telja sósíalistar að sveitarfélagið eigi að sjá um söfnun úrgangs en ekki að bjóða þjónustuna út en í samþykktinni segir: „sveitarfélagið getur sinnt söfnun úrgangs á eigin vegum eða falið öðrum framkvæmdina.“

  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. maí: 

  Tillaga Flokks fólksins um að hætta við að stytta opnunartíma Laugardalslaugar var felld af meirihlutanum í menningar-, íþrótta-, og tómstundaráði. Ákvörðunin var sögð vera í sparnaðarskyni. Nýlega var opnunartíminn styttur og er lauginni nú lokað kl. 21. Ekki eru mörg ár síðan opið var til 23:00 um helgar og fyrir skömmu síðan var tilraunamiðnæturopnun einu sinni í viku slegin af þrátt fyrir miklar vinsældir. Fulltrúa Flokks fólksins finnst tillaga sín hófleg þar sem eingöngu er verið að leggja til að ein sundlaug verði opin lengur. Fjöldi manns hefur mótmælt þessari lokun og lýst furðu sinni á þessari ákvörðun. Sérstaklega hafa foreldrar unglinga látið í sér heyra. Sundlaugin hefur verið samkomustaður unglinga á kvöldin um helgar. Sundlaugin hefur skipað stóran sess í félagslífi unglinga. Foreldrar og aðrir sem láta sig málið varða benda á hvað sundlaugin sé mikilvægur samkomustaður því þar eru unglingarnir eru þá ekki á meðan að mæla göturnar eða hanga í símanum heldur njóta hreyfingar og samverustunda með jafningjum. Sérstaklega er þessi lokun slæm nú þegar sumarið gengur í garð með björtum sumarkvöldum þar sem yndislegt er að njóta birtunnar og ylsins í lauginni að kvöldi til.

  Fylgigögn

Fundi slitið kl. 18:40

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Líf Magneudóttir

Magnús Davíð Norðdahl

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð borgarstjórnar 11.06.2024 - Prentvæn útgáfa