Borgarstjórn
Ár 2025, þriðjudaginn 7. október, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:02. Voru þá komnir til fundar, auk staðgengils borgarstjóra, Lífar Magneudóttur, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Sanna Magdalena Mörtudóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Alexandra Briem, Andrea Helgadóttir, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Birkir Ingibjartsson, Björn Gíslason, Einar Þorsteinsson, Friðjón R. Friðjónsson, Guðný Maja Riba, Helga Þórðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, Sabine Leskopf, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
Fundarritari var Dís Sigurgeirsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fjármagna tvo íbúðakjarna fyrir fatlað fólk árið 2026 samkvæmt uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar. Rekstrarkostnaður þeirra nemur á ársgrundvelli allt að 765 milljónum króna. Gert verði ráð fyrir fjármagni til að taka íbúðakjarnana í notkun í fjárhagsáætlun ársins 2026. Íbúðakjarnarnir verði annars vegar að Nauthólsvegi og hins vegar í endurbættu Jöklaseli. Fjöldi íbúða er 14.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til svohljóðandi breytingatillögu:
Lagt er til að tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um íbúðakjarna í uppbyggingaráætlun 2026 verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2026.
Breytingatillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar.
Tillaga um fjármögnun tveggja íbúðakjarna er samþykkt með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. MSS25100029Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Samstarfsflokkarnir leggja áherslu á að tryggja mannréttindi allra hópa í samfélaginu og jafnt aðgengi þeirra að borginni og þjónustu hennar. Til þess þarf að tryggja viðeigandi stuðning við fatlað fólk og húsnæði sem mætir fjölbreyttum þörfum. Í dag stígum við mikilvægt og tímabært skref með því að samþykkja fjárveitingu fyrir tvo íbúðakjarna fyrir fatlað fólk árið 2026 samkvæmt uppbyggingaráætlun Reykjavíkurborgar. Rekstrarkostnaður þeirra nemur á ársgrundvelli allt að 765 milljónum króna. Gert verði ráð fyrir fjármagni til að taka íbúðakjarnana í notkun í fjárhagsáætlun ársins 2026. Íbúðakjarnarnir verði annars vegar að Nauthólsvegi og hins vegar í endurbættu Jöklaseli. Fjöldi íbúða er 14. Mikilvægt er að fjölbreytt húsnæði sé til í öllum hverfum borgarinnar og að borgarþróun taki mið af margbreytileika í íbúðasamsetningu. Þegar fjallað er um málaflokk fatlaðs fólks er mikilvægt að ávarpa vanfjármögnun ríkisins hvað varðar þann málaflokk.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Framsóknar styðja tillögu um byggingu þessara íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. Þessi tillaga er þó furðuleg í ljósi þess að alla jafna hefði hún verið hluti af hefðbundnu fjárhagsáætlunarferli sem kemur til kasta borgarstjórnar á næstu vikum. Þá er tillagan ónákvæm því íbúðakjarninn á Nauthólsvegi verður ekki tilbúinn fyrr en í lok næsta árs og íbúðakjarninn í Jöklaseli verður ekki tilbúinn eftir endurbætur fyrr en um mitt næsta ár. Þess vegna skýtur skökku við að samþykkja rekstrarútgjöld til úrræða sem ekki verða í rekstri nema lítinn hluta tímabilsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Tillagan er skýr og snýr að fjármögnun íbúðakjarna vegna ársins 2026.
-
Umræðu um framtíðarskipulag Reykjavíkur er frestað. MSS25100019
-
Fram fer umræða um áfangaskil stýrihóps um umbætur í náms- og starfsumhverfi leikskóla.
- Kl. 16:12 víkur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir af fundinum og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir tekur sæti. MSS25050076
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrstu tillögur stýrihóps um bættar náms- og starfsaðstæður í leikskólum fela í sér breytingar sem eiga að auka stöðugleika og öryggi í starfi með börnum, bæta mönnun, skapa fyrirsjáanleika, draga úr álagi á starfsfólk og ófyrirséðum fáliðunaraðgerðum. Þá eru lagðar til breytingar á gjaldskrá sem vernda viðkvæma og tekjulitla hópa sem sannarlega þurfa langan vistunartíma fyrir börnin sín og þann sveigjanleika sem leikskólar munu áfram bjóða upp á. Tillögurnar verða sendar í víðtækt samráð. Skóla- og frístundasvið heldur utan um samráðið og er mikilvægt að kalla fram öll sjónarmið; sjónarmið foreldra leikskólabarna, starfsfólks í leikskólum, forsvarsfólks stéttarfélaga, fræðasamfélagsins og allra þeirra sem láta sig málefni leikskólans varða. Þær breytingar sem að lokum verða samþykktar fara í jafnréttismat og áfram þarf að hafa í forgrunni áhrif þeirra á konur, einstæða foreldra, foreldra af erlendum uppruna og aðra viðkvæma hópa sem reiða sig á grunnþjónustu Reykjavíkurborgar enda er hún til þess fallin að draga úr aðstöðumun.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er nauðsynlegt að ráðist verði í umbætur á náms- og starfsumhverfi leikskóla. Fyrirliggjandi tillögur stýrihópsins stefna að þessu markmiði en á þeim eru vankantar. Sem dæmi telja fulltrúar Sjálfstæðisflokks að endurskipuleggja eigi leikskólastarfið með þeim hætti að faglegt starf fari fram hluta úr degi en aðrir hlutar dags líkist meira frístund í grunnskólum. Slík endurskipulagning gæti haft jákvæð áhrif á faglegt starf og starfsumhverfi barna og starfsmanna. Verði tillögur stýrihópsins samþykktar óbreyttar er ástæða til að hafa áhyggjur af því að leikskólagjöld fyrir fulla 42,5 tíma leikskóladvöl á viku verði þau dýrustu á höfuðborgarsvæðinu fyrir þann hóp foreldra sem ekki nýtur niðurgreiðslna. Þá eru enn óljós þau áhrif sem gjaldskrárbreytingin mun hafa á gjaldskrár sjálfstætt starfandi leikskóla. Einnig er ástæða til að gjalda varhug við afsláttarkjörum til þeirra sem geta stytt leikskólavist barna sinna á föstudögum, enda má leiða líkur að því að slík kjör nýtist helst foreldrum sem njóta styttingar vinnuviku og starfa á opinberum markaði. Af tillögunum leiðir að þröngur rammi verður sniðinn um sérstaka skráningardaga en foreldrar geta illa áttað sig á fyrirkomulagi vinnu og verkefna með svo löngum fyrirvara. Tillögurnar fara nú í samráðsferli og hvetja fulltrúarnir hagaðila til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Afar brýnt er að ráðast í aðgerðir til þess að bæta starfsaðstæður í leikskólum borgarinnar. Tillögurnar eru af sama meiði og mörg önnur sveitarfélög hafa ráðist í, þ.e. að skapa hvata til þess að stytta dvalartíma barna og létta álagi af leikskólakennurum. Framsókn telur mikilvægt að breyta tekjuviðmiðum svo fleiri heimili njóti afslátta frá hækkun gjalda. Að óbreyttu leggjast hærri gjöld á fjölskyldur nálægt lágmarkstekjum. Þá þarf að auka sveigjanleika í skráningu dvalartíma barns þannig að hægt sé að stytta innan vikunnar en ekki bara á föstudögum. Þá er einnig eðlilegt að gefa foreldrum svigrúm til þess að skrá frídaga með sex vikna fyrirvara en ekki einungis í september eins og tillögurnar gera ráð fyrir.
Borgarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:
Viðreisn er varla farin úr meirihluta borgarinnar þegar rykið er dustað af gamalgrónum tillögum um tekjutengingar í gjaldskrá leikskóla Reykjavíkur. Ekki í fyrsta sinn sem tekjutengingar vinstriflokkanna eru kynntar sem Viðreisn barðist ávallt á móti öll sín ár í meirihluta. Nú liggja fyrir tvær tillögu til samráðs. Annars vegar að skylda skráningu um dvalartíma til að tryggja fyrirsjáanleika fyrir leikskólastjóra og hins vegar um nýja gjaldskrá sem tengist þá nýju skipulagi. Borgarstjórnarflokkur Viðreisnar mótmælir harðlega því afturhvarfi í jafnréttismálum sem endurspeglast í tillögum að nýrri gjaldskrá. Viðreisn styður að unnið sé að fyrirsjáanleika og því munum við styðja tillögu um skráningar fyrir föstudagseftirmiðdaga, frídaga í kringum jól, áramót og páska ásamt vetrarfríum. Fyrir slíka skráningu er eðlilegt að gefa afslátt en ekki að krónupína þau foreldri sem þurfa fulla vistun. Við leggjum fram Viðreisnarmódel sem grundvallast á því að skráning verði tekin upp og afsláttur verði gefin fyrir afskráða daga. Að innleidd verði skylda beggja skólastiga að samræmdum vetrar- og starfsdögum innan borgarinnar. Einnig styðjum við að skipulag náms í leikskóla verði breytt í eftirmiðdaga í krakkafrístund, hreyfistund, listastund eða eitthvað skapandi og skemmtilegt.Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Því ber að halda til haga að hér er um að ræða tillögur sem unnar voru þverpólitískt í stýrihópi sem skipaður var fulltrúum úr meirihluta og minnihluta. Þær fara nú í opið umsagnarferli.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík verði endurskoðaðar með það að markmiði að við framtíðardeiliskipulagsvinnu og útgáfu byggingarleyfa í Reykjavík skuli að jafnaði vera heimilt að hafa eitt bílastæði með hverri íbúð í nýbyggingum, nema sérstakar skipulagslegar aðstæður kalli á annað.
Greinargerð fylgir tillögunni.
- Kl. 17:40 víkur Skúli Helgason af fundinum og Ellen Calmon tekur sæti.
Samþykkt að vísa tillögunni til umhverfis- og skipulagsráðs með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25090066
Borgarfulltrúar Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Framsókn gagnrýnir þá afgreiðslu málsins að vísa tillögunni til svæfingar í umhverfis- og skipulagsráði. Hver borgarfulltrúinn úr meirihlutanum á fætur öðrum kemur upp í umræðunni um tillöguna og talar gegn henni en meirihlutinn treystir sér ekki til að fella hana því Flokkur fólksins hefur talað fyrir því að breyta bílastæðareglunum. Flokkur fólksins lætur hér draga sig á asnaeyrunum. Réttast væri að samþykkja tillöguna strax enda er hún hófsöm, skynsöm og í takti við það sem íbúar og uppbyggingaraðilar hafa kallað eftir. Hinsvegar væri heiðarlegra gagnvart borgarbúum ef meirihlutinn felldi tillöguna strax enda er ljóst að meirihlutinn ætlar sér ekki að breyta reglunum.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Viðreisnar:
Lagt er til að farið verði í átak um endurgerð gangstétta í Breiðholti, Árbæ og Grafarvogi. Sett verði inn í fjárfestingaáætlun borgarinnar fimm ára átak í viðhaldi og endurgerð gangstétta í þessum hverfum. Gangstéttir á svæðinu eru að þó nokkru leyti ónothæfar eða mjög skemmdar. Viðhald gangstétta hefur ekki verið sett í nægilegan forgang og hafa þær verið endurnýjaðar af handahófskenndu vali í samfloti við aðrar framkvæmdir. Í samræmi við gönguvæna borg sem nú er unnið að hörðum höndum þar sem gangstéttir borgarinnar eru grunnstoð er mikilvægt að stíga strax inn og horfa til þess við gerð fimm ára fjárfestingaráætlunar 2026-2029. Í fyrrnefndum hverfum voru gangstéttir lagðar fyrir rúmlega 40 árum. Auk þess er lagt til að eyrnamerkja fjármagn til að styðja stærri húsfélög við að ráðast í framkvæmdir um endurgerð og viðhald gangstétta á lóðum húsfélaga, umgjörð utan um það verði sett við upphaf átaksins.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að fresta tillögunni með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25100020Fylgigögn
-
Umræðu um deiliskipulag Birkimels 1 er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25060118
-
Fram fer umræða um tillögur að umbótum í náms- og starfsumhverfi leikskóla. MSS25050076
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn felur borgarstjóra að gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að Reykjavíkurborg standi við fyrirheit sín um stækkun athafnasvæðis Knattspyrnufélagsins Víkings í Stjörnugróf í samræmi við samþykkt borgarráðs 10. júlí 2008. Jafnframt verði kannaðir möguleikar á nýrri staðsetningu gróðrarstöðvar að Stjörnugróf 18 en lóðarleigusamningur vegna hennar rann út í árslok 2016. Knattspyrnufélagið Víkingur er hverfisíþróttafélag sem gegnir mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Bústaðahverfi, Fossvogi, Háaleiti og Smáíbúðahverfi. MSS25090067
Samþykkt að fresta tillögunni með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25090067
-
Umræðu um stöðu húsnæðismála skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs er frestað með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25090068
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að taka upp viðræður við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytið um starfrækslu hverfislögreglustöðvar í Breiðholti í því skyni að styrkja löggæslu í borgarhlutanum. Stöðin verði starfrækt í anda svonefndrar samfélagslöggæslu og áhersla lögð á að tengja hana skólunum í hverfinu með jákvæðum hætti. Um yrði að ræða samstarfsverkefni ríkis og borgar og stefnt að því að Reykjavíkurborg sæi stöðinni fyrir húsnæði eins og gert var þegar hverfislögreglustöð var áður starfrækt í Breiðholti með góðum árangri.
Samþykkt að fresta tillögunni með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar. MSS25090069
-
Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 18. og 25. september og 2. október 2025.
6. liður fundargerðar borgarráðs frá 18. september 2025, samningur við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála 2026, er samþykktur með 17 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. MSS25090058
17. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. september 2025, heimild til að hefja verkefnið framþróun og fjölbreytni á reykjavik.is, er vísað til meðferðar borgarráðs. ÞON25030001
13. liður fundargerðar borgarráðs frá 25. september 2025, brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, er samþykktur. MSS25090099
7. liður fundargerðar borgarráðs frá 2. október 2025, viðauki við fjárhagsáætlun, er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar sitja hjá við afgreiðslu málsins. FAS25010013. MSS25010002Fylgigögn
- Fundargerð borgarráðs frá 2. október 2025
- Fundargerð borgarráðs frá 25. september 2025
- Fundargerð borgarráðs frá 18. september 2025
- - 6. liður; samningur við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála 2026
- - 17. liður; heimild til að hefja verkefnið framþróun og fjölbreytni á reykjavik.is
- - 13. liður; brunavarnaáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins
- - 7. liður; viðauki við fjárhagsáætlun
-
Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 26. september, mannréttindaráðs frá 18. og 25. september, menningar- og íþróttaráðs frá 12. og 26. september, skóla- og frístundaráðs frá 15. og 22. september, stafræns ráðs frá 9. september og 24. september, umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. og 24. september og 1. október og velferðarráðs frá 17. september og 1. október. MSS25010033
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru hlynntir því að grenndargámum verði komið fyrir í gamla Vesturbænum en telja umrædda staðsetningu við Hrannarstíg óæskilega. Um er að ræða þrönga einstefnugötu í íbúahverfi þar sem einungis nokkrir metrar eru í næstu svefnherbergisglugga. Ljóst er að íbúar í nágrenni stöðvarinnar verða fyrir ýmsu ónæði af völdum hennar, m.a. vegna aukinnar umferðar um Hrannarstíg, Öldugötu og Stýrimannastíg, sem eru allt götur sem bera ekki meiri umferð. Aðstæður eru mjög þröngar á horni Hrannarstígs og Öldugötu og afar óæskilegt að draga meiri umferð þangað, allra síst umferð stórra og sérhæfðra sorphirðubíla.
Fylgigögn
- Fundargerð forsætisnefndar frá 26. september
- Fundargerð mannréttindaráðs 25. september
- Fundargerð mannréttindaráðs frá 2. október
- Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 12. september
- Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 26. september
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 15. september
- Fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 22. september
- Fundargerð stafræns ráðs frá 9. september
- Fundargerð stafræns ráðs frá 24. september
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. september
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 24. september
- Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 1. október
- Fundargerð velferðarráðs frá 17. september
- Fundargerð velferðarráðs frá 1. október
Fundi slitið kl. 19:24
Sanna Magdalena Mörtudottir Friðjón R. Friðjónsson
Helga Þórðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 07.10.2025 - prentvæn útgáfa